Árið gert upp og gúddbæ Ísland

Ég ætlaði auðvitað að henda í vandað blogg áður en lagt yrði í ferðina miklu í nótt en hef hvorki eirð né andagift í slíkan gjörning. Síðustu tvær vikur voru erfiðar vegna þess að ég þjáðist af endalausri ógleði og var að endingu komin á ógleðilyf fyrir krabbameinssjúka í geislameðferð. Sem betur fer bráði af mér einum degi fyrir jól og ég er búin að vera hoppandi af gleði síðan með börnum og barnabörnum, tilbúin að takast á við fjallið og örlög mín.

Nú bíður litla stelpan mín eftir því að ég lesi fyrir hana bók fyrir svefninn og ég ætla að vinda mér í það ljúfa verkefni. Hendi inn bútum úr jólakortinu 2015 þar sem árið er gert upp. Illlæsilegt kannski, en verður að duga.

blogg1_zpsoanar4cl

 

 

Part 2:

blogg2_zpspgxlc6lp

Part 3:

blogg3_zps5oiim4se

Part 4:

blogg4_zpsyeaexxan

Bless Ísland!

Sóla landkönnuður :)


Fjarlægðin gerir fjöllin há...

...og mennina litla. Bara 12 dagar til jóla og 15 dagar í brottför. Kilikrúið flýgur til Amsterdam að morgni 27. desember, þaðan til Nairobi í Kenya og að endingu til Kilimanjaroflugvallar í Tanzaníu. Svo byrjar partýið.

Við fengum langan útbúnaðarlista og núna siðustu daga hef ég keppst við að klára allt af listanum til þess að róa hugann. Hins vegar á ég enn langt í land með að tékka við allt á jólagjafalistanum, en það reddast. Guðrún vinkona og Kilifari talaði um í sínu bloggi hvað kostnaður við útbúnað hefði verið stór liður, en hún toppar þó ekki Kilimanjarofarann hjá Meniga sem þurfti 400.000 þúsund kall í græjunar. Ég er svo heppin að vera gift græjukalli þannig að það var ýmislegt sem ég gat fengið lánað hjá honum, s.s. jöklagleraugu, dagpoka og þrælöflugan svefnpoka:

kiliblogg8_zpskksyjikp

Þessi þolir allt að 30 gráðu frost sem gæti komið sér vel í óupphituðum skálanum síðustu nóttina. Ætli verðmæti þessara græja slagi ekki hátt upp í 150 þúsund?

Við ákváðum náttúrulega fyrir tæpu ári síðan að fara á þetta fjárans fjall og síðan þá hafa verið ýmsar pælingar í gangi. Ég komst að því í mjög blautri Esjugöngu i sumar að rúmlega tíu ára regnsett í eigu minni var langt frá því að vera vatnshelt. Ég var búin að skoða ýmsar "skeljar" og regnjakka og splæsti að lokum á mig draumajakkanum í síðustu viku. Hann er voðalega mikið ég:

kiliblogg14_zpsuao4tslg

Ekki of áberandi litur (en gæti hugsanlega glitt í mig í snjónum þegar leitarþyrlurnar fara að fljúga yfir), síddin niður fyrir rass (hver vill flagga þjóhnöppum í rigningu?) og ansi léttur og mjúkur. Ég ákvað að þetta yrði líka hlaupajakki og prufukeyrði flíkina í morgunfrostinu. Tja...hann andar nú ekkert voðalega vel sem bendir þó til þess að hann sé afskaplega vatnsþéttur. Það getur nefnilega rignt á Kilimanjaro. Snjóað líka. Yeah!

Ég var að pakka í morgun þannig að ég ákvað að raða einhverju dóti fallega upp áður en ég setti það ofan í tösku. Hér er ýmislegt smálegt sem þarf að fara með upp á fjallið:

kiliblogg5_zpsge0oilvr

Íslenski fáninn, hægðastopplyf, moskítófæla, svitalyktareyðir, vasahnífur, sólarvörn, ofnæmislyf, orkubarir, höfuðljós, sólgleraugu, orkuduft, verkjatöflur, batterí... Ég fór í útivistarbúð i gær og þar var ekkert til af því sem mig vantaði. En afgreiðslumaðurinn mundi vel eftir konunni sem kom daginn áður og var líka að fara á Kilimanjaro. Hann fór auðvitað að minnast aftur á háfjallaveikina og nauðsyn þess að vera með bleyju og var augljóslega skemmt. Bara öfund, if you ask me. Pampers extra plus á samt eftir að bætast á listann. Orkubarina fengum við svo í einhverri fitness búð við hliðina á útivistarbúðinni. Ég er sérstaklega spennt fyrir þessum "golf bar" sem samanstendur af höfrum og súkkulaði. 500 kaloríur, takk fyrir. Þetta eigum við að narta í á milli mála. Við fáum sem sagt morgunmat, hádegismat og kvöldmat á leiðinni svo það gefur auga leið að það er nauðsynlegt að hafa eitthvað til þess að narta í á milli mála, alla vega fyrir Sólrúnu sísvöngu.

Anyhow...ég var að tala um hvað ég er vel gift. Á listanum var megaþykk dúnúlpa en ég á ekkert slíkt. Ég á reyndar ágætis dúnfyllta vetrarúlpu en hún er meira svona "parka". Fín í borginni og jafnvel á skíði, en ekki í 18 tíma hægri göngu í 25 stiga frosti. Ég ætla því að vera í ullarklæðum innst, síðan í primaloft úlpu, svo í lopapeysunni sem Lúlla systir prjónaði, því næst í léttri dúnúlpu af Hirti og að lokum í forláta skel af Hirti. Hér eru tvö ystu lögin:

kiliblogg2_zps6nbabd8a

Jafnvel gæti ég troðið flíspeysu innan undir þetta allt saman. Ég verð eins og Shrek og laukur, í mörgum lögum sem ég týni svo af mér smátt og smátt þegar við göngum niður aftur og loftið fer að þykkna og andrúmsloftið að hitna. Ef ég kemst þá á toppinn..?. Þessir tveir lukkugripir verða með í för, sem gefa vissa ástæðu til bjartsýni:

kiliblogg3_zpscjs2vju0

Ég byrjaði að pakka almennilega niður í tösku síðasta fimmtudag og endaði með sneisafullan "duffelbag" - sem sagt allt of mikið. Í morgun gerði ég tilraun til þess að setja allt í ferðatösku. Gunni Bowie var fljótur að binda enda á þær tilraunir:

kiliblogg9_zpsqmd1xuqh

Ef að einn köttur fyllir næstum því heila ferðatösku, hvernig á ég þá að koma öllu hinu fyrir? Þetta er að vísu köttur af stærri gerðinni, en mér er sama.

Sem betur fer þurfum við ekki að halda á öllum farangrinum upp fjallið, enda myndi ég aldrei fara í slíka ferð með mitt ræfilslega bak og bullsveittu bingóvöðva. Það eina sem við þurfum að halda á er svokallaður léttur dagpoki. Hjörtur átti auðvitað slíkan búnað á lager. Ég valdi þennan:

kiliblogg4_zpshm4ly1fg

Ég þurfti hins vegar að fjárfesta í regnhulstri eða hvað þetta heitir nú á íslensku (e. rain cover). Kann ekki við að kalla þetta regnhlíf því að það er auðvitað allt önnur ella eða umbr...ella. Múahahahaha!

Í þessum poka verð ég líklega með auka jakka og buxur, einhverja golfbari og svo a.m.k. 2 lítra af vatni til þess að súpa á yfir daginn. Hjörtur lumaði auðvitað á fínum "CamelBak" poka sem tekur einn lítra og ég set utan um mittið. Hina lítraflöskuna fann ég í Útilíf. Hún er fislétt og með eingrunardóti utan um. kiliblogg10_zpsamdcdvsiVonandi verður ekki svo kalt að allt vatnið frýs. Það eina sem mig vantar eiginlega fyrir ferðina af listanum núna eru vatnshreinsitöflur. Ég spurði um þær í 3 útivistarbúðum og 1 apóteki en enginn kannaðist neitt við svoleiðis. Ég er líklega að leita á röngum stöðum. Ég veit að allt vatn sem við drekkum er soðið á staðnum, en ferðamenn vilja gulltryggja sig með því að setja þessar töflur í líka. Jú, svo er ég ekki komin með glákulyf, en mér skilst að ein okkar sé með svo stóran skammt að hann dugi fyrir okkur öll. Þetta glákulyf á að hjálpa okkur að takast á við háfjallaveikina. Viagra gerir það víst líka, en við vorum spenntari fyrir að fá betri sjón en meiri kynorku, alla vega við þessar sérstöku aðstæður. 

Gönguskórnir mínir eru einnig athygli verðir. Ein af afskaplega þreytandi alhæfingum um konur eru að þær séu allar skósjúkar. Ef það er rétt er ég ekki kona. Ég er samt nokkuð viss um að ég er kona. Ég vildi að vísu bara vera strákur þegar ég var lítil en ekki rættist sú ósk, sem betur fer kannski. Þegar ég var sem mest í hlaupunum veitti ég reyndar hlaupaskóm athygli, en hælaskór eru verkfæri djöfulsins...og feðraveldisins. Sumir setja samasemmerki þarna á milli. Jæja, fyrir einhverjum 20 árum fékk ég gönguskó frá föður mínum í jólagjöf. Þá var nú aldeilis veldi á kallinum og þaðan er líklega orðið feðraveldi komið. Assgoti góðir skór sem fóru alla vegar tvisvar sinnum Fimmvörðuhálsinn og tvisvar sinnum Laugaveginn, fyrir utan allar Esjurnar og slabbið í höfuðborginni. Þrem börnum síðar voru fætur mínir orðnir eitthvað stærri og í hvert sinn sem ég gekk niður fjall endaði ég með stórar blöðrur á tánum. Eftir mikla leit í sumar datt ég að lokum niður á þessa ofurþægilegu skó:

kiliblogg12_zpsptigthhr

Þessir skór eru eins retro og fjallgöngulegir í útliti og mögulegt er, að mínu áliti. Ég vildi ekki hafa neina liti og vesen á skónum, bara ekta brúnt leður sem þætti viðeigandi jafnt á toppi Kilimanjaro og á neðri hæðinni í Smáralind. Þeir eru fáránlega þægilegir í kringum ökklann og botninn svo stamur að ég dett mun sjaldnar á rassinn á niðurleiðinni. Ég er svooo léleg í að ganga niður fjöll að það er ekki einu sinni fyndið. Enda stendur á tungunni á skónum (ef myndin prentast vel): "Go up." Ég mun gera mitt besta.

Hér er svo nett yfirlitsmynd yfir fatnaðinn sem ég á víst að klæðast á fjallinu, mínus úlpurnar hans Hjartar:

kiliblogg6_zpskurypb7d

Þarna eru skærir litir allsráðandi, sem tákna létta lund mína og fíkn í ný ævintýri. Jæja ókey, ég veit ekki hvað þessi ótrúlega rauða peysa er að gera þarna í miðju fatahafinu. Hlaupahópurinn Glennurnar manaði mig til þess að kaupa kvekendið svo ég væri í stíl við allar hinar. Svona getur hópþrýstingur farið illa með fólk. Þetta dótarí átti ég nú allt í fórum mínum, nema regnjakkann áðurnefnda. Jú, svo splæsti ég í regnbuxur og flíxbuxur. Konur í miðstærð: Endilega kaupið föt í 66N í barnastærðum. Þau kosta næstum því helmingi minna og passa mun betur! Mér buðust flísbuxur á 14.000 en fann þær svo í barnastærð á 7.500. Alltaf að græða.

Allt þetta dót fer svo í "duffelbag" eða sjópoka. Hjörtur og stelpurnar gáfu mér einn slíkan í afmælisgjöf:

kiliblogg7_zpsnugzuwyg

Ægilega fínn, vatnsþéttur og allt. Mér sem sagt tókst að troða öllu fjalladótinu í hann. Hver og einn göngumaður á Kilimanjaro mun hafa tvo burðarmenn sem væntanlega skiptast á að bera þetta hlass á hausnum upp fjallið, ásamt mat og öðrum áhöldum. Greyið þeir! Pokinn má ekki vega meira en 15 kíló og mér fannst hann nú vega að minnsta kosti 20. Ég vigtaði því sjálfa mig án pokans og með og komst að því, mér til mikillar ánægju, að pokinn vegur 14,5 kíló. Ég get því bætt nokkrum golfbörum og öðrum millibörum ofan í pokann, án samviskubits. 

Nú á bara eftir að klára að pakka fyrir hinn hlutann af ferðinni, sem gæti reyndar reynst þrautin þyngri fyrir manneskju sem gengur dagsdaglega í hlýjum, svörtum fötum. Ef við komumst lífs af af fjallinu var planið að eyða nokkrum dögum í safarí. Við ætlum sem sagt að heimsækja þjóðgarða og einhverja æðislega staði þar sem dýralífið er stórkostlegt og náttúran ægifögur. Gististaðirnir verða allir með sundlaug og ég á ekki einu sinni bikiní! Það verður einhver höfuðverkur að finna föt fyrir þennan hluta ferðarinnar og geymi ég þá umfjöllun fyrir næsta blogg.

Ég er bara góð annars. Búin að vera í prófayfirferð og prófayfirsetum og enn sér ekki fyrir endann á því öllu saman. Við Síams vorum með piparkökukvöld fyrir A-sveit SK í gær en í dag stendur stelpan í stórflutningum. Hún er sem sagt að flytja í alveg eins hús og ég á og mun búa miklu nær mér en áður. Ég ákvað að taka enga áhættu með bakið, rétt fyrir rándýra Kilimanjaroförina, og sendi því ástkæran eiginmanninn í flutningana á meðan ég viðraði ungana. Það voru örfáar hræður í Húsdýragarðinum í dag í dásamlega logninu:

kiliblogg1_zpsvmptor2t

Tjörnin frosin og allt, enda sýndi mælirinn mínus átta gráður. Ég var búin fyrir jöklaferð en var samt ískalt eftir þriggja tíma útiveru þannig að ég get virkilega látið mig hlakka til ferðarinnar. Úff. Ég heyrði einmitt frá einum sem fór á Kilimanjaro fyrir nokkrum árum. Honum tókst að komast upp en fararstjórinn var sendur niður í skyndi með heilabjúg! Þetta staðfestir enn og aftur að það er algjört lotterí hver kemst upp. Vonandi verðum við öll heppin. Ég er samt búin að vera að æfa Æðruleysisbænina í hvert sinn sem ég hugsa um þetta fjall. Ég þarf að hafa vit til þess að átta mig á því að sumir komast upp og aðrir ekki og sætta mig við það sem ég get ekki breytt. Amen.

Sóla litla :)

 


Nýja húsið, nafnið og 6 ára stelpan

Fyrsti desember er alveg að koma þannig að ég sem ætlaði að blogga að minnsta kosti einu sinni í mánuði hef tæpa þrjá tíma til stefnu til þess að segja nokkur orð um nóvember 2015. Ég lofaði einmitt einhverjum æsispennandi fréttum af fasteignakaupum en fésbókin er löngu búin að skúbba þeim. Við sem sagt keyptum stærra hús fyrir fjölskylduna sístækkandi á eðalstað í Stykkishólmi. Mig hafði reyndar aldrei dreymt um að kaupa þetta hús af því að í kringum það var allt of fallegur blómagarður með að minnsta kosti 200 mismunandi jurtum. Ég hef lítið gaman af garðrækt nema að hægt sé að éta fyrirhöfnina um haustið. Það hlýtur að mega hella roundup yfir allt saman. Djók.

Ég ólst upp á Ægisgötu í Stykkishólmi og eins og nafnið gefur til kynna lá gatan við sjóinn. Mamma og pabbi skildu þegar ég var 12-13 ára og þá flutti pabbi suður og mamma og við systkinin á Skúlagötuna í Stykkiz, áður en við fluttum rúmi ári seinna á Laufásveginn. Jú, þið tókuð rétt eftir. Margar götur í Reykjavík eru skírðar eftir götum í Stykkishólmi. Eftir ljúfa barnæskuna á Ægisgötunni hét ég því að búa aftur í húsi við sjóinn þegar ég yrði fullorðin. Ég er að standa við þau heit mín með því að flytja á Skúlagötuna, rétt handan við horn Ægisgötunnar, með fögru útsýni yfir sjóinn, Gullhólmann og kirkjuna. Planið er að flytja svo alfarið þangað þegar börnin eru uppkomin, hvenær sem það verður. Tja...ætli að þá verði ekki bara kominn tími til þess að flytja beint aftur á Skólastíginn, þ.e. dvalarheimili aldraðra?

Hér er slotið:

skulagatajol15_zpsze7nkwed

Hinum megin við götuna er sjórinn en ég set inn myndir af útsýninu síðar. Annar kostur við staðsetninguna er að beint fyrir ofan býr besta vinkona mín í Hólminum, hún Kribba Hermanns, textílfrömuður með meiru. Við stelpurnar eigum eftir að dúlla okkur við klósting, krosssaum, aftursting og varplegg á meðan Hjörtur útbýr latté og bakar Sacher tertu fyrir prinsessurnar. Hjörtur er einmitt í Hólminum núna, eitthvað að fást við tiltekt í geymslunni í Vallabúð og klæðningu á háaloftinu á Akri (nýja húsið heitir það). Það á eftir að gera slatta í húsinu áður en það getur talist huggulegt á mælikvarða eiginmanns míns en ég treysti honum fullkomlega fyrir þessu. Gamla húsið okkar í Stykkishólmi er til sölu, ef einhver hefur áhuga á frábærum sumarbústað sem hægt er að leigja út til túrista líka.

Ég lofaði líka að ljóstra upp um nafn prinsessunnar á heimilinu en fésbókin er aftur búin að taka spennuna úr þessu. Litla gullið heitir sem sagt Adríana Líf og er Elvarsdóttir. Fallegt og sjaldgæft nafn, eftir konu sem foreldrarnir þekktu báðir, en er nú látin. Hér er hið nýja líf:

adrianajol15_zpsokjeofb3

Skírnin fór fram heima í Daltúni og tókst með ágætum. Okkur líst vel á föðurfólkið og hér er mynd af þeim allra nánustu:

adrianabloggnov15_zpsuzscrt4vMér endist ekki dagurinn til þess að telja upp öll nöfnin. Ég segi þetta reyndar bara af því að ég þekki ekki allt þetta fólk með nafni. Hnegg hnegg....

Eftir skírnarveisluna voru haldnar tvær stórveislur í Daltúni. Sú fyrri var sameiginlegt fjölskylduafmæli Diddúar og Kiddúar og mættu margir og fóru mettir. Helga Adríönumóðir fylgdist agndofa með undirbúningi afmælisins og komst að því að mikill tími og vinna fer í að halda eitt stykki stórveislu. Allar afmælisveislur Adríönu verða því haldnar á paintball vellinum í Grafarvogi. 

28. nóvember átti svo litla tannlausa himpigimpið hennar mömmu sinnar 6 ára afmæli.

kiddublognov15_zpsvm7sbloi

Daginn áður fékk hún í fyrsta sinn að halda afmæli bara fyrir sig eina, en hingað til hafði hún bara fengið fjölskylduafmælið með Sigrúnu. Maður reynir að setja svona reglur til þess að komast sem mest hjá því að halda veislur. Eftir dálitla umhugsun ákvað hún að halda neon veislu eins og Sigrún stóra systir. Við hjónin vorum orðin nokkuð sjóuð í þessum neon bransa, auk þess sem ekki þurfti að byrgja neina glugga af því að klukkan fimm, þegar veislugestir mættu, var nánast orðið aldimmt úti. Kristrún vildi endilega bjóða öllum bekknum af því að hún vildi ekki að strákarnir yrðu leiðir yfir því að missa af veislunni. Svo full af samkennd, þessi elska. Hér er hún búin að leggja á borð fyrir 21 krakka:

kidduafmaeliglibekkjarblognov15_zps7hxfdend

Vonandi fjölgar ekki í bekknum því að það yrði erfitt að koma fleirum að við borðið. Anyways, það var mikið stuð í partýinu og mér tókst að læra nokkurn veginn öll nöfnin á börnunum, þó að ég þekki fæsta foreldrana með nafni. Hér er diskóstuð:

krakkarblognov15_zpshl8do8cp

Daginn eftir var litla elskan vakin með söng, pökkum og Cocoa Puffs, að eigin ósk. Hún hélt í þriðja sinn upp á afmælið sitt með því að bjóða fjölskyldunni og ömmu, afa og Óla afa upp á kjötbollur með káli og ísblóm í eftirmat.

Við sjáum strax heilmikla breytingu á henni eftir að hún varð 6 ára. Samkvæmt loforði hennar er hún sjálfstæð á salerninu, þegjandi og hljóðalaust og er mun sneggri í fötin á morgnana (úr 30 mínútum í 19 mínútur að meðaltali). Það er ekki laust við að hún sé líka orðin aðeins ákveðnari. Ekki vildi hún fara út á afmælisdaginn sinn (það var svo kalt og snjórinn svo djúpur, sagði hún) en á sunnudeginum áttum við gott rennerí um allan Fossvog. Ég var hvort eð er ekki upplögð fyrir neitt mikið á laugardeginum af því að Gunni okkar Bowie hafði verið týndur í tvo sólarhringa í þessum líka ískulda og snjókomu. Enginn dúnmjúkur lítill ísbjörn tók á móti mér á morgnana og malaði gleðina í daginn. Kisi tók reyndar við keflinu og var mættur í staðinn, meira en tilbúinn að gera mér til geðs í von um eilítinn fiskbita með Kellogsinu.

Gamla neyðarráðið að biðja Guð um hjálp svínvirkaði alveg því að á sunnudagsmorgninum vaknaði ég við ámátlegt mjálm fyrir utan eldhúsdyrnar. Við Gunni fögnuðum hvoru öðru svo mikið að Kisi Jackson varð afbrýðisamur og gaf Gunna á kjaftinn. Hann hafði hugsanlega haldið að héðan í frá myndi hann sitja einn að kjötkötlunum eða mömmukjöltunni. En það er nóg til af mömmu fyrir alla: kisur, krakka og kalla. Endum þessa vitleysu á mynd af Kristrúnu 6 ára og duglega kallinum, pabba hennar:

kiddupabbiblognov15_zpsg3nsumwc

 

Kilimanjaro eftir 4 vikur. Fréttir verða sagðar fljótlega. Ég lofa!

Sólamanjaro :)

 


Meyfæðing, neonafmæli, húsakaup...hvað næst?

Jæja ókey...kannski ekki meyfæðing eins og við þekkjum hana úr Biblíunni eða raunvísindunum, en 7. október fæddist fagurt meybarn af foldar skauti þannig að ég ætla barasta að kalla þessa stóru stund meyfæðingu (og hananú!). 26. september átti litla gullið að fæðast en var ekkert á því að koma út strax þannig að móðirin gat haldið áfram að brillera í hugbúnaðarverkfræðinni á meðan meybarnið þroskaði lungu og vit í móðurkviði. Hér er mynd af fljóðinu fagra örfáum dögum fyrir barnsburð, ásamt sultuafanum landsfræga, sem þekkist nú úti á götu eftir stórkostlegt innslag í Landanum síðasta sunnudagskvöld:

12042850_10153921043825579_1013016082300675757_n1_zpswniyob1x

 

Helga fór upp á Akranes í gangsetningu 6. október. Hún valdi Skagann af því að þar hafði mér liðið vel á heimavist fjölbrautaskólans og bar sterkar taugar til bæjarins. Djók. Sjúkrahúsið á Akranesi er þekkt fyrir að vera ansi notalegt í samanburði við Landspítalann, þar mega fleiri en einn vera viðstaddir fæðinguna og þar var hægt að bóka gangsetningu tímanlega fyrir heimkomu Hörpu systur Helgu og mömmu hennar frá Svíþjóð. Mér og Maren, vinkonu Helgu, hafði hlotnast sá heiður að vera viðstaddar fæðingu frumburðarins. Það var alls ekki auðvelt.

Þar sem ekki er um mína fæðingu ætla ég að sleppa öllum smáatriðum. Það sem kom mér mest á óvart var hversu mikið þetta tók á fyrir mig persónulega. Ég þjáist af syndrómi sem heitir samkennd og einkennin magnast vissulega upp þegar maður sjálfur er búinn að ganga í gegnum viðlíka reynslu. Í stuttu máli sagt var þetta drulluerfið fæðing fyrir Helgu. Sex starfsmenn voru viðstaddir síðustu tvo tímana við að koma barninu út og ég segi nú ekki annað en guði sé lof fyrir að við búum á tækniöld. 

En allt tekur enda og þegar elsku litla barnið kom loksins í heiminn var mikið grátið. Hjörtur afi beið frammi og fékk að koma inn um leið og barnabarn númer tvö var fætt og það var stór stund:

bulog4_zpskhmkfu1s

Hversu falleg sjón? Gullið reyndist vera 14 og hálf mörk og 52 sentimetrar á lengd, yndisleg alveg þrátt fyrir stórt svöðusár á höfði eftir sogklukkurnar (já, það þurfti tvær!). Helga sendi mig og vinkonuna heim og Hjörtur fékk að gista um nóttina uppi á spítala með dóttur sinni og dótturdóttur. Þvílíkur lukkunnar pamfíll! Hvað er annars pamfíll? Svarið fæst hér.

Þegar ég kom heim um nóttina eftir fæðinguna fann ég að ónæmiskerfið var að hrynja; bullandi vöðvabólga, sláttur í vörinni og hressileg hálsbólga voru að taka völdin. Svona fer tilfinningarússíbaninn með miðaldra konu utan af landi. Leikar fóru þannig að ég kvefaðist svo mikið að ég missti röddina og þurfti þar af leiðandi að sleppa því að fara í Hólminn og á árgangamótið mikla. Mjög leitt að missa af því en að sama skapi stórkostlegt að fá að fylgjast með fæðingu barnabarnsins. Þess má geta að hetjan hún Helga og litla krílið braggast og bera sig ótrúlega vel, þrátt fyrir allt. Hin stóíska ró sem einkennir Helgu virðist hafa færst yfir á barnið líka. Hún nærist vel, sefur eins og engill og þegar ég horfi á þær tvær sé ég hina einu sönnu ást, svarið við tilgangi lífsins. Ég er svo þakklát fyrir að hafa orðið vitni að þeirra fyrstu kynnum.

Auðvitað hefði ég átt að blogga strax eftir fæðinguna því að svona stór atburður á skilið að fá alveg sér færslu. En þar sem ég er enn við sama heygarðshornið er bloggið í besta falli "hið mánaðarlega" og því þarf að koma fleiri stóratburðum að. Ég ætti að temja mér að blogga að minnsta kosti vikulega eins og stórvinkona mín, hún Guðrún Guðjónsdóttir. Endilega tékkið á bráðskemmtilegu kjólabloggi hennar hér.

Næsti stórviðburður er 10 ára afmæli miðjubarnsins míns. Fæðingarsaga hennar var til á hinu blogginu mínu sem dó (blogcentral) en ég á hana reyndar vistaða á word skjali. Fæðing frumburðarins minnti ansi mikið á "meyfæðinguna" margumræddu þar sem gangsetning og sogklukka kom mikið við sögu. Ég var því fyllilega sannfærð um að hún Sigrún mín Björk kæmi 2 vikum á eftir áætlun eins og stóra systir hennar, en því var nú aldeilis ekki að heilsa. Ég var sett 24. október og ákvað að hafa það huggulegt síðustu vikurnar og skráði mig því á 17. október sem síðasta kennsludag og byrjun á fæðingarorlofi eftir það. Að kvöldi 16. október byrja ég að vera eitthvað voðalega skrítin og eyddi svo nóttinni í nýlærða jógaöndun með 5 mínútur á milli hríða. Þess má geta að eiginmaðurinn steinsvaf við hliðina á mér, en heyrði eitthvað smá púst í svefnrofunum. Aldeilis gott fyrir hann að mæta úthvíldur í fæðinguna. Ég sendi alls konar sms og tölvupósta um nóttina til þess að staðgengill minn gæti tekið við hlutverki mínu einum degi fyrr en ætlað var og svo fæddist dásamdardaman mín uppi á Landspítala kl. 11 morguninn eftir. Hér er hún 10 árum síðar:sigrun100_zpsvrwziniw

Samstarfsmaður minn sagði einu sinni við mig þegar ég var ólétt að minni yngstu að Sigrún yrði mjög heppin að verða miðjubarn. Þá gæti hún fengið að blómsta og þroskast í friði fyrir væntingum og endalausum afskiptum foreldra sinna. Ég skildi ekki orð hans þá, en skil þau betur núna, enda sjálf miðjubarn og klárlega besta eintak foreldra minna þó að ég sé ekki viss um að þau séu enn búin að fatta það....múahahahahahahahahahha! Sigrún hefur spjarað sig ótrúlega vel bæði í leik og námi og er alls enginn eftirbátur stóru systra sinna.

Anyways...stelpan hefur lagt mikið upp úr afmælum sínum í gegnum tíðina og hefur sett mikla pressu á mig að vanda vel til verka. Í 6 ára afmælinu var prinsessuþema. Í 7 ára afmælinu var hrekkjavökuþema. Í 8 ára afmælinu var náttafataþema. Í 9 ára afmælinu var öfugt þema (ekki fleiming samt...) og í 10 ára afmælinu....eftir mikið gúgl af því að okkur vantaði KÚL hugmyndir og eitthvað sem enginn hafði gert áður og....þvílík pressa...sem sagt...þá var NEON afmæli. Jú, það krefst yfirlegu líka. Hjörtur snillingur aðstoðaði okkur auðvitað við að redda svokölluðu "blacklight" sem gerir allt hvítt alveg dásamlega neonhvítblátt og auðvitað neonliti alveg sérstaklega skæra. Partýbúðin átti alls kyns ljósadót sem kostaði ekkert endilega hvítuna úr augunum og svo þurfti bara að birgja alla gluggana í húsinu með svörtum plastpokum, hugsa upp fjölda leikja sem aldrei höfðu verið notaðir í afmælum áður og.... Tja jæja...ég lagði ekkert í veitingarnar í ár. Snillingarnir frá Dominos mættu með pizzur í púkkið og frumlega frúin ég bjó til afmælisköku úr fjórum mismunandi tegundum af ís, pressuðum ofan í skúffukökuform og með einhverju nammidrasli í kring. Jú, svo grilluðu grísirnir reyndar sykurpúða í millitíðinni. Það kviknaði næstum því í ljósakrónunum frá Ali Express sem hanga yfir eldhúsborðinu, en sem betur hlaut enginn varanlegan skaða af. Hér eru allir í neonstuði:

bulog7_zps00aa12ml

Daginn eftir átti svo draumadísin mín 10 ára afmæli, sama dag og Eminem, uppáhaldsrapparinn minn. Óli afi mætti galvaskur á staðinn með þennan fína pakka handa stelpunni sinni:

bulog1_zps8jwrgz3r

Í pakkanum voru akríllitir og strigi þannig að hann vill greinilega að Sigrún feti listabrautina eins og hann sjálfur. Sigrún hefur marga hæfileika á handverkssviðinu, sem hún fær frá afa sínum í móðurætt og líklega allri föðurættinni eins og hún leggur sig. Faðir hennar leggur sig alla vega á hverjum degi. 

Sveiflum okkur nú yfir í Björgu. Hún er farin að blogga og hér er enn eitt "hér"-ið til þess að leiða fólk frá þessari löngu færslu. Svolítið eins og þegar ég er að vinna húsverkin heima og byrja á því að brjóta saman þvottinn, sé svo að það þarf að taka til inni á klósetti og allt í einu er ég farin að raða skóm inni í skáp, þar næst setja í uppþvottavélina smá, svo sé ég að það vantar vatn í skálina hjá köttunum og þá fer ég niður í kjallara og fer að kíkja í orðabækur, skeini krakkann í millitíðinni og sé að það væri sniðugt að fara í gegnum blaðabunkann og þremur tímum seinna sé ég að ég þyrfti kannski að fara að klára að brjóta saman helvítis þvottinn. Er ekki annars í tísku að vera með athyglisbrest? Um hvað var ég annars að tala? Já já, hana Björgu mína í Costa Rica. Hún ber sig bara nokkuð vel, stelpan. Ég hugsa til hennar á hverjum degi en er alveg róleg núna og hef fulla trú á að hún komi heil heim. Það er nú mikill léttir. Nógar áhyggjur þykist maður nú hafa samt. Hjörtur saknar hennar svo mikið að hann er búinn að skipuleggja kitesurfing ferð til Costa Rica í lok janúar, án mín auðvitað. Hrrmpf.

Heyrðu...við skelltum okkur í Hólminn um helgina! Ég var svo heppin að eiga einn dag í miðannarfríi á sama tíma og stelpurnar voru í vetrarfríi í skólanum. Við áttum þrjá notalega daga í kotinu okkar í Vallabúð ásamt Helgu og tveggja vikna yndisfríða skottinu sem svaf nánast samfleytt í 60 klukkustundir - með örfáum drykkjarpásum. Ég man ekki eftir að hafa gúglað "of langur svefn" hjá mínum dætrum (enda varla búið að finna upp internetið, hvað þá google þegar sú fyrsta fæddist), en Helga var farin að hafa áhyggjur! Við gerðum okkur ýmislegt til dundurs í kuldanum. Helsti klassíkerinn var að fara í búðarráp (flest var lokað...bless sumartraffík!) og heimsókn til Majömmu. Hún tók okkur stelpunum fagnandi eins og alltaf:

bulog3_zps5q7y0iof

Reyndar virkar hún svolítið áhyggjufull á svipinn þarna, enda með alvarlegan ofvita sér á vinstri hönd og snarklikkað himpigimpi undir hægri handlegg. Alltaf yndislegt að mæta til ömmu sinnar. Svo fórum við í dásemdarmatarboð til Kribbu og Badda á Fagurhóli, kíktum í sund til fallega forstöðumannsins og bjuggum til snjókarl úr fyrsta snjónum sem féll á sunnudeginum. 

Svo skoðuðum við líka eitt lítið hús....:

bulog2_zpst3oh9yuk

Hér sést það í mánaskininu. Það er lítið að utan en stórt að innan. Frekari fréttir síðar. Stay tuned...eða eitthvað.

 

Yngismærin svefnsjúka verður skírð hérna í Daltúninu næsta laugardag. Ég hef ekki hugmynd um hvað barnið á að heita. Mér skilst að vinnuheitið "Karítas Sól" fái að fjúka. Ég segi því enn og aftur: Stay tuned!

Sóla Skúla... :)


Búið afmæli og beðið eftir barni

It has been a while, en ekkert væl, ég blogga um hæl. Að vísu ætla ég lítið að tjá mig um hælinn og bakið og magasárið og andlegu hliðina og...enda er ég glöð og góð í dag og það skiptir mestu máli.

Mig langar til þess að eiga minningar um afmælisdaginn minn, rétt eins og í fyrra sem lesa má um hér. Þá snjóaði á afmælisdaginn minn og líka í ár. Þann 3. október kemur fyrsti snjórinn - það er bara staðreynd.

Ég svaf frekar illa aðfaranótt afmælisdags - vaknaði sem sagt um miðja nótt með ónot í maga sem minntu á magasárið í ágústlok. Ástæðan var nú bara rauðvínsdreitillinn sem ég saup á í matarboði kvöldið áður og því verður svoleiðis vökvi að vera á bannlistanum áfram. En svo sofnaði ég aftur og vaknaði hress við brölt í eiginmanninum sem var að fara að græja morgunmat handa gömlu og grísunum. Tveir fínir pakkar biðu mín við morgunverðarborðið. Annar frá Lúllu sys (leðurhanskar og varalitur) og hinn frá fjölskyldunni, fagurlega myndskreyttur af Diddú og Kiddú:

IMG_3653_zpscgxjhoep

Í honum var svokallaður "duffelbag" sem er skyldueign þeirra sem ætla að reyna að klífa Kilimanjaro. Í hann setur maður notalegan svefnpoka og hlýjustu útivistarföt sem finnast á jörðu hér. Svo ber einhver innfæddur pokann á höfði sér á meðan ég reyni að skríða upp á 20% súrefni.

Ástu brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn. Þegar ég leit út um eldhúsgluggann um hádegisbil blasti við mér fögur trampolínskreyting:

IMG_3654_zpsd4tqpupc

Þarna voru komnir pakkar og blöðrur (sem höfðu reyndar fokið út um allan garð) frá Ástu og enskudeildinni. Þar var meðal annars að finna forláta Sólupeysu og dásemdar ullarföt til þess að nota innst klæða á þetta fjárans fjall. Svo bakaði Aðalsteinn Ástuson ljúffenga köku fyrir tengdamóður sína.

Þegar konur eiga afmæli mega þær ráða degi sínum sjálfar. Í stað þess að sitja heima og taka á móti gestum allan daginn fannst mér mun meira spennandi að fara í göngutúr með fjölskyldunni og anda að mér köldu haustloftinu. Já, ég er miðaldra. Við hjónin fórum með litlu lufsurnar upp að Rauðavatni og týndum þar ber (misfrosin). Kristrún var við það að andast á leiðinni upp hæðina (svooo illt í maganum og fótunum) en var léttfætt á leiðinni til baka. Hér eru stelpurnar glaðar með aldraðri móður sinni:

IMG_3655_zpsumhxgiba

En auðvitað verður að halda smá partý, þannig að ég bauð bara þeim allra nánustu í mat eins og vanalega. Það var líka mikið fyrir þessu haft. Hjörtur þurfti að panta sushi og sækja það alla leið upp á Nýbýlaveg. Hér er liðið að smjatta á sushi og drekka sódavatn:

IMG_3662_zpsdzgx2fnh

Kiddú alltaf eilítið glettin og grettin.

Afmælisbarnið henti svo í afskaplega vandaða ístertu með helstu aðalleikurunum í Kilimanjarobloggi framtíðarinnar:

cake_zpsf3t2oywl

Kiddi, Gudda, Jóla, Vallý og Lillý, ásamt höfuðskepnum Tanzaníu. Dýrin og tréin bjó ég til úr sykurmassa. Not.

Tengdó mættu með yndislega ilmandi blómvönd frá Dalsskarði eða Dalsgarði (ilmandi rósir eru sjaldséðar nú til dags). Pabbi mætti líka með blóm (ég afþakkaði kransa) og nafnabók og KSÍ treyju sem ég klæddist það sem eftir lifði kvölds. Auðvitað verður maður að eiga slíkan búning þegar Ísland er komið á EM! Halldór Ásgeir færði með fallegan blómvönd og Bjössi bró og hans fjölskylda færðu mér...tja...allan heiminn, svei mér þá. Gjafastíll bróður mins minnir mig óneitanlega á móður mína sálugu, sem lagði hjarta sitt og lifur í að finna jólagjafir allt árið svo að maður væri örugglega hálftíma að vinna úr því sem upp úr pökkunum kom! Ég fékk einhverja bluetooth tónlistargræju, Dömusiði Tobbu Marinós (ekki veitir af!), vasahníf með alls konar fítusum (fyrir fjallið auðvitað) og...og...alls konar stöff! Já...bíómiða, inniskó (einnota af einhverju hóteli sem hann dvaldi á í Ítalíu hér um árið) og svakalega skemmtilega bíómynd frá Flateyjardvöl fjölskyldunnar í sumar. Drengurinn var búinn að leggja marga tíma í að klippa þetta til og var þetta hið besta (og jafnframt eina) skemmtiatriði á afmælinu mínu. Kvöldið endaði svo á því að opna kampavín frá föður mínum og skála fyrir afmælisbarninu. Hér erum við feðgin, búin að skála mismikið og ferðbúin á fjallið:

IMG_3689_zpsbmg6vndq

Takið eftir KSÍ peysunni á mér og bláu húfunni á pabba, sem var afmælisgjöf frá GG vinkonu!

Þegar gestirnir voru farnir (á afar kristilegum tíma) settist ég við tölvuna og lækaði afmæliskveðjur á facebook í gríð og erg, á milli þess sem ég reyndi að toga upp úr Helgu einhverjar upplýsingar um nafn á ófæddu stúlkubarni. Án árangurs.

Já, ég á von á barnabarni á allra næstu dögum. Ég er reyndar búin að vera í startholunum síðan í lok september af því að settur dagur var 26. september. Litla stelpan virðist ekkert vera á leiðinni út í þennan fagra heim þannig að nú er bara beðið eftir upplýsingum um gangsetningu í vikunni. Helga ætlar að eiga uppi á Akranesi og mér hlotnast sá mikli heiður að fá að vera viðstödd fæðinguna. Ég var auðvitað á staðnum þegar mínar dætur fæddust (really?) en mér finnst eins og ég sé að fara að kanna ókunnar slóðir núna. Ég var búin að segja að barnið myndi fæðast 7. október en kannski kemur hún oktunda áttaber? Skiptir ekki máli, ég á tvær mjög góðar vinkonur sem eru fæddar á þessum dögum. 

Það eru alla vega mjög spennandi tímar framundan og næsta blogg verður tileinkað nýborinni móður og yndisfögru meybarni hennar og okkar allra.

Svo mun ég að sjálfsögðu segja fréttir af Björgu minni í Costa Rica. Ég lofa að blogga fyrir jól!

Sól'amma kveður að sinni...

 


Söknuður, kvíði, streita og bjór

Ég hafði verið að hugsa um að nota titilinn "Nokkrir góðir dagar án Bjargar" en þá hefði fólk kannski farið að átta sig á nánum tengslum mínum við Flokkinn og Foringjann. Við skulum orða þetta þannig að það er aldeilis vont að vera Bjargarlaus, en dagarnir eftir að hún fór voru mun skárri en þeir sem á undan gengu.

Það sem var erfiðast við þetta allt saman var að kveðjustundin var svo löng. Eiginlega er hún búin að taka rúmlega ár, allt frá því að ákvörðun var tekin um að leyfa Björgu að fara sem skiptinemi (það var hræðilega erfitt) og allar hugsanirnar fram og til baka sem fylgdu í kjölfarið. Óðum steðjar að sá dagur, afmælið þitt kemur senn...segir í laginu. Björg verður 17 ára 27. ágúst þannig að hún sameinaði kveðjupartý og afmælisveislu. Fyrst kvöddu Bjössi bró og Erna fló hana í Flatey, með uppáhalds Flateyjareftirréttinum: Royal búðingi. Ég kveikti á 17 kertum sem bráðnuðu ofan í búðinginn við litlar vinsældir krakkanna. Svo var kaffiboð niðri á Vík fyrir nánustu aðstandendur, Ásta bauð í afmælis- og kveðjukaffi og bestu vinir Bjargar komu og kvöddu hana sérstaklega vel í góðum bröns sem Björg hélt fyrir þá stuttu fyrir brottför. Ég náttúrulega táraðist yfir hverju einasta korti og gjöf sem þessir yndislegu vinir gáfu henni og Björg sjálf varð orðlaus yfir ástinni, samstöðunni og væntumþykjunni frá jafnöldrum sínum. Svo var kveðjumáltíð hérna heima, rétt áður en barninu var skutlað á völlinn. Allan þennan dag var ég gjörsamlega í rusli. Það er svo skrýtið að geta ekki haft hemil á tilfinningum sínum eftir rúmlega fjörutíu ára þjálfun. Nokkrar nætur í röð, þegar ég var við það að festa svefn, upplifði ég einhvers konar taugasjokk sem kom yfir allan líkamann eins og höggbylgja. Taugatsunami - er það til? Ég glaðvaknaði, heyrði dúndrandi hjartsláttinn og náði ekki að festa svefn fyrr en rétt undir morgun. Svona gekk þetta dagana á undan, alveg þangað til ég heyrði af Björgu í öruggri höfn í Costa Rica eftir sólarhringslangt ferðalag. 

Það var samt alveg gaman hjá okkur foreldrunum og Björgu þegar við fórum saman upp á flugvöll. Ég var nýbúin að segja Gunna að ég myndi sakna bergmálsins þegar Björg færi. Hann hváði auðvitað og þá útskýrði ég fyrir honum að Björg hefði þann leiða vana að herma eftir flestu sem ég segði og ranghvolfa augunum jafnvel. Allir vita að mömmur unglinga eru mjög asnalegar og allt sem þær segja er fáránlegt. Hann sprakk úr hlátri í hvert sinn sem hún fór að herma eftir mér (og honum...við lifum á tímum jafnréttis) þannig að það var mikið hlegið uppi á velli, svona með taugaveiklunar- og móðursýkisívafi. Björg komst einmitt að þeirri niðurstöðu sem barn að foreldrar hennar hefðu skilið skiptum af því að faðir hennar hló of mikið. Þetta er víst algeng skilnaðarorsök.

bloggagust153_zpsf02eejyo

Hérna er maðurinn sem hló of mikið, ásamt Björgu hermikráku. Við vorum svo heppin að "check-in" tók 5 mínútur þannig að við gátum skellt í okkur Joe and the Juice, hlegið aðeins meira og reynt að glápa ekki á Noomi Rapace á næsta borði. The rest is history. Ég hef ekki enn talað við Björgu en hef séð myndir, fengið smá spjall á facebook og náð nokkrum heillegum brotum. Hún er í smá hljómsveit í skólanum þar sem hún æfir einungis Costa Rica lög á básúnuna sína. Hljómsveitin á að spila á einhverri hátíð í lok mánaðarins. Ég sá mynd af henni í skólabúning og fannst nú ekki mikill MH stíll yfir honum, en þetta er nú allt saman partur af prógramminu. Ég sef betur og það er nú aldeilis góðs viti (og minni sviti).

Þá er ég búin með söknuðinn og eftir standa kvíði, streita og bjór. Tja...kvíðinn og streitan voru svo sem alveg inni í saknaðarpakkanum. Ónæmiskerfið hrundi tímabundið með eymsli í magaopi, eyrnabólgu og alls konar. Ég hafði auðvitað líka áhyggjur af skólabyrjun og þessum 120 nemendum sem ég átti eftir að kynnast. Nú eru tveir kennsludagar liðnir og ég er með um það bil 50 nöfn á hreinu.Nokkuð sátt við það, en betur má ef duga skal. Það er alltaf erfitt að byrja nýja önn, sérstaklega þegar 95% nemenda eru glænýjir og 28-30 manns í hverjum einasta hópi. Sumt virðist aldrei breytast, því miður. En mér líst ágætlega á nemendur, enda var aðsóknin mjög góð í skólann, þökk sé Ástu ofur og hennar slekti sem tóku kynningarmálin í sínar hendur. Þvílíkur Grafarvogsgullmoli sem þessi skóli minn er.

Við fórum vitaskuld á Danska daga í Stykkishólmi þó að þeir séu óþægilega seint á ferðinni alltaf, svona rétt fyrir kennslu. Eitthvað fer minna fyrir skreytingum í bænum en áður, en sumir standa sig alltaf vel. Við kíktum í smá afmælisheimsókn til Gissurar og Röggu og þau tóku þetta auðvitað með trompi. Hér eru stelpurnar með einum röd og hvid dansker:

bloggagust152_zpshgtydo3l

Danskir flugu hratt hjá og ég varð svo sem ekkert afskaplega vör við dagskrána, sem var samt eflaust góð fyrir Hólmara og brottflutta. Við ætluðum út að borða á nýjum veitingastað sem heitir Skúrinn á föstudagskvöldinu, en þar sátu nokkrir dreift með bjór í kollu að horfa á enska boltann og ekki var hægt að rýma fyrir matargestum. Við urðum sem sagt frá að hverfa og fórum bara á Plássið í staðinn og þar var sko stemmning í lagi og þvílíkt vel tekið á móti okkur. Á laugardaginn gerði loksins logn og við gátum sjósett fleytuna Sólu í fyrsta sinn í sumar! Þvílík gleði og ánægja að fá að renna fyrir fisk og spjalla við fýlana. Mastercard er fyrir allt annað. Svo var kíkt á Bjössa í Baileys (hefð) og svo tölti ég í gegnum mígandi rigninguna með Sigrúnu, Kristrúnu og Ernu Rós að kíkja á eitt tívolítæki niðri í bæ. Það var eiginlega lokað vegna veðurs og fámennis (vegna veðurs) en ég lét opna það fyrir stelpurnar og skellti mér með. Því næst kíktum við í langa heimsókn til Kristbjargar vinkonu sem tók vel á móti stelpunum að vanda og Baddi gaf gömlu einn kaldan. Þegar ég fór frá henni passaði það einmitt að Hjörtur var búinn að grilla dýrindis lamb ofan í stelpurnar sínar. Gæti þetta verið betra? Seint og um síðir fórum við niður í bæ og hlustuðum á brekkusönginn. Ekki vantaði hæfileikana þar á bæ, en hjartað hefði mátt vera með í för. Páll Óskar kom að vanda og tryllti lýðinn hálftíma fyrir flugaeldasýninguna. Venju samkvæmt fór ég með bróður mínum og mágkonu á reitinn þar sem Hjaltalínshúsið stóð, hitti auðvitað Bræðraminnisfrændfólk og bara allt eins og það á að vera.

bloggagust157_zpsuj9wcc3c

Hér eru yndislega mágkonan mín og uppáhaldsbróðirinn minn í öllum heiminum að horfa á flugeldana. Góður endir á rólegum og ljúfum Dönskum. Ekkert djamm, bara heim að sofa.

Vinnuvikan, sem er senn að renna sitt skeið á enda, er búin að vera full af streitu og gleði. Það er gott að hitta samstarfsfólkið aftur en heilinn er frekar grillaður út af nýjum áskorunum. Stundataflan var ekkert spes, en alltaf aðlagast maður og vonast eftir betri töflu á næstu önn.

Svo er auðvitað uppskerutíminn og við stelpurnar höfum verið duglegar við að ná í góðgæti í skólagarðana. Hér er Sigrún með hollt bland í poka: 

bloggagust15_zpsbsacgjij

Kristrún er svo sjúk í grænkálið að hún klárar það alltaf á svipstundu, litla grænmetisætan hennar mömmu sinnar. Stelpurnar voru á blaknámskeiði í síðustu viku og Sigrún er búin að vera á útilífsnámskeiði skáta þessa vikuna. Kristrún fór hins vegar í Dægradvölina í skólanum og bíður mátulega spennt eftir því að skólinn byrji. Hún á það til að kvíða nýjum og óþekktum hlutum og ég skil bara ekkert hvaðan hún hefur það. Kannski frá póstmanninum. Nú, eða mér. En ég held að hún muni bara pluma sig vel, þetta rólegheitakríli. Auðvitað leyfi ég mér samt að kvíða fyrir því að henni líki alls ekki skólinn og líf hennar verði ónýtt frá fyrstu skólasetningu. 

Be fearless! Þetta sagði hún Kathrine Switzer við okkur í dag á hádegisfundi í Hörpunni. Ég man að ég las sögu hennar í Runner's World fyrir fjöldamörgum árum og við notuðum hana strax sem fast kennsluefni í ensku í Borgó. Svo pantaði ég bókina hennar á Amazon og las með áfergju, enda var konan mikill brautryðjandi í íþróttaheiminum. Núna, mörgum árum seinna, fæ ég loks tækifæri til þess að sjá hana og heyra í eigin persónu og það var einfaldlega mögnuð upplifun. Eftir fyrirlesturinn fékk ég hana til þess að árita bókina og hún var mjög "impressed" þegar hún sá að ég var með orginal útgáfu af bókinni. Ég fæ örugglega íslensku aðdáendaverðlaunin út á það. Svo létum við auðvitað smella mynd af okkur með hetjunni. Switzer er lengst til hægri:

bloggagust156_zpsftava26j

Bara geðveikt og nú þarf ég að temja mér að vera óttalaus! Er það ekki gott mottó fyrir alla?

Eflaust get ég haft æðruleysisbænina á kantinum, pizzu í annarri og bjór í hinni, a la Johny National. Gott að enda með þessari sérstöku mynd af hvítvínsglasi á Dönskum og útsaumaðri æðruleysisbæn eftir hana móður mína sálugu. Hún er eflaust ekki sátt við þessar tvær andstæður hlið við hlið. Og þó, hún hafði nú alveg húmor fyrir svona löguðu þó að hún væri ein öflugasta AA manneskja sem til var á landinu. Hún stofnaði AA deild á Flateyri þar sem að í mesta lagi þrír funduðu og ég trúi ekki öðru en að hún hafi veitt handritshöfundum kvikmyndarinnar "París norðursins" smá innblástur. Já...jú...hér er myndin:

bloggagust155_zpsxtrlcveq

Pura vida!

Sóla æðrulausa :)

 


Flateyró - Patró - Stykkó - Kópó - Esjó

Sumarið líður allt of hratt og stóra stundin nálgast óðfluga. Í maga mínum flögra fiðrildi, maurildi og ókræsileg þykkildi. Engin leið að snúa til baka.

Hingað til hefur sumarið samt verið gott. Veðrið hefur ekki leikið við okkur úti á landi. Norðaustan stinningskaldi nartar í nefið á meðan hæg sunnangolan strýkur mér blítt um kinn í höfuðborginni og nærsveitum. 

Eftir Skandinavíureisuna gáfum við okkur smá tíma til þess að anda og leyfa köttunum að kynnast okkur á ný. Svo var haldið af stað vestur á firði, alla leið til fyrirheitna landsins, Flateyrar. Þegar amma lifði fór ég oft tvisvar á ári vestur en ferðunum hefur fækkað eftir að hún dó. Ég gerði mitt besta til þess að leigja húsnæði á Flateyri síðasta sumar en allt var upptekið vegna kvikmyndaverkefnis. Fögnuður minn var því mikill þegar ég komst loksins á þennan yndislega stað. 

Það er svo margt gott við það að vera á Flateyri á sumrin. Staðurinn er lítill en þjónustan ágæt og meira að segja sundlaugin er orðin uppáhalds á Vestfjörðum. Ég var alltaf hrifnust af sundlauginni á Suðureyri, en núna eru komnir tveir heitir útipottar á Flateyri sem gera laugina svo miklu skemmtilegri. Hægt er að fá afnot af íþróttahúsinu til þess að gera alls konar skemmtilegt þegar kaldir vindar blása (sem er nokkuð algengt) og skólinn er með forláta sparkvöll og þokkalegan körfuboltavöll. Leikskólarólóinn færeyski stendur svo alltaf fyrir sínu með sinn gula sand.

Toppurinn á tilverunni er svo bryggjan á Flateyri, sérstaklega fyrir veiðisjúkling eins og mig sem tímir ekki að eyða stórfé í laxveiðar en fær í staðinn útrás í ufsaveiði á bryggjunni. Ufsinn er sterkur og sveigir stangirnar svo skemmtilega að maður getur alveg ímyndað sér að eitthvað spennandi sé á spúninum. Ekki þarf annað en svartan Toby, kasta langt, draga inn og hviss bamm búmm! Kominn fiskur! Sigrún og Kristrún fundu loksins neistann og voru meira en tilbúnar að fara með mömmu sinni á bryggjuna, kvöld eftir kvöld. Fljótlega tók fimm ára dýravinurinn og grænmetisætan upp á því að taka alfarið að sér hlutverk slepparans (jú jú, þetta var veiða - sleppa) og hafði mikið gaman af. Hún var líka fyrst til þess að veiða kola og var ótrúlega stolt af því. Minn fyrsti fiskur var einmitt koli. Þá var ég fjögurra ára með Björgvin frænda og fullt af krökkum í Flatey á bátnum Litla-Björg, minnir mig. Sá eða sú sem fengi fyrsta fiskinn átti að fá súkkulaði í verðlaun og ég vann! Ég fékk kola og sagði uppnumin: "Lítil lúða!" Svona var maður nú vitlaus. En Sigrún Lár sauð hana fyrir mig og betri fisk hef ég ekki smakkað síðan. En þetta var útúrdúr. Hér eru glöð fiskifeðgin á Flateyri:

bloggjuli1015_zpstaurhheg

 Eins og sést voru allir ágætlega dúðaðir, enda bara miður júlí.

Auðvitað var mannlífið skoðað líka. Lífið er víst ekki endalaust og eftir bjartan daginn kemur nótt. Við heimsóttum gröf mömmu og ömmu daglega. Því miður fékk mamma ekki að hitta Sigrúnu og Kristrúnu, en það er huggun harmi gegn að Björg skuli muna vel eftir henni og eiga margar góðar minningar, sérstaklega frá Flateyri. Hérna eru stelpurnar mínar með Kiddý ömmu og Ingu langömmu:

bloggjuli815_zps4uiffyoe

Hann Gumbi okkar sér um að halda leiðunum snyrtilegum og það eina sem við gerðum var að velja einn engil í viðbót á leiðið hennar mömmu. Hún safnaði englum í lifanda lífi og hefur eflaust ekkert haft á móti þessum:

bloggjuli615_zps5ivkjrzv

Kristrún valdi engilinn með demantshjartað alveg sjálf.

Við kíktum á Dellusafnið á Flateyri og höfðum gaman af. Þar er samansafn hluta sem fólk hefur haft algjöra dellu fyrir að safna í gegnum tíðina. Flestir hlutanna voru á bakvið gler, sem er eins gott því að Kristrún potaði í stórt safn af Pez köllum sem að hrundi niður eins og dóminó með tilheyrandi látum og drama. Við stelpurnar vorum heillengi að raða því upp aftur. Auðvitað var pennasafn þarna og það fyrsta sem ég leitaði eftir var mjög eftirsóttur penni frá Stykkishólmi:

bloggjuli215_zps30ftnkgy

Þegar pennasafnaraæðið stóð sem hæst (in the 90s) vorum við á Bensó (Verslun Gissurar Tryggvasonar) spurð daglega um penna og það endaði með því að við fórum að selja hann á 100 kall (stórgróði alveg). Penninn yljaði mér um hjartarætur og minnti mig á sjö sumurin frábæru sem ég vann á bensínstöðinni í Stykkishólmi með skemmtilegasta fólki í heimi. Svo fann ég Borgó, sem gaf Bensó lítið sem ekkert eftir reyndar. 

Eins og ég sagði áður hitti ég nokkra sem ég þekkti á Flateyri, en engan eins mikið "legend" og sjálfan Óla Popp. Þegar ég heyrði nafn mitt kallað og leit við hélt ég fyrst að Jesús sjálfur væri að kalla mig til sín. Liverpool treyjan studdi þá ályktun:

bloggjuli715_zpsgafyszve

Svo bar ég kennsl á manninn, Hólmarann sem varð sannur Flateyringur og velti upp spurningunni frægu: "Er það hafið eða fjöllin sem að laða mig hér að? Eða...er það kannski fólkið á þessum stað?" Já, gott fólk. Þetta er maðurinn sem samdi þjóðlag Westfirðinga og eitt af mínum uppáhaldslögum. Ég spyr mig oft þessarar spurningar sjálf og hef ekki enn fundið svarið. Eitt er víst að samspil hafsins, fjallanna og mannlífsins hafa spilað sérstaka rullu í gegnum aldirnar. Flateyri mun alltaf laða mig að.

Við kíktum líka á höfuðborg Westfjarða, sjálfan Ísafjarðarbær, sem er stórborg miðað við Flateyri og frekar hættuleg, sko:

bloggjuli915_zps81xnhxj3

Við prófuðum að borða á hinu margrómaða Tjöruhúsi og ég get mælt með því algjörlega 100%. Þvílíkt snilldarkonsept! Hasta la vista, baby.

Eftir dagana köldu en ljúfu á Flateyri keyrðum við sem leið lá á Patró, fæðingarbæ eiginmanns míns. Við droppuðum auðvitað við á besta róló landsins á Þingeyri, prófuðum latté í Simbahöllinni og borðuðum svo í logninu á Bíldudal. Hreyfir nokkurn tímann vind þar? Það var bjart yfir Patró og fínt að gista þar eina nótt. Við fórum til Dóra, frænda Hjartar, og fengum þar ógrynni af klessum (pönnukökum) og prófuðum líka að veiða á bryggjunni. Markmiðið var að sýna börnunum hvernig marhnútur lítur út en við fengum bara þorsk og ufsa. Við töltum upp Tálkna og Hjörtur leit yfir gamla bæinn sinn:

bloggjuli315_zpsjjyqecep

Hann viðurkenndi samt að eini bærinn þar sem honum finnst hann vera að koma heim er Stykkishólmur. Ég er ekki hissa á því. Drengurinn er svo félagslyndur að hann er búinn að kynnast fleiri Hólmurum en ég!

Við sigldum með nýja Baldri yfir Breiðafjörð og líkaði dallurinn nokkuð vel bara. Ég hef svo sem ekki margt að segja frá dvölinni í Hólminum nema að veðrið var mestanpart frekar óspennandi, þó það væri ekkert miðað við fárviðrið fyrir sunnan fjall. Þetta er þriðja heimsóknin í Hólminn þetta sumar og enn hefur ekki verið hægt að sjósetja bátinn okkar út af of mörgum metrum á sekúndu. Þetta er eitthvað alveg nýtt og bara bévítans óheppni. Ekkert hægt að veiða, sem sagt. Við Helga reyndum að dorga á bryggjunni en þar er ekkert að hafa, virðist vera. Hjörtur er alltaf með plan B út af "kitesurfing" sportinu og finnst því vindur vera hið fínasta veður. Hann fór að kætast (kite-ast) rétt hjá mínum æskuslóðum á Ægisgötunni en illa fór nú sjóferð sú. Hann datt og missti brettið frá sér, sem er ekkert óvanalegt. Hann er hins vegar ekki vanur þessum gríðarsterku straumum við tangann sem hrifsuðu brettið frá honum á svipstundu. Hann lét drekann draga sig á land og bjóst við að brettið myndi skila sér fljótlega upp á land vegna þess að vindurinn að landi var mjög sterkur og það var að falla að. Við hjónin gengum fjörurnar með kíki (ekki Kíkí páfagauk í Ævintýrabókum Blyton - hann hefði misst fjaðrirnar) og ekkert sást til brettisins. Þá fékk hann Stjána Lár Djúníor til þess að sigla með sig á ribbara út um allt og leita en ekki sást tangur né tötur af brettinu og þar við situr. Hjörtur á átján önnur bretti en þetta var uppáhalds og kostaði fullt af pjeeening. Svona er nú Breiðafjörðurinn viðsjáll og vill helst engu hlífa.

Fyrir utan brettaleit í norðangarra áttum við bara tjillaðan tíma í Hólminum. Ofur-Ásta og strákarnir hennar 12 kíktu í súpu og körfubolta. Þau gáfust svo upp á Hólminum og leituðu á hlýrri slóðir. Ég heilsaði upp á elsku Maj'ömmu sem bauð upp á dýrindis vöfflur og svo hittist svo vel á að sjálfur eyjajarlinn, Gissur hinn góði, var heima og áttum við Sigrún gott spjall við hann og borðuðum allt súkkulaðið sem til var í húsinu. Kristrún var heima með gubbupest, aldrei þessu vant.

Það var alveg hitabeltisstemmning að mæta aftur í borg óttans eftir Vesturreiðina miklu. Hér hefur veðrið bara verið hið þýðasta og ekki verið mikil löngun í að fara langt frá heimilinu. YR.NO og facebook segja mér reyndar að í Flatey og í Hólminum sé búið að vera sól og blankalogn marga daga í röð, en ég neita auðvitað að trúa því. 

Við stelpurnar höfum fundið okkur verkefni á hverjum degi og erum hvergi nærri hættar. Nauthólsvík, Húsdýragarðurinn og fleiri klassíkerar hafa legið í valnum og eflaust eitthvað margt fleira sem ég er búin að steingleyma akkúrat núna. Hér er nú samt ein sæt úr Húsdýragarðinum af Sigrúnu, Halldóri Ásgeiri og Kristrúnu, teikin it ísí...eins og sagt er á góðri ísl-ensku:

bloggjuli115_zpsjsfssbe9

Já já, svo sé ég á myndum í símanum að við fórum einn daginn í öldusundlaugina á Álftanesi og beint á Árbæjarsafnið á eftir með öldruðum föður mínum. Ungviðið þar var fallegt:

bloggjuli515_zpsnwok3zuj

Svo er Kristrún búin að vera að æfa sig svolítið að hjóla sjálf og tengihjólið er að sjálfsögðu nýtt töluvert fyrir lengri ferðalög. Okkur leiðist ekki, stelpunum.

Ég hef lítið minnst á stóru stelpurnar, enda eru þær nú uppteknar í vinnu og eru minna að stússast með mömmu sinni. Ein býr náttúrulega í útlöndum og bráðum bætist önnur við, sjálfur frumburðurinn. 7. ágúst er stóri dagurinn sem að ég er búin að kvíða í ár. Nú er bara að koma að þessu. Sjittsjittsjitt...! Björg er sem betur fer búin að fá upplýsingar um fjölskyldu og samastað sem henni líst alveg bærilega á. Hún verður í ellefu þúsund manna fjallaþorpi, skammt frá höfuðborginni (San José). Foreldrar hennar eru fæddir 1946 og 1950 þannig að þeir gætu í rauninni verið eins og afi hennar og amma. Þær eiga eina 28 ára dóttur sem er nýgift og þar af leiðandi nýflutt að heiman, eins og kaþólskra er siður. Herbergið hennar losnaði og Björg fær að vera þar, í eitt ár. Eitt ár? OMG! Jæja jæja, ég verð að róa mig. Við erum búin að vera í samskiptum við dótturina sem er mjög spennt fyrir að fá Björgu inn í líf foreldra hennar. Björg skrifar henni á ensku og setur allt klabbið inn á google translate sem þýðir yfir á einhvers konar spænsku. "Systir" hennar gerir slíkt hið sama, bara frá spænsku yfir á ensku, og allt skilst þetta nú. Skólinn hennar er í 3 km fjarlægð en því miður er ekki merkilega skólahljómsveit þar að finna. Björg ætlar samt að borga undir básúnuna og vonar svo hið besta.

Ef ég leyfi mér að hugsa of mikið um að hún sé að fara verð ég virkilega niðurdregin, þannig að ég reyni bara að hafa nóg fyrir stafni og ýta hugsununum burt. Það tekst ekki alltaf. Björg finnur fyrir því sama og greinilega mikill tilfinningarússíbani í gangi. Þetta er nú einu sinni frumburður minn, elsku barnið. Stærsta stund lífs míns var þegar hún fæddist og ég fékk svarið við tilgangi lífsins. Þetta var svo ótrúleg og óvænt hugljómun að engin orð geta lýst þeirri upplifun. Svo er hún að fara frá mér í svo allt aðra menningu, hvar femínískt uppeldið gæti orðið henni til trafala...en þó vonandi til gagns. Hún verður 17 ára 27. ágúst þannig að þegar hún kemur til baka er svo stutt í að hún verði 18 ára og sjálfráða. Ég óttast að kveðja barnið mitt og hitta dóttur mína fullorðna ári seinna. Samt fagna ég því líka. Heimskt er heimaalið barn. Ég vil að dætur mínar allar upplifi að búa annars staðar og öðlast víðsýni, læra ný tungumál, kynnast nýrri menningu, aðgát, nærgætni, fordómaleysi...ég gæti sullað fleiri hugtökum hérna á blað en "bottomline" er...að ég vildi óska þess að hún væri ekki að fara og gæti alltaf verið heima hjá mömmu sín! En samt ekki, sko...  Hér er Björg, voðalega áhyggjulaus eitthvað og ekkert að hugsa um hvað mamma hennar þjáist:

bloggjuli415_zpsmhooj646

Jæja ókey, hún þjáist líka. En þetta verður góð reynsla. Púff...ætla ekki að byrja aftur.

Ég var eitthvað að tala um að ég væri dugleg að finna mér verkefni í sumarfríinu. Guðrún vinkona mín stakk upp á einu slíku. Hún skoraði sem sagt á mig að ganga með henni þrisvar upp á Esjuna og þá fengi ég "Muahahaha" Snickers súkkulaði í verðlaun. Múahahaha er auðvitað einkennismerki mitt, sérstaklega í netheimum. Ég tók auðvitað áskoruninni og við Kilimanjarofararnir (hvað erum mörg "r" í því?) notuðum þetta sem æfingu í gær. Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk mjög vel. Lilja og Guðrún eru svo skemmtilegar að ég gleymdi því alveg að þetta ætti að vera eitthvert puð. Verst finnst mér alltaf að fara niður fjöll og hélt á tímabili að ég myndi missa tánögl, en allt er heilt núna daginn eftir og það eina sem amar að mér eru harðsperrur framan á lærum. Smá harðsperrur í morgun en þær hafa aukist með deginum og núna í kvöld finn ég að morgundagurinn verður erfiður! En það er bara gott og gaman og ég væri svo sannarlega til í að gera þetta aftur. 

Meira var það ekki í bili, enda orðið assgotans nóg. Ætla að fara að sofa og reyna ekki að sakna.

Luv

Sóla MÚAHAHAHAHAHAHAHAHA!

bloggjuli1115_zps2akj4qrs

 


Herregud! Rea!

Aldrei hafa liðið fleiri vikur á milli bloggfærslna en nú, þrátt fyrir að ég hafi haft ágætis tíma aflögu og frá mörgu að segja undanfarið. Video killed the radio star. Facebook killed the blog star. En ég kem alltaf, alltaf aftur...rétt eins og Mosdal.

Ætli ég vindi mér ekki beint í að segja frá því að núna er það staðfest að ég mun reyna að ná toppi Kilimanjaro í Tanzaníu 2. janúar 2016. Við kveðjum Ísland 27. desember og hefjum gönguna 29. desember. Frumkvæðið að þessu uppátæki átti Lilja vinkona mín og samstarfskona sem spurði mig og Guðrúnu, sem einnig er vinkona mín og samstarfskona (þetta tvennt fer mjög oft saman), hvort við værum ekki til í að klífa þetta fjall með henni. Þessi spurning var borin upp á jólahlaðborði starfsmanna Borgarholtsskóla, ca. korter í jólafrí og allir í stuði. Við tókum aldeilis vel í þetta og þá varð bara ekki aftur snúið. Lilja er 67 ára maraþonhlaupari og fjallið er á fötulistanum hennar. Nýjustu rannsóknir benda á að við 46 ára aldur verði konur miðaldra, engar líkur á frekari starfsframa og að annað hvort muni þær rétta úr kútnum og finna hamingju í öðrum hlutum eða fara til hormónahelvítis og dúsa þar til æviloka. Lilja virðist hafa farið vel út úr þessu ævintýri öllu saman og þar sem við Guðrún sökkvum ört niður á aldursbotninn er kominn tími til þess að elta jakkaföt (follow suit) Lilju til þess að eiga hugsanlega afturkvæmt í Glaðheima. Guðrún tekur með sér eiginmann (sem er hennar eigin) og Lilja sína bestu vinkonu (fyrir utan okkur, auðvitað). 15-20 manns deyja á ári hverju úr háfjallaveiki og annarri móðursýki á Kilimanjaro þannig að ef ég blogga ekkert á nýju ári er ég að syrgja vini mína og samstarfskonur.

blogg10_zpsczila6fj

 

En yfir í aðra sálma. Aðaltúr þessa árs er að baki og þarfnast sérstakrar umfjöllunar. Stúre Skandinavíske túren var einstaklega vel heppnaður og verður eflaust seint toppaður (nema á Kilimanjaro, pun intended). Hefst nú frásögnin:

Dagur 1: Dagur eitt verður alltaf Dagur Hjartarson (stórskáld og ofurkennari) fyrir mér, en það er önnur saga. Á degi 1 flugum við til Köben og komum okkur fyrir í fínni íbúð við garð kóngsins, hvaðan stutt var að labba á Strikið.

Dagur 2: Eintóm hamingja! Við eyddum öllum deginum í tívolíinu í Kaupmannahöfn, fyrsta tívolíinu sem stelpurnar hafa farið. Stelpurnar stækkuðu um helming og Kristrún hætti að vera hrædd við rúllustiga og fallturninn í Húsdýragarðinum.

Dagar 3-5: Ókum alla leið til Lúllu systur í Kirkenær í Noregi. Þar gistum við í 3 nætur og nutum góðs atlætis systur minnar, sem býr ein með syni sínum í 400 fermetra prestsbústað. Ég naut þess að láta mýflugurnar úr Glommu narta í nefið á mér á meðan litlu stelpurnar kysstu og kjössuðu 5 kettlinga og Mílu, mömmu þeirra. Norska fjölskyldan fjölmennti líka og úr varð hið besta fjölskylduboð undir sætri sólinni. Hér sést fjölskyldan fagra:

blogg1_zpspxuimftf

Dagar 6-13: Aftur settist Hjörtur undir stýri og ók með okkur alla leið til Stokkhólms. Við fórum samtals 2200 kílómetra á bílaleigubílnum þannig að seta í bíl var þó nokkur. Ferðin hefði getað orðið stelpunum erfið ef ekki hefði verið fyrir i-padinn góða sem stytti þeim endalaust stundir. Ég greip í góðar bókmenntir eða leyfði tilbreytingalausu og trjáskreyttu landslaginu að líða hjá. Faðir minn starði köldum augum út í tómið. Djók.

Við fengum góðar móttökur hjá innfæddum í Stokkhólmi, þ.e. Hörpu sætu og Jakob krúttuling. Helga og prinsessan ófædda voru líka mættar á staðinn þannig að það má segja að öll fjölskyldan hafi verið saman komin nema aumingja Björg, sem var á Spáni með skólahljómsveitinni. Það var reyndar besta trip sem stelpan hefur farið í þannig að ég held að hún hafi ekkert saknað okkar eins mikið og við söknuðum hennar. Anyways, Harpa sýndi okkur það besta sem Stokkhólmur hefur upp á að bjóða, sem er þó nokkuð.

Fyrir það fyrsta kom hún okkur fyrir í frábærri íbúð í Södermalm þar sem miðbærinn og strönd voru í göngufæri, jafnvel fyrir stutta fimm ára fætur. Ferðin átti fyrst og fremst að vera barnvæn og hún var það svo sannarlega. Stelpurnar styrktust og efldust í þessi ferð, sáu heiminn og komu lífsreyndari heim. Hér erum við í dýragarðinum:

blogg2_zpsjdrwef1v

Þarna afrekuðum við helst að klappa risakönguló. Kristrún lét reyndar nægja að klappa snák og sagði að hann hefði verið viðkomu eins og plast.

Þegar það var skýjað fórum við á Tæknisafnið og í tívolí, en þegar sólin skein var farið í lautarferð á ströndina. Jakob var sá alharðasti í vatninu, svona oftast nær. Ég ætla ekki að birta myndina af honum skelfingu lostnum í vatninu. Hjörtur afi sér um alla svoleiðis vitleysu. Hér er barnið alsælt með móður sinni á ströndinni inni í miðri borg og rak ekki upp org:

blogg3_zpseztr90ye

Veðrið var mjög gott allan tímann, stundum of gott. Síðustu dagarnir voru mjög heitir og ég átti nokkrar erfiðar nætur með stærsta moskítobit sem ég hef nokkurn tímann fengið. Hef ég þó fengið þau mörg allsvakaleg. Ég er mikill Svíþjóðaraðdáandi en fagnaði þó svala íslenska sumarloftinu þegar heim var komið. Fylltist eiginlega mikilli ættjarðarást þegar ég fann gróðurilminn og hjólaði í gegnum Elliðaárdalinn, fullan af ilmandi lúpínu og kerfli. Dásemd! En við vorum að tala um Svíþjóð. Hér er ein sæt mynd af yngstu, næstyngstu og næstelstu, síðasta daginn í Svíþjóð:

blogg5_zpsyyz0vdrl

Helga gat ekki verið með okkur því að hún var á fullu að versla í H og M fyrir vini sína á Íslandi. Ég keypti mér nú bara eitt stykki sólgleraugu á þúsund kall í þessari ferð og eitthvað smotterí fyrir stelpurnar. Ég er líka svo praktískt að ég veit að sumartískan er bara bóla og mun skynsamlegra að kaupa inn á haustin, helst eitthvað svart og sykurlaust.

Eftir Stokkhólm keyrðum við til Vimmerby, gistum eina nótt í sumarbústað og vorum að kafna úr hita. Bústaðurinn var við vatn og ég var orðin svo hrædd við að fá fleiri flugnabit að ekki mátti opna neinn glugga. Það er deginum ljósara að ég er farin að hafa örlitlar áhyggjur af Tanzaníuferðinni! En við vorum mætt á slaginu 10 í Veröld Astrid Lindgren til þess að skoða Línu, Emil og alla hina karakterana. Við vorum búnar að undirbúa stelpurnar nokkuð vel í ferðinni með því að láta þær horfa á mynd um Emil, Bróður minn Ljónshjarta, Ronju Ræningjadóttur, Kalla á þakinu og Madditt. Garðurinn var því þó nokkuð spennandi fyrir þær þó að hann kæmist ekki í hálfkvisti við tívolíin tvö. Ég var þarna í Vimmerby fyrir 13 árum með Björgu og sagan endurtók sig því að sólin og hitinn voru að fara með okkur. Það var því ágætt að við vorum ekki búin að áætla meiri tíma fyrir garðinn. Við þurftum að vera mætt á flugvöllinn í Kaupmannahöfn klukkan 19 og skila af okkur bílaleigubílnum. Emil og Ída voru því ánægð að fá að stíga inn í loftkældan bílinn og leika sér með ipadinn.

blogg6_zpsjljmnold

 

 

 

 

 

 

 

 

 Fluginu seinkaði um 3 klukkutíma svo að við lentum seint og síðar meir en allt gekk vel, eins og allur túrinn sjálfur í hnotskurn. Ég gef þessari ferð 5 stjörnur af 5 mögulegum!

Nú er vika síðan við komum og á morgun förum við aftur í ferðalag: Flateyri - Patró - Stykkis. Það er orðið ansi langt síðan við fórum í Hólminn og ég hlakka til að eiga nokkra góða daga þar með fjölskyldunni. Við gátum ekki sjósett í vor vegna veðurs en ég vona að núna verði logn og veiðiveður. Mig er farið að klæja í fingurna! Planið er reyndar að taka með okkur veiðarfæri til þess að nota á bryggjunni á Flateyri. Þar er flóran oft mun fjölbreyttari en í Breiðafirðinum. Ekki bara þorskur og marhnútur heldur koli, ufsi og jafnvel einstaka síungur silungur. Verst að veðurspáin er ekki mjög spennandi, en við því er ekkert að gera.

Síðasta vika er búin að vera svolítið skrítin. Sigrún fór í sínar fyrstu sumarbúðir á mánudaginn og kemur ekki aftur fyrr en í dag (sunnudag). Hún hefur aldrei verið í burtu frá mér svona lengi. Ég fæ fréttir á netinu á hverjum degi um það sem stelpurnar eru að gera og mér sýnist á öllu að þær eigi ekki eina dauða stund, nema rétt yfir blánóttina. Ég var búin að biðja Sigrúnu um að vera með "thumbs up" á öllum myndum ef henni fyndist gaman í sumarbúðunum. Henni fannst þetta frekar asnaleg hugmynd en á hverri einustu mynd sem ég sé af henni er hún með þumalfingur upp í loftið, helst báða! Það gleður mitt gamla móðurhjarta.

Kristrún vildi endilega fara á leikskólann síðustu fjóra dagana og fékk það auðvitað. Hún kvaddi leikskólann síðasta fimmtudag og það var afskaplega tregafull stund fyrir mig, vitandi það að nú ætti ég ekki fleiri leikskólabörn. I'm getting old! Ég ætla samt ekki að skella í annað, sko. Maður verður nú að hafa tíma til þess að lesa góðar bækur áður en sjónin fer að daprast of mikið.

Ég nýtti barnlausa tímann ágætlega. Hitti Margréti vinkonu mína, sem býr í Svíþjóð í hádegismat. Við sjáumst víst ekki aftur fyrr en eftir ár því að hún kemur aftur um áramótin og þá verð ég víst úti í Afríku að reyna að paufast upp á eitthvað fjall, útbitin af moskító og með lungun full af þunnu lofti....eða eitthvað. Ég plataði einmitt Björgu upp á Esjuna með mér síðasta þriðjudag. Hún var ekkert sérstaklega ræðin. Lilja hafði svo samband við mig og plataði mig aftur upp á Esjuna daginn eftir. Það var miklu skemmtilegra, enda hafði Lilja frá mörgu að segja og Esjan var dásamleg í sólskininu. Hér er sem sagt Kilimanjarokonan sjálf:  

blogg7_zpslosvkdmg

Hafiði sér þær flottari? Nei, ekki ég heldur. Núbb...svo fór ég út að borða með Sólveigu vinkonu í tilefni þess að hún átti afmæli fyrir stuttu. Að endingu bauð ég sjálfri Ástu ofurkonu í kaffi og með því, þannig að húsmæðraorlofið var vel nýtt í "catching up". 

Við Kristrún höfum nýtt tengihjólið vel og hjólað út um allar trissur. Hún býður spennt eftir að fá Sigrúnu heim í dag, enda búin að sakna hennar óhemju mikið.

Ég er búin að reyna að vera smá með elsku frumburðinum mínum í vikunni því að nú styttist aldeilis í skiptinemadvölina í Costa Rica. Minnstu ekki á það ógrátandi! Esjan var ekki "success" en við áttum notalega stund í spa og dinner síðasta föstudagskvöld. Enn er stelpan ekki komin með upplýsingar um fjölskyldu eða dvalarstað og það eina sem við vitum er að hún flýgur út 7. ágúst í gegnum USA. Svo kemur hún heim 11. júlí á næsta ári! Ég er búin að fá heilt ár til þess að aðlagast þeirri hugsun að ég mun ekki sjá barnið mitt í rúmlega 11 mánuði. Ég reyni að sjá það jákvæða í stöðunni, s.s. að þessi skiptinemadvöl muni þroska og styrkja barnið mitt óhemju mikið og ég ætti að vera þakklát fyrir að hún hafi hugrekki til þess að gera þetta. Og ég er þakklát. Nú, svo eru það praktísku hliðarnar eins og minni þvottur, minni áhyggjur af því hvað barnið er að gera á kvöldin (out of my hands)...og ég get nýtt herbergið hennar sem vinnuaðstöðu. Mig hefur lengi dreymt um að vinna við skrifborð í lokuðu herbergi. Svo nýtist herbergið auðvitað fyrir Helgu og litla krílið ef það verður kannski kveisubarn og afi og amma verða að taka kvöld og næturvaktir til þess að létta á einstæðu móðurinni. Við vonum nú að þetta verði eitt af þeim undrabörnum sem bara sefur og sefur svo að Helga geti haldið áfram í náminu. Ég þekki ekki slík ungabörn persónulega, en hef heyrt sögur af þeim. Þjóðsögur kannski?

En nú er kominn tími til þess að pakka fyrir Westurferð. Ef Guð lofar verð ég duglegri að tjá mig hér á næstunni, til dæmis um hvernig tilfinning það er að vera Bjargarlaus, undirbúa sig fyrir Kilimanjaroferð, kenna ensku 103 miðað við nýjustu námsskrá, vera viðstödd fæðingu nýjasta barnabarnsins...svei mér þá ef ég hef bara alls engan tíma til þess að verða miðaldra!

Ég segi bara "kwaheri" sem þýðir "bless" á swahili. 

Sóla (bráðum) Bjargarlausa

 


Sumarbyrjun sæt og ljúf....

Ég get ekki sagt annað en að sumarið hafi byrjað vel. Kaldur en bjartur maímánuður, allir við hestaheilsu og ég legg fyrir prófin í stað þess að taka þau. Veðrið í dag og næstu daga er kannski ekkert til þess að hrópa húrra fyrir, en ég hangi þá bara inni með sól í sinni.

Sumardagurinn fyrsti var með þeim betri. Stelpurnar fengu einhverjar fatalufsur og sólgleraugu í sumargjöf, ásamt smá nammi til þess að vega upp á móti vonbrigðunum. Múha! 

IMG_2448_zpssylgaygy

 

Frumburðurinn festist ekki á filmu svona snemma morguns. Hún var samt orðin ótrúlega klár í slaginn um hádegisbil og spilaði skothelda marsa (í maí?) í sumardagsgöngu Kópavogs eins og löng hefð er fyrir. Það er ekki laust við að litlu systur hennar hafi fundið til stolts og aðdáunar þegar þær sáu einkennisklædda systur sína munda stóra hljóðfærið sitt. Sigrún miðjubarn hafði töluverðar áhyggjur af því hvort hún ætti, þegar fram líða stundir, að marsera með skátunum eða lúðrasveitinni. Því var fljótsvarað af hálfu móðurinnar: Það geta flestir gengið í takt, en færri spilað á básúnu í leiðinni. Hún verður ómissandi hlekkur í hljóðafærakeðju SK.

11059539_10153441863670579_5384291397794512038_n_zpsdz46b3fg

Grísirnir þrír í aldursröð á fyrsta degi sumars.

Maímánuður er alltaf góður, sama hvernig veðrið er. Það er þvílíkur munur að þurfa ekki að vera að undirbúa kennslu og fara yfir verkefni öll kvöld. Hún Sigrún mín sykurpúði (9 ára) er búin að spyrja mig í ófá skiptin í vetur af hverju ég vilji endilega vera kennari og vinna svona mikið á kvöldin. Krakkagreyjunum mínum er hent inn í rúm upp úr átta svo að ég fái frið og ró á heimilinu til þess að vinna á kvöldin, en ólíkt systur sinni litlu á hún erfitt með að sofna svona snemma og er aðeins á rjátli til klukkan rúmlega 10 stundum, eftir að vera búin að lesa eða föndra inni í herbergi. Unglingurinn kemur ekki út úr sínu herbergi nema til þess að róta í nammiskápnum eða ísskápnum, eins og vera ber. Hún hefur sinn síma, sinn lærdóm og les líka alveg slatta af bókmenntum sem mamma hennir mælir með. Miðjubarnið er þó mesti lestrarhesturinn um þessar mundir og er að verða búin með síðustu (sjöundu) bókina um Harry Potter. Þessar bækur eru sko ekkert léttmeti og sú lengsta er 747 blaðsíður! 5 ára krílið er ekki komin alveg eins langt, eins og sést á þessum samanburði:

11182110_10153441863655579_2396164249485687992_n_zpsnwafiulq

En hún er þokkalega læs stelpan og klár í slaginn í haust þegar hún mætir í fyrsta bekk Snælandsskóla. Sem sagt, það sem af er maímánuði hef ég getað sest upp í rúm með bók á hverju kvöldi, án samviskubits, horft á fréttir af og til og jafnvel einstaka kvikmynd með ástkærum eiginmanni. Ég sé þó fram á yfirvinnu í kvöld þar sem ég á von á 50 nemendum í próf eftir hádegi. En mér hefur alltaf þótt ótrúlega gaman að fara yfir próf. Það er svo spennandi að sjá hver lokaútkoman verður. Að sjálfsögðu erum við nokkrar í deildinni líka að vinna í að uppfæra námsbækurnar okkar og ég stefni á að vera búin með minn hluta fyrir Skandinavíureisuna 19. júní n.k. Meira um það síðar.

Hvað hefur annað á daga Daltúna drifið? Mér er ofarlega í huga lyktin og út(úr)gangurinn þegar ég kom niður í eldhús síðasta miðvikudag. Þá var Gunni Bowie búinn að kúka og gubba út um allt hús. Hann var þó svo tillitssamur að gera þetta allt saman á gólfið þannig að ég var ekki lengi að redda málum. Aumingja karlinn hafði verið svæfður daginn áður til þess að hægt væri að raka á honum feldinn. Hann var kominn með klassíska köggla, alveg eins og síðasta vor. Hann hefur greinilega ekki þolað svæfinguna mjög vel og var heilan sólarhring að jafna sig á ósköpunum. Góðu fréttirnar eru þær að feldurinn á Kisa Jackson var fullkominn og hann þurfti bara hefðbundna bólusetningu. En það er déskoti dýrt að fara með þá til dýralæknis!

Svo er vert að minnast á góða gesti sem gist hafa í túninu heima. Fyrst ber að nefna Bjössabörn, sem áttu hér góða nótt á meðan ég, Bjössi bró, Erna hró, Inga yo og Láki ló fórum á Vestfirðingaball. Það var nú aðallega gert til þess að hitta á Sigga Björns, móðurbróður okkar, sem stóð að mestu leyti fyrir herlegheitunum. Áhugaverð samkoma og aldrei kyndir maður of sjaldan undir Westfjarðagenunum glæsilegu. Anyways, hér eru nokkur Westfirzk kríli:

IMG_2441_zps2yieiaxd

Óli, Erna, Diddú og Kiddú. Sú síðastnefnda er á ákveðnu skeiði þar sem ALLAR myndir eru grettumyndir. Vona að þetta verði hætt fyrir fermingarmyndatökurnar. Eða ekki. Gæti orðið skemmtilega öðruvísi. Nýja testamentið og gretta. Hugsanlega mjög viðeigandi ef við hugsum um þá staðreynd að enn er prestum í íslensku þjóðkirkjunni frjálst að hafa fordóma gagnvart samkynhneigðum og neita að gefa þá saman í heilagt hjónaband. Það er spurning um að segja sig úr kirkjunni en halda áfram að trúa á algóðan guð? Það má alveg.

En ég var að tala um næturgesti. Í vikunni gistu hjá okkur Norðlendingarnir Siddi rakari og Irma bakari. Sú síðarnefnda er systurdóttir mín. Þau eru núna á Evrópumeistaramótinu í fitness og Siddi gerði sér lítið fyrir og hreppti annað sætið í gær! Irma á að keppa á laugardaginn og það verður spennandi að sjá hvort að hún eigi einhvern séns í sterkustu konur Evrópu, 18 ára krakkinn. Þar reynir svo sannarlega á Westfirzku genin. Ekki má gleyma Hjartarlegg, sem á líka ættir að rekja til Westfjarða. Það eru börn mágkonu minnar, hress og kát, sem gistu hjá okkur um síðustu helgi:

IMG_2606_zpslyquwmnf

Þarna eru Bríet, Emma, Ásgeir, Sigrún og Grepputrýnið að skoða gamlar myndir í tölvunni hans Hjössa feita. Af myndunum að dæma er Kristrún ófeiminn óþekktarangi en það er nú öðru nær. Hún er ennþá frekar feimin og hefur verið mjög róleg og meðfærileg frá fæðingu. Draumabarn aldraðar ungamóður. Við fórum í síðasta foreldraviðtalið í leikskólanum á dögunum og þar kom fram að hún væri afskaplega ljúf í skapi og þægileg, væri að eflast, en samt mjög viðkvæm. Það síðasta hlýtur hún að hafa frá föður sínum, bréfberanum. Hann hringdi alltaf tvisvar.

Sigrún er búin að vera í 8 tómstundum í vetur og telur sig jafnvel hafa tíma til þess að bæta einhverju við, svona meðfram bóklestri á kvöldin. Gítarinn, textíllinn, dansinn, Leynileikhúsið og blakið eru tómstundir sem staðsettar eru í eða við Snælandsskóla og svo skemmtilega vill til að Snælandsskóli er rétt hjá heimili okkar. Annars myndi dæmið ekki ganga upp, því að hverjum finnst gaman að skutla (öðrum en Ástu)? Ég er reyndar með þétt net foreldra á bak við mig sem skiptir á milli sín skutli í skátana, skólahljómsveitina og básúnutímana. Það er alveg ljóst að ég mun ekki flytja úr þessu hverfi á meðan ég er með börn í grunnskóla. Nema að Ásta flytji, sem hún gerir auðvitað ekki. Sigrún var einmitt að keppa í blaki um síðustu helgi með HK og það gekk bara ágætlega. Hér er fín mynd af liðinu:

IMG_2587_zpstjv1ndhi

 

Ég ætla svo að hvetja Kristrúnu til þess að feta sömu slóðir, þ.e. velja sér tómstundir í næsta nágrenni til þess að lágmarka skutlið. Þær eru mjög líkar, systurnar. Forðast háværa boltaleiki og of mikið "action" og eru að því leyti gjörólíkar móður sinni sem elskaði fótbolta út af lífinu var alltaf að slást við "hina" strákana. Ég var samt stillt og góð, nema í fáeinum undantekningartilfellum. Pabbi þeirra er svokallaður "antisportisti" en það er samt svo mikið rangnefni því að hann er mjög öflugur í öllu adrenalínsporti, s.s. mótorkrossi, á skíðum og auðvitað í "kitesurfing" eða mardrekaflugi. Og bréfburði auðvitað.

Fyrst ég er að tala um stelpur þá finnst mér auðvitað tilvalið að nefna það að hún Helga Rún okkar Hjartardóttir, elsta stelpan í hópnum, á von á STELPU! Ég varð ekkert lítið glöð þegar niðurstaðan lá ljós fyrir síðasta miðvikudag (eftir að ég var búin að þrífa upp Gunnakúk). Við eigum hann Jakob okkar sem er æðislegur og núna fáum við eina litla Helgu Rún. Stelpurnar mínar yngstu þykja nefnilega minna svolítið á Helgu (enda er Helga eins og snýtt út úr nösunum á föður sínum) þannig að á pervertískan hátt er ég að vonast til þess að stelpan hennar Helgu líkist stelpunum mínum. Ég er hætt barneignum en vilja ekki allar ömmur sjá eitthvað úr sínum börnum í barnabörnunum? Nú? Ekki? Jæja, þá er ég bara ein um það. Mér finnst til dæmis mjög skemmtilegt hvað Jakob er fallega líkur móður sinni en ég lofa að verða ekki fyrir vonbrigðum ef að ófædda krílulínan líkist föður sínum alfarið. Ef hún fær rólegt geðslag móður sinnar er ég sátt. Ef hún fær ekki rólegt geðslag móður sinnar lofa ég samt að vera sátt. Úff, þetta fer að verða flókið þannig að það er betra að hætta þessu bulli.

Jæja, nú verð ég að fara að enda þetta og kíkja fljótlega á nemendur mína sem ættu núna að vera nýbúnir að opna 303 prófið frá mér. Veturinn er búinn að vera góður og ég er nokkuð sátt við mitt framlag. Um næstu helgi útskrifast einstakur hópur nemenda sem hafa allt sem að kennari getur látið sig dreyma um: Gáfur, metnað, áhuga, samskiptagreind, kímnigáfu, sköpunargáfu, nánd, umhyggju... Því miður get ég ekki verið viðstödd útskriftina þeirra af því að hún ber upp á um Hvítasunnuna og þá ætlar fjölskyldan að njóta lífsins í Hólminum. Já, ég gleymdi að tala um Hólminn. Yyyyyyyyndislegt að koma þangað aftur! En nú þarf ég að hætta og sinna nemendum mínum í prófinu.

Au revoir

Miss Olafsdottir


Páskar og pain, Manjaro og Maine

Jú, góðan daginn, Sólrún á Suðurhæðum hér. Um leið og ég flutti hingað í Daltúnið fyrir ekki svo löngu varð ég ákveðin í því að fá setja skilti á húsið merkt "Suðurhæðir." Hugsanlega hápunktur narsissismans? "Þú ert yndið mitt yngsta og besta" var mikið uppáhaldslag mömmu og 3. maí (á afmælisdegi mömmu) ár hvert mátti heyra "þú ert Sólrún á Suðurhæðum..." hljóma í síðasta lagi fyrir hádegisfréttir á Rás 1, þökk sé stjúpföður mínum. Ef þetta er ekki rómantík...

Fyrst ég er farin að minnast á afmæli er ekki óvitlaust að birta eina nýlega mynd af Kisa Jackson, sem varð 6 ára 1. apríl sl. og Gunna Bowie, "litla" bróður hans sem er bara eins árs ennþá. Kisi er þessi jafneygði þarna til vinstri. Gunni flokkast sem "odd-eyed" Maine Coon. Myndarlegir báðir tveir, eins og allt sem loðið er.

IMG_2078_zps1rc34scl

 

Hitt afmælisbarnið er auðvitað aprílgabbið hún Annie Wilkes, aka Ásta Laufey ofurkona. Margt er líkt með skiltum, sérstaklega umferðarskiltum, en fátt eiga afmælisbörnin sameiginlegt nema að vera í miklu uppáhaldi hjá Suðurhæðasjomlunni. Kisi er frekar rólegur og félagsfælinn en Ásta er frekar óróleg og félagsfíkin. Ég fann gamla mynd af okkur stöllum síðan úr skútuferðinni frægu, skellti henni á afmæliskort og Ásta hefur bara ekki slitið augun af henni síðan:

Kroacuteatiacutea%20091_zpsbqavr1r7I'm Ásta the sailor man! Smá Stjána bláa fílingur í munnsvip Ástu, en hvílið ykkur fullvissuð (rest assured), Ásta er ekki að sjúga píputroð, heldur saltstöng af króatískum uppruna.

Páskar á Akureyri er næsta mál á dagskrá. Við fórum á miðvikudegi norður og notuðum svo páskadag til þess að ferðast til baka. Eins og vanalega missti ég af öllum kennarabústöðum en eftir krókaleiðum fundum við smá bústað á Sílastöðum, hvar við holuðum 4 prinsessum (sendibílstjórum...einkabrandari) í tvö rúm. Kóngur og drottning fengu prívatrekkju en eldri dætur konungs kvörtuðu sáran yfir hrotum þess fyrrnefnda og varð ekki svefnsamt. Drottning kaus að þreyja þorrann fram að góu (páskaeggi), enda með hátæknibúnað frá Bosch til þess að þola hvaða drunur sem er.

Við fengum fullkomið skíðaveður á skírdag, sól og frostkalt logn og bara ágætis veður líka á föstudaginn langa. Miðjubarnið fór í skíðaskóla frá 10-14 fyrri daginn og renndi sér svo með vinkonu sinni þangað til fjallinu var lokað. Henni fannst ekki eins gaman daginn eftir þegar hún og pabbi hennar þurftu að bíða í 40 mínútur eftir að komast í stólalyftuna. Ég og örverpið höfðum það ágætt á töfrateppinu. Ég gerði misheppnaða tilraun til þess að setja hana í skíðaskóla, en hún vildi bara vera hjá "mömmu sín." Við fórum nokkrar ferðir með hana í diskalyftuna en það var svolítið bras. Niðurleiðin gekk vel en uppleiðin var meira svona niður á við. Reynum aftur að ári!

Á kvöldin var svo spiluð félagsvist, spjallað um heima og geima og svo sagði húsfaðirinn sögur úr sveitinni á meðan dæturnar og eiginkonan veltust um af hlátri. Nei nei, þetta var auðvitað ekki svona. Kommon...það er árið 2015:

IMG_2396_zps3mbnlpfu

Helga, Jóla og Böddey eitthvað að símast og Kiddú og Diddú í paddanum. Hjörtur stóð upp frá tölvunni til þess að taka myndina.

En þetta var bara ljúf ferð. Ég skokkaði um sveitir Norðurlands, við fórum í Hrafnagilslaug í BRJÁLUÐU veðri, gúffuðum í okkur karamellum í jólahúsinu, heimsóttum Hof, fengum okkur ís (EKKI Brynju auðvitað) og fórum í matarboð. Alltaf yndislegt að komast aðeins út úr sollinum og anda að sér norðlenska vorinu.

Svo kláraðist páskafríið áður en fiskur náði að draga andann, blár apríl rann upp og ég tók mynd af því tilefni:

IMG_2413_zps7og4ob6p

Ég gleymdi bara að henda henni inn á facebook á degi einhverfu. Svona er þetta þegar fína Canon vélin er ekki beintengd við alnetið. Retro.

Eitthvað var ég að tala um pain í fyrirsögninni og verð að standa við það. Haldiði að hægra hnéið sé ekki bara hálffrosið? Nú hef ég ekkert getað hlaupið í tvær vikur, bara af því að hnéið tók upp á því að verða pinnstíft og láta eins og asni. Ég sem var svo glöð yfir að hafa þokkaleg tök á verknum í vinstri mjöðminni og var eiginlega búin að komast að þeirri niðurstöðu að það væri betra að hlaupa en ekki. Góðu fréttirnar eru þær að ef ég geri nákvæmlega ekki neitt skánar verkurinn. Slæmu fréttirnar eru þær að starf mitt innan og utan heimilis býður ekki upp á kyrrsetu, nema að ég hrífist af þvottafjöllum og leikföngum á víð og dreif. Svo hefði ég líka getað sleppt þessu tabata í morgun. Sagt er að bjór og íbúfen lagi allt, nema kannski magasár, þannig að um næstu helgi leggst ég í kör með kippu af Heineken og 50-saman-í-pakka af íbúfen. Djók. En tölum um ALVÖRU sársauka...

Hún séra Lúlla, systir mín, er alltaf að lenda í einhverju skemmtilegu. Hún lenti fyrir stuttu í alvarlegum árekstri, rústaði bílnum og er enn að glíma við doða í höfði og verki í hálsi og hrygg. En gamla bítur á jaxlinn enda nývígð sem sóknarprestur í Noregi. Svo fór hún að finna fyrir miklum kviðverkjum, fór á spítalann en var send heim sem "hysterisk" eins og svo margar konur hafa lent í. Verkirnir og hitinn fóru þó stöðugt versnandi og eftir hvatningu frá vinum fór hún aftur á sama spítala. Læknarnir enduðu á því að skera hana upp frá bringubeini og niður í nára til þess að finna meinið. Það mátti ekki miklu muna - miklar garnaflækjur og vesen og ristillinn hefði líklega sprungið innan tíðar. Ég hef séð myndir af skurðinum og get varla ímyndað mér hvað systir mín var að ganga í gegnum. Hún er komin heim núna og er að jafna sig smátt og smátt, vonandi. Held ég hætti að kvarta yfir verk í hné.

Jamm jamm...alltaf bullandi félagslíf í gangi hjá mér, svo að við förum yfir í aðra og léttari sálma. Mér nægir að eiga félagslíf í vinnunni, ef ég á að segja eins og er, enda hef ég samskipti við hátt í 100 manns á dag á einn eða annan hátt, en svo þarf maður nú að hitta aðra af og til. Ég er mjög langt frá því að vera haldin félagsfíkn, en það getur oft verið notalegt að bjóða vinum og fjölskyldu í mat. Ég ætlaði að henda inn góðri mynd af Doktor Ingibjörgu og Hörpu frænku hérna, en hún kom greinilega ekki inn og ég nenni ekki að leita að henni núna. Þær voru sem sagt í heimsókn hjá mér rétt fyrir páskafrí.

Síðasta matarboð var bara núna á laugardaginn og þá komu hinir sívinsælu gestir Svava mágkona frá Víðigerði með alla sína hirð og hund, ásamt ömmu og afa (dætranna) í Mosó. Jú, auðvitað var Óli afi þarna líka....döö! Hérna er sæta fólkið að borða eitthvað gott:

IMG_2421_zpsxjwdlguu

 

 

Í eftirrétt var falleg kaka sem ég brasaði við að búa til um morguninni svo að ég gæti verið áhyggjulaus um daginn með börnin í sundi og á vappi um bæinn. Ég get ekki sagt að ég sé "domestic goddess" af heilum hug. Í rauninni hundleiðist mér oft matarstúss en reyni að róa taugarnar með rauðvínstári ef mikið liggur við (sem var ekki tilfellið þarna...auk þess sem klukkan var 10 um morgun) eða jólalagi. Já, ég var eiginlega að uppgötva það um síðustu helgi að ég "klukknahreima" mig í gegnum heilu uppskriftirnar, bara til þess að halda geðheilsunni. En að fá fólk í heimsókn að borða matinn okkar, það er dásamlegt. Börnin í boðinu dáðust að fegurð kökunnar en fæst þeirra kláruðu hana, enda var hún ekkert spes. Bara venjulegt brúnterta með smjörkremi. Maltesers kúlurnar utan á voru þó hreinn unaður. Af hverju að baka eitthvað súkkulaðidrasl þegar nammiframleiðendur eru búnir að mastera eitthvað svo miklu, miklu betra? Börnin fengu nammisnuð í eftir-eftirmat, svona í sárabætur og voru sátt við það:

IMG_2426_zpsfn2ab35t

Falleg börn í þessari fjölskyldu!

Og enn fjölgar! Frumburður Hjartar og ástkær stjúpfrumburður minn (sem kynntist mér reyndar ekki fyrr en hún var 16 ára) er komin með barn í magann, eins og börnin segja. Settur dagur er 26. september, en hvur veit nema að Sóla amma fá barnið í afmælisgjöf 3. október? Flestir eru vissir um að þetta sé strákur, en ég ætla að giska á að þetta sé stelpa þangað til annað kemur í ljós. Hvað haldið þið?

IMG_2088_zpsx9vynulq

13. maí kemur í ljós hvort kynið þetta er. Stay tuned!

Manjaro? Það var líka í titlinum. Jú, kannski verð ég á toppi Kilimanjaro um næstu áramót? Þetta er allt í vinnslu, ekkert öruggt, en það aldeilis búið að planta fræi. Árið 2016 hlýtur hnéið að vera komið í lag, brjóstagjöfin og barnið farið að braggast, barnið mitt yngsta ekki eins háð móður sinni, móðirin ekki eins háð börnunum sínum og þar fram eftir götunum. Það er aldrei rétti tíminn til þess að fara, en samt...mig langar.

Sem sagt, spennandi tímar framundan. To be continued...

Sólrún á Suðurhæðum :)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband