8 ára afmæli Sigrúnar

Nú er bara bloggað á tyllidögum sko. Það eru tvær vikur á milli afmælisdaga hjá okkur vogastúlkum, Jólrúnu og Diddú Bödd. Ég man ekkert eftir 8 ára afmælisdegi mínum, að því er ég best veit. Afmælisdagar æsku minnar eru eins og slitrótt minningabrot héðan og þaðan og erfitt að henda reiður á hversu gömul ég var þegar stóru krakkarnir í götunni bjuggu til bóndabæ úr mosa fyrir mig úti á lóð eða hvenær vinkona mín gaf mér bókina sem mig vantaði til þess að fullkomna safn mitt af þjóðsögum Jóns Árnasonar (já, ég var nörd...en alveg svakalega kúl núna, döhöhö).

Með því að halda þessu bloggi lifandi get ég stjórnað minningum dætra minna. Héðan í frá verða sagðar sögur af því hvernig ég dekraði við dætur mínar alla daga og sleit mér út við þvotta og þrif, bara fyrir hamingju þeirra. Þær eiga eftir að vera mér svo þakklátar í ellinni (minni elli sko) að þær munu slást um að þjóna mér á alla lund. Helga á mánudögum, Harpa á þriðjudögum, Björg á miðvikudögum, Sigrún á fimmtudögum, Kristrún á föstudögum og frjálst um helgar. Allt klappað og klárt. Hér kemur stutt frásögn af áttunda afmælisdegi Sigrúnar og að sjálfsögðu sönn:  

Ég vaknaði eldsnemma til þess að komast í sturtu og vera hrein og fín fyrir afmælisbarnið. Svo var þessi elska (og hinar elskurnar) vakin með kossi og knúsi. Hún var heldur fljótari á fætur en aðra daga, enda búin að hlakka mikið til afmælisins. Forláta afmælisterta, sem móðir hennar hafði staðið sveitt og þreytt við að baka kvöldið áður (smá lygi, keypti hana í Iceland) beið hennar ásamt fullt af fínum pökkum. Hér eru Diddú og Kiddú að hjálpast að við að opna gjöfina frá Noregi:

1391605_10152041114150579_3079367_n_zps1e5079ad

Í þeim pakka leyndist meðal annars þessi dásamlega dúnúlpa sem féll svo sannarlega í kramið hjá Sigrúnu:

1382814_10152042250490579_1428338124_n_zps08ba3494

 Svo fín! Takk elsku Svala, Gunni, Madelen, Tinna og Marius!

 Svo þurfti ég að rjúka í stressi í vinnuna en Björg og Tinna Túdd (hún er í heimsókn) sáu um að koma stelpunum í skóla og leikskóla. Dagurinn var bara fínn hjá Sigrúnu. Það var sungið fyrir hana hjá umsjónarkennaranum, í tónmennt og í gítartímanum. Ekki slæmt! By the way, Sigrún hafði verið í foreldraviðtali daginn áður og fékk þar mjög góða umsögn. Hún er fljót að vinna verkefnin og fer þá út í að föndra heil ósköp af alls konar hlutum. Það er gott að geta fundið sér eitthvað til dundurs í skólanum. Hún er mikill dundari eins og systur hennar. Dunder thunder, eins og maðurinn sagði. 

Þegar hún kom heim úr skólanum beið Afi Connery eftir henni með sniðugan pakka úr LeikföngRumvið, sem var fullur af flottu föndurdóti. Afi er líka föndrari og býr alltaf til skemmtileg kort handa barnabörnunum sínum, eins og sést á pakkanum:

1377232_10152042251945579_656363755_n_zpsf91fb59b

Ossafín mynd af Diddú síðan hún var tveggja ára, en afi föndraði kórónuna.

Stuttu síðar mættu norsku konungshjónin í Daltúnið með aukapakka handa afmælisbarninu. Hér á formleg afhending sér stað:

1377449_10152042251145579_1283512001_n_zpsfbe5a126

Voða formleg á svipinn alltaf, hún Tinna Túdd. Bók eftir meistara Ole Lund Kirkegaard komin í bókasafnið, toppeintak, rétt eins og afmælisbarnið og gestirnir.

Rétt áður en við lögðum af stað niður í Borgartún til þess að snæða hammara mætti Gunni Jackson á svæðið með sérlega viðeigandi gjöf handa stjúpdóttur sinni:

1379566_10152042250020579_245004790_n_zps7df32e7d

The Famous Grouse - eðalwhiskey, beint frá framleiðanda! Sigrún gaf afa sínum hana af því að hún er svo góð og hann er svo góður (og í whiskey alveg óður).

Núbb...við fengum þetta fína borð á Hamborgarafabrikkunni og byrjuðum að lesa yfir langan matseðilinn. Sigrún var ekki lengi að velja sér uppáhaldsréttinn: Hakk og spagettí. Hún vissi að hún fengi afmælisís á eftir og fengi að velja sér lag. Þetta síðara olli henni reyndar mikilli sálarkvöl og voru allar uppástungur okkar vita gagnslausar. Þegar ég bað um Prumpulagið fyrir hennar hönd langaði hana mest til þess að skríða undir borð af skömm. Að lokum sættist hún á Glaðasta hund í heimi en fór samt aftur algjörlega í kerfi þegar hennar nafn var lesið upp og allir veitingahússgestir klöppuðu afmælisbarninu lof í lófa. Ekki of mikið fyrir athyglina, litla hógværa Sigrúnin mín. 

Helga stóra systir bætti einum pakkanum enn í pakkaflóruna og var henni aldeilis tekið fagnandi:

1383859_10152042249390579_1777577321_n_zps5d41146f

Í pakkanum var Vísindabók Villa (fyrir litlu raunvísindakonuna okkar), dót og ýmislegt annað fallegt. Ég vil nota tækifærið og þakka sænsku konungshjónunum, Hörpu og Rasmus, fyrir þessa eðal gjöf. Jú, Jakob, litli prinsinn þeirra, fær kossa og knús, kram og...lús...bús...ææææ...bara annað knús!  

Hamborgararnir runnu ljúflega niður og norska drottningin hélt fyrirlestur um borðsiði hirðarinnar. Hér er hún í miðjum klíðum:

1378016_10152042248755579_1426193464_n_zpsb87dc7aa

Penir og prúðir þessir Norðmenn :)

Afmælisísinn birtist fljótlega eftir að síðasta uxahalanum var sporðrennt og Böddey og Diddú sýndu örlítið leikræna tilburði:

1382026_10152041979045579_1972395933_n_zps53d98101

Vóóó! Þvílíkur afmælisís í boði hússins!!!

Almúginn (þessir sem ekki áttu afmæli en sátu við sama borð) pantaði sér svo grand eftirrétti sem hafði þær afleiðingar að helsta umræðuefnið við borðið voru uppsölur eftir mat. Huggulegt bara.

Ég held að Sigrún hafi bara verið þokkalega sátt við daginn. Hún er svo sem ekki alltaf að flíka sínum tilfinningum en hugsar eflaust þess meira, rétt eins og móðir hennar í æsku. Djúp vötn eru lygnust (still waters run deep). Hvað hún er að hugsa á þessari mynd veit ég ekki, en eflaust er það eitthvað fallegt og skynsamlegt og eilítið út í fjólubláan draumaheim:

1382115_10152042248055579_695068324_n_zps90c6e089

Hún fékk að föndra aðeins meira eftir að hún kom heim en svo lagðist hún örþreytt upp í rúm með Mary Poppins textabókina og söng allt leikritið ofurlágt í gegn áður en hún fór að sofa. Nú er fimm daga haustfrí framundan, pabbi hennar kemur heim frá Boston á morgun og svo ætlar fjölskyldan að kíkja eitthvert í bústað. Gott að fá smá tilbreytingu frá hversdagsleikanum og gera eitthvað notalegt saman.

Svona var áttundi afmælisdagurinn þinn, elsku Sigrún mín, að minnsta kosti frá bæjardyrum móður þinnar séð. Ég hlakka til að sjá þig vaxa og dafna á níunda aldursárinu þínu, stóra stelpan mín.

Sóla Sigrúnarmamma Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband