Bloggfærslur mánaðarins, október 2013
8 ára afmæli Sigrúnar
17.10.2013 | 22:44
Nú er bara bloggað á tyllidögum sko. Það eru tvær vikur á milli afmælisdaga hjá okkur vogastúlkum, Jólrúnu og Diddú Bödd. Ég man ekkert eftir 8 ára afmælisdegi mínum, að því er ég best veit. Afmælisdagar æsku minnar eru eins og slitrótt minningabrot héðan og þaðan og erfitt að henda reiður á hversu gömul ég var þegar stóru krakkarnir í götunni bjuggu til bóndabæ úr mosa fyrir mig úti á lóð eða hvenær vinkona mín gaf mér bókina sem mig vantaði til þess að fullkomna safn mitt af þjóðsögum Jóns Árnasonar (já, ég var nörd...en alveg svakalega kúl núna, döhöhö).
Með því að halda þessu bloggi lifandi get ég stjórnað minningum dætra minna. Héðan í frá verða sagðar sögur af því hvernig ég dekraði við dætur mínar alla daga og sleit mér út við þvotta og þrif, bara fyrir hamingju þeirra. Þær eiga eftir að vera mér svo þakklátar í ellinni (minni elli sko) að þær munu slást um að þjóna mér á alla lund. Helga á mánudögum, Harpa á þriðjudögum, Björg á miðvikudögum, Sigrún á fimmtudögum, Kristrún á föstudögum og frjálst um helgar. Allt klappað og klárt. Hér kemur stutt frásögn af áttunda afmælisdegi Sigrúnar og að sjálfsögðu sönn:
Ég vaknaði eldsnemma til þess að komast í sturtu og vera hrein og fín fyrir afmælisbarnið. Svo var þessi elska (og hinar elskurnar) vakin með kossi og knúsi. Hún var heldur fljótari á fætur en aðra daga, enda búin að hlakka mikið til afmælisins. Forláta afmælisterta, sem móðir hennar hafði staðið sveitt og þreytt við að baka kvöldið áður (smá lygi, keypti hana í Iceland) beið hennar ásamt fullt af fínum pökkum. Hér eru Diddú og Kiddú að hjálpast að við að opna gjöfina frá Noregi:

Í þeim pakka leyndist meðal annars þessi dásamlega dúnúlpa sem féll svo sannarlega í kramið hjá Sigrúnu:

Svo fín! Takk elsku Svala, Gunni, Madelen, Tinna og Marius!
Svo þurfti ég að rjúka í stressi í vinnuna en Björg og Tinna Túdd (hún er í heimsókn) sáu um að koma stelpunum í skóla og leikskóla. Dagurinn var bara fínn hjá Sigrúnu. Það var sungið fyrir hana hjá umsjónarkennaranum, í tónmennt og í gítartímanum. Ekki slæmt! By the way, Sigrún hafði verið í foreldraviðtali daginn áður og fékk þar mjög góða umsögn. Hún er fljót að vinna verkefnin og fer þá út í að föndra heil ósköp af alls konar hlutum. Það er gott að geta fundið sér eitthvað til dundurs í skólanum. Hún er mikill dundari eins og systur hennar. Dunder thunder, eins og maðurinn sagði.
Þegar hún kom heim úr skólanum beið Afi Connery eftir henni með sniðugan pakka úr LeikföngRumvið, sem var fullur af flottu föndurdóti. Afi er líka föndrari og býr alltaf til skemmtileg kort handa barnabörnunum sínum, eins og sést á pakkanum:

Ossafín mynd af Diddú síðan hún var tveggja ára, en afi föndraði kórónuna.
Stuttu síðar mættu norsku konungshjónin í Daltúnið með aukapakka handa afmælisbarninu. Hér á formleg afhending sér stað:

Voða formleg á svipinn alltaf, hún Tinna Túdd. Bók eftir meistara Ole Lund Kirkegaard komin í bókasafnið, toppeintak, rétt eins og afmælisbarnið og gestirnir.
Rétt áður en við lögðum af stað niður í Borgartún til þess að snæða hammara mætti Gunni Jackson á svæðið með sérlega viðeigandi gjöf handa stjúpdóttur sinni:

The Famous Grouse - eðalwhiskey, beint frá framleiðanda! Sigrún gaf afa sínum hana af því að hún er svo góð og hann er svo góður (og í whiskey alveg óður).
Núbb...við fengum þetta fína borð á Hamborgarafabrikkunni og byrjuðum að lesa yfir langan matseðilinn. Sigrún var ekki lengi að velja sér uppáhaldsréttinn: Hakk og spagettí. Hún vissi að hún fengi afmælisís á eftir og fengi að velja sér lag. Þetta síðara olli henni reyndar mikilli sálarkvöl og voru allar uppástungur okkar vita gagnslausar. Þegar ég bað um Prumpulagið fyrir hennar hönd langaði hana mest til þess að skríða undir borð af skömm. Að lokum sættist hún á Glaðasta hund í heimi en fór samt aftur algjörlega í kerfi þegar hennar nafn var lesið upp og allir veitingahússgestir klöppuðu afmælisbarninu lof í lófa. Ekki of mikið fyrir athyglina, litla hógværa Sigrúnin mín.
Helga stóra systir bætti einum pakkanum enn í pakkaflóruna og var henni aldeilis tekið fagnandi:

Í pakkanum var Vísindabók Villa (fyrir litlu raunvísindakonuna okkar), dót og ýmislegt annað fallegt. Ég vil nota tækifærið og þakka sænsku konungshjónunum, Hörpu og Rasmus, fyrir þessa eðal gjöf. Jú, Jakob, litli prinsinn þeirra, fær kossa og knús, kram og...lús...bús...ææææ...bara annað knús!
Hamborgararnir runnu ljúflega niður og norska drottningin hélt fyrirlestur um borðsiði hirðarinnar. Hér er hún í miðjum klíðum:

Penir og prúðir þessir Norðmenn :)
Afmælisísinn birtist fljótlega eftir að síðasta uxahalanum var sporðrennt og Böddey og Diddú sýndu örlítið leikræna tilburði:

Vóóó! Þvílíkur afmælisís í boði hússins!!!
Almúginn (þessir sem ekki áttu afmæli en sátu við sama borð) pantaði sér svo grand eftirrétti sem hafði þær afleiðingar að helsta umræðuefnið við borðið voru uppsölur eftir mat. Huggulegt bara.
Ég held að Sigrún hafi bara verið þokkalega sátt við daginn. Hún er svo sem ekki alltaf að flíka sínum tilfinningum en hugsar eflaust þess meira, rétt eins og móðir hennar í æsku. Djúp vötn eru lygnust (still waters run deep). Hvað hún er að hugsa á þessari mynd veit ég ekki, en eflaust er það eitthvað fallegt og skynsamlegt og eilítið út í fjólubláan draumaheim:

Hún fékk að föndra aðeins meira eftir að hún kom heim en svo lagðist hún örþreytt upp í rúm með Mary Poppins textabókina og söng allt leikritið ofurlágt í gegn áður en hún fór að sofa. Nú er fimm daga haustfrí framundan, pabbi hennar kemur heim frá Boston á morgun og svo ætlar fjölskyldan að kíkja eitthvert í bústað. Gott að fá smá tilbreytingu frá hversdagsleikanum og gera eitthvað notalegt saman.
Svona var áttundi afmælisdagurinn þinn, elsku Sigrún mín, að minnsta kosti frá bæjardyrum móður þinnar séð. Ég hlakka til að sjá þig vaxa og dafna á níunda aldursárinu þínu, stóra stelpan mín.
Sóla Sigrúnarmamma
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ammmælið mitt!
4.10.2013 | 22:27
Afmælisdagurinn minn þetta árið var einn af þeim betri og nú bara verð ég að skrifa nokkur orð um þennan góða dag áður en óminnishegrinn tekur öll völd. Í stuttu máli...
Vaknaði 6:40 á fimmtudagsmorgni, sem er kallað að sofa út á mínu heimili, því vanalega vakna ég þá í tabata kl. 5:40. Sturta og spasl (til þess að viðhalda 25 ára ímyndaðri ímynd minni) og semi-sparikjóllinn sem rétt náði utan um skutinn (af því að ég sleppti tabata sko). Ilmandi latté (eins og alltaf reyndar), spari-múslí frá Björgu og fullt af pökkum:

Geðveik lopapeysa frá Lúllu sys og fjölskyldu sem hún prjónaði auðvitað sjálf. Ég verð að taka mynd af mér í henni fljótlega svo að allir geti fengið að sjá snilldina. Golla frá Hirti, English biscuits frá Kiddú, perlurammar frá Diddú (homemade!) og nýja bókin hans Pálma ædols frá Biddú. Við Pálmi eigum það sameiginlegt (fyrir utan það að vera miklir þorparar) að elska að veiða, þannig að ég hlakka mikið til þess að lesa bókina. Hefði samt viljað fá smá tíma í afmælisgjöf líka (til þess að lesa bókina).
Ekki tók verra við þegar ég mætti upp í vinnuna rétt fyrir átta: Gól og hól, hopp og dans, allt í boði Ástu og félaga! Svona var skrifborðið mitt:

Clean desk, sick mind! Algjörlega óvinnufært við borðið þennan morguninn og ég þurfti að éta mér leið að ritunarverkefnum nemenda. Í pökkunum voru jógamotta, jógahandklæði, jógabuxur, jóg...úrt (múahaha), fyrir utan þrettán kókosbollur og þúsund Nóa kropp. Guðrún gaf mér köku og geðveikt kort með mynd af Stykkis og vísunni um Eggert frænda Ólafsson og hans hinstu bátsferð (Þrútið var loft...). Þóra kom með handgert konfekt og svona mætti lengi telja. Hvað er hægt að eiga gott samstarfsfólk, ha? Auðvitað var Ásta búin að hrúga Nóa kroppi á öll borð í kennslustofunni minni og nývaknaðir nemendur tóku því fegins hendi að geta japlað á súkkulaði í morgunsárið. Hressi nýnemahópurinnn tók svo við og söng fyrir mig afmælissönginn (auðvitað á ensku) djúpri röddu (25 strákar og 5 stelpur)! Gerist ekki betra!
Ég var svo heppin að eiga afmæli á besta deginum í stundaskránni og gat því yfirgefið svæðið upp úr hádegi. Auðvitað miðaði ég skipulagið í upphafi annar við það að ég væri ekki með fullt af verkefnum í gangi á sjálfan afmælisdaginn (alltaf séð hún Jólrún). Hjörtur var á kafi í því að sinna kanadískum viðskiptavinum og hafði því ekki tíma til þess að redda hvítvíni með sushi-inu um kvöldið. Ég keyrði því með bros á vör í Smáralindina, vitandi það að ég hefði þarna nokkra klukkutíma fyrir mig sjálfa á afmælisdaginn (það er einstök og hreint út sagt ómetanleg tilfinning!!). Ég þurfti auðvitað að rekast inn í eina búð eða svo og máta smávegis af fötum. Maður á allt skilið á afmælisdaginn. Svo gleymdi ég mér og byrjaði að kaupa afmælisgjafir handa börnum hinna og þessara og þá var klukkan allt í einu orðin hálf þrjú og ég ekki byrjuð að baka! Ég rauk heim og byrjaði að henda í kökur en rölti svo og sótti Kiddú mína í leikskólann, alveg í skínandi skapi. Ég var búin að vera slæm í hálsi og þung í höfði vikurnar á undan, en þarna fagnaði ég því svo innilega að vera alveg búin að ná mér og vera ekki dauðvona með krabbamein í vélinda eins og ein google leitin var búinn að sannfæra mig um.
Diddú og Kiddú voru ansi kröfuharðar á athygli móður sem var að reyna að undirbúa veislu sem byrjaði klukkan sex, þannig að ég kveikti á sjónvarpinu og plantaði þeim þar. Ah, friður og ró. Allt gekk samkvæmt áætlun: Klukkan 6 mætti pabbi á slaginu, reffilegur að vanda, með flottan pakka handa litlu stelpunni sinni:

Ég hélt að þetta væri tækni legó en komst að því, mér til mikillar gleði, að þarna færi "step" pallur fyrir heimaleikfimina! Það þorir enginn að gefa mér hlaupadót núorðið, enda mikil hætta á bráðaþunglyndi þegar hlaup eru nefnd á nafn. Nema auðvitað Haribo. Ég gleymdi að geta þess að Helga var auðvitað mætt fyrr á staðinn með tonn af sushi í farteskinu og flottan pakka frá henni og Svíunum. Mögnuð peysa alveg sem ég hlakka til að skarta í vinnunni (takk Harpa, Rasmus og Jakob!). Bjössi bró og öll hans hró mættu svo galvösk með Marc Jacobs gullhálsmen og hring. Erna mágkona hafði verið í Boston nýverið og keypti auðvitað það allra flottasta handa uppáhalds mágkonu sinni! Hér er liðið alveg aaaalsælt í sushi vímu:

Kæti og gleði til rúmlega 8, en þá fóru börnin að hátta og ég gerði klárt fyrir næsta holl. Glennurnar Ásta ofur, Agga æði (og fimmta afsprengið hún Elsa litla) og Lady Sigrún nörtuðu í afganga og leystu mig út með enn einni gjöfinni: Svaðalegri inneign í TRI! Takk líka hinar Glennurnar sem ekki komust á staðinn!
Þegar þær voru farnar var loksins tími til þess að setjast á dolluna. Sú stund teygðist í næstum því klukkutíma þar sem ég renndi brosandi í gegnum allar kveðjurnar á facebook og lækaði á alla kanta, hægri og vinstri, lárétt og lóðrétt. Þvílík gleði! Þreytt en glöð og alveg árinu eldri fór gamla í rúmið og sofnaði værum svefni, alla vega fyrst í stað. Vaknaði reyndar klukkan þrjú um nóttina, afskaplega þyrst eftir hvítvínið og sojasósuna og með köggul í maganum eftir átta kíló af hrísgrjónum og sjávarafurðum. Ég var svolítið þreytt í vinnunni í dag og hausinn er við það að síga niður á bringu núna. Fannst samt að ég yrði að skrifa smá um þennan sérlega fína dag og þakka öllum sem gerðu hann svona frábæran. Þar eiga nú stærstan hlut minn yndislegi eiginmaður og mín alltumlykjandi ofurvinkona, ungfrú Ásta Laufey.
Áður en ég dett í það að verða væmin og eitthvað rugl ætla ég að enda þetta pár með því að sýna ykkur fínu myndina af mér og Bjössa sem tekin var á afmælinu mínu fyrir akkúrat 10 árum. Mér finnst ég líta betur út í dag:

Ég er þessi hægra megin, Bjössi bróðir til vinstri. Þarna bjó ég ein í lítilli íbúð með litlu Brök og Bjössi og Erna voru músíkalskt par, sannkallaðir gleðigjafar...og barnlaus þar að auki. Núna, 10 árum seinna, eiga þau tvö æðisleg börn sem ég elska út af lífinu. Ég sjálf bý í "höll" (kannski ekki mjög stórri...þetta er sko myndlíking) með kónginum mínum og búin að eignast fjórar prinsessur og einn prins í viðbót við fjársjóðinn sem ég átti fyrir. Ég get svo svarið það, ég er bládedrú. Enda var þetta bara djók, ég er alls ekki væmin! Bottom line: Frábær afmælisdagur með yndislegu fólki. Takk fyrir mig. Eimen.
Sóla síkáta