Helga stúdent og Snati farinn í sumarlandið

Stúdentshelgi að baki og allir glaðir, þó sérstaklega stúdínan sjálf og stoltir foreldrarnir. Helga Rún rúllaði upp prófunum og má svo sannarlega vera ánægð með árangurinn. Hógværa stúlkan hafði eitthvað verið að hugsa um að halda bara enga veislu, en endaði svo á því að halda þrisvar upp á áfangann.

Á föstudagskvöldið fékk hún sína önd í appelsínusósu og kökur að eigin vali í eftirmat: 

814aab11

Konfektkaka og Babe Ruth kaka.

Lítið var um "skál í boðinu" og enn færra um gesti, en Svava og kó ásamt Ásgeiri afa kíktu í bra bra og meðlæti. Hér er fallega fólkið:

7ee33ce8

Svava fornstúdent, Helga nýstúdent, Ásgeir afi og Kristrún kjúklingur...ég meina sjúklingur.

Sæta spæta var alveg til í að pósa með húfuna þó að formleg útskrift hefði ekki farið fram:

1eac18f9 

Sjaldan hef ég séð manneskju sem ber stúdentshúfuna eins vel!

Á laugardag fannst mér Kristrún eitthvað vera að skána þannig að allir í fjölskyldunni voru dressaðir upp og mættu á útskriftina í Borgó. Ég var nú svo séð að geyma stelpurnar uppi í sófum á annarri hæð því að ég hvorki treysti á þolinmæði þeirra né heilsu Kristrúnar. Útskriftin reyndist svo vera alveg ógnarlöng og Kristrún fékk svo heiftarlega í magann að ég varð frá að hverfa. Ég náði samt að sjá alla flottu nemendur mína útskrifast og hana Helgu okkar auðvitað líka:

726d094d

Bryndís skólameistari og Ingi Bogi aðstoðarskólameistari afhenda Helgu Rún prófskírteinið.

Fjölskyldan mín fagra hafði ágætis útsýni af annarri hæðinni:

 499327a2Hjörtur sæti, Sigrún sæta og Kristrún magapína.

Eftir útskriftina fór Helga í flott kaffiboð hjá móðurfjölskyldunni en hélt svo sjálf svaka haka partý um kvöldið heima hjá sér, fyrir alla vinina. Ég sendi Hjört, hirðljósmyndara "Zola's Zone", í partýið með zzúúúmlinsuna. Hann tók fínar myndir af glæsilegu fólki:

helgastudent Helga Rún 

Hér er önnur af henni og Patta skratta, hinum gullfallega ketti þeirra Hörpu og Helgu:

helgapatti

 

 

 

 

 

Helga og Patti


 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Svo er auðvitað kominn tími til þess að heimsfrumsýna kærasta Helgu, fyrst að þau eru nú skráð sem par á facebook og komin í sambúð:
helgajon
 Helga og Jón Grétar, ástfangin upp fyrir haus!
 
Helga stefnir á að fara í fjármálaverkfræði í HR næsta vetur, en þarf hugsanlega að bæta við sig smá stærðfræði og efnafræði fyrst. Það kemur allt saman í ljós fljótlega. Framtíðin er hennar og hún er björt!
 
En ekki hafa dagarnir undanfarið verið gleðilegir fyrir alla. Hann elsku Snati hennar Ástu minnar er búinn að vera mikið veikur undanfarið, tæplega sjö ára gamall, og í dag kvaddi hann þennan heim. Enginn hundur hefur verið mér eins hjartfólginn, enda var hann bara lítill hvolpur þegar við Ásta vorum saman alla daga með Aðalstein og Sigrúnu í fæðingarorlofi. Hann fór út að ganga með okkur á hverjum degi og þegar við urðum "ögn" sprækari fór hann oft í langa hlaupatúra. Fyrstu mánuðina sína drakk hann meira að segja brjóstamjólkina OKKAR. Jú jú, börnin voru gjörn á að drekka yfir sig og gubbuðu þá reglulega á gólfið. Snati var þá ekki seinn á sér að sleikja upp herlegheitin og hefur hann haft mennska eiginleika upp frá því. Það er sagt að hundar dragi dám af eigendum sínum. Snati og Ásta voru sem eitt. Hann fylgdi henni eins og skugginn, var ákafur í öllum sínum gjörðum, ótrúlegur hlaupahundur og gelti á karlmenn. Ókey...Ásta geltir kannski ekki á karlmenn en hún lætur þá alveg heyra það. 
 
Ásta var svo góð að leyfa mér að kveðja elsku litla hundinn hennar áður en hann fór til ömmu og afa í sumarlandið (eins og hún orðaði svo fallega). Að horfa í þessi góðlegu, brúnu augu og strjúka fallega feldinn í síðasta sinn bar mig nánast ofurliði. Ásta og fjölskylda misstu mikið í dag og get ég víst fátt annað gert en að votta þeim mína dýpstu samúð. Ég vona að áföllin verði ekki fleiri - það er komið alveg meira en nóg. Hér er svo mynd af litlu Snatalús á sínu fyrsta ári:
 snati
Í göngutúr með Sólu frænku og Ástu mömmu árið 2005.
 
Skin og skúrir, lífsins saga.
 
Sóla Helgustjúpa og Snatafrænka 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólrún Inga Ólafsdóttir

Æ, voðalega kemur þetta eitthvað skakkt út í byrjun :(

Sólrún Inga Ólafsdóttir, 21.5.2012 kl. 21:28

2 identicon

Innilegar hamingjuóskir með fallegu stúlkuna ykkar og kærar þakkir fyrir yndislegu ummælin um Snata okkar.

Ásta (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 11:34

3 identicon

Takk Ástan mín og innilegar þakkir fyrir að leyfa mér að kveðja Snataling.

Sóla (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 22:23

4 identicon

Hún er svo dugleg stelpa hún Helga ! :)) Mig langar í svona kööööökuu ! Leiðinlegt að heyra með Snata :(

harpa (IP-tala skráð) 30.5.2012 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband