Marsmausið
23.3.2013 | 22:06
Æ mig auma. Nú er ég farin að kenna bloggið mitt við mánuði ársins. Febrúarfréttir voru það síðast og núna er það marsmausið. Öðruvísi mér áður brá (og dauðbrá yfirleitt).
Ég kom samt ekki þeirri stórfrétt að í síðasta bloggi að karl (Bjórlafur) faðir minn varð 69 ára þann 25. febrúar sl. Þetta þýðir að það er tæpt ár í stórafmæli. Spurningin er hvort að Bjössi og Lúlla séu farin að búa til vídeóið um ævi þessa mikla manns? Ég er sko upptekin við að skrifa bókina. Hún mun ekki bera titilinn Myndin af pabba en hér er samt myndin af pabba á afmælisdegi hans (ekki klaufa):
Mjög sérstök mynd af kallinum. Í einlægri gleði sinni yfir pökkunum hefur svipur hann breyst frá því að vera hinn ofursvali Sean Connery yfir í að vera einhver sem heftar froska. Minnir jafnvel á mangóávöxtinn á góðum degi. Anyways, í öðrum pakkanum var amerísk hornaboltakylfa og í hinum allt ritsafn Barböru Cartland. Góðar gjafir sem komu sér vel. Pabbi eldist líka vel, þökk sé góðu Bræðraminnisgenunum. Ekki er hægt að segja það sama um Svefneyjagenin...múahaha.
Hvað er annars að frétta? Ég er búin að hitta Kristbjörgu vinkonu mína alveg á þrisvar í einum mánuði. Fyrst bauð hún mér í matarboð í Hússtjórnarskólanum, hvar hún kennir textílmennt. Svo fórum við í afmæli til litlunnar hennar sem endaði með því að ég bauð þeim í "skoða húsið og dinner" pakka daginn eftir. Allt er þegar fernt er því að stórinn hennar fermist á sunnudaginn n.k. og Veisluturninn bíður okkar! Hér er Kristbjörg í Hússtjórnarskólanum, nýbúin að gera stykkin sín:
Eða sko...hún bjóst við því að ég myndi setja einhvern svona texta við myndina þannig að ekki gat ég brugðist væntingum hennar. Stykkin eru auðvitað ekki hennar, heldur nemenda hennar. En hún kenndi þeim auðvitað að sauma og sníða. Ég get ekki sagt annað en að þessi skóli virðist vera ótrúlega metnaðarfullur. Vinnan sem nemendur þurfa að leggja af hendi er ómæld og ljóst er að ég hefði alveg gott af því að setjast þarna á skólabekk í eina önn. Áhugi minn hefur reyndar legið annars staðar hingað til en samt...hip hip hooray fyrir þessum flotta skóla!
Jæja, svo farið sé hratt yfir sögu þá kom ægilega vont veður um daginn eins og alþjóð veit. Ég lagði auðvitað út í veðrið á mínum ekki fjallabíl og tókst að hitta á veginn alla leið upp í Borgó. Ég hélt úti kennslu til rúmlega 11 fyrir fámennan nemendahóp en varð svo að lúta í lægra haldi fyrir fyrirmælum skólayfirvalda: "No more school, you fool. " Svo fór veður að skána og var orðið hið þokkalegasta þegar ég sótti Kristrúnu á leikskólann. Við enduðum á því að vera tvo tíma úti að leika okkur í snjónum. Hér er litli gullmolinn minn á fullu við að grafa sér göng út úr leikskólanum:
Mjá...margt fleira í gangi svo sem, sem gleymist þegar sjaldan er skrifað. Hjörtur skrapp til USA í nokkra daga og þá tók Sigrún sæta upp á því að verða veik. Ég hélt fyrst að hún væri að dissa eldamennsku móður sinnar þegar hún sagði að sér liði illa og hefði ekki lyst á matnum. En þetta var þá upphafið að veikindum sem stóðu hátt í 10 daga. Ég meina, hvaða barn fúlsar við svona veislumat?
Svona er maturinn þegar pabbinn er í burtu: Einfaldur, næringarríkur og aðlaðandi. Mottó mömmunnar er: Aldrei eyða meira en 5 mínútum í eldamennsku! Það tekur hvort eð er bara 5 mínútur að gleypa matinn í sig.
Jæja, veður er búið að vera bjart og kalt. Við stelpurnar eigum það til að rölta niður í Fossvogsdal og gefa öndum og gæsum eitthvað gott í gogginn. Alltaf eru þær jafn þakklátar og bregða fyrir sig norskunni alveg venstre til høyre: Bra! Bra! Bra!
Frumburðurinn er ekki duglegur lengur að hanga með mömmu sinni, en fór þó með allri fjölskyldunni í bíó í dag á The Croods. Mæli alveg með henni. Kristrún Eir fékk bíóferð í verðlaun fyrir að fara í kollhnís í sundkennslunni. Það dugar ekkert á börn í sundkennslu í dag nema mútur...og kannski einn kútur.
Nú er fjölskyldan komin í páskafrí þó að við foreldrarnir séum með nóg af vinnutengdum verkefnum að sinna. Aldrei þessu vant verðum við heima í páskafríinu. Við hefðum farið norður á Akureyri á skíði ef að Harpa og hluti af tengdafjölskyldunni væri ekki að koma í heimsókn alla leið frá Svíþjóð. Svo eru Lúlla, Siddi og Irma að fara að keppa í vaxtarrækt í höfuðborginni þannig að nóg verður um að vera í bænum á næstunni. Ég held svei mér þá að fjölskyldan hafi ekki farið neitt út úr bænum síðan 8. september 2012. Það er orðinn ansi langur tími, en við getum kennt flutningum og öðru slíku veseni um. Langþráðri ferðalöngun verður þó fullkomlega svalað með Tyrklandsferð í maí-júní. Nánar um það síðar. Nú ætla ég að reyna að vera neikvæð, svona til tilbreytingar.
Í Daltúninu er eilífur gestagangur iðnaðarmanna en sum verkin ganga ansi hægt. Baðherbergið átti að taka tvær vikur en nú eru u.þ.b. sex vikur liðnar. Ég hef verið með sjálfa mig í hugrænni atferlismeðferð þar sem ég reyni að halda í gleðina, sjá ekki rykið og framkvæmdaleysið, heldur gleðjast yfir því hafa lagt mitt á plóginn til þess að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Ljósi punkturinn er þó sá að stuttu eftir að við planlögðum að leggja hér plan var planið lagt eins og það lagði sig. Laglegt! Þar voru alvöru verktakar á ferð, sem hellulögðu sem sagt bílaplan hér fyrir utan og gerðu það hratt og örugglega. Svo er eitthvað verið að bjástra uppi á háalofti og hugsanlega fæ ég þar lítið skrifstofuhorn hvar ég get horft út um háaloftsglugga og skrifað skáldsögu með latté á kantinum. Svefnloft kæmi sér líka vel fyrir litla sæta Jakob okkar og foreldra hans. Það verður gott að fá drenginn í fangið og knúsa hans mjúku kinnar :). Ég hef fengið margar reynslu- og framkvæmdasögur frá starfsfélögum mínum og þeim ber öllum saman um að þetta sé hundleiðinlegt á meðan á því stendur, en leiðindin gleymist um leið og allt er komið í stand. Það eru ekki svo mörg handtök eftir í baðherberginu og það er eiginlega bara að verða drulluflott. Gott samt að skrásetja að framkvæmdin hafi einhvern tímann pirrað mig. Maður er allt of fljótur að gleyma því sem slæmt er. Það er alveg hræðilegur eiginleiki! Anyways, ég lofa að setja inn mynd af fína baðherberginu í næsta bloggi. Ég blogga ekki fyrr en það er tilbúið!
Ég man því miður ekki eftir neinum öðrum lúxusvandamálum í bili. Jakob Ari er á leiðinni, stelpurnar eru góðar, kallinn til fyrirmyndar, vinnan alltaf jafn skemmtileg og súkkulaðipáskar á leiðinni. Ég væri svo sem alveg til í að vera með heilan fót og geta hlaupið af mér páskaeggin, en ég er ekki alveg í nógu miklu vælustuði núna til þess að ræða fótinn eitthvað frekar. Endum þetta bara með mynd af nokkrum skemmtilegum starfsfélögum:
Áfram Liverpool, áfram Borgó og gleðilega páska!
Sóla sátta :)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.