4ra ára afmæli hjá Kiddú biddú!

Jú jú, akkúrat vika síðan afmælið hennar Kristrúnar var og ég ekki enn búin að gera því skil. Myndirnar hjálpa mér samt að rifja þetta aðeins upp...Tja...já, látum okkur sjá. Elsku stelpan okkar var búin að telja niður dagana fram að afmælinu. Hún er mjög upptekin af tölum þessa dagana og spurningahríðin dynur á okkur alla daga. Það er bara yndislegt því að það er ekki nóg að geta eingöngu tengt saman bókstafi. Miðað við spenninginn kvöldinu áður var hún óvenju lengi að taka við sér þegar við sungum fyrir hana afmælissönginn að morgni 28. nóvember. Hún rétti þó að lokum úr kútnum með bros á vör, búin að meðtaka í gegnum svefnrofin að stóri dagurinn var runninn upp. Við tók mikið pakkaflóð frá fjölskyldunni og Svölu frænku. Jú, og svo fengu stelpurnar Heimilisjógúrt út á morgunkornið en það þótti toppurinn á tilverunni! Kristrún rölti svo á leikskólann með pabba sínum og fékk góðar viðtökur þar, kórónu und alles.

Um kvöldið var haldin smá veisla með nánustu fjölskyldu. Eins og árið áður valdi afmælisstelpan sushi í matinn. Rétt fyrir kvöldmat kom Óli afi með þennan fína pakka:

IMG_0171_zpsb18f4b27

Pabbi er alltaf svo sniðugur með að velja góða mynd af litlu grísunum til þess að nota sem afmæliskort. Afmælismaturinn var ljómandi fínn og kakan sem kom á eftir líka. Hún er til sýnis á síðustu myndinni í þessu bloggloggi.

Daginn eftir, þ.e. frá 17-20, komu aðeins fleiri í heimsókn því að þá héldu Sigrún og Kristrún sameiginlega upp á afmælið sitt fyrir stórfjölskylduna og nokkra fjölskylduvini. Yfir 50 manns mættu á svæðið og fullt af pökkum bættust í safnið. Kristrún bleika klæddist auðvitað afmæliskjólnum og kórónu í stíl. Hér er hún alsæl að taka upp pakka:

IMG_0199_zps97b5a19d

 

Sigrún átti afmæli í október en naut þess samt að fá fullt af pökkum núna. Margar myndir voru teknar af góðu gestunum en það er ekki hægt að gera upp á milli þeirra þannig að engar verða birtar hér á þessum vettvangi. En auðvitað þarf að birta mynd af vinnu húsmóðurinnar til þess að tryggja það að börnin finni að þau skuldi mér eitthvað seinna meir og taki mig jafnvel inn á heimili þeirra þar sem ég get legið í kör eða róið fram í gráðið, tautandi: "6 eggjahvítur, 6 dl púðursykur, hálfur lítri rjómi...."

IMG_0200_zps70d4961d

Já já, en það eru seinni tíma vandamál. Hér er afmælisstelpan mín að skoða afmæliskökuna sem mamma hennar gerði af alúð og ánægju:

IMG_0210_zpsbe7a03f5

Hún heldur fast um hvítan kisukjól sem Ásta tengdamóðir hennar gaf henni í afmælisgjöf. Hún veit sem er að kjóllinn verður ekki lengi kjóll af því að það má ekki setja hann í þurrkarann. Mamma setur allt í þurrkarann og núna er kjóllinn orðinn að peysu. Baby born peysu.

Þó að það sé enn svolítil prinsessa í henni litlustu minni leynast nú smá Jólrúnargen þar líka, sem gera móður hennar svo stolta. Myndin hér fyrir neðan er alveg fullkomin:

IMG_0195_zps08ccb823

Helga sæta, afmælisbarnið, Hjörtur sæti. Þessi gretta sýnir að hér er upprennandi fagmaður á ferð!

Ég kveð með stolti

Jólrún grettudrottning :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geggjad blogg og gerdi morguninn minn enn betri! Madur faer bara vatn i munninn ad sja tessar veitingar! Tad eru allir svo myndarlegir i familijunni :) hlakka til ad sja ykkur eftir ruma viku bara!

harpa (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband