Marsering

Vó! Time flies like a sparrow with an arrow...eða eitthvað. Og ég sem hefði getað bloggað um svo margt í svo ótal mörgum orðum og endalausum færslum.

Febrúar var flottur mánuður og það sem stendur helst upp úr er afmæli pabba og fæðing Kristínar krúttsprengju.

Kristín verður skírð í höfuðið á henni móður minni sálugu þann 12. apríl n.k. af ekki minni spámanni en Séra Jónu Lovísu Jónsdóttur, systur minni. Í Noregi. Að mér og Bjössa viðstöddum. Akkuru? Af því að móðirin er engin önnur en uppeldissystir okkar, hún Tinna litla Túdd. Hún var mikið hjá okkur fyrstu árin og kallaði alltaf mömmu mömmu (Kiddý mömmu...en svo á hún auðvitað sína Svölu mömmu...sem er mjög svöl). Mamma var þekkt fyrir að vera mjög stjórnsöm og birtist því systur sinni í draumi (sem dýrðlegt ævintýr) og heimtaði sitt nafn á stúlkuna, sem þá var varla komin undir. Barnið átti svo að koma á afmælisdegi Óla pabba og Svölu mömmu en kom akkúrat deginum á undan, sem er nú barasta í fínasta lagi. Hún býr í Noregi og á að heita Kristín Husby Mariusdóttir. Mér finnst að það mætti líka troða Kúld nafninu þarna inn eeen...kannski er það of mikið?

Sjötugsafmæli pabba var stórmerkilegt líka, sérstaklega af því að hann ætlaði að hafa það lítið og lágstemmt en svo breyttist það óvænt í svaka partý. Tja...óvænt fyrir hann en allir aðrir vissu að þeir ættu að mæta klukkan hálf níu fyrir utan íbúðina hans, syngjandi afmælissönginn við raust. Bjössi bró skemmtanastjóri átti nú mestan heiðurinn af því að þetta heppnaðist svona vel, en við systur vorum ágætar á kantinum. Pabbi fékk svo mjög nytsama gjöf frá börnum og barnabörnum, nefnilega plasmasjónvarp. Nú horfir hann á Liverpool vinna alla sína leiki í háskerpu. Það munar um minna! 

Börnin dafna vel, jafnvel of vel á köflum. Hvað eru mörg vel í því? Kiddú klára átti tvo afleita sundtíma eftir síðasta dýrðarblogg en síðan hefur leiðin legið upp á við. Köfun og hegðun til fyrirmyndar! Diddú fór á sitt fyrsta blakmót á sunnudaginn og þótti það nokkuð gaman. Hún er að æfa hlutverk bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi og er voðalega spennt fyrir því. Böddey spilaði á vortónleikum Skólahljómsveitar Kópavogs í gær og gekk ljómandi vel, rétt eins og öllum hinum 150 krökkunum. Alveg frábær hann Össur og allir hans kennarar. Björg tók líka þátt í Nótunni um daginn með Sextett SK. Þeim gekk svo vel að þær eru komnar í úrslitakeppnina í Eldborg. Vel gert!

Er ekki kominn tími á greinarskil? Harpsí er skilin að skiptum við barnsföðurinn og flutt í aðra íbúð en er bara mjög ánægð með lífið. Forræðið með litla pjakk er sameiginlegt og hefur gengið þokkalega enn sem komið er. Jakobus er bara alltaf jafn hress og iðjusamur, gengur vel í leikskólanum og brosir út í eitt. Helga er á kafi í hugbúnaðarverkfræðinni og er á svo lafandi lausu að það er ekki fyndið. Henni virðist líka það vel, enda lítill tími fyrir annað en lærdóm í hennar lífi. Fyrst klárar hún námið og fær milljón á mánuði. Síðan velur hún sér maka og eignast tvær stelpur með honum. Freknóttar með þykkan hárlubba. 

Hjörtur og Helga eru að fara til BNA á miðvikudaginn og verða í tæpa viku. Business and pleasure, þ.e. fiskur og skíði. Ég ver virkið á meðan.

Nú styttist í að Kisi Jackson verði 5 ára. Þá verður eflaust eitthvað húllumhæ...freðnar rækjur og froðurjómi. Gunni Bowie verður sjö mánaða á morgun og er orðinn stærri en Kisi, svei mér þá. Þessi börn stækka allt of fljótt! Hann er ennþá að fara í taugarnar á Kisa með því að hoppa á hann, en það hefur samt aðeins minnkað, enda slæst Gunni helst ekki við minnimáttar. Þegar Gunni er þreyttur geta þeir alveg kúrt saman (eða svona næstum því), en þegar Gunni er í stuði fer Kisi út og lætur ekki sjá sig tímunum saman. Þeir eru báðir algjörir dúllurassar.

Ég sjálf er bara nokkuð hress. Get ekkert hlaupið frekar en fyrri daginn (fyrri árin...mehehe) en reyni að dröslast af og til í jóga og tabata, my lifesavers. Vinnan gengur vel og ég er sérstaklega stolt af Gettu betur liði skólans um þessar mundir. Það eru fáránlega margir flottir nemendur í Borgó!

Þessi færsla er orðin frekar myndarleg en verður samt myndalaus. Á fimmtudag og föstudag hellast inn ritgerðirnar og mun ég ekki eiga mér mikið líf um helgina. Ég geri ráð fyrir því að skila þeim af mér næsta mánudag, nema að til verkfalls komi. Ég leyfi mér að vera bjartsýn því að ég hef ekki tíma fyrir neitt slíkt og hvað þá skjólstæðingar mínir. Við sjáum hvað setur.

Adios

Jólrún :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lífið er svo lovlí þegar allt bara rúllar áfram og maður jógar! 

Harpsí (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband