Der Blog ist nicht tot.
25.5.2014 | 22:47
Nei, bloggið mitt er ekki dautt. Kannski í dauðateygjunum, þökk sé facebook og röð endalausra annarra afsakana. En ég vil halda lífinu í því sem lengst. Facebook tímalínan skilur eftir sig myndir, misgáfulega "statusa", slatta af "share" dóti, helling af brosköllum og enskuskotið móðurmál. Hér er oft meira kjöt á beinum og minna þarf að fylla inn í eyðurnar þegar fram líða stundir. Hér mæti ég með hugann fullan af hetjudraumum en hjartað lamað af sorg, eins og segir í laginu.
Ég hef reyndar fátt fram að færa eins og er. Man bara líðandi stund og varla það. Tíminn líður svo hratt að það eru jól annan hvorn dag og páskar og áramót þess á milli. Reyndar er allt í einu komið sumar, gleðjist gumar, grillum humar. Starfsdagar á morgun og hinn, vorferð starfsfólksins og svo langþráð sumarfrí. Önnin var fín að frátöldu 3ja vikna verkfalli. Kosturinn við verkfallið var þó sá að töluverður hluti af sumarvinnunni er að baki, þ.e. námsbókagerðin. Þar með skapaðist ákveðið rými og tími til þess að fara á endurmenntunarnámskeið í sumar. Enskudeildin ætlar öll að skella sér til Norwich (University of East Anglia) í ágúst. Ég er strax farin að sakna barnanna minna en þetta verða nú einungis sjö dagar af fróðleik og skemmtun.
Hvernig var annars helgin hjá mér? Fín, bara nokkuð annasöm. Við hjónakornin förum í bíó á fimm ára fresti og á föstudagskvöldið var það hin margrómaða Vonarstræti. Nei, ég fór ekki grátandi út úr bíó. Ég fór í bíóið með þann staðfasta ásetning að gráta ekki yfir myndinni. Það tókst hjá mér en ekki Hirti. Ég ætti kannski að gráta meira því að þyngslin fyrir brjóstinu leiddu alveg upp í vélinda og ég mátti vart mæla fyrir sviða í kokinu. Mér varð mikið hugsað til systur minnar alla myndina. Þeir sem til þekkja og hafa séð myndina vita eflaust hvað ég er að tala um. Ef þessi mynd fær ekki miklar viðurkenningar á alþjóðavísu verð ég illa svikin.
Myndin sat enn í mér á laugardaginn en hluti af henni smaug út um svitaholurnar í sjóðheitum yoga salnum. Restin af deginum fór í að græja og gera fyrir matarboð handa Starhólmapakkinu, eins og Ásta og fjölskylda vill gjarnan kalla sig. Síams eru að fara í sína hvora áttina bráðlega og þá þarf að hafa formlega kveðjustund. Gott kvöld með góðu fólki.
Þetta laugardagskvöld var nú reyndar ekki lokakveðjustundin því að við hittumst í Húsdýragarðinum morguninn eftir með börnum og foreldrum af leikskólanum í hreint út sagt yndislegri rigningu. Eftir það prógram fórum við sem leið lá upp í Hvarfahverfið til Guðrúnar í mömmuklúbbinn góða sem stofnaður var árið 2005 af fjórum óléttum Borgókellingum. Já, hann lifir enn, rétt eins og bloggið mitt. Skemmtilegur félagsskapur skarpgreindra samstarfskvenna og afleggjara þeirra.
Svo var Ástan kvödd, kallinn kvaddur til og skundað upp í Mosfellsdal að knúsa Víðigerðistvíburana og þeirra fólk. Fleiri kökur, meira kaffi og notalegt spjall. Þau eru komin með yndislegan lítinn kettling (mig langar í fleiri kisur!) en ég fékk að kveðja krabbameinssjúka hundinn þeirra sem verður líklega sendur í Sumarlandið í vikunni. Það er ekki svo langt síðan ég kvaddi annan hund sem var mér svo kær. Endalausar kveðjustundir.
Svo er Björgin mín að kveðja grunnskólann. Ekki mun hún sitja fleiri kennslustundir í Snælandsskóla því að á morgun fer hún í 10. bekkjar ferðalagið (óvissuferðina miklu) og á fimmtudaginn fer hún til útlanda með fjölskyldunni. Hún er núna á fullu að baka fyrir ferðina og pakka niður. Á miðvikudagskvöldið verður svo útskrift frá skólahljómsveitinni. Vonandi er Björg samt ekki að syngja (blása) sitt síðasta þar.
Við hjónin erum sem sagt að fara með yngstu dæturnar þrjár og föður minn sjötugan til Dóminíkanska Lýðveldisins (stórt nafn fyrir lítið land) á fimmtudaginn n.k. Við fljúgum reyndar fyrst til New York og gistum þar eina nótt, en fljúgum svo þaðan til DL. Þar ætlar fjölskyldan að eiga tvær hlýjar vikur saman á meðan bossinn (aka Hjörtur) þeysist um hafflötinn með brimbretti undir iljum og mardreka yfir höfði sér. Ekki leiðinlegt. Á meðan ætlar Helga að passa húsið og kisurnar og Harpa klárar stúdentinn í Stokkhólmi.
Við verðum auðvitað nettengd af því að Hjörtur á aldrei frí í vinnunni þannig að ég lofa að senda póstkort frá DL og lífga þar með örlítið upp á zolubloggið.
Stay tuned.
Zola Bloggmaster :)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.