Að eiga smáafmæli
6.10.2014 | 22:43
Alla mína afmælisdaga (einu sinni á ári altso) er ég spurð að því hvort að ég eigi stórafmæli og ég get bara svarað játandi á tíu ára fresti. Samt tekst Ástu og öðru eðalfólki alltaf að láta mér líða eins og verið sé að fagna fæðingu frelsarans, en ekki afmæli kiðfættrar kennslukonu. Hósanna dóttur Bjórlafs! Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég vaknaði á afmælisdaginn minn var að búið var að skreyta asnann sem ég ætlaði að ríða á inn í Jerúsalem:
Þar var auðvitað að verki hún Drottins dýrðar Ásta Laufey, ofurvinkona og skemmtanastjóri Kópavogs eystri. Á faratækinu hékk líka fallegur pakki sem innihélt hvít silkiklæði og silfri skreytt talnaband.
Fjölskyldan mín fagra var búin að undirbúa morgunverðarhlaðborð úr bakaríinu og hefði með því tekist að metta að minnsta kosti fimm þúsund:
Á borðinu má sjá glitta í fallegan sælgætis íkona af afmælisbarninu. Lærisveinarnir sitja glaðir hjá. Við morgunverðarborðið biðu mínu fleiri gjafir, til að mynda heil ósköp frá Séra Lúllu systur í Noregi og ný bók eftir Soffíu Bjarnadóttur sem gerist í Flatey (ég klára hana í kvöld!). Fjölskyldan var áður búin að gefa mér forláta ferðatösku svo að nú get ég farið að pakka niður.
Eftir sykurát, lattéþamb, gönguferð upp í leikskóla og smá kennsluundirbúning heima fyrir, hætti ég mér loks til Jerúsalem höfuðborgarsvæðisins: Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Það er alltaf óþægilegt að eiga afmæli á virkum degi þegar Ásta er annars vegar. Oftar en ekki hefur hún skreytt stofuna mína svo illa að nemendur eru enn að týna upp í sig Nóakropp af borðunum hálfum mánuði seinna. Ég vonaði að ég væri óhult af því að ég var ekki að fara að kenna klukkan átta og því ekkert hægt að undirbúa kennslustofuna.
Eftir að hafa lagt brúðarbílnum skakkt (rýmisgreind fyrir neðan sjávarmál) í stæðið tölti ég með hnút í maganum (eða magasár síðan á "reunion") upp stigann og inn á kennarastofu. Þar var allt með kyrrum kjörum nema að borðið mitt var í rúst, eins og alltaf á afmælisdaginn minn. Ókey, það er í rúst flesta aðra daga en það er bara af því að ég vinn svo mikið. Clean desk, sick mind. Það sást ekki í lakkaða furuna fyrir Nóakroppi, rommkúlum, kókosbollum og pökkum! Enskudeildin hlóð á mig fötum í ræktina og nánir samstarfsmenn pökkuðu inn öllum mögulegum tegundum af sælgæti sem þeir gátu fundið úti í Bónus og gáfu Sólu sweet-tooth. Ég var varla búin að þakka fyrir mig og knúsa Ástu þegar hún sagðist þurfa að tala við mig í einrúmi. Hún var svo alvarleg á svipinn að magaopið herptist saman og kramdi litla Nóakroppið sem ætlaði að smeygja sér þar í gegn. Við strunsuðum beint inn í stofu 310 og þar var....SURPRISE! Ég á svolítið erfitt með eitthvað óvænt og þess vegna gerir Ásta sér far um að koma mér á óvart...og alltaf tekst það! Að sjá þessa krakka...
...ekki átti ég von á þessum elskum! Þau blöstuðu "Desperado" með Eagles (eitt af mínum uppáhalds), voru búin að skrifa falleg orð til mín á töfluna, baka og blása upp blöðrur! Svo sungu þau afmælissönginn og enduðu á því að syngja "Hafið eða fjöllin" - annað uppáhalds og virkilega "meaningful" lag fyrir mig á svo margan hátt. Lagið lærðu þau á youtube daginn áður og sungu svo listavel að jafnvel Siggi Björns hefði roðnað, hefði hann verið sú týpa sko. Já, þarna hefði Jóla farið að grenja ef hún væri ekki komin af breiðfirzkumslashvestfirzkum harðjöxlum langt aftur í ættir. Ég grét innan í mér, sem var ekki gott fyrir magasárið.
Eftir að hafa verið sett algjörlega úr jafnvægi tókst mér þó nokkurn veginn að leyna afmælinu fyrir "venjulegu" nemendunum (afmælisnemendurnir eru elítan okkar), halda haus, kenna eins og manneskja og sleppa úr skólanum nokkuð snemma (engir fundir, aldrei þessu vant).
Sigrún sæta fór með mér í búð að redda efni í eftirrétt en auðvitað notuðum við tækifærið og fengum okkur sushi. Það er enginn afmælisdagur án sushi. Að venju er ég ekki með stórveislu (þó að um stórafmæli sé að ræða), heldur býð bara þeim allra nánustu í mat. Að óvenju var ég ekki með sushi í matinn, heldur HANGIKJÖT. Mér finnst hangikjet óhemju gott en fæ það bara í mesta lagi tvisvar á ári, þ.e. á jólum og páskum. Þar sem bróðir minn kallar mig oft Jólu fannst mér tilvalið að vera með jólaþema (samanber fæðingu frelsarans og allt það) og kom því gestum á óvart með hangikjöti og tilbehör í október. Ég fann falleg jólalög á youtube og þetta þurfti fólkið mitt að hlusta á yfir matnum. Allir komust í hátíðarskap og ekki skemmdi fyrir þegar fyrsti snjór vetrarins fór að falla seinna um kvöldið. Ég er greinilega beintengd, eins og ég hef alltaf haldið fram.
Gjafirnar héldu áfram að streyma inn og gestirnir með (tók minna eftir þeim síðarnefndu, ho ho). Þessi stelpa kom færandi hendi:
Fullt af dökku súkkulaði og forláta rauðvín frá krútturössunum Helgu, Hörpu og Jakob. Helga drakk reyndar allt rauðvínið um kvöldið en ég mun sitja næstum því ein að súkkulaðinu. Fríðskeggjaði faðir minn fyrir aftan Felgu fínu færði mér fagran blómvönd, bók, súkkulaði (hvað annað) og rauðvín. Tengdaforeldrar mínir komu líka færandi hendi og síðastur kom bróðir minn og fjölskyldan hans fagra með endalaust bland í poka, eins og þeirra er siður. Bjössi bró hélt uppi stuðinu með gítarleik, á meðan Erna mágkona sms-aði í allar áttir í leit að betra partý:
Fullkomni afmælisdagurinn endaði svo á því að ég sofnaði með nefið ofan í nýrri bók, eftir að hafa like-að allar fallegu afmæliskveðjurnar á facebook. Takk allir fyrir að hafa gert daginn minn góðan. Ég hlakka til þess að eiga aftur stórafmæli á næsta ári (engin pressa Ásta mín).
Sóla Jóla :)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 7.10.2014 kl. 09:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.