Nýja húsið og jólaskapið (margar myndir!)
22.12.2012 | 23:45
Ég er glöð og komin í dúndur jólaskap, en það var ekki alveg það sama upp á teningnum í gær. Kristilegur friðarboðskapurinn vék fyrir grimmilegum reiðihugsunum...en af hverju? Kannski segi ég frá því í enda færslunnar, kannski ekki...?
Ég ætla að klára myndapakkann núna í ofurstuttu máli. Hér sjást jólasokkarnir sem bíða spenntir eftir gjöfum frá Kertasníki:
Ég negldi í þennan fallega trévegg af því að á næsta ári fær hann að víkja þegar við opnum eldhúsið. Eldhúsið er samt auðvitað opið núna, a.m.k. fyrir svangt heimilisfólk. Ég var aðeins í vafa um hvort ég ætti að birta næstu mynd, svona til þess að toppa hallærislegheitin. Læt hana flakka (hef engu að tapa):
Ég held að ég hafi minnst á það áður að eldhúsið hérna er ekki mjög rúmgott miðað við það gamla. Einhvers staðar varð búrskápurinn að vera þannig að við breyttum forláta diskarekka í matarskáp. Til stendur að henda hvítri gardínu yfir þetta, en það hefur ekki verið gert að forgangsatriði (ég á ekki saumavél...ég kann ekki á saumavél...mig langar ekki í saumavél). Núna veit ég reyndar miklu betur hvað ég á inni á lager heldur en áður. Legg til að smíðaður verði búrskápaður svipaður þessum inn í nýju eldhúsinnréttinguna, bara með skáphurð til þess að fela góssið.
Svo sést hérna fína eldhúshornið frá sjónarhorni Kristrúnar og kattarins:
Kisi skreytir myndina, á hröðum flótta undan paparazzi. Hann virðist reyndar vera á sífelldum flótta þessa dagana, skíthræddur við allar framkvæmdir. Sefur uppí hjá Björgu um nætur, forðar sér í dagrenningu og kemur svo heim seint á kvöldin þegar hann er viss um að enginn sé að saga, negla eða ryksuga. Aumingja kallinn. Hann nær kannski að róa sig aðeins um jólin. Ég passa upp á að eiga alltaf rækjur og rjóma í ísskápnum svo að hann sjái alla vega einhvern smá tilgang með því að kíkja í Daltúnið á degi hverjum.
Hér er svo eldhúsið frá öðru sjónarhorni. Við vorum ekkert að mála það núna, enda tekur því ekki að vera að gera einhverjar breytingar þar ef að allt verður rifið út á næsta ári. Ef vel er að gáð sjást þrír skór úti í glugga. Sá minnsti númer 25 og sá stærsti númer 39 (með 20 sentimetra hæl).
Þá er það efri hæðin, sem tónar vel við þá neðri. Þeir sem muna vel tískuna snemma á níunda áratugnum sjá að engu hefur verið til sparað í innréttingum þegar þetta hús var byggt. Sérsmíðaðar JP innréttingar, hvert sem er litið og allt í stíl. Mjög vandað. En...við ætlum samt að breyta um stíl. Fjárans snobb bara, því að allt er hér í 100% lagi og húsið viðhaldsfrítt jafnt að innan sem utan. En...
Hér sést stiginn niður og þetta líka fína blómahorn með ekta plastblómum. Uppi er háaloft sem við ætlum hugsanlega að innrétta að hluta til sem svefnloft og þá myndi blómahornið fara og áframhaldandi stigi koma í staðinn. En kannski verður ekkert af þessum hugmyndum. Það er alla vega hægt að stækka við sig ef þess þarf. Ætli við bíðum ekki og sjáum hvort að Björg Steinunn flytji að heiman 17 ára eins og Helga...? Djók. Ööö...vonandi. Heyrðu já, stiginn...eða tröppurnar:
Þessar tröppur leiða upp í sjónvarpsholið sem hét á upprunalegum teikningum "leikherbergi." Þarna glittir aðeins í nýja sófann sem við festum loksins kaup á í fyrradag. Til hægri er svo gengið inn í hjónaherbergið, sem er núna herbergið hennar Sigrúnar:
Hún fékk að hafa það fjólublátt með hvítum fiðrildum. Rúmið og skrifborðið fékk ég í fermingargjöf frá pabba. Ég man að ég fékk að velja húsgögnin sjálf í verslun sem hét Furan. Íslenskt og vandað og hefur staðist tímans tönn. Stelpurnar sitja í rólunni sem pabbi gaf Björgu þegar hún flutti í Álfatúnið. Ekki hefur verið pláss fyrir hana síðustu ár, en stelpan í stóra herberginu fékk að hafa róluna núna.
Innaf herberginu er svokallað "leyniherbergi" þar sem littlepets, pleimó, barbí og fleira fínerí er geymt, börnum til yndisauka. Kristrún vildi endilega láta taka mynd af sér í leyniherberginu:
Næsta herbergi við hliðina er svo bleika herbergið. Kristrún fékk að velja litinn, en að fenginni reynslu veit ég að hún verður vaxin upp úr litnum að fáeinum árum liðnum. Því er bara einn veggur málaður í uppáhaldslitnum og auðvelt að skipta um lit þegar bleikur verður of barnalegur.
Hér er svo sjónvarpshólið með nýja sófanum:
Fyrir aftan sófann eru bókahillur og tölvuborð...jú og skiptiborð fyrir Jakob Ara, bráðum 4ja mánaða (drengurinn...skiptiborðið kemur upphaflega frá Björgu og er því mun eldra).
Gamla settið tróð sér í herbergi sem snýr út að Fossvogsdalnum, þar sem ávallt er friður og ró (nema þegar HK leikir eru í gangi á sumrin). Hér sofum við undurvel, fyrir utan þau skipti sem að vindurinn gnauðar í loftnetinu á þakinu beint fyrir ofan herbergið. Fyrst hélt ég að einhver væri að spila á píanó í kjallaranum um miðja nótt en svo áttaði eiginmaðurinn ofurklári sig á því að þetta væri nú bara gamalt lofnet sem fjarlægja þyrfti með körfubíl einhvern tímann í framtíðinni. Ég treysti á að það verði logn um jólin.
Við hliðina á okkar svefnherbergi er svo baðherbergið, bæði með sturtu og baði. Það verður einhvern tímann tekið í gegn, en ég held að það væri bara fínt að mála veggina og flísarnar með einhverju góðu stöffi og láta það duga næstu 5-10 árin. Jú...og kannski skipta um baðinnréttingu einhvern tímann. Þetta er bara fínt baðherbergi. Svo er lítið gestaklósett við hliðina á forstofunni niðri en það verður eitthvað flikkað upp á það um leið og við skiptum um gólfefni á næsta ári. Þvílíkt gott að vera með tvö klósett - eiginlega alveg bráðnauðsynlegt þegar litla dýrið situr hálftíma á dollunni með bókastaflann fyrir framan sig!
Að lokum er það þvottahúsið sem fékk netta upplyftingu í vikunni og var kannski helsta ástæða illra hugsana sem sóttu á mig í gær:
Hér er búið að hækka upp undir vélunum svo að gamla konan þurfi ekki að beygja sig. Ekkert feministahjal hérna...þvottahúsið er minn staður og Hjörtur á eldhúsið (oftast)...og bílskúrinn (skuldlausan). Svona er þetta og allir sáttir. En ef hann sækist eftir þvottahúsinu líka má hann alveg eiga það.
Anyways...aðstoðarmaður jólasveinsins, eins fær og hann nú er, var ekki alveg að standa sína plikt á síðustu metrunum. Rúmt dagsverk varð að margra daga verki og á meðan var allt á hvolfi; verkfæri, spýtur, umbúðir...you name it. Ekki huggulegt svona rétt fyrir jól. Og allt sagað inni, svona til þess að henda enn einu ryklaginu yfir húsið. Ég veit að ég hljóma eins og jólaandi móður minnar hafi hellst yfir mig (mamma var þrifnasta kona í heimi) en ég er alls ekki þannig. Rykkornið var samt alveg að fylla mælinn í gær og ég vildi losa mig við aðstoðarmanninn strax, en hann kom þunnur og þögull í morgun og kláraði verkið þannig að nú er loksins allt orðið snyrtilegt á ný. Sólrún orðin Jólrún og Sóla orðin Jóla. Þarna sannaðist enn á ný hið fornkveðna að öl er böl. Ég vona svo innilega að engin fjölskylda þurfi að þjást um jólin út af alkóhólisma. Ég vona líka að enginn úti í hinum stóra heimi svelti um jólin. Líkurnar á því að vonir mínar og óskir rætist eru engar. Sorglegt. Og ég er vanþakklátt gerpi sem heldur að heimurinn farist ef húsið verður ekki orðið fínt fyrir jól.
Mér heyrist að loftnetið ætli að syngja mig í svefn í nótt. Þollákur á morgun, skötuveisla hjá pabba og svo bara nánast komin jól.
Þetta hefur verið óvenju annasöm aðventa en ætli við reynum ekki að slaka svolítið á yfir jólin, litla Daltúnsfjölskyldan.
Gleðileg jól öll sömul!
Jóla gamla
Nýja húsið...
18.12.2012 | 22:00
...eða smá partur af því alla vega. Hlutirnir eru ekki alveg klárir enn og alltaf eitthvað verkefni í gangi. Í dag var verið að mála þvottahúsið og setja saman hillur til þess að hafa þar. Ég slökkti líka á símanum og tölvunni hjá Hirti í klukkutíma í morgun svo að við gætum klárað að hengja upp myndirnar. Rússneskar ljósaperur úti um allt, en þetta mjatlast einhvern veginn áfram. Þurfum að drífa það af að kaupa sjónvarpssófa til að hafa uppi (svo að einhver nenni nú að horfa á sjónvarpið) og þá ættu nú húsgagnakaup að vera búin í bili. Reyndar er ekki mikið um ný húsgögn, svei mér þá. Nýtt rúm fyrir Björgu (seldum það gamla) og...og...svo bara sófinn sem eftir er að kaupa. Eins og áður sagði vorum við ekki lengi að fylla húsið með dótinu okkar úr Álfatúni. En ég var að djóka með að við værum að leita að stærra húsi. Hjörtur er búinn að plana að drepast hérna svo að hann þurfi ekki að sjá um að flytja aftur. Ætli ég þurfi þá ekki að fylgja sama plani og leyfa börnum og barnabörnum að rífast um draslið. "Vilt þú eiga þetta?" - "Nei ómögulega takk."
Ég lofaði myndum, en verð að viðurkenna að ég hef ekki verið dugleg að fanga ferhyrnd rýmin á filmu. En hér er ein stafræn síðan í síðustu viku, svona í tilefni þess að Björg tók loksins til:
Björg er unglingur og þess vegna má andlit hennar ekki birtast á bloggsíðu aldraðrar móður hennar. Ég man þá tíð þegar ég mátti birta mynd af henni í baði og hvaðeina. Those were the days... Þarna sést í nýja rúmið sem hægt er að stækka í tvíbreitt með einu handtaki. Ótrúlega svalt. Enn á eftir að ákveða hvað fer á gula vegginn. Myndir? Hillur? Píanó?
Hér sést í skrifborðið og hillurnar. Við hliðina er fataskápurinn og beint fyrir aftan ljósmyndarann eru fínar hillur sem Helga á og geyma núna 179 naglalökk, 12 ilmvötn og fleira alveg bráðnauðsynlegt. Ég á ekkert naglalakk og ekkert ilmvatn. Nei nú lýg ég. Björg gaf mér ilmvatnsprufu í dag. Það endist mér út árið...2013.
Ég tók auðvitað mynd af fyrstu "skyldumætingunni", þ.e. þriðjudagsdinnernum, sem var í síðustu viku. Allir glaðir á þessari mynd:
Við sitjum vanalega í litla eldhúsinu okkar og borðum, sem er ótrúlega notalegt og venst furðu fljótt. Þessa mynd átti ég í safninu frá síðasta föstudegi, þegar Kristrún, Sigrún og vinkona þeirrar síðarnefndu voru að baka og skreyta piparkökur:
Þarna sést í eldhúsbekkinn sem fylgdi með innréttingunni. Hann er einstaklega þægilegur. Hann fær víst að fjúka þegar eldhúsið verður tekið í gegn á næsta ári, nema að mér takist að finna not fyrir hann í húsinu. Ég hef augun opin!
Hjörtur tók þessa mynd í gærkvöld af fínu jólaseríunum sínum sem skreyta núna Daltúnið:
Þá er ég loksins komin í myndirnar sem ég tók áðan. Hjörtur er komin með langþráða vinnuaðstöðu í stóru horni innaf stofunni. Eiginlega er það ég sem fagna aðstöðunni meira en Hjörtur, því að eldhúsborðið var ávallt þakið pappír í Álfatúninu sem var svo bara rutt í burtu þegar fjölskyldan þurfti að snæða á kvöldin. Núna er ég að vonast til þess að borðstofuborðið verði alltaf hreint og snyrtilegt. Ef Hjörtur skilur eftir sig pappíra, penna og fleira lauslegt úti um allt (sem kemur "örsjaldan" fyrir) er minnsta mál að skutla þeim á skrifborðið hans, sem er eiginlega í hvarfi. Jette bra! Sjáiði hvað Hjörtur er glaður:
Það á aðeins eftir að laga til á skrifstofunni, eins og sést á pappakössunum, en það kemur með kalda vatninu.
Hér sést svo í stássstofuna, sem er ekki stór, en gerir sitt gagn. Til hægri er skrifstofan hans Hjartar.
Þessi mynd er tekin úr sófanum. Þaðan sést í fína þilið (sem fær að fara síðar) frammi á gangi, hluta af innréttingunni úr þvottahúsinu (sem bíður eftir að komast inn í nýmálað herbergið) og þaðan inn í eldhús.
Þetta eru orðnar svo margar myndir að ég held að ég komi með næsta skammt á morgun eða hinn. Kannski ekki merkilegar myndir, en örugglega áhugaverðar fyrir Lúllu syz og Svölu frænkz sem ekki eiga heimangengt enn sem komið er. Líka góðar heimildir fyrir okkur Daltúnana. Ég dauðsé eiginlega eftir því að hafa ekki tekið "fyrir" myndir.
Wello...jólin koma eftir tæpa viku og allir ánægðir með það. Síðasta skyldumæting í vinnuna á morgun, en svo dútlar maður við kennsluáætlanir, verkefnasmíði og fleira skemmtilegt á kvöldin þegar börnin sofa þannig að allt verði klappað og klárt 4. janúar. 30. desember koma Harpa og Rasmus með litla Jakob Ara og ætla að vera hjá okkur í heilan mánuð! Það verður sko gaman.
En ég segi bara bless í bili og lofa að henda inn fleiri myndum fyrir jól.
Luv
Jólrún
Kristrún Eir 3ja ára...og flutningarnir maður!
11.12.2012 | 22:58
Það er um að gera að halda upp á að vera komin með internettengingu í nýja húsið með því að skrifa aðeins um afmæli Kristrúnar...sem var 28. nóvember! Mér finnst eins og heil eilífð sé liðin síðan við héldum upp á afmælið hennar með sushi veislu (að hennar ósk) og bleikri köku, enda eru næstum því tvær vikur liðnar og margt búið að gerast. Við erum búin að puða frá morgni til kvölds með góðri hjálp tveggja Letta (til þess að gera lífið "lettara") og svo er ekki hægt að segja annað en að Óli afi og Ásgeir afi hafi komið sterkir inn, og hvað þá Ásta ofur með tuskurnar sínar og andlegan stuðning að vopni. Börnunum mínum vil ég líka þakka þolinmæðina (þau voru gjörsamlega afskipt í tvær vikur) og Bjössa bró og Ernu hró fyrir að létta þeim lundina síðasta laugardag. Helga hefði eflaust verið með okkur dag og nótt ef hún hefði ekki þurft að liggja í prófum, en hún sendi unnustann í málningu einn daginn. Þá held ég að kreditlistinn sé búinn að rúlla í gegn. Ég ætla hins vegar að bíða með fleiri fréttir af húsaflutningum þangað til næst því að fröken Kristrún Eir þarf sínar fimm mínútur af frægð (og móðirin að létta af samviskubiti sínu í leiðinni).
Litla ljósið okkar varð sem sagt 3ja ára 28. nóvember. Búið var að halda upp á afmæli hennar og Sigrúnar með vinum og vandamönnum í október sl., en það er hefð fyrir því að leyfa afmælisbörnunum að velja hvað er í matinn á afmælisdeginum sjálfum. Hér er Kristrún eldsnemma um morguninn, morgunfögur að vanda:
Hún var ánægð með alla pakkana sína og fór auðvitað í glænýjum fötum frá Noregi í leikskólann. Svo var ráðist á sushi-ið um kvöldið og eins og sést er hér fagmaður að verki:
Hún er ekkert voðalega spennt fyrir grjónunum, meiri svona sashimi stelpa alla leið! Fókusinn var svo á bleiku afmælistertuna sem móðirin græjaði í skyndi, enda undirbúningur fyrir flutninga hafinn:
Þriggja ára dúllídúll sem mamma og pabbi elska út af lífinu!
Jám...ég sit sem sagt inni í notalegu litlu eldhúsi með hlýjar korkflísar undir fótum og hlusta á bröltið í Hirti uppi þar sem hann er að brasa við að koma sjónvarpinu í samband. Ótrúlegt en satt: Internet og sjónvarp sama daginn! Halló heimur! Það er margt búið að gera en hellingur eftir. Svefnherbergin uppi eru klár en það á eftir að græja sjónvarpsherbergið betur, kaupa nettan sófaræfil og koma fyrir einni borðtölvu, öllu í sama rýminu undir súð. Herbergi Bjargar á neðri hæðinni er líka komið í gott stand en eitthvað á eftir að laga til í þvottahúsi, stofu og skrifstofu Hjartar. Í kjallaranum er geymsla sem verið er að smíða hurð fyrir (eftir að hafa brotið gat í gegnum vegginn) og svo er fullt, fullt af drasli sem enn á eftir að koma fyrir. Allir skápar troðfullir nú þegar og við erum strax farin að leita að stærra húsi!
Næsta sumar verður kannski ráðist í miklar framkvæmdir við að endurnýja eldhús og fleira. Ég hlakka bara til þess þegar allt verður orðið klárt núna fyrir jólin, myndir uppi á veggjum og engin verkfæri úti um allar trissur. En mér líst bara vel á þetta allt saman og öðrum fjölskyldumeðlimum líka. Kisi var reyndar mjög ósáttur. Hann trylltist úr hræðslu þegar við byrjuðum að flytja húsgögnin úr Álfatúni. Svo var okkur ráðlagt að halda honum inni í tvær vikur á meðan hann væri að venjast húsinu en það var nú hægara sagt en gert með þennan mikla útikött! Hann slapp út um rifu á glugganum hennar Bjargar og sást ekki í hálfan sólarhring. Með tár í hvörmum fórum við nokkrar árangurslausar ferðir upp í Álfatún að skyggnast eftir honum og báðum svo nágrannana að vera á vaktinni. Seint um kvöld birtist hann þar og ég krumpaði malbikið með Hondunni til þess að missa ekki af honum. Hann var handsamaður og átti nokkuð rólegan sólarhring í húsinu með alla dalla fulla af rækjum og rjóma. Svo í gærmorgun vildi hann endilega komast út og gerði alvarlega sjálfsmorðstilraun með því að reyna að troða hausnum í gegnum bréfalúguna! Þegar það gekk ekki sprændi hann yfir alla úlpuna hennar Sigrúnar Bjarkar, sem ætlaði einmitt að fara að arka í skólann. Skynsamur köttur, enda gáfumst við hjónin upp á þessum tímapunkti og hleyptum honum út í frelsið. Við hefðum átt að hafa aðeins minni áhyggjur því að 5 mínútum seinna vappaði hann aftur inn...og svo út aftur...og svo inn aftur...og svo út aftur...og inn...svona rétt til þess að fá staðfestingu á því að hann réði för. "Mjálm" og mamma opnar og hleypir mér inn. "Mjálm" og mamma opnar og hleypir mér út... Yndislegur hann Kisi okkar Jackson :). Núna er Hjörtur svo að væla í mér um að fá annan kött á heimilið. Hann hitti nefnilega ofursætan kettling í Sandgerði í dag sem er líka af skógarkattarkyni og bráðvantar heimili. Hmmm...sjáum til.
Jæja, auðvitað tókst mér að tala meira um flutningana en barnið! Ég stefni á að henda inn nokkrum myndum næst, alla vega af þeim herbergjum sem teljast fullkláruð.
60 manns í prófi hjá mér á morgun þannig að ég ætti að hafa nóg að dunda mér við næstu dagana.
Sjáumst!
Sóla Daltúni :)
Bráðum...
23.11.2012 | 22:48
...flytjum við í nýja húsið! Við fáum afhent á mánudaginn og upp úr því byrjar stuðið. Reyndar verður aðaláherslan lögð á að mála efri hæðina áður en flutt er inn því að meirihlutinn af neðri hæðinni fær að bíða fram á næsta sumar, ef einhver peningur verður þá til. Hjörtur verður að finna fleiri fiska í sjónum og ég að koma fleiri nemendaígildum í gildi um og eftir páskafrí. Stefnt er að því að breyta '81 eldhúsi í tvöþúsund-og-tólf-eldhús. Ég hef fengið þá áskorun að gera myndband í stíl Ásgeir Kolbeins og Arnars Gauta (Innlit-Útlit) og nota lýsingarorðin "ógeð" og "viðbjóður" - en ég held að ég segi bara pass. Ég er orðin spennt fyrir því að sitja inni í lokuðu eldhúsi í litlum krók og hafa það bara rosalega huggulegt eins og í gamla daga. Ég þyrfti að brenna upp einn filterslausan Camelpakka til þess að ná stemmningunni alveg fullkomlega. Kannski smá Salem Lights líka. Þá mun andi (mökkur) mömmu og Báru Jóns á Ægisgötunni back in the Stykkis svífa yfir vötnum. Anyways, þó við séum "bara" að fara að mála núna verða flutningarnir örugglega mikið verkefni. Pæliðí samt í því hvað allt verður hreint og fínt fyrir jólin (ef allt gengur að óskum). Spennó spennó...
Nú er bara vika eftir af kennslunni í skólanum og allt að smella saman. Uppskeran verulega góð hjá mörgum nemendum og svo þarf bara að sparka aðeins í rassinn á hinum. Mér sýnist líka á öllu að skólastelpunum mínum gangi ágætlega. Alla vega eru þær glaðar og ánægðar, bæði á Grænatúni og í Snælandsskóla. Í síðustu viku var bekkjarkvöld hjá Sigrúnu. Hér er hluti af bekknum að syngja falleg lög:
Talandi um fallegan söng...sem yrði samt útúrdúr. Við hjónin buðum pabba og Björgu Steinunni á Todmobile tónleikana síðasta föstudag. Við áttum sæti á fremsta bekk fyrir miðju sem var nú ekki leiðinlegt upp á útsýnið:
Reyndar sá ég ekki nema þriðjung af 70 manna hópnum sem var með þessum snillingum á sviðinu fyrr en í uppklappinu í lokin. Björg fylgdist þó grannt með aðförum básúnuleikaranna og hafði mjög gaman af öllu saman. Eftir tónleikana fórum við í afmælispartý til Ernu mágkonu en stöldruðum stutt við þar sem Hjörtur var kominn með magapest. Hann eyddi svo allri nóttinni í gubberí og annað fínerí. Ég tók við af honum daginn eftir og tókst að láta ógleðina endast í heila fimm daga, sem var heldur óskemmtilegt. Ég held að annar hver maður sé búinn að vera með þessa pest. Diddú og Kiddú fram og til baka og svo lokaði Björg Steinunn þessu snyrtilega með því að sprauta yfir næstum því allt í herberginu eina nóttina. Gott að þetta er búið!
Mjámjámjá...líka bekkjarkvöld í þessari viku, í þetta sinn hjá Björgu. Ekki eins fjölmennt og hjá Sigrúnar bekk, enda virðast foreldrar hætta að vilja fylgja börnum sínum á bekkjarkvöld þegar þau eldast. Eða kannski vilja börnin ekki hafa foreldrana með? Eða kannski er þetta allt saman einn heljarinnar misskilningur? Ég ætla alla vega að mæta á öll bekkjarkvöld hjá börnunum mínum og hafa gaman. Tja...ég neyðist reyndar til þess að mæta alltaf vegna þess að ég er bekkjarfulltrúi (það er ákveðinn lífsstíll sem ég tileinkaði mér eftir að ég kynntist Ástu). Gaman saman. Hér er mynd af vinum Bjargar á bekkjarkvöldi:
A
Allir sveittir og svangir eftir mikið stuð!
Ég er eitthvað svo rugluð í kvöld. Ég ætlaði að nota kórsöng Sigrúnar sem stökkpall fyrir umræðu um stórkostlega tónleika Skólahljómsveitar Kópavogs en endaði svo í einhverju gubbupestarvæli. SK og gubbupest eru andstæður miklar. Ég get svo guðsvarið það (innsog) að eitt af því besta sem ég hef gert er að flytja í Kópavoginn og setja barnið mitt í skólahljómsveitina. Gæsahúðin sem ég fékk þegar C-sveitin spilaði "Bohemian Rhapsody" er engu lík! Ég ætla rétt að vona að Diddú og Kiddú feti í fótspor systra sinna (Helgu þverflautu, Hörpu trompets, Bjargar básúnu) og afa (Óla klarinetts, saxófóns, trommu, etc...) og spili í lúðrasveit. Love it!
Ég blogga svo sjaldan að ég er alltaf að tjá mig um löngu liðna atburði. Því finnst mér sniðugt að henda inn mynd af Björgu sem tekin var í gær:
Þarna var hún að smakka Tab í fyrsta sinn og upplifunin var einstök! Hmmm...átti að minnsta kosti að vera það. Þetta var nú minn uppáhaldsdrykkur og varð ég því fyrir djúpum og sárum vonbrigðum þegar barnið fann engan mun á Tab-i og Pepsi. Bragð er að þá barnið finnur...blah! En ástæðan fyrir því að barnið heldur svona fyrir ennið á sér er að augabrýrnar eru ekki nógu fínar. Þetta er einmitt það sem ég var að spá í þegar ég var 14 ára. NOT. Hvað er annars með þetta augabrúnablæti hjá íslenskum konum? Maður þekkir þær langar leiðir að í útlöndum, bara á kolsvörtum og örmjóum augabrúnum, jafnvel þó að hárið sé snjóhvítt. Spez tízka.
Well well...hef enga stjórn á þessu letri hérna. Fyrst var það stórt og svo minnkaði það. Alveg eins og hárið á Hirti.
Písát.
Jóla Óla
Afmæli afmæli afmæli...og smá rok
6.11.2012 | 21:10
Þegar starfsfólk Landsbankans í Keflavík fer að kvarta yfir bloggleysi er kominn tími til þess að spýta í lófana...og sulla út lyklaborðið.
Það er alveg heilmargt búið að ganga á og gerast og jafnvel eiga sér stað síðan síðast, en myndavélin fangar bara veislur og aftur veislur og jafnvel smá partý líka. Fór líka í eitt teiti á laugardaginn.
Veðrið í Grafarvogi var alls ekki til fyrirmyndar á föstudaginn. Ég hélt ég myndi láta lífið og fjúka með gámum og öðru álíka þungu og lauslegu þegar ég barðist í gegnum fellibylinn frá skólanum í World Class í Spönginni. Þegar til kom féll svo tabata tíminn niður af því að þær fáu sem voru mættar óttuðust um bílana sína á stæðinu fyrir utan. Sá ótti var ekki ástæðulaus því að það brotnuðu margar bílrúður í veðurhamnum. Eitt kennaranef brotnaði líka og næstum því hausinn með, sjúkrabíll og læti. Óskemmtileg sjón og bara guðs mildi að ekki urðu alvarlegri slys á fólki. Kennslunni var aflýst og það gerist ekki oft í Borgarholtsskóla.
Helgina áður héldu Sigrún og Kristrún upp á afmælið sitt fyrir fjölskylduna. Kristrún verður reyndar ekki þriggja ára fyrr en 28. nóvember, en það er víst óþarfi að vera að kalla saman allt liðið á mánaðarfresti, sérstaklega þegar húsmóðirin er ekki ofsalega mikið fyrir að undirbúa veislur. Samt voða gaman að bjóða fólki - leiðist bara tíminn sem fer í undirbúning. "Keep it simple" var mottó helgarinnar og gekk bara ágætlega upp. Hér eru Sigrún og Kristrún að búa til ostapinna fyrir gestina:
Sigrún er með athyglina á sjónvarpinu (var þrjá tíma að búa til 50 ostapinna) en Kristrún var aðallega í því að borða allt sem hönd á festi, litla sílóið.
Ég gleymdi að taka mynd af aðalkökunum, en hér sést í afmæliskökuna og nokkra góða gesti:
Ægisgötuafkomendur og Strandamenn fylla hálfan salinn!
Litlu prófessorarnir Halldór Ásgeir, Aðalsteinn og Sigrún Björk dunduðu sér lengi við að púsla saman hnattlíkani. Halldór og Sigrún fundu réttu stykkin og Aðalsteinn setti þau á sinn stað. Mikil og góð samvinna hjá þessu skemmtilega teymi.
Síðasta helgi var vindasamari en afmælishelgin, en þegar lægði loks seinni part laugardags tölti ég út úr húsi til þess að hitta systkini mín í föðurhúsum. Tilefnið var langþráð myndakvöld, en það hefur sem sagt tekið okkur 10 ár að koma okkur í það að skipta upp myndum úr myndasafni mömmu. Ekki entist okkur kvöldið til þess því að bróðir minn er mikill "gourmet" kall og þurfti að láta okkur smakka á og dæma alls kyns góðgæti sem hann dró upp úr mal sínum. Hér er brot af því besta:
Ég man nú ekkert hvað þetta dót heitir allt saman, en gantaðist örlítið með grafna ærkjötið sem á borð var borið og stakk upp á því að Assý móðursystir úr Mývatnssveitinni hefði sent Bjössa það, ferskt upp úr einum skaflinum. Auðvitað grínast maður ekkert með svona hörmungar og biðst ég innilega afsökunar á skeytingarleysinu og ósmekklegheitunum. Heitreykta andalifrin fékk engin skot á sig (eða í sig - maður skýtur ekki aliendur) en ítalska salamipylsan bauð upp á athugasemdir sem voru hreinn horbjóður.
Núbb...gærdagurinn rann upp svo ægilega bjartur og fagur að við stelpurnar urðum að skreppa í Húsdýragarðinn. Þar vorum við lengi, lengi í ljúfa logninu. Hér er Kiddú litla Biddú, ægilega ánægð með lífið:
Buðum svo Bjórlafi föður mínum og Búllu bavíana systur minni í mat um kvöldið, sem var ágætis endir á góðri helgi.
Hann Jakob Ari okkar tók svo upp á því að verða tveggja mánaða þann 2. nóvember og ég stenst ekki mátið og stelst til þess að deila dýrðinni:
Svo dædur og dædur þessi dákur....gússígússímússí....!
Lifið heil!
Sóla sveskja
Hrekkjavökuafmæli Sigrúnar Bjarkar
23.10.2012 | 23:17
Warning: This blog contains too many photos!
Þá er amman komin heim frá Stokkhólmi og aftur orðin "bara" mamma. Móðurhlutverkið er samt veigameira hlutverk eins og sást mjög greinilega þegar við kysstum litla Jakob Ara og foreldra hans alltaf góða nótt fyrir miðnætti á meðan þau máttu vaka áfram þangað til að ungviðinu þóknaðist að sofna. Alltaf 24/7 hjá mömmunum á meðan þreyttar ömmur fá sinn fegurðarblund. En öll eru þau þó jafn mikilvæg, þessar yndislegu elskur.
Ég veit að Sigrún Björk fyrirgefur mér síðar meir þegar hún sér að umfjöllun um skírn Jakobs Ara fékk forgang á blogginu mínu. Hún er skilningsrík og þolinmóð ung stúlka sem kann að meta dugnað móður sinnar þegar kemur að því að halda upp á afmælið hennar (nú er ég að reyna að sleikja hana upp).
Síðast var prinsessuafmæli en þar sem Sigrún Björk er orðin sjö vetra gömul þótti tilvalið að fara í eitthvað meira "fullorðins" og varð því hrekkjavökuþema fyrir valinu. Sigrún er svo heppin að eiga pabba sem er alltaf nýkominn frá USA rétt fyrir afmælið hennar þannig að hann getur sett ýmislegt ódýrt góss í ferðatöskuna sína. Þessi hrekkjavökuborðbúnaður sómdi sér vel á veisluborðinu:
Erfiðara var að koma með skyndi-hrekkjavöku-bita heim þannig að húsmóðirin þurfti að leita að innblástri á netinu og víðar. Þessir blóðugu, plástruðu fingur voru í boði hússins:
Einfalt að gera: Bara tálga neglur á pulsurnar, vefja tortillu utan um og hita í ofni.
Ég hafði pantað stóra könguló til þess að hengja í loftið en ekki skilaði hún sér frá Amazon...fljótinu. Eftir hvatningu frá Helgu stóru systur lagðist húsmóðirin í föndur:
Tveir ruslapokar og Karlotta könguló komin upp í loft!
Köngulær eru alltaf ógeðslegar þannig að möffins, lakkrísreimar og spælegg voru alveg málið:
Svo komu gestirnir í brjáluðu stuði, allir klæddir í hrekkjavökubúninga (nema tvær):
Nornabúningurinn var í tízku þetta árið :)
Hér sést svo sjálf afmælisnornin (til vinstri) í djúpum samræðum við nornavinkonu sína:
Veitingarnar voru allar mjög ógeðslegar. Fátt toppaði þessa drulluormaslímköku:
Afmæliskakan sjálf var samt heldur settlegri og meira í stíl við afmælisbarnið sjálft:
Fleira var svo á boðstólum eins og illilegar pizzur og graskerlagaðar gulrætur, en það sem sló mest í gegn var þurrísinn í drykkjunum. Hér er Kristrún Eir krútturass að dást að þurrísnum:
Gufan flæðir draugalega yfir gólfið, en flæddi líka mjög draugalega upp úr blóðrauðum drykkjum afmælisgestanna. Það þarf varla að taka það fram að Kristrún Eir harðneitaði að vera ljót og skelfileg í afmælinu og kaus frekar að vera snyrtileg prinsessa. Hún vex nú upp úr því áður en fiskur nær að draga andann.
Sem sagt, alveg ljómandi fínt afmæli og gestirnir skemmtu sér vel. Já, eiginlega svo vel að hljóðhimnan sprakk í einu afmælisbarninu, spegillinn í forstofunni brotnaði og hálft tonn af fötum af nornum og skrímslum fundust á víð og dreif um húsið þegar forynjurnar höfðu yfirgefið staðinn. En það er nú bara eins og vera ber. Ég var samt að spá í að hafa skákþema í næstu afmælisveislu :)
Afmælisbarnið var ánægt og það er fyrir mestu. Hér er nornin komin úr búningnum daginn eftir, tilbúin að blása á kökuna á sjálfan afmælisdaginn:
Kristrún fylgist ábúðarfull með stóru systur sinni. Nú er stutt í að Kristrún verði þriggja ára. Mikið á ég stórar stelpur (og pííínulítinn ömmustrák!)!
Aukafréttir Jólrúnar: Ég er enn með stóra marbletti eftir hjólabyltuna en virðist ekki ætla að bera neinn varanlegan skaða af. Svo er mér líka óhætt að segja frá því núna að íbúðin okkar seldist nánast daginn sem hún kom á sölu! Við vorum bara að bíða eftir staðfestingu á því að kaupendurnir hefðu staðist greiðslumat og núna ætti því allt að fara að verða klappað og klárt. Flutningar í desember en nóg að gera fram að því við að klára önnina (busy busy), halda afmæli, gera hitt og gera þetta. Og svo blogga auðvitað smá.
Stay tuned!
Zola Sieben
Litli Lindström skírður
20.10.2012 | 18:55
Ég veit að það er ljótt að vera ekki búin að gera fína afmælisdeginum hennar Sigrúnar Bjarkar góð skil hér á blogginu áður en ég fer að tala um eitthvað annað, en fyrst ég er hérna í Svíþjóð og loksins tími til þess að setjast niður og skrifa nokkrar línur verð ég bara að veita litla Lindström smá forgang.
Það var yndislegt að hitta og knúsa litla krúttið á flugvellinum í Stokkhólmi. Hann er svo ægilega góður eitthvað og yndislegur. Við kíktum aðeins niður í miðbæ í gær til þess að spóka okkur og versla og hann svaf allan tímann. Svo fórum við í matarboð til pabba og stjúpmóður Rasmus um kvöldið og átum á okkur gat. Dagurinn í dag fór í að græja sushi og undirbúa skírnina. Þegar allt var að verða klárt náðu afi og litli Lindström aðeins að hvíla sig saman:
Svo komu gestirnir, sem voru reyndar ekki svo ýkja margir. Tveir vinir Rasmus og svo fjögur sett af öfum og ömmum - plús danska langamman. Það var gaman að fá að klæða litla engilinn í gamla skírnarkjólinn sem að allar systurnar nema Björg Steinunn hafa verið skírðar í. Það eru ekki nema tæplega þrjú ár síðan Kristrún var skírð í honum. Hér er Sól'amma með litla gullmolann í skírnarkjólnum:
Er hann ekki sæææætur?
Skírnin sjálf var yndisleg. Sænska séra Lovísa (næstum því eins og systir mín) stóð sig frábærlega og tók eitt nett Lion King atriði í lok skírnar:
Hér er Simbi litli Lindström!
Drengurinn var reyndar skírður Jakob Ari. Jakob út í bláinn en Ari eftir mér og Völu ömmu hans. Okkar starfstitill er kennARI so it goes without saying...
Restin af deginum fer svo í að borða meira sushi og dáðst að drengnum. Ég ætla að kíkja aðeins í búðir á morgun og svo ætlar Hjörtur að elda elg um kvöldið. Síðan er bara flogið til Íslands á mánudaginn og fríið búið. Þá fer maður bara að telja niður dagana þangað til Jakob Ari og foreldrar hans koma í heimsókn um áramótin. Þá verður hann reyndar hjá okkur í heilan mánuð, sem er bara yndislegt.
Ja, livet er bra!
Súla svenska
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Notið hjálm!!!
12.10.2012 | 22:23
Af hverju í fjáranum er ekki búið að setja í lög að ALLIR á hjóli eigi að hafa hjálm á höfði - ekki bara 15 ára og yngri? Ég hjóla alltaf með hjálm, bæði af skyldurækni (vil vera góð fyrirmynd) og af því að ég er bæði lífhrædd og áhættufælin; tilfinningar sem hafa fengið aukna vigt með hækkandi aldri og fjölgandi afkomendum. Það er til öfga- þetta og öfga- hitt og í dag varð ég öfga-notaðu-alltaf-hjálm-isti. Ég er alveg pottþétt á því að hjálmurinn á hausnum á mér hafi bjargað mér frá bráðum bana eða í besta falli ljóstillífandi plöntulífi til æviloka.
Við stelpurnar vöknuðum fullar tilhlökkunar í morgun því að Hjörtur var að koma heim úr átta daga JÚESSEI dvöl. Eftir kossa og knús hentist ég á upp á hjólið með hjálm á höfði og skólatöskuna aftan á barnastólnum, eins og ég geri iðulega á mánudögum og föstudögum (tímabundið neyðarúrræði konu sem ekki getur hlaupið). Veðrið var dásamlegt, blautt en milt og hlýtt, og ferðin upp í Grafarvog sóttist vel að vanda. Eftir að komið er úr Bryggjuhverfinu tekur við töluverð hækkun og svo tímabundin lækkun áður en ég lendi uppi í World Class í Spöng til þess að sturta mig fyrir kennslu. Ég var á góðri ferð niður bratta brekku á hjólastíg en ákvað að hægja vel á mér áður en ég kæmi að gatnamótunum þar sem annað hvort biði mín grænt eða rautt ljós. Ekki datt mér í hug að þarna væri flughálka (black ice) en sú var því miður raunin. Hjólið þeyttist undan mér og ég flaug í löngum boga fram fyrir mig og skall nánast lóðrétt á hausinn við vinstra gagnauga og rann um stund eftir glerhálum göngustígnum á hausnum og vinstra lærinu. Ósjálfráð viðbrögð (svona fekkkk...sá einhver mig detta?) urðu til þess að ég rauk nokkuð snöggt á fætur og fékk í leiðinni að sjá Mars, Júpiter, Venus og nokkur smástirni aukreitis dansa í kringum mig, alveg eins og í teiknimyndasögunum um Tinna. Ég sá í alvöru bara ljósdepla og svartnætti í kringum mig um stund. Hausinn varð þungur sem blý og tilfinningin var eins og hjartað væri að slá þungt uppi í heilanum og vildi brjótast út úr höfuðkúpunni. Ég fann fyrir sársauka í lærinu og sköflungnum, en vissi að ég var óbrotin. Ég hugsaði bara um hausinn á mér og þetta rosalega högg sem ég hafði fengið á hann og...hvað hefði gerst ef ég hefði ekki verið með hjálm? Þessi hjálmur...
Ég eyddi stórfé (á minn mælikvarða) í þennan hjálm fyrir rúmu ári síðan þegar mér fannst vera kominn tími á endurnýjun. Ég fór á racernum mínum í fína hjólabúð og sá líka þennan flotta hjálm sem passaði einmitt við litinn á rándýra hjólinu sem Hjörtur hafði gefið mér í fertugsafmælisgjöf. Sölumaðurinn dásamaði hjálminn í bak og fyrir og þýsk gæðavara voru einmitt töfraorðin (afsökunin) sem ég var að leita eftir. Ég staðgreiddi gripinn (ekki vísa-rað) og hef aldrei séð eftir því að hafa þetta þýska stál utan um viðkvæma íslenska hjúpinn sem verndar að öllu jöfnu minn auma heila. Það kvarnaðist vel upp úr honum við höggið en við Hjörtur teljum hann enn vel nothæfan, enda er plastið ekki brotið (það er einangrunarplast/korkur á mestu álagspunktunum). En ég bara veit að hefði ég ekki verið með hjálm hefði höfuðkúpan brotnað í mél.
Böndin á bakpokanum slitnuðu af við höggið (tölvan lifði samt af) og það hrikti í hjólinu, en ég hafði ekki tíma til þess að labba síðasta spölinn upp í Spöng. Ég gætti þess því vel að hjóla bara ofurvarlega á fína (beyglaða) fjallahjólinu hans Hjartar á grasinu alla leið upp í World Class. Ég var enn með dúndrandi hausverk og brá líka nett þegar ég fór úr buxunum og sá risastóra, blóðuga kúlu á lærinu. Mér logsveið í sturtunni, en sem betur fer er apótek við hliðina á WC og þar keypti ég pakka af íbúfen og stærstu grisjuna í sjoppunni. Poppaði peinkillers uppi í skóla, límdi grisjuna yfir bólguna á lærinu og reyndi að jafna mig á sjokkinu með því að tjá mig um atburðinn við vini mína á kennarastofunni. Ég kenndi svo fjóra tíma með þungan haus (en ekki ruglaðan), vann í smástund en hringdi svo í Hjört og fékk hann til þess að sækja mig og hjólið. Tilhugsunin um að hjóla heim var einfaldlega yfirþyrmandi. Seinni partinn fór ég svo smátt og smátt að stífna upp í herðum og hálsi, sérstaklega vinstra megin. Það liggur helaumur strengur frá eyranu, niður í öxl og jafnvel niður fyrir herðablað. Hausinn er enn þungur og sjálfsagt verð ég stíf og aum í nokkra daga. Það lagast og ég verð vonandi eins og nýsleginn túskildingur eftir nokkra daga. Hjörtur fór beinustu leið og keypti góð nagladekk fyrir hjólið þannig að mér ætti að vera óhætt að hjóla áfram í skólann í öllum veðrum (ef ég þori).
En lexían sem ég lærði svona harkalega í dag er að hjálmur er lífsnauðsynlegur. Sumir vilja halda því fram að hjálmlausar hjólreiðar séu bara lífsstíll og það sé alveg sjálfsagt að sporta sig í tweed-hjólafötum með six-pensara á höfði. Little do they know. Ég ræddi þetta mál einmitt við góða vinkonu mína í dag. Hún er algjörlega á sama máli og ég, en segir að helstu rök fólks gegn fullri lögleiðingu hjálmanotkunar séu að þetta sé viðkvæmt mál fyrir suma og jafnvel skerðing á frelsi einstaklingsins. Bann á reykingum á opinberum stöðum, svo sem í flugvélum, skólum og á veitingastöðum þótti sko líka skerðing á frelsi einstaklingsins fyrir ekki svo mörgum árum. Við hlæjum að þessari andstöðu núna. Vonandi gerum við það sama eftir örfá ár, þ.e. skellihlæjum að því að einu sinni hjólaði fólk án hjálms af því að það vildi vera frjálst eða þótti það ekki nógu kúl að vera með hjálm. Ég veit það í hjarta mínu (og þungu höfði!) að hjálmlaus hefði ég ekki lifað 12. október 2012 af eða í besta falli lifað en samt aldrei aftur sem virkur þátttakandi í þessu þjóðfélagi, sem móðir, eiginkona, kennari og vinur.
Eins og þeir segja í Færeyjum: Hættu þessu mjálmur og notaðu hjálmur!
Peace out.
Hjóla Hjálmsdóttir :)
Vinir og fjölskylda | Breytt 7.5.2015 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ammælið og raddleysi
7.10.2012 | 22:01
Þó ég sé búin að vera þegjandi hás undanfarið er það víst engin afsökun fyrir að vera ekki búin að tjá mig um afmælið mitt. Best að ljúka því af áður en allt fellur í gleymskunnar dá.
Ég vaknaði frekar úldin á afmælisdaginn, með særindi í hálsi og kvef í vitum. Það var því aldeilis lán í óláni að Hjörtur gaf mér miðstöð í bílinn í afmælisgjöf! Í staðinn fyrir að standa skjálfandi úti að skafa rúðurnar á bílnum í vetur get ég nú bara ýtt á fjarstýringu inni hjá mér og tölt svo út í sjóðheitan bílinn 10 mínútum síðar eins og hinar fínu frúrnar í húsinu. Þær reyndar nota bílskúr til þess að halda sínum bílum heitum, en við notum okkar bílskúr auðvitað fyrir leikföngin hans Hjartar. Þetta er því snilldarlausn hjá mínum ofursnjalla og hugulsama eiginmanni!
Ég á sko aldeilis fleiri góða að sem eru tilbúnir til þess að sjá fyrir mínum grunnþörfum. Hjörtur stóð við eldhúsgluggann og dáðist að nýjustu fjárfestingunni (miðstöðinni í bílnum) þegar hann spottaði allt í einu tvo poka hangandi utan á Hondunni. Hann skokkaði út í morgunkulið og kom inn með sushi og Nóakropp. Þar var auðvitað Ásta mín að verki, líklega klukkan fimm um morguninn (hún vaknaði víst svolítið seint...ákvað að sofa út í tilefni dagsins). Á meðan ég var upptekin við að taka upp pakkana tróð Kristrún nánast öllu sushi-inu upp í sig. Hér er hún rétt að byrja:

Það vellur út úr henni laxinn og hrísgrjónin. Eini pakkinn sem beið mín á eldhúsborðinu var frá Lúllu og fjölskyldu. Þau gáfu mér ægilega flotta peysu, armbönd og eyrnalokka í stíl. Það mætti halda að um stórafmæli hafi verið að ræða!
Ekki tók verra við þegar ég mætti upp í skóla ca. korter í átta. Fransk-íslenskur dúett tók á móti mér með söng, faðmlögum og hlátrasköllum, í formi Evu og Ástu. Svona leit borðið mitt út:
Fullt, fullt af gjöfum frá enskudeildinni og Ástu, svo sem Asics húfa, hanskar og taska, íþróttabolur, korkrúlla eða hvað þetta nú heitir (foam roll), bók, uuuu...og kókosbollur, rommkúlur og nóakropp (all my favourites!). Ekki slæmt! Það keyrði um þverbak þegar ég opnaði stofu 327 og sá að búið var að skrifa afmæliskveðju á töfluna og hrúga nóakroppi á ÖLL 32 borðin í stofunni! Á þeim tímapunkti var ég alveg tilbúin til þess að lemja Ástu í hausinn með afmælisgjöfunum (kannski ekki bókinni þó, hún var of þykk) en fyrirgaf henni þó þegar ég sá upplitið á nemendum. Súkkulaðisæla!
Því miður var þetta lengsti dagurinn minn í kennsluvikunni og alveg heilmikið sem ég þurfti að fræða nemendur um - og því fór sem fór: Röddin gaf sig og ég kom "hám og rás" heim. Nei, ég lýg því. Ég fór beint til bæklunarlæknis eftir kennslu. Þó ekki til þess að laga röddina, heldur til þess að athuga með hælinn. Ég hef ekkert hlaupið síðan í júní og það er meira að segja sárt að labba (arg!). Eftir smá japl og jaml var ákveðið að skella sér í segulómun um miðjan október og athuga hvað kæmi út úr því. I'll keep you all posted. Eftir þetta gat ég loksins komið heim og rétt náði að leggja á borð áður en "gestirnir" (aka nánasta fjölskylda) mættu á staðinn í Hjartarlasagna (hreindýralasagna Hjartar). Ég var búin að græja kökuræfil fyrirfram:
Úr barka mínum kom bara eitthvað hvæs sem var ekkert svo næs. Maturinn var þó fínn og gestirnir góðir. Gjafirnar héldu áfram að vera af glæsilegri gerðinni og tek ég undir klassískan frasa móður minnar sálugu: "Takk fyrir, en þetta er bara allt of mikið!" Þegar gestirnir voru farnir var ég alveg búin á því, enda fátt meira þreytandi en að reyna að tala þegar maður á í raun ekki að vera tala. Stórmerkilegt hvað það er samt ótrúlega erfitt að þegja, þó ekki nema í stundarkorn. Ég notaði því restina af afmæliskvöldinu í að renna yfir fínu kveðjurnar á facebook og svo bara beint upp í rúm að sofa.
Daginn eftir kom bara örlítið hvísl upp úr mér og kenndi ég því allan fimmtudaginn og föstudaginn nánast án þess að segja aukatekið orð. Ég á engin orð yfir tillitsemi nemenda, sem fóru eftir öllum fyrirmælum á skjávarpa og hvísluðust á sín á milli, svo lágt að nánast mátti heyra saumnál detta. Ég er smátt og smátt að lagast núna, en sé ekki fram á að geta talað mikið í kennslunni á morgun heldur. Það er alls ekki gott mál því að þó að nemendur fari eftir fyrirmælum og vinni verkefni verður kennslan alveg ofboðslega einsleit. Engar rökræður, ekkert auka, bara verkefni og svör. You know what I mean? Kennarinn er MJÖG mikilvægur. Kennari með rödd, þ.e.a.s.
Hjörtur kallinn þurfti að stinga raddlausa, árinu eldri eiginkonu sína af á fimmtudaginn og því hefur uppeldið verið tiltölulega skammlaust, þ.e. ég hef ekki haft rödd til þess að skamma litlu grísina mína. Þær eru reyndar svo stilltar að það gerir lítið til. Við áttum rólega helgi saman og ég forðaðist vísvitandi mannamót til þess að reyna að jafna mig fyrr. Ég mætti þó auðvitað í eins árs afmæli Ríkharðs Ástusonar og náði að kvaka að nýju au pair stúlkunni hennar Ástu að hún væri núna komin í vist hjá "superwoman" sem væri "talk of the town" og ég veit ekki hvað og hvað. Ég vildi bara að hún áttaði sig strax á því í hvaða aðstæður hún væri komin. Steini er enn að reyna að átta sig.
Well well...Hjörtur kemur ekki aftur fyrr en næsta föstudag, en það fréttist af honum í gær og í dag að "kætsörfa" einhvers staðar á sundskýlunni í heitum sjó við strendur BNA. Á meðan hríðhorast börnin heima því að mamman stendur vaktina í eldhúsinu. Hér eru svöngu börnin hennar Sólu (alla vega hluti af þeim):
En ég þekki einn sem þarf ekki að líða skort og það er hann Jakob litli Lindström. Nú eru bara 11 dagar þangað til að afi og amma í Álfatúni fá að knúsa litla kallinn í fyrsta sinn. Hann varð eins mánaða 2. október og er bara algjört draumabarn, drekkur rjómann hjá mömmu sinni og sefur eins og engill. Sjáiði bara hvað hann er fínn og flottur:
Talan 1 fyrir fyrsta mánuðinn í lífi þessa litla ljúflings :).
Bestu kveðjur úr Álfatúni...bráðum Daltúni:
Grandma Zola :)
Lognið á undan storminum!
24.9.2012 | 12:47
Segi nú bara svona. Ekkert rosalegt að fara að gerast, nema það að 93 formlegar rökfærsluritgerðir koma inn á mitt borð á miðvikudaginn. Ef ég ætla að segja eitthvað á þessum vettvangi verður það að gerast núna, eða eftir viku þegar ég kemst út úr vinnutörninni og verð viðtalshæf á ný.
Ég var á þönum í síðustu viku við að minnka draslið í geymslunni svo að draslið í íbúðinni gæti farið þangað niður. Við þurfum nefnilega að selja íbúðina okkar fínu til þess að geta staðið við stóru skuldbindingarnar í Daltúninu. Vonandi gengur það ferli allt saman fljótt og vel, þó að markaðurinn sé frekar erfiður um þessar mundir. Hver vill ekki hafa besta útsýni í heiminum út um eldhúsgluggann? Mikið á ég eftir að sakna þess! En maður fær eflaust eitthvað annað gott í staðinn með flutningunum. Núna verður til dæmis meira pláss til þess að taka á móti barnabarninu þegar það kemur í heimsókn frá Stokkhólmi. Vííí!
Ég var líka önnum kafin við að fara yfir verkefni í síðustu viku þar sem enginn var tíminn um helgina. Ég fór nefnilega með Ástu og Björgu í æfingabúðir Skólahljómsveitar Kópavogs á Laugaland í Holtum. Þar stússuðumst við alla helgina ásamt tveimur öðrum foreldrum (og 11 mánaða Ríkharði) við að elda ofan í og hafa umsjón með yfir 60 hljóðfærasnillingum. Þetta gekk allt ljómandi vel fyrir sig þó að ég hafi verið orðin frekar fótafúin í lokin (löppin enn að stríða mér, buhuuu).
24. september er merkisdagur fyrir margra hluta sakir. Margir lífs og liðnir sem fæddust þennan dag og nú er líka áratugur síðan mamma dó. Engin ástæða til annars en að vera glöð í dag sem aðra daga, vera þakklát fyrir það liðna og allt sem framundan er. Að ég tali nú ekki um núið.
Gangið á Guðs vegum...þó þeir séu órannsakanlegir.
YOLO :)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)