Ó MÆ það er kominn MAÍ!
11.5.2013 | 22:24
Næstum miður maí og það er miður. Tíminn líður allt of hratt. En samt ekki. Margt að hlakka til og fátt að kvíða, alla vega í bili. Ég var skráð í aðgerð á il þann 8. maí sl. og hafði sú dagsetning hvílt á mér sem mara. Ég hafði lesið mér meira til um aðgerðina og komist að því að ég væri varla að fara að rölta mikið um eða sulla í söltum sjó fljótlega eftir þessi inngrip. Tyrklandsferðin (aka fimmtugsafmælisfjölskylduföðursferðin) sem við höfðum safnað fyrir í nokkur ár, var orðin að stórri hindrun í stað þess að vera tilhlökkunarefni. Læknirinn hafði ætlað sér að hafa samband við mig fyrir aðgerðina til þess að athuga hvort ég ætlaði ekki örugglega að láta vaða, en þegar ég hafði ekkert heyrt frá honum síðasta mánudag gerði ég boð til hans um að hringja í gömlu og höltu. Þegar kvölda tók hringdi hann loksins (brjálað að gera hjá aumingja kallinum greinilega) og var hann þá alveg á því að ég ætti að fresta aðgerð ef ég ætlaði á annað borð að fara í þessa Tyrklandsferð. Ættmóðirin mikla hefur því ákveðið að vera stórskorin en óskorin um óákveðinn tíma svo hægt sé að skakklappast á eftir 9 mánaða, 3ja ára, 7 ára, 14 ára, 21 árs og 25 ára börnunum um allar tyrkneskar trissur. Það er í rauninni voðalega erfitt að finna tíma til þess að vera óvirk. Á sumrin þarf að sinna litlu börnunum (mínum), á veturna þarf að sinna stóru börnunum (nemendunum). Annars var ég bara að vona að mér batnaði í sólinni og sjónum í Tyrklandi og þyrfti ekki á neinu svona veseni að halda. Kraftaverkin gerast enn!
Talandi um kraftaverk, þá héldum við Hjörtur upp á 9 ára vera-saman-afmæli 30. apríl sl. Woah! Ég held að þetta sé heimsmet. Minn ástkæri bauð mér út að borða á MAR, sem er nýr staður við höfnina. Hinn þokkalegasti matur en eitthvað þarf að slípa þjónustuna til. Hér er eftirrétturinn:
Gamla settið fer náttúrulega bara einu sinni út að borða saman á ári þannig að það bara verður að blogga um það!
Heilmikill tími hefur farið í litla krílið síðasta mánuðinn eða svo. Það kemur reyndar ekki til af góðu. Hún er búin að vera þrisvar sinnum veik í lengri tíma, með stuttu millibili. Sem betur fer gat ég verið mikið með henni núna í maí þegar hún var veik í viku, en þetta varð frekar erfitt á tímabili þegar verið var að pússa og sparsla á aðalhæðinni og meira að segja búið að plasta yfir eldhúsið. Þegar ekki er hægt að drekkja sorgum sínum með mat eru mér allar bjargir bannaðar. Nema Björg, auðvitað. Hana dreg ég bara í bú ef svo ber undir. Það var alveg svona fínt á neðri hæðinni:
Ég húkti því heilmikið á efri hæðinni og reyndi að vinna eitthvað í tölvunni á meðan kjúklingurinn horfði á Dóru landkönnuð. Bananar, hnetur, súkkulaðitré! Þegar krúttlan var orðin næstum því hitalaus (en alls ekki hóstalaus) fékk hún að fara með mömmu í vinnuna og kíkja á fund og smakka á eftirréttum úr mötuneytinu. Það þótti henni gaman!
DELICIOUS...(eins og Dóra og vinir hefðu orðað það).
En nú eru allir hressir og svei mér þá ef að kvefið er ekki líka að losna úr undirritaðri! Svona gamalt fólk eins og ég er auðvitað löngu hætt að fá hita, en lufsast í gegnum dagana með kvefpest og reynir að halda haus. Stefnan er sett á að hjóla í vinnuna daglega og reyna að mæta í tabata eins oft og líkaminn leyfir. Jú...og láta sig dreyma um að geta hlaupið aftur einn daginn :).
Hvað er annars að frétta af öllum hinum Daltúnunum? Hjörtur er alltaf á kafi í vinnu, en sér fram á rólegri daga í sumar eins og ávallt. Þó ekki eins rólega og hann er vanur. Hann verður að vinna fyrir Tyrklandsferðinni í Tyrklandi. Sá eini sem verður að vinna og samt er ferðin til heiðurs honum. Pínu kaldhæðnislegt. Við gefum honum kannski klukkutíma pásu á afmælisdaginn. Hana getur hann notað til þess að grilla eitthvað gott ofan í mannskapinn (múahahaha). Helga Rún er á fullu í prófum í HR. Stærðfræði og efnafræði. Búin með tvö, two to go. Held að hún sé að rúlla þessu upp, stelpan. Harpa nýtur veðurblíðunnar í Stokkhólmi með Jakob og Rasmus. Það verður lítið sjokk fyrir þau að fara í hlýrra loftslag í Tyrklandi. Mikið sjokk fyrir okkur hin, kannski. Brökin er bara hress, voða ánægð með sína vini og lífið almennt. Hún getur ekki verið með okkur úti allan tímann af því að hún er að fara til Þýzkalands með skólahljómsveitinni. Aumingja stelpan. First world problems... Diddú er líka ánægð með lífið. Situr löngum stundum og spilar "Ég á líf" og fleiri góða smelli á blokkflautuna (góður undirbúningur fyrir Skólahljómsveit Kópavogs) og fékk svo tvo góða vini í næturheimsókn í fyrrinótt: Stefaníu og Aðalstein. Kiddú fékk líka að vera með í partýinu og njóta þess að vera litla krúttið. Hún er svo heppin með að vinir Sigrúnar eru dæmalaust barngóðir og vilja alltaf vera að knúsa og kjassa litlu systur og leyfa henni að vera með í leikjunum. Þær eru nú líka oft ágætar saman, litlu systurnar:
Þessi mynd var tekin í fimleikatíma hjá Kristrúnu síðasta sunnudag. Sigrún nýtur þess að taka þátt og miðla af sinni reynslu. Svo góðar systur (oftast...).
Kristrún er sem sagt alveg búin að ná sér af öllum sínum pestum núna og ég yrði því mjög hissa (og vonsvikin) ef hún fengi eina í viðbót á næstunni. Þetta er komið gott. Þessi mynd var tekin síðasta mánudag, í tilefni þess að hún var að fara í leikskólann í fyrsta sinn í heila viku:
Svo sæt og glöð með nýju regnhlífina sína. Ef vel er að gáð speglast gleði móðurinnar í augum barnsins. Gleði yfir því að vera frjáls: Komast út úr húsi í stað þess að þreyja þorrann með veiku barni! Úps...nei ég meina gleði yfir því að barninu skyldi líða vel og geta aftur komist út á meðal fólks. Ég veit ekki af hverju ég varð svona sjálfmiðuð um stund.
Bæ maí...eða djók...blogga pottþétt aftur fljótlega.
Sóla sjúklega
Baðherbergi og blautur rass
22.4.2013 | 22:40
Blautur rass? Já - og kaldur. Ég sit hérna ofan á poka af frosnum bláberjum og rúlla hægri ilina á...(pása á meðan ég næ í dósina og les utan á hana)..."Bacardi Mixers Pina Colada non-alcoholic frozen mixers." Nei, ég er ekki að undirbúa eftirrétt fyrir morgundaginn. Ekki heldur að græja kokteil fyrir sumardaginn fyrsta. Gamla stendur bara undir nafni og er illt í gömlu mjöðminni og lúnu ilinni. Reyndar í betri fætinum, en það er nú önnur saga. Ég er sem sagt að kæla útlimi til þess að eiga auðveldara með gang næsta dag. Doksi vill setja mig í aðgerð í maí: Skera bara ilina í sundur og leyfa henni að gróa saman aftur, vonandi aðeins slakari en áður. "Þessar háu ristar...það á bara að skera á þetta strax þegar þið eruð börn." Þegar ég talaði við hann síðast hafði hann verið að gera fimm svona aðgerðir um morguninn. Fjórar á börnum og eina á hjúkrunarkonu. Ég er enn að bræða þetta með mér, en svo ég vitni nú aftur í lækninn: "Sjúkraþjálfun, sex sprautur og árs hvíld. Er þetta ekki fullreynt hjá þér? Er eftir einhverju að bíða?"
Talandi um bið. Baðherbergið? Næstum því tilbúið. Það finnst ekkert ljós sem passar yfir hluta af innréttingunni þannig að ég birti myndir af þeim hluta síðar. Myndirnar eru að vísu ekki mjög skýrar allar. Hugsanlega hefði verið betra að munda i-phone-inn í birtu en við sjáum hvort að ekki grilli í snilldina. Hér er sturtan:

Handklæðaofninn settum við bak við hurð til þess að fela öll litríku handklæðin. Þau eiga sér langa og misjafna sögu, sum götótt, önnur heil, en aldrei færum við að fórna þeim fyrir ný, ekki frekar en Eva gerði við skítugu börnin sín (hún bara faldi þau). Hjörtur fékk þá sniðugu hugmynd að láta gólfflísarnar (sem líta út eins og ljóst viðarparket) ná alveg upp á vegg hjá sturtunni. Sést kannski ekki vel en þið verðið bara að koma í heimsókn og prófa sturtuna. Eða ekki.
Við rákum augun (svo nærsýn) í huggulegan náttúrustein í Bauhaus sem við ákváðum að færi vel á baðinu. Sem hann og gerir:

Svo huggó. Nettur glimmerfílingur í þessu. Til hægri glittir í hvíta baðinnréttingu frá Ikea. Hún verður frumsýnd þegar rússneska ljósaperan er farin aftur til síns heima.
Svo eru allir örugglega ógó spenntir fyrir heimsfrumsýningu á dollunni:

"Upphengdur andskoti" eins og faðir minn myndi eflaust segja, hefði hann einhverja skoðun á klósettum. Fínt að skúra undir þetta. Ég er búin að þurfa að skúra æði oft núna síðustu mánuði. Thank you Janis, Boris og Spassky. Da.
Aumingja Harpa varð samt enn verr fyrir barðinu á framkvæmdum en ég. Ég bý við þann lúxus að geta flúið í vinnuna á hverjum degi, en Harpa þurfti að sitja heima með barnið og hlusta á niðurbrot og hamarshögg daginn út og daginn inn. Hún var nú ekkert upprifin yfir því og niðurbrotin flúði hún til Stokkhólms. Nei annars, hún lét þetta nú ekkert alveg fara með sig, en ég held samt að hún hafi verið farin að meta einveruna og þögnina í stórborginni meira eftir þessa reynslu. Við hittum hana, Jakob krútturass og Ras...mus eftir mánuð í Köbenhavn og tökum saman flugið til Tyrklands. Gott mál.
Að grasekkjumálum: Hjörtur er búinn að vera í Ameríku í heila 9 daga núna. Fyrst að kætsörfa í viku og svo að vinna á 2 sýningum einhvers staðar Maine eða Massó. Hann kemur á miðvikudaginn og þá fáum við aftur eitthvað gott að borða. Reyndar hef ég bara haft gaman af því að standa eldhúsvaktina og einnig notið þess að koma að öllu í röð og reglu eftir vinnu...tja fyrir utan örfá undantekningartilfelli þegar 8 sentimetra ryklag er skilið eftir á gólfinu fyrir gömlu að skúra (thank you Janis, Boris, etc...). En það verður svoooo ljúft að fá kallinn heim. Hér eru stelpurnar að borða flókinn rétt eftir sjálfa mig:

Ég er heimsþekkt fyrir fusion eldamennsku. Hér mætast til dæmis Asía og Norður-Afríka í fyrsta sinn á íslandi. Rétturinn heitir því skemmtilega nafni PIZZA.
Reyndar kom Kristrún öllum plönum í uppnám með því að verða veik í 4-5 daga. Það er náttúrulega ekki séns í helv... að ég taki mér frí frá vinnu og láti þar með 100 nemendur ráfa villta og vandræðalega um ganga skólans. Hjörtur hinn heimavinnandi er vanur því að taka vaktina en þar sem hann var ekki til staðar kom pabbi minn sem frelsandi engill og sá um litlu lösnu Kiddú. Hún undi sér mjög vel hjá afa sínum og sögur herma að hún hafi horft á Dýrin í Hálsaskógi þrisvar í röð sama morguninn! Það er gott að eiga afa á eftirlaunum. Ég hins vegar þurfti að reka mig á þá köldu staðreynd að ömmur í fullri vinnu með lítil börn hafa ekki eins mikinn tíma fyrir barnabörnin og þær vildu. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning er ég að tala um sjálfa mig. Mæli með öfum og ömmum á eftirlaunum...og við góða heilsu. Óli fitness afi sameinar þetta tvennt!
Jæja, allir voru nú hressir um helgina og Kristrún fór þá á sitt sundnámskeið. Ekki er mikil framför þar vegna þess að Kristrún vill helst ekki fara í kaf. En svona var hún Sigrún þar til hún datt í stuð fimm ára og varð synd eins og selur á stuttum tíma. Kristrún hefur hins vegar tekið miklum framförum í fimleikum og er orðin miklu hugrakkari en hún var. Gengur lífið ekki svolítið út á það...að þora? Hér er hún glöð að reyna að húlla:

Ekki alveg komin með taktinn í það en hún reyndi alla vega og hafði gaman af. Það er fyrir mestu.
Sigrún hafði líka nokkuð gaman af fimleikamótinu seinna um daginn, þó að það hafi nú gengið frekar hægt fyrir sig í þetta sinn. Hér sést hún taka á móti verðlaunapeningi, í ljósbláum búningi við svartar stuttbuxur:

Allir fengu auðvitað verðlaunapening og vonandi verður það svoleiðis á næstu mótum líka.
Í dag á norska prinsessan Tinna Kúld Guðmundsdóttir afmæli. Ég man nú ekkert hvað hún er gömul (who's counting anyway) og ekki finn ég neina nýlega, óbirta mynd af henni þannig að hún fær bara heiðursafmæliskveðju hérna: Til hamingju elsku Tinna Túdd! Í staðinn birti ég mynd af krúttlegu afmælisbarni sem varð svo barnslega glaður þegar hann tók upp gjafirnar frá dóttur sinni 15. apríl sl.

Herregud! Göngustafir! Rúmföt! Lak! (Þetta síðastnefnda var víst það eina sem hann vantaði, að mati dóttur hans). Björg samdi til hans mjög fallegt ljóð, en það má víst ekki birta það hér frekar en neitt annað sem þessi snjalli unglingur gerir. Fara þessi sjálfsmeðvituðu unglingsár ekki að taka enda???? Og þetta blogg?
Jú. Búið núna. Þakka þeim sem lásu. Líka þeim sem skoðuðu bara myndirnar.
Zóla
Aprílrausið
6.4.2013 | 21:41
Ég ætlaði víst ekkert að blogga fyrr en baðherbergið væri tilbúið, en í tilefni þess að það er aaaaaaaalveg að verða klárt ætla ég að koma með einhverjar stiklur frá páskum.
Í fljótu bragði virðist páskafríið hafa verið óvenju tíðindalaust, en þegar kíkt er á myndirnar rifjast ýmislegt upp. Þessi sæti gaur flaug til dæmis til Íslands fyrir páska og ætlar að skemmta okkur með sinni þægilegu nærveru til 15. apríl:
Hann er alveg ótrúlega gott og þægilegt barn. Vaknar smá ennþá á nóttunni en brosir og hjalar daginn út og daginn inn. Draumur í dós, hann Jakob Ari okkar. Hann átti 7 mánaða afmæli 2. apríl og hélt upp á það með mjólk í pela og brokkóli í skál. Skál!
Kisi Jackson og Ásta Einstein áttu afmæli 1. apríl. Kisi varð 4ra ára og Ásta eitthvað örlítið eldri. Hér er hún klukkan 6 að morgni fyrir utan Egilshöllina, búin að bera út Fréttatímann, Moggann, Kópavogsblaðið og Búnaðarblaðið, hlaupa 10 kílómetra og skella köku í ofninn.
Við tókum létt skokk fyrir utan á meðan við biðum eftir að manneskjan sem átti að opna World Class fyrir tabatasjúklingana mætti á staðinn. Hún svaf yfir sig og það er því henni að kenna að mér er mjög illt í ilinni ennþá - eftir 1-2ja kílómetra skokk. Lækning óskast. En Ásta er ólæknandi, sem betur fer! Takið eftir fína hlaupajakkanum sem stelpan fékk frá fínu enskudeildinni.
Í tilefni af páskunum þvoði Hjörtur bílinn minn:
Getraun dagsins: Hvar er þessi mynd tekin?
Allt var auðvitað vaðandi í súkkulaði á páskadag. Hér er ömurlega illa tekin mynd af minnstu grísunum í súkkulaðivímu:
Jakob fékk reyndar bara súkkulaðimjólk...í gegnum mömmu sína.
En súkkulaðibrúna fólkið keypti ekki sjálft sín páskaegg, heldur vann það risastór egg í Íslandsmeistarkeppninni í fitness. Lúlla sys, Siddi bis og Irma glys urðu sem sagt öll Íslandsmeistarar í sínum flokkum - geri aðrir betur! Eftir stranga þjálfun og kórrétt matarræði uppskáru þau nákvæmlega eins og þau sáðu. Ég mátti til með að bjóða þeim í kolvetnaríkan "brunch" eftir mótið sem þau þáðu auðvitað með þökkum áður en þau brunuðu norður aftur.
Frá vinstri: Örri kaldi, Irma svala, Helga cool, Siddi napri, Lúlla frostrós, pabbi hrím, Björg brunagaddur og Sigrún svellkalda. Úff, það er erfitt að byrja með einhver uppnefni og þurfa svo að halda sig við þemað!
Tengdamamma Hörpu, mágur og svilkona, að ógleymdum ektamanni, voru svo í dinner hjá okkur alveg þrisvar, en ég steingleymdi að taka mynd af þeim. Harpa sýndi þeim land og þjóð og mér skilst að þeim hafi bara litist stórvel á móðurland litla Jakobs Ara.
Stefnan hafði verið að fara oft á skíði, svona til þess að sanna að maður þurfi ekkert að vera á Akureyri um páskana til þess að stunda skíðaíþróttina. Við lentum í fínu veðri fyrir páska og buðum Halldóri Ásgeiri litla frænda með okkur. Sjö ára frændsystkinin voru að fíla sig alveg í botn í Bláfjöllum:
Úje!
Kristrún Eir kom líka mjög á óvart þegar hún steig í fyrsta sinn á skíði og bara lét eins og hún hefði gert þetta oft áður. Hjörtur setti hana í taum til þess að hún færi ekki of hratt og hélt auðvitað utan um hana í toglyftunni, en að öðru leyti sá hún um sig sjálf:
Born to ski!
Veðurspáin var mjög góð fyrir föstudaginn langa þannig að við vorum mætt snemma í Bláfjöll þann dag með nesti og nýja skó. Reyndar kom í ljós að skíðaskórnir hennar Bjargar voru orðnir of litlir á hana þannig að hún fékk mína lánaða. Ég ákvað að leigja á mig skó og fór aftast í mjög langa röð. Þar stóð ég í klukkutíma og hreyfðist áfram um tæpa 3 metra. Þá fór kona að reikna (og var snögg að því). Ég sá að með þessu áframhaldi væri ég ekki komin með skó fyrr en eftir 2 tíma og þyrfti svo að standa í röð aðra 2 tíma til þess að skila skónum. Svo var veðrið að versna, komið él og leiðindavindur, þannig að ég fór úr röðinni og upp í bíl að lesa bók á meðan Hjörtur og stelpurnar renndu sér áfram. Þau entust ekkert voðalega lengi þannig að það tók því víst ekki að bera sólaráburð á allt liðið! Ekki varð meira úr skíðaferðum því að Kristrún tók varð veik um blápáskana og því var að mestu leyti hangið inni, glápt á sjónvarp og lesið. Það er líka næs. Meganæs.
Lokafréttin er svo sú að við lékum í auglýsingu fyrir endurskinsmerki um páskana:
Ekki fá ofbirtu í augun! Tyrkland og tan, við erum á leiðinni!
Åžimdilik hoÅŸçakalın
Þetta var "bless í bili" á tyrknesku. Við förum reyndar ekki fyrr en í lok maí þannig að næsta blogg verður um fullklárað baðherbergi. Ó, en merkilegt. Sorrý, svona er líf mitt.
Have a good one!
GüneÅŸrune (Sólrún...á tyrknesku)
Marsmausið
23.3.2013 | 22:06
Æ mig auma. Nú er ég farin að kenna bloggið mitt við mánuði ársins. Febrúarfréttir voru það síðast og núna er það marsmausið. Öðruvísi mér áður brá (og dauðbrá yfirleitt).
Ég kom samt ekki þeirri stórfrétt að í síðasta bloggi að karl (Bjórlafur) faðir minn varð 69 ára þann 25. febrúar sl. Þetta þýðir að það er tæpt ár í stórafmæli. Spurningin er hvort að Bjössi og Lúlla séu farin að búa til vídeóið um ævi þessa mikla manns? Ég er sko upptekin við að skrifa bókina. Hún mun ekki bera titilinn Myndin af pabba en hér er samt myndin af pabba á afmælisdegi hans (ekki klaufa):

Mjög sérstök mynd af kallinum. Í einlægri gleði sinni yfir pökkunum hefur svipur hann breyst frá því að vera hinn ofursvali Sean Connery yfir í að vera einhver sem heftar froska. Minnir jafnvel á mangóávöxtinn á góðum degi. Anyways, í öðrum pakkanum var amerísk hornaboltakylfa og í hinum allt ritsafn Barböru Cartland. Góðar gjafir sem komu sér vel. Pabbi eldist líka vel, þökk sé góðu Bræðraminnisgenunum. Ekki er hægt að segja það sama um Svefneyjagenin...múahaha.
Hvað er annars að frétta? Ég er búin að hitta Kristbjörgu vinkonu mína alveg á þrisvar í einum mánuði. Fyrst bauð hún mér í matarboð í Hússtjórnarskólanum, hvar hún kennir textílmennt. Svo fórum við í afmæli til litlunnar hennar sem endaði með því að ég bauð þeim í "skoða húsið og dinner" pakka daginn eftir. Allt er þegar fernt er því að stórinn hennar fermist á sunnudaginn n.k. og Veisluturninn bíður okkar! Hér er Kristbjörg í Hússtjórnarskólanum, nýbúin að gera stykkin sín:

Eða sko...hún bjóst við því að ég myndi setja einhvern svona texta við myndina þannig að ekki gat ég brugðist væntingum hennar. Stykkin eru auðvitað ekki hennar, heldur nemenda hennar. En hún kenndi þeim auðvitað að sauma og sníða. Ég get ekki sagt annað en að þessi skóli virðist vera ótrúlega metnaðarfullur. Vinnan sem nemendur þurfa að leggja af hendi er ómæld og ljóst er að ég hefði alveg gott af því að setjast þarna á skólabekk í eina önn. Áhugi minn hefur reyndar legið annars staðar hingað til en samt...hip hip hooray fyrir þessum flotta skóla!
Jæja, svo farið sé hratt yfir sögu þá kom ægilega vont veður um daginn eins og alþjóð veit. Ég lagði auðvitað út í veðrið á mínum ekki fjallabíl og tókst að hitta á veginn alla leið upp í Borgó. Ég hélt úti kennslu til rúmlega 11 fyrir fámennan nemendahóp en varð svo að lúta í lægra haldi fyrir fyrirmælum skólayfirvalda: "No more school, you fool. " Svo fór veður að skána og var orðið hið þokkalegasta þegar ég sótti Kristrúnu á leikskólann. Við enduðum á því að vera tvo tíma úti að leika okkur í snjónum. Hér er litli gullmolinn minn á fullu við að grafa sér göng út úr leikskólanum:
Mjá...margt fleira í gangi svo sem, sem gleymist þegar sjaldan er skrifað. Hjörtur skrapp til USA í nokkra daga og þá tók Sigrún sæta upp á því að verða veik. Ég hélt fyrst að hún væri að dissa eldamennsku móður sinnar þegar hún sagði að sér liði illa og hefði ekki lyst á matnum. En þetta var þá upphafið að veikindum sem stóðu hátt í 10 daga. Ég meina, hvaða barn fúlsar við svona veislumat?
Svona er maturinn þegar pabbinn er í burtu: Einfaldur, næringarríkur og aðlaðandi. Mottó mömmunnar er: Aldrei eyða meira en 5 mínútum í eldamennsku! Það tekur hvort eð er bara 5 mínútur að gleypa matinn í sig.
Jæja, veður er búið að vera bjart og kalt. Við stelpurnar eigum það til að rölta niður í Fossvogsdal og gefa öndum og gæsum eitthvað gott í gogginn. Alltaf eru þær jafn þakklátar og bregða fyrir sig norskunni alveg venstre til høyre: Bra! Bra! Bra!
Frumburðurinn er ekki duglegur lengur að hanga með mömmu sinni, en fór þó með allri fjölskyldunni í bíó í dag á The Croods. Mæli alveg með henni. Kristrún Eir fékk bíóferð í verðlaun fyrir að fara í kollhnís í sundkennslunni. Það dugar ekkert á börn í sundkennslu í dag nema mútur...og kannski einn kútur.
Nú er fjölskyldan komin í páskafrí þó að við foreldrarnir séum með nóg af vinnutengdum verkefnum að sinna. Aldrei þessu vant verðum við heima í páskafríinu. Við hefðum farið norður á Akureyri á skíði ef að Harpa og hluti af tengdafjölskyldunni væri ekki að koma í heimsókn alla leið frá Svíþjóð. Svo eru Lúlla, Siddi og Irma að fara að keppa í vaxtarrækt í höfuðborginni þannig að nóg verður um að vera í bænum á næstunni. Ég held svei mér þá að fjölskyldan hafi ekki farið neitt út úr bænum síðan 8. september 2012. Það er orðinn ansi langur tími, en við getum kennt flutningum og öðru slíku veseni um. Langþráðri ferðalöngun verður þó fullkomlega svalað með Tyrklandsferð í maí-júní. Nánar um það síðar. Nú ætla ég að reyna að vera neikvæð, svona til tilbreytingar.
Í Daltúninu er eilífur gestagangur iðnaðarmanna en sum verkin ganga ansi hægt. Baðherbergið átti að taka tvær vikur en nú eru u.þ.b. sex vikur liðnar. Ég hef verið með sjálfa mig í hugrænni atferlismeðferð þar sem ég reyni að halda í gleðina, sjá ekki rykið og framkvæmdaleysið, heldur gleðjast yfir því hafa lagt mitt á plóginn til þess að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Ljósi punkturinn er þó sá að stuttu eftir að við planlögðum að leggja hér plan var planið lagt eins og það lagði sig. Laglegt! Þar voru alvöru verktakar á ferð, sem hellulögðu sem sagt bílaplan hér fyrir utan og gerðu það hratt og örugglega. Svo er eitthvað verið að bjástra uppi á háalofti og hugsanlega fæ ég þar lítið skrifstofuhorn hvar ég get horft út um háaloftsglugga og skrifað skáldsögu með latté á kantinum. Svefnloft kæmi sér líka vel fyrir litla sæta Jakob okkar og foreldra hans. Það verður gott að fá drenginn í fangið og knúsa hans mjúku kinnar :). Ég hef fengið margar reynslu- og framkvæmdasögur frá starfsfélögum mínum og þeim ber öllum saman um að þetta sé hundleiðinlegt á meðan á því stendur, en leiðindin gleymist um leið og allt er komið í stand. Það eru ekki svo mörg handtök eftir í baðherberginu og það er eiginlega bara að verða drulluflott. Gott samt að skrásetja að framkvæmdin hafi einhvern tímann pirrað mig. Maður er allt of fljótur að gleyma því sem slæmt er. Það er alveg hræðilegur eiginleiki! Anyways, ég lofa að setja inn mynd af fína baðherberginu í næsta bloggi. Ég blogga ekki fyrr en það er tilbúið!
Ég man því miður ekki eftir neinum öðrum lúxusvandamálum í bili. Jakob Ari er á leiðinni, stelpurnar eru góðar, kallinn til fyrirmyndar, vinnan alltaf jafn skemmtileg og súkkulaðipáskar á leiðinni. Ég væri svo sem alveg til í að vera með heilan fót og geta hlaupið af mér páskaeggin, en ég er ekki alveg í nógu miklu vælustuði núna til þess að ræða fótinn eitthvað frekar. Endum þetta bara með mynd af nokkrum skemmtilegum starfsfélögum:
Áfram Liverpool, áfram Borgó og gleðilega páska!
Sóla sátta :)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Febrúarfréttir
24.2.2013 | 12:07
Í tilefni konudagsins er mér ljúft og skylt að rita hér nokkur orð um það sem á daga Daltúnanna hefur drifið að undanförnu. Ég var að óska Sigrúnu og Kristrúnu til hamingju með daginn áðan og í kjölfarið fórum við að tala um hvað það væri sniðugt ef að pabbi þeirra myndi einu sinni á ári (sem sagt á konudaginn) gera eitthvað öðruvísi, t.d. að knúsa okkur ekki, búa ekki til latté fyrir mömmu, elda ekki matinn, o.s.frv... Þessi maður er náttúrulega svo fullkominn að við óskum einungis eftir einum ófullkomnum degi. Fullkomni maðurinn er einmitt sofandi núna og klukkan orðin rúmlega ellefu. Hann þarf sinn svefn svo að hann geti haldið sér fullkomnum allan daginn. Múhahahaha .
Við vöknuðum reyndar öll klukkan 8:40 í morgun. Ég þarf alltaf að stilla klukkuna á sunnudagsmorgnum svo að við sofum ekki yfir okkur í fimleikana hjá Kristrúnu sem byrja kl. 10. Nú brá svo við að Kristrún var svo slöpp að hún gat ekki stigið í fæturna, var illt í maganum og sagðist þurfa að gubba. Þetta síðastnefnda er reyndar ekki óalgengt (búlimískt barn). Hún virtist ekkert hressast eftir einn banana og vatnssopa þannig að við þurftum því miður að hætta við fimleikana. Nú virðist samt vera að færast meira fjör í litlu kellu. Ætli hún sé ekki bara eins og Brökin var einu sinni. Ef hún borðaði lítið kvöldið áður gat hún varla staðið upp úr rúminu daginn eftir út af orkuleysi. Kristrún hafði einmitt mjög litla lyst á kvöldmatnum í gær, enda bara lambahryggur með öllu (nema remúlaði) á boðstólum.
En hvað er annars að frétta? Öskudagurinn var með skemmtilegra móti. Núna er búið að taka upp nýjan sið, sem minnir um margt á hrekkjavöku í hinni stóru Ameríku. Börnin ganga í hús og sníkja nammi milli 17 og 19. Fyrsta hálftímann bönkuðum við upp á í nokkrum húsum og Kiddú og Diddú fengu nammi í staðinn fyrir nokkrar fagrar vögguvísur. Síðan fórum við heim og tókum á móti fjölda syngjandi krakka. Það var eiginlega miklu skemmtilegra. Hér eru litlurnar nýkomnar heim með nammi í poka:

Það sést ekki mjög greinilega hér, en þær voru norn og prinsessa.
Síðasta föstudag fórum við Sigrún, ásamt Ástu og 2 sonum, í Sjónvarpshúsið að fylgjast með Borgó keppa í Gettu betur í beinni. Því miður töpuðu okkar menn mjög naumlega gegn MH (helv...lambada!). Hér er hluti af stuðningsliði Borgó:

Sæta fólkið!
Síðasta laugardag fór Kristrún í fyrsta sinn á skíði í Bláfjöllum. Hún hafði reyndar ágæta reynslu af því að fara upp og niður töfrateppið í Hlíðarfjalli á skíðunum mínum (með mér), en hafði ekki staðið sjálf á sínum skíðum. Fyrsta skíðaferðin gekk vægast sagt eins og í sögu, sem kom mér dálítið á óvart því að Kristrún er hrædd við ýmislegt, t.d. nánast allt sem gert er í sundkennslunni. Henni hefur farið mjög aftur í sundi eftir að hún byrjaði í sundkennslu, líklega af því að hún var neydd í kaf og gleymir því seint. En hún var bara í essinu sínu á skíðunum og næst förum við örugglega með hana í toglyftuna.
Síðasta sunnudag byrjaði ég að slappast mikið og leið eins og það væri þungt ský yfir höfðinu. Svoleiðis var ég alla vikuna og fór ekki að hressast fyrr en síðasta föstudag. Mikið er maður þakklátur fyrir góða heilsu þegar hún kemur aftur! En ég lét það ekki aftra mér frá því að hitta Doktor Ingibjörgu í hádegismat á Rub 23 síðasta þriðjudag. Frábær matur og æðislegur félagsskapur!

Skál fyrir doktornum!
Þemadagar Borgó, eða svokallaðir Skóhlífadagar, byrjuðu á miðvikudaginn. Ég og Ásta síams vorum með matreiðslunámskeið. Ehemm...Ásta var eiginlega með námskeiðið, enda uppskriftirnar allar hennar. Ég bara dinglaðist með, fór í sendiferðir, hrósaði nemendum og var sæt. Það gekk ágætlega. Hér eru ítölsku kræsingarnar sem duglegu nemendurnir göldruðu fram á nó tæm:

Tíramísu fremst í flokki!
Nú, sama dag komu nýjar gardínur í hús. Það var mikið gott og mikið gaman að losna við rykug rimlagluggatjöldin. Það birti yfir öllu, nema svefnbergjunum auðvitað, því að þar komu góðar myrkvunargardínur. Hér eru tvær glaðar gardínukonur:

Brökin (aka MJ) og Jólrún.
Það er náttúrulega út í hött að anti-húsmóðirin-ég sé að gleðjast yfir nýjum gardínum. Ég veit ekki hvað er að koma yfir mig, svei mér þá. Ég hafði meira að segja smá skoðun á því hvernig ég vildi hafa skipulagið á baðherberginu sem nú er verið að taka í gegn. Það var reyndar ekki fyrr en eftir að hafa tekið rúnt um Bauhaus og fleiri búðir. Ég hef svo hræðilega lítið vit á þessu að það hálfa væri nóg. Ég treysti lettneska vinnumanninum og íslenska eiginmanninum til þess að gera þetta smekklega. Rykið og hávaðinn undanfarnar vikur hafa ekki rakað inn gleðistigum hjá undirritaðri, en mér skilst að óþægindin gleymist fljótt þegar allt er tilbúið, svona eins og þegar fæðingin er afstaðin og barnið komið í fangið. Ég gleymdi að taka mynd af baðherberginu þegar það leit sem verst út, en hér er mynd af því í millibilsástandi:

Það þurfti að breyta öllum lögnum, endurnýja klæðningu og bla bla bla. Ég hafði ekki hugmynd um að svona hlutir gætu tekið svona langan tíma. Núna er hvorki sturta né bað í húsinu, en við höfum þó alltaf klósettið niðri til þess að gera grunnþarfir okkar. Ætli Daltúnarnir verði ekki bara að skreppa í sund í dag til þess að ná af sér mestu ólyktinni?
Veðrið í febrúar er búið að vera fáránlega gott. Tja...það er alla vega mjög hlýtt miðað við árstíma. Kannski ekki spennandi veður til þess að fara að leika sér úti í (núna er grenjandi rigning) en það er alltaf notalegt að hafa frostlausa daga. Ég hef þó áhyggjur af Daltúnstrjánum sem halda að maímánuður sé genginn í garð:

Mér skilst að það sé kuldatíð framundan en við vonum að tréin bjargi sér.
Glæsiball nemenda var haldið síðasta fimmtudagskvöld og tókst ótrúlega vel. Þrýstingur hafði verið á enskudeildina að koma með atriði, en einhver deyfð var yfir mannskapnum (og vídeóklipparinn slappur eins og áður hefur komið fram). Kvöldið áður fékk ég allt í einu þá hugmynd að gera Harlem shake vídeó með kennurum Borgó. Ég mætti með vídeóvélina á kennarafund morguninn eftir og með góðri leikstjórn Ástu síams kláruðum við að leggja inn hugmyndina og taka upp vídeóið á innan við 5 mínútum. Æðislegt fólk sem við vinnum með! Því miður lak uppkastið að vídeóinu á netið og ég var því tilneydd til þess að pósta því líka, þ.e. lokaútgáfunni...á facebook. En ég virðist ekki geta sett það hér af einhverjum ástæðum. Moggapoggablogg . Anyways, vídeóið sló í gegn hjá nemendum. Hver vill ekki sjá kennarann sinn vera hipp og kúl í 30 sekúndur?
Nýjustu fréttir herma að það sé komin sól úti! Sigrún er á leiðinni í sund með vinkonu sinni, Kristrún sýndi sterk sorgarviðbrögð þegar hún áttaði sig á því að hún færi ekki í fimleika í dag (þetta ofurrólega barn öskraði af sorg!) og Hjörturinn sjálfur er vaknaður! Stefnan er sett á IKEA. Nú skal finna einhverja huggulega skápa til þess að setja í nýja baðherbergið. Svo er afmælisdinner hjá pabba í kvöld. Ég held að hann verði 69 ára á morgun, ótrúlegt en satt. Svo unglegur, svo myndarlegur, svo skemmtilegur, hæfileikaríkur og klár. Svona var mamma líka þannig að það er ekki furða að ég hafi erft eitthvað af þessu. Múahahaha (aftur).
Jæja já. Skjáumst!
Sóla sykursnúður
Handahófskenndur þvættingur - annar hluti
12.2.2013 | 22:45
Fyrst að nemendur mínir í 3 hópum voru að fara að skrifa rökfærsluritgerð í tíma hjá mér á morgun sá ég fram á að ég yrði að eiga mér smá líf í kvöld. Næstu kvöld fara nefnilega í yfirferð. Ég ákvað að horfa á vinsæla mynd heima með honum Hirti mínum, en byrjaði fljótt að geispa þegar ég sá kalla með kúrekahatta plaffa niður mann og annan. Fór að fikta eitthvað við facebook á símanum sem leiddi mig svo út í það að fara yfir nokkrar stuttar nemendadagbækur á netinu. Að endingu ákvað ég að henda inn random rugli. Nota kvöldið vel!
Helst í fréttum er að Jakob Ari og mammans flugu til Stokkhólms í morgun eftir eins og hálfs mánaðar ánægjulega dvöl hér á landi. Sigrún fagnaði því mjög að fá að sofna ein í kvöld, enda langþreytt á mun hressari yngri systur sem er alltaf til í að spjalla örlítið fyrir svefninn. Kristrún fær nefnilega að blunda í hádeginu á meðan Sigrún þarf að þreyja Þorrann allan daginn, langt fram í Góu jafnvel. "Góa nótt" virkar ekki alltaf á Kristrúnu klukkan korter í átta pí-emm. Kristrún var líka mjög ánægð að endurheimta herbergið sitt bleika, en var örlítið efins um það að hún gæti sofið ein í herbergi. Bangsímon og félagar réðu ráðum sínum og ákváðu að veita henni ást og umhyggju. Ekki heyrðist frá henni múkk eftir að mamma hafði lesið fyrir hana sögu, beðið bænirnar og sungið "Leiddu mína litlu..." Gekk eins og í sögu.
Sprengidagur í dag, bolludagur í gær og öskudagur á morgun. Þetta eru aldeilis nýjar fréttir. Við vorum með smá bollukaffi á sunnudaginn sem tókst ljómandi vel. Ég lofa ekki að þetta sé komið til þess að vera, sem þýðir að ég er alveg til í að mæta í bollukaffi eitthvert annað næsta ár. Betra að vera ekki að skapa of margar hefðir sem binda fólk á klafa. Rjómabolluklafa. Múahahha. Annars reyndi ég að sannfæra Hjört um að hann þyrfti ekki að elda saltkjöt og baunir af því að allir snæddu þetta í skólunum sínum í hádeginu nema hann - af því að hann er ekki í skóla. Hann lét ekki sannfærast og töfraði fram túkallsmáltíð á nótæm. Pabbi arkaði yfir Fossvogsdalinn á tíu mínútum sléttum og úðaði í sig salpétri og meðððí. Það var óvenju fátt í kotinu þetta kvöld: Bara ég, Hjörtur, papa, Sigrún og Kristrún. Helga og Jón Grétar í mat í Sunny Kef, Harpa með Djeikob í snowy Stock og Björgin ráðagóða í skólabúðum á Laugum í Sælingsdal. Kisi stóð hljóðlátur við borðsendann og mændi á okkur borða með borða í hárinu. Ég friðaði hann með því að henda í hann restinni af fiskibollunum frá kvöldinu áður. A lá Hjörtur, bien sur. Á morgun ætlar stelpurnar að vera prinsessa og norn, sem þýðir að sú eldri er loksins vaxin upp úr prinsessublætinu. Jæja, og þó. Kannski orðin meðvituð um að það þykir ekki svalt að vera prinsessa á almannafæri þegar maður er sjö ára.
Heyrðu...já...pabbi fór að tala um einhvern snjóskúlptúr í Laugardalnum. Þá áttaði ég mig á því að skemmtilegi skaflinn sem stelpurnar og Halldór Ásgeir fundu eftir að okkur var hent út úr Húsdýragarðinum um síðustu helgi (ekki fyrir slæma hegðun...klukkan var bara orðin fimm) var líklega fyrrverandi listaverk. Mér finnst þessi skúlptúr reyndar mjög flottur líka:

Snillingarnir og frændsystkinin Halldór Ásgeir og Sigrún Björk elskuðu þennan óvænta skafl! Kristrún Eir er á bak við skaflinn að reyna að moka sig í gegn. Ótrúlegt hvað það er hægt að dunda sér lengi úti við þegar allir eru vel klæddir. Yfirleitt er það mamman sem gefst upp fyrst.
Nú er ég einmitt að gefast upp, orðin alveg kasúldin og grútsyfjuð (ég vann greinilega mikið í fiski í gamla daga). Ég gæti spjallað og fjallað um svo margt annað hérna, sem segir mér bara að ég þurfi að detta inn mun oftar. Styttra og oftar í einu. Lofa engu, að vísu.
Takk fyrir að lesa!
Sólrún Django
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Random rugl
31.1.2013 | 21:30
Back in the days fór maður bara inn á bloggið og hellti út úr sér einhverri vitleysu, sletti ensku í allar áttir og var ekkert að spá of mikið í myndskreytingar. Now in the days (aka nowadays) er vesenisstuðullinn orðinn svo hár að varla er hent inn status á facebook. Og ekki er ég virk í kommentakerfi DV.
Ég er samt alveg virk í þessu lífi, þ.e. í hamstrabúrinu sem ég bý í. Fer út úr litla hamstrahúsinu mínu á morgnana, hamast á hamstrahjólinu (í vinnunni) eins lengi og mér er leyft, sópa svo að mér litlu hömstrunum mínum og hjúfra mig að þeim inni í húsi. Fer svo aftur á hjólið um leið og ungarnir eru sofnaðir. Ætli þetta atferli kallist ekki bara rútína? Ég er sko ekki að kvarta. Rútínan er yndisleg. Tíminn líður gífurlega hratt og bráðum kemur vorið. Það er verst að tíminn líður líka hratt á vorin og sumrin, einmitt þegar tíminn á helst að standa í stað. Áður en ég veit af verð ég komin inn á hjúkrunarheimili og bíð eftir heimsókn dúddans með vélorfið. Það eina sem ég skil eftir er þetta blogg. Múahahaa.
Jakob Ari og Harpa brjóta þó aðeins upp rútínuna. Frekar mikil krútt bæði tvö. Heimför var frestað um tvær vikur þannig að Jakob nær að halda upp á fimm mánaða afmælið hér og næstum því fimm og hálfs mánaðar afmælið. Þau fljúga til Svíþjóðar á sprengidag og Helgu þótti það miður. Stakk upp á því að við hefðum saltkjöt og baunir á bolludaginn (á milli rjómabollanna) og klæddum okkur upp í búning um leið (af því að Harpa missir af öskudeginum). Ég stakk upp á að við settum jólatréð líka upp í leiðinni. Svo fyndin hún ég.
Sjitt...er að verða batteríslaus. Tölvan sko. Ég líka...smá. Vaknaði 5:25 í morgun til þess að fara í tabata. Ekki ný frétt. Er í svo frábærum tabata tímum hjá Óla Snorra í Egilshöll. Við Síams og fleiri góðar erum búnar að mæta þarna alla þriðjudags og fimmtudagsmorgna síðan snemma í haust. Myndi samt alltaf taka útihlaup fram yfir alla tímasókn. Núna eru komnir sjö eða átta mánuðir síðan ég hætti hlaupum út af hælnum. Hvur veit nema að maður lagist samt eitthvað með vorinu?
Random rugl er svo miklu betra en ekkert. Ætla ekki einu sinni að yfirfara stafsetninguna.
Góðar stundir.
Sóla random :)
Janúarinn - lesið til enda!
21.1.2013 | 22:05
Saaajitt! Ég mundi allt í einu að ég ætti síðu á veraldarvefnum þar sem ég geymi helstu minningar fjölskyldunnar og annað fínerí. Tíminn flýgur, fullt hús af börnum og barnabörnum, kallinn á skíðum í Colorado, kötturinn alltaf heima og mér er samt kalt á tánum.
Þrettándinn? Jú, í Mosó. Kaffi hjá Sigrúnu Björk eldri og svakalega mikið með því. Brenna og flugeldar, allir mættir. Hér eru Ásgeir afi, Jólrún og nokkrir grísir:
Ég á litlu gleraugnaglámana.
Sabbaló og Ásgeir djúníor voru að fíla sig við brennuna og Harpa var í banastuði:
Nú er Rasmus hennar farinn heim til Svíþjóðar að vinna þannig að Harpa er einstæð móðir í kommúnu systra, stjúpmóður, blóðföður og kattarskratta. Hún er að fíla fjörið og ætlar ekki heim fyrr en í mars...og þá í viku áður en hún kemur aftur um páskana...sem eru reyndar í mars (ho ho ho).
Jakob Ari ömmudrengur er búinn að stækka og þroskast ótrúlega mikið þessa rúmlega 20 daga sem hann er búinn að vera á landinu fagra. Hann er nánast farinn að sitja sjálfur (með smá hliðarstuðningi) og er allur hinn sperrtasti. Þessi sæta mynd náðist af yngstu krílunum á heimilinu:
Kristrún, Jakob og Kisi krútturass.
Jakob er búinn með þrjá tíma í ungbarnasundi hjá Lóló og stendur sig einstaklega vel. Eini nemandinn sem fengið hefur að fara í kaf og stóðst þá þrekraun með prýði. Engin mynd hefur náðst af honum ennþá í kafi, en þessi sýnir góð lokunarviðbrögð hjá krílinu:
Foreldrarnir voru auðvitað mjög stoltir af kappanum:
Svo er ég líka búin að melda Kristrúnu á námskeið hjá Lóló, sem byrjar einmitt strax á eftir tímanum hans Jakob. Henni leist ekkert á þetta fyrst en var mun jákvæðari í annað sinn. Stefnan er að mæta þarna á hverjum laugardagsmorgni eitthvað fram eftir vetri og sjá hvort að hún haldi ekki áfram að sýna framfarir. Hér býður dúllan mín á bakkanum:
Rólegir helgarmorgnir eru reyndar farnir út í veður og vind því að Kristrún er byrjuð í fimleikum hjá Gerplu á sunnudagsmorgnum! Ég er greinilega alveg í ruglinu maður... En hún hefur gott af þessu, elsku stelpan (ég hefði líka gott af því að sofa út einu sinni en það er önnur saga...múahahhahaha).
Af Sigrúnu Björk er það svo helst að frétta að hún fór upp á svið annað árið í röð á Nýárstónleikum Töfrahurðarinn í Salnum. Björg Steinunn var að spila með C-sveitinni en það eru líka alls konar skemmtiatriði í gangi á meðan. Beðið var um sjálfboðaliða úr salnum og Sigrún bauð sig aftur fram. Hún fékk að hoppa og skoppa um sviðið á hestbaki með nokkrum krökkum við William Tell lagið.
Öll fjölskyldan (nema Óli afi sem gleymdi sér...eða var leikur í sjónvarpinu?) mætti á fremsta bekk og naut frábærrar skemmtunar. Ýmislegt gekk á, til að mynda hjá þessum tveimur köppum:
Þarna er Össur, stjórnandi SK, eitthvað að bardúsa með Jóni Halldóri, básúnukennara Bjargar. Snillingar, báðir tveir! Litli stóri snillingurinn minn, hún Björg Steinunn básúna, var svo tekin í viðtal eftir tónleikana og voru óvænt birtar þrjár flennistórar myndir af henni og spilafélaga í Barnablaði Sunnudagsmoggans:
En þetta voru nú allt saman gamlar fréttir. Einhverjar fréttir eru betri en engar fréttir, segir nýja máltækið.
Nýjustu fréttir eru þó þær að Hjörtur ákvað að stytta USA ferðina sína um tvo daga. Í staðinn fyrir að vera í heila viku ætlar hann að vera mættur í fyrramálið til þess að knúsa allar stelpurnar sínar og strákangana tvo (Jakob og Kisa)...nú og búa til nýtt sódavatn, tæma ruslatunnurnar úti, laga hilluna undir pottunum í eldhúsinu, kaupa nýjan froðuþeytara fyrir kaffið, elda hollan og góðan mat...the list is endless. Fimm dagar án Hjartar og heimilið fer á hvolf! Velkominn heim Hjörtur minn :)
Þakka þeim sem hlýddu...mér og lásu bloggið til enda (gamla trixið virkar alltaf).
Sóla svanga
Jakob, áramót og afmæli Helgu
6.1.2013 | 12:10
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Ég hef ekki lagt í að gera annál ársins 2012 í myndbandsformi, kannski vegna þess að ég missti allan annál ársins 2011 þegar forritið hrundi í byrjun síðasta árs. Margra klukkustunda vinna í vaskinn. Svo er maður hálf dasaður eftir flutningana. Ég sé til hvort ég geri myndaannál eða bara skrifa einn nettan einhvern tímann í janúar. Eða bæði. Eða hvorugt. Djók. Ég er orðin meira meðvituð um að það sem ég skrifa hér eru mikilvægar heimildir þegar fram í sækir, bæði fyrir gömlu og gleymnu mig og afkomendur mína. Sigrún Björk 7 ára er meira að segja farin að lesa gamlar færslur um sjálfa sig sem ungbarn.
Jólafríið einkenndist af töluverðri leti og miklum slaka varðandi sjónvarpsgláp. Auðvitað voru þær viðraðar reglulega eins og þvotturinn í gamla daga, út að renna eða í Húsdýragarðinn. Hér eru stelpurnar í kunnuglegum stellingum:

Ekki má gleyma Kisa krúttlingi sem elskar að klóra í nýja sófann, Hirti til mikillar gleði. Kisi er enn að jafna sig á flutningunum og tekur upp á því af og til að láta sig hverfa í nokkra daga, mér til mikils ama. Hann kíkti í heimsókn í Álfatún eitt og lapti þar mjólk þannig að við sóttum hann þangað í fyrrakveld. Ég vona að hann fari að átta sig fljótlega á því að hér á hann heima og hvergi annars staðar.
30. desember kom sænski prinsinn okkar til Íslands og hann virðist ætla að verða heimakærari en Kisi. Hann Jakob Ari okkar er sem sagt mættur á svæðið, yndislegastur í öllum heiminum. Hér er hann í hláturskasti yfir geiflum Bjargar:

Afinn og amman fengu það ábyrgðarhlutverk að passa kappann á gamlárs á meðan foreldrarnir kíktu í partý. Hann vaknaði ansi oft til að fá snuð (enda Sarajevo beint fyrir utan gluggann), svo gaf amma honum pelann (amma...that's me :) ) og eitthvað annað enn betra þannig að hann sofnaði loks vært í ömmufangi, litli ljúflingurinn. Hér eru afinn, barnabarnið og mamman rétt fyrir áramót:

Áramótin fóru fram með hefðbundnum hætti. Bara kjarnafjölskyldan...sem er ekkert "bara" því að fjölskyldan fer ört stækkandi. Hér eru allir sestir að snæðingi:

Flassið náði ekki alveg nógu langt þannig að fólkið sem situr innst er aðeins í skugga, en það verður bara að hafa það. Hreindýrstarfur sem Hjörtur skaut í haust var á boðstólum og svo tvær ístertur a la Jól'amma. Kristrún var hrædd við sprengjurnar þannig að ég sat inni og horfði á sjónvarpið og flugeldana út um gluggann til skiptis með Kristrúnu og Jakob í fanginu. Ekki amalegur félagsskapur það.
Á nýársdag spiluðum við stelpurnar Fimbulfamb, borðuðum súkkulaði og drukkum rauðvín. Eftir það hefur hugurinn verið meira og meira hjá vinnunni. Ég er búin að fá hina þokkalegustu stundatöflu (þó að hún hefði alveg getað verið betri) og svo eru hópastærðirnar ótrúlega hagstæðar, nokkuð sem ég hef ekki séð síðan kreppan skall á. 31-32 nemandi í hóp hefur verið normið en núna eru bara tuttugu og eitthvað nemendur í hverjum hóp. Reyndar ekki alveg endanlegar tölur, en mér sýnist hlutirnir vera að skána...líklega fyrir einhver mistök?
Anyways...dagurinn í gær var stór dagur fyrir Helgu Rún því að þá varð hún 25 ára. Hún er í miðjum prófum þannig að hún gerði ekkert stórt. Við elduðum hrygg fyrir kellu og Pavlovu í eftirrétt. Hjörtur var svo indæll að setja mynd af mér og henni á facebook sem ég hefði ALDREI sett á fésið (af því að ég er að gretta mig eins og mófó). En fyrst að hún er komin á veraldarvefinn læt ég hana laggó hérna líka:
Þetta átti sem sagt að vera mynd af henni einni en ég stökk inn á hana með mitt fagra smetti og frægu athyglissýki.
Afmælisdagur Helgu var líka stór dagur í lífi Jakobs Ara og foreldra hans: Fyrsti tíminn í ungbarnasundi! Því miður gleymdist myndavélin en við klikkum ekki á því næst. Tíminn gekk mjög vel hjá Lóló sundkennara og við vonum bara að hann fái að fara í kaf næst því að Jakob kallinn á bara þrjár vikur eftir á landinu. Það er verst að sundlaugar eru ekki á hverju strái í Stokkhólmi, a.m.k. ekki miðað við höfðatölu eins og hér á höfuðborgarsvæðinu og svo kostar líka stórfúlgu bara að komast ofan í laugarnar. Ísland er landið. Hver á sér fegurra móðurland en hann Jakob minn?
Gleðilegt ár aftur elskurnar mínar.
Jól'amma
Að fanga aðfangadag
29.12.2012 | 22:26
Ekki seinna vænna að segja í nokkrum orðum frá aðfangadag þegar áramótin eru alveg við það að detta í hús. Þessi mynd er reyndar tekin daginn fyrir Þorláksmessu:

Eins og sést fór tréið sem Hjörtur og börnin höfðu mikið fyrir að höggva í Heiðmörk alveg í klessu við flutningana og þurfti að líma bútana saman aftur. En það tókst og tréið sómdi sér vel í stofunni, eins og það hefði alltaf átt heima þar:

Svo kom afslappaður aðfangadagur, svo afslappaður að ég man eiginlega ekki hvað við gerðum. Jú jú...við stelpurnar fórum í smá jólagjafalabbitúr og heilsuðum meðal annars upp á gamla nágranna í Álfatúni og þökkuðum fyrir góðu árin átta. Við ætluðum líka að kaupa brauð handa öndunum en einni stúlkunni varð brátt í brók og batt enda á þau plön. Við bættum úr þvi á annan í jólum og endurnar á pollinum niðri í Fossvogsdal voru mjög þakklátar, enda sársvangar.
Eftir að búið var að klæða sig upp fyrir hátíðina var komið að myndatökum fyrir framan jólatréð. Hér er ein af Björgu Steinunni:

Mamman reyndi að lúkka jafn vel og táningurinn en hræðsla við linsuna leiddi til mikils fíflagangs. Hér var ætlunin að sýna vöðvana, en það er ekki mikið að sjá:

Lúlla systir hvað? Hvað? Og já jú já já. Alltaf sami jólakjóllinn. Jólakettinum ögrað jól eftir jól af Jólrúnu.
Sigrún er jafn flink og mamma hennar þegar myndatökur eru annars vegar og fjölmargar myndir af henni of Kristrúnu uppstilltum með sparisvipinn fóru í virðisaukaskattinn (vaskinn). Læt þessa frekar fyrir almenningssjónir því að hún endurspeglar systrakærleik, sem blossar upp reglulega:

Kristrún litla afslöppuð að bíða eftir jólunum og Sigrún álíka róleg og yfirveguð.
Ég gerði misheppnaða tilraun til þess að stilla grísunum 3 upp saman en síminn hringdi um leið og Björg Steinunn var sest:

"Uuu...síminn er að hringja..verð að fara!" Sigrún hefur gaman af og Kristrún ullar út í bláinn.
Geifluþeimað hélt áfram hjá Kristrúnu eina mínútu í jól, þegar allir sátu spenntir og biðu eftir að kirkjuklukkurnar færu að hringja í útvarpinu. Það er besta móment jólanna fyrir mér, hinn sanni jóla- og hátíðarandi.

Helga Rún mætt á staðinn, búin að temja makkann mikla, sem tók bara sex klukkustundir. Vinnan var þess virði! Kristrún með óborganlega skúffu, Magnús style (biiiilað).
Hér eru faðirinn og frumburðurinn í eldhúsinu, við það að bera fram hátíðarkjúkling og með því.

Kisi krútt gerði húsmóðurinni lífið leitt með því að fara út á Þorláksmessumorgun og koma svo ekkert heim. Hálftíma eftir að klukkurnar hringdu inn jólin og allir voru á kafi í að úða í sig kræsingunum mætti Jackson á staðinn, svangur og sætur. Ég felldi auðvitað gleðitár og þakkaði Guði og Allah fyrir jólagjöfina.

Sæti jólakisinn okkar. Auðvitað fékk hann alls kyns góðgæti úr jólasokknum sínum, frá Kertasníki og félögum.
Mandlan var á sínum stað í jólaísnum og í ár vann Sigrún Björk möndluverðlaunin. Hér er hún sátt með gjöfina:

Í pakkanum leyndist spilið Fimbulfamb, sem er alveg ótrúlega skemmtilegt. Við bíðum með að spila það þangað til Harpa mætir á staðinn.,
Jóladagur var yndislegur en aðeins of planaður fyrir manneskju sem er vön að liggja á meltunni og lesa jólabækur á þessum degi. Hangikjetið hjá pabba klikkar þó aldrei og að venju át ég gjörsamlega yfir mig. Við fórum svo beint þaðan í jólaboð hjá fjölskyldu Hjartar, hvar ég dansaði í kringum jólatré og börnin fengu gjafir frá ótrúlega gjafmildum og góðum jólasveini. Ég var svo södd eftir fyrra boðið að ég kom varla niður bita (eins og ávallt) sem mér fannst mikil synd því að borðin svignuðu undan kræsingunum.
Annan í jólum nýtti ég aðallega í að klára að lesa "Ósjálfrátt" eftir Auði Jónsdóttur og hafði mikið gaman af. Herregud hvað ég kannaðist við margt, eins og "Valda Popp" sem söng sinn óð til fjallanna og "Breiðafjarðarillskuna." Mjög persónuleg bók (hvílíkt hugrekki!) og ótrúlega vel skrifuð.
Annað kvöld kemur litla krúttið frá Svíþjóð og ég var því að dunda mér áðan við að búa um og færa Kristrúnu inn til Sigrúnar. Þær ákváðu að sofa saman í kvöld og taka þannig létta æfingu fyrir samsvefninn næsta mánuðinn. Þær eru dottnar úr æfingu og ég þurfti að sussa á þær þrisvar áður en þær gátu sýnt einbeittan svefnvilja. Þær fóru seint að sofa í gær af því að Erna og Óli Bjössa bró börn voru í pössun, en allir sváfu vel út. Gott að æfa sig að vaka fyrir gamlárskvöldið!
En þetta voru sem sagt ljómandi fín jól og ég vil nota tækifærið og þakka fyrir allar fínu jólagjafirnar og jólakortin mér og mínum til handa.
Blogga á næsta ári...
Jólrún Jólafs
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)