Flutningar framundan!

Skjótt skipast veður í lofti! Í gærmorgun tróð elskulegur eiginmaður minn kauptilboði upp í andlitið á mér og sagði að ég fengi ekkert latté nema að ég skrifaði undir. Kona þarf sinn tvöfalda espresso í freyðandi gémjólk til þess að geta hjólað upp í skóla (svona er að vera dóttir hans Óla og hafa alltaf nærst á njóla) þannig að ég krassaði kennitölu og krotaði nafn mitt á viðeigandi staði. Hjörtur stakk í framhaldinu af austur á Djúpavog í hreindýraveiði og hringdi seint um kvöld til þess að óska mér til hamingju með að tilboðið hefði verið samþykkt! Ég veit sumsé að ég dansa ekki í Álfatúninu um næstu jól, nema auðvitað að eitthvað klikki (sem er ekkert víst að gerist). Hjörtur þykist eiga fyrir þessum tæplega 300 fermetrum og 3 hæðum af timbri og steypu, svo fremi að íbúðin okkar seljist einhvern tímann á næstunni. Höfuðverkurinn verður sem sagt ekki bara að flytja, heldur líka að hreinsa til í okkar íbúð og gera hana girnilega fyrir næsta kaupanda. Úffpúff...engin miskunn!

Svo skemmtilega vill til að þegar við Hjörtur ákváðum að flytja saman í Álfatún eitt þurfti ég að selja íbúðina mína í Seljalandi eitt. Núna erum við að festa kaup á Daltúni eitt...sem kostar eiginlega ekki neitt.  Tja...þetta síðasta er reyndar lygi. Áhættufælna vogin með rísandi sporðdreka og krabba í þriðja tungli væri alveg til í að hafa sitt sparifé inni á banka áfram, en svo er manni reyndar sagt að fasteignaviðskipti á þessum síðustu og verstu séu ekki endilega það heimskulegasta sem hægt er að gera. Fyrst og fremst er þó farið út í þessa vitleysu svo að vel fari um alla fjölskylduna. Sigrún þráir heitt að fá sitt eigið herbergi og hlusta á tónlist, lesa bækur og vera með vini inni að leika í friði fyrir litla dýrinu. Að vísu finnst Kristrúnu ekkert mikilvægara en það að sofna með Sigrúnu fyrir ofan sig í efri kojunni. En það eldist nú líklega af henni. Þær hafa haft gott af því að deila herberginu, en núna er kominn tími til þess að bjóða Sigrúnu upp á herbergi með skrifborði þar sem hægt er að læra í friði og spekt. Einn af helstu kostum þessa húss er svo sá að neðsta hæðin er aukaíbúð í útleigu sem er ein aðalforsenda þess að við höfum efni á að fara út í þessi stórkaup. Svo má nefna aðra kosti eins og þá að örstutt er í skólann, ekkert gras eða blómavesen á lóðinni, herbergi barnanna eru á efri hæðinni þannig að dótið verður (vonandi) ekki úti um alla stofu, o.s.frv... Það er líklega of seint að velta sér meira upp úr göllunum þannig að þeir verða ekki tíundaðir frekar hér. Það er ljóst að það þarf að taka eldhúsið alveg í nefið svo að það henti okkar ört stækkandi fjölskyldu (nei, ég er ekki ólétt...ég er bara að vísa í ömmubarnið mitt yndislega og alla framtíðartengdasynina og framtíðarbarnabörnin) en það fær kannski að bíða þangað til að Hjörtur hefur selt eilítið meiri fisk til úgglanda. Anyways, hérna er slotið:

 e585655_1A

Að sofa undir súð hefur alltaf verið minn draumur og nú ætlar hann loksins að rætast. Svo er bara að vona að Kisi Jackson verði ekki of ruglaður á þessum flutningum og haldi áfram að hoppa inn um stofugluggann á Álfatúni eitt og heimta rækjur og rjóma.

Þannig var nú það. Mig svíður í magann þegar ég hugsa um allt það sem framundan er. Kannski er það bara kallað verkkvíði.

Svo er nú það.

Sóla Dalton :)

PS Húsið var byggt af Hólmara. Það hlýtur að vera gæðastimpill!


Brúðkaup Tinnu og Marius

Öfföff...hvað maður er þreyttur eftir þessa brúðkaupshelgi! Samt var ég farin að sofa fyrir klukkan eitt báðar nætur, en svo þarf reyndar að taka inn í myndina að það var vaknað snemma báða morgna. Það er skemmst frá því að segja að allt gekk þetta ljómandi vel og Tinna og Marius eru núna gengin í heilagt hjónaband.

Samhristingurinn á Sjávarpakkhúsinu var fjörugur á föstudaginn. Siggi Björns trúbador (bróðir mömmu) og Bjössi bró tóku meðal annars lagið og gerðu það vel að vanda. 

Athöfnin í Stykkishólmskirkju var falleg og blátt áfram. Pabbi leiddi fallegu brúðina inn kirkjugólfið og Marius tók svo við henni við altarið. Þar beið hún stóra systir mín og snakkaði á norsku nánast allan tímann. Geri aðrir betur! Hér sést ættarsvipurinn greinilega, sposkur prestur og enn sposkari (norskari) brúður:

IMG_7116Sætar eru þær, systur mínar!

Eftir athöfnina voru brúðhjónin hreinlega grýtt með hrísgrjónum:

IMG_7132

Haglél?

 

Í lobbýinu var boðið upp á brennivín og hákarl, ásamt kampavíni og gosi. Kristrún smakkaði gos í fyrsta sinn (það má ekki líta af barninu í eina sekúndu!) og verður líklega goshólisti fyrir lífstíð. Maj'amma var bara í sprætinu enda þarf hún ekkert sterkara til þess að vera hressasta konan á staðnum. Hér erum við systurnar að knúsa ömmu:

IMG_7156

 Amma sín er best!

Nokkur afkvæmi okkar systranna stóðu sig með prýði í veislunni, alveg hreint til fyrirmyndar: 

IMG_7168

Irma "Massi" Lúlludóttir, Örvar "Bieber" Lúlluson og Björg "Básúna" Sóludóttir.

 

Litlu ungarnir mínir voru líka til fyrirmyndar, bæði í kirkjunni og í veislunni. Kristrún var greinilega mjög hrifin af brúðinni því að hún sagði eftir athöfnina: "Prinsessan talaði ekkert í kirkjunni. Hún sat bara og hlustaði." Hún hafði aldrei séð alvöru prinsessu áður þannig að við leyfðum henni að heilsa upp á hana í veislunni. Kristrún var algjörlega "starstruck" og er búin að tala mikið um þessa upplifun síðan: 

IMG_7179

Stóra prinsessan og litla prinsessan. Kristrún fékk að halda á brúðarvendinum í smástund og þótti það ekki leiðinlegt. Bleikur er sko uppáhaldsliturinn hennar. Tinna prinsessa ákvað að kasta ekki brúðarvendinum til ógiftra kvenna á svæðinu, heldur sendi hún Gumba vin okkar með hann til Flateyrar til þess að leggja á leiði mömmu okkar og Ingu ömmu, sem hvíla hlið við hlið. Alveg yndislegt.

Veislustjórnin gekk ágætlega hjá mér og Bjössa bró þó að við fyndum fyrir því að Norðmenn væru heldur formlegri en við Íslendingar þegar kemur að veislusiðum. Norðmenn halda ræður (helst margar) en Íslendingar fara oftast nær aðra leið ( =láta eins og vitleysingar). Við systkinin sungum frumsaminn texta á google translate norsku við lagið "La det swinge", Bjössi tók lagið með Óla Geir og vídeóið mitt um ævi Tinnu féll í góðan jarðveg. Maturinn var góður, brúðhjónin glöð og falleg og þessir kappar í stuði:

IMG_7189

Óli Geir Bjössason, Siggi Björns mömmubróðir og Magnús litli, sonur Sigga. Þeir feðgarnir eiga heima í Berlín þannig að við sjáum þá ekki mjög oft, ekki frekar en norsku prinsessuna hana Tinnu og hennar fögru familíu.

Frábært og jafnframt mjög dýrmætt að fá að eyða þessari helgi með móðurfjölskyldunni sem býr úti um allar trissur og hittist allt of sjaldan. Ég vil því þakka brúðhjónunum fyrir að fá þá snilldarhugmynd að gifta sig í Stykkishólmi, fegursta bæ Íslands og fæðingarbæ Tinnu (og Sólu...og mömmu).

Takk fyrir okkur, herra Marius og frú Tinna Kúld Husby!

 

Sóla Kúld :) 


Ísland - Noregur

Ansi skemmtilegt að það skuli hittast þannig á að Ísland spili landsleik við Noreg í knattspyrnu annað kvöld. Á sama tíma verður nefnilega hittingur rúmlega hundrað Norsara og nokkurra Íslendinga á Sjávarpakkhúsinu í Stykkishólmi. Tilefnið er að sjálfsögðu samhristingur fyrir brúðkaup Tinnu Kúld (lille söster) og Marius Husby sem verður laugardaginn 8. september 2012 í Stykkishólmskirkju. Undirbúningur er búinn að standa yfir í meira en ár og öllu er til tjaldað. Stórveisla á hótelinu og ball á eftir! Veislustjórar (toastmasters) eru engir aðrir en ofursystkinin Þrasi og Jóla (aka Bjössi og Sóla)! Það verður eitthvað... Presturinn sem gefur þau saman er að sjálfsögðu stjörnuklerkurinn Jóna Lovísa Jónsdóttir. Þetta kalla ég góða nýtingu á systkinum! Nú er bara að vona að allir komist heilir frá þessu öllu saman, svei mér þá. Jú jú...þetta verður í lagi. Brunum westur á morgun með alla fjölskylduna. Áfram Ísland - Heia Norge!

 

Yola :) 


Þegar litli okkar Lindström fæddist...

...í Stokkhólmi, Svíþjóð (af hverju ekki Stykkishólmi, Íslandi?) skein sólin í Kópavogi glatt. Sunnudagur til sælu var einmitt það sem mamma hans, hún Harpa litla, hafði óskað sér. Óskabarnið byrjaði að banka á fylgjuna snemma morguns og fjölskyldan í Álfatúni fylgdist spennt með úr fjarlægð, með hjálp Skype og sms-a. Kornungir foreldrar leiddu tveggja og sex ára stúlkubörn sín um Elliðaárdalinn, fóðruðu kanínur á brauði og veiddu laxa í ánni, nánar tiltekið laxaseyði í háf sem var sleppt stuttu síðar. Yndislegur dagur, 2. september 2012. Klukkan 22:45 að sænskum tíma voru kornungu foreldrarnir orðnir að háöldruðum afa og aðeins yngri ömmu. Fæðingin var alveg í takt við meðgönguna: Gekk eins og í sögu! Tæpar 16 merkur og 53 sentimetrar af fegurð og gáfum:

jakob

Við vorum ekki alveg viss um hverjum hann líktist í fyrstu, en við erum ekki frá því núna að við sjáum svip af móðurinni. Ekki leiðum að líkjast. Allir afarnir og ömmurnar og langafarnir og ömmurnar (það eru þó nokkuð mörg sett í kringum þennan elskaða dreng) eru í skýjunum með þessa yndislegu viðbót.

Til hamingju elsku Harpa og Rasmus. Lífið er svo gott.

 

Sól'amma :)


Fæðist lítill Lindström í dag?

Það er í dag, það er í dag! Samkvæmt sænskum sónarfræðum á lítil meyja að fæðast í dag. Kannski ekki kvenleg meyja, en það er alveg öruggt í hvaða stjörnumerki þetta barn verður. Litla krílið hennar Hörpu kemur kannski ekki í dag en héðan í frá magnast spennan dag frá degi. Ég var búin að giska á 3. september og þætti mjög vænt um að fá að hafa einhvern tímann rétt fyrir mér. Helga stóra systir er komin til litlu systur og ætlar að fá að vera viðstödd fæðingu fyrsta barnabarnsins í báðum fjölskyldum. Þetta barn verður elskað!

Hlakk hlakk...

Sól'amma :) 


Korter í afmæli!

Æ og ó...long tæm agó! Vinnan er greinilega byrjuð með 100 nýjum nöfnum að læra og baráttan við yfirlið í hita og svita í stofunum er helsta áhugamálið. Ég ætlaði sko aldeilis að gera Dönsku dögunum 2012 góð skil, svona fyrir fjölskylduna að grafa upp síðar meir, en verð víst að segja frá þessari helgi í stuttu máli þar sem nóttin er að skella á. Í stuttu máli voru Danzkir sérlega yndislegir í ár. Veðrið spilaði eflaust stóra rullu og líka það að við tókum meiri þátt í kvölddagskránni en oft áður. Undanfarið hef ég bara kíkt aðeins á markaðstjaldið á laugardögum og svo á flugeldasýninguna um kvöldið. Núna vorum við hálfpartinn dregin á Sundebakken á föstudagskvöldið að hlusta á Bjössa bró, Sigga Sigurþórs og fleiri snillinga taka lagið. Sáum sko ekki eftir því. Kvöldið eftir var auðvitað skyldumæting þegar Bjössi og bandið góða héldu uppi stuðinu í þrjá tíma niðri í bæ. Rúsínan í pylsuendanum var svo Páll Óskar sem tryllti lýðinn með frábæru sjóvi þar til flugeldasýningin brast á. Sýningin sú var líka kapituli út af fyrir sig; sú besta til þessa enda var Atlantsolía að stimpla sig inn í bæjarfélagið með því að greiða fyrir flugeldasýninguna. Stelpukrílin skemmtu sér vel og gaman fannst mér að sjá gömlu rólurnar af spítalarólónum í fullri notkun:

IMG_1660

 

Nú...margt annað hefur á dagana drifið síðan síðast þó að maður muni ekki helminginn þegar svona langt líður á milli blogga. Jú...hitti Bjöggó aus dem Österreich sem bauð nokkrum góðum vinkonum á Gló. Helgin er líka búin að vera "busy" með eindæmum. Afmæli hjá Hallgrími Ástusyni á föstudag, matarboð hjá Huldu Karen og Guy í gærkvöld (þau bjóða alltaf upp á grískt lamb, sem er skemmtileg hefð), "brunch" á Hótel Borg í morgun í tilefni 14 ára afmælis frumburðar míns og vinkonuhittingur (með börnum) með Doktor Ingibjörgu og Guðnýju Ástu úr enskudeildinni allan seinni partinn. Partý partý. 

Björg Steinunn verður sem sagt 14 ára á morgun og því fannst pabba hennar tilvalið að bjóða fjölskyldunni sinni á vinnustað sinn á Hótel Borg. Hér er hluti af fallegu föðurfjölskyldunni hennar Bjargar minnar: 

IMG_1732

Hildur, Sara, Rikki, Gunnar (gerpi), Björg Steinunn (rangeygt gerpi), Brynja og Björg Steinunn eldri.

Afmælisgerpið fékk þessa fínu köku sem að pabbi hennar fyrirskipaði alveg sjálfur að skyldi bökuð fyrir dóttur hans: 

IMG_1725

Best að fara snemma að sofa svo að öll fjölskyldan verði spræk í fyrramálið þegar afmælissöngurinn verður kyrjaður!

Björg lengi lifi! Húrra húrra húrra HÚRRA!

 

Sóla afmælisbarnsmóðir :) 


Blaut helgi

Ég er búin að vera að "excelast" í kvöld og eina ráðið til þess að komast út úr þeirri ferköntuðu veröld er að henda sér upp í rúm með skáldsögu í hönd, nú eða henda inn nokkrum orðum hér á bloggið. Eða bara bæði betra?

Hægt og bítandi er ég að meðtaka og jafnframt sætta mig við það að vinnan er að byrja og draumurinn á enda. Þá taka við skólamartraðirnar ógurlegu. Bara djóóók...vinnan er ágæt en sumarið bara svo undurljúft og allt of fljótt að líða. Svolítið spes að fá dumbungsveður í nokkra daga, jafnvel rigningu. Ég er orðin óvön svona veðri hér á Íslandi. Svona er maður fljótur að gleyma. Helgin var sem sagt frekar blaut á meðan Björgin og pabb'ennar spókuðu sig í blíðviðrinu á Dalvík.

Þá gerir maður bara eitthvað óvenjulegt og fer með fjölskyldunni í bíó. Við höfum gert ansi lítið af því síðustu árin og Kristrún var meira að segja að fara í fyrsta sinn í bíó, háöldruð manneskjan (hún verður sko þriggja ára 28. nóvember n.k.). "Brave" varð fyrir valinu, alveg ágætis mynd þó hún sé langt frá því að toppa margt annað sem frá Pixar hefur komið. Ég stalst til þess að taka mynd af litlu snúllu í upphafi ræmunnar:

 IMG_1570

Ægilega spennt fyrir bíóferðinni! Þess má geta að hún harðneitaði að taka niður þrívíddargleraugun eftir bíóferðina og var með þau á nefinu alveg þangað til hún fór í háttinn.

Það var heldur minna um útivist þessa helgina en oft áður. Samt verður að viðra börnin eins og þvottinn af og til þannig að við skruppum út á róló með regnhlífar. Hér eru tvær Mary Poppins:

IMG_1577Þær vita að vísu ekki hver Mary Poppins er en eitt youtube "session" gæti alveg bjargað því.

Sigrún Björk var svo góð að tína fallegan villiblómvönd handa nágrannakonunni sem var að detta í sextugt:

 IMG_1583

Ossafínn blómvöndur!

Það var sérlega gaman að fá Sólveigu vinkonu og nágranna í heimsókn á sunnudagsmorgni. Hún flutti ásamt fjölskyldu sinni til Noregs í fyrra en er nú komin heim aftur, glöð og kát og reynslunni ríkari. Hún borðaði alveg yfir sig af vöfflum, enda hefur hún ekki smakkað slíkt góðgæti í áraraðir!

Við enduðum sunnudaginn blauta á því að mæta óvænt á Saffran á Dalvegi þar sem Helga er að vinna núna. Fjölskyldan fór sem sagt út að borða og líkaði holli og góði maturinn mjög vel. Hér er Kristrún með ýkta myndavélabrosið sitt og Hjörtur, fjarrænn að vanda, að hugsa um næstu flugdrekaferð. Hann telur þetta hafa verið langbesta veðrið í sumar því að loksins gat hann "kite-að" heila fimm daga í röð. Rokið rokkar!

 IMG_1585

Eins og áður sagði var maturinn prýðisgóður og þjónustan svo enn betri. Helga er fyrirtaks þjónn, eins og sést á þessari mynd:

 IMG_1590

Þvílíkt bros, þvílík fagmennska! Við gleymdum reyndar að "tipsa" hana en bjóðum henni í mat annað kvöld í sárabætur.

Næst verða sagðar fréttir frá Stykkishólmi. Spáin er góóóóð og þetta verður eflaust huggulegt og fínt. Hjörtur ætlar að tæma kjallarann og flota gólfið og ég reyni að pússa húsið vel áður en ég skila því af mér til eigandans...ég meina leigjandans. Ég hef víst ekkert að gera í RM þetta árið (frekar en síðustu fjögur árin...buhuuu) því að hællinn er ekki enn orðinn góður. Hann virtist á batavegi en svo kom heldur leiðinlegt bakslag. Ég held því áfram að hjóla og góla enda heiti ég Sóla og er dóttir hans Óla og vinn uppí skóla sem er umvafinn njóla.

Jæja....venlig hilsen!

Súle danske :)


Síðasti dagur í sumarfríi...

...hjá Kristrúnu í dag, ekki mér (hjúkkit). Leikskólinn byrjaði reyndar í dag en ég var ekki alveg að tíma að láta barnið frá mér strax. Það er gaman og gefandi að hanga með grísunum, þó að lítið miði í eigin verkefnum á meðan.  Reyndar kom svona smá móment í dag þegar mig langaði til þess að skila Snuðru aftur í búðina þar sem ég keypti hana. Dagurinn byrjaði vel eins og alltaf og eftir múslí og latté fór ég með þær í "barnageymsluna" (eins og Tuðra kallar alltaf barnagæsluna í Laugum) á meðan kaffið skilaði sér út um svitaholurnar í tabata. Svo var farið beint í sund í yndislegu veðri og við vorum allar svo kátar og glaðar. Mömmunni datt allt í einu í hug að leika "kitluhumar" og með Tuðru á bakinu eltum við Snuðru út um alla laug. Snuðra þolir ekki of mikla spennu og brast í grát áður en kitluhumarinn náði nokkurn tímann svo mikið sem snerta hana. Það var sama hvort að humarinn beitti fagurgala eða hafði í hótunum við barnið, Snuðra gat ekki hætt að gráta. Eins og hin raunverulega móðir (based on a true story) Snuðru og Tuðru upplifði sjálf á stundum var þetta hrín orðið svo vandræðalegt að humarinn og Tuðra urðu að forða sér afsíðis þar sem þær fylgdust með Gólínu úr hæfilegri fjarlægð í heita pottinum. Umhyggjusamir sundlaugargestir reyndu að ná sambandi við barnið sem gelti bara á móti og frussaði á móður sína þegar hún sýndi með vingjarnlegum handahreyfingum að tímabært væri að koma sér upp úr. Þegar Tuðra var að breytast í linsoðinn humarhala klöngruðumst við mæðgur uppúr og Snuðra á eftir. Henni tókst þá loks að hætta að gráta og vildi sem minnst um þetta tala. Svona er þetta víst bara stundum. Once you pop, you can't stop. Þær drukku svo sitt jarðaberjaboost, alveg alsælar, áður en skottast var á bókasafnið og svo út í A4 að kaupa skóladót. Nú er búið að merkja hvern einasta tússlit og allt orðið klappað og klárt fyrir næsta skólavetur.

Verzlunarmannahelgin var bara fín. Björg fór á Laugarvatn með vinkonu sinni en restin af fjölskyldunni dúllaði sér við hitt og þetta. Á laugardaginn áttum við frábæran dag með Dalbúum. Kíktum á markað og hestaþrautir og svo bökuðu Svava og Sigrún Björk eldri vöfflur ofan í mannskapinn. Hér eru glaðir grísir að borða vöfflur og jólaköku: 

IMG_1539

Sigrún, Bríet og Emma (allar Björk), ásamt Kristrúnu ekki Björk.

 

Hjörtur stóð glæsilega vakt í eldhúsinu um helgina, en gaf sér samt tíma til þess að kíkja með okkur í "uppgötvum-nýja-rólóa" ferð á sunnudaginn. Hér er hann að róla með Tuðru sinni: 

IMG_1548

Mánudagurinn var álíka afslappaður. Hjörtur var að gera sér vonir um að það yrði vindur á Gróttu. Þar sem aðalflugdrekavinurinn er orðinn hálfgerður spítalamatur, dró Hjörtur fjölskylduna með sér í áhorfendastúkuna, en svo var auðvitað bara logn og blíða þar eins og annars staðar. Stelpurnar voru duglegar að dunda sér við vitann og á ströndinni.

 IMG_1551

Vitarnir tveir.

Pabbi bauð svo í grill um kvöldið ásamt Bjössa bró og kó, sem var aldeilis ekki leiðinlegur endir á góðri og afslappaðri Verzlunarmannahelgi.

En eins og fyrr segir þá er Kiddú að fara í leikskólann á morgun. Þá vantar reyndar Sigrúnu leikfélaga, en ég hef trú á að Aðalsteinn og fleira skemmtilegt fólk komi sterkt inn í myndina. Svo er hún orðin alveg sjúk í Andrés önd þannig að þegar sólin skín ekki má hún svo sem alveg liggja inni með nefið ofan í Andabæ. Í næstu viku förum við svo síðasta túrinn á Skólastíginn til þess að ganga frá húsinu til útleigu í vetur og auðvitað til þess að sjá flugeldasýninguna á Dönskum dögum og heyra Bjössa bró stjórna brekkusöngnum. Síðasta ferð ársins í Hólminn verður svo farin snemma í september, þegar sjálf Tinna Kúld gengur að eiga sjálfan Marius Husby í Stykkishólmskirkju. Pabbi mun leiða hana inn kirkjugólfið, Lúlla verður presturinn og ég og Bjössi veislustjórar. Búist er við 150 gestum! Við verðum sjálf hálfgerðir túristar og leigjum orlofsíbúð á Laufásvegi. Spennó spennó...

Jæja, verð að setja inn eina mynd af Snuðru og Tuðru í lokin. Hún var tekin í morgun þegar Snuðra var svo góð að greiða lubbann á Tuðru. Ég átti aðra sætari mynd af þeim en þessa, en þessi var bara eitthvað svo Tuðruleg:

IMG_1568

Elsku litlu grallaragrísirnir mínir :)

 

Fleira var það ekki í bili, takk fyrir.

Sóla humar :) 


Stykkiz, Verzló og Kópoz

Núna eru "allir" að fara eitthvað í ferðalag á meðan ég og mín fjölskylda húkum eftir í túninum heima. Að vísu er ég eiginlega alveg dauðfegin og finnst gott að vera líka heima í fríinu og njóta þess sem að höfuðborgin hefur upp á að bjóða í góða veðrinu (og það er nú ekki lítið!). Núna er líka kominn tími til þess að fara að spá í kennsluna á ný og hef ég notað kvöldin til þess að huga að þeim málum. Dagarnir fara auðvitað í að skemmta sér með litlu grísunum. Um miðja næstu viku kíkir Kristrún aftur á leikskólann og þá ætlar Sóla hans Óla að hjóla upp í skóla að funda með samkennurum. Mig dreymdi týpískan "sumarfríið-er-að-verða-búið" draum fyrir skemmstu. Ég var nýbúin að fá stundatöfluna mína og sá, mér til mikillar skelfingar, að ég átti líka að kenna dönsku og EÐLISFRÆÐI. Ég samþykkti dönskuna með semingi en taldi enga von til þess að ég gæti klórað mig fram úr eðlisfræðinni. Ég æddi um skólann að reyna að redda þessu en kom alls staðar að lokuðum dyrum. Þvílíkt stress og kvíði! Eins gott að ég er ekki berdreymin.

Talandi um ber...við fórum æi bláberjamó rétt við Stykkiz og veiddum vel (ég mismælti mig í sífellu og sagði "komum að veiða ber" - gjörsamlega veiðisjúk!). Lítið af berjunum skilaði sér þó heim í hús en það var allt í lagi því að Hjörturinn fagri hafði fleira góðgæti í bakhöndinni: 

IMG_1442Endalaus huggulegheit á drengnum. Við erum heppnar, stelpurnar í heita pottinum!

Önnur stelpa á Skólastígnum datt líka í lukkupottinn og fékk sér smá smakk: 

IMG_1452

Dísa skvísa, fallegasta konan norðan Drápuhlíðar og þó víðar væri leitað!

Þetta blogg er greinilega tileinkað fallegu fólki:IMG_1459

Bjössi bró og Erna hró (og hló) kíktu í krækling hjá okkur eitt kvöldið, svona rétt fyrir setningu Ólympíuleikanna. Hver var annars setning Ólympíuleikanna? Veni, vidi, vici? Mér skilst að það sé ekki fínt lengur að kalla þennan herramannsmat krækling (ég sá það í bækling) þannig að ég ætla að leiðrétta mig hér og nú og segja að bró og hró hafi borðað hjá okkur bláskel, sem rímar einmitt við hnjáskel.

Stuttu síðar bættist enn í hóp fallega fólksins á Skólastígnum, þegar Geir kite og Sissa sæt(a) mættu á túnkantinn með grísina sína þrjá. Úr þessu varð ein hin fallegasta krakkasúpa sem flotið hefur í heita pottinum:

IMG_1465

Kristrún, Erna, Óli, Sigrún, Helgi, Gunnhildur og Heiðrún, ofurkrútt öllsömul!

Fallega fólkið leit við í Pakkhúsinu aðfaranótt sunnudags þannig að það má alveg segja að djammstuðullinn hafi hækkað alveg svakalega þetta sumarið (klukkutímadjamm í Flatey og klukkutímadjamm í Stykkishólmi). Herregud! Rea!

Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir í Kópoz á ný hefur leið okkar stelpnanna legið í allar áttir. "Stelpurnar" eru yfirleitt ég og hinar Rúnurnar (Kristrún og Sigrún) því að Björg er búin að vera upptekin við að sinna vanræktu vinunum. Hjörtur situr við tölvuna alla daga og selur fisk en sem betur fer er alltaf hægt að treysta á flottasta járnsmið Íslands, sjálfan Ólaf Geir senior. Við hjóluðum í Nauthólsvíkina í góða veðrinu í fyrradag og sleiktum ísinn og sólina: 

IMG_1508

Pabbi er greinilega orðinn tanaður í drasl eftir að hann hætti að vinna. Hann afþakkaði meira að segja ferð í Húsdýragarðinn í gær því að skallinn var orðinn rauðglóandi og þurfti sína hvíld. Þess í stað hjólaði hann með okkur upp í Árbæjarlaug í dag, hvar við nutum þess að fáir voru í sundi, bæði vegna sólarleysis og þeirrar skemmtilegu staðreyndar að margir eru farnir eða á leiðinni í ferðalag. Á leiðinni upp í laug stoppuðum við hjá kanínunum í Elliðaárdal og fóðruðum þær og flennistórar gæsir á Bónus brauði. Svo fórum við upp að stíflu og gáfum öndunum og löxunum þar. Mig langaði mikið til þess að gerast veiðiþjófur þegar ég fylgdist með löxunum stela brauði frá öndunum. Það eina sem þarf er smá girni, öngull og brauðmoli og...búið að redda kvöldmatnum! En auðvitað harðbannað.

Ég elska þessa góðu daga sem bjóða upp á ný og gömul ævintýri. Hjóla í Elliðaárdalinn og skoða dýrin og vaða í ánni, hjóla í Húsdýragarðinn (sem klikkar aldrei), fara í sund, finna nýjan róló, hjóla í Perluna og fá sér ís, hjóla jafnvel í miðbæinn... Skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til? Nei, það held ég bara ekki. Frelsið er yndislegt. Hér er mín yngsta, ánægð í sjónum í Nauthólsvík:

IMG_1504

 

Hér er svo mín næstyngsta, synd sem selur í sjó:IMG_1498

Alltaf með sundgleraugun á nefinu!

Framundan eru góðir dagar í höfuðborginni við leik og störf. Kannski maður kíki í Westurbæinn eða Dalinn og sníki kaffi, nema að Hjörtur bjóði okkur í bíltúr út fyrir bæinn? Ég sé að hann er með lambafilé í ísskápnum. Það er spurning hvenær það fer á grillið? Verst að geta ekki hlaupið af sér spikið. Það hlýtur þó að koma allt með kalda vatninu. Ég vildi óska þess að tabatatímarnir væru oftar en bara tvisvar í viku. Þá væri ég nánast orðin jafn vöðvastælt og hún systir mín (djók). Smá auglýsing í lokin: Vonast til þess að sjá alla sem vetttlingi geta valdið í tabata í Laugum kl. 10:30 á þriðjudögum og fimmtudögum. Byrjendur munu ekki geta valdið vettlingi eftir fyrsta tímann. Svo lagast það.

Njótið Verzlunarmannahelgarinnar í botn en gangið hægt um gleðinnar dyr.

 Zola verzlunaróða :) 

 


Flateyin kláruð

Það er búið að vera eitthvað tölvuvesen á minni þannig að ég hef ekki komist í blogggírinn (hvað eru mörg g í því?) fyrr en nú. Við lentum í Kópavoginum í kvöld eftir laaanga útiveru og því alveg tilvalið að nota góða internettengingu til þess að klára Flateyjarumfjöllunina í stuttu máli.

Björg Steinunn var alsæl með að komast heim í menninguna af því að þá gat hún loksins farið að hlusta á tónlist á youtube á ný. Hún fékk nú samt að hafa með sér i-pad-inn í Flatey og nýtti hann vel í að gera marga bráðfyndna trailera með börnin í aðalhlutverki. Ekki hreifst hún mjög af hugkvæmni móður hennar, sem pakkaði gerseminni vel og vandlega ofan í tösku með dúnmjúkar bleyjur  utan um:

IMG_1310

Ég verð að taka það fram að gleraugun sem hún er með á unglingsnefinu eru ekki hennar, heldur eitthvað sem hún fann í dótakassanum í Bræðraminni. Svipurinn er þó algjörlega hennar (þessi "djímammahvaðþúerteitthvaðhrikalegaklikkuðmaðurdööööööö...").

Það var sko aldeilis ekki alltaf rok í Flatey, eins og þessi mynd ber með sér:

 IMG_1316

Allir litlu grísirnir í sandkassa fyrir utan Bræðraminni.

Þrasi bróðir og Bjórlafur faðir minn voru glaðir og nettir á því allan tímann og fóru með börnin í göngutúr um eyna:

 IMG_1345

Skál!

Við fórum út á "djammið" í Flatey, sem reyndist vera söngskemmtun miðuð við smekk 80 ára eldri. Vel flutt engu að síður og allt búið, uppklapp og hvaðeina, fyrir miðnætti. Helga og unnustinn létu sig ekki vanta á djammið:

 IMG_1353

Svo dæd og dæd og dæd....

Ein gleðilegasta uppgötvun mín í Flatey var hundurinn SÓLA. Hún er núna uppáhaldshundurinn minn....á eftir Snata auðvitað.  Hér erum við Sólurnar í ljúfum leik:

 IMG_1374

Sögur herma að nafnið hafi komið til þegar eiginmaður bekkjarsystur Bjössa bróður spurði konuna sína að því hver væri mesta tíkin í Stykkishólmi. Eftir smá umhugsun svaraði hún: ....

Ég sel það ekki dýrara....

Margar sögur hafa farið af gourmet máltíðum í Bræðraminni. Ein eftirminnilegasta máltíðin var án efa dýrindis réttur ættaður úr Toro héraðinu í Mexíkó. Faðir minn er sérfræðingur í þessum rétti og hér sést hann töfra fram pottþéttan pottrétt sem hreinlega gældi við bragðlaukana og úfinn líka. Það eina sem vantaði var kínakálið, en það kemur bara næst því að þessi réttur er kominn til þess að vera á Bræðraminnismatseðlinum!

 IMG_1388

Eldað af ástríðu!

Hmm...mér finnst rétt að sýna eina mynd af Flatey í vondu veðri, fyrst að ég minntist á rokið í síðasta bloggi:

IMG_1390

Björgin á leiðinni að fjúka út á sjó? Nah...hún bjargar sér. Pun intended.

Aðalamálið er samt kríuunginn Eyjólfur sem ég minntist á í síðustu færslu. Hann fékk nafnið þegar Óli afi spurði hvort að Eyjólfur væri ekki að hressast? Svo er hann náttúrulega orginal eyjapeyji. Hann var sem sagt orðinn kaldur og líflaus þegar pabbi kom með hann í hús, en Björg bjargaði öllu með því að nudda í hann yl og troða þorskbitum ofan í kokið á honum. Á nokkrum tímum varð hann hinn sprækasti og átti athygli og ást allra í Bræðraminni. Hann kúrði í hálsakoti Bjargar, en átti þó til að skapa sér eilítlar óvinsældir af og til:

IMG_1394

Úpsí! Eyjólfur kúkarass! Honum var samt auðvitað fyrirgefið af því að hann var svo mjúkur og góður og sætur og yndislegur! Hann fór sprækur að sofa um kvöldið, en morguninn eftir var Eyjólfur ekki lengur hressi gaurinn. Björg kom ofan í hann mat sem hann ældi svo jafnóðum. Máturinn þvarr smátt og smátt og um miðjan dag var hann allur. Ég ætla ekki að fara út í sorgarferlið í smáatriðum, en get sagt með sanni að Björg tók lát hans alveg ofboðslega nærri sér. Hann liggur nú grafinn úti við hjall, með hvítan kross á leiðinu. Blessuð sé minning Eyjólfs sem gladdi okkur öll með nærveru sinni og kríuskít.

Vikan leið hratt í Flatey við leik og störf og það rættist heilmikið úr veðrinu í lokin. Bullandi blíða sem varð þess valdandi að Hjörtur fann sig knúinn til þess að henda sér í sjóinn með síðustu geislum sólarinnar:

IMG_1430

Ég var ekki alveg jafn spennt. Ég gerði þó nokkrar tilraunir en hafði bara einu sinni erindi sem erfiði. Ég fer létt með að vaða upp að mitti en kaflinn eftir það er ansi erfiður. "It's all in your head" eins og maðurinn sagði. Hann var sko Englendingur.

Hællinn og ilin eru enn í graut og ekki gat ég synt eða hjólað í Flatey þannig að ég bara hreyfði mig ekki neitt. Eins og nýjustu myndir sína er hreyfingarleysið farið að hafa áhrif á líkamsvöxt minn og útlínur allar:

IMG_1363

Eitthvað verð ég að fara að gera í þessu, for faen!

 

Næst verður fjallað um góða dvöl í Hólminum.

Laters baby....

 

Sóla tík :)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband