Svipmyndir frá Tyrklandi

Mikið assgoti ætlar að vera erfið fæðing hjá þessu Tyrklandsbloggi númer tvö. Stundum vantaði tölvu, stundum tengingu og oftast nær hvoru tveggja. En hér er ég með uppsafnaðan bunka af ljósmyndum úr fríinu. Reyni að vera fámál.

Talandi um mál, þá er einhver að berja í einhvers konar mál hér fyrir utan gluggann. Hugsanlega verið að mótmæla stjórnvöldum? Við höfum aðeins orðið vör við mótmæli bæði í Akyaka og Marmaris, en allt mjög friðsamlegt. Amma Hakk og Gunni Bjargarpabbi höfðu reyndar miklar áhyggjur af Björgu Steinunni í fyrradag þegar hún þurfti að leggja á sig tæplega sólarhringsferðalag frá Tyrklandi til Íslands, meðal annars með langri viðkomu í Istanbul. Ég viðurkenni að mér var líka órótt þegar ég sá eftir frumburðinum á flugvellinum í Dalaman leggja upp í þetta langa ferðalag alein, enn með sorg í hjarta eftir fréttirnar af fráfalli Hemma. En hún stóð sig vel stelpan og komst heim heil á húfi, reynslunni ríkari. Í morgun flaug hún svo til Þýskalands með skólahljómsveitinni og verður þar þangað til 16. júní. Ég held að hún hafi bara skemmt sér vel hérna hjá okkur, enda væsti ekki um hana í herbergi með Helgu stóru systur. Hér eru þær á góðri stundu:

 DSC_0164-1_zpsd5de31df

Negrastrákarnir voru 10 en núna eru bara eftir 8, því að Rasmus fór heim í morgun. En erum við annars orðin eins og negrar (vonandi móðga ég engan með því að nota þetta orð) í allri þessari sól? Nah...get nú ekki sagt það, enda fer mesta vinnan í að forðast sólina þegar hún er hvað sterkust og bera á sig góða vörn til þess að brenna ekki. Ég er fyrst núna farin að setja sólarvörn 30 (úr 50) á litlurnar en það er allur gangur á því hvað fullorðna fólkið er að nota. Pabbi er langdekkstur af liðinu, enda heilmikið forskot falið í því að vera ellilífeyrisþegi og sitja á suðursvölum í Fossvoginum í hvert sinn sem íslenska sólin glennti sig eitthvað í vor. Harpa fór hrikalega illa út úr því að gleyma að setja sólarvörn á bakið á sér einn daginn. Hún brann mjög illa á bakinu og leið miklar þjáningar í nokkra daga. Ýmis meðul voru notuð til þess að hjálpa henni til þess að ná einhverjum svefni á meðan á ósköpunum stóð, en ég ætla ekki að útlista það neitt frekar ;).

Dagarnir líða hratt og ég sem hélt að þrjár vikur væru ALLT OF LANGUR TÍMI verð víst að éta það ofan í mig aftur. Ég held að það sé bara mátulegur tími, a.m.k. eins og staðan er búin að vera heima í Daltúninu. Allt á hvolfi og minnir lítið á huggulegt heimili. Við erum í góðu húsi með yndislegum garði og sundlaug og þurfum ekki mikið meira. Útlandareglunni "einn ís á dag kemur skapinu í lag" er fylgt mjög vel eftir, sérstaklega af Sigrúnu sem lætur ekkert fram hjá sér fara þegar möguleikinn á sætindum er annars vegar. Ekki það að stóra systir sé eitthvað betri. Hún vann að því hörðum höndum að þessi fíni ís yrði í eftirmat eitt kvöldið: 

IMG_8457_zps7bd80de6

Kristrún smælar líka framan í heiminn og fær röndóttan ís í staðinn! Björg brann aðeins á bringunni og líkti henni við þennan ís. Undir toppnum var hún hvít (vanilla), á bringunni var hún rauð (jarðaber) og fyrir ofan brunann var hún brún (súkkulaði).

Eins og ég hef áður minnst á hefur Hjörtur verið ansi upptekinn við vinnu og mardrekaflug. Aðstæðurnar hér í Akyaka eru frábærar (þess vegna erum við hér) og Hjörtur mjög ánægður með það, þó að hann vildi óska þess að hann hefði líka meiri tíma með okkur. Hér er kallinn að hoppa úti á hafi:

IMG_8555_zps3b542ae1

Meganæææææs! Hann ætlaði að fara í smá aukakennslu í dag, svona rétt til þess að læra að gera flikk flakk og heljarstökk í loftinu, en þá brá svo við að það var logn allan daginn. Vonandi fær hann byr í seglin á morgun, kallanginn.

Uppáhaldsiðja mín er að fara með börnin á ströndina. Kristrún er ekki hrifin af sundlauginni, en sjóinn elskar hún af öllu hjarta. Þar nær hún í botn og getur vaðið út um allt, mokað sandi og elt litla fiska. Hér er hún aftan á vindsæng hjá Sigrúnu:

DSC_0303_zpsfc85f88d

Afi dró þær um allan sjó, en stuttu eftir að þessi mynd var tekin hvolfdi vindsænginni og stelpurnar fóru á bólakaf. Ekki alveg uppáhaldið hennar Kristrúnar, en hún fór ekkert að grenja. Yay!

Akyaka er lítill bær og ekki mikið um einhverja sérstaka afþreyingu, nema auðvitað að fara á ströndina, í sundlaugina eða kíkja í litlar búðarholur. Við erum búin að fara þrisvar til Marmaris, sem er ansi flottur bær en með allt öðru andrúmslofti. Þar eru sölumenn á hverju strái og miklu meiri túrismi í gangi. Við fórum í smá stelpuferð til þess að versla "feik" merkjavöru og höfðum gaman af öllu "búllsjittinu" sem er í gangi í þessum búðum. Að prútta og gera góð kaup er greinilega mikil list. Sölumennirnir nota ýmsar aðferðir til þess að ná sem bestum árangri og sumir þeirra kunnu jafnvel nokkra íslenska frasa, eins og "bara skoða", jafnvel þó að lítið hafi sést af íslenskum túristum undanfarin ár, sem þeim þótti mjög miður. Kreppan maður, kreppan. Margir urðu mjög ástleitnir við Helgu en fengu í staðinn harðasta prúttara sem sögur fara af. Ég sjálf fjárfesti í Ray Ban gleraugum upp á heilar 700 krónur. Þau heita reyndar Roy Bon, but who bloody cares? Ég er samt mjög fegin að vera í rólegum og ekta tyrkneskum bæ, í staðinn fyrir að vera alveg ofan í túristabransanum. Eftir kynni mín af Tyrkjum hér sýnist mér að þetta sé afskaplega heiðarlegt og gott fólk sem gerir manni góðan greiða án þess að ætlast til nokkurs í staðinn.

Í tilefni þess að Björg þurfti að fara miklu fyrr heim urðum við að gera ýmislegt sem að við hefðum kannski dreift á lengri tíma. Við fórum til að mynda í heilsdags siglingu frá Akyaka um nágrennið, þar sem stoppað var á 4 eða 5 góðum stöðum og skoðað sig um. Sigrún Björk fékk að stýra fleyinu og fórst það vel úr hendi, enda rennur örugglega slatti af sjómannsblóði um hennar breiðfirsku æðar:

IMG_8621_zpsf03b4264

Þeir sem vildu máttu hoppa niður af bátnum ofan í sjóinn á völdum stöðum. Björg lét ekki segja sér það tvisvar, heldur þrisvar:

IMG_8632_zpsc94a75b3

Merkasti staðurinn sem við stoppuðum á var líklega Kljápöddu strönd (Cleopatra Beach) sem er með einhverjum ægilega spes fíngerðum sandi. Ég afrekaði það að gleyma bæði froskalöppunum mínum og Sigrúnar á ströndinni og enn hefur okkur ekki tekist að endurheimta þær. Aulinn ég. Eftir siglinguna fórum við á allsérstæðan en óhemjuvinsælan veitingastað í Akyaka, sem er bátur við ána og sérhæfir sig í fiskisamlokum. Sætin uppi voru mjög skemmtileg:

IMG_8693_zpsc16345aa

Þarna situr nú allt liðið nema Helga, sem tók myndina.

Stelpuverslunarferðin til Marmaris (með viðkomu á McDonalds) var eitt af því sem við þurftum að gera fyrir Björgu, en svo var það auðvitað hátindurinn: Vatnsrennibrautagarður! Það var víst um þrjá að velja í Marmaris, en ég held að við höfum farið í þann stærsta. Barnasvæðið var mjög flott, en mjög asnalega hannað því að ísköldu vatni var dælt í allar áttir, sem olli því að börnunum var ekki bara skítkalt, heldur voru alveg rosalega mikil læti allt í kring. Það var ekki fyrr en í lokin þegar slökkt hafði verið á vatninu að Kristrún (og ég, kuldaskræfan) gátum farið að njóta okkur á því svæði. En eldri stelpurnar fíluðu þetta alveg í botn, sérstaklega Sigrún sem var að prófa svona nokkuð í fyrsta sinn á ævinni. Hér er hluti af barnasvæðinu (glittir í Kristrúnu, mig og Sigrúnu):

DSC_0543_zpsf71237ef

Pabbi var sá eini sem að renndi sér ekkert, en hann var duglegur að taka myndir. Ég tók myndir af honum í staðinn, gamla töffaranum:

DSC_0567_zps3c105597

Drekkur six-pack á dag og samt með six-pack. Hvernig má það vera?

Svo læt ég fljóta með eina sæta mynd af sænska parinu í sundi:

DSC_0605_zpsbeb3c3d9

Harpa, Jakob og Rasmus. Súpersæt fjölskylda!

Já, lífið í Tyrklandi er bara ljúft. Mjög rólegt og afslappað, allir í góðum gír og ekki yfir neinu að kvarta. Auðvitað þarf að þvo þotta, taka til, elda mat og vaska upp alla daga, en margar hendur vinna létt verk. Það er gaman að fylgjast með litlu stelpunum njóta sín, svona í fyrsta sinn í útlöndum. Kristrún vill helst vera berrössuð alla daga og pissa útí blómabeð, en vonandi venur hún sig af öllum slíkum töktum áður en hún mætir aftur í leikskólann. Dýralífið er skemmtilegt. Hjörtur kom með skjaldböku á heimilið sem hann fann úti í vegarkanti en hún týndist því miður fljótlega (er kannski enn í einhverju blómabeði að valda usla). Lausir hundar eru hérna úti um allt og virðast vel haldnir og yndislegir, að ég tali nú ekki um kettina. Við erum búin að hæna að okkur nokkra fastagesti sem að fá mjólk í skál eða kattamat úr lófa. Óvenjulegasta gæludýrið er þó krybba nokkur sem er búin að eiga fasta setu hér í nokkra daga. Sigrún og Kristrún fundu hana við sundlaugina og settu hana í litla bláa fötu með fullt af laufblöðum. Þær taka hana oft upp og klappa henni og hún á það jafnvel til að stökkva snöggt upp úr fötunni og upp á andlit eða axlir stelpnanna, en fer svo aftur ofan í fötuna þegar hún er orðin þreytt á leiknum. Við héldum fyrst að þetta væri engispretta og kölluðum hana því auðvitað Tuma. Ég var svo undrandi á þessari hegðun krybbunnar að ég fór að gúggla áðan. Þá komst ég að því að í Kína og víðar er löng hefð fyrir því að halda krybbur sem gæludýr! Það er merki um gæfu að láta þær búa hjá sér í krukku í garðinum. Við eigum því sem sagt gælukrybbu sem heitir Tumi og ætlar að búa hjá okkur þangað til að við förum. Ekki ætlum við að gera Tuma það að flytja til kalda Íslands. Ég lýk þessari löngu færslu með mynd af Kristrúnu kirsjuberjaputta með Tuma krybbu:

IMG_8699_zpsb3280a5d

Peace out!

Sóla (Turk 182)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa ferðasöguna, mikið væri gaman að vera með ykkur þarna :)

Ásta (IP-tala skráð) 13.6.2013 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband