Kallinn fimmtugur og eldhús í fokki
16.6.2013 | 23:35
Ég ætla nú að tala sem minnst um eldhúsið, enda mikilvægara að eiginmaðurinn eigi smá minningar á alnetinu um afmælisdaginn sinn. Fyrst þarf að vísu að gera síðustu dögunum á Tyrklandi skil.
Ég reyndar man ekki eftir neinu sérstöku. Við fórum í þessa siglingu og svo í vatnsleikjagarðinn áður en Björg fór heim, en eftir það gerðist ekkert fréttnæmt. Engar fréttir eru góðar fréttir. Samveran skipti mestu máli í þessari ferð, að mínu mati. Það var sjaldnast eitthvað prógram fyrir hvern dag, nema auðvitað vangaveltur hjá Sigrúnu um hvernig ís þær myndu fá í dag og svo auðvitað hjá Bjórlafi um hvort að ekki væri örugglega einn kaldur í ísskápnum (djók). Allir náðu vel saman, bæði ungir og aldnir. Hér er eitt dæmi um káta kappa sem voru að fíla hvorn annan:
Ól'afi og Jakob krútturass! Jakob sló ekkert lítið í gegn í Tyrklandi. Hann vakti gífurlega athygli hvert sem hann fór og allir vildu klípa í kinnarnar á honum, blessa hann og knúsa. Kannski af því að Tyrkir eru barngóðir, kannski af því að hann er svo hrikalega sætur, kannski af því að hann er bláeygður? Líklega sitt lítið af hverju. Kristrún litla ljóshærða fékk líka sinn skerf af athygli en ólíkt Jakob brosmilda fór feimna stelpan undan í flæmingi (eins og hver annar læmingi) og gaf ekkert af sér til baka. Anyways, hér er ein mynd af öldruðu ömmunni og háaldraða afanum með litla kalli:
Jól'amma, Jakobus og Hjöss'afi.
Ég hef áður minnst á fjölskrúðugt dýralíf í Tyrklandi og í bænum okkar, Akyaka. Hundar ganga hér um meira og minna frjálsir og ekki eru færri kettir heldur. Flest eru dýrin hin alúðlegustu og hefði ég helst viljað taka þau öll með mér heim. Kannski ekki skordýrin, þó að þau hafi reyndar verið meganæs (fyrir utan moskítós, en ég slapp með einhver átta bit, þökk sé eitrinu sem ég úðaði á mig daglega). Eitt kvöldið sáum við broddgölt en þorðum ekki að reyna að taka hann með heim. Hins vegar björguðum við lítilli eðlu úr kattarklóm og geymdum hana í boxi heima. Eins og sést var búið að halaklippa hana og rífa í holdið:
Því miður dó krílið sólarhring seinna. Þetta var eðal eðla, eðlilega. Blessuð sé minning hennar.
I-phone-inn hans Hjartar dó líka harmdauða. Ég horfði tvisvar á eftir Hirti stinga sér ofan í laugina í öllum fötum. Í fyrra skiptið þegar hann ætlaði að láta skjaldbökuna synda í lauginni og áttaði sig svo á að ég var ekki að ljúga því að þetta væri landskjaldbaka. Í seinna skiptið þegar hann missti glænýjan I-phone 5 ofan í laugina. Glænýr og steindauður! Sem betur fer er kallinn vel tryggður og kominn með nýjan síma. Hér þurrkar Hjörtur sér við eldinn ofurvinsæla, ásamt Connery tengdaföður sínum:
Við vorum alveg á því að það þyrfti að byggja svona kamínu úti í Flatey. Fátt lyktar betur en viður að brenna og fátt er meira róandi en eldur sem logar glatt í arni, nema Prozac auðvitað.
Afmælisdagurinn? Daginn fyrir brottför rann upp afmælisdagurinn hans Hjartar. Fyrsta stórafmælið sem ég upplifi með honum. Ég veit, gamalt fólk í ungu sambandi. Harpa reddaði alveg svakalega fínni afmælisköku fyrir pabba sinn og við græjuðum eitthvað fleira huggulegt í afmælisbrönsinn. Hér er fyrra settið af dætrunum að horfa af aðdáun á pabba sinn með afmælistertuna:
Við fundum ekkert slökkvitæki þannig að 50 kerti á köku verða að bíða betri dags.
Svo þurfti stórafmælisbarnið að setjast við tölvuna og vinna og vinna og vinna og vinna á meðan við sóluðum okkur við sundlaugarbakkann. Ég meina, einhver verður að borga ferðina! Enginn vindur var fyrir drekaflug þannig að blessaður drengurinn fékk kannski ekkert mjög mikið kikk út úr deginum. Skemmtilegt kvöld í Ottoman höllinni bjargaði þó miklu. Þar mættum við á staðinn tæplega klukkutíma of seint (af því að Hjörtur var að vinna og vinna og vinna og...) og biðum spennt en ægilega pen eftir einhverju huggulegu í gogginn.
Þessi fjölskylda á reyndar ekkert voðalega auðvelt með að sitja kyrr of lengi þannig að fljótlega var farið út í einhvern fíflagang við sundlaugarbakkann. Gamla pósaði eins og henni einni er lagið (Lúlla style) og hafði ekki hugmynd um að Harpa væri í svipuðum stellingum hinum megin á bakkanum:
Sama má svo segja um næstu mynd. Harpa hélt að hún væri að eyðileggja huggulega mynd af henni og pabbanum, en á meðan taldi hann sig vera að gera það sama. Synchronized sinners:
Við fórum örsjaldan út að borða í Akyaka þannig að þessi afmælismáltíð var hin fínasta tilbreyting. Tyrkir nota mikið af mjólkurvörum og lambakjöti í sinni matreiðslu, rétt eins og Íslendingar. Eftir forrétt, aðalrétt og eftirrétt var upplagt að róla og góla aðeins í garðinum:
Stelpur í stuði!
Afmælisbarnið bauð svo upp á einn nettan kokteil fyrir svefninn, sem hinar stelpurnar í stuðinu tóku heldur betur fagnandi:
Stelpur í stöööði!
Veitingastaðurinn var steinsnar frá húsinu þannig að við röltum heim í myrkrinu og horfðum með aðdáun á stjörnubjartan himininn í síðasta sinn. Tunglsjúkur Hjörtur rak tærnar í dauðan snák og kláraði afmælisgöngutúrinn með barnavagn í annarri og snák í hinni.
Allir fóru beint að sofa því að framundan var rúmlega sólarhrings ferðalag til Íslands. Allir nema Hjörtur og Bjór, sem eyddu síðasta hálftímanum af afmælisdeginum fyrir framan eldsglóðirnar, líklega í þunglyndi yfir að vera báðir komnir yfir hæðina...all downhill from now.
Þetta er síðasta myndin sem tekin var af Hirti á afmælisdaginn. Greinilega mjög þunglyndur:
Frábært frí að baki og nú er bara að takast á við suddann á Íslandi á ný. Eldhúsinnréttingin sem átti að vera tilbúin er varla hálfnuð. Fyrst brotnaði borðplatan í framleiðslunni og verður ekki tilbúin aftur fyrr en í fyrsta lagi um miðjan júlí. Svo urðu þau leiðu mistök í sprautun á hurðum á innréttingunni að öllu dótinu var pakkað saman inn í bylgjupappa ÁÐUR en lakkið var þornað þannig að allt límdist saman og öll vinnan ónýt. Hvað næst? En sem betur fer getum við flúið í Hólminn um stund næsta miðvikudag, þar sem allt er örugglega í toppstandi eins og vanalega. En þangað til munum við knúsa Kisa í klessu (hann saknaði okkar greinilega MJÖG mikið), halda upp á þjóðhátíðardaginn og bjóða svo Kiddý nýstúdent frá MA og okkar fólki í smá dinner í eldhúsómyndinni. Björg kom alsæl heim í dag eftir 11 daga ferð í Þýskalandi með Skólahljómsveit Kópavogs, þannig að allt er við það að færast í eðlilegt horf.
Sem sagt, Hjörtur orðinn fimmtugur, Tyrkland er frábært land og eldhúsið verður vonandi klárt fyrir næstu jól.
Kær kveðja
SÓL
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Mjög gott blogg! Þetta var meganice afmælisdagur og bara snilldarferð alveg í gegn! Takk fyrir okkur aftur, við erum strax farin að sakna ykkar :(
Harpa (IP-tala skráð) 17.6.2013 kl. 05:41
Miss you too! Love :)
Sóla (IP-tala skráð) 25.6.2013 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.