Staldrað við í túninu heima
29.6.2013 | 23:09
Klukkan er ellefu að kveldi og sólin skín loks hér í Kópavogi. Það lofar góðu. Ég er ekki enn búin að upplifa sólbaðsdag í garðinum við nýja húsið mitt og samt flutti ég í Daltúnið í desember! Sólardagarnir hérna um síðustu helgi fóru fram hjá mér af því að þá var ég í Hólminum.
Við ákváðum að fresta aðeins för í Hólminn eftir að við komum heim frá Tyrklandi, aðallega vegna þess að Kiddý litla Lúlludóttir varð stúdent 17. júní og ætlaði í bæinn 18. júní. Þá gafst móðurfjölskyldu hennar gott tækifæri til þess að halda stúdentsveislu númer tvö (það er svooo langt til Akureyrar, sérstaklega fyrir Tyrkjalúna). Það urðu fagnaðarfundir og hér er hluti af familíunni fallegu að borða eftirréttinn ógurlega:
Núbb...svo var brunað í Hólminn - fyrsta ferðin á árinu! Veðrið var yndislegt allan tímann og fríið hélt því bara áfram að vera ljúft og gott. Stelpurnar fóru í sund einn daginn og urðu brúnni eftir þá sundferð en þær höfðu verið eftir heilar þrjár vikur í Tyrklandi, enda var ég svo sem ekki að maka neitt á þær sólarvörn í íslensku sólinni. Við náðum að kíkja til Maj'ömmu og Dísu (og í 3 mínútur til Grétu frænku) og svo vorum við bara að "chilla" heima í heita pottinum. Algjör afslöppun. Auðvitað kíktum við á mínar æskuslóðir niðri við Maðkavík og fleyttum nokkrum skeljum:
Ekki taka mark á kappklæddri Sigrúnu. Hún er eiginlega alltaf í flíspeysu, úlpu, með sólgleraugu og glimmerhúfuna sína, nánast hvernig sem viðrar.
Við komum svo heim síðasta sunnudagskvöld og höfum alveg verið upptekin við vinnu og eilitla skemmtun. Sigrún fór á körfuboltanámskeið með Aðalsteini fyrir hádegi alla vikuna (mjög skrítið námskeið og ég held að þau hafi nánast ekkert spilað körfubolta, en það er önnur saga) og Kristrún mætti í leikskólann, galvösk. Ásta sá um að halda mig við efnið og bæði á mánudegi og miðvikudegi vaknaði ég klukkan hálf sex til þess að mæta í tíma í World Class í stöðvaþjálfun og spinning á eftir. Það voru svo mikil hlaup í tímanum að sprettæfingar hjá Laugaskokki (a long time ago) rifjuðust upp. Hlaupavöðvarnir urðu hissa en glaðir en því miður þoldu iljarnar ekki þessa vitleysu þannig að ég er komin í pásu fram yfir helgi. Björg og vinkona hennar komu með okkur í annan tímann og tóku vel á því, svo vel að þær áttu í stökustu vandræðum með að beygja sig eftir arfa í unglingavinnunni í nokkra daga á eftir. Anyways, mér gafst smá tóm á morgnana til þess að vinna að endurskrifum á kennslubókunum okkar, en reyndi svo að sinna börnum og tiltekt eftir hádegi. Veðrið hefur ekki verið mjög spennandi til útivistar, en einn daginn rofaði ágætlega til og þá skunduðum við í Húsdýragarðinn. Hér eru Aðalsteinn, Sigrún og Kristrún í lestinni, ægilega glöð:
Ég reyndi að festa Ástu og Ríkharð á filmu í bátunum, en þar sem sá síðarnefndi var við stýrið hjá Ástu og Kristrún stjórnaði mínu fleyi, var ekki séns að ná góðri mynd af bátsverjum. Hér sést þó framan í Ástu, rétt áður en hún sentist áfram í næsta hring:
Helga Rún er komin í þægilega innivinnu og grætur sólarleysið ekkert of mikið. Hún vinnur í afgreiðslunni í stóra turninum á Smáratorgi og ferst það vel úr hendi. Ég rétti henni þessa kók í vinnunni af því að hún er svo Tyrklandstönuð:
Alveg Kolbrún!
Nú líður að því að við förum aftur í Hólminn og svo í Flatey þannig að nýliðna viku varð að nýta vel. Ofurhjónin Sólveig og Þorri verða bæði fertug um þessar mundir þannig að okkur þótti við hæfi að bjóða þeim út að borða. Allir voru til í sushi (jibbý!) þannig að við bókuðum borð á Sushi samba og sáum ekki eftir því:
Ég smakkaði svokallaðan "smjörfisk" í fyrsta sinn. Ég gúgglaði kvikindið í símanum mínum og kom þá fyrst upp mynd af sprettfiski, líkum þeim sem við veiðum í Flatey með því að velta við steinum. Langir fiskar og hálir sem álar, hvaðan nafnið "butterfish" er líklega komið. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að fara grilla svona gómsætan fisk í Flatey, en Hjörtur sagði að stærð og áferð flakanna passaði engan veginn við sprettfisk, þannig að ég fann annan líklegri sem er kallaður "Japanese butterfish." Nafnið er pottþétt dregið af því hvað hann er mjúkur og bragðast nánast eins og smjör. Mæli með'onum. Þó ekki úldnu sardínunum sem okkur var boðið upp á líka. En sumir hafa eflaust smekk fyrir slíku, rétt eins og við étum kæstan hákarl.
Nú er komin helgi og Hjörtur farinn aftur á stjá, ójá. Hann fór með vinum sínum í svokallaða "hrútaferð" einhvers staðar rétt hjá Hólmavík og unir hag sínum vel. Ég var eitthvað að vesenast með í morgun hvað ég ætti að gera með ungviðinu í rigningunni. Svo stytti upp þannig að IKEA ferðin var slegin af og strætóferð niður í miðbæ tekin upp í staðinn. Stelpurnar voru mjög ánægðar með það. Hér bíða þær spenntar í strætóskýli, sem er mjög sjaldgæf reynsla fyrir þær tvær yngstu:
Við gengum frá Hlemmi niður á Lækjartorg og alls staðar virtist vera nokkuð róleg stemmning. Björg fjárfesti í nokkrum grammófónplötum (80s auðvitað) á slikk og svo tókum við nokkra diska á Sushi Train (stelpurnar eeeeelska sushi á færibandi). Ég stefni svo á hjólaferð með grísina á morgun, svona eftir að búið er að horfa á barnaefnið og ég búin að skila af mér smá vinnu.
Hólmurinn og Flatey einhvern tímann í næstu viku og ég bið bara um þokkalegt veður. Annars get ég sko ekki kvartað, búin að fá þessa fínu sól í 3 vikur í Tyrklandi. Pabbi er úti á Spáni núna með Bjössa bró og family og finnst það sko ekki leiðinlegt. Svona á að lifa lífinu þegar maður er hættur að vinna. Ég er strax farin að hlakka til þess að flakka á milli dætra minna fimm og fá að liggja með tærnar upp í loft með þeim á öllum ferðalögum og blogga um allsnægtirnar .
Ætla samt að muna að njóta líðandi stundar og bið ykkur vel að lifa. Eimen.
Sóla sólþyrsta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.