Búið afmæli og beðið eftir barni

It has been a while, en ekkert væl, ég blogga um hæl. Að vísu ætla ég lítið að tjá mig um hælinn og bakið og magasárið og andlegu hliðina og...enda er ég glöð og góð í dag og það skiptir mestu máli.

Mig langar til þess að eiga minningar um afmælisdaginn minn, rétt eins og í fyrra sem lesa má um hér. Þá snjóaði á afmælisdaginn minn og líka í ár. Þann 3. október kemur fyrsti snjórinn - það er bara staðreynd.

Ég svaf frekar illa aðfaranótt afmælisdags - vaknaði sem sagt um miðja nótt með ónot í maga sem minntu á magasárið í ágústlok. Ástæðan var nú bara rauðvínsdreitillinn sem ég saup á í matarboði kvöldið áður og því verður svoleiðis vökvi að vera á bannlistanum áfram. En svo sofnaði ég aftur og vaknaði hress við brölt í eiginmanninum sem var að fara að græja morgunmat handa gömlu og grísunum. Tveir fínir pakkar biðu mín við morgunverðarborðið. Annar frá Lúllu sys (leðurhanskar og varalitur) og hinn frá fjölskyldunni, fagurlega myndskreyttur af Diddú og Kiddú:

IMG_3653_zpscgxjhoep

Í honum var svokallaður "duffelbag" sem er skyldueign þeirra sem ætla að reyna að klífa Kilimanjaro. Í hann setur maður notalegan svefnpoka og hlýjustu útivistarföt sem finnast á jörðu hér. Svo ber einhver innfæddur pokann á höfði sér á meðan ég reyni að skríða upp á 20% súrefni.

Ástu brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn. Þegar ég leit út um eldhúsgluggann um hádegisbil blasti við mér fögur trampolínskreyting:

IMG_3654_zpsd4tqpupc

Þarna voru komnir pakkar og blöðrur (sem höfðu reyndar fokið út um allan garð) frá Ástu og enskudeildinni. Þar var meðal annars að finna forláta Sólupeysu og dásemdar ullarföt til þess að nota innst klæða á þetta fjárans fjall. Svo bakaði Aðalsteinn Ástuson ljúffenga köku fyrir tengdamóður sína.

Þegar konur eiga afmæli mega þær ráða degi sínum sjálfar. Í stað þess að sitja heima og taka á móti gestum allan daginn fannst mér mun meira spennandi að fara í göngutúr með fjölskyldunni og anda að mér köldu haustloftinu. Já, ég er miðaldra. Við hjónin fórum með litlu lufsurnar upp að Rauðavatni og týndum þar ber (misfrosin). Kristrún var við það að andast á leiðinni upp hæðina (svooo illt í maganum og fótunum) en var léttfætt á leiðinni til baka. Hér eru stelpurnar glaðar með aldraðri móður sinni:

IMG_3655_zpsumhxgiba

En auðvitað verður að halda smá partý, þannig að ég bauð bara þeim allra nánustu í mat eins og vanalega. Það var líka mikið fyrir þessu haft. Hjörtur þurfti að panta sushi og sækja það alla leið upp á Nýbýlaveg. Hér er liðið að smjatta á sushi og drekka sódavatn:

IMG_3662_zpsdzgx2fnh

Kiddú alltaf eilítið glettin og grettin.

Afmælisbarnið henti svo í afskaplega vandaða ístertu með helstu aðalleikurunum í Kilimanjarobloggi framtíðarinnar:

cake_zpsf3t2oywl

Kiddi, Gudda, Jóla, Vallý og Lillý, ásamt höfuðskepnum Tanzaníu. Dýrin og tréin bjó ég til úr sykurmassa. Not.

Tengdó mættu með yndislega ilmandi blómvönd frá Dalsskarði eða Dalsgarði (ilmandi rósir eru sjaldséðar nú til dags). Pabbi mætti líka með blóm (ég afþakkaði kransa) og nafnabók og KSÍ treyju sem ég klæddist það sem eftir lifði kvölds. Auðvitað verður maður að eiga slíkan búning þegar Ísland er komið á EM! Halldór Ásgeir færði með fallegan blómvönd og Bjössi bró og hans fjölskylda færðu mér...tja...allan heiminn, svei mér þá. Gjafastíll bróður mins minnir mig óneitanlega á móður mína sálugu, sem lagði hjarta sitt og lifur í að finna jólagjafir allt árið svo að maður væri örugglega hálftíma að vinna úr því sem upp úr pökkunum kom! Ég fékk einhverja bluetooth tónlistargræju, Dömusiði Tobbu Marinós (ekki veitir af!), vasahníf með alls konar fítusum (fyrir fjallið auðvitað) og...og...alls konar stöff! Já...bíómiða, inniskó (einnota af einhverju hóteli sem hann dvaldi á í Ítalíu hér um árið) og svakalega skemmtilega bíómynd frá Flateyjardvöl fjölskyldunnar í sumar. Drengurinn var búinn að leggja marga tíma í að klippa þetta til og var þetta hið besta (og jafnframt eina) skemmtiatriði á afmælinu mínu. Kvöldið endaði svo á því að opna kampavín frá föður mínum og skála fyrir afmælisbarninu. Hér erum við feðgin, búin að skála mismikið og ferðbúin á fjallið:

IMG_3689_zpsbmg6vndq

Takið eftir KSÍ peysunni á mér og bláu húfunni á pabba, sem var afmælisgjöf frá GG vinkonu!

Þegar gestirnir voru farnir (á afar kristilegum tíma) settist ég við tölvuna og lækaði afmæliskveðjur á facebook í gríð og erg, á milli þess sem ég reyndi að toga upp úr Helgu einhverjar upplýsingar um nafn á ófæddu stúlkubarni. Án árangurs.

Já, ég á von á barnabarni á allra næstu dögum. Ég er reyndar búin að vera í startholunum síðan í lok september af því að settur dagur var 26. september. Litla stelpan virðist ekkert vera á leiðinni út í þennan fagra heim þannig að nú er bara beðið eftir upplýsingum um gangsetningu í vikunni. Helga ætlar að eiga uppi á Akranesi og mér hlotnast sá mikli heiður að fá að vera viðstödd fæðinguna. Ég var auðvitað á staðnum þegar mínar dætur fæddust (really?) en mér finnst eins og ég sé að fara að kanna ókunnar slóðir núna. Ég var búin að segja að barnið myndi fæðast 7. október en kannski kemur hún oktunda áttaber? Skiptir ekki máli, ég á tvær mjög góðar vinkonur sem eru fæddar á þessum dögum. 

Það eru alla vega mjög spennandi tímar framundan og næsta blogg verður tileinkað nýborinni móður og yndisfögru meybarni hennar og okkar allra.

Svo mun ég að sjálfsögðu segja fréttir af Björgu minni í Costa Rica. Ég lofa að blogga fyrir jól!

Sól'amma kveður að sinni...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær lesning eins og alltaf kæra sys! Vonandi kemur barnabarnið ekki seinna en strax!

Jóna Lovisa Jonsdottir (IP-tala skráð) 6.10.2015 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband