Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Sumarbyrjun sæt og ljúf....

Ég get ekki sagt annað en að sumarið hafi byrjað vel. Kaldur en bjartur maímánuður, allir við hestaheilsu og ég legg fyrir prófin í stað þess að taka þau. Veðrið í dag og næstu daga er kannski ekkert til þess að hrópa húrra fyrir, en ég hangi þá bara inni með sól í sinni.

Sumardagurinn fyrsti var með þeim betri. Stelpurnar fengu einhverjar fatalufsur og sólgleraugu í sumargjöf, ásamt smá nammi til þess að vega upp á móti vonbrigðunum. Múha! 

IMG_2448_zpssylgaygy

 

Frumburðurinn festist ekki á filmu svona snemma morguns. Hún var samt orðin ótrúlega klár í slaginn um hádegisbil og spilaði skothelda marsa (í maí?) í sumardagsgöngu Kópavogs eins og löng hefð er fyrir. Það er ekki laust við að litlu systur hennar hafi fundið til stolts og aðdáunar þegar þær sáu einkennisklædda systur sína munda stóra hljóðfærið sitt. Sigrún miðjubarn hafði töluverðar áhyggjur af því hvort hún ætti, þegar fram líða stundir, að marsera með skátunum eða lúðrasveitinni. Því var fljótsvarað af hálfu móðurinnar: Það geta flestir gengið í takt, en færri spilað á básúnu í leiðinni. Hún verður ómissandi hlekkur í hljóðafærakeðju SK.

11059539_10153441863670579_5384291397794512038_n_zpsdz46b3fg

Grísirnir þrír í aldursröð á fyrsta degi sumars.

Maímánuður er alltaf góður, sama hvernig veðrið er. Það er þvílíkur munur að þurfa ekki að vera að undirbúa kennslu og fara yfir verkefni öll kvöld. Hún Sigrún mín sykurpúði (9 ára) er búin að spyrja mig í ófá skiptin í vetur af hverju ég vilji endilega vera kennari og vinna svona mikið á kvöldin. Krakkagreyjunum mínum er hent inn í rúm upp úr átta svo að ég fái frið og ró á heimilinu til þess að vinna á kvöldin, en ólíkt systur sinni litlu á hún erfitt með að sofna svona snemma og er aðeins á rjátli til klukkan rúmlega 10 stundum, eftir að vera búin að lesa eða föndra inni í herbergi. Unglingurinn kemur ekki út úr sínu herbergi nema til þess að róta í nammiskápnum eða ísskápnum, eins og vera ber. Hún hefur sinn síma, sinn lærdóm og les líka alveg slatta af bókmenntum sem mamma hennir mælir með. Miðjubarnið er þó mesti lestrarhesturinn um þessar mundir og er að verða búin með síðustu (sjöundu) bókina um Harry Potter. Þessar bækur eru sko ekkert léttmeti og sú lengsta er 747 blaðsíður! 5 ára krílið er ekki komin alveg eins langt, eins og sést á þessum samanburði:

11182110_10153441863655579_2396164249485687992_n_zpsnwafiulq

En hún er þokkalega læs stelpan og klár í slaginn í haust þegar hún mætir í fyrsta bekk Snælandsskóla. Sem sagt, það sem af er maímánuði hef ég getað sest upp í rúm með bók á hverju kvöldi, án samviskubits, horft á fréttir af og til og jafnvel einstaka kvikmynd með ástkærum eiginmanni. Ég sé þó fram á yfirvinnu í kvöld þar sem ég á von á 50 nemendum í próf eftir hádegi. En mér hefur alltaf þótt ótrúlega gaman að fara yfir próf. Það er svo spennandi að sjá hver lokaútkoman verður. Að sjálfsögðu erum við nokkrar í deildinni líka að vinna í að uppfæra námsbækurnar okkar og ég stefni á að vera búin með minn hluta fyrir Skandinavíureisuna 19. júní n.k. Meira um það síðar.

Hvað hefur annað á daga Daltúna drifið? Mér er ofarlega í huga lyktin og út(úr)gangurinn þegar ég kom niður í eldhús síðasta miðvikudag. Þá var Gunni Bowie búinn að kúka og gubba út um allt hús. Hann var þó svo tillitssamur að gera þetta allt saman á gólfið þannig að ég var ekki lengi að redda málum. Aumingja karlinn hafði verið svæfður daginn áður til þess að hægt væri að raka á honum feldinn. Hann var kominn með klassíska köggla, alveg eins og síðasta vor. Hann hefur greinilega ekki þolað svæfinguna mjög vel og var heilan sólarhring að jafna sig á ósköpunum. Góðu fréttirnar eru þær að feldurinn á Kisa Jackson var fullkominn og hann þurfti bara hefðbundna bólusetningu. En það er déskoti dýrt að fara með þá til dýralæknis!

Svo er vert að minnast á góða gesti sem gist hafa í túninu heima. Fyrst ber að nefna Bjössabörn, sem áttu hér góða nótt á meðan ég, Bjössi bró, Erna hró, Inga yo og Láki ló fórum á Vestfirðingaball. Það var nú aðallega gert til þess að hitta á Sigga Björns, móðurbróður okkar, sem stóð að mestu leyti fyrir herlegheitunum. Áhugaverð samkoma og aldrei kyndir maður of sjaldan undir Westfjarðagenunum glæsilegu. Anyways, hér eru nokkur Westfirzk kríli:

IMG_2441_zps2yieiaxd

Óli, Erna, Diddú og Kiddú. Sú síðastnefnda er á ákveðnu skeiði þar sem ALLAR myndir eru grettumyndir. Vona að þetta verði hætt fyrir fermingarmyndatökurnar. Eða ekki. Gæti orðið skemmtilega öðruvísi. Nýja testamentið og gretta. Hugsanlega mjög viðeigandi ef við hugsum um þá staðreynd að enn er prestum í íslensku þjóðkirkjunni frjálst að hafa fordóma gagnvart samkynhneigðum og neita að gefa þá saman í heilagt hjónaband. Það er spurning um að segja sig úr kirkjunni en halda áfram að trúa á algóðan guð? Það má alveg.

En ég var að tala um næturgesti. Í vikunni gistu hjá okkur Norðlendingarnir Siddi rakari og Irma bakari. Sú síðarnefnda er systurdóttir mín. Þau eru núna á Evrópumeistaramótinu í fitness og Siddi gerði sér lítið fyrir og hreppti annað sætið í gær! Irma á að keppa á laugardaginn og það verður spennandi að sjá hvort að hún eigi einhvern séns í sterkustu konur Evrópu, 18 ára krakkinn. Þar reynir svo sannarlega á Westfirzku genin. Ekki má gleyma Hjartarlegg, sem á líka ættir að rekja til Westfjarða. Það eru börn mágkonu minnar, hress og kát, sem gistu hjá okkur um síðustu helgi:

IMG_2606_zpslyquwmnf

Þarna eru Bríet, Emma, Ásgeir, Sigrún og Grepputrýnið að skoða gamlar myndir í tölvunni hans Hjössa feita. Af myndunum að dæma er Kristrún ófeiminn óþekktarangi en það er nú öðru nær. Hún er ennþá frekar feimin og hefur verið mjög róleg og meðfærileg frá fæðingu. Draumabarn aldraðar ungamóður. Við fórum í síðasta foreldraviðtalið í leikskólanum á dögunum og þar kom fram að hún væri afskaplega ljúf í skapi og þægileg, væri að eflast, en samt mjög viðkvæm. Það síðasta hlýtur hún að hafa frá föður sínum, bréfberanum. Hann hringdi alltaf tvisvar.

Sigrún er búin að vera í 8 tómstundum í vetur og telur sig jafnvel hafa tíma til þess að bæta einhverju við, svona meðfram bóklestri á kvöldin. Gítarinn, textíllinn, dansinn, Leynileikhúsið og blakið eru tómstundir sem staðsettar eru í eða við Snælandsskóla og svo skemmtilega vill til að Snælandsskóli er rétt hjá heimili okkar. Annars myndi dæmið ekki ganga upp, því að hverjum finnst gaman að skutla (öðrum en Ástu)? Ég er reyndar með þétt net foreldra á bak við mig sem skiptir á milli sín skutli í skátana, skólahljómsveitina og básúnutímana. Það er alveg ljóst að ég mun ekki flytja úr þessu hverfi á meðan ég er með börn í grunnskóla. Nema að Ásta flytji, sem hún gerir auðvitað ekki. Sigrún var einmitt að keppa í blaki um síðustu helgi með HK og það gekk bara ágætlega. Hér er fín mynd af liðinu:

IMG_2587_zpstjv1ndhi

 

Ég ætla svo að hvetja Kristrúnu til þess að feta sömu slóðir, þ.e. velja sér tómstundir í næsta nágrenni til þess að lágmarka skutlið. Þær eru mjög líkar, systurnar. Forðast háværa boltaleiki og of mikið "action" og eru að því leyti gjörólíkar móður sinni sem elskaði fótbolta út af lífinu var alltaf að slást við "hina" strákana. Ég var samt stillt og góð, nema í fáeinum undantekningartilfellum. Pabbi þeirra er svokallaður "antisportisti" en það er samt svo mikið rangnefni því að hann er mjög öflugur í öllu adrenalínsporti, s.s. mótorkrossi, á skíðum og auðvitað í "kitesurfing" eða mardrekaflugi. Og bréfburði auðvitað.

Fyrst ég er að tala um stelpur þá finnst mér auðvitað tilvalið að nefna það að hún Helga Rún okkar Hjartardóttir, elsta stelpan í hópnum, á von á STELPU! Ég varð ekkert lítið glöð þegar niðurstaðan lá ljós fyrir síðasta miðvikudag (eftir að ég var búin að þrífa upp Gunnakúk). Við eigum hann Jakob okkar sem er æðislegur og núna fáum við eina litla Helgu Rún. Stelpurnar mínar yngstu þykja nefnilega minna svolítið á Helgu (enda er Helga eins og snýtt út úr nösunum á föður sínum) þannig að á pervertískan hátt er ég að vonast til þess að stelpan hennar Helgu líkist stelpunum mínum. Ég er hætt barneignum en vilja ekki allar ömmur sjá eitthvað úr sínum börnum í barnabörnunum? Nú? Ekki? Jæja, þá er ég bara ein um það. Mér finnst til dæmis mjög skemmtilegt hvað Jakob er fallega líkur móður sinni en ég lofa að verða ekki fyrir vonbrigðum ef að ófædda krílulínan líkist föður sínum alfarið. Ef hún fær rólegt geðslag móður sinnar er ég sátt. Ef hún fær ekki rólegt geðslag móður sinnar lofa ég samt að vera sátt. Úff, þetta fer að verða flókið þannig að það er betra að hætta þessu bulli.

Jæja, nú verð ég að fara að enda þetta og kíkja fljótlega á nemendur mína sem ættu núna að vera nýbúnir að opna 303 prófið frá mér. Veturinn er búinn að vera góður og ég er nokkuð sátt við mitt framlag. Um næstu helgi útskrifast einstakur hópur nemenda sem hafa allt sem að kennari getur látið sig dreyma um: Gáfur, metnað, áhuga, samskiptagreind, kímnigáfu, sköpunargáfu, nánd, umhyggju... Því miður get ég ekki verið viðstödd útskriftina þeirra af því að hún ber upp á um Hvítasunnuna og þá ætlar fjölskyldan að njóta lífsins í Hólminum. Já, ég gleymdi að tala um Hólminn. Yyyyyyyyndislegt að koma þangað aftur! En nú þarf ég að hætta og sinna nemendum mínum í prófinu.

Au revoir

Miss Olafsdottir


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband