Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Söknuður, kvíði, streita og bjór

Ég hafði verið að hugsa um að nota titilinn "Nokkrir góðir dagar án Bjargar" en þá hefði fólk kannski farið að átta sig á nánum tengslum mínum við Flokkinn og Foringjann. Við skulum orða þetta þannig að það er aldeilis vont að vera Bjargarlaus, en dagarnir eftir að hún fór voru mun skárri en þeir sem á undan gengu.

Það sem var erfiðast við þetta allt saman var að kveðjustundin var svo löng. Eiginlega er hún búin að taka rúmlega ár, allt frá því að ákvörðun var tekin um að leyfa Björgu að fara sem skiptinemi (það var hræðilega erfitt) og allar hugsanirnar fram og til baka sem fylgdu í kjölfarið. Óðum steðjar að sá dagur, afmælið þitt kemur senn...segir í laginu. Björg verður 17 ára 27. ágúst þannig að hún sameinaði kveðjupartý og afmælisveislu. Fyrst kvöddu Bjössi bró og Erna fló hana í Flatey, með uppáhalds Flateyjareftirréttinum: Royal búðingi. Ég kveikti á 17 kertum sem bráðnuðu ofan í búðinginn við litlar vinsældir krakkanna. Svo var kaffiboð niðri á Vík fyrir nánustu aðstandendur, Ásta bauð í afmælis- og kveðjukaffi og bestu vinir Bjargar komu og kvöddu hana sérstaklega vel í góðum bröns sem Björg hélt fyrir þá stuttu fyrir brottför. Ég náttúrulega táraðist yfir hverju einasta korti og gjöf sem þessir yndislegu vinir gáfu henni og Björg sjálf varð orðlaus yfir ástinni, samstöðunni og væntumþykjunni frá jafnöldrum sínum. Svo var kveðjumáltíð hérna heima, rétt áður en barninu var skutlað á völlinn. Allan þennan dag var ég gjörsamlega í rusli. Það er svo skrýtið að geta ekki haft hemil á tilfinningum sínum eftir rúmlega fjörutíu ára þjálfun. Nokkrar nætur í röð, þegar ég var við það að festa svefn, upplifði ég einhvers konar taugasjokk sem kom yfir allan líkamann eins og höggbylgja. Taugatsunami - er það til? Ég glaðvaknaði, heyrði dúndrandi hjartsláttinn og náði ekki að festa svefn fyrr en rétt undir morgun. Svona gekk þetta dagana á undan, alveg þangað til ég heyrði af Björgu í öruggri höfn í Costa Rica eftir sólarhringslangt ferðalag. 

Það var samt alveg gaman hjá okkur foreldrunum og Björgu þegar við fórum saman upp á flugvöll. Ég var nýbúin að segja Gunna að ég myndi sakna bergmálsins þegar Björg færi. Hann hváði auðvitað og þá útskýrði ég fyrir honum að Björg hefði þann leiða vana að herma eftir flestu sem ég segði og ranghvolfa augunum jafnvel. Allir vita að mömmur unglinga eru mjög asnalegar og allt sem þær segja er fáránlegt. Hann sprakk úr hlátri í hvert sinn sem hún fór að herma eftir mér (og honum...við lifum á tímum jafnréttis) þannig að það var mikið hlegið uppi á velli, svona með taugaveiklunar- og móðursýkisívafi. Björg komst einmitt að þeirri niðurstöðu sem barn að foreldrar hennar hefðu skilið skiptum af því að faðir hennar hló of mikið. Þetta er víst algeng skilnaðarorsök.

bloggagust153_zpsf02eejyo

Hérna er maðurinn sem hló of mikið, ásamt Björgu hermikráku. Við vorum svo heppin að "check-in" tók 5 mínútur þannig að við gátum skellt í okkur Joe and the Juice, hlegið aðeins meira og reynt að glápa ekki á Noomi Rapace á næsta borði. The rest is history. Ég hef ekki enn talað við Björgu en hef séð myndir, fengið smá spjall á facebook og náð nokkrum heillegum brotum. Hún er í smá hljómsveit í skólanum þar sem hún æfir einungis Costa Rica lög á básúnuna sína. Hljómsveitin á að spila á einhverri hátíð í lok mánaðarins. Ég sá mynd af henni í skólabúning og fannst nú ekki mikill MH stíll yfir honum, en þetta er nú allt saman partur af prógramminu. Ég sef betur og það er nú aldeilis góðs viti (og minni sviti).

Þá er ég búin með söknuðinn og eftir standa kvíði, streita og bjór. Tja...kvíðinn og streitan voru svo sem alveg inni í saknaðarpakkanum. Ónæmiskerfið hrundi tímabundið með eymsli í magaopi, eyrnabólgu og alls konar. Ég hafði auðvitað líka áhyggjur af skólabyrjun og þessum 120 nemendum sem ég átti eftir að kynnast. Nú eru tveir kennsludagar liðnir og ég er með um það bil 50 nöfn á hreinu.Nokkuð sátt við það, en betur má ef duga skal. Það er alltaf erfitt að byrja nýja önn, sérstaklega þegar 95% nemenda eru glænýjir og 28-30 manns í hverjum einasta hópi. Sumt virðist aldrei breytast, því miður. En mér líst ágætlega á nemendur, enda var aðsóknin mjög góð í skólann, þökk sé Ástu ofur og hennar slekti sem tóku kynningarmálin í sínar hendur. Þvílíkur Grafarvogsgullmoli sem þessi skóli minn er.

Við fórum vitaskuld á Danska daga í Stykkishólmi þó að þeir séu óþægilega seint á ferðinni alltaf, svona rétt fyrir kennslu. Eitthvað fer minna fyrir skreytingum í bænum en áður, en sumir standa sig alltaf vel. Við kíktum í smá afmælisheimsókn til Gissurar og Röggu og þau tóku þetta auðvitað með trompi. Hér eru stelpurnar með einum röd og hvid dansker:

bloggagust152_zpshgtydo3l

Danskir flugu hratt hjá og ég varð svo sem ekkert afskaplega vör við dagskrána, sem var samt eflaust góð fyrir Hólmara og brottflutta. Við ætluðum út að borða á nýjum veitingastað sem heitir Skúrinn á föstudagskvöldinu, en þar sátu nokkrir dreift með bjór í kollu að horfa á enska boltann og ekki var hægt að rýma fyrir matargestum. Við urðum sem sagt frá að hverfa og fórum bara á Plássið í staðinn og þar var sko stemmning í lagi og þvílíkt vel tekið á móti okkur. Á laugardaginn gerði loksins logn og við gátum sjósett fleytuna Sólu í fyrsta sinn í sumar! Þvílík gleði og ánægja að fá að renna fyrir fisk og spjalla við fýlana. Mastercard er fyrir allt annað. Svo var kíkt á Bjössa í Baileys (hefð) og svo tölti ég í gegnum mígandi rigninguna með Sigrúnu, Kristrúnu og Ernu Rós að kíkja á eitt tívolítæki niðri í bæ. Það var eiginlega lokað vegna veðurs og fámennis (vegna veðurs) en ég lét opna það fyrir stelpurnar og skellti mér með. Því næst kíktum við í langa heimsókn til Kristbjargar vinkonu sem tók vel á móti stelpunum að vanda og Baddi gaf gömlu einn kaldan. Þegar ég fór frá henni passaði það einmitt að Hjörtur var búinn að grilla dýrindis lamb ofan í stelpurnar sínar. Gæti þetta verið betra? Seint og um síðir fórum við niður í bæ og hlustuðum á brekkusönginn. Ekki vantaði hæfileikana þar á bæ, en hjartað hefði mátt vera með í för. Páll Óskar kom að vanda og tryllti lýðinn hálftíma fyrir flugaeldasýninguna. Venju samkvæmt fór ég með bróður mínum og mágkonu á reitinn þar sem Hjaltalínshúsið stóð, hitti auðvitað Bræðraminnisfrændfólk og bara allt eins og það á að vera.

bloggagust157_zpsuj9wcc3c

Hér eru yndislega mágkonan mín og uppáhaldsbróðirinn minn í öllum heiminum að horfa á flugeldana. Góður endir á rólegum og ljúfum Dönskum. Ekkert djamm, bara heim að sofa.

Vinnuvikan, sem er senn að renna sitt skeið á enda, er búin að vera full af streitu og gleði. Það er gott að hitta samstarfsfólkið aftur en heilinn er frekar grillaður út af nýjum áskorunum. Stundataflan var ekkert spes, en alltaf aðlagast maður og vonast eftir betri töflu á næstu önn.

Svo er auðvitað uppskerutíminn og við stelpurnar höfum verið duglegar við að ná í góðgæti í skólagarðana. Hér er Sigrún með hollt bland í poka: 

bloggagust15_zpsbsacgjij

Kristrún er svo sjúk í grænkálið að hún klárar það alltaf á svipstundu, litla grænmetisætan hennar mömmu sinnar. Stelpurnar voru á blaknámskeiði í síðustu viku og Sigrún er búin að vera á útilífsnámskeiði skáta þessa vikuna. Kristrún fór hins vegar í Dægradvölina í skólanum og bíður mátulega spennt eftir því að skólinn byrji. Hún á það til að kvíða nýjum og óþekktum hlutum og ég skil bara ekkert hvaðan hún hefur það. Kannski frá póstmanninum. Nú, eða mér. En ég held að hún muni bara pluma sig vel, þetta rólegheitakríli. Auðvitað leyfi ég mér samt að kvíða fyrir því að henni líki alls ekki skólinn og líf hennar verði ónýtt frá fyrstu skólasetningu. 

Be fearless! Þetta sagði hún Kathrine Switzer við okkur í dag á hádegisfundi í Hörpunni. Ég man að ég las sögu hennar í Runner's World fyrir fjöldamörgum árum og við notuðum hana strax sem fast kennsluefni í ensku í Borgó. Svo pantaði ég bókina hennar á Amazon og las með áfergju, enda var konan mikill brautryðjandi í íþróttaheiminum. Núna, mörgum árum seinna, fæ ég loks tækifæri til þess að sjá hana og heyra í eigin persónu og það var einfaldlega mögnuð upplifun. Eftir fyrirlesturinn fékk ég hana til þess að árita bókina og hún var mjög "impressed" þegar hún sá að ég var með orginal útgáfu af bókinni. Ég fæ örugglega íslensku aðdáendaverðlaunin út á það. Svo létum við auðvitað smella mynd af okkur með hetjunni. Switzer er lengst til hægri:

bloggagust156_zpsftava26j

Bara geðveikt og nú þarf ég að temja mér að vera óttalaus! Er það ekki gott mottó fyrir alla?

Eflaust get ég haft æðruleysisbænina á kantinum, pizzu í annarri og bjór í hinni, a la Johny National. Gott að enda með þessari sérstöku mynd af hvítvínsglasi á Dönskum og útsaumaðri æðruleysisbæn eftir hana móður mína sálugu. Hún er eflaust ekki sátt við þessar tvær andstæður hlið við hlið. Og þó, hún hafði nú alveg húmor fyrir svona löguðu þó að hún væri ein öflugasta AA manneskja sem til var á landinu. Hún stofnaði AA deild á Flateyri þar sem að í mesta lagi þrír funduðu og ég trúi ekki öðru en að hún hafi veitt handritshöfundum kvikmyndarinnar "París norðursins" smá innblástur. Já...jú...hér er myndin:

bloggagust155_zpsxtrlcveq

Pura vida!

Sóla æðrulausa :)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband