Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Afmæli hjá litlustu, kennslulok og Orlando baby yeah!

Ég veit að ég blogga allt of ört en ég hef bara svo mikinn tíma aflögu að ég veit ekkert hvað ég á að gera af mér annað en að sitja við tölvuna og skrifa. Ókey...ég átti afmæli 3. október sl. og hef ekkert skrifað hér síðan, enda rosa busy og bla bla. Síðasti kennsludagur var í dag, ljúfur og þægilegur og allir mættu í rauðu, nema þeir sem mættu í svörtu því að þeir voru bláklæddir. Önnin er búin að vera annasöm eins og alltaf en samt í góðu jafnvægi; álagi ágætlega dreyft, þökk sé góðu skipulagi og skorti á frestunaráráttu hjá undirritaðri. Hér kem ég strax auga á mótsögn í frásögn, agnarögn. Ég fresta endalaust að blogga en þykist svo aldrei fresta neinu. Raupið rekið ofan í kok.

Þetta verður snögga bloggið, uppkastið. Heppin er ég að hafa sloppið við gubbupestina sem er að ganga allt í kringum mig. Minn stærsti ótti er þó að fá upp og niður pest í átta tíma flugi til Florida á morgun. Betra að hafa með sér föt til skiptanna, just in case (suitcase). Pampers jafnvel.

Anyhow, hér hafa verið afmælisveislur daginn út og daginn inn. Diddú aka Sigrún varð 9 ára þann 17. október sl. og bauð í öfugt partý. Allir voru hýrir á brá, enda var talað afturábak, gestir mættu í úthverfum fötum, kakan var borin fram á undan aðalréttinum, borðað var undir borðum og ég veit ekki hvað. Ég var jafnvel að hugsa um að hafa kökuna á hvolfi, en þá hefði myndin ekki notið sín:

DSC_0005_zpsb965df39

Bekkjarmynd af 4.RG. Hausarnir sem svífa fyrir ofan hópinn eru af 3 stelpum sem bættust við bekkinn eftir að myndin var tekin. Ég held að stelpurnar séu 16 og strákanir 7. Þetta var því stórt partý þó að stelpunum væri bara boðið.

Í byrjun nóvember gisti hér líka hún séra systir mín, sem skrapp frá Noregi til Íslands til þess að aðstoða dóttur sína á Norðurlandamótinu í fitness. 2 vikum seinna kepptu báðar dætur hennar á Íslandsmeistaramótinu og komu, sáu og sigruðu næstum því. Irma lenti í 2. sæti á eftir Evrópumeistaranum sjálfum og Kiddý lenti í 6. sæti af 18 keppendum á sínu fyrsta móti. Geri aðrir betur! Þær voru duglegar að gúffa í sig góðgæti daginn eftir keppnina í afmælisboði Kristrúnar og Sigrúnar. Hér eru þær, flottu frænkurnar mínar, Kiddý og Irma:

blogg2_zps0fd6f843

Þær eru báðar mjög líkar systur minni í útliti. Kiddý er líkari Lúllu eins og hún er núna, en Irma er líkari henni eins og hún var á táningsaldri.

Í afmælisveisluna kom líka góður gestur sem aldrei hefur stigið fæti inn um dyr Daltúnsins fyrr: Sjálfur Björgvin bróðir! Hann er reyndar ekki bróðir minn (Bjössi á Bensó er bróðir minn), heldur bróðir hans pabba. Hann er 78 ára og hálfum metra hærri en pabbi, eins og margt föðurfólk mitt. Báðir eru þeir bræður miklir völundarsmiðir, Björgvin í viðnum og pabbi í málminum. Björgvin er að smíða æðislega flott jólatré og auðvitað keypti ég eitt slíkt af honum. Konan hans, Sigrún Lár, heklar skrautið við og ég verð að segja að tréið er hið mesta stofustáss og verður það eflaust um ókomna tíð. Hér er Björgvin að setja saman tréið fyrir mig og pabbi fylgist áhugasamur með stóra bróður:

blogg4_zps704717c5

Kristrún mín litla varð 5 ára 28. nóvember eftir afskaplega langa bið. Ég hef aldrei upplifað aðra eins niðurtalningu og var orðin þvílíkt spennt fyrir hennar hönd. Hún varð alls ekki fyrir vonbrigðum með daginn, enda lítillát og ljúf. Hún fékk meðal annars þennan fína Frozen kjól og fléttu við og leiddist ekki að vera Elsa í einn dag.

blogg5_zpse832e045

Elsa litla pantaði spaghetti með kjötbollum í afmælismatinn sem varð að svo mikilli gourmet máltíð í höndum pabba hennar að ég er að hugsa um að hafa þennan rétt á áramótunum. Hver er ekki kominn með leið á fois gras og hreindýrapaté hvort sem er?

Nú er fókusinn kominn á jólin. Ég er reyndar ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf, aldrei þessu vant. Það kemur nú líklegast til af því að við hjónin erum að fara í langa helgarferð til Florida (Orlando og Petersburg nánar tiltekið) og ég var að vonast til þess að redda einhverjum gjöfum þar og græja svo restina í bókabúðum hérlendis. Ég er vel undirbúin fyrir fríið, búin að semja prófin, ljósrita, lesa inn og skipta á prófayfirsetum við aðra kennara. Mér skilst að veðrið verði með besta móti, sólríkt og 20-25 gráður. Enda þetta blogg með orðum Lay Low: Please don't hate me.

Sóla sucker :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband