Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Febrúarfréttir

Í tilefni konudagsins er mér ljúft og skylt að rita hér nokkur orð um það sem á daga Daltúnanna hefur drifið að undanförnu. Ég var að óska Sigrúnu og Kristrúnu til hamingju með daginn áðan og í kjölfarið fórum við að tala um hvað það væri sniðugt ef að pabbi þeirra myndi einu sinni á ári (sem sagt á konudaginn) gera eitthvað öðruvísi, t.d. að knúsa okkur ekki, búa ekki til latté fyrir mömmu, elda ekki matinn, o.s.frv... Þessi maður er náttúrulega svo fullkominn að við óskum einungis eftir einum ófullkomnum degi. Fullkomni maðurinn er einmitt sofandi núna og klukkan orðin rúmlega ellefu. Hann þarf sinn svefn svo að hann geti haldið sér fullkomnum allan daginn. Múhahahaha Tounge.

Við vöknuðum reyndar öll klukkan 8:40 í morgun. Ég þarf alltaf að stilla klukkuna á sunnudagsmorgnum svo að við sofum ekki yfir okkur í fimleikana hjá Kristrúnu sem byrja kl. 10. Nú brá svo við að Kristrún var svo slöpp að hún gat ekki stigið í fæturna, var illt í maganum og sagðist þurfa að gubba. Þetta síðastnefnda er reyndar ekki óalgengt (búlimískt barn). Hún virtist ekkert hressast eftir einn banana og vatnssopa þannig að við þurftum því miður að hætta við fimleikana. Nú virðist samt vera að færast meira fjör í litlu kellu. Ætli hún sé ekki bara eins og Brökin var einu sinni. Ef hún borðaði lítið kvöldið áður gat hún varla staðið upp úr rúminu daginn eftir út af orkuleysi.  Kristrún hafði einmitt mjög litla lyst á kvöldmatnum í gær, enda bara lambahryggur með öllu (nema remúlaði) á boðstólum.

En hvað er annars að frétta? Öskudagurinn var með skemmtilegra móti. Núna er búið að taka upp nýjan sið, sem minnir um margt á hrekkjavöku í hinni stóru Ameríku. Börnin ganga í hús og sníkja nammi milli 17 og 19. Fyrsta hálftímann bönkuðum við upp á í nokkrum húsum og Kiddú og Diddú fengu nammi í staðinn fyrir nokkrar fagrar vögguvísur. Síðan fórum við heim og tókum á móti fjölda syngjandi krakka. Það var eiginlega miklu skemmtilegra. Hér eru litlurnar nýkomnar heim með nammi í poka: 

IMG_2523_zpsb9269d60

Það sést ekki mjög greinilega hér, en þær voru norn og prinsessa.

Síðasta föstudag fórum  við Sigrún, ásamt Ástu og 2 sonum, í Sjónvarpshúsið að fylgjast með Borgó keppa í Gettu betur í beinni.  Því miður töpuðu okkar menn mjög naumlega gegn MH (helv...lambada!). Hér er hluti af stuðningsliði Borgó:

IMG_2527_zps039fde26

 Sæta fólkið!

Síðasta laugardag fór Kristrún í fyrsta sinn á skíði í Bláfjöllum. Hún hafði reyndar ágæta reynslu af  því að fara upp og niður töfrateppið í Hlíðarfjalli á skíðunum mínum (með mér), en hafði ekki staðið sjálf á sínum skíðum. Fyrsta skíðaferðin gekk vægast sagt eins og í sögu, sem kom mér dálítið á óvart því að Kristrún er hrædd við ýmislegt, t.d. nánast allt sem gert er í sundkennslunni. Henni hefur farið mjög aftur í sundi eftir að hún byrjaði í sundkennslu, líklega af því að hún var neydd í kaf og gleymir því seint. En hún var bara í essinu sínu á skíðunum og næst förum við örugglega með hana í toglyftuna. 

Síðasta sunnudag byrjaði ég að slappast mikið og leið eins og það væri þungt ský yfir höfðinu. Svoleiðis var ég alla vikuna og fór ekki að hressast fyrr en síðasta föstudag. Mikið er maður þakklátur fyrir góða heilsu þegar hún kemur aftur! En ég lét það ekki aftra mér frá því að hitta Doktor Ingibjörgu í hádegismat á Rub 23 síðasta þriðjudag. Frábær matur og æðislegur félagsskapur!

IMG_2531_zps48052145

 Skál fyrir doktornum!

Þemadagar Borgó, eða svokallaðir Skóhlífadagar, byrjuðu á miðvikudaginn. Ég og Ásta síams vorum með matreiðslunámskeið. Ehemm...Ásta var eiginlega með námskeiðið, enda uppskriftirnar allar hennar. Ég bara dinglaðist með, fór í sendiferðir, hrósaði nemendum og var sæt. Það gekk ágætlega. Hér eru ítölsku kræsingarnar sem duglegu nemendurnir göldruðu fram á nó tæm:

IMG_2583_zpse449bccc

 Tíramísu fremst í flokki!

Nú, sama dag komu nýjar gardínur í hús. Það var mikið gott og mikið gaman að losna við rykug rimlagluggatjöldin. Það birti yfir öllu, nema svefnbergjunum auðvitað,  því  að þar komu góðar myrkvunargardínur. Hér eru tvær glaðar gardínukonur:

IMG_2538_zps33db9b61

 Brökin (aka MJ) og Jólrún.

Það er náttúrulega út í hött að anti-húsmóðirin-ég sé að gleðjast yfir nýjum gardínum. Ég veit ekki hvað er að koma yfir mig, svei mér þá. Ég hafði meira að segja smá skoðun á því hvernig ég vildi hafa skipulagið á baðherberginu sem nú er verið að taka í gegn. Það var reyndar ekki fyrr en eftir að hafa tekið rúnt um Bauhaus og fleiri búðir. Ég hef svo hræðilega lítið vit á þessu að það hálfa væri nóg. Ég treysti lettneska vinnumanninum og íslenska eiginmanninum til þess að gera þetta smekklega. Rykið og hávaðinn undanfarnar vikur hafa ekki rakað inn gleðistigum hjá undirritaðri, en mér skilst að óþægindin gleymist fljótt þegar allt er tilbúið, svona eins og þegar fæðingin er afstaðin og barnið komið í fangið. Ég gleymdi að taka mynd af baðherberginu þegar það leit sem verst út, en hér er mynd af því í millibilsástandi:

IMG_2591_zpsb362de3e

 Það þurfti að breyta öllum lögnum, endurnýja klæðningu og bla bla bla. Ég hafði ekki hugmynd um að svona hlutir gætu tekið svona langan tíma. Núna er hvorki sturta né bað í húsinu, en við höfum þó alltaf klósettið niðri til þess að gera grunnþarfir okkar. Ætli Daltúnarnir verði ekki bara að skreppa í sund í dag til þess að ná af sér mestu ólyktinni?

Veðrið í febrúar er búið að vera fáránlega gott. Tja...það er alla vega mjög hlýtt miðað við árstíma. Kannski ekki spennandi veður til þess að fara að leika sér úti í (núna er grenjandi rigning) en það er alltaf notalegt að hafa frostlausa daga. Ég hef þó áhyggjur af Daltúnstrjánum sem halda að maímánuður sé genginn í garð:

IMG_2586_zps1d2470f6

Mér skilst að það sé kuldatíð framundan en við vonum að tréin bjargi sér.

Glæsiball nemenda var haldið síðasta fimmtudagskvöld og tókst ótrúlega vel. Þrýstingur hafði verið á enskudeildina að koma með atriði, en einhver deyfð var yfir mannskapnum (og vídeóklipparinn slappur eins og áður hefur komið fram). Kvöldið áður fékk ég allt í einu þá hugmynd að gera Harlem shake vídeó með kennurum Borgó. Ég mætti með vídeóvélina á kennarafund morguninn eftir og með góðri leikstjórn Ástu síams kláruðum við að leggja inn hugmyndina og taka upp vídeóið á innan við 5 mínútum. Æðislegt fólk sem við vinnum með! Því miður lak uppkastið að vídeóinu á netið og ég var því tilneydd til þess að pósta því líka, þ.e. lokaútgáfunni...á facebook. En ég virðist ekki geta sett það hér af einhverjum ástæðum. Moggapoggablogg GetLost. Anyways, vídeóið sló í gegn hjá nemendum. Hver vill ekki sjá kennarann sinn vera hipp og kúl í 30 sekúndur?

Nýjustu fréttir herma að það sé komin sól úti! Sigrún er á leiðinni í sund með vinkonu sinni, Kristrún sýndi sterk sorgarviðbrögð þegar hún áttaði sig á því að hún færi ekki í fimleika í dag (þetta ofurrólega barn öskraði af sorg!) og Hjörturinn sjálfur er vaknaður! Stefnan er sett á IKEA. Nú skal finna einhverja huggulega skápa til þess að setja í nýja baðherbergið. Svo er afmælisdinner hjá pabba í kvöld. Ég held að hann verði 69 ára á morgun, ótrúlegt en satt. Svo unglegur, svo myndarlegur, svo skemmtilegur, hæfileikaríkur og klár. Svona var mamma líka þannig að það er ekki furða að ég hafi erft eitthvað af þessu. Múahahaha (aftur).

Jæja já. Skjáumst!

Sóla sykursnúður Grin 

 


Handahófskenndur þvættingur - annar hluti

Fyrst að nemendur mínir í 3 hópum voru að fara að skrifa rökfærsluritgerð í tíma hjá mér á morgun sá ég fram á að ég yrði að eiga mér smá líf í kvöld. Næstu kvöld fara nefnilega í yfirferð. Ég ákvað að horfa á vinsæla mynd heima með honum Hirti mínum, en byrjaði fljótt að geispa þegar ég sá kalla með kúrekahatta plaffa niður mann og annan. Fór að fikta eitthvað við facebook á símanum sem leiddi mig svo út í það að fara yfir nokkrar stuttar nemendadagbækur á netinu. Að endingu ákvað ég að henda inn random rugli. Nota kvöldið vel!

Helst í fréttum er að Jakob Ari og mammans flugu til Stokkhólms í morgun eftir eins og hálfs mánaðar ánægjulega dvöl hér á landi. Sigrún fagnaði því mjög að fá að sofna ein í kvöld, enda langþreytt á mun hressari yngri systur sem er alltaf til í að spjalla örlítið fyrir svefninn. Kristrún fær nefnilega að blunda í hádeginu á meðan Sigrún þarf að þreyja Þorrann allan daginn, langt fram í Góu jafnvel. "Góa nótt" virkar ekki alltaf á Kristrúnu klukkan korter í átta pí-emm. Kristrún var líka mjög ánægð að endurheimta herbergið sitt bleika, en var örlítið efins um það að hún gæti sofið ein í herbergi. Bangsímon og félagar réðu ráðum sínum og ákváðu að veita henni ást og umhyggju. Ekki heyrðist frá henni múkk eftir að mamma hafði lesið fyrir hana sögu, beðið bænirnar og sungið "Leiddu mína litlu..." Gekk eins og í sögu.

Sprengidagur í dag, bolludagur í gær og öskudagur á morgun. Þetta eru aldeilis nýjar fréttir. Við vorum með smá bollukaffi á sunnudaginn sem tókst ljómandi vel. Ég lofa ekki að þetta sé komið til þess að vera, sem þýðir að ég er alveg til í að mæta í bollukaffi eitthvert annað næsta ár. Betra að vera ekki að skapa of margar hefðir sem binda fólk á klafa. Rjómabolluklafa. Múahahha. Annars reyndi ég að sannfæra Hjört um að hann þyrfti ekki að elda saltkjöt og baunir af því að allir snæddu þetta í skólunum sínum í hádeginu nema hann - af því að hann er ekki í skóla. Hann lét ekki sannfærast og töfraði fram túkallsmáltíð á nótæm. Pabbi arkaði yfir Fossvogsdalinn á tíu mínútum sléttum og úðaði í sig salpétri og meðððí. Það var óvenju fátt í kotinu þetta kvöld: Bara ég, Hjörtur, papa, Sigrún og Kristrún. Helga og Jón Grétar í mat í Sunny Kef, Harpa með Djeikob í snowy Stock og Björgin ráðagóða í skólabúðum á Laugum í Sælingsdal. Kisi stóð hljóðlátur við borðsendann og mændi á okkur borða með borða í hárinu. Ég friðaði hann með því að henda í hann restinni af fiskibollunum frá kvöldinu áður. A lá Hjörtur, bien sur. Á morgun ætlar stelpurnar að vera prinsessa og norn, sem þýðir að sú eldri er loksins vaxin upp úr prinsessublætinu. Jæja, og þó. Kannski orðin meðvituð um að það þykir ekki svalt að vera prinsessa á almannafæri þegar maður er sjö ára.

Heyrðu...já...pabbi fór að tala um einhvern snjóskúlptúr í Laugardalnum. Þá áttaði ég mig á því að skemmtilegi skaflinn sem stelpurnar og Halldór Ásgeir fundu eftir að okkur var hent út úr Húsdýragarðinum um síðustu helgi (ekki fyrir slæma hegðun...klukkan var bara orðin fimm) var líklega fyrrverandi listaverk. Mér finnst þessi skúlptúr reyndar mjög flottur líka:

IMG_2511_zpsf93f6ae3

 

Snillingarnir og frændsystkinin Halldór Ásgeir og Sigrún Björk elskuðu þennan óvænta skafl! Kristrún Eir er á bak við skaflinn að reyna að moka sig í gegn. Ótrúlegt hvað það er hægt að dunda sér lengi úti við þegar allir eru vel klæddir. Yfirleitt er það mamman sem gefst upp fyrst.

Nú er ég einmitt að gefast upp, orðin alveg kasúldin og grútsyfjuð (ég vann greinilega mikið í fiski í gamla daga). Ég gæti spjallað og fjallað um svo margt annað hérna, sem segir mér bara að ég þurfi að detta inn mun oftar. Styttra og oftar í einu. Lofa engu, að vísu.

Takk fyrir að lesa!

Sólrún Django LoL


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband