Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Lognið á undan storminum!

Segi nú bara svona. Ekkert rosalegt að fara að gerast, nema það að 93 formlegar rökfærsluritgerðir koma inn á mitt borð á miðvikudaginn. Ef ég ætla að segja eitthvað á þessum vettvangi verður það að gerast núna, eða eftir viku þegar ég kemst út úr vinnutörninni og verð viðtalshæf á ný.

Ég var á þönum í síðustu viku við að minnka draslið í geymslunni svo að draslið í íbúðinni gæti farið þangað niður. Við þurfum nefnilega að selja íbúðina okkar fínu til þess að geta staðið við stóru skuldbindingarnar í Daltúninu. Vonandi gengur það ferli allt saman fljótt og vel, þó að markaðurinn sé frekar erfiður um þessar mundir. Hver vill ekki hafa besta útsýni í heiminum út um eldhúsgluggann? Mikið á ég eftir að sakna þess! En maður fær eflaust eitthvað annað gott í staðinn með flutningunum. Núna verður til dæmis meira pláss til þess að taka á móti barnabarninu þegar það kemur í heimsókn frá Stokkhólmi. Vííí!

Ég var líka önnum kafin við að fara yfir verkefni í síðustu viku þar sem enginn var tíminn um helgina. Ég fór nefnilega með Ástu og Björgu í æfingabúðir Skólahljómsveitar Kópavogs á Laugaland í Holtum. Þar stússuðumst við alla helgina ásamt tveimur öðrum foreldrum (og 11 mánaða Ríkharði) við að elda ofan í og hafa umsjón með yfir 60 hljóðfærasnillingum. Þetta gekk allt ljómandi vel fyrir sig þó að ég hafi verið orðin frekar fótafúin í lokin (löppin enn að stríða mér, buhuuu). 

24. september er merkisdagur fyrir margra hluta sakir. Margir lífs og liðnir sem fæddust þennan dag og nú er líka áratugur síðan mamma dó. Engin ástæða til annars en að vera glöð í dag sem aðra daga, vera þakklát fyrir það liðna og allt sem framundan er. Að ég tali nú ekki um núið.

Gangið á Guðs vegum...þó þeir séu órannsakanlegir.

YOLO :)


Flutningar framundan!

Skjótt skipast veður í lofti! Í gærmorgun tróð elskulegur eiginmaður minn kauptilboði upp í andlitið á mér og sagði að ég fengi ekkert latté nema að ég skrifaði undir. Kona þarf sinn tvöfalda espresso í freyðandi gémjólk til þess að geta hjólað upp í skóla (svona er að vera dóttir hans Óla og hafa alltaf nærst á njóla) þannig að ég krassaði kennitölu og krotaði nafn mitt á viðeigandi staði. Hjörtur stakk í framhaldinu af austur á Djúpavog í hreindýraveiði og hringdi seint um kvöld til þess að óska mér til hamingju með að tilboðið hefði verið samþykkt! Ég veit sumsé að ég dansa ekki í Álfatúninu um næstu jól, nema auðvitað að eitthvað klikki (sem er ekkert víst að gerist). Hjörtur þykist eiga fyrir þessum tæplega 300 fermetrum og 3 hæðum af timbri og steypu, svo fremi að íbúðin okkar seljist einhvern tímann á næstunni. Höfuðverkurinn verður sem sagt ekki bara að flytja, heldur líka að hreinsa til í okkar íbúð og gera hana girnilega fyrir næsta kaupanda. Úffpúff...engin miskunn!

Svo skemmtilega vill til að þegar við Hjörtur ákváðum að flytja saman í Álfatún eitt þurfti ég að selja íbúðina mína í Seljalandi eitt. Núna erum við að festa kaup á Daltúni eitt...sem kostar eiginlega ekki neitt.  Tja...þetta síðasta er reyndar lygi. Áhættufælna vogin með rísandi sporðdreka og krabba í þriðja tungli væri alveg til í að hafa sitt sparifé inni á banka áfram, en svo er manni reyndar sagt að fasteignaviðskipti á þessum síðustu og verstu séu ekki endilega það heimskulegasta sem hægt er að gera. Fyrst og fremst er þó farið út í þessa vitleysu svo að vel fari um alla fjölskylduna. Sigrún þráir heitt að fá sitt eigið herbergi og hlusta á tónlist, lesa bækur og vera með vini inni að leika í friði fyrir litla dýrinu. Að vísu finnst Kristrúnu ekkert mikilvægara en það að sofna með Sigrúnu fyrir ofan sig í efri kojunni. En það eldist nú líklega af henni. Þær hafa haft gott af því að deila herberginu, en núna er kominn tími til þess að bjóða Sigrúnu upp á herbergi með skrifborði þar sem hægt er að læra í friði og spekt. Einn af helstu kostum þessa húss er svo sá að neðsta hæðin er aukaíbúð í útleigu sem er ein aðalforsenda þess að við höfum efni á að fara út í þessi stórkaup. Svo má nefna aðra kosti eins og þá að örstutt er í skólann, ekkert gras eða blómavesen á lóðinni, herbergi barnanna eru á efri hæðinni þannig að dótið verður (vonandi) ekki úti um alla stofu, o.s.frv... Það er líklega of seint að velta sér meira upp úr göllunum þannig að þeir verða ekki tíundaðir frekar hér. Það er ljóst að það þarf að taka eldhúsið alveg í nefið svo að það henti okkar ört stækkandi fjölskyldu (nei, ég er ekki ólétt...ég er bara að vísa í ömmubarnið mitt yndislega og alla framtíðartengdasynina og framtíðarbarnabörnin) en það fær kannski að bíða þangað til að Hjörtur hefur selt eilítið meiri fisk til úgglanda. Anyways, hérna er slotið:

 e585655_1A

Að sofa undir súð hefur alltaf verið minn draumur og nú ætlar hann loksins að rætast. Svo er bara að vona að Kisi Jackson verði ekki of ruglaður á þessum flutningum og haldi áfram að hoppa inn um stofugluggann á Álfatúni eitt og heimta rækjur og rjóma.

Þannig var nú það. Mig svíður í magann þegar ég hugsa um allt það sem framundan er. Kannski er það bara kallað verkkvíði.

Svo er nú það.

Sóla Dalton :)

PS Húsið var byggt af Hólmara. Það hlýtur að vera gæðastimpill!


Brúðkaup Tinnu og Marius

Öfföff...hvað maður er þreyttur eftir þessa brúðkaupshelgi! Samt var ég farin að sofa fyrir klukkan eitt báðar nætur, en svo þarf reyndar að taka inn í myndina að það var vaknað snemma báða morgna. Það er skemmst frá því að segja að allt gekk þetta ljómandi vel og Tinna og Marius eru núna gengin í heilagt hjónaband.

Samhristingurinn á Sjávarpakkhúsinu var fjörugur á föstudaginn. Siggi Björns trúbador (bróðir mömmu) og Bjössi bró tóku meðal annars lagið og gerðu það vel að vanda. 

Athöfnin í Stykkishólmskirkju var falleg og blátt áfram. Pabbi leiddi fallegu brúðina inn kirkjugólfið og Marius tók svo við henni við altarið. Þar beið hún stóra systir mín og snakkaði á norsku nánast allan tímann. Geri aðrir betur! Hér sést ættarsvipurinn greinilega, sposkur prestur og enn sposkari (norskari) brúður:

IMG_7116Sætar eru þær, systur mínar!

Eftir athöfnina voru brúðhjónin hreinlega grýtt með hrísgrjónum:

IMG_7132

Haglél?

 

Í lobbýinu var boðið upp á brennivín og hákarl, ásamt kampavíni og gosi. Kristrún smakkaði gos í fyrsta sinn (það má ekki líta af barninu í eina sekúndu!) og verður líklega goshólisti fyrir lífstíð. Maj'amma var bara í sprætinu enda þarf hún ekkert sterkara til þess að vera hressasta konan á staðnum. Hér erum við systurnar að knúsa ömmu:

IMG_7156

 Amma sín er best!

Nokkur afkvæmi okkar systranna stóðu sig með prýði í veislunni, alveg hreint til fyrirmyndar: 

IMG_7168

Irma "Massi" Lúlludóttir, Örvar "Bieber" Lúlluson og Björg "Básúna" Sóludóttir.

 

Litlu ungarnir mínir voru líka til fyrirmyndar, bæði í kirkjunni og í veislunni. Kristrún var greinilega mjög hrifin af brúðinni því að hún sagði eftir athöfnina: "Prinsessan talaði ekkert í kirkjunni. Hún sat bara og hlustaði." Hún hafði aldrei séð alvöru prinsessu áður þannig að við leyfðum henni að heilsa upp á hana í veislunni. Kristrún var algjörlega "starstruck" og er búin að tala mikið um þessa upplifun síðan: 

IMG_7179

Stóra prinsessan og litla prinsessan. Kristrún fékk að halda á brúðarvendinum í smástund og þótti það ekki leiðinlegt. Bleikur er sko uppáhaldsliturinn hennar. Tinna prinsessa ákvað að kasta ekki brúðarvendinum til ógiftra kvenna á svæðinu, heldur sendi hún Gumba vin okkar með hann til Flateyrar til þess að leggja á leiði mömmu okkar og Ingu ömmu, sem hvíla hlið við hlið. Alveg yndislegt.

Veislustjórnin gekk ágætlega hjá mér og Bjössa bró þó að við fyndum fyrir því að Norðmenn væru heldur formlegri en við Íslendingar þegar kemur að veislusiðum. Norðmenn halda ræður (helst margar) en Íslendingar fara oftast nær aðra leið ( =láta eins og vitleysingar). Við systkinin sungum frumsaminn texta á google translate norsku við lagið "La det swinge", Bjössi tók lagið með Óla Geir og vídeóið mitt um ævi Tinnu féll í góðan jarðveg. Maturinn var góður, brúðhjónin glöð og falleg og þessir kappar í stuði:

IMG_7189

Óli Geir Bjössason, Siggi Björns mömmubróðir og Magnús litli, sonur Sigga. Þeir feðgarnir eiga heima í Berlín þannig að við sjáum þá ekki mjög oft, ekki frekar en norsku prinsessuna hana Tinnu og hennar fögru familíu.

Frábært og jafnframt mjög dýrmætt að fá að eyða þessari helgi með móðurfjölskyldunni sem býr úti um allar trissur og hittist allt of sjaldan. Ég vil því þakka brúðhjónunum fyrir að fá þá snilldarhugmynd að gifta sig í Stykkishólmi, fegursta bæ Íslands og fæðingarbæ Tinnu (og Sólu...og mömmu).

Takk fyrir okkur, herra Marius og frú Tinna Kúld Husby!

 

Sóla Kúld :) 


Ísland - Noregur

Ansi skemmtilegt að það skuli hittast þannig á að Ísland spili landsleik við Noreg í knattspyrnu annað kvöld. Á sama tíma verður nefnilega hittingur rúmlega hundrað Norsara og nokkurra Íslendinga á Sjávarpakkhúsinu í Stykkishólmi. Tilefnið er að sjálfsögðu samhristingur fyrir brúðkaup Tinnu Kúld (lille söster) og Marius Husby sem verður laugardaginn 8. september 2012 í Stykkishólmskirkju. Undirbúningur er búinn að standa yfir í meira en ár og öllu er til tjaldað. Stórveisla á hótelinu og ball á eftir! Veislustjórar (toastmasters) eru engir aðrir en ofursystkinin Þrasi og Jóla (aka Bjössi og Sóla)! Það verður eitthvað... Presturinn sem gefur þau saman er að sjálfsögðu stjörnuklerkurinn Jóna Lovísa Jónsdóttir. Þetta kalla ég góða nýtingu á systkinum! Nú er bara að vona að allir komist heilir frá þessu öllu saman, svei mér þá. Jú jú...þetta verður í lagi. Brunum westur á morgun með alla fjölskylduna. Áfram Ísland - Heia Norge!

 

Yola :) 


Þegar litli okkar Lindström fæddist...

...í Stokkhólmi, Svíþjóð (af hverju ekki Stykkishólmi, Íslandi?) skein sólin í Kópavogi glatt. Sunnudagur til sælu var einmitt það sem mamma hans, hún Harpa litla, hafði óskað sér. Óskabarnið byrjaði að banka á fylgjuna snemma morguns og fjölskyldan í Álfatúni fylgdist spennt með úr fjarlægð, með hjálp Skype og sms-a. Kornungir foreldrar leiddu tveggja og sex ára stúlkubörn sín um Elliðaárdalinn, fóðruðu kanínur á brauði og veiddu laxa í ánni, nánar tiltekið laxaseyði í háf sem var sleppt stuttu síðar. Yndislegur dagur, 2. september 2012. Klukkan 22:45 að sænskum tíma voru kornungu foreldrarnir orðnir að háöldruðum afa og aðeins yngri ömmu. Fæðingin var alveg í takt við meðgönguna: Gekk eins og í sögu! Tæpar 16 merkur og 53 sentimetrar af fegurð og gáfum:

jakob

Við vorum ekki alveg viss um hverjum hann líktist í fyrstu, en við erum ekki frá því núna að við sjáum svip af móðurinni. Ekki leiðum að líkjast. Allir afarnir og ömmurnar og langafarnir og ömmurnar (það eru þó nokkuð mörg sett í kringum þennan elskaða dreng) eru í skýjunum með þessa yndislegu viðbót.

Til hamingju elsku Harpa og Rasmus. Lífið er svo gott.

 

Sól'amma :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband