Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Túristar í Tyrklandi

Mætt á svæðið eftir langt og strangt ferðalag! Við gistum í Kaupmannahöfn í eina nótt og svo ætluðum við að vera mætt til Tyrklands seinni partinn daginn eftir. Það klikkaði eitthvað því að vélinni til Istanbul seinkaði töluvert og þar af leiðandi misstum við af vélinni til Dalaman. Þolinmóða fjölskyldan þraukaði á flugvellinum í Istanbul í átta tíma og fékk svo vél rétt eftir miðnætti. Á flugvellinum í Dalaman kom í ljós að taskan hans Rasmus hafði orðið eftir í Istanbul, þannig að við töfðumst heilmikið út af því. Við tók svo klukkutíma ferðalag með bíl til Akyaka um miðja nótt og þá fyrst duttu börnin út af (líka Björg Steinunn). Það var mjög fallegt að horfa á landslagið út um bílrúðuna um miðja nótt. Fullur máni og skógi vaxin fjöll. Svo komumst við loksins í hús, örþreytt. Húsið leit miklu betur út en ég þorði að vona, mun rýmra og bara miklu stærra en á myndunum. Hér er það frá einu sjónarhorni:

 DSC_0033_zps93297d8f

Við reyndar rétt náðum að skanna svæðið áður en rafmagnið fór af öllum bænum! Sem betur fer fundum við eitt kerti og gátum þreifað okkur áfram í gegnum húsið. Svo kom rafmagnið á aftur hálftíma seinna og þá gátu allir farið í háttinn. Á þeim tíma var reyndar orðið stutt í sólarupprás og ég var rétt að festa svefn þegar bænakall múslima byrjaði í hátalarakerfinu í bænum. Þar sem ég hef bara heyrt svona gaul sem forleik að ægilegum skothríðum í Hollywood myndum (þar sem aumingja múslimarnir eru alltaf ljóti kallinn...ekki bænakallinn þó), þá rann mér kalt vatn á milli skins og hörunds. Ég glaðvaknaði því og náði ekki að festa svefn fyrr en sólin var farin að skína glatt inn um glataðar gardínurnar. Birta og engar sængur, bara örþunn lök. Smá breyting en þetta reddaðist svo allt næstu nótt og nú er ég orðin alvön því að Allah sé lofaður klukkan fimm á morgnana. Þetta er samt líklega eini gallinn sem ég sé á því að múslimar byggi mosku í Reykjavík, þ.e. hávaðinn á morgnana/nóttunni. Nú er búið að leyfa hænsnahald í Reykjavík, en án hana, einfaldlega vegna þess að ekki má raska svefnfriði borgarbúa. En áfram með ferðasöguna...

Daginn eftir var náttúrulega yndislegt veður og allt leit svo vel út, nema reyndar flugan í stofunni. Hún var á stærð við þumalfingurinn á pabba, en þeir sem hann þekkja vita að hann er æði fingralangur. Hjörtur hetja skellti yfir hana glasi og færði hana út í frelsið. Hér er dúllan:

IMG_8288_zps292f13f5

Þetta er algjörlega sauðmeinlaust kríli, en við köllum þessa flugu alltaf "óperuflugu" núna af því að Harpa syngur heilu aríurnar þegar flugan flýgur yfir sólbaðssvæðið. Dýralífið hér er skemmtilega frábrugðið því sem að við eigum að venjast heima. Oft spyrjum við: "Var þetta fugl eða fluga?" þegar einhver kvikindi fljúga yfir og erum í alvörunni ekki viss. Kristrún litla var búin að rífast mikið yfir því að fiðrildi væru ekki til í alvörunni (ekki frekar en Dóra og Klossi), en var "pleasantly surprised" þegar hún sá þau fyrst í runnunum, gul og rauð og blá. Hún er búin að vera með krúttlega maura sem gæludýr (skírði einn Dúllu og annan Núma) og svo þykir henni mjög vænt um drekaflugurnar sem hafa gert sig heimakomnar. Björg Steinunn fann loksins eðlu og Harpa og co. fundu skjaldböku þegar þau voru að skutla Hirti í mardrekaflugið.

Anyways, fyrsti dagurinn fór í að skanna svæðið aðeins. Við löbbuðum niður að strönd, sem á víst að vera 10 mínútna labb en tekur að minnsta kosti hálftíma þegar sú stuttfætta er með. Sem betur fer er afi "gamli" oft tilbúinn að skella henni á háhest:

DSC_0066_zps99b2bafd

Eins og sést fer faðir minn létt með þetta, enda ofurmassaður og stundar upphífingar að minnsta kosti tuttugu sinnum á dag. Geri aðrir betur.

Við erum búin að fara þrisvar á einkaströndina okkar og stelpurnar hafa haft mjög gaman af. Ég kalla þetta einkaströnd af því að það er aldrei neinn þarna nema við. Við fundum reyndar aðra strönd í dag sem er aðeins túristalegri og ætlum að prófa hana næst. En okkar strönd er fín. Hér eru litlurnar mínar, ægilega ánægðar með ströndina sína:

DSC_0101_zpsa1d175ad

Sigrún er í síðerma bol þarna af því að hún brann smá fyrsta daginn. Þessar stelpur eru bleiknefjar miklir eins og hálf föðurættin og því dugar ekkert minna en sólarvörn með 50 stuðli. Brökin er hins vegar ekki af bleiknefjakyni og þolir því aðeins meiri sól. Hún og við öll erum líka alveg að fíla sundlaugina sem fylgir húsinu: 

 IMG_8336_zps0a53c5d9

Fullkomin slökun hjá unglingnum! Hmmm...á meðan allir vinir hennar eru í vorprófum!

Já, ungir jafnt sem aldnir eru að fíla sig í þessu notalega loftslagi. Frekar heitt en alltaf vindur þannig að öllum líður vel. Hér er hann Jakob okkar að sulla í sundlauginni með mömmu sinni:

IMG_8305_zps2ac91058Svo sæt bæði tvö! 

Þessir fyrstu dagar hafa aðallega farið í að átta sig á umhverfinu. Þetta er sem sagt lítill bær, ekki mikið stærri en Stykkishólmur, en íbúafjöldinn margfaldast á sumrin þegar ferðamennirnir mæta á svæðið. Jú, minnir mjög á Hólminn minn fagra. Ferðamannatímabilið er bara ekki byrjað þannig að hér er frekar rólegt og notalegt. Þessi staður er þekktur fyrir "innlögnina" (svo ég tali nú eins og Flateyringurinn sem ég er), þ.e. vindinn sem kemur hér yfir daginn og blæs "kitesurfing" sjúklingum byr í væng. Þannig að þegar Hjörtur er ekki að vinna í tölvunni svífur hann seglum þöndum eftir volgum sænum, alsæll á svip. Það er ekki að sjá að þessi hrausti og glæsilegi eiginmaður minn sé að verða fimmtugur. En þetta er hans afmælisgjöf: Að láta dreka draga sig um allan sjó í þrjár vikur. Mastercard er fyrir allt annað. Held reyndar að American Express kortið hljóti að vera sjóðheitt núna. Það er ekkert rosalega ódýrt að lifa í útlöndum á meðan krónan er svona heima. En við reynum oftast nær að elda heima.

Well well, það rennur mjög falleg og ísköld á í gegnum þorpið. Hún er full af fiski sem ég má víst ekki veiða, en ég er búin að kaupa veiðigræjur til þess að nota í sjónum næstu daga. Kristrún er alveg sjúk í að veiða alla fiskana sem hún sér í ánni og elda þá heima. Ætli það þurfi ekki að bíða þangað til við förum í Hólminn okkar fagra? En falleg er áin og fuglarnir sem þar synda:

DSC_0128_zpscd78afda

Þessa póstkortamynd tók faðir minn í gær þegar við fórum með stelpurnar að vaða í ánni og búa til litla seglbáta úr pappa og fjöðrum sem við létum sigla niður ána. Hann er flottur myndasmiður og ég verð því að láta fljóta með eina rómantíska mynd af goðsögninni:

IMG_8345_zpsae46c69f

Alveg bjútífúl! En nú heyri ég ekkert nema hrotur í kringum mig því að í Tyrklandi er klukkan að fara að nálgast miðnætti. Vonandi bætast ekki fleiri moskítóbit við í nótt. Ég er reyndar bara komin með þrjú, en sum þeirra eru stór...eins og "fóstur" sagði Harpa. Við bíðum bara eftir því að eitthvað kvikt og komi skríðandi út úr graftarkýlunum á næstunni. Harpa er samt að toppa mig því að hún er komin með heil sex bit á sinn litla kropp! Ég held áfram að smyrja á mig eitrinu ógurlega og fæli þar með frá mér flestar moskítoflugur og eiginmanninn sjálfan. Við fórum út að borða í kvöld alveg við ána og ég er dauðhrædd um að það eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Stay tuned!

Fleiri fréttir og myndir af fjölskyldumeðlimum (já já, það vantar Helgu, Hjört og Rasmus) koma von bráðar.

Venlig hilsen

Sóla kalkúnn (turkey) Grin


Örstutt kveðjublogg!

Ég er ekkert að kveðja þetta bloggvesen fyrir fullt og allt, bara að segja bless við alla sem ég náði ekki að kveðja áður en ég fer til úgglanda.

Stóri dagurinn er loksins að renna upp: Diddú og Kiddú fara í fyrsta sinn í flugvél á morgun! Sigrún hefur að vísu farið nokkuð oft til útlanda, en hún man ekkert eftir því af því að það var FYRIR hrun. Þá fékk maður eitthvað fyrir krónuna í útlöndum og munaði ekkert um að kippa börnunum með. Ég hlakka því mest til fyrir þeirra hönd að fara í flugvél og upplifa heitara loftslag. Ég spái því samt að þær verði orðnar leiðar á flugvélum í lok ferðalags, því að planið hljómar þannig: Kaupmannahöfn - Istanbul - Bodrum...eða var það Marmaris? Svo mini bus til Akyaka. Þið getið gúglað litla sjávarþorpið þar sem við ætlum að dvelja. Það er ekkert voðalega túristalegt og ég spái því að fríið verði "meganæs" eins og Harpa segir svo oft...um mat, reyndar. Það verður gott að hafa alla fjölskylduna sameinaða á ný.

 

Það er spurning um að henda inn smá fréttapistli um það sem á daga okkar hefur drifið undanfarið? Látum okkur nú sjá.... Jú! Lokaslútt enskudeildarinnar fór fram með hefðbundnum hætti: Ofát og orðaleikir! Hér er hluti af deildinni og gómsætu eftirréttirnir:

IMG_3054_zpsbeb8708e

Rissa, Ostí og Lillí - enskukennarar aldarinnar!

Svo ég haldi mig við skólaþemað, þá get ég upplýst að síðasti starfsdagurinn minn í bili var í dag. Við Síams (Ásta Lauf) höfum unnið hörðum höndum að því að uppfæra kennslubækurnar okkar og ætlum að halda áfram með þann pakka fljótlega eftir að við komum frá Tyrklandi. Ég ætla að njóta þess að vinna ekki neitt þessar þrjár vikur sem ég er í burtu - ekki einu sinni fara í gegnum stafla af skáldsögum sem gætu hugsanlega hitt í mark hjá nemendum mínum á næstu önn. Ég pakkaði bókinni Sjálfstætt fólk eftir sjálfan Nóbelshöfundinn ofan í tösku með sólarvörninni. Hún er á "bucket" listanum hjá mér, sko. Planið var líka að klára bókina Illska áður en ég færi af því að hún er svo þung og þykk, en mér sýnist að ég þurfi að taka hana með líka. Ásamt auðvitað einhverjum hlaupabókum. Maður getur enn látið sig dreyma!

Já, ég var að tala um skólann. Útskriftin var síðasta laugardag og ég samgladdist Biljönu Boloban og fleiri frábærum nemendum mínum sem voru að útskrifast. Maður á eftir að sakna þessara krakka, en það er gaman að fylgjast með þeim og sjá þá brillera annars staðar.

Jæja, svo var Eurovision um kvöldið og við höfðum það gott í sófanum, litla fjölskyldan. Ég var að fíla Holland í botn og gladdist yfir því að bróðir minn var óvart með sama smekk. Það var einhver nettur Eurythmics fílingur yfir þessu lagi. Við Bjössi erum svolítið Eydís. Kúld. Djók: Eighties.

Mjá...Kisi Jackson hefur verið óvenju elskulegur undanfarið, enda skynsamur köttur sem veit að ferðatöskur út um allt þýða að við erum að fara eitthvað. Ferðatöskur þýða í rauninni bara eitt: Rækjur frá Gunna! Ég velti því mikið fyrir mér hvað við ættum að gera við Kisa á meðan við værum úti og verið væri að skipta um eldhús og gólfefni með tilheyrandi brambolti. Ég útilokaði kattahótel því að ég held að litli taugaveiklaði útikötturinn minn yrði geðveikur á því að vera læstur inni í búri í nálægð við ókunnuga ketti. Því mun Gunni sjá um höllina á meðan, sem felst aðallega í því að sofa með Kisa uppi í rúminu hennar Bjargar og gefa honum rækjur í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Þá er tryggt að hann fari ekkert á flakk. Það er gott að eiga góða að.

 

"Örstutta" kveðjubloggið er senn á enda. Við verðum eitthvað nettengd í Turkey, a.m.k. Hjörtur því að hann verður einfaldlega á kafi í vinnu. Sem sökkar big tæm, svo ég tali nú eins og unglingarnir. Djók, ÉG tala svona. Maður getur ekki kennt unglingunum um allt. Ég sendi eflaust út fréttir af fiskútflutningi, mardrekaflugi, sólbruna og moskítóbitum. Vonandi ekki því síðastnefnda. Ég þoli illa moskítóbit en við erum búin að fjárfesta í eitri:

IMG_3073_zps464e5074

Ef þetta virkar ekki fer ég heim í fyrra fallinu og borða kisur með Rækja. Eða var það öfugt?

 

Góða ferð VIÐ!

 

Sóla og Daltúnarnir Grin

 


Ó MÆ það er kominn MAÍ!

Næstum miður maí og það er miður. Tíminn líður allt of hratt. En samt ekki. Margt að hlakka til og fátt að kvíða, alla vega í bili. Ég var skráð í aðgerð á il þann 8. maí sl. og hafði sú dagsetning hvílt á mér sem mara. Ég hafði lesið mér meira til um aðgerðina og komist að því að ég væri varla að fara að rölta mikið um eða sulla í söltum sjó fljótlega eftir þessi inngrip. Tyrklandsferðin (aka fimmtugsafmælisfjölskylduföðursferðin) sem við höfðum safnað fyrir í nokkur ár, var orðin að stórri hindrun í stað þess að vera tilhlökkunarefni. Læknirinn hafði ætlað sér að hafa samband við mig fyrir aðgerðina til þess að athuga hvort ég ætlaði ekki örugglega að láta vaða, en þegar ég hafði ekkert heyrt frá honum síðasta mánudag gerði ég boð til hans um að hringja í gömlu og höltu. Þegar kvölda tók hringdi hann loksins (brjálað að gera hjá aumingja kallinum greinilega) og var hann þá alveg á því að ég ætti að fresta aðgerð ef ég ætlaði á annað borð að fara í þessa Tyrklandsferð. Ættmóðirin mikla hefur því ákveðið að vera stórskorin en óskorin um óákveðinn tíma svo hægt sé að skakklappast á eftir 9 mánaða, 3ja ára, 7 ára, 14 ára, 21 árs og 25 ára börnunum um allar tyrkneskar trissur. Það er í rauninni voðalega erfitt að finna tíma til þess að vera óvirk. Á sumrin þarf að sinna litlu börnunum (mínum), á veturna þarf að sinna stóru börnunum (nemendunum). Annars var ég bara að vona að mér batnaði í sólinni og sjónum í Tyrklandi og þyrfti ekki á neinu svona veseni að halda. Kraftaverkin gerast enn!

Talandi um kraftaverk, þá héldum við Hjörtur upp á 9 ára vera-saman-afmæli 30. apríl sl. Woah! Ég held að þetta sé heimsmet. Minn ástkæri bauð mér út að borða á MAR, sem er nýr staður við höfnina. Hinn þokkalegasti matur en eitthvað þarf að slípa þjónustuna til. Hér er eftirrétturinn:

IMG_2949_zps93d1d65f

Gamla settið fer náttúrulega bara einu sinni út að borða saman á ári þannig að það bara verður að blogga um það!

 

Heilmikill tími hefur farið í litla krílið síðasta mánuðinn eða svo. Það kemur reyndar ekki til af góðu. Hún er búin að vera þrisvar sinnum veik í lengri tíma, með stuttu millibili. Sem betur fer gat ég verið mikið með henni núna í maí þegar hún var veik í viku, en þetta varð frekar erfitt á tímabili þegar verið var að pússa og sparsla á aðalhæðinni og meira að segja búið að plasta yfir eldhúsið. Þegar ekki er hægt að drekkja sorgum sínum með mat eru mér allar bjargir bannaðar. Nema Björg, auðvitað. Hana dreg ég bara í bú ef svo ber undir. Það var alveg svona fínt á neðri hæðinni:

IMG_2969_zpsa7a1e404

 

 

Ég húkti því heilmikið á efri hæðinni og reyndi að vinna eitthvað í tölvunni á meðan kjúklingurinn horfði á Dóru landkönnuð. Bananar, hnetur, súkkulaðitré! Þegar krúttlan var orðin næstum því hitalaus (en alls ekki hóstalaus) fékk hún að fara með mömmu í vinnuna og kíkja á fund og smakka á eftirréttum úr mötuneytinu. Það þótti henni gaman!

IMG_2966_zpsf5d1d7f4

DELICIOUS...(eins og Dóra og vinir hefðu orðað það).

En nú eru allir hressir og svei mér þá ef að kvefið er ekki líka að losna úr undirritaðri! Svona gamalt fólk eins og ég er auðvitað löngu hætt að fá hita, en lufsast í gegnum dagana með kvefpest og reynir að halda haus. Stefnan er sett á að hjóla í vinnuna daglega og reyna að mæta í tabata eins oft og líkaminn leyfir. Jú...og láta sig dreyma um að geta hlaupið aftur einn daginn :).

Hvað er annars að frétta af öllum hinum Daltúnunum? Hjörtur er alltaf á kafi í vinnu, en sér fram á rólegri daga í sumar eins og ávallt. Þó ekki eins rólega og hann er vanur. Hann verður að vinna fyrir Tyrklandsferðinni í Tyrklandi. Sá eini sem verður að vinna og samt er ferðin til heiðurs honum. Pínu kaldhæðnislegt. Við gefum honum kannski klukkutíma pásu á afmælisdaginn. Hana getur hann notað til þess að grilla eitthvað gott ofan í mannskapinn (múahahaha). Helga Rún er á fullu í prófum í HR. Stærðfræði og efnafræði. Búin með tvö, two to go. Held að hún sé að rúlla þessu upp, stelpan. Harpa nýtur veðurblíðunnar í Stokkhólmi með Jakob og Rasmus. Það verður lítið sjokk fyrir þau að fara í hlýrra loftslag í Tyrklandi. Mikið sjokk fyrir okkur hin, kannski. Brökin er bara hress, voða ánægð með sína vini og lífið almennt. Hún getur ekki verið með okkur úti allan tímann af því að hún er að fara til Þýzkalands með skólahljómsveitinni. Aumingja stelpan. First world problems...  Diddú er líka ánægð með lífið. Situr löngum stundum og spilar "Ég á líf" og fleiri góða smelli á blokkflautuna (góður undirbúningur fyrir Skólahljómsveit Kópavogs) og fékk svo tvo góða vini í næturheimsókn í fyrrinótt: Stefaníu og Aðalstein. Kiddú fékk líka að vera með í partýinu og njóta þess að vera litla krúttið. Hún er svo heppin með að vinir Sigrúnar eru dæmalaust barngóðir og vilja alltaf vera að knúsa og kjassa litlu systur og leyfa henni að vera með í leikjunum. Þær eru nú líka oft ágætar saman, litlu systurnar:

IMG_2983_zpsbff11086

Þessi mynd var tekin í fimleikatíma hjá Kristrúnu síðasta sunnudag. Sigrún nýtur þess að taka þátt og miðla af sinni reynslu. Svo góðar systur (oftast...).

 

Kristrún er sem sagt alveg búin að ná sér af öllum sínum pestum núna og ég yrði því mjög hissa (og vonsvikin) ef hún fengi eina í viðbót á næstunni. Þetta er komið gott. Þessi mynd var tekin síðasta mánudag, í tilefni þess að hún var að fara í leikskólann í fyrsta sinn í heila viku:

IMG_2994_zpsfae600be

 

Svo sæt og glöð með nýju regnhlífina sína. Ef vel er að gáð speglast gleði móðurinnar í augum barnsins. Gleði yfir því að vera frjáls: Komast út úr húsi í stað þess að þreyja þorrann með veiku barni! Úps...nei ég meina gleði yfir því að barninu skyldi líða vel og geta aftur komist út á meðal fólks. Ég veit ekki af hverju ég varð svona sjálfmiðuð um stund.

Bæ maí...eða djók...blogga pottþétt aftur fljótlega.

 

Sóla sjúklega Halo


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband