Örstutt kveðjublogg!

Ég er ekkert að kveðja þetta bloggvesen fyrir fullt og allt, bara að segja bless við alla sem ég náði ekki að kveðja áður en ég fer til úgglanda.

Stóri dagurinn er loksins að renna upp: Diddú og Kiddú fara í fyrsta sinn í flugvél á morgun! Sigrún hefur að vísu farið nokkuð oft til útlanda, en hún man ekkert eftir því af því að það var FYRIR hrun. Þá fékk maður eitthvað fyrir krónuna í útlöndum og munaði ekkert um að kippa börnunum með. Ég hlakka því mest til fyrir þeirra hönd að fara í flugvél og upplifa heitara loftslag. Ég spái því samt að þær verði orðnar leiðar á flugvélum í lok ferðalags, því að planið hljómar þannig: Kaupmannahöfn - Istanbul - Bodrum...eða var það Marmaris? Svo mini bus til Akyaka. Þið getið gúglað litla sjávarþorpið þar sem við ætlum að dvelja. Það er ekkert voðalega túristalegt og ég spái því að fríið verði "meganæs" eins og Harpa segir svo oft...um mat, reyndar. Það verður gott að hafa alla fjölskylduna sameinaða á ný.

 

Það er spurning um að henda inn smá fréttapistli um það sem á daga okkar hefur drifið undanfarið? Látum okkur nú sjá.... Jú! Lokaslútt enskudeildarinnar fór fram með hefðbundnum hætti: Ofát og orðaleikir! Hér er hluti af deildinni og gómsætu eftirréttirnir:

IMG_3054_zpsbeb8708e

Rissa, Ostí og Lillí - enskukennarar aldarinnar!

Svo ég haldi mig við skólaþemað, þá get ég upplýst að síðasti starfsdagurinn minn í bili var í dag. Við Síams (Ásta Lauf) höfum unnið hörðum höndum að því að uppfæra kennslubækurnar okkar og ætlum að halda áfram með þann pakka fljótlega eftir að við komum frá Tyrklandi. Ég ætla að njóta þess að vinna ekki neitt þessar þrjár vikur sem ég er í burtu - ekki einu sinni fara í gegnum stafla af skáldsögum sem gætu hugsanlega hitt í mark hjá nemendum mínum á næstu önn. Ég pakkaði bókinni Sjálfstætt fólk eftir sjálfan Nóbelshöfundinn ofan í tösku með sólarvörninni. Hún er á "bucket" listanum hjá mér, sko. Planið var líka að klára bókina Illska áður en ég færi af því að hún er svo þung og þykk, en mér sýnist að ég þurfi að taka hana með líka. Ásamt auðvitað einhverjum hlaupabókum. Maður getur enn látið sig dreyma!

Já, ég var að tala um skólann. Útskriftin var síðasta laugardag og ég samgladdist Biljönu Boloban og fleiri frábærum nemendum mínum sem voru að útskrifast. Maður á eftir að sakna þessara krakka, en það er gaman að fylgjast með þeim og sjá þá brillera annars staðar.

Jæja, svo var Eurovision um kvöldið og við höfðum það gott í sófanum, litla fjölskyldan. Ég var að fíla Holland í botn og gladdist yfir því að bróðir minn var óvart með sama smekk. Það var einhver nettur Eurythmics fílingur yfir þessu lagi. Við Bjössi erum svolítið Eydís. Kúld. Djók: Eighties.

Mjá...Kisi Jackson hefur verið óvenju elskulegur undanfarið, enda skynsamur köttur sem veit að ferðatöskur út um allt þýða að við erum að fara eitthvað. Ferðatöskur þýða í rauninni bara eitt: Rækjur frá Gunna! Ég velti því mikið fyrir mér hvað við ættum að gera við Kisa á meðan við værum úti og verið væri að skipta um eldhús og gólfefni með tilheyrandi brambolti. Ég útilokaði kattahótel því að ég held að litli taugaveiklaði útikötturinn minn yrði geðveikur á því að vera læstur inni í búri í nálægð við ókunnuga ketti. Því mun Gunni sjá um höllina á meðan, sem felst aðallega í því að sofa með Kisa uppi í rúminu hennar Bjargar og gefa honum rækjur í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Þá er tryggt að hann fari ekkert á flakk. Það er gott að eiga góða að.

 

"Örstutta" kveðjubloggið er senn á enda. Við verðum eitthvað nettengd í Turkey, a.m.k. Hjörtur því að hann verður einfaldlega á kafi í vinnu. Sem sökkar big tæm, svo ég tali nú eins og unglingarnir. Djók, ÉG tala svona. Maður getur ekki kennt unglingunum um allt. Ég sendi eflaust út fréttir af fiskútflutningi, mardrekaflugi, sólbruna og moskítóbitum. Vonandi ekki því síðastnefnda. Ég þoli illa moskítóbit en við erum búin að fjárfesta í eitri:

IMG_3073_zps464e5074

Ef þetta virkar ekki fer ég heim í fyrra fallinu og borða kisur með Rækja. Eða var það öfugt?

 

Góða ferð VIÐ!

 

Sóla og Daltúnarnir Grin

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góða ferð :). Btw Geir fílaði Holland líka :)

Sissa (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 22:33

2 identicon

Ég kann að meta tónlistarsmekkinn þinn! Það vildi enginn vera sammála mér um að Holland væri með besta lagið!

Fékk smá hroll við að lesa það hversu margar flugvélar þið þurfið að fara í til að komast á leiðarenda!

Góða ferð og góða skemmtun!

Júlíana (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 23:18

3 identicon

Omg ég er svo speehheennt! Mér fannst Ungverjaland og Noregur best i Júró! But who gives a flying.. Við erum að fara að hittast á morgun!! :D

Harpa (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 05:57

4 identicon

Ég er rosalega súr yfir að ég fái ekki að koma með, á þetta ekki að vera fjölskylduferð? Hvað með tengdasyni og tvíbura?  Við munum gráta látlaust fram að heimkomu ykkar.  Góða ferð og hafið það súperdúpergott elsku bestu krútturassarnir mínir. Ég bið fyrir bitlausri ferð hjá ykkur :)

Ásta (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 09:19

5 identicon

Góða ferð, góða ferð, góða ferð....
góða ferð, já það er allt og síðan brooooos

Rissa Rut (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband