Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Fæðist lítill Lindström í dag?

Það er í dag, það er í dag! Samkvæmt sænskum sónarfræðum á lítil meyja að fæðast í dag. Kannski ekki kvenleg meyja, en það er alveg öruggt í hvaða stjörnumerki þetta barn verður. Litla krílið hennar Hörpu kemur kannski ekki í dag en héðan í frá magnast spennan dag frá degi. Ég var búin að giska á 3. september og þætti mjög vænt um að fá að hafa einhvern tímann rétt fyrir mér. Helga stóra systir er komin til litlu systur og ætlar að fá að vera viðstödd fæðingu fyrsta barnabarnsins í báðum fjölskyldum. Þetta barn verður elskað!

Hlakk hlakk...

Sól'amma :) 


Korter í afmæli!

Æ og ó...long tæm agó! Vinnan er greinilega byrjuð með 100 nýjum nöfnum að læra og baráttan við yfirlið í hita og svita í stofunum er helsta áhugamálið. Ég ætlaði sko aldeilis að gera Dönsku dögunum 2012 góð skil, svona fyrir fjölskylduna að grafa upp síðar meir, en verð víst að segja frá þessari helgi í stuttu máli þar sem nóttin er að skella á. Í stuttu máli voru Danzkir sérlega yndislegir í ár. Veðrið spilaði eflaust stóra rullu og líka það að við tókum meiri þátt í kvölddagskránni en oft áður. Undanfarið hef ég bara kíkt aðeins á markaðstjaldið á laugardögum og svo á flugeldasýninguna um kvöldið. Núna vorum við hálfpartinn dregin á Sundebakken á föstudagskvöldið að hlusta á Bjössa bró, Sigga Sigurþórs og fleiri snillinga taka lagið. Sáum sko ekki eftir því. Kvöldið eftir var auðvitað skyldumæting þegar Bjössi og bandið góða héldu uppi stuðinu í þrjá tíma niðri í bæ. Rúsínan í pylsuendanum var svo Páll Óskar sem tryllti lýðinn með frábæru sjóvi þar til flugeldasýningin brast á. Sýningin sú var líka kapituli út af fyrir sig; sú besta til þessa enda var Atlantsolía að stimpla sig inn í bæjarfélagið með því að greiða fyrir flugeldasýninguna. Stelpukrílin skemmtu sér vel og gaman fannst mér að sjá gömlu rólurnar af spítalarólónum í fullri notkun:

IMG_1660

 

Nú...margt annað hefur á dagana drifið síðan síðast þó að maður muni ekki helminginn þegar svona langt líður á milli blogga. Jú...hitti Bjöggó aus dem Österreich sem bauð nokkrum góðum vinkonum á Gló. Helgin er líka búin að vera "busy" með eindæmum. Afmæli hjá Hallgrími Ástusyni á föstudag, matarboð hjá Huldu Karen og Guy í gærkvöld (þau bjóða alltaf upp á grískt lamb, sem er skemmtileg hefð), "brunch" á Hótel Borg í morgun í tilefni 14 ára afmælis frumburðar míns og vinkonuhittingur (með börnum) með Doktor Ingibjörgu og Guðnýju Ástu úr enskudeildinni allan seinni partinn. Partý partý. 

Björg Steinunn verður sem sagt 14 ára á morgun og því fannst pabba hennar tilvalið að bjóða fjölskyldunni sinni á vinnustað sinn á Hótel Borg. Hér er hluti af fallegu föðurfjölskyldunni hennar Bjargar minnar: 

IMG_1732

Hildur, Sara, Rikki, Gunnar (gerpi), Björg Steinunn (rangeygt gerpi), Brynja og Björg Steinunn eldri.

Afmælisgerpið fékk þessa fínu köku sem að pabbi hennar fyrirskipaði alveg sjálfur að skyldi bökuð fyrir dóttur hans: 

IMG_1725

Best að fara snemma að sofa svo að öll fjölskyldan verði spræk í fyrramálið þegar afmælissöngurinn verður kyrjaður!

Björg lengi lifi! Húrra húrra húrra HÚRRA!

 

Sóla afmælisbarnsmóðir :) 


Blaut helgi

Ég er búin að vera að "excelast" í kvöld og eina ráðið til þess að komast út úr þeirri ferköntuðu veröld er að henda sér upp í rúm með skáldsögu í hönd, nú eða henda inn nokkrum orðum hér á bloggið. Eða bara bæði betra?

Hægt og bítandi er ég að meðtaka og jafnframt sætta mig við það að vinnan er að byrja og draumurinn á enda. Þá taka við skólamartraðirnar ógurlegu. Bara djóóók...vinnan er ágæt en sumarið bara svo undurljúft og allt of fljótt að líða. Svolítið spes að fá dumbungsveður í nokkra daga, jafnvel rigningu. Ég er orðin óvön svona veðri hér á Íslandi. Svona er maður fljótur að gleyma. Helgin var sem sagt frekar blaut á meðan Björgin og pabb'ennar spókuðu sig í blíðviðrinu á Dalvík.

Þá gerir maður bara eitthvað óvenjulegt og fer með fjölskyldunni í bíó. Við höfum gert ansi lítið af því síðustu árin og Kristrún var meira að segja að fara í fyrsta sinn í bíó, háöldruð manneskjan (hún verður sko þriggja ára 28. nóvember n.k.). "Brave" varð fyrir valinu, alveg ágætis mynd þó hún sé langt frá því að toppa margt annað sem frá Pixar hefur komið. Ég stalst til þess að taka mynd af litlu snúllu í upphafi ræmunnar:

 IMG_1570

Ægilega spennt fyrir bíóferðinni! Þess má geta að hún harðneitaði að taka niður þrívíddargleraugun eftir bíóferðina og var með þau á nefinu alveg þangað til hún fór í háttinn.

Það var heldur minna um útivist þessa helgina en oft áður. Samt verður að viðra börnin eins og þvottinn af og til þannig að við skruppum út á róló með regnhlífar. Hér eru tvær Mary Poppins:

IMG_1577Þær vita að vísu ekki hver Mary Poppins er en eitt youtube "session" gæti alveg bjargað því.

Sigrún Björk var svo góð að tína fallegan villiblómvönd handa nágrannakonunni sem var að detta í sextugt:

 IMG_1583

Ossafínn blómvöndur!

Það var sérlega gaman að fá Sólveigu vinkonu og nágranna í heimsókn á sunnudagsmorgni. Hún flutti ásamt fjölskyldu sinni til Noregs í fyrra en er nú komin heim aftur, glöð og kát og reynslunni ríkari. Hún borðaði alveg yfir sig af vöfflum, enda hefur hún ekki smakkað slíkt góðgæti í áraraðir!

Við enduðum sunnudaginn blauta á því að mæta óvænt á Saffran á Dalvegi þar sem Helga er að vinna núna. Fjölskyldan fór sem sagt út að borða og líkaði holli og góði maturinn mjög vel. Hér er Kristrún með ýkta myndavélabrosið sitt og Hjörtur, fjarrænn að vanda, að hugsa um næstu flugdrekaferð. Hann telur þetta hafa verið langbesta veðrið í sumar því að loksins gat hann "kite-að" heila fimm daga í röð. Rokið rokkar!

 IMG_1585

Eins og áður sagði var maturinn prýðisgóður og þjónustan svo enn betri. Helga er fyrirtaks þjónn, eins og sést á þessari mynd:

 IMG_1590

Þvílíkt bros, þvílík fagmennska! Við gleymdum reyndar að "tipsa" hana en bjóðum henni í mat annað kvöld í sárabætur.

Næst verða sagðar fréttir frá Stykkishólmi. Spáin er góóóóð og þetta verður eflaust huggulegt og fínt. Hjörtur ætlar að tæma kjallarann og flota gólfið og ég reyni að pússa húsið vel áður en ég skila því af mér til eigandans...ég meina leigjandans. Ég hef víst ekkert að gera í RM þetta árið (frekar en síðustu fjögur árin...buhuuu) því að hællinn er ekki enn orðinn góður. Hann virtist á batavegi en svo kom heldur leiðinlegt bakslag. Ég held því áfram að hjóla og góla enda heiti ég Sóla og er dóttir hans Óla og vinn uppí skóla sem er umvafinn njóla.

Jæja....venlig hilsen!

Súle danske :)


Síðasti dagur í sumarfríi...

...hjá Kristrúnu í dag, ekki mér (hjúkkit). Leikskólinn byrjaði reyndar í dag en ég var ekki alveg að tíma að láta barnið frá mér strax. Það er gaman og gefandi að hanga með grísunum, þó að lítið miði í eigin verkefnum á meðan.  Reyndar kom svona smá móment í dag þegar mig langaði til þess að skila Snuðru aftur í búðina þar sem ég keypti hana. Dagurinn byrjaði vel eins og alltaf og eftir múslí og latté fór ég með þær í "barnageymsluna" (eins og Tuðra kallar alltaf barnagæsluna í Laugum) á meðan kaffið skilaði sér út um svitaholurnar í tabata. Svo var farið beint í sund í yndislegu veðri og við vorum allar svo kátar og glaðar. Mömmunni datt allt í einu í hug að leika "kitluhumar" og með Tuðru á bakinu eltum við Snuðru út um alla laug. Snuðra þolir ekki of mikla spennu og brast í grát áður en kitluhumarinn náði nokkurn tímann svo mikið sem snerta hana. Það var sama hvort að humarinn beitti fagurgala eða hafði í hótunum við barnið, Snuðra gat ekki hætt að gráta. Eins og hin raunverulega móðir (based on a true story) Snuðru og Tuðru upplifði sjálf á stundum var þetta hrín orðið svo vandræðalegt að humarinn og Tuðra urðu að forða sér afsíðis þar sem þær fylgdust með Gólínu úr hæfilegri fjarlægð í heita pottinum. Umhyggjusamir sundlaugargestir reyndu að ná sambandi við barnið sem gelti bara á móti og frussaði á móður sína þegar hún sýndi með vingjarnlegum handahreyfingum að tímabært væri að koma sér upp úr. Þegar Tuðra var að breytast í linsoðinn humarhala klöngruðumst við mæðgur uppúr og Snuðra á eftir. Henni tókst þá loks að hætta að gráta og vildi sem minnst um þetta tala. Svona er þetta víst bara stundum. Once you pop, you can't stop. Þær drukku svo sitt jarðaberjaboost, alveg alsælar, áður en skottast var á bókasafnið og svo út í A4 að kaupa skóladót. Nú er búið að merkja hvern einasta tússlit og allt orðið klappað og klárt fyrir næsta skólavetur.

Verzlunarmannahelgin var bara fín. Björg fór á Laugarvatn með vinkonu sinni en restin af fjölskyldunni dúllaði sér við hitt og þetta. Á laugardaginn áttum við frábæran dag með Dalbúum. Kíktum á markað og hestaþrautir og svo bökuðu Svava og Sigrún Björk eldri vöfflur ofan í mannskapinn. Hér eru glaðir grísir að borða vöfflur og jólaköku: 

IMG_1539

Sigrún, Bríet og Emma (allar Björk), ásamt Kristrúnu ekki Björk.

 

Hjörtur stóð glæsilega vakt í eldhúsinu um helgina, en gaf sér samt tíma til þess að kíkja með okkur í "uppgötvum-nýja-rólóa" ferð á sunnudaginn. Hér er hann að róla með Tuðru sinni: 

IMG_1548

Mánudagurinn var álíka afslappaður. Hjörtur var að gera sér vonir um að það yrði vindur á Gróttu. Þar sem aðalflugdrekavinurinn er orðinn hálfgerður spítalamatur, dró Hjörtur fjölskylduna með sér í áhorfendastúkuna, en svo var auðvitað bara logn og blíða þar eins og annars staðar. Stelpurnar voru duglegar að dunda sér við vitann og á ströndinni.

 IMG_1551

Vitarnir tveir.

Pabbi bauð svo í grill um kvöldið ásamt Bjössa bró og kó, sem var aldeilis ekki leiðinlegur endir á góðri og afslappaðri Verzlunarmannahelgi.

En eins og fyrr segir þá er Kiddú að fara í leikskólann á morgun. Þá vantar reyndar Sigrúnu leikfélaga, en ég hef trú á að Aðalsteinn og fleira skemmtilegt fólk komi sterkt inn í myndina. Svo er hún orðin alveg sjúk í Andrés önd þannig að þegar sólin skín ekki má hún svo sem alveg liggja inni með nefið ofan í Andabæ. Í næstu viku förum við svo síðasta túrinn á Skólastíginn til þess að ganga frá húsinu til útleigu í vetur og auðvitað til þess að sjá flugeldasýninguna á Dönskum dögum og heyra Bjössa bró stjórna brekkusöngnum. Síðasta ferð ársins í Hólminn verður svo farin snemma í september, þegar sjálf Tinna Kúld gengur að eiga sjálfan Marius Husby í Stykkishólmskirkju. Pabbi mun leiða hana inn kirkjugólfið, Lúlla verður presturinn og ég og Bjössi veislustjórar. Búist er við 150 gestum! Við verðum sjálf hálfgerðir túristar og leigjum orlofsíbúð á Laufásvegi. Spennó spennó...

Jæja, verð að setja inn eina mynd af Snuðru og Tuðru í lokin. Hún var tekin í morgun þegar Snuðra var svo góð að greiða lubbann á Tuðru. Ég átti aðra sætari mynd af þeim en þessa, en þessi var bara eitthvað svo Tuðruleg:

IMG_1568

Elsku litlu grallaragrísirnir mínir :)

 

Fleira var það ekki í bili, takk fyrir.

Sóla humar :) 


Stykkiz, Verzló og Kópoz

Núna eru "allir" að fara eitthvað í ferðalag á meðan ég og mín fjölskylda húkum eftir í túninum heima. Að vísu er ég eiginlega alveg dauðfegin og finnst gott að vera líka heima í fríinu og njóta þess sem að höfuðborgin hefur upp á að bjóða í góða veðrinu (og það er nú ekki lítið!). Núna er líka kominn tími til þess að fara að spá í kennsluna á ný og hef ég notað kvöldin til þess að huga að þeim málum. Dagarnir fara auðvitað í að skemmta sér með litlu grísunum. Um miðja næstu viku kíkir Kristrún aftur á leikskólann og þá ætlar Sóla hans Óla að hjóla upp í skóla að funda með samkennurum. Mig dreymdi týpískan "sumarfríið-er-að-verða-búið" draum fyrir skemmstu. Ég var nýbúin að fá stundatöfluna mína og sá, mér til mikillar skelfingar, að ég átti líka að kenna dönsku og EÐLISFRÆÐI. Ég samþykkti dönskuna með semingi en taldi enga von til þess að ég gæti klórað mig fram úr eðlisfræðinni. Ég æddi um skólann að reyna að redda þessu en kom alls staðar að lokuðum dyrum. Þvílíkt stress og kvíði! Eins gott að ég er ekki berdreymin.

Talandi um ber...við fórum æi bláberjamó rétt við Stykkiz og veiddum vel (ég mismælti mig í sífellu og sagði "komum að veiða ber" - gjörsamlega veiðisjúk!). Lítið af berjunum skilaði sér þó heim í hús en það var allt í lagi því að Hjörturinn fagri hafði fleira góðgæti í bakhöndinni: 

IMG_1442Endalaus huggulegheit á drengnum. Við erum heppnar, stelpurnar í heita pottinum!

Önnur stelpa á Skólastígnum datt líka í lukkupottinn og fékk sér smá smakk: 

IMG_1452

Dísa skvísa, fallegasta konan norðan Drápuhlíðar og þó víðar væri leitað!

Þetta blogg er greinilega tileinkað fallegu fólki:IMG_1459

Bjössi bró og Erna hró (og hló) kíktu í krækling hjá okkur eitt kvöldið, svona rétt fyrir setningu Ólympíuleikanna. Hver var annars setning Ólympíuleikanna? Veni, vidi, vici? Mér skilst að það sé ekki fínt lengur að kalla þennan herramannsmat krækling (ég sá það í bækling) þannig að ég ætla að leiðrétta mig hér og nú og segja að bró og hró hafi borðað hjá okkur bláskel, sem rímar einmitt við hnjáskel.

Stuttu síðar bættist enn í hóp fallega fólksins á Skólastígnum, þegar Geir kite og Sissa sæt(a) mættu á túnkantinn með grísina sína þrjá. Úr þessu varð ein hin fallegasta krakkasúpa sem flotið hefur í heita pottinum:

IMG_1465

Kristrún, Erna, Óli, Sigrún, Helgi, Gunnhildur og Heiðrún, ofurkrútt öllsömul!

Fallega fólkið leit við í Pakkhúsinu aðfaranótt sunnudags þannig að það má alveg segja að djammstuðullinn hafi hækkað alveg svakalega þetta sumarið (klukkutímadjamm í Flatey og klukkutímadjamm í Stykkishólmi). Herregud! Rea!

Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir í Kópoz á ný hefur leið okkar stelpnanna legið í allar áttir. "Stelpurnar" eru yfirleitt ég og hinar Rúnurnar (Kristrún og Sigrún) því að Björg er búin að vera upptekin við að sinna vanræktu vinunum. Hjörtur situr við tölvuna alla daga og selur fisk en sem betur fer er alltaf hægt að treysta á flottasta járnsmið Íslands, sjálfan Ólaf Geir senior. Við hjóluðum í Nauthólsvíkina í góða veðrinu í fyrradag og sleiktum ísinn og sólina: 

IMG_1508

Pabbi er greinilega orðinn tanaður í drasl eftir að hann hætti að vinna. Hann afþakkaði meira að segja ferð í Húsdýragarðinn í gær því að skallinn var orðinn rauðglóandi og þurfti sína hvíld. Þess í stað hjólaði hann með okkur upp í Árbæjarlaug í dag, hvar við nutum þess að fáir voru í sundi, bæði vegna sólarleysis og þeirrar skemmtilegu staðreyndar að margir eru farnir eða á leiðinni í ferðalag. Á leiðinni upp í laug stoppuðum við hjá kanínunum í Elliðaárdal og fóðruðum þær og flennistórar gæsir á Bónus brauði. Svo fórum við upp að stíflu og gáfum öndunum og löxunum þar. Mig langaði mikið til þess að gerast veiðiþjófur þegar ég fylgdist með löxunum stela brauði frá öndunum. Það eina sem þarf er smá girni, öngull og brauðmoli og...búið að redda kvöldmatnum! En auðvitað harðbannað.

Ég elska þessa góðu daga sem bjóða upp á ný og gömul ævintýri. Hjóla í Elliðaárdalinn og skoða dýrin og vaða í ánni, hjóla í Húsdýragarðinn (sem klikkar aldrei), fara í sund, finna nýjan róló, hjóla í Perluna og fá sér ís, hjóla jafnvel í miðbæinn... Skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til? Nei, það held ég bara ekki. Frelsið er yndislegt. Hér er mín yngsta, ánægð í sjónum í Nauthólsvík:

IMG_1504

 

Hér er svo mín næstyngsta, synd sem selur í sjó:IMG_1498

Alltaf með sundgleraugun á nefinu!

Framundan eru góðir dagar í höfuðborginni við leik og störf. Kannski maður kíki í Westurbæinn eða Dalinn og sníki kaffi, nema að Hjörtur bjóði okkur í bíltúr út fyrir bæinn? Ég sé að hann er með lambafilé í ísskápnum. Það er spurning hvenær það fer á grillið? Verst að geta ekki hlaupið af sér spikið. Það hlýtur þó að koma allt með kalda vatninu. Ég vildi óska þess að tabatatímarnir væru oftar en bara tvisvar í viku. Þá væri ég nánast orðin jafn vöðvastælt og hún systir mín (djók). Smá auglýsing í lokin: Vonast til þess að sjá alla sem vetttlingi geta valdið í tabata í Laugum kl. 10:30 á þriðjudögum og fimmtudögum. Byrjendur munu ekki geta valdið vettlingi eftir fyrsta tímann. Svo lagast það.

Njótið Verzlunarmannahelgarinnar í botn en gangið hægt um gleðinnar dyr.

 Zola verzlunaróða :) 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband