Síðasti dagur í sumarfríi...

...hjá Kristrúnu í dag, ekki mér (hjúkkit). Leikskólinn byrjaði reyndar í dag en ég var ekki alveg að tíma að láta barnið frá mér strax. Það er gaman og gefandi að hanga með grísunum, þó að lítið miði í eigin verkefnum á meðan.  Reyndar kom svona smá móment í dag þegar mig langaði til þess að skila Snuðru aftur í búðina þar sem ég keypti hana. Dagurinn byrjaði vel eins og alltaf og eftir múslí og latté fór ég með þær í "barnageymsluna" (eins og Tuðra kallar alltaf barnagæsluna í Laugum) á meðan kaffið skilaði sér út um svitaholurnar í tabata. Svo var farið beint í sund í yndislegu veðri og við vorum allar svo kátar og glaðar. Mömmunni datt allt í einu í hug að leika "kitluhumar" og með Tuðru á bakinu eltum við Snuðru út um alla laug. Snuðra þolir ekki of mikla spennu og brast í grát áður en kitluhumarinn náði nokkurn tímann svo mikið sem snerta hana. Það var sama hvort að humarinn beitti fagurgala eða hafði í hótunum við barnið, Snuðra gat ekki hætt að gráta. Eins og hin raunverulega móðir (based on a true story) Snuðru og Tuðru upplifði sjálf á stundum var þetta hrín orðið svo vandræðalegt að humarinn og Tuðra urðu að forða sér afsíðis þar sem þær fylgdust með Gólínu úr hæfilegri fjarlægð í heita pottinum. Umhyggjusamir sundlaugargestir reyndu að ná sambandi við barnið sem gelti bara á móti og frussaði á móður sína þegar hún sýndi með vingjarnlegum handahreyfingum að tímabært væri að koma sér upp úr. Þegar Tuðra var að breytast í linsoðinn humarhala klöngruðumst við mæðgur uppúr og Snuðra á eftir. Henni tókst þá loks að hætta að gráta og vildi sem minnst um þetta tala. Svona er þetta víst bara stundum. Once you pop, you can't stop. Þær drukku svo sitt jarðaberjaboost, alveg alsælar, áður en skottast var á bókasafnið og svo út í A4 að kaupa skóladót. Nú er búið að merkja hvern einasta tússlit og allt orðið klappað og klárt fyrir næsta skólavetur.

Verzlunarmannahelgin var bara fín. Björg fór á Laugarvatn með vinkonu sinni en restin af fjölskyldunni dúllaði sér við hitt og þetta. Á laugardaginn áttum við frábæran dag með Dalbúum. Kíktum á markað og hestaþrautir og svo bökuðu Svava og Sigrún Björk eldri vöfflur ofan í mannskapinn. Hér eru glaðir grísir að borða vöfflur og jólaköku: 

IMG_1539

Sigrún, Bríet og Emma (allar Björk), ásamt Kristrúnu ekki Björk.

 

Hjörtur stóð glæsilega vakt í eldhúsinu um helgina, en gaf sér samt tíma til þess að kíkja með okkur í "uppgötvum-nýja-rólóa" ferð á sunnudaginn. Hér er hann að róla með Tuðru sinni: 

IMG_1548

Mánudagurinn var álíka afslappaður. Hjörtur var að gera sér vonir um að það yrði vindur á Gróttu. Þar sem aðalflugdrekavinurinn er orðinn hálfgerður spítalamatur, dró Hjörtur fjölskylduna með sér í áhorfendastúkuna, en svo var auðvitað bara logn og blíða þar eins og annars staðar. Stelpurnar voru duglegar að dunda sér við vitann og á ströndinni.

 IMG_1551

Vitarnir tveir.

Pabbi bauð svo í grill um kvöldið ásamt Bjössa bró og kó, sem var aldeilis ekki leiðinlegur endir á góðri og afslappaðri Verzlunarmannahelgi.

En eins og fyrr segir þá er Kiddú að fara í leikskólann á morgun. Þá vantar reyndar Sigrúnu leikfélaga, en ég hef trú á að Aðalsteinn og fleira skemmtilegt fólk komi sterkt inn í myndina. Svo er hún orðin alveg sjúk í Andrés önd þannig að þegar sólin skín ekki má hún svo sem alveg liggja inni með nefið ofan í Andabæ. Í næstu viku förum við svo síðasta túrinn á Skólastíginn til þess að ganga frá húsinu til útleigu í vetur og auðvitað til þess að sjá flugeldasýninguna á Dönskum dögum og heyra Bjössa bró stjórna brekkusöngnum. Síðasta ferð ársins í Hólminn verður svo farin snemma í september, þegar sjálf Tinna Kúld gengur að eiga sjálfan Marius Husby í Stykkishólmskirkju. Pabbi mun leiða hana inn kirkjugólfið, Lúlla verður presturinn og ég og Bjössi veislustjórar. Búist er við 150 gestum! Við verðum sjálf hálfgerðir túristar og leigjum orlofsíbúð á Laufásvegi. Spennó spennó...

Jæja, verð að setja inn eina mynd af Snuðru og Tuðru í lokin. Hún var tekin í morgun þegar Snuðra var svo góð að greiða lubbann á Tuðru. Ég átti aðra sætari mynd af þeim en þessa, en þessi var bara eitthvað svo Tuðruleg:

IMG_1568

Elsku litlu grallaragrísirnir mínir :)

 

Fleira var það ekki í bili, takk fyrir.

Sóla humar :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það ekki trölladeildin hjá Kiddú? FrKr byrjar eftir viku - ég gæti alveg trúað því að þeim lítist vel á hvort annað. Það er hlýtur að vera í genunum ;)

Sólveig (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 21:20

2 identicon

Júhúúú, það er sko Trölladeildin! Byrjar aðeins á Dverga og svo beint á Trölla. Mér finnst æðislegt að þau verði saman á deild. Einu krakkarnir sem hún hefur talað um í sumar eru Katrín vinkona hennar og Atli Valur. Þetta verður flott Gvendareyjagengi!

Sóla (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 21:27

3 identicon

Heyrðu góða....þetta kemur nú úr hörðustu átt ! Ég kem tvíefldur og þú átt ekki eftir að sjá kallinn fyrr en um áramótin í fyrsta lagi.

Geir aðalflugdrekavinur (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 23:23

4 identicon

Ha ha, ég vona að þér batni fljótt. Kallinn er alveg vængbrotinn án þín :)

Sóla (IP-tala skráð) 8.8.2012 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband