Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Baðherbergi og blautur rass

Blautur rass? Já - og kaldur. Ég sit hérna ofan á poka af frosnum bláberjum og rúlla hægri ilina á...(pása á meðan ég næ í dósina og les utan á hana)..."Bacardi Mixers Pina Colada non-alcoholic frozen mixers." Nei, ég er ekki að undirbúa eftirrétt fyrir morgundaginn. Ekki heldur að græja kokteil fyrir sumardaginn fyrsta. Gamla stendur bara undir nafni og er illt í gömlu mjöðminni og lúnu ilinni. Reyndar í betri fætinum, en það er nú önnur saga. Ég er sem sagt að kæla útlimi til þess að eiga auðveldara með gang næsta dag. Doksi vill setja mig í aðgerð í maí: Skera bara ilina í sundur og leyfa henni að gróa saman aftur, vonandi aðeins slakari en áður. "Þessar háu ristar...það á bara að skera á þetta strax þegar þið eruð börn." Þegar ég talaði við hann síðast hafði hann verið að gera fimm svona aðgerðir um morguninn. Fjórar á börnum og eina á hjúkrunarkonu. Ég er enn að bræða þetta með mér, en svo ég vitni nú aftur í lækninn: "Sjúkraþjálfun, sex sprautur og árs hvíld. Er þetta ekki fullreynt hjá þér? Er eftir einhverju að bíða?"

Talandi um bið. Baðherbergið? Næstum því tilbúið. Það finnst ekkert ljós sem passar yfir hluta af innréttingunni þannig að ég birti myndir af þeim hluta síðar. Myndirnar eru að vísu ekki mjög skýrar allar. Hugsanlega hefði verið betra að munda i-phone-inn í birtu en við sjáum hvort  að ekki grilli í snilldina. Hér er sturtan:

IMG_2917_zps186afc6d

Handklæðaofninn settum við bak við hurð til þess að fela öll litríku handklæðin. Þau eiga sér langa og misjafna sögu, sum götótt, önnur heil, en aldrei færum við að fórna þeim fyrir ný, ekki frekar en Eva gerði við skítugu börnin sín (hún bara faldi þau). Hjörtur fékk þá sniðugu hugmynd að láta gólfflísarnar (sem líta út eins og ljóst viðarparket) ná alveg upp á vegg hjá sturtunni. Sést kannski ekki vel en þið verðið bara að koma í heimsókn og prófa sturtuna. Eða ekki.

Við rákum augun (svo nærsýn) í huggulegan náttúrustein í Bauhaus sem við ákváðum að færi vel á baðinu. Sem hann og gerir:

IMG_2915_zps440e8cd6

Svo huggó. Nettur glimmerfílingur í þessu. Til hægri glittir í hvíta baðinnréttingu frá Ikea. Hún verður frumsýnd þegar rússneska ljósaperan er farin aftur til síns heima.

Svo eru allir örugglega ógó spenntir fyrir heimsfrumsýningu á dollunni:

IMG_2914_zpsd591bb11

"Upphengdur andskoti" eins og faðir minn myndi eflaust segja, hefði hann einhverja skoðun á klósettum. Fínt að skúra undir þetta. Ég er búin að þurfa að skúra æði oft núna síðustu mánuði. Thank you Janis, Boris og Spassky. Da.

Aumingja Harpa varð samt enn verr fyrir barðinu á framkvæmdum en ég. Ég bý við þann lúxus að geta flúið í vinnuna á hverjum degi, en Harpa þurfti að sitja heima með barnið og hlusta á niðurbrot og hamarshögg daginn út og daginn inn. Hún var nú ekkert upprifin yfir því og niðurbrotin flúði hún til Stokkhólms. Nei annars, hún lét þetta nú ekkert alveg fara með sig, en ég held samt að hún hafi verið farin að meta einveruna og þögnina í stórborginni meira eftir þessa reynslu. Við hittum hana, Jakob krútturass og Ras...mus eftir mánuð í Köbenhavn og tökum saman flugið til Tyrklands. Gott mál.

Að grasekkjumálum: Hjörtur er búinn að vera í Ameríku í heila 9 daga núna. Fyrst að kætsörfa í viku og svo að vinna á 2 sýningum einhvers staðar Maine eða Massó. Hann kemur á miðvikudaginn og þá fáum við aftur eitthvað gott að borða. Reyndar hef ég bara haft gaman af því að standa eldhúsvaktina og einnig notið þess að koma að öllu í röð og reglu eftir vinnu...tja fyrir utan örfá undantekningartilfelli þegar 8 sentimetra ryklag er skilið eftir á gólfinu fyrir gömlu að skúra (thank you Janis, Boris, etc...). En það verður svoooo ljúft að fá kallinn heim. Hér eru stelpurnar að borða flókinn rétt eftir sjálfa mig:

IMG_2856_zps267f32a6

Ég er heimsþekkt fyrir fusion eldamennsku. Hér mætast til dæmis Asía og Norður-Afríka í fyrsta sinn á íslandi. Rétturinn heitir því skemmtilega nafni PIZZA.

Reyndar kom Kristrún öllum plönum í uppnám með því að verða veik í 4-5 daga. Það er náttúrulega ekki séns í helv... að ég taki mér frí frá vinnu og láti þar með 100 nemendur ráfa villta og vandræðalega um ganga skólans. Hjörtur hinn heimavinnandi er vanur því að taka vaktina en þar sem hann var ekki til staðar kom pabbi minn sem frelsandi engill og sá um litlu lösnu Kiddú. Hún undi sér mjög vel hjá afa sínum og sögur herma að hún hafi horft á Dýrin í Hálsaskógi þrisvar í röð sama morguninn! Það er gott að eiga afa á eftirlaunum. Ég hins vegar þurfti að reka mig á þá köldu staðreynd að ömmur í fullri vinnu með lítil börn hafa ekki eins mikinn tíma fyrir barnabörnin og þær vildu. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning er ég að tala um sjálfa mig. Mæli með öfum og ömmum á eftirlaunum...og við góða heilsu. Óli fitness afi sameinar þetta tvennt!

Jæja, allir voru nú hressir um helgina og Kristrún fór þá á sitt sundnámskeið. Ekki er mikil framför þar vegna þess að Kristrún vill helst ekki fara í kaf. En svona var hún Sigrún þar til hún datt í stuð fimm ára og varð synd eins og selur á stuttum tíma. Kristrún hefur hins vegar tekið miklum framförum í fimleikum og er orðin miklu hugrakkari en hún var. Gengur lífið ekki svolítið út á það...að þora? Hér er hún glöð að reyna að húlla:

IMG_2888_zpsfeb9c43f

Ekki alveg komin með taktinn í það en hún reyndi alla vega og hafði gaman af. Það er fyrir mestu.

Sigrún hafði líka nokkuð gaman af fimleikamótinu seinna um daginn, þó að það hafi nú gengið frekar hægt fyrir sig í þetta sinn. Hér sést hún taka á móti verðlaunapeningi, í ljósbláum búningi við svartar stuttbuxur:

IMG_2908_zpsa32ea814

 Allir fengu auðvitað verðlaunapening og vonandi verður það svoleiðis á næstu mótum líka.

Í dag á norska prinsessan Tinna Kúld Guðmundsdóttir afmæli. Ég man nú ekkert hvað hún er gömul (who's counting anyway) og ekki finn ég neina nýlega, óbirta mynd af henni þannig að hún fær bara heiðursafmæliskveðju hérna: Til hamingju elsku Tinna Túdd! Í staðinn birti ég mynd af krúttlegu afmælisbarni sem varð svo barnslega glaður þegar hann tók upp gjafirnar frá dóttur sinni 15. apríl sl.

IMG_2844_zpsd94025c0

 Herregud! Göngustafir! Rúmföt! Lak! (Þetta síðastnefnda var víst það eina sem hann vantaði, að mati dóttur hans). Björg samdi til hans mjög fallegt ljóð, en það má víst ekki birta það hér frekar en neitt annað sem þessi snjalli unglingur gerir. Fara þessi sjálfsmeðvituðu unglingsár ekki að taka enda???? Og þetta blogg?

Jú. Búið núna. Þakka þeim sem lásu. Líka þeim sem skoðuðu bara myndirnar.

Zóla Grin

 

 


Aprílrausið

Ég ætlaði víst ekkert að blogga fyrr en baðherbergið væri tilbúið, en í tilefni þess að það er aaaaaaaalveg að verða klárt ætla ég að koma með einhverjar stiklur frá páskum.

Í fljótu bragði virðist páskafríið hafa verið óvenju tíðindalaust, en þegar kíkt er á myndirnar rifjast ýmislegt upp. Þessi sæti gaur flaug til dæmis til Íslands fyrir páska og ætlar að skemmta okkur með sinni þægilegu nærveru til 15. apríl:

IMG_2813_zps5a0bb599

Hann er alveg ótrúlega gott og þægilegt barn. Vaknar smá ennþá á  nóttunni en brosir og hjalar daginn út og daginn inn. Draumur í dós, hann Jakob Ari okkar. Hann átti 7 mánaða afmæli 2. apríl og hélt upp á það með mjólk í pela og brokkóli í skál. Skál!

Kisi Jackson og Ásta Einstein áttu afmæli 1. apríl. Kisi varð 4ra ára og Ásta eitthvað örlítið eldri. Hér er hún klukkan 6 að morgni fyrir utan Egilshöllina, búin að bera út Fréttatímann, Moggann, Kópavogsblaðið og Búnaðarblaðið, hlaupa 10 kílómetra og skella köku í ofninn.

IMG_2818_zpsc9847791

Við tókum létt skokk fyrir utan á meðan við biðum eftir að manneskjan sem átti að opna World Class fyrir tabatasjúklingana mætti á staðinn. Hún svaf yfir sig og það er því henni að kenna að mér er mjög illt í ilinni ennþá - eftir 1-2ja kílómetra skokk. Lækning óskast. En Ásta er ólæknandi, sem betur fer! Takið eftir fína hlaupajakkanum sem stelpan fékk frá fínu enskudeildinni.

Í tilefni af páskunum þvoði Hjörtur bílinn minn:

IMG_2809_zps1d6bc126

Getraun dagsins: Hvar er þessi mynd tekin?

Allt var auðvitað vaðandi í súkkulaði á páskadag. Hér er ömurlega illa tekin mynd af minnstu grísunum í súkkulaðivímu:

IMG_2791_zps8f8ab67d

Jakob fékk reyndar bara súkkulaðimjólk...í gegnum mömmu sína.

En súkkulaðibrúna fólkið keypti ekki sjálft sín páskaegg, heldur vann það risastór egg í Íslandsmeistarkeppninni í fitness. Lúlla sys, Siddi bis og Irma glys urðu sem sagt öll Íslandsmeistarar í sínum flokkum - geri aðrir betur! Eftir stranga þjálfun og kórrétt matarræði uppskáru þau nákvæmlega eins og þau sáðu. Ég mátti til með að bjóða þeim í kolvetnaríkan "brunch" eftir mótið sem þau þáðu auðvitað með þökkum áður en þau brunuðu norður aftur. 

IMG_2777_zpsad345d7a

Frá vinstri: Örri kaldi, Irma svala, Helga cool, Siddi napri, Lúlla frostrós, pabbi hrím, Björg brunagaddur og Sigrún svellkalda. Úff, það er erfitt að byrja með einhver uppnefni og þurfa svo að halda sig við þemað!

Tengdamamma Hörpu, mágur og svilkona, að ógleymdum ektamanni, voru svo í dinner hjá okkur alveg þrisvar, en ég steingleymdi að taka mynd af þeim. Harpa sýndi þeim land og þjóð og mér skilst að þeim hafi bara litist stórvel á móðurland litla Jakobs Ara.

Stefnan hafði verið að fara oft á skíði, svona til þess að sanna að maður þurfi ekkert að vera á Akureyri um páskana til þess að stunda skíðaíþróttina. Við lentum í fínu veðri fyrir páska og buðum Halldóri Ásgeiri litla frænda með okkur. Sjö ára frændsystkinin voru að fíla sig alveg í botn í Bláfjöllum:

IMG_2750_zps841b8019

 

 

Úje!

Kristrún Eir kom líka mjög á óvart þegar hún steig í fyrsta sinn á skíði og bara lét eins og hún hefði gert þetta oft áður. Hjörtur setti hana í taum til þess að hún færi ekki of hratt og hélt auðvitað utan um hana í toglyftunni, en að öðru leyti sá hún um sig sjálf:

IMG_2743_zpsd91782dd

Born to ski!

Veðurspáin var mjög góð fyrir föstudaginn langa þannig að við vorum mætt snemma í Bláfjöll þann dag með nesti og nýja skó. Reyndar kom í ljós að skíðaskórnir hennar Bjargar voru orðnir of litlir á hana þannig að hún fékk mína lánaða. Ég ákvað að leigja á mig skó og fór aftast í mjög langa röð. Þar stóð ég í klukkutíma og hreyfðist áfram um tæpa 3 metra. Þá fór kona að reikna (og var snögg að því). Ég sá að með þessu áframhaldi væri ég ekki komin með skó fyrr en eftir 2 tíma og þyrfti svo að standa í röð aðra 2 tíma til þess að skila skónum. Svo var veðrið að versna, komið él og leiðindavindur, þannig að ég fór úr röðinni og upp í bíl að lesa bók á meðan Hjörtur og stelpurnar renndu sér áfram. Þau entust ekkert voðalega lengi þannig að það tók því víst ekki að bera sólaráburð á allt liðið! Ekki varð meira úr skíðaferðum því að Kristrún tók varð veik um blápáskana og því var að mestu leyti hangið inni, glápt á sjónvarp og lesið. Það er líka næs. Meganæs.

Lokafréttin er svo sú að við lékum í auglýsingu fyrir endurskinsmerki um páskana:

IMG_2710_zps8792c60d

 

Ekki fá ofbirtu í augun! Tyrkland og tan, við erum á leiðinni!

Åžimdilik hoÅŸçakalın

Þetta var "bless í bili" á tyrknesku. Við förum reyndar ekki fyrr en í  lok maí þannig að næsta blogg verður um fullklárað baðherbergi. Ó, en merkilegt. Sorrý, svona er líf mitt.

Have a good one!

GüneÅŸrune (Sólrún...á tyrknesku)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband