Fjarlægðin gerir fjöllin há...

...og mennina litla. Bara 12 dagar til jóla og 15 dagar í brottför. Kilikrúið flýgur til Amsterdam að morgni 27. desember, þaðan til Nairobi í Kenya og að endingu til Kilimanjaroflugvallar í Tanzaníu. Svo byrjar partýið.

Við fengum langan útbúnaðarlista og núna siðustu daga hef ég keppst við að klára allt af listanum til þess að róa hugann. Hins vegar á ég enn langt í land með að tékka við allt á jólagjafalistanum, en það reddast. Guðrún vinkona og Kilifari talaði um í sínu bloggi hvað kostnaður við útbúnað hefði verið stór liður, en hún toppar þó ekki Kilimanjarofarann hjá Meniga sem þurfti 400.000 þúsund kall í græjunar. Ég er svo heppin að vera gift græjukalli þannig að það var ýmislegt sem ég gat fengið lánað hjá honum, s.s. jöklagleraugu, dagpoka og þrælöflugan svefnpoka:

kiliblogg8_zpskksyjikp

Þessi þolir allt að 30 gráðu frost sem gæti komið sér vel í óupphituðum skálanum síðustu nóttina. Ætli verðmæti þessara græja slagi ekki hátt upp í 150 þúsund?

Við ákváðum náttúrulega fyrir tæpu ári síðan að fara á þetta fjárans fjall og síðan þá hafa verið ýmsar pælingar í gangi. Ég komst að því í mjög blautri Esjugöngu i sumar að rúmlega tíu ára regnsett í eigu minni var langt frá því að vera vatnshelt. Ég var búin að skoða ýmsar "skeljar" og regnjakka og splæsti að lokum á mig draumajakkanum í síðustu viku. Hann er voðalega mikið ég:

kiliblogg14_zpsuao4tslg

Ekki of áberandi litur (en gæti hugsanlega glitt í mig í snjónum þegar leitarþyrlurnar fara að fljúga yfir), síddin niður fyrir rass (hver vill flagga þjóhnöppum í rigningu?) og ansi léttur og mjúkur. Ég ákvað að þetta yrði líka hlaupajakki og prufukeyrði flíkina í morgunfrostinu. Tja...hann andar nú ekkert voðalega vel sem bendir þó til þess að hann sé afskaplega vatnsþéttur. Það getur nefnilega rignt á Kilimanjaro. Snjóað líka. Yeah!

Ég var að pakka í morgun þannig að ég ákvað að raða einhverju dóti fallega upp áður en ég setti það ofan í tösku. Hér er ýmislegt smálegt sem þarf að fara með upp á fjallið:

kiliblogg5_zpsge0oilvr

Íslenski fáninn, hægðastopplyf, moskítófæla, svitalyktareyðir, vasahnífur, sólarvörn, ofnæmislyf, orkubarir, höfuðljós, sólgleraugu, orkuduft, verkjatöflur, batterí... Ég fór í útivistarbúð i gær og þar var ekkert til af því sem mig vantaði. En afgreiðslumaðurinn mundi vel eftir konunni sem kom daginn áður og var líka að fara á Kilimanjaro. Hann fór auðvitað að minnast aftur á háfjallaveikina og nauðsyn þess að vera með bleyju og var augljóslega skemmt. Bara öfund, if you ask me. Pampers extra plus á samt eftir að bætast á listann. Orkubarina fengum við svo í einhverri fitness búð við hliðina á útivistarbúðinni. Ég er sérstaklega spennt fyrir þessum "golf bar" sem samanstendur af höfrum og súkkulaði. 500 kaloríur, takk fyrir. Þetta eigum við að narta í á milli mála. Við fáum sem sagt morgunmat, hádegismat og kvöldmat á leiðinni svo það gefur auga leið að það er nauðsynlegt að hafa eitthvað til þess að narta í á milli mála, alla vega fyrir Sólrúnu sísvöngu.

Anyhow...ég var að tala um hvað ég er vel gift. Á listanum var megaþykk dúnúlpa en ég á ekkert slíkt. Ég á reyndar ágætis dúnfyllta vetrarúlpu en hún er meira svona "parka". Fín í borginni og jafnvel á skíði, en ekki í 18 tíma hægri göngu í 25 stiga frosti. Ég ætla því að vera í ullarklæðum innst, síðan í primaloft úlpu, svo í lopapeysunni sem Lúlla systir prjónaði, því næst í léttri dúnúlpu af Hirti og að lokum í forláta skel af Hirti. Hér eru tvö ystu lögin:

kiliblogg2_zps6nbabd8a

Jafnvel gæti ég troðið flíspeysu innan undir þetta allt saman. Ég verð eins og Shrek og laukur, í mörgum lögum sem ég týni svo af mér smátt og smátt þegar við göngum niður aftur og loftið fer að þykkna og andrúmsloftið að hitna. Ef ég kemst þá á toppinn..?. Þessir tveir lukkugripir verða með í för, sem gefa vissa ástæðu til bjartsýni:

kiliblogg3_zpscjs2vju0

Ég byrjaði að pakka almennilega niður í tösku síðasta fimmtudag og endaði með sneisafullan "duffelbag" - sem sagt allt of mikið. Í morgun gerði ég tilraun til þess að setja allt í ferðatösku. Gunni Bowie var fljótur að binda enda á þær tilraunir:

kiliblogg9_zpsqmd1xuqh

Ef að einn köttur fyllir næstum því heila ferðatösku, hvernig á ég þá að koma öllu hinu fyrir? Þetta er að vísu köttur af stærri gerðinni, en mér er sama.

Sem betur fer þurfum við ekki að halda á öllum farangrinum upp fjallið, enda myndi ég aldrei fara í slíka ferð með mitt ræfilslega bak og bullsveittu bingóvöðva. Það eina sem við þurfum að halda á er svokallaður léttur dagpoki. Hjörtur átti auðvitað slíkan búnað á lager. Ég valdi þennan:

kiliblogg4_zpshm4ly1fg

Ég þurfti hins vegar að fjárfesta í regnhulstri eða hvað þetta heitir nú á íslensku (e. rain cover). Kann ekki við að kalla þetta regnhlíf því að það er auðvitað allt önnur ella eða umbr...ella. Múahahahaha!

Í þessum poka verð ég líklega með auka jakka og buxur, einhverja golfbari og svo a.m.k. 2 lítra af vatni til þess að súpa á yfir daginn. Hjörtur lumaði auðvitað á fínum "CamelBak" poka sem tekur einn lítra og ég set utan um mittið. Hina lítraflöskuna fann ég í Útilíf. Hún er fislétt og með eingrunardóti utan um. kiliblogg10_zpsamdcdvsiVonandi verður ekki svo kalt að allt vatnið frýs. Það eina sem mig vantar eiginlega fyrir ferðina af listanum núna eru vatnshreinsitöflur. Ég spurði um þær í 3 útivistarbúðum og 1 apóteki en enginn kannaðist neitt við svoleiðis. Ég er líklega að leita á röngum stöðum. Ég veit að allt vatn sem við drekkum er soðið á staðnum, en ferðamenn vilja gulltryggja sig með því að setja þessar töflur í líka. Jú, svo er ég ekki komin með glákulyf, en mér skilst að ein okkar sé með svo stóran skammt að hann dugi fyrir okkur öll. Þetta glákulyf á að hjálpa okkur að takast á við háfjallaveikina. Viagra gerir það víst líka, en við vorum spenntari fyrir að fá betri sjón en meiri kynorku, alla vega við þessar sérstöku aðstæður. 

Gönguskórnir mínir eru einnig athygli verðir. Ein af afskaplega þreytandi alhæfingum um konur eru að þær séu allar skósjúkar. Ef það er rétt er ég ekki kona. Ég er samt nokkuð viss um að ég er kona. Ég vildi að vísu bara vera strákur þegar ég var lítil en ekki rættist sú ósk, sem betur fer kannski. Þegar ég var sem mest í hlaupunum veitti ég reyndar hlaupaskóm athygli, en hælaskór eru verkfæri djöfulsins...og feðraveldisins. Sumir setja samasemmerki þarna á milli. Jæja, fyrir einhverjum 20 árum fékk ég gönguskó frá föður mínum í jólagjöf. Þá var nú aldeilis veldi á kallinum og þaðan er líklega orðið feðraveldi komið. Assgoti góðir skór sem fóru alla vegar tvisvar sinnum Fimmvörðuhálsinn og tvisvar sinnum Laugaveginn, fyrir utan allar Esjurnar og slabbið í höfuðborginni. Þrem börnum síðar voru fætur mínir orðnir eitthvað stærri og í hvert sinn sem ég gekk niður fjall endaði ég með stórar blöðrur á tánum. Eftir mikla leit í sumar datt ég að lokum niður á þessa ofurþægilegu skó:

kiliblogg12_zpsptigthhr

Þessir skór eru eins retro og fjallgöngulegir í útliti og mögulegt er, að mínu áliti. Ég vildi ekki hafa neina liti og vesen á skónum, bara ekta brúnt leður sem þætti viðeigandi jafnt á toppi Kilimanjaro og á neðri hæðinni í Smáralind. Þeir eru fáránlega þægilegir í kringum ökklann og botninn svo stamur að ég dett mun sjaldnar á rassinn á niðurleiðinni. Ég er svooo léleg í að ganga niður fjöll að það er ekki einu sinni fyndið. Enda stendur á tungunni á skónum (ef myndin prentast vel): "Go up." Ég mun gera mitt besta.

Hér er svo nett yfirlitsmynd yfir fatnaðinn sem ég á víst að klæðast á fjallinu, mínus úlpurnar hans Hjartar:

kiliblogg6_zpskurypb7d

Þarna eru skærir litir allsráðandi, sem tákna létta lund mína og fíkn í ný ævintýri. Jæja ókey, ég veit ekki hvað þessi ótrúlega rauða peysa er að gera þarna í miðju fatahafinu. Hlaupahópurinn Glennurnar manaði mig til þess að kaupa kvekendið svo ég væri í stíl við allar hinar. Svona getur hópþrýstingur farið illa með fólk. Þetta dótarí átti ég nú allt í fórum mínum, nema regnjakkann áðurnefnda. Jú, svo splæsti ég í regnbuxur og flíxbuxur. Konur í miðstærð: Endilega kaupið föt í 66N í barnastærðum. Þau kosta næstum því helmingi minna og passa mun betur! Mér buðust flísbuxur á 14.000 en fann þær svo í barnastærð á 7.500. Alltaf að græða.

Allt þetta dót fer svo í "duffelbag" eða sjópoka. Hjörtur og stelpurnar gáfu mér einn slíkan í afmælisgjöf:

kiliblogg7_zpsnugzuwyg

Ægilega fínn, vatnsþéttur og allt. Mér sem sagt tókst að troða öllu fjalladótinu í hann. Hver og einn göngumaður á Kilimanjaro mun hafa tvo burðarmenn sem væntanlega skiptast á að bera þetta hlass á hausnum upp fjallið, ásamt mat og öðrum áhöldum. Greyið þeir! Pokinn má ekki vega meira en 15 kíló og mér fannst hann nú vega að minnsta kosti 20. Ég vigtaði því sjálfa mig án pokans og með og komst að því, mér til mikillar ánægju, að pokinn vegur 14,5 kíló. Ég get því bætt nokkrum golfbörum og öðrum millibörum ofan í pokann, án samviskubits. 

Nú á bara eftir að klára að pakka fyrir hinn hlutann af ferðinni, sem gæti reyndar reynst þrautin þyngri fyrir manneskju sem gengur dagsdaglega í hlýjum, svörtum fötum. Ef við komumst lífs af af fjallinu var planið að eyða nokkrum dögum í safarí. Við ætlum sem sagt að heimsækja þjóðgarða og einhverja æðislega staði þar sem dýralífið er stórkostlegt og náttúran ægifögur. Gististaðirnir verða allir með sundlaug og ég á ekki einu sinni bikiní! Það verður einhver höfuðverkur að finna föt fyrir þennan hluta ferðarinnar og geymi ég þá umfjöllun fyrir næsta blogg.

Ég er bara góð annars. Búin að vera í prófayfirferð og prófayfirsetum og enn sér ekki fyrir endann á því öllu saman. Við Síams vorum með piparkökukvöld fyrir A-sveit SK í gær en í dag stendur stelpan í stórflutningum. Hún er sem sagt að flytja í alveg eins hús og ég á og mun búa miklu nær mér en áður. Ég ákvað að taka enga áhættu með bakið, rétt fyrir rándýra Kilimanjaroförina, og sendi því ástkæran eiginmanninn í flutningana á meðan ég viðraði ungana. Það voru örfáar hræður í Húsdýragarðinum í dag í dásamlega logninu:

kiliblogg1_zpsvmptor2t

Tjörnin frosin og allt, enda sýndi mælirinn mínus átta gráður. Ég var búin fyrir jöklaferð en var samt ískalt eftir þriggja tíma útiveru þannig að ég get virkilega látið mig hlakka til ferðarinnar. Úff. Ég heyrði einmitt frá einum sem fór á Kilimanjaro fyrir nokkrum árum. Honum tókst að komast upp en fararstjórinn var sendur niður í skyndi með heilabjúg! Þetta staðfestir enn og aftur að það er algjört lotterí hver kemst upp. Vonandi verðum við öll heppin. Ég er samt búin að vera að æfa Æðruleysisbænina í hvert sinn sem ég hugsa um þetta fjall. Ég þarf að hafa vit til þess að átta mig á því að sumir komast upp og aðrir ekki og sætta mig við það sem ég get ekki breytt. Amen.

Sóla litla :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband