Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

NÁMSKEIÐ Í NORWICH OG DANSKIR DAGAR

Færslurnar fátíðu markast af ferðalögum sumarsins - eins og svo oft áður. Helst hefði ég viljað gera Norwich ferðinni sérstök skil, enda merkileg ferð fyrir margar sakir, en sökum ferðaþreytu, andvaraleysis, kennsluundirbúnings, þvottafjalls og annarra hversdagslegra afsakana skeyti ég þessum tveimur tímamótaferðum saman í eina frásögn áður en minningarnar hverfa alveg í sortann.

Norwich ferðin var eiginlega farin að tilstuðlan Lilju enskukennara, sem þótti tími til þess komin að fá fleiri kollega sína í enskudeild Borgó til lags við sig og aðra námskeiðsfúsa framhaldsskólakennara landsins. Ég, Ásta og Íris erum búnar að vera á kafi í barneignum og fjölskyldustússi undanfarin 10-15 ár eða svo og höfum ekki tímt að fara langt frá skyldum eða teygja of mikið á óslítanlegum naflastrengjum. Þar sem yngsta barnið mitt var komið hátt á fimmta ár var ég orðin langtilkippilegust af mæðraþríeykinu heilaga. Ásta er sérskipuð strengjabrúða mín og þegar hún var komin um borð með sinn þrautseiga sannfæringarkraft var auðsótt mál að fá Írisi og Palla sem áhafnarmeðlimi. Seinni hluta sumars fór ég þó að fá aðskilnaðarkvíðakast og samviskubit (the female guilt) gagnvart börnunum og hlakkaði lítið til ferðarinnar.

Í stuttu máli tók það mig alveg þrjá til fjóra daga (af sjö) að læra að njóta þess að vera í burtu frá mínu venjubundna lífi og vera dálítið ég sjálf, hver svo sem ég sjálf er (þegar stórt er spurt....?). Það er ekki eins og ég hafi skilið þau eftir hjá ósjálfbjarga föður. Hann getur allt sem ég get gert og rúmlega það, þó að hann þykist reyndar ekki kunna að segja börnunum góðar sögur. Þær voru ósköp glaðar þegar ég kom til baka og sögðu að best væri að knúsa mig af því að ég væri með heitustu og mýkstu húðina í heimi (ekki eins kafloðin og pabbinn greinilega), en að öðru leyti liðu þær engan skort. Hjörtur fór í sitt kitesurfing þegar vindar blésu hagstætt og Helga stóra systir passaði. Mér leið vel að vita að mín var ekki of sárt saknað, enda er víst fullt af ómissandi fólki í kirkjugarðinum. Kannski pínu misheppnað hjá mér að gera mig ekki ómissandi á heimilinu, en á sama tíma hughreystandi og hvetur mig til frekari dáða.

Stefnan var að hvíla sig frá amstri dagsins með því að liggja uppi í rúmi með góða bók á kvöldin og að sjálfsögðu fara yfir glósur námskeiðsins. Já, fara snemma að sofa og vakna úthvíld. Ég gleymdi að í breytunni var Ásta sósíómeiníak sem sá til þess að við vorum alltaf saman og blönduðum meira að segja góðu geði við aðra þátttakendur. Við stelpurnar í enskudeildinni vorum saman frá morgni til kvölds en Palli tók sér ósjaldan hlé yfir daginn til þess að vera í svokallaðri "núvitund" - sem hann útfærði með því að fara einn í göngutúr og taka myndir eða liggja inni á herbergi með einn kaldan á kantinum. Að endingu saknaði hann okkar ávallt "mjög, mjög mikið" (quote) og snæddi með okkur kvöldverð á hinum og þessum stöðum í Norwich.  

Ég var ekki vel undirbúin fyrir námskeiðið sjálft. Ég vissi ca. að það héti "Bringing literature alive in the classroom" og leist vel á það, enda eru bókmenntir og líflegar kennsluaðferðir mitt helsta áhugasvið í starfinu. Nokkrum dögum áður en námskeiðið átti að hefjast spurði Lilja mig hvort að ég væri búin að lesa King Lear eftir Shakespeare. I came off mountains og hafði sem sagt ekki hugmynd um að námskeiðið krefðist einhvers undirbúnings. Ekki komst ég höndum yfir leikritið og því varð ég mér út um BBC útfærslu af leikritinu á myndrænu formi sem ég kíkti aðeins á í flugvélinni á leiðinni út. Ekki kom að sök að vera illa lesin því að í ljós kom að við áttum að vera búin að lesa As You Like It, A Midsummer Night's Dream og Jerusalem fyrir námskeiðið. Fyrir mistök láðist að geta þess og því vorum við öll jafn ólesin. Hjúkkit.

Námskeiðið var þannig sett upp að á morgnana vorum við í nokkurs konar hringborðsumræðum, sem breyttust að vísu fljótlega í hringborðseinræðu því að einum kennaranum þótti meira gaman að tala en öðrum. Í fyrstu fannst mér þetta frekar ópraktískt og leiðinlegt, en svo vandist ég því að sitja og njóta þess að hlusta án þess að þurfa að gera neitt. Þetta var ekki til prófs og því urðu glósurnar um það bil svona á hverjum degi:

IMG_6934_zps8e3f673c

Þetta er víst mitt "stream of consciousness" því að ég fékk einhvern tímann gagnrýni í grunnskóla fyrir "andlitskrot" á öllum skólabókum. Ég ætla greinilega ekki að þroskast upp úr þessu.

Anyhow, eftir hádegi var töluvert meira "action" og þá gafst enginn tími fyrir krot og kaffisyfju. Hópurinn var fluttur í "Arts hub", hvar farið var í alls kyns æfingar og ísbrjóta, túlkun á texta og leiklistarpælingar. Sumt af þessu var gagnlegt og jafnvel hægt að yfirfæra á kennsluna, en annað hefði hentað leiklistarkennurum á meistarastigi betur en okkur. Ég naut þessa hluta námskeiðsins meira en umræðnanna (einræðunnar) fyrir hádegi, jafnvel þó að ég hafi óttast í fyrstu að gera mig að fífli.

Mér tókst reyndar að gera mig að fífli fyrsta daginn, alveg óvart. Ein æfingin fólst í því að fólk átti að para sig saman og fyrir algjöra tilviljun (liar liar) lenti ég með Ástu. Næstu fyrirmælin voru á þann veg að annar aðilinn átti að segja hinum eitthvað eitt um sjálfan sig. Ég hallaði mér leyndardómsfull að Ástu, leit hana ástþrungnum augum og hvíslaði: "I am very sexy." Að sjálfsögðu fékk hún hláturskast þegar hún heyrði þessi öfugmæli sem var auðvitað "mission accomplished" hjá mér. Áður en mér tókst að finna eitthvað annað skynsamlegra og hversdagslegra eins og "I like yoga" eða "I can't live without latté" komu næstu fyrirmæli frá kennaranum, sem voru þau að breyta mér í myndastyttu sem passaði við fyrri ummæli. Ekki þýddi að hreyfa mótmælum við Ástu sem auðvitað sá sér leik á borði að stríða vinkonu sinni ofurlítið. Hún setti mig því upp í ægilega sexý myndastyttu á meðan ég táraðist af skömm og hlátri. Viðbrögðin voru eftir því - kennarinn sagði hissa, jafnvel glaður, en frústreraður: "There's always this one couple in the class..." Ekki tók nú betra við þegar Ásta átti að leika sama leik. Hún hvíslaði kankvís: "I am not a whore." Þá var mér allri lokið því að nú þurfti ég að gera mjög sérstaka myndastyttu úr Ástu OG segja hvað hún táknaði. Þetta var fyndið, vandræðalegt....ógleymanlegt. Þarna var tónninn settur.

Það var létt yfir þessum 15 manna hópi enskukennara. Ég kannaðist við örfáa en eftir smá spjall var búið að finna tengingar alls staðar. Eins og áður sagði var ég 90% tímans með Borgópakkinu en einu sinni fórum við flest út að borða í "Sunday Roast" og svo kikkuðu eldhúspartýin á kvöldin ágætlega inn. Það var ekkert hangið á börunum á kvöldin þar sem pint kostaði a.m.k. 4 pund, en ég staldraði við í eldhúsinu í nokkur kvöld og kynntist þar aðallega kennurunum utan af landi og svo auðvitað formanni FEKI sem er frábær manneskja. Hér fyrir neðan er hluti af hópnum að hlæja að þýðingu eðalfrænda míns á orðinu "selfie" sem er "miga" á íslensku. Það orð var mikið notað í ferðinni:

IMG_6819_zps6a0800ea

Hitt orðið sem ég lærði í ferðinni var "demob happy" sem kennarinn notaði yfir okkur síðasta daginn þegar við vorum ógeðslega spennt að vera að klára námskeiðið og fá viðurkenningarskjal.

Við höfðum í sjálfu sér ekki mjög mikinn frítíma í þessari ferð en vorum dugleg að skella okkur í bæinn með leigubíl þegar skóla lauk á daginn. Þá var auðvitað verslað smá og svo farið út að borða. Besta máltíðin var líklega á líbönskum veitingastað sem lét lítið yfir sér en reyndist vera ótrúlega ferskur og spennandi. Þar fékkst líka "dolma" sem er í uppáhaldi hjá mér. Það eina sem við Ásta klikkuðum á var að fá okkur "crispy duck" á kínverskum en þar sem við stefnum á að fara til útlanda á námskeið alla vega annað hvert ár eigum við svo sannarlega tíma til stefnu. Svona utanlandsferðir kosta þó sitt, eins óhagstæð og krónan er, og því kíktum við reglulega í kjörbúðina til þess að afla fanga, eins og sést glöggt á þessari mynd:

IMG_6835_zps9aef9d3c

Ásta veit að 500 punda sekt liggur við því að drekka á almannafæri en uppreisnarseggirnir í enskudeildinni létu aðvaranir hennar og fordæmingu sem vind um eyrun þjóta.

Ég var alveg að fíla Norwich. Campusinn var mjög nýlegur og flottur og borgin sjálf virtist mjög snyrtileg. Ég hafði það á tilfinningunni að bæjarráð hefði úr talsverðum peningum að moða. Ég fékk reyndar þessa tilfinningu líka í London. Þegar ég bjó þar síðast veturinn '95-'96 fannst mér margt svo gamaldags og úr sér gengið, eins og til dæmis bara almenningsklósett. Nú finnst mér Tjallinn hafa forskot á Íslendinginn. Eflaust hefur margt verið tekið í gegn í tengslum við Ólympíuleikana en fleira hefur kannski komið til. Ójá, by the way. Hópurinn fór sem sagt saman til London til þess að sjá King Lear í Shakespeare globe. Við fórum snemma af stað og þrömmuðum um bæinn allan daginn (af því að það rímar) og ég man ekki eftir eins mörgum á ferð um Oxford Street og einmitt þá. Gengin upp að hnjám þurftum við svo að standa í þrjá tíma og horfa á leikritið um kvöldið. Ekki alveg minn tebolli, því að í ofanálag stóð ég til hliðar við sviðið og sá sjaldnast framan í leikarana. Þetta var eflaust góð sýning en ég náði engri tengingu í þetta sinn. Þeir sem höfðu séð uppfærsluna heima voru reyndar á því að þessi sýning hefði verið miklu áhugaverðari. Við vorum ekki komin heim fyrr en hálf þrjú um nóttina, ansi lúin.

Ég sem sagt ætlaði að hvíla mig og lesa í þessari ferð en í staðinn vaknaði ég alltaf klukkan hálf sjö á morgnana (nema einu sinni) til þess að skokka úti í ensku sveitasælunni með Ástu og Lilju. Ég hefði svo sannarlega ekki viljað missa af því. Hvað er yndislegra en að stoppa hjá ösnum (öðrum en Palla) og smáhestum, hlaupa nokkra hringi í kringum lítið veiðivatn og heilsa hundafólkinu á morgnana? Fara svo í sturtu, drekka instant kaffi og borða Bónus múslí fyrir námskeið. Toppurinn. Hér er Ásta með "her little pony" (sem var ekta og alls ekki phony):

IMG_6887_zps598404a6

Veit ekki hvort þeirra er sætara, svei mér þá!

Úthvíld en samt illa sofin hélt svo enskudeildin heim til Íslands, örlítið fróðari en aðallega mun betur tengd, bæði innbyrðis og útbyrðis (við aðra skóla). Öflugasta (og hógværasta) enskudeild landsins yljar sér við minningarnar þangað til næst.

Núbb...þetta er að verða svolítið langt og Danskir dagar eftir...and I haven't got all night. Klassískir Danskir...ég á mjög erfitt með að skrifa Danskir með stórum staf af því að -sk reglan er svo greypt í huga minn og fráfarandi fingur. En dagarnir heitar Danskir og því verða þeir Danskir. Ég var rétt búin að taka upp úr Norwich töskunni þegar ég fór að pakka niður aftur fyrir Stykkiz. Við komum þangað í skítaveðri á föstudaginn en það var í góðu lagi af því að Kristbjörg mín elskuleg var búin að bjóða okkur í mat. Það var hið skemmtilegasta matarboð með vinafólki frá Grindavík sem auðvelt var að kynnast og eiga samleið með. Daginn eftir var glampandi sól en töluverður kaldur vindur. Eiginmaðurinn fór einn að kitesurfa um allan Breiðafjörð á meðan ég rölti með stelpurnar niður á hátíðarsvæðið og tók staðlaða hoppukastalapakkann á þetta. Eftir dágóðan tíma í biðröðum og fimm mínútna hopp hér og þar var Kristrún orðin svo þreytt (við fórum seint að sofa kvöldið áður) að við fórum heim að hvíla okkur. Reyndar teygðist ótrúlega mikið á handleggjunum mínum á leiðinni því að í öðru hvoru skrefi hitt ég Hólmara sem ég bara varð að tala við en það fannst litlunum gjörsamlega óþolandi og toguðu í mig eins fast og þær gátu. Mér fannst það hins vegar dásamlegt og rúmlega það en gat þó sett mig í þeirra spor því að svona líður mér þegar ég er á ferð með Ástu um stórhöfuðborgarsvæðið. Hún þekkir gjörsamlega alla. Og ef hún þekkir þá ekki, kynnist þeim hún á staðnum. Margt er ólíkt með Síams. Og þess vegna er Ásta með svona langa handleggi.

Um kvöldið hófst uppáhaldstíminn minn, sem er myrkrið og brekkusöngurinn. Við komum við hjá bróður mínum, Árna Johnsen okkar Hólmara (ekki viss um að hann sé hrifinn af samlíkingunni), og röltum okkur niður í bæ og settumst nálægt sviðinu með alla hersinguna. Herbert Guðmundsson sjálfur var að hita upp fyrir Bjössa bró og naut ég þess auðvitað í botn að sjá og heyra 80's goðið performera. Ég hafði ekki séð hann síðan um miðjan tíunda áratuginn þegar hann var í bóksölubransanum og keypti pulsu hjá mér á Bensó á milli ferða. Lagið "Svaraðu kallinu" hitti sérstaklega í mark hjá unglingnum mínum, en það lag hafði Bjössi oft sungið en breytt textanum örlítið, sem sagt í "Svaraðu kallinum" þegar hann vildi að við svöruðum pabba gamla, annað hvort í síma eða síendurteknum spurningum hans um hvort hann mætti fá meira whiskey. Kribba var auðvitað á staðnum líka og rifjaði upp glæsilega danstakta frá Bensóárunum sem endaði með því að hún og Helga voru búnar að koma af stað rosalegri dansbylgju fyrir aftan sig. Hér sjást nokkrir þaulvanir, kappklæddir dansarar:

IMG_0969_zps82b66315

Eftir upphitun Hebba tóku Bjössi, Zúkka Pé og Njalli (Vinir vors og blóma meðlimir) við keflinu og héldu uppi stuðinu nánast fram að miðnætti ásamt nokkrum frábærum gestasöngvurum. Óskalagið mitt komst í gegn, en Bjössi er búin að gera mig að algjörum sökker fyrir laginu "Ég er kominn heim." Lag sumarsins hjá mér - takk Bjössi! Hér er flott mynd af bróður mínum sem sýnir og sannar að hann er sannur Svefneyingur, dökkur á brún og brá:

IMG_0988_zps22895b21

Rétt fyrir miðnætti tók svo glamúrgosinn Páll Óskar og tveir pallíettudansarar við skemmtuninni og trylltu lýðinn. Þá var ekki lengur vært upp við sviðið með litla krakka og því færðum við okkur á gamla góða staðinn okkar þar sem Hjaltalínshúsið stóð. 10 mínútum eftir miðnætti hófst flugeldasýningin og hún var svo miklu betri en í fyrra. Hún reyndar misfórst eitthvað í fyrra, en þessi var í alvöru mjög flott. Samkvæmt staðli sturlaðist litla barnið mitt úr hræðslu og grenjaði í kapp við hvellina í rakettunum, en ég held í þá von að á næsta ári verði hugrekkið orðið örlítið meira. Samt eitthvað notalegt við þessa sömu dagskrá alltaf á Dönskum dögum: Hoppukastalar, brekkusöngur, flugeldasýning, barnið fríkar út. Djók - má ekki gera grín að ótta litla barnsins míns. En ég held að hún muni reyndar hafa húmor fyrir þessu síðar.

Eftir flugeldasýninguna bauðst mér að fara á ballið með Páli Óskari. Tja...sko ekki með honum sjálfum....but you know what I mean. Auðvitað fór ég ekki frekar en vanalega, en mágkona mín lét loksins verða af því og sagði að við yrðum að fara saman næst. Ég lá hvort eð er andvaka til rúmlega þrjú þannig að það hefði verið alveg eins gott að nota tímann í djamm.

Daginn eftir vakti ég kallinn snemma til þess að fara með mér, Helgu og vinkonu hennar í smá kveðjusiglingu um Breiðafjörðinn fagra. Sjórinn var spegilsléttur og sól skein í heiði - ekta svona veður til þess að trega sumarfríið sem var að líða undir lok og lyfta sálinni um leið. Eðalfleytan okkar reyndist vera rafmagnslaus en eftir japl og jaml og fuður var sjálfur Gummi Amlín vakinn upp til þess að redda starti. Við sigldum að Dímonarklökkum og þar sáum við að breiðfirzkar kindur gefa tíbetzkum fjallageitum ekkert eftir. Grasið er alltaf grænna hinum megin og ef myndin prentast vel sést að kindurnar tvær víla ekki fyrir sér að bíta kjarngott grasið í snarbrattri hlíð með þrítugan hamarinn fyrir neðan sig:

IMG_1081_zpsd69ae71a

Mmmeeejááá....svona er þetta. Ég tók alveg fullt af myndum af höfninni í Stykkishólmi á meðan ég beið eftir að Sólunni væri startað, en ég ætla að eiga þær til góða.  

Fleira er kannski ekki að frétta nema það að við byrjum óvenju seint að kenna í ár. Ég hef varið dögunum í undirbúning en með börn og búskap heima hefur fókusinn kannski ekki alltaf verið í lagi. Ég er spennt fyrir nýju skólaári en bæði kvíði fyrir og hlakka til rútínunnar. Þessar tvær síðustu vikur í ágúst eru líklega mest "busy" vikur ársins. Börnin að byrja í tómstundum, ég að byrja að kenna, afmæli hjá Björgu...held að jólin séu mun skárri hvað þetta varðar. En ég prófaði svolítið sniðugt í gær, sko. Frændi hans Hjartar er með heilun, jóga og einhverja KCR aðferð og blah til þess að koma fólki í gott líkamlegt og andlegt stand. Hann sagðist geta læknað mig af verknum í ilinni og mjöðminni sem ég fæ af því að hlaupa. Ég lét verða af því að prófa einn tíma hjá honum í gær og það var alveg sérstök upplifun. Ég er búin að vera í áskrift hjá nokkrum sjúkraþjálfurum í gegnum tíðina en aldrei fengið svona meðferð eða liðið svona undarlega eftir tímann. Mér fannst ég hálfpartinn vera máttlaus og hálfpartinn svífa það sem eftir lifði kvölds. Ekki er ég læknuð en ég ætla að prófa að fara aftur. Nú er mottóið að vera með opnari huga gagnvart nýjum hlutum. Ég prófaði meira að segja crossfit síðasta föstudag. Hentar mér líklega ekki því að kappið myndi fljótt bera mig ofurliði. Held mig við tabata hjá honum Óla mínum.  

Sjæt...nú er ég búin að blogga fyrir allt haustið. Harpa og Jakob koma á föstudaginn (jibbý), okkur er boðið í svakalegt afmælispartý þá um kvöldið (jibbý) og svo ætla ég að fylgjast með unglingnum mínum hlaupa 10 km á laugardaginn og spila á básúnuna sína úti um allan bæ með Sextett SK (jibbý). Ég fór í strípur og klippingu í dag til þess að vera tilbúin í átökin. You like?

USA004

Peace out, man.

Zola Zuckerberg :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband