Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Meyfæðing, neonafmæli, húsakaup...hvað næst?

Jæja ókey...kannski ekki meyfæðing eins og við þekkjum hana úr Biblíunni eða raunvísindunum, en 7. október fæddist fagurt meybarn af foldar skauti þannig að ég ætla barasta að kalla þessa stóru stund meyfæðingu (og hananú!). 26. september átti litla gullið að fæðast en var ekkert á því að koma út strax þannig að móðirin gat haldið áfram að brillera í hugbúnaðarverkfræðinni á meðan meybarnið þroskaði lungu og vit í móðurkviði. Hér er mynd af fljóðinu fagra örfáum dögum fyrir barnsburð, ásamt sultuafanum landsfræga, sem þekkist nú úti á götu eftir stórkostlegt innslag í Landanum síðasta sunnudagskvöld:

12042850_10153921043825579_1013016082300675757_n1_zpswniyob1x

 

Helga fór upp á Akranes í gangsetningu 6. október. Hún valdi Skagann af því að þar hafði mér liðið vel á heimavist fjölbrautaskólans og bar sterkar taugar til bæjarins. Djók. Sjúkrahúsið á Akranesi er þekkt fyrir að vera ansi notalegt í samanburði við Landspítalann, þar mega fleiri en einn vera viðstaddir fæðinguna og þar var hægt að bóka gangsetningu tímanlega fyrir heimkomu Hörpu systur Helgu og mömmu hennar frá Svíþjóð. Mér og Maren, vinkonu Helgu, hafði hlotnast sá heiður að vera viðstaddar fæðingu frumburðarins. Það var alls ekki auðvelt.

Þar sem ekki er um mína fæðingu ætla ég að sleppa öllum smáatriðum. Það sem kom mér mest á óvart var hversu mikið þetta tók á fyrir mig persónulega. Ég þjáist af syndrómi sem heitir samkennd og einkennin magnast vissulega upp þegar maður sjálfur er búinn að ganga í gegnum viðlíka reynslu. Í stuttu máli sagt var þetta drulluerfið fæðing fyrir Helgu. Sex starfsmenn voru viðstaddir síðustu tvo tímana við að koma barninu út og ég segi nú ekki annað en guði sé lof fyrir að við búum á tækniöld. 

En allt tekur enda og þegar elsku litla barnið kom loksins í heiminn var mikið grátið. Hjörtur afi beið frammi og fékk að koma inn um leið og barnabarn númer tvö var fætt og það var stór stund:

bulog4_zpskhmkfu1s

Hversu falleg sjón? Gullið reyndist vera 14 og hálf mörk og 52 sentimetrar á lengd, yndisleg alveg þrátt fyrir stórt svöðusár á höfði eftir sogklukkurnar (já, það þurfti tvær!). Helga sendi mig og vinkonuna heim og Hjörtur fékk að gista um nóttina uppi á spítala með dóttur sinni og dótturdóttur. Þvílíkur lukkunnar pamfíll! Hvað er annars pamfíll? Svarið fæst hér.

Þegar ég kom heim um nóttina eftir fæðinguna fann ég að ónæmiskerfið var að hrynja; bullandi vöðvabólga, sláttur í vörinni og hressileg hálsbólga voru að taka völdin. Svona fer tilfinningarússíbaninn með miðaldra konu utan af landi. Leikar fóru þannig að ég kvefaðist svo mikið að ég missti röddina og þurfti þar af leiðandi að sleppa því að fara í Hólminn og á árgangamótið mikla. Mjög leitt að missa af því en að sama skapi stórkostlegt að fá að fylgjast með fæðingu barnabarnsins. Þess má geta að hetjan hún Helga og litla krílið braggast og bera sig ótrúlega vel, þrátt fyrir allt. Hin stóíska ró sem einkennir Helgu virðist hafa færst yfir á barnið líka. Hún nærist vel, sefur eins og engill og þegar ég horfi á þær tvær sé ég hina einu sönnu ást, svarið við tilgangi lífsins. Ég er svo þakklát fyrir að hafa orðið vitni að þeirra fyrstu kynnum.

Auðvitað hefði ég átt að blogga strax eftir fæðinguna því að svona stór atburður á skilið að fá alveg sér færslu. En þar sem ég er enn við sama heygarðshornið er bloggið í besta falli "hið mánaðarlega" og því þarf að koma fleiri stóratburðum að. Ég ætti að temja mér að blogga að minnsta kosti vikulega eins og stórvinkona mín, hún Guðrún Guðjónsdóttir. Endilega tékkið á bráðskemmtilegu kjólabloggi hennar hér.

Næsti stórviðburður er 10 ára afmæli miðjubarnsins míns. Fæðingarsaga hennar var til á hinu blogginu mínu sem dó (blogcentral) en ég á hana reyndar vistaða á word skjali. Fæðing frumburðarins minnti ansi mikið á "meyfæðinguna" margumræddu þar sem gangsetning og sogklukka kom mikið við sögu. Ég var því fyllilega sannfærð um að hún Sigrún mín Björk kæmi 2 vikum á eftir áætlun eins og stóra systir hennar, en því var nú aldeilis ekki að heilsa. Ég var sett 24. október og ákvað að hafa það huggulegt síðustu vikurnar og skráði mig því á 17. október sem síðasta kennsludag og byrjun á fæðingarorlofi eftir það. Að kvöldi 16. október byrja ég að vera eitthvað voðalega skrítin og eyddi svo nóttinni í nýlærða jógaöndun með 5 mínútur á milli hríða. Þess má geta að eiginmaðurinn steinsvaf við hliðina á mér, en heyrði eitthvað smá púst í svefnrofunum. Aldeilis gott fyrir hann að mæta úthvíldur í fæðinguna. Ég sendi alls konar sms og tölvupósta um nóttina til þess að staðgengill minn gæti tekið við hlutverki mínu einum degi fyrr en ætlað var og svo fæddist dásamdardaman mín uppi á Landspítala kl. 11 morguninn eftir. Hér er hún 10 árum síðar:sigrun100_zpsvrwziniw

Samstarfsmaður minn sagði einu sinni við mig þegar ég var ólétt að minni yngstu að Sigrún yrði mjög heppin að verða miðjubarn. Þá gæti hún fengið að blómsta og þroskast í friði fyrir væntingum og endalausum afskiptum foreldra sinna. Ég skildi ekki orð hans þá, en skil þau betur núna, enda sjálf miðjubarn og klárlega besta eintak foreldra minna þó að ég sé ekki viss um að þau séu enn búin að fatta það....múahahahahahahahahahha! Sigrún hefur spjarað sig ótrúlega vel bæði í leik og námi og er alls enginn eftirbátur stóru systra sinna.

Anyways...stelpan hefur lagt mikið upp úr afmælum sínum í gegnum tíðina og hefur sett mikla pressu á mig að vanda vel til verka. Í 6 ára afmælinu var prinsessuþema. Í 7 ára afmælinu var hrekkjavökuþema. Í 8 ára afmælinu var náttafataþema. Í 9 ára afmælinu var öfugt þema (ekki fleiming samt...) og í 10 ára afmælinu....eftir mikið gúgl af því að okkur vantaði KÚL hugmyndir og eitthvað sem enginn hafði gert áður og....þvílík pressa...sem sagt...þá var NEON afmæli. Jú, það krefst yfirlegu líka. Hjörtur snillingur aðstoðaði okkur auðvitað við að redda svokölluðu "blacklight" sem gerir allt hvítt alveg dásamlega neonhvítblátt og auðvitað neonliti alveg sérstaklega skæra. Partýbúðin átti alls kyns ljósadót sem kostaði ekkert endilega hvítuna úr augunum og svo þurfti bara að birgja alla gluggana í húsinu með svörtum plastpokum, hugsa upp fjölda leikja sem aldrei höfðu verið notaðir í afmælum áður og.... Tja jæja...ég lagði ekkert í veitingarnar í ár. Snillingarnir frá Dominos mættu með pizzur í púkkið og frumlega frúin ég bjó til afmælisköku úr fjórum mismunandi tegundum af ís, pressuðum ofan í skúffukökuform og með einhverju nammidrasli í kring. Jú, svo grilluðu grísirnir reyndar sykurpúða í millitíðinni. Það kviknaði næstum því í ljósakrónunum frá Ali Express sem hanga yfir eldhúsborðinu, en sem betur hlaut enginn varanlegan skaða af. Hér eru allir í neonstuði:

bulog7_zps00aa12ml

Daginn eftir átti svo draumadísin mín 10 ára afmæli, sama dag og Eminem, uppáhaldsrapparinn minn. Óli afi mætti galvaskur á staðinn með þennan fína pakka handa stelpunni sinni:

bulog1_zps8jwrgz3r

Í pakkanum voru akríllitir og strigi þannig að hann vill greinilega að Sigrún feti listabrautina eins og hann sjálfur. Sigrún hefur marga hæfileika á handverkssviðinu, sem hún fær frá afa sínum í móðurætt og líklega allri föðurættinni eins og hún leggur sig. Faðir hennar leggur sig alla vega á hverjum degi. 

Sveiflum okkur nú yfir í Björgu. Hún er farin að blogga og hér er enn eitt "hér"-ið til þess að leiða fólk frá þessari löngu færslu. Svolítið eins og þegar ég er að vinna húsverkin heima og byrja á því að brjóta saman þvottinn, sé svo að það þarf að taka til inni á klósetti og allt í einu er ég farin að raða skóm inni í skáp, þar næst setja í uppþvottavélina smá, svo sé ég að það vantar vatn í skálina hjá köttunum og þá fer ég niður í kjallara og fer að kíkja í orðabækur, skeini krakkann í millitíðinni og sé að það væri sniðugt að fara í gegnum blaðabunkann og þremur tímum seinna sé ég að ég þyrfti kannski að fara að klára að brjóta saman helvítis þvottinn. Er ekki annars í tísku að vera með athyglisbrest? Um hvað var ég annars að tala? Já já, hana Björgu mína í Costa Rica. Hún ber sig bara nokkuð vel, stelpan. Ég hugsa til hennar á hverjum degi en er alveg róleg núna og hef fulla trú á að hún komi heil heim. Það er nú mikill léttir. Nógar áhyggjur þykist maður nú hafa samt. Hjörtur saknar hennar svo mikið að hann er búinn að skipuleggja kitesurfing ferð til Costa Rica í lok janúar, án mín auðvitað. Hrrmpf.

Heyrðu...við skelltum okkur í Hólminn um helgina! Ég var svo heppin að eiga einn dag í miðannarfríi á sama tíma og stelpurnar voru í vetrarfríi í skólanum. Við áttum þrjá notalega daga í kotinu okkar í Vallabúð ásamt Helgu og tveggja vikna yndisfríða skottinu sem svaf nánast samfleytt í 60 klukkustundir - með örfáum drykkjarpásum. Ég man ekki eftir að hafa gúglað "of langur svefn" hjá mínum dætrum (enda varla búið að finna upp internetið, hvað þá google þegar sú fyrsta fæddist), en Helga var farin að hafa áhyggjur! Við gerðum okkur ýmislegt til dundurs í kuldanum. Helsti klassíkerinn var að fara í búðarráp (flest var lokað...bless sumartraffík!) og heimsókn til Majömmu. Hún tók okkur stelpunum fagnandi eins og alltaf:

bulog3_zps5q7y0iof

Reyndar virkar hún svolítið áhyggjufull á svipinn þarna, enda með alvarlegan ofvita sér á vinstri hönd og snarklikkað himpigimpi undir hægri handlegg. Alltaf yndislegt að mæta til ömmu sinnar. Svo fórum við í dásemdarmatarboð til Kribbu og Badda á Fagurhóli, kíktum í sund til fallega forstöðumannsins og bjuggum til snjókarl úr fyrsta snjónum sem féll á sunnudeginum. 

Svo skoðuðum við líka eitt lítið hús....:

bulog2_zpst3oh9yuk

Hér sést það í mánaskininu. Það er lítið að utan en stórt að innan. Frekari fréttir síðar. Stay tuned...eða eitthvað.

 

Yngismærin svefnsjúka verður skírð hérna í Daltúninu næsta laugardag. Ég hef ekki hugmynd um hvað barnið á að heita. Mér skilst að vinnuheitið "Karítas Sól" fái að fjúka. Ég segi því enn og aftur: Stay tuned!

Sóla Skúla... :)


Búið afmæli og beðið eftir barni

It has been a while, en ekkert væl, ég blogga um hæl. Að vísu ætla ég lítið að tjá mig um hælinn og bakið og magasárið og andlegu hliðina og...enda er ég glöð og góð í dag og það skiptir mestu máli.

Mig langar til þess að eiga minningar um afmælisdaginn minn, rétt eins og í fyrra sem lesa má um hér. Þá snjóaði á afmælisdaginn minn og líka í ár. Þann 3. október kemur fyrsti snjórinn - það er bara staðreynd.

Ég svaf frekar illa aðfaranótt afmælisdags - vaknaði sem sagt um miðja nótt með ónot í maga sem minntu á magasárið í ágústlok. Ástæðan var nú bara rauðvínsdreitillinn sem ég saup á í matarboði kvöldið áður og því verður svoleiðis vökvi að vera á bannlistanum áfram. En svo sofnaði ég aftur og vaknaði hress við brölt í eiginmanninum sem var að fara að græja morgunmat handa gömlu og grísunum. Tveir fínir pakkar biðu mín við morgunverðarborðið. Annar frá Lúllu sys (leðurhanskar og varalitur) og hinn frá fjölskyldunni, fagurlega myndskreyttur af Diddú og Kiddú:

IMG_3653_zpscgxjhoep

Í honum var svokallaður "duffelbag" sem er skyldueign þeirra sem ætla að reyna að klífa Kilimanjaro. Í hann setur maður notalegan svefnpoka og hlýjustu útivistarföt sem finnast á jörðu hér. Svo ber einhver innfæddur pokann á höfði sér á meðan ég reyni að skríða upp á 20% súrefni.

Ástu brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn. Þegar ég leit út um eldhúsgluggann um hádegisbil blasti við mér fögur trampolínskreyting:

IMG_3654_zpsd4tqpupc

Þarna voru komnir pakkar og blöðrur (sem höfðu reyndar fokið út um allan garð) frá Ástu og enskudeildinni. Þar var meðal annars að finna forláta Sólupeysu og dásemdar ullarföt til þess að nota innst klæða á þetta fjárans fjall. Svo bakaði Aðalsteinn Ástuson ljúffenga köku fyrir tengdamóður sína.

Þegar konur eiga afmæli mega þær ráða degi sínum sjálfar. Í stað þess að sitja heima og taka á móti gestum allan daginn fannst mér mun meira spennandi að fara í göngutúr með fjölskyldunni og anda að mér köldu haustloftinu. Já, ég er miðaldra. Við hjónin fórum með litlu lufsurnar upp að Rauðavatni og týndum þar ber (misfrosin). Kristrún var við það að andast á leiðinni upp hæðina (svooo illt í maganum og fótunum) en var léttfætt á leiðinni til baka. Hér eru stelpurnar glaðar með aldraðri móður sinni:

IMG_3655_zpsumhxgiba

En auðvitað verður að halda smá partý, þannig að ég bauð bara þeim allra nánustu í mat eins og vanalega. Það var líka mikið fyrir þessu haft. Hjörtur þurfti að panta sushi og sækja það alla leið upp á Nýbýlaveg. Hér er liðið að smjatta á sushi og drekka sódavatn:

IMG_3662_zpsdzgx2fnh

Kiddú alltaf eilítið glettin og grettin.

Afmælisbarnið henti svo í afskaplega vandaða ístertu með helstu aðalleikurunum í Kilimanjarobloggi framtíðarinnar:

cake_zpsf3t2oywl

Kiddi, Gudda, Jóla, Vallý og Lillý, ásamt höfuðskepnum Tanzaníu. Dýrin og tréin bjó ég til úr sykurmassa. Not.

Tengdó mættu með yndislega ilmandi blómvönd frá Dalsskarði eða Dalsgarði (ilmandi rósir eru sjaldséðar nú til dags). Pabbi mætti líka með blóm (ég afþakkaði kransa) og nafnabók og KSÍ treyju sem ég klæddist það sem eftir lifði kvölds. Auðvitað verður maður að eiga slíkan búning þegar Ísland er komið á EM! Halldór Ásgeir færði með fallegan blómvönd og Bjössi bró og hans fjölskylda færðu mér...tja...allan heiminn, svei mér þá. Gjafastíll bróður mins minnir mig óneitanlega á móður mína sálugu, sem lagði hjarta sitt og lifur í að finna jólagjafir allt árið svo að maður væri örugglega hálftíma að vinna úr því sem upp úr pökkunum kom! Ég fékk einhverja bluetooth tónlistargræju, Dömusiði Tobbu Marinós (ekki veitir af!), vasahníf með alls konar fítusum (fyrir fjallið auðvitað) og...og...alls konar stöff! Já...bíómiða, inniskó (einnota af einhverju hóteli sem hann dvaldi á í Ítalíu hér um árið) og svakalega skemmtilega bíómynd frá Flateyjardvöl fjölskyldunnar í sumar. Drengurinn var búinn að leggja marga tíma í að klippa þetta til og var þetta hið besta (og jafnframt eina) skemmtiatriði á afmælinu mínu. Kvöldið endaði svo á því að opna kampavín frá föður mínum og skála fyrir afmælisbarninu. Hér erum við feðgin, búin að skála mismikið og ferðbúin á fjallið:

IMG_3689_zpsbmg6vndq

Takið eftir KSÍ peysunni á mér og bláu húfunni á pabba, sem var afmælisgjöf frá GG vinkonu!

Þegar gestirnir voru farnir (á afar kristilegum tíma) settist ég við tölvuna og lækaði afmæliskveðjur á facebook í gríð og erg, á milli þess sem ég reyndi að toga upp úr Helgu einhverjar upplýsingar um nafn á ófæddu stúlkubarni. Án árangurs.

Já, ég á von á barnabarni á allra næstu dögum. Ég er reyndar búin að vera í startholunum síðan í lok september af því að settur dagur var 26. september. Litla stelpan virðist ekkert vera á leiðinni út í þennan fagra heim þannig að nú er bara beðið eftir upplýsingum um gangsetningu í vikunni. Helga ætlar að eiga uppi á Akranesi og mér hlotnast sá mikli heiður að fá að vera viðstödd fæðinguna. Ég var auðvitað á staðnum þegar mínar dætur fæddust (really?) en mér finnst eins og ég sé að fara að kanna ókunnar slóðir núna. Ég var búin að segja að barnið myndi fæðast 7. október en kannski kemur hún oktunda áttaber? Skiptir ekki máli, ég á tvær mjög góðar vinkonur sem eru fæddar á þessum dögum. 

Það eru alla vega mjög spennandi tímar framundan og næsta blogg verður tileinkað nýborinni móður og yndisfögru meybarni hennar og okkar allra.

Svo mun ég að sjálfsögðu segja fréttir af Björgu minni í Costa Rica. Ég lofa að blogga fyrir jól!

Sól'amma kveður að sinni...

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband