Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

London baby yeah!

Ekki á morgun heldur hinn förum ég og frumburðurinn til London. Ég fór IMG_6062[1]þangað í fyrsta sinn sumarið 1984 með föður mínum fallega. Þar áttum við skemmtilega viku saman, fermingarbarnið ég og faðir minn hann. Ha ha, þetta var gáfuleg setning. Pabbi gaf mér sem sagt Lundúnaferð í fermingargjöf sem var auðvitað besta gjöf sem hægt var að fá: Tími með pabba og frábær borg! Ekki vissi ég þá að ég ætti eftir að búa í borginni síðar og eiga erindi þangað ansi oft, en svona getur spilast skemmtilega úr hlutunum. Árið '94 var ég au pair í fjóra mánuði í Stanmore í London og hef haldið góðu sambandi við fjölskylduna síðan. Við skiptumst á jólagjöfum og skrifumst reglulega á þannig að planið er að kíkja í te hjá Palmer fjölskyldunni. Veturinn '95-'96 fékk ég svo aðstoðarkennarastöðu í London (sótti reyndar um Grikkland) og eyddi góðum 9 mánuðum þar við leik og störf í 3 grunnskólum (primary) og 2 framhaldsskólum (upper secondary). Svo hef ég nokkrum sinnum farið til London í tengslum við skólastarfið, þar af oftast með Ástu minni. En nú fær Björg Steinunn loks að kynnast fyrirheitnu borginni og við erum báðar alveg svakalega spenntar.IMG_6077[1]

Veðurspáin er upp á sól og blíðu nánast allan tímann, en vonandi dregur ský fyrir sólu svo að við fáum ekki samviskubit þegar við skreppum inn í búð. Björgu langar mikið til þess að kynnast undraheimum Primark og H&M en þar sem hennar eyðslufé er takmarkað á ég nú alveg von á því að IMG_6080[1]við getum líka "tanað" okkur í Hyde Park og gert fleira skemmtilegt. Planið er að njóta ferðarinnar og vera ekki of uppteknar af því að sjá "allt." Dýragarðurinn, Camden Town, vaxmyndasafnið og London Dungeons eru á listanum, en Björg er blessunarlega laus við mikinn söngleikjaáhuga (sjaldan fellur eplið...). Hins vegar mun ég leggja ríka áherslu á að hún fái að borða sem fjölbreyttastan mat. Crispy duck er efst á listanum, síðan indverskir réttir sem fá okkur mæðgur til þess að gráta saman (ekki af gleði) og valda mexikóskum brjóstsviða daginn eftir, því næst fiskur og franskar með nokkrum desilítrum af ediki út á...  Hún er reyndar spenntust fyrir "Dunkin' Donuts" sem hún fullyrðir að megi finna á hverju horni í London, þannig að við getum allt eins tekið einn amerískan dag með Dunkin og Starbucks. Kannski ég hendi inn örbloggum þarna úti á i-padinn hennar Bjargar?

Anyways, ég skreytti þessa færslu með nokkrum myndum frá blíðviðrinu síðasta sunnudag. Kristrún sjúklingur hresstist þá um stund og renndi sér nokkrar ferðir ofan í litlu sundlaugina sína með Sigrúnu stóru systur, en gafst svo upp og steinsofnaði með hönd undir kinn. IMG_6081[1]Kristrún er orðin hress núna og fór í leikskólann í gær. Sigrún er hugsanlega að taka við - alla vega illt í maganum og komin með niðurgang, en það kemur í ljós á eftir hvort að nóttin verði erfið. Ég sjálf (ef mig skyldi kalla) hef verið með stöðuga ógleði síðustu þrjá daga, en held að hún sé á undanhaldi. Nú er bara að biðja og vona að Björg Steinunn verði ekki með pestina í London því að þá er ferðin ónýt! Nei nei, hún verður hraust og þetta verður gaman! Við ættum kannski að pakka niður íslenska fánanum, just in case....sko ef Ísland vinnur Eurovision?

Goodbye Iceland!

Sóla Palmer  Grin


Helga stúdent og Snati farinn í sumarlandið

Stúdentshelgi að baki og allir glaðir, þó sérstaklega stúdínan sjálf og stoltir foreldrarnir. Helga Rún rúllaði upp prófunum og má svo sannarlega vera ánægð með árangurinn. Hógværa stúlkan hafði eitthvað verið að hugsa um að halda bara enga veislu, en endaði svo á því að halda þrisvar upp á áfangann.

Á föstudagskvöldið fékk hún sína önd í appelsínusósu og kökur að eigin vali í eftirmat: 

814aab11

Konfektkaka og Babe Ruth kaka.

Lítið var um "skál í boðinu" og enn færra um gesti, en Svava og kó ásamt Ásgeiri afa kíktu í bra bra og meðlæti. Hér er fallega fólkið:

7ee33ce8

Svava fornstúdent, Helga nýstúdent, Ásgeir afi og Kristrún kjúklingur...ég meina sjúklingur.

Sæta spæta var alveg til í að pósa með húfuna þó að formleg útskrift hefði ekki farið fram:

1eac18f9 

Sjaldan hef ég séð manneskju sem ber stúdentshúfuna eins vel!

Á laugardag fannst mér Kristrún eitthvað vera að skána þannig að allir í fjölskyldunni voru dressaðir upp og mættu á útskriftina í Borgó. Ég var nú svo séð að geyma stelpurnar uppi í sófum á annarri hæð því að ég hvorki treysti á þolinmæði þeirra né heilsu Kristrúnar. Útskriftin reyndist svo vera alveg ógnarlöng og Kristrún fékk svo heiftarlega í magann að ég varð frá að hverfa. Ég náði samt að sjá alla flottu nemendur mína útskrifast og hana Helgu okkar auðvitað líka:

726d094d

Bryndís skólameistari og Ingi Bogi aðstoðarskólameistari afhenda Helgu Rún prófskírteinið.

Fjölskyldan mín fagra hafði ágætis útsýni af annarri hæðinni:

 499327a2Hjörtur sæti, Sigrún sæta og Kristrún magapína.

Eftir útskriftina fór Helga í flott kaffiboð hjá móðurfjölskyldunni en hélt svo sjálf svaka haka partý um kvöldið heima hjá sér, fyrir alla vinina. Ég sendi Hjört, hirðljósmyndara "Zola's Zone", í partýið með zzúúúmlinsuna. Hann tók fínar myndir af glæsilegu fólki:

helgastudent Helga Rún 

Hér er önnur af henni og Patta skratta, hinum gullfallega ketti þeirra Hörpu og Helgu:

helgapatti

 

 

 

 

 

Helga og Patti


 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Svo er auðvitað kominn tími til þess að heimsfrumsýna kærasta Helgu, fyrst að þau eru nú skráð sem par á facebook og komin í sambúð:
helgajon
 Helga og Jón Grétar, ástfangin upp fyrir haus!
 
Helga stefnir á að fara í fjármálaverkfræði í HR næsta vetur, en þarf hugsanlega að bæta við sig smá stærðfræði og efnafræði fyrst. Það kemur allt saman í ljós fljótlega. Framtíðin er hennar og hún er björt!
 
En ekki hafa dagarnir undanfarið verið gleðilegir fyrir alla. Hann elsku Snati hennar Ástu minnar er búinn að vera mikið veikur undanfarið, tæplega sjö ára gamall, og í dag kvaddi hann þennan heim. Enginn hundur hefur verið mér eins hjartfólginn, enda var hann bara lítill hvolpur þegar við Ásta vorum saman alla daga með Aðalstein og Sigrúnu í fæðingarorlofi. Hann fór út að ganga með okkur á hverjum degi og þegar við urðum "ögn" sprækari fór hann oft í langa hlaupatúra. Fyrstu mánuðina sína drakk hann meira að segja brjóstamjólkina OKKAR. Jú jú, börnin voru gjörn á að drekka yfir sig og gubbuðu þá reglulega á gólfið. Snati var þá ekki seinn á sér að sleikja upp herlegheitin og hefur hann haft mennska eiginleika upp frá því. Það er sagt að hundar dragi dám af eigendum sínum. Snati og Ásta voru sem eitt. Hann fylgdi henni eins og skugginn, var ákafur í öllum sínum gjörðum, ótrúlegur hlaupahundur og gelti á karlmenn. Ókey...Ásta geltir kannski ekki á karlmenn en hún lætur þá alveg heyra það. 
 
Ásta var svo góð að leyfa mér að kveðja elsku litla hundinn hennar áður en hann fór til ömmu og afa í sumarlandið (eins og hún orðaði svo fallega). Að horfa í þessi góðlegu, brúnu augu og strjúka fallega feldinn í síðasta sinn bar mig nánast ofurliði. Ásta og fjölskylda misstu mikið í dag og get ég víst fátt annað gert en að votta þeim mína dýpstu samúð. Ég vona að áföllin verði ekki fleiri - það er komið alveg meira en nóg. Hér er svo mynd af litlu Snatalús á sínu fyrsta ári:
 snati
Í göngutúr með Sólu frænku og Ástu mömmu árið 2005.
 
Skin og skúrir, lífsins saga.
 
Sóla Helgustjúpa og Snatafrænka 

Upp og niður, niður og upp

Það er nú aldeilis margt búið að ganga á síðan síðast. Sumt af því verður ekki tíundað hér á laufléttri bloggsíðunni, en allt er gott sem endar vel. Ég hef hugsað mikið um það síðustu daga, eins og reyndar oft áður, hversu mikilvæg heilsan er. Að mínu mati hlýtur hún að tróna efst á toppi forsendulista hamingjunnar. Alvarleg veikindi eru ekki síður erfið fyrir aðstandendur sjúklingsins og marka eflaust djúp spor í sálu nánustu fjölskyldumeðlima fyrir lífstíð. Ég las reyndar grein um daginn sem skrifuð var frá sjónarhóli móður sem misst hafði unga dóttur sína. Greinin var skrifuð á mjög jákvæðum nótum um hvað lífið væri í raun dásamlegt, þrátt fyrir þessa hræðilegu reynslu sem fjölskyldan þurfti að ganga í gegnum. Ég hef aldrei getað séð fyrir mér að hægt sé yfirleitt að lifa, draga andann, eftir andlát barns. Tilhugsunin er yfirþyrmandi. En þetta verður fólk víst að gera. Falleg grein og vakti eflaust von í hjarta margra. Erfið lífsreynsla kennir fólki oft að meta betur það góða sem lífið hefur upp á að bjóða og að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut.

IMG_5885[1]Mér varð ítrekað hugsað til foreldra langveikra barna þegar Kristrún litla fékk verstu gubbupest sem knúið hefur dyra í Álfatúni númer eitt. Ef maður sjálfur er búinn á því eftir þrjá sólarhringa, hvernig er líðanin þá hjá foreldrum barna sem eru haldin illvígum sjúkdómum og baráttan stendur í mánuði og ár? Það er erfitt að setja sig í þessi spor. Kiddú litla kría byrjaði að kasta upp aðfaranótt miðvikudags sl. Við erum nú alveg hætt að kippa okkur upp við gubbupest hérna á heimilinu, enda átti Kiddú góða syrpu bara fyrir hálfum mánuði síðan. Ónæmiskerfið virðist ekki vera upp á það besta og ef eitthvað er að ganga á leikskólanum færir hún okkur sýnishorn af því heim. Krílið var nánast í fanginu á okkur allan daginn og þegar líða fór á kvöldið varð alltaf styttra á milli uppkasta. Hún var líka með hita og niðurgang og var orðin ansi máttfarin þannig að okkur var ekki farið að lítast á blikuna. Ég var eiginlega dauðhrædd  um að þetta væri eitthvað annað og verra en bara gubbupest þannig að viðIMG_5899[1] fórum með hana í skyndi á læknavaktina. Hún kastaði upp í bílnum á leiðinni og svo á biðstofunni, þrátt fyrir að biðin væri ekki löng. Læknirinn skoðaði hana og úrskurðaði að Kristrún væri með þessa mjög svo slæmu pest sem væri að herja á börn núna. Við vorum mun rólegri eftir þessa skoðun og Kiddú var mjög ánægð með Gatorade drykkinn sinn sem hún fékk eftir heimsóknina, enda hafði hún aldrei áður fengið að bragða svona góðgæti á sinni löngu ævi. Eftir nokkur upp og niður skipti til viðbótar sofnaði hún værum blundi og foreldrarnir líka.

Daginn eftir voru uppköstin og niðurgangurinn ekki eins tíð, en hún var komin með tæplega fjörutíu stiga hita og mikla kviðverki. Vildi ekkert borða og Gatorade drykkurinn var kominn neðst á vinsældalistann. Dagurinn fór í að liggja við hliðina á henni og strjúka mallakútinn, mjóbakið og ennið til þess að lina sárustu verkina. Litla dúllan var komin í mók seinni partinn og náðum við litlu sem engu sambandi við hana. Hitalækkandi stílar höfðu engin áhrif og sá litli vökvi sem komst upp í hana skilaði sér ekki ofan í maga. Við hringdum niður á barnaspítala og vorum beðin um að koma með hana strax. Þar stóð til að gefa henni næringu í æð, en fyrst vildi læknirinn reyna að koma ofan í hana drykk með elektrólítum. Okkur til mikillar gleði fannst Kiddú hann bragðgóður og í tvo tíma lá hún á læknabekk og fékk 4 ml. af drykknum á 5 mínútna fresti. Við fengum svo að fara með hana heim rétt fyrir miðnætti og Kiddú svaf uppi í rúmi hjá mömmu sinni í fyrsta sinn í rúm tvö ár. Ég sprautaði upp í hana drykknum góða með reglulegu millibili, þangað til hún lokaði litla munninum sínum alveg og var búin að fá sig fullsadda.

IMG_5907[1]Við sváfum alveg þokkalega til hálf fimm, en þá vöknuðum við báðar við drunur úr næsta herbergi. Heimilisfaðirinn hafði verið sendur til þess að sofa í barnaherberginu svo að nægt pláss yrði fyrir litla sjúklinginn hjá mömmu. Ég fór inn til hans og sagði honum að hætta að hrjóta og fór svo aftur inn að sofa. Skömmu síðar kom hann inn í herbergið til okkar, fann á sig föt, fór aftur út úr herberginu og lokaði á eftir sér! Ég skildi ekkert í þessu háttarlagi en okkur mæðgunum tókst eftir nokkurt þóf að festa svefn og vöknuðum við vekjaraklukkuna á slaginu sjö. Þá var Kristrún alveg að drepast í maganum, gjörsamlega engdist sundur og saman og var enn með hita. Mér tókst að græja morgunmatinn fyrir Diddú og Böddey, nesti í skólatöskuna, tagl í hárið og lét svo táningnum eftir að koma millistykkinu í skólann. Sjúklingurinn fór kvalinn í rúmið en sofnaði fyrir rest og mamman með. Dásamlegur aukasvefn! Klukkan 11 vakti ég krílið og þá var hún heldur hressari og vildi fá eitthvað að borða. Hún innbyrti alveg einn fjórða af banana áður en hún fékk mikla kviðverki og niðurgang í kjölfarið. Elsku stelpan. Stúdentskvöldverður Helgu átti að vera um kvöldið og við vorum alveg á báðum áttum með hvort að við ættum að fresta honum til sunnudagskvölds eða láta til skarar skríða. Kristrún skiptist á að vera pínu hress og virkilega óhress en hitinn fór lækkandi og um kvöldið var hún orðin hitalaus. Við ákváðum að halda kvöldverðinn, en Helga stúdent er efni í aðra og glaðlegri færslu. Rétt fyrir kvöldmat fór ég að spyrja Hjört út í undarlegt háttarlag heimilisföður um nóttina. Hann sumsé hélt að ég hefði verið að vekja hann til þess að koma stelpunum í skólann (ég veit ekki hvernig honum datt það í hug - hann er Sleeping Beauty í þessari fjölskyldu og fær að halda þeim titli ævilangt....maður fer ekki illa með eldavélina sína...múahhahaaha). Hann fór því og klæddi sig, lokaði hurðinni hjá okkur, vakti Sigrúnu, græjaði morgunmat fyrir hana og leit svo á klukkuna: 04:44. ÚPS! Sigrún var send aftur inn í rúm og mundi svo nánast ekkert eftir þessari aukavakningu daginn eftir.

Kristrún var enn með magaverki þegar hún fór að sofa seint í gærkvöld, en átti samt góða spretti inn á milli í matarboðinu. Renndi sér meira að segja einu sinni í rennibrautinni! Hún sefur enn á sínu græna, sem er vonandi góðs viti.

Þó að þessi gubbupest hafi verið átakamikil og vakið mikinn ugg í brjóstum foreldranna, kom ýmislegt fyndið upp úr Kristrúnu þegar hún vaknaði upp úr mókinu af og til. Eftir eina gubbhrinuna sagði hún áhyggjufull: "Ég gleymdi að fara í fílarennibrautina!"  Tveimur tímum seinna vaknaði hún aftur og gubbaði. Áður en hún lagðist aftur í mók sagði hún: "Það má ekki stinga sér í þessa sundlaug!" Hugur hennar hefur greinilega verið hjá sundstöðum höfuðborgarinnar í meðvitundarleysinu.

Nú eru komnir tveir nýjir tengdasynir í fjölskylduna, en Kristrún er greinilega ekki að átta sig á tengslunum. Um daginn spurði ég hana hvað stóru systur hennar hétu. Hún taldi þær allar samviskusamlega upp: "Sigrún, Björg, Helga, Harpa og Rasmus." Rasmus er sko kærasti og tilvonandi barnsfaðir Hörpu þannig að ég spurði hana hvort að hún væri viss um að Rasmus væri stóra systir hennar. "Já. Hann var að kitla mig. Hann er mjög fyndinn." Þá vitum við það. Kristrún á fyndna, sænska stóru systur sem heitir Rasmus.

IMG_5942[1]Annað gullkorn kom frá henni rétt áður en veislan byrjaði í gær þegar hún sagðist eiga átta afa. Svo byrjaði hún að telja upp: "Eiríkur, Óli, Ásgeir...." sem var allt rétt hjá henni, en líka alveg upptalið. En hún var ekki hætt: "Hvað heitir hinn afinn? Ég man ekki hvað hann heitir! Jú, hann heitir Jón Grétar!" Elsku tveggja ára trítillinn hélt að nýji kærastinn hennar Helgu væri líka afi hennar. Mjög skiljanlegt þar sem að undanfarið hefur hún nánast bara umgengist afa sína og stóru systurnar. Ég þarf að kynna hana fyrir hugtakinu "kærasti"  við gott tækifæri.

En eins og ég sagði í upphafi: Allt er gott sem endar vel. Kristrún er enn sofandi þó að klukkan sé orðin tíu. Það er eflaust góðs viti og stelpan vaknar eldhress með mikla matarlyst, enda lítið búin að nærast í rúma þrjá sólarhringa. Eins og sést á síðustu myndinni er mikill merkisdagur í dag því að stórasta systirin, hún Helga okkar Rún, er að útskrifast sem stúdent! Kristrún fékk að prófa húfuna í gær og líkaði vel. En afrek Helgu krefjast sér færslu sem kemur á næstu dögum, vel myndskreytt og skemmtileg. Núna er Kristrún vöknuð og pabbi vindur sér beint í að skipta á kúkableyju. Það þýðir að enn er verið að skila rétti gærdagsins en ég vona að hún sé að hressast. Hvernig er annars hægt að fylla fimm koppa á dag þegar lítið sem ekkert fer ofan í magann? Er þetta svona sem detoxið virkar?

Nú þarf ég að reyna að huga að því að finna sokkabuxur með engu gati og einhverja kjóldruslu við svo að ég verði mér ekki til skammar á mínum eigin vinnustað. Útskrift í Borgó kl. 14:00 í dag! Til hamingju Helga mín!

Sóla glaða Grin


Hjólrún þrautakóngur

Nú er "hjólað í vinnuna" hafið og hjólaumferðin aldrei meiri eftir stígum borgarinnar. Ég hef verið nokkuð iðin við að hjóla í vinnuna undanfarið, sérstaklega af því að ég get lítið hlaupið og vantar einhverja hælvæna brennslu í staðinn. Ásta hefur yfirumsjón með átakinu í Borgó eins og ávallt. Hún sendi öllum starfsmönnum skólans tölvupóst með með skemmtilegu tvisti sem vakti áhuga minn: 

"Við ætlum svo að hafa smáaukakeppni fyrir ykkur. Allir sem fara örlítinn aukarúnt komast í pott og fá verðlaun í lok átaksins. Þeir sem koma við á einhverjum af eftirfarandi stöðum fá punkt í kladdann (takið krúttulega mynd af ykkur á hjólinu eða göngunni og sendið mér, máli ykkar til sönnunar). Því fleiri staðir sem þið farið á, því meiri möguleikar á vinningi. Staðirnir eru: 1. Rauðavatn 2. Elliðaárdalur 3. Nauthólsvík 4. Höggmyndirnar rétt við Gufunes 5. Korpugolfvöllur 6. Geldinganes 7. Laugardalur 8. Skerjafjörður 9. Höfðabakki 10. Kópavogsdalur."

Svo mörg voru þau orð. Vinningur? Keppni? Áskorun? Hjólrún tekur auðvitað þátt. Ég ákvað því að slaufa áformum mínum um að hjóla að Esjunni og ganga upp og niður hana í dag. Í staðinn mundaði ég  i-phone-inn og myndaði ferðalagið á alla staðina sem Ásta nefndi hér á undan. Myndirnar eru alls ekki við hæfi barna eða viðkvæmra fullorðinna (ég er á þeim öllum).

Ég ákvað að taka þetta ekki alveg í sömu röð. Fyrst hjólaði ég úr Álfatúninu í Kópavogi niður í Kópavogsdal. Fannst rétt að hafa hús sem kennileiti á flestum myndum og varð Kópavogskirkja fyrir valinu: IMG_0365 

Það var mjög erfitt að hitta á fésið á sjálfri sér og svo húsið fyrir aftan, sérstaklega þegar ég sá illa á skjáinn í þokkabót. En það hafðist. Sólgleraugun fela vel maskaralaus augun og eru frábær vörn gegn vindi og flugum! 

Svo lá leiðin áfram inn dalinn og út eftir Kársnesinu, alveg niður að Nauthólsvík. Hér er ströndin í baksýn:

IMG_0368 

Þarna er ég einstaklega opinmynnt, sérlega áhugasöm um að ná bæði ströndinni og sjálfri mér á myndina.

 

Næsta stopp var Skerjafjörður. Ég hjólaði áfram meðfram sjávarsíðunni og hugsaði stíft um hvert helsta kennileiti Skerjafjarðar væri. Flugvöllurinn er kannski sjálfgefinn, en falleg uppgerð hús komu líka upp í hugann. Svo datt ég niður á það eina rétta:

IMG_0369 

Ég var mjög fegin að ná "Skerjaver" þarna í baksýn. Það sést reyndar aðeins of mikið af fésinu á mér í þetta sinn, en vonandi eru lesendur með sterkar taugar.

Eftir Skerjafjörðinn þurfti ég að komast í Laugardalinn. Ég var aðeins í vafa með hvernig best væri að komast þangað.  Eftir eitthvað dingl og hringl beygði ég inn á Snorrabrautina. Það reyndist vera alveg þrælsniðug ákvörðun því að þar rak ég augun í Blóðbankann. Gamalt samviskubit reif sig upp og ég ákvað að kíkja við og athuga hvort þeir vildu ekki tappa af mér smá blóði. Jú jú, alveg til í það, jafnvel þó að ég hefði gleymt veskinu heima og væri ekki með skilríki. Blóðsugan mælti reyndar ekki með löngum hjólatúr eftir blóðgjöf en mér tókst að sannfæra hana um að lítil átök fælust í túrnum, sem var alveg dagsatt. Eftir blóðgjöf fékk ég svo fullt að borða: Köku, rúgbrauð, djús og tvo kaffibolla. Jú, og einn bol en ég át hann ekki.

Ég puðaði mér í Laugardalinn og tók mynd af afgreiðslunni í Húsdýragarðinum:

IMG_0370 

Sko, gamla hafði vit á að brosa á þessari mynd!

 

Af þessum fornu slóðum lá leið mín á enn fornari slóðir. Elliðaárdalurinn var næstur og eftir smá umhugsun ákvað ég að mynda mig fyrir framan umdeilda starfsemi, a.m.k. í augum Vinstri grænna:

IMG_0371 

Topptennur utan um toppvettlinga fyrir utan Toppstöðina.

 

Næst þurfti ég að nálgast Rauðavatn á einhvern hátt. Ég hjólaði því upp Elliðaárdalinn (tók hálfan Poweradehring) og sikksakkaði í gegnum Árbæinn þar til Rauðavatn blasti við mér í allri sinni dýrð:

IMG_0371

 Nei nei, þetta er ekki Rauðavatn. Ég get hins vegar ekki eytt myndinni!?! Jæja, hér kemur rétta myndin:

IMG_0372 

Höllin í baksýn!

 

Ég fór svo eftir einhverjum hættulegum krókaleiðum upp á Höfðabakka. Þetta hús er nú algjört "landmark":

IMG_0373 

Skemmtilegur arkitektúr.

 

Leið mín lá upp í Grafarvog og listaverkin við Gufunes voru næsta viðfang:

IMG_0374 

Myndatakan hafði gengið vel fram að þessu, en við næsta stopp, rétt fyrir neðan, klikkaði eitthvað:

IMG_0379-1 

Eins og sést kom ég við á Geldinganesi. Þessi mynd gæti heitið "Geldingurinn í grasinu" (eftir Sólrúnu Salinger). Þessi mynd átti að vera með Geldinganesið og Esjuna í baksýn. Fail.

 

En ég hjólaði áfram með sjávarsíðunni, alveg hringinn í kringum Korpúlfsstaðavöll. Mér fannst samt flottara að taka mynd af Korpúlfsstöðum heldur en vellinum sjálfum:

IMG_0376 

Mér gekk svolítið illa að hitta á húsið og sjálfa mig í leiðinni en það hafðist.

 

Nú var ég búin með allar þrautirnar og loksins kominn tími til þess að fara í vinnuna:

IMG_0377 

Good old Borgó! Ég gerði nú ekki mikið í vinnunni sko. Fór bara á klósettið og snýtti mér! 

Svo var bara brunað heim, beint í bað. 49 kílómetrar lágu í valnum. Þú skráir þetta Ásta mín.

 Ef myndin af Geldinganesi verður ekki tekin gild, finnst mér að ég ætti að fá aukastig fyrir að koma við í Blóðbankanum. Hér er sönnunin:

IMG_0381 

Kunni ekki við að taka mynd á meðan verið væri að dæla. En ég heyrði á tal blóðbankafólks og komst að því að það vantar sárlega blóð, sérstaklega O mínus. Endilega drífa sig ef þið hafið tök á.

Það er gaman að hjóla í vinnuna.

Hjólrún Armstrong :)


Myndir frá síðustu helgi

Nýr vettvangur kallar á meiri virkni, vonum við. Ég lofaði nokkrum myndum frá síðustu helgi og hendi þeim hér inn sem snöggvast.

Ég tók svaka syrpu af Óla Geir á KFC mótinu. Hann er mikill markaskorari en jafnframt varnarjaxl, sem er fullkomin samsetning. Hér sjáum við piltinn á flugi:

Óli skorar!

Sekúndubroti síðar söng boltinn í netinu. Og hvað söng hann? Eitthvað um Rauða ljónið, líklega.

Hér er Óli Geir að SÓLA sig og SÓLAr sig í leiðinni í gegnum vörnina...og skorar. Afsakið, er alltaf að reyna að beina athyglinni að sjálfri mér.

95bb3c76

 

Hér er kappinn svo í enn einni sókninni, sem endaði eflaust með marki. Þeir fá nú ekki langan tíma í hvern leik, þessir litlu guttar, þannig að það er ótrúlegt hversu oft Óla Geir tekst að skora þrennu á svona stuttum tíma. KR-ingar unnu alla sína leiki. Ég held því með KR í knattspyrnu þetta sumarið - alla vega 6. flokki:)

4208ae0e

 

En ég skal nú ekki gleyma mínum eigin börnum, sem hoppuðu og skoppuðu af koppum um grundir. Sigrún Björk æfði handahlaup í sveitaferðinni: 

17acb36f

 

Kristrún Eir kútveltist í kollhnís eins og henni einni er lagið: 

effe79b2

 

Þetta var rosa fín sveitaferð með leikskólanum. Við fórum á Grjóteyri við Meðalfellsvatn og fengum að knúsa og kjassa ungviðið að vild. Kristrúnu fannst heldur ekki leiðinlegt að sitja í traktornum. Kannski að hún verði bóndi? 

51b0cae3

Hjörtur photoshoppaði þessa mynd reyndar alveg snilldarlega, þ.e. snýtti litlu hornösinni eftir á. 

 

Sigrún Björk var alveg sjúk í ungana, sérstaklega af því að Ásgeir afi hennar hafði sagt henni í matarboðinu kvöldið áður að bóndinn á Grjóteyri hefði fengið ungana hjá honum. Hún sagði MJÖG hátt og snjallt öllum sem heyra vildu (og vildu ekki) að AFI HENNAR SEM HEITIR ÁSGEIR HEFÐI GEFIÐ BÓNDANUM ÞESSA UNGA. Líklega endurtók hún þessi orð um það bil 159 sinnum á 12 mínútum.

7520896e

Stolt af unganum og afa sínum!

 

Ég er enn að venjast Bloggamogginu eða Moggablogginu en þetta er allt að koma. Ég var alveg hætt að geta stækkað letrið á blogcentral þannig að sjóndaprir hljóta að fagna letrinu í þessari færslu. 

 

Takk fyrir að innlitið. Og pabbi: Takk fyrir útlitið!

 

Zola Mogg  


Nýr bloggvettvangur Zola's Zone!

Stórkostlegar breytingar hafa átt sér stað: Ég er flutt af blogcentral á blog.is! Ég var reyndar ekki aaalveg tilbúin til þess að flytja en þegar ég kom engum myndum inn rétt áðan taldi ég að nú væri kerfið hjá þeim að syngja sitt allra síðasta (það er jú búið að loka) þannig að ég svissaði yfir á blog.is. Ég átti reyndar síðu frá 2008 (sjá færsluna á undan) en hafði engin not fyrir hana fyrr en blogcentral ákvað að hætta. Nú er ég aðallega stressuð yfir því að allar færslurnar á gamla blogginu mínu hverfi eins og dögg fyrir mig (Sólu) einn daginn, en vonandi finnst einhver lausn áður en það gerist. Auðvitað skírði ég þessa síðu líka Zola's Zone, þó að þetta heiti sé afskaplega klisjukennt og hallærislegt. Það vita það kannski ekki margir, en ég stofnaði ekki sjálf bloggsíðuna á blogcentral fyrir tæpum átta árum, heldur Bjössi bró hrekkjusvín. Hann byrjaði að blogga í mínu nafni og setti inn fyndnar myndir af mér (og auðvitað þetta kléna heiti) en ég tók svo bara við keflinu og fór smátt og smátt að skrifa af einhverri alvöru. Tja...kannski ekki "alvöru" - en svona...you know what I mean. Fjölskyldublogg Jólrúnar leit dagsins ljós.

Það er margt búið að gerast síðan síðast en ég er auðvitað búin að gleyma helmingnum af því þegar svona langt líður á milli færslna. Vonandi verður nýja Moggabloggið bein innspýting í fingurgómana. Ég hef svo sem alveg haft tíma til þess að skrifa eitthvað, en tíminn hefur farið í aðra hluti. Já, til dæmis farið í að halda upp á brúðkaupsafmælið 30. apríl.

Hjörtur bauð mér á Grillmarkaðinn, sem fær nánast toppeinkunn hjá mér (bæði Hjörtur og staðurinn). Við völdum að fara alla leið með "smakk" matseðli og vínum þannig að við gætum prófað sem flesta rétti. Maturinn var virkilega góður og þjónustan öflug. En franska línan með nös á ketti sem mælikvarða var greinilega ekki í gangi þarna og var ég því hreinlega sprungin þegar komið var að aðalréttunum. Ég er alin upp við það að klára matinn minn og þótti mér því mjög sárt að sjá á eftir ókláruðum gómsætum steikum og sjúklegum eftirréttum. Hefðu verið fjórir um alla þessa rétti hefðu allir orðið mátulega saddir. Nota bene: Ég er ekki kölluð "drottning hlaðborðanna" fyrir ekki neitt þannig að ef ég segi að skammtarnir séu stórir, þá ERU þeir stórir. Hér er Jólrún í fordrykknum, áður en maginn sprakk:

 IMG_0326Bláberja mohito! Mér finnst samt Flahito betri ;)

Hjörtur var enn með smá pláss fyrir eftirréttinn:

 IMG_0337

Eins og sést vonandi eru skammtarnir freeekar stórir!

Eitthvað þarf hölt hæna að gera til þess að ná lýsinu af sér eftir svona risamáltíðir. Hællinn og ilin eru enn í ólagi þannig að ég er búin að vera að hjóla eitthvað smá og svona. Fór 38 km um allt höfuðborgarsvæðið á racernum en fannst brennslan lítil, enda alltaf að bremsa út af fólki, beygjum og umferð. Náði aldrei almennilegu rennsli nema við Sæbrautina. Hvar ætli sé best að æfa sig á svona hjóli? Og ætli verkurinn í hálsi og hnakka venjist vel?

Ég rölti líka ein upp á Esjuna í góða veðrinu í vikunni. Það var eiginlega léttara en mig minnti. Fín brennsla upp, en mikið er leiðinlegt að labba niður. Ég held að ég muni aldrei ná góðum árangri í fjallahlaupum. Fínt að hlaupa upp, en ég er svo lengi niður. Alltaf hrædd við að reka tærnar í og fljúga niður hlíðina. Eymingi með hor. Annars er horið á undanhaldi. Þá stend ég bara uppi sem eymingi:). Ég kældi minn hæl í svölum fjallalæk eftir gönguna:

 IMG_0344

Snjóhvítur leggur í glitrandi læk.

Helgin var fín í sólinni og kuldanum. Við kíktum á Óla Geir Bjössason skora fjölmörg mörk fyrir KR niðri á Víkingsvelli, buðum Sabbó, Krissa og grísunum 3 í mat og fórum svo í sveitaferð á Grjóteyri plús sund í Mosó í dag. Ég set inn myndir af öllu þessu í næsta bloggi. Ó...ég má auðvitað ekki gleyma gubbusögunum. Gubbusögur Sólrúnar eru algjör klassík!

Sko...einhvern tímann í vikunni vöknuðum við upp um miðja nótt við það að Kristrún tveggja ára væri að gubba. Það þurfti að skipta á öllu: Henni, rúmfötum, gólfmottum, you name it. Jæja, aftur að sofa og stuttu seinna: Sami pakkinn. En svo sofnaði krílið og kallinn en ég lá andvaka uppi í rúmi til morguns að bíða eftir næstu gusu. Á föstudagskvöldið fór mér að líða eins og ég hefði étið yfir mig á Grillmarkaðnum, en sannleikurinn var sá að ég hafði bara troðið sextán tommum af pizzu í andlitið á mér. Smátt og smátt fór ég að átta mig á að þetta væri ekki út af ofátinu, heldur væri gubbupest í uppsiglingu. Sú varð raunin og náði ég ekki að festa svefn fyrr en fimm um morguninn, með tóman maga. Allt í lagi með það svo sem. Svo koma braggabúar í mat á laugardagskvöldið, í grillað lambafilé með fiturönd og fleira fínerí. Þegar allir eru sestir til borðs tilkynnir Hjörtur að honum sé hrikalega óglatt og hafi enga lyst á matnum. Stemmning. Hann sat samt áfram til borðs og pikkaði í matinn. Í miðjum klíðum byrjar svo Kristrún eitthvað að emja og áður en hendi er veifað gubbar hún lifur og lungu yfir matarborðið! Huggulegt. Svo kósý. Við hjónin fórum í töluverðar þrifaðgerðir á krílinu, matborðinu og gólfinu á meðan hinir héldu áfram að pína ofan í sig matinn, hugsandi um alla kossana og allt knúsið sem þau hefðu fengið frá smitberunum þegar þau gengu í bæinn. En þetta fór allt vel, þannig lagað. Kristrún var hin hressasta, Hjörtur var hinn óhressasti og allir aðrir bara frekar glaðir og sáttir með sitt. Ekkert hefur frést af veikindum gestanna enn sem komið er, en Hirti varð ekki svefnsamt í nótt. Hann er orðinn hress núna, kallanginn. Sigrún Björk 6 ára kvartaði hins vegar yfir magaverk rétt áður en hún fór að sofa þannig að ég plantaði einni skál við hliðina á koddanum hennar. Betra að hafa þetta snyrtilegt. Correct me if I'm wrong...en var þetta ekki bara fyrsta gubbusaga ársins???

Gefum blogcentral og gubbupestinni langt nef...eða teygðan munn:

IMG_0300

Lifi byltingin!

Zola Moggenbloggen

PS Það er "like" takki og "share" takki hérna og hvaðeina!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband