Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Halifax, Nova Scotia

Við lentum á landinu bláa klukkan sex í morgun og mér reiknast svo til að ég hafi sofið 3 klst. síðustu 24 tímana. Ég er samt bulllandi hress, ótrúlegt en satt. Kannski af því að þetta var næs frí, ekkert of pakkað af plönum og þeytingi. Náði meira að segja að lesa eina bók og rúmlega það. Byrjaði á Hunger Games (kláraði Catching Fire fyrir skemmstu en var ekki heilluð...ekki segja Björgu!), las svo The Red House eftir Mark Haddon sem var býsna ólík The Curious Incident of the Dog in the Night-time (en líka frábær) og komst svo eitthvað inn í Fifty Shades of Grey eftir E.L. James. Virðist frekar ómerkileg og formúlukennd miðað við Mark Haddon, enn sem komið er. En lesfrí er gott frí!

Ég fékk líka tækifæri til þess að kíkja í búðir og gera smá afmælis- og jólagjafainnkaup. Þetta er náttúrulega glataður tími til þess að versla þvi að búðirnar eru fullar af bolum og humri (surf and turf), sandölum og sumri. En eitthvað smávegis fann gamla sem fer í pakkann hjá ungviðinu í kringum mig á vetri komandi. Við notuðum líka tækifærið og borðuðum vel, lúðu og skel. Hjörtur bjórsmakkari kannaði ýmsar tegundir, bara til þess að sannfærast meira og meira um eigið ágæti. Við duttum óvart inn á leik Ítalíu og Englands á EM og Hjörtur suðaði og suðaði í mér þangað til ég samþykkti að borða bara kvöldmatinn á staðnum svo við gætum klárað leikinn. Hér er Hjörtur við skjáinn, sáttur við málalyktir:

IMG_0904

Hvað er betra en bjór og bolti? Hnegghnegghnegg....

Við fengum alveg svakalega fínt veður á mánudeginum og notuðum því daginn vel til útsýnisferða. Hér er gamla á Crystal Crescent Beach í nágrenni Halifax. Atlantshafið blasir við:

IMG_0916

Sjórinn var reyndar ískaldur þannig að ég lét duga að kæla hælinn minn auma í öldunum.

Okkur var bent á að gaman væri að fara á stað sem heitir Peggy's Cove. Þar var afskaplega kunnuglegur og póstkortalegur viti, sem reyndist vera mest myndaði (most photographed) viti í Kanada. Hér er Hjörtur í miðju póstkorti:

IMG_0925 Vitinn og hálf...þreyttur eigimaðurinn :)

Þeir eru ekkert að skafa utan af því Kanadamennirnir:

IMG_0932 

Við ákváðum bara að sleppa því að klifra í klettunum.

 

En fegursta sjónin á svæðinu var auðvitað þessi:

IMG_0939Fljótt og jafnvel ljótt á litið virðist það vera ég sem um ræðir, en auðvitað er það þessi fallegi Plymmi...eða Dodge Neon sem fegrar umhverfið. Ó mín Svarta Þruma, blessuð sé minning þín! Kjökur.

Skiltið hjá vitanum var ekki það eina sem fældi frá á Peggy's Cove. Hjörtur ætlaði ekki að þora inn á eina veitingastaðinn á svæðinu, bara út af þessari viðvörun:

IMG_0941

Þegar mér loksins tókst að benda honum á að þetta skilti ætti ættir sínar að rekja til New Orleans, tók hann gleði sína á ný og pantaði sér einn bækling um krækling og með'í.

Eftir góða daga í Halifax við leik og störf (þetta var viðskiptaferð, remember?) var gott að knúsa krílin eldsnemma í morgun. Í tilefni Norður-Ameríkurferðarinnar var auðvitað boðið upp á gourmet morgunverð:

IMG_0951

Súkkulaði Cheerios og Banana Cheerios, beint úr Wal-Mart! Auðvitað var þessu blandað saman og mjólkin út á og þá varð til banana splitt!

Seinni partinn í dag kíktum við svo í afmæliskaffi til elskulegs tengdaföðurs míns, hans Ásgeirs afa. Auðvitað klikkaði ég á að taka mynd af hógværu afmælisbarninu, en smellti nokkrum af ólátabelgjunum (afabörnunum) í staðinn:

IMG_0959

Yngstu barnabörnin, frá vinstri: Halldór Ásgeir, Kristrún Eir, Sigrún Björk, Bríet Björk, Ásgeir Anton og Emma Björk. Kannski engin rosaleg fjölbreytni í nafngiftum, en það er sama hvaðan gott kemur!

 

Framundan eru forsetakosningar og auðvitað kjósa allir hana Þóru mína.

 

Sæl að sinni...

 

Sóla Scotia Grin 

 


Barnabarnið

Börnin skipa stærstan sess í lífi manns, svo mikið er víst. Sigrún og Kristrún eru rétt nýskriðnar úr egginu þegar enn bætist í safnið. Við fengum að kíkja í pakkann hennar Hörpu í gær og leist vel á innihaldið. En áður en myndin af ófædda unganum okkar er frumsýnd er rétt að fjalla aðeins um hitt litla fiðurféið okkar, bæði það sem enn er í hreiðrinu og svo burtflognu hænsnin.

17. júní eyddum við bæði í Kópavogi og Stykkishólmi. Ekkert jafnast á við Skólahljómsveit SK og skemmtiatriðin á Rútstúni, ekki einu sinni Lúðrasveit Stykkishólms og nöpur hafgolan við Norska Húsið. Stelpurnar voru græjaðar upp fyrir daginn eins og vera ber:IMG_0856

Þegar okkur var farið að leiðast þófið niðri á túni fórum við upp í Álfatún og kláruðum að pakka ofan í töskur. Svo var brunað í Hólminn þar sem við eyddum næstu dögum með öllum ungunum nema Björgu unglingi, sem vildi frekar vera heima og sinna unglingavinnunni og vinunum. Við fórum auðvitað á sjóinn með stelpunum og tengdasyninum. Hér eru Harpa ólétta og Helga létta, svaka spenntar fyrir að draga þann gula úr sjó. 

9e519c84Nóg var af þorskinum þó hann væri ekki nándar nærri eins stór og í síðustu ferð. En hann dugði í stóra máltíð fyrir stóra fjölskyldu og restina (heilan helling) fékk Beggi nágranni eins og alltaf. Innyflin fengu reyndar fýlarnir, ljónin og svartbakurinn freki:

a106e280

Þarna sést vel stærðarmunurinn á fýl og svartbak.

Eftir veiðiferðina reyndi Hjörtur enn einu sinni að pína nýja tengdasoninn. Hann setti aumingja drenginn á sjóskíði og dró hann neðarsjávar eftir endilöngum Breiðafirðinum. Það er sterkt í stráksa og hann lifði þetta af. Á meðan á þessum ósköpum stóð gengum við stelpurnar upp á Súgandisey með Hörpu bumbulínu: 

8b19ed06Sjáiði bara hvað þetta fer henni vel?! 29. ágúst er stelpan sett þannig að við hjónin eigum eftir að fara a.m.k. einn túr til Stokkhólms í haust. Krúttlegt að hún skuli búa í Stokkhólmi því að það hljómar jú nánast eins og Stykkishólmur!

Í gær fóru svo afi og amma (Hjörtur og ég) með Helgu og Hörpu í þrívíddarsónar. Faðirinn sjálfur, Rasmus Lindström, rétt missti af myndatökunni þar sem hann kom ekki til Íslands fyrr en í dag. Krílið var nú ekki á því að myndast neitt vel því að bæði hendurnar og naflastrengurinn voru fyrir andlitinu. Eftir að Harpa hafði skriðið um gólf og gert ýmsar furðulegar æfingar tókst að lokum að kíkja aðeins framan í litlu dúlluna:

IMG_0882

Svo mikið krútt! Hugsanlega pínuponsu líkt dætrum mínum? 

Til þess að halda upp á myndatökuna fórum við öll fimm á Hamborgarafabrikkuna (teljum barnabarnið ófædda auðvitað með). Harpa Svíi hafði sko aldrei farið þangað. Þau eru voða sátt, mamman og afinn tilvonandi: 

IMG_0885

Þaldégnú.

Á morgun er ég víst að fara til Halifax í nokkra daga. Hjörtur tekur mig náttúrulega með í allar bisnessferðir sem nokkurs konar "trophy wife." Hann mun eflaust landa einhverjum rosalegum díl út á mig. Ég ætla að eyða restinu af kvöldinu í að gúgla eitthvað um pleisið. I dunno nothing, eins og maðurinn sagði.  

 

Amma og afi kveðja í bili LoL 


Útilega og afmæli

Jæja, hvað er að frétta? Heilmargt eflaust, þó að minnið sé ekki upp á fleiri fiska en fimm. Fyrstu fréttir hljóta þó að vera að Harpa er á landinu með litlu kúluna sína. Ég verð endilega að ná góðri mynd af henni fyrir bloggið áður en hún flýr landið á ný. Fjölskyldan ætlar að fjölmenna í 3D sónar 23. júní næstkomandi þannig að maður birtir kannski mynd af litla ömmubarninu í leiðinni? Harpa útskrifaðist úr lýðháskólanum fyrir skemmstu, var önnur hæst og fékk myndarleg bókarverðlaun. Ekki amalegt það!

En ef við rifjum upp síðustu viku ganga fréttir helst út á stutta tjaldútilegu og afmæli handlagna heimilisföðursins. Okkur áskotnaðist alveg ljómandi fínt tjald í fyrrahaust og ég gaf í kjölfarið hálfgildings loforð um að sofa í því næsta sumar. Ég hef slæma reynslu af tjaldútilegum og var eiginlega löngu búin að taka fyrir svoleiðis vitleysu, en ákvað samt að fórna mér fyrir blessuð litlu börnin mín. Betra að hafa ekki óefnd loforð hangandi yfir sér í allt sumar þannig að ég dreif fjölskylduna til Þingvalla síðasta sunnudagskvöld. Hér er búið að reisa tjaldið í góðu skjóli: 

a4988f17 

Mér leið vel um nóttina en svaf lítið sem ekkert. Ég er viðkvæmt lítið blóm sem þolir ekki fuglasöng, hrotur, byltur og lítið barn sem er alltaf með kvef og sparkar jafnframt sænginni af sér á fimm mínútna fresti. Það var nóg af fersku lofti og allir aðrir sváfu eins og englar. Kristrún hafði reyndar blundað á leiðinni á Þingvöll þannig að hún fór í marga kollhnísa löngu eftir miðnætti þangað til að hún datt loksins út af og byrjaði að hrjóta í takt við föður sinn. Hér eru stelpurnar rétt áður en þær fóru að sofa:

3562a93b 

Það kom sér vel að hafa þetta fína flugnanet á tjaldinu því að morguninn eftir var svo mikið mýflugnager úti að það var ekki séns að reyna að borða morgunmatinn þar. Flugurnar flykktust svo inn í tjaldið og reyndu að brjóta sér leið í gegnum "þakið" og mynduðu hið notalegasta rigningarhljóð með látunum.

Úps...ég gleymdi að segja frá því að Sigrún Björk losnaði loksins við barnatönnina sem var búin að lafa lengi út um munnvikið þarna um kvöldið. Hvernig losnaði tönnin? Ef Sigrún er spurð segir hún bara satt: "Mamma lamdi hana út úr mér." Áður en þið hringið í 1717 vil ég fá að útskýra: Ég var í gamnislag við Björgu og tók óvart nett kung fu á Sigrúnu í leiðinni. Hún varð ægilega glöð og fannst þetta ekkert vont (hjúkkit). Tannálfurinn kom svo í heimsókn um nóttina og reyndist óvenju gjafmildur. Hér er Sigrún með tönnina sína, enn blóðug á vörunum: 

06a670e4 

Ég hlakka til að sjá hana með stóru fullorðinstennurnar!

 

Hér er svo Hjörtur sæti, nývaknaður og örugglega nýbúinn með morgunprumpið ef marka má gleðisvipinn á andlitinu: 

614ec625 

Það var ekkert flugnager í kringum hann enda lifir ekkert kvikt á Gazasvæðinu.

 

Við tókum svo túristann á Þingvöllum og höfðum öll gaman af í góða veðrinu: 

424fa3f9 

Dagarnir hafa liðið hratt við leik og störf. Mér til heilmikillar ánægju er Óli Snorri tabatasnillingur kominn aftur heim frá Ítalíu og farinn að kenna í Laugum. Ég mætti í tíma á þriðjudag og fimmtudag og er enn með harðsperrur. Svona á að gera þetta! Ég kíkti líka með Kristrúnu til nýs læknis, svona til þess að grafast fyrir um hvað geti valdið þessum tíðu veikindum hennar síðasta hálfa árið. Hún getur ekki endalaust svolgrað í sig sýkalyf, kellingaranginn. Ég er samt bjartsýn á að hún verði hress í sumar. Björg Steinunn fór í unglingavinnuna í fyrsta sinn á miðvikudag en hefur ekki látið sjá sig þar síðan. Ekki það að henni hafi ekki líkað vinnan vel, það er bara búið að vera fullt djobb að vera í skólahljómsveitinni þessa dagana. En það frábæra er að ef spileríið skarast við vinnuna fær hún samt borgað. Góður díll!

 

Sigrún og Aðalsteinn Ástuson eru búin að eyða miklum tíma saman þessa vikuna. Þau hafa verið saman á leikjanámskeiði þrjá tíma á hverjum morgni og eytt svo flestum dögum saman eftir það. Þau hafa þó verið meira heima hjá Aðalsteini, enda er Ásta mikill bakari. Ég hef líka notið góðs af og svolgrað í mig latté og úðað í mig ylvolgu bakkelsi alla daga, nema reyndar einn þegar Margrét vinkona bauð mér í ekki síðri trakteringar. Ég er ótrúlega heppin manneskja. Ég verð nú að koma með enn eina fréttina af henni Ástu fyrir þá sem ekki eru vinir hennar á facebook en finnst samt eins og þeir þekki hana vel í gegnum sögurnar mínar. Á fimmtudaginn pikkaði hún mig og mínar litlu dömur upp rétt fyrir sex því við ætluðum að hlusta á SK og sænska skólahljómsveit spila saman í Ráðhúsinu (frábærir tónleikar by the way). Á leiðinni þangað sagði hún mér "casually" að hún héldi að hún væri úlnliðsbrotin. Ég var nú frekar vantrúuð á það en vildi samt að við drifum okkur þá í skyndi upp á bráðamóttöku. Nei nei, kella var alveg róleg, stýrði strumpastrætó með vinstri (þessari sem átti að vera brotin), hélt í gemsann með hægri og reimaði skóna hans Aðalsteins með tungunni. Eftir tónleikana ropaði því hún út úr sér að hún hefði brotnað í HÁDEGINU (datt um bandið hjá Heklu tík)! En hún hafði engan tíma til þess að láta kíkja á þetta strax því hún átti eftir að bera út og koma öllum HK búningum 7. flokks til skila. Hún átti svo skemmtilega nótt á bráðamóttökunni þar sem kom í ljós að hún var bæði úlnliðsbrotin og handarbaksbrotin! Stelpan er ekki enn búin að jafna sig á ökklabrotinu þannig að ég segi bara jahéddnahéroghættunúalveg! Hvað næst? 

 

Síðasta frétt fyrir fréttir er svo afmælið hans Hjartar. Ekkert óvenjulegt eða merkilegt afmæli svo sem, enda fékk hann sömu gjafir og vanalega, alla vega frá Álfatúnsfjölskyldunni. Hér er liðið nývaknað,  allt nema unglingurinn sem var ekki vakinn af því að vinkonan var að gista og þær kjöftuðu fram á nótt. Aðalsteinn gisti líka en þessir litlu grísir spretta alltaf á fætur þegar þeir heyra orðið "afmæli."

 IMG_0829-1

Þessi mynd er sérstaklega tekin fyrir Svövu mágkonu sem þolir ekki að sjá nærbuxur á myndum, allra síst þegar bróðir hennar klæðist þeim. Ég samdi smá vísu fyrir Hjört með boði um að fara út að borða á Sushisamba. Sigrún Björk hreifst mjög af uppátæki móðurinnar og var fljót að læra textann:

 

 

 En það var bara haldin hefðbundin afmælisveisla á miðvikudaginn síðasta, með öllum stelpunum og pabba gamla (Bjórlafi). Þessi var í eftirmat:f593b6c9

Algjör B O B A !

 

Bæ í bili

 

Sóla sautjánda...júní Grin 

 


Þroski Sigrúnar Bjarkar á fyrsta ári í grunnskóla

Nú eru skólaslit búin í flestum grunnskólum og krakkar og foreldrar flestir sáttir við árangurinn. Sigrún Björk lauk sínu fyrsta ári í Snælandsskóla í fyrradag en fékk enga sérstaka einkunn eða umsögn, sem er nú kannski allt í lagi fyrir svo unga krakka (þó að foreldrar séu oft mjög einkunnasjúkir). Þetta gekk allt saman vel og Sigrún Björk er ánægð með skólann og kennarann sinn og líður bara vel, sem er tvímælalaust fyrir mestu. Krakkarnir í fyrsta bekk fengu samt afhent stórt umslag eins og eldri krakkarnir, en í þessu umslagi var ein sjálfsmynd sem teiknuð var að hausti og önnur sem teiknuð var að vori. Það er gaman að rýna í svona myndir og skoða hversu mikið sjálfsmyndin hefur breyst á stuttum tíma. Hér er myndin sem Sigrún Björk teiknaði af sjálfri sér í haust þegar hún var nýskriðin úr leikskóla og ekki einu sinni orðin sex ára:

IMG_0789

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Voðalega krúttleg bleik og blá álfaprinsessa. Ég er mest hissa á því að engin kóróna sé á kolli litlu prinsessunnar, en hún teiknaði sig iðulega með gullslegið höfuðfat á leikskólatímabilinu. Hér má hins vegar sjá Sigrúnu sjóuðu eftir einn vetur í grunnskóla:

 IMG_0790

Hér er hin rokkaða Sigrún í svörtum bol, með hliðartagl og stóra glottið á andlitinu. Engir vængir, slatti af maskara  en ekkert prinsessurugl. Bleiku buxurnar vísa samt í ákveðna nostalgíu. En sólin skín skært á kantinum þannig að það er töluverð gleði yfir þessari mynd. Slatti af sjálfstrausti líka, er það ekki? Hvað lesið þið annars út úr þessum myndum?

 

Gaman að'essu :)

 

Sóla Sigrúnarmútta


Enginn flóafriður í Hólminum

Komin heim úr Hólminum fagra með manninn minn magra, tvö stykki börn og eina kaffikvörn. Gaman að fá kofann sinn aftur í sumar, en heldur verra að vera bitin af einhverri fló og sitja uppi með rúmlega 30 bit og vera alveg að drepast úr kláða. Sigrún Björk fékk nokkur en allir aðrir sluppu og þá er ég að tala um Bjössa og fjölskyldu, Helgu og kærasta, pabba og svo Hjört og Kiddú. I'm so special. Bjössi og co. voru reyndar bara í húsinu eina nótt og svo komum við með restina af liðinu á laugardaginn. 

IMG_6226

 

Húsið okkar er svo lítið að elsta dóttirin og viðhengið þurftu að dúsa úti í tjaldi! Veðrið var samt alveg fínt framan af. Við fórum fyrsta veiðitúrinn á Sólu á Sjómannadaginn og vorum allt of fljót að fylla kvótann.

 IMG_6251

Steikti þorskurinn bragðaðist jafnvel betur en entre cote grillsteikin með bernaise sósunni og þá er nú mikið sagt. Við kíktum aðeins á hátíðahöldin við bryggjuna en slepptum kaffinu í flóabátnum Baldri. En samt sit ég uppi með kláða og kvalir. Ég er alveg bit!

IMG_6254 

Túrinn rennur svolítið saman í eitt hjá mér núna þegar ég er að reyna að rifja hann upp. Ég sé fyrir mér sól, heitan pott, Bjórlaf með bjór, Hjört að ditta að hinu og þessu, Sigrúnu alsæla með leikfélagana sína og Kiddú á vappi um tún. Svo vel vildi til að leikhópurinn Lotta var á ferðinni í Hólminum, en Sigrún og Hjörtur eru búin að vera fastir áskrifendur að þeirra leikritum síðustu fjögur árin.

 IMG_6271

Núna fórum ég og Kristrún líka með og skemmtum okkur konunglega á Stígvélaða kettinum. Ég mæli eindregið með þessari bráðfyndnu sýningu. Sigrún býður mjög spennt eftir að fá geisladiskinn með lögunum sendan heim,  enda eru hún og Lotta músíkalskt par, sannkallaðir djassgeggjarar.

 IMG_6286

Sigrún Björk var svo upptekin við að leika sér við vinkonur sínar að hún mátti engan veginn vera að því að koma með mér og Kiddú að heimsækja Maj'ömmu. Það er alltaf svo gott að koma til ömmu og spjalla um daginn og veginn og drekka góða kaffið hennar. Kristrún undi sér vel með dótakassann hennar ömmu á meðan. Eftir heimsóknina kíktum við niður í fjöru í Maðkavík og fleyttum skeljum á flóðinu. Við náðum líka að kíkja aðeins á Dísu skvísu áður en við fórum heim í gær og klappa kisunum hennar, Lukku og Lukka. Og klappa Gúnda á kollinn.

IMG_6266 

Svo voru skólaslit í dag og allir á heimilinu voða glaðir með árangur stelpnanna. Nú þarf að fara að sinna millistykkinu á heimilinu vel og sjá til þess að hún fari út að leika með reglulegu millibili. Það er ekki alveg ljóst hvenær við förum næst í Hólminn. Veðurspáin er ekkert sérstök í bili og ýmisleg verkefni framundan hjá fjölskyldumeðlimum hérna heima.

 

Það má eflaust gera sér bloggmat úr því sem gerist á næstu dögum...

 

Sóla fló Grin 


London í gær, Stykkiz á morgun

Það fara að verða

IMG_0518 síðustu forvöð að rifja upp Lundúnaför okkar mæðgna áður en fjölskyldan fer í sína fyrstu Stykkishólmsför á þessu ári. Strax er farið að fenna í sporin og Björg úti á lífinu "as we speak/write" þannig að ég verð að treysta á mitt gamla og "góða" minni. Látum okkur nú sjá....

Dagur 1: Þrælspennt Björg spratt upp eins og fjöður klukkan hálf fimm að morgni (öðru vísi mér áður brá) og við vorum ekki lengi út á völl, hvar við skildum eftir sexpakkann (Honduna) í góðum höndum Icepark (þrif og bón). Björg hefur kvartað sáran undan helv.... kreppunni og fátæktinni sem henni fylgir: Heil FJÖGUR ár síðan hún fór til útlanda!

IMG_0551

Illa farið með ungviðið. Hún naut sín í botn í flugvélinni og horfði á myndir og þætti með ákafa skemmtiglaða unglingsins. Eftir smá bras á flugvellinum (þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að ég væri í raun líkari Susan en Lynette í Despo) náðum við áfangastað með hjálp neðanjarðarlestakerfisins, sem Björg náði tökum á en to tre. Gistingin var þrælfín, í gegnum airbnb eins og svo oft áður. Við köstuðum af okkur töskunum, drifum okkur niður í Regent's Park og ætluðum að ná dýragarðinum fyrir lokun, en vorum aðeins of seinar. Við fórum því bara niður í miðbæ og tjilluðum þar og tjúttuðum, meðal annars í Soho þar sem Björg horfði stóreygð á allar sexbúllurnar og fólkið sem stóð fyrir utan barina í hitanum og svolgraði í sig bjór. Crispy duck afgreidd þetta kvöldið og Björgu líkaði hún ágætlega.

Dagur 2: Allir morgnar hjá Björgu byrjuðu með ristuðu brauði og 20 sentimetra þykku lagi af súkkulaðiáleggi. Það má gera allt í fríi,  er það ekki? Við áttum svo frábæran tíma í dýragarðinum með fiðrildum, mörgæsum, gíröffum og tarantúla köngulóm. 

IMG_0540

Eftir mikið labb í dýragarðinum lögðum við okkur aðeins í Regent's Park, svona rétt til þess að safna kröftum fyrir Oxford Street. Það hafðist, en það var allt of mikið að gera í búðunum. Björgu fannst hún samt vera komin til himnaríkis og naut þess að skoða úrvalið í H&M og Claire's. Við fórum svo á Trafalager Square í kvöldsólinni, þar sem Björg gaf dúfunum brauð í laumi. Þegar ég var þarna með pabba snemma á níunda áratugnum var hægt að kaupa skál með korni fyrir dúfurnar. Það skemmtilegasta sem ég gerði í ferðinni var líklega að hafa 40 dúfur sitjandi á mér, kroppandi af mér kornið. Núna þykja dúfurnar vera plága sem er ver og miður. Ætli við höfum svo ekki endað daginn á að troða í okkur Big Mac, en þar þreytti Björg frumraun sína. Nei, hvernig læt ég? Við flýttum okkur heim óvenju snemma þetta kvöld til þess að horfa á Eurovision. Algjör snilld að hlusta á breska þulinn!

Dagur 3: Við vorum komnar niður í Camden Town á slaginu 10 á sunnudagsmorgni og nutum þess að ganga á milli sölubása, sóla okkur og sjá aðra. 

IMG_0572

 Björg gerði nokkuð góð kaup á Camdeneyrinni og gott ef mamman henti ekki tíu pundum í eina peysulufsu. Boðorð Bjargar í þessari ferð var: "Mamma! Þú verður að kaupa þér einhverja liti!" Það var mjög erfitt. Þó að svartur sé ekki hluti af regnboganum finnst mér hann samt alveg vera litur. Svona rétt eins og fjólugrænn. Frapuccini á Starbucks rataði inn á millri þykkra vara Bjargar og fannst henni ekkert sérstaklega mikið til þess drykks koma. En allt verður hún að prófa, stelpan. En hápunktur dagsins hjá mér voru ekki góðu kaupin í peysudruslunni, heldur grillveislan hjá Palmer fjölskyldunni. Ég var au pair hjá þeim í fjóra mánuði fyrir möööörgum árum og hef haldið góðu sambandi síðan. Við skiptumst enn á sendibréfum og jólagjöfum og nú var kominn tími til þess að sýna Björgu þessa umtöluðu fjölskyldu og vice versa. Við vorum svolítið seinar fyrir þannig að tuttugu mínútna gangurinn frá lestarstöðinni varð að nást á tíu mínútum (ég þooooli ekki að vera of sein) og það hafðist, þrátt fyrir dragbítinn hana dóttur mína (skiptir ekki máli hvað ég segi um hana...hún les ekki bloggið).

IMG_0592

 Móðar og másandi mættum við á slaginu þrjú í þessa líka fínu grillveislu með frábæru fólki. Jennifer var bara rúmlega eins árs þegar ég yfirgaf hana fyrir landið ísakalda (og mastersritgerð sem þurfti að klára) en aldrei hef ég getað gleymt þessu krúttlega krullubarni. Nú er hún orðin 19 að verða 20 og algjört fyrirmyndarbarn. Dásemdardagur sem við enduðum svo niðri á Leicester Square í Haagen-Dazs ísbúðinni. Þar fór hvítan úr augunum.

IMG_0617

Dagur 4: Byrjuðum á dýflissum Lundúnarborgar, sem voru pínulítil vonbrigði. Alls ekkert "scary." Samt gaman og fróðlegt. Björg hafði til dæmis aldrei heyrt um Jack the Ripper, Sweeney Todd, Bloody Mary og fleira gott fólk og var uppfull af spurningum eftir túrinn. Dásamleg lautarferð í Hyde Park á eftir (fullt af goodies úr Marks & Spencer) og síðan ferð til Stratford. Þar börðum við helsta ólympíuleikvanginn augum og duttum svo "óvart" inn í svaka verslunarmiðstöð sem var alveg jafn "busy" og Oxford Street. Eru Lundúnarbúar verslunaróðir? Björgu tókst enn sem fyrr mun betur að gera góð kaup heldur en mér, enda er munurinn á okkur sá að hún veit hvað hún vill. Mér finnst gaman að kaupa á börnin mín en hef verið frekar léleg undanfarið að finna fatatuskur á mig, sérstaklega þegar skær sumartískan er í gangi. Ætli ég sé ekki bara orðin svona praktísk með aldrinum, vitandi það að á Íslandi koma bara þrír dagar á ári max þar sem manni er ekki skítkalt í stuttbuxum og bol um hábjartan dag. Eftir mikinn labbilabb dag var gott að uppgötva óvart rosalega fínan indverskan stað í sínu eigin hverfi. Við gerðum okkur að leik að panta sterkasta réttinn á matseðlinum og fórum létt með að klára hann án teljandi táradala eða horleka. Það fór að vísu einhver söngur af stað í iðrunum daginn eftir á versta stað (klósettlausu H&M) en það leið fljótt hjá. 

Dagur 5: Vaxmyndasafnið var hápunkturinn þennan daginn.

IMG_0642

Það einhvern veginn klikkar aldrei. Björg hafði gaman af því að sjá að hún var með þykkari varir en Angelina Jolie og að mamma hennar er ennþá svolítið skotin í George Clooney, þrátt fyrir að hún sé gift mun fallegri manni en honum (mín orð, ekki hennar). Þvælingur í búðum og National Gallery er það helsta sem ég man frá deginum. Ég varð að sýna henni orginal Sólblóm eftir meistara Van Gogh, fyrst að við vorum sjálf í gistingu sem hét "The Sunflower Room." Ég játa það að ég er Van Gogh aðdáandi. Var einmitt að spá í hvort að ég hefði einhvern spes smekk þegar kemur að listum og...fötum? Hringur Jóhannesson í uppáhaldi á Íslandi....já og Hagkaup í fötum...múahahhaaa. Keep it simple. Anyways, Brökin heimtaði svo að fá að endurupplifa stemmninguna í Chinatown. Við enduðum á "All you can eat buffet" og komumst að endanlegri niðurstöðu: Kínverskur (s.s. vestrænn kínverskur) matur gengur aðallega út á djúpsteikingu og sykur. Yummie (án kaldhæðni - þetta er rosalega gott)!

Dagur 6: Síðasti dagurinn og tregi í hjarta. Litli táningurinn búinn að sofa í sama rúmi og mamma gamla allan tímann og meira að segja halda í hönd aldraðrar móður sinnar flestar stundir. Yndislegur tími saman. 

IMG_0683

Söknuðurinn eftir hinum fjölskyldumeðlimunum braust upp af og til, sérstaklega þegar ég sá krúttleg börn poppa upp í lestum og verslunum. Hvað er betra en að knúsa yngsta krílið? Gremja yfir dýrtíðinni í útlöndum var stundum skammt undan, en ég tók meðvitaða ákvörðun um að láta ekki gengi krónunnar gagnvart breska pundinu hafa áhrif á gleðina. "Pay and smile" var mantra mömmunnar. Við eyddum síðasta deginum í sólskininu endalausa í alls konar hangs. Örlítið meira búðaráp. Lautarferð við London Bridge. Ójá! Sáum einn frægan þar, sjálfan borgarstjórann í London. Við gengum nánast í flasið á honum þar sem hann var að rölta einn í hraðbanka. Eins vel upp aldar og við erum þóttumst við ekkert taka eftir honum en hvísluðumst á í öruggri fjarlægð: "Vá...var þetta ekki borgarstjórinn? Ha jú! Pottþétt...vó!!!" Við vorum nánast með þetta á tæru því að hann er mjög sérstakur í útliti (samsuða af Boris Becker og Donald Trump), auk þess sem hann var á forsíðu ferðabæklings sem ég tók með mér út um allar trissur og við höfðum stúderað ágætlega vaxmynd af honum á Madame Tussaud's. 

IMG_0721

En við vorum ekki 100% vissar fyrr en við fórum inn í fallegt kúlulaga hús við hliðina á hraðbankanum og komumst að því að þetta var "city hall" eða ráðhús Lundúnabúa. Kúl. Björg var alltaf að vonast til þess að sjá Josh Hutcherson eða Hayden Panettiere en þau eru nú bæði Kanar þannig að sénsinn var víst ekki mikill. Ég man þá daga þegar maður djammaði með Damon Albarn og Jarvis Cocker í London. Those were the days my friend.... Jæja, svo var farið heim, troðið ofan í töskur og haldið upp á Heathrow. Frábær ferð að baki og kellurnar tanaðar í drasl. Mikið var svo gaman að hitta krílin og kallinn á ný. Eftir sjö ár fer ég svo í svona fermingarferð með Sigrúnu. Eða pabbi hennar. Helst ég samt. Hef sjö ár til þess að agitera fyrir því. Leita eftir stuðningi...? 

Veðrið hér á Íslandi er nú ekki búið að vera amalegt heldur! Hvað er í gangi? Ég vona bara að þetta haldi áfram svo að koddaslagurinn á sjómannadaginn í Stykkishólmi fari ekki illa með þá sem lenda í sjónum!

Næst verða færðar fréttir frá Stykkishólmi.

Þetta er Sólrún I. Ólafsdóttir sem talar frá Madrid. Eða Kópavogi. Whatever LoL

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband