Útilega og afmæli

Jæja, hvað er að frétta? Heilmargt eflaust, þó að minnið sé ekki upp á fleiri fiska en fimm. Fyrstu fréttir hljóta þó að vera að Harpa er á landinu með litlu kúluna sína. Ég verð endilega að ná góðri mynd af henni fyrir bloggið áður en hún flýr landið á ný. Fjölskyldan ætlar að fjölmenna í 3D sónar 23. júní næstkomandi þannig að maður birtir kannski mynd af litla ömmubarninu í leiðinni? Harpa útskrifaðist úr lýðháskólanum fyrir skemmstu, var önnur hæst og fékk myndarleg bókarverðlaun. Ekki amalegt það!

En ef við rifjum upp síðustu viku ganga fréttir helst út á stutta tjaldútilegu og afmæli handlagna heimilisföðursins. Okkur áskotnaðist alveg ljómandi fínt tjald í fyrrahaust og ég gaf í kjölfarið hálfgildings loforð um að sofa í því næsta sumar. Ég hef slæma reynslu af tjaldútilegum og var eiginlega löngu búin að taka fyrir svoleiðis vitleysu, en ákvað samt að fórna mér fyrir blessuð litlu börnin mín. Betra að hafa ekki óefnd loforð hangandi yfir sér í allt sumar þannig að ég dreif fjölskylduna til Þingvalla síðasta sunnudagskvöld. Hér er búið að reisa tjaldið í góðu skjóli: 

a4988f17 

Mér leið vel um nóttina en svaf lítið sem ekkert. Ég er viðkvæmt lítið blóm sem þolir ekki fuglasöng, hrotur, byltur og lítið barn sem er alltaf með kvef og sparkar jafnframt sænginni af sér á fimm mínútna fresti. Það var nóg af fersku lofti og allir aðrir sváfu eins og englar. Kristrún hafði reyndar blundað á leiðinni á Þingvöll þannig að hún fór í marga kollhnísa löngu eftir miðnætti þangað til að hún datt loksins út af og byrjaði að hrjóta í takt við föður sinn. Hér eru stelpurnar rétt áður en þær fóru að sofa:

3562a93b 

Það kom sér vel að hafa þetta fína flugnanet á tjaldinu því að morguninn eftir var svo mikið mýflugnager úti að það var ekki séns að reyna að borða morgunmatinn þar. Flugurnar flykktust svo inn í tjaldið og reyndu að brjóta sér leið í gegnum "þakið" og mynduðu hið notalegasta rigningarhljóð með látunum.

Úps...ég gleymdi að segja frá því að Sigrún Björk losnaði loksins við barnatönnina sem var búin að lafa lengi út um munnvikið þarna um kvöldið. Hvernig losnaði tönnin? Ef Sigrún er spurð segir hún bara satt: "Mamma lamdi hana út úr mér." Áður en þið hringið í 1717 vil ég fá að útskýra: Ég var í gamnislag við Björgu og tók óvart nett kung fu á Sigrúnu í leiðinni. Hún varð ægilega glöð og fannst þetta ekkert vont (hjúkkit). Tannálfurinn kom svo í heimsókn um nóttina og reyndist óvenju gjafmildur. Hér er Sigrún með tönnina sína, enn blóðug á vörunum: 

06a670e4 

Ég hlakka til að sjá hana með stóru fullorðinstennurnar!

 

Hér er svo Hjörtur sæti, nývaknaður og örugglega nýbúinn með morgunprumpið ef marka má gleðisvipinn á andlitinu: 

614ec625 

Það var ekkert flugnager í kringum hann enda lifir ekkert kvikt á Gazasvæðinu.

 

Við tókum svo túristann á Þingvöllum og höfðum öll gaman af í góða veðrinu: 

424fa3f9 

Dagarnir hafa liðið hratt við leik og störf. Mér til heilmikillar ánægju er Óli Snorri tabatasnillingur kominn aftur heim frá Ítalíu og farinn að kenna í Laugum. Ég mætti í tíma á þriðjudag og fimmtudag og er enn með harðsperrur. Svona á að gera þetta! Ég kíkti líka með Kristrúnu til nýs læknis, svona til þess að grafast fyrir um hvað geti valdið þessum tíðu veikindum hennar síðasta hálfa árið. Hún getur ekki endalaust svolgrað í sig sýkalyf, kellingaranginn. Ég er samt bjartsýn á að hún verði hress í sumar. Björg Steinunn fór í unglingavinnuna í fyrsta sinn á miðvikudag en hefur ekki látið sjá sig þar síðan. Ekki það að henni hafi ekki líkað vinnan vel, það er bara búið að vera fullt djobb að vera í skólahljómsveitinni þessa dagana. En það frábæra er að ef spileríið skarast við vinnuna fær hún samt borgað. Góður díll!

 

Sigrún og Aðalsteinn Ástuson eru búin að eyða miklum tíma saman þessa vikuna. Þau hafa verið saman á leikjanámskeiði þrjá tíma á hverjum morgni og eytt svo flestum dögum saman eftir það. Þau hafa þó verið meira heima hjá Aðalsteini, enda er Ásta mikill bakari. Ég hef líka notið góðs af og svolgrað í mig latté og úðað í mig ylvolgu bakkelsi alla daga, nema reyndar einn þegar Margrét vinkona bauð mér í ekki síðri trakteringar. Ég er ótrúlega heppin manneskja. Ég verð nú að koma með enn eina fréttina af henni Ástu fyrir þá sem ekki eru vinir hennar á facebook en finnst samt eins og þeir þekki hana vel í gegnum sögurnar mínar. Á fimmtudaginn pikkaði hún mig og mínar litlu dömur upp rétt fyrir sex því við ætluðum að hlusta á SK og sænska skólahljómsveit spila saman í Ráðhúsinu (frábærir tónleikar by the way). Á leiðinni þangað sagði hún mér "casually" að hún héldi að hún væri úlnliðsbrotin. Ég var nú frekar vantrúuð á það en vildi samt að við drifum okkur þá í skyndi upp á bráðamóttöku. Nei nei, kella var alveg róleg, stýrði strumpastrætó með vinstri (þessari sem átti að vera brotin), hélt í gemsann með hægri og reimaði skóna hans Aðalsteins með tungunni. Eftir tónleikana ropaði því hún út úr sér að hún hefði brotnað í HÁDEGINU (datt um bandið hjá Heklu tík)! En hún hafði engan tíma til þess að láta kíkja á þetta strax því hún átti eftir að bera út og koma öllum HK búningum 7. flokks til skila. Hún átti svo skemmtilega nótt á bráðamóttökunni þar sem kom í ljós að hún var bæði úlnliðsbrotin og handarbaksbrotin! Stelpan er ekki enn búin að jafna sig á ökklabrotinu þannig að ég segi bara jahéddnahéroghættunúalveg! Hvað næst? 

 

Síðasta frétt fyrir fréttir er svo afmælið hans Hjartar. Ekkert óvenjulegt eða merkilegt afmæli svo sem, enda fékk hann sömu gjafir og vanalega, alla vega frá Álfatúnsfjölskyldunni. Hér er liðið nývaknað,  allt nema unglingurinn sem var ekki vakinn af því að vinkonan var að gista og þær kjöftuðu fram á nótt. Aðalsteinn gisti líka en þessir litlu grísir spretta alltaf á fætur þegar þeir heyra orðið "afmæli."

 IMG_0829-1

Þessi mynd er sérstaklega tekin fyrir Svövu mágkonu sem þolir ekki að sjá nærbuxur á myndum, allra síst þegar bróðir hennar klæðist þeim. Ég samdi smá vísu fyrir Hjört með boði um að fara út að borða á Sushisamba. Sigrún Björk hreifst mjög af uppátæki móðurinnar og var fljót að læra textann:

 

 

 En það var bara haldin hefðbundin afmælisveisla á miðvikudaginn síðasta, með öllum stelpunum og pabba gamla (Bjórlafi). Þessi var í eftirmat:f593b6c9

Algjör B O B A !

 

Bæ í bili

 

Sóla sautjánda...júní Grin 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æði :)

Sissa (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 08:45

2 identicon

Alltaf sætur hann bróðir minn:) fín útilega og ekkert rok var það nokkuð? Knús frá okkur

Mágkonan (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 18:28

3 identicon

Dúggglegur að blogga!

Bjössi bró (IP-tala skráð) 21.6.2012 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband