Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Norge og páskar 2014

Ég er búin að hafa ágætis tíma núna undanfarið til þess að gera næstum ekki neitt (á minn upptekna mælikvarða) og þá sérstaklega í Noregsferðinni góðu um síðastliðna helgi. Ég hefði getað klárað þrjár til fjórar skáldsögur á þessum lausa tíma, en sem hinn dæmigerði nútímafangi alnetsins verður mér lítið úr verki. Fésbókin og frænkur hennar sjá um afþreyinguna, auk auðvitað fjölskyldu og vina. "Maður er manns gaman" segir máltækið og það eru orð að sönnu.
 
Það var gott að fara með systkinunum út og hitta frumburð Litlu-Túdd, sjálfa Kristínu horsku. Hún er með eindæmum rólegt ungabarn og þótti okkur öllum það stór stund þegar hún lét svo lítið að opna augun og gefa frá sér hljóð. Svona var mamma hennar og þótti alveg afskaplega stillt í samanburði við óþekktarangana sem á undan komu: Lúllu, Sólu og Bjössa. En það rættist nú bærilega úr okkur öllum, eins og sést á þessari mynd (vonandi):
blogg1_zpsfa0dc04c
Lúlla prestur, Tinna hjúkrunarfræðingur, Bjössi viðskiptafræðingur, Kristín forsætisráðherra og Sóla kennari: Góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar.
 
Þegar heim var komið á mánudeginum tók ég upp úr töskunum og setti í aðrar stærri í staðinn. Nú var stefnan sett á Akureyri daginn eftir í langa páskaferð með fjölskyldunni á meðan fitness presturinn og hennar fjölskylda dveldu í Daltúni með Gunna og Kisa. Keppnin gekk ljómandi vel: Siddi lenti í fyrsta sæti og Irma og Lúlla fengu báðar silfur í sínum flokkum. Það munaði víst bara einu stigi hjá báðum og ég giska á að þær hafi bara verið of massaðar fyrir módelfitnessið. Ég stakk upp á að þær myndu EKKERT lyfta fyrir næstu keppni og treysta bara á náttúrulegu genin og þær hafa lofað því að taka það til athugunar.
 
Skíðafríið okkar á Akureyri byrjaði ljómandi vel. Við skíðuðum í Hlíðarfjalli bæði á miðvikudag og fimmtudag, en svo kom rok og leiðindaveður á föstudaginn langa og allt lokað. Í gær var líka lokað og fattlausa ég áttaði mig ekki á því að rándýri skíðapassinn gilti líka á skíðasvæðunum í kring, þ.e. á Dalvík og Sigló, fyrr en Hjörtur var farinn út í buskann með allt draslið. Hann notar sko hverja stund sem gefst til þess að kite-a á snjónum. En í dag, páskadag, var fjallið aftur lokað þannig að við skruppum til Dalvíkur. Þar er ekkert töfrateppi fyrir Kristrúnu en ég ákvað í einhverju bjartsýniskasti að ég gæti bara hjálpað eða dregið Kristrúnu upp litla brekku þarna á svæðinu og leyft henni að renna niður. Greyið entist í einhverjar fjórar ferðir en var svo komin með leið á þessari vitleysu. Færið var mjög blautt og hinar stelpurnar ekkert rosalega stemmdar fyrir þessu ævintýri þannig að við ákváðum bara að fara heim eftir tæplega tvo tíma á svæðinu. Þá kom í ljós að búið var að opna Hlíðarfjall, reyndar með fyrirvara um að loka þyrfti lyftum í vindhviðum. Þá voru allir orðnir þreyttir (nema Hjörtur kite-ari) þannig að við erum bara heima núna í algjörri slökun að borða páskaegg og spila tölvuleiki. Helga er reyndar að læra fyrir próf í HR, en tekur sér facebook pásur inn á milli.
 
En þó að skíðaplönin hafi farið aðeins fyrir ofan garð og neðan er þetta búið að vera ágætis frí. Alltaf svo gaman saman. Ég er búin að fá mér latté á Eymundsson, Björg fann sér einhverja fatalarfa í tuskubúðunum, stelpurnar komust í jólahúsið, á leikfangasafnið og í sund og alltaf var eitthvað gott í gogginn í lok dags. Hér eru litlustu pitlustu í jólahúsinu:
blogg3_zpsfa81c62c
 
 
Ég hefði reyndar viljað fara í sund á hverjum degi en þar sem fóturinn minn er vafinn í eitthvað drasl (nýjasta tilraunin) má ég ekki fara í sund í 6 vikur. Því var Helga send með liðið á föstudaginn langa. Svo má ekki gleyma því að við Hjörtur fórum á tónleika með Mannakornum í gærkvöld. Við höfðum hvorug farið á Græna hattinn áður og tónleikarnir voru æðislegir. Ég rifjaði upp fyrir sjálfri mér og Hirti hvernig ég sat löngum stundum í ruggustólnum heima með heyrnartólin yfir eyrunum og stúderaði Mannakornsplöturnar hans pabba. Þar var vandað til verka: Heil opna með öllum textunum og myndum af hljómsveitarmeðlimum. Lengi býr að fyrstu gerð og ég hef verið aðdáandi númer eitt síðan. Svo skemmtilega vill til að Lúlla á ruggustól barnæsku minnar enn og mátti ég því til með að smella mynd af honum:
blogg4_zpse3edf130
 
Forláta ruggustóll þar sem ég hlustaði á Mannakorn og Harald í Skríplalandi til skiptis!
 
Ég var að kíkja á vefmyndavélina í Hlíðarfjalli rétt í þessu og sá þá að veðrið var ömurlegt! Þess vegna var kannski ekki svo vitlaust að anda að sér ferska loftinu á Dalvík fyrr um daginn. Hér er ein af brettastelpunum Helgu og Björgu (stórustu) á Dalvík:
 
blogg2_zpsfe92880f
 
Best að fara að kíkja í bók...fésbók?
 
Heimferð á morgun og kennsla á þriðjudag. Góðar stundir allir saman :)
 
Sóla páskahæna
  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband