Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Nýr fjölskyldumeðlimur á leiðinni!

Nei nei, ég er ekki ólétt. Við erum hætt, gömlu hjónin. Hins vegar má alltaf á sig köttum bæta. Eftir langa umhugsun og mikið hik af hálfu óákveðnu vogarinnar ákváðum við (eða nýjungagjarni tvíburinn sem ég er gift) að festa okkur einn Maine Coon kettling. Við heyrðum fyrst af einum slíkum fyrir nokkrum árum og fannst tegundin spennandi. Krílið fæddist 11. september og við erum bara búin að sjá hann á mynd af því að hann býr úti á landi. Við féllum fyrir hvítum feldinum og mislitum augunum:

gunnibowie_zpsebd22336

Þetta er sem sagt "oddeye" Maine Coon. Það gefur auga leið að pilturinn mun fá nafnið Gunni Bowie. Gunni eftir bróður Hjartar sem er einmitt með mislit augu, jú og auðvitað líka eftir Gunna sem passar alltaf Kisa Jackson á sumrin. Bowie nafnið kemur frá David Bowie sem er líka "oddeye" gaur og flottur tónlistarmaður, rétt eins og Gunni...jú og Jackson. En af hverju var ég svona lengi að ákveða mig? Tja...eftir 1-2 ár verður Gunni litli orðinn svona:

gunni2_zps5ad6bef7

Stóóóór strákur!

Fyrstu áhyggjur mínar voru af því að hann yrði fyrir áreiti á götum úti. Aldrei hef ég séð svona stóran kött á flandri. Líklega væri heldur ekki gott ef hann yrði ljón á veginum fyrir aðra. En þessi tegund er víst ekki kölluð "gentle giant" fyrir ekki neitt (vonum við). Svo hef ég líka áhyggjur af því að hann fari mikið úr hárum. Ég hef ekkert ofsalega gaman af því að ryksuga sko. Stærstu áhyggjurnar eru þó þær að Kisi Jackson fíli ekki Gunna Bowie. Því höfum við slegið þann varnagla að ef þeim kemur alls ekki saman fáum við að skila aumingja Gunna. Kisi hefur fyrsta búseturétt og ekki sanngjarnt að hann verði að lúta í lægra haldi fyrir einhverjum kettlingi, jafnvel þó að hann sé ættbókarfærður og þar að auki helmingi stærri! Við vonum bara að þetta fari allt saman vel og að gamanið verði ekki stutt. 

Við eigum von á Bowie í kotið um miðjan desember þannig að hann er jólagjöfin okkar í ár. Wish me luck!

Sóla Bowie Grin


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband