Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Káta mamman

Hvað er svo að frétta í febrúar? Samstarfsmaður minn sagði mér í gær að febrúar yrði óvenju stuttur mánuður. Hann skyldi þó ekki verða sannspár?

Hér á heimilinu gengur lífið að mestu leyti sinn vanagang, fyrir utan nýbökuð mjóbaksvandamál Jólrúnar sem komu upp á yfirborðið um síðustu helgi. Ekki það þægilegasta í þessum heimi en ég vona að þetta líði hjá. Ég var reyndar farin að skána alveg heilmikið en fékk bakslag (pun intended) í tabata í morgun. En á meðan elskulegur eiginmaður minn gerir fyrir mig latté á hverjum degi er lífið bara yndislegt.

Mesta gleðiefni þessa árs (hingað til) er kannski ósköp hversdagslegt í hugum margra, en fyrir mömmuna mig er um stórsigur að ræða. Þannig er mál með vexti að Kiddú mín klára hefur ekki viljað fara í kaf í sundi þrátt fyrir ítrekaðar áeggjanir móður sinnar. Sem ungabarn hjá Lóló sundkennara var þetta auðvitað hið minnsta mál, en svo hvekktist hún eitthvað á öðru ári og þá varð ekki aftur snúið. Hún varð mjög háð mér í sundi og hver einasti vatnsdropi sem skvettist á hana kallaði fram tár á hvarmi. Við eyddum heilum síðasta vetri hjá Lóló í sundkennslu en árangurinn varð ekki mikill af því að Kristrún vildi ekki fara í kaf. 

Sömu sögu var reyndar að segja um hana Sigrúnu systur hennar á sama aldri. Fín í ungbarnasundinu en þegar aðeins meira vit var komið í kollinn þýddi vatn í vitum bara óþægindi. Ég fór með hana 3ja ára í sundkennslu í Grafarvogslaug þar sem hún var eini krakkinn sem gerði ekki það sem kennarinn var að segja krökkunum að gera. Aðeins þeir sem þekkja til og hafa lent í þannig aðstæðum vita hversu frústrerandi það er. Þá er ég að tala um að gnísta tönnum og reyna að telja upp á hundrað afturábak til þess að hafa stjórn á taugunum og segja ekki eitthvað óviðeigandi sem yrði greipt í barnssálina alla ævi og myndi kosta marga þúsundkalla hjá sálfræðingi og fleira bleh. Þegar ég fór svo með hana fjögurra ára í sundkennslu í Kópavogslauginni tók hún strax upp á því í öðrum tíma að fara í kaf og var innan tíðar farin að synda skriðsund betur en mamma hennar (það þarf reyndar ekki mikið til). 

Ég hafði því nákvæmlega sömu væntingar til Kiddú þegar við skráðum hana til leiks í Kópavogslauginni fyrir nokkrum vikum. Því miður gekk þetta ferli ekki eins hratt fyrir sig og hjá Sigrúnu. Við urðum því aftur örvæntingarfullu foreldrarnir sem horfðu á hina krakkana synda og kafa eins og höfrunga á meðan okkar litli grís þrjóskaðist við og vildi stundum ekki taka þátt. Það var því mikill sigur unninn síðasta miðvikudag, eftir sundtíma, þegar Kristrún stakk höfðinu ofan í heita pottinn til þess að sýna mömmu sinni að hún kynni að fara í kaf. Ég held að ég geti ekki fært í orð fögnuðinn yfir þessu risaskrefi í rétta átt! Hefði ég ekki verið bakveik belja hefði ég tekið krílið í fangið og dansað með hana um sundlaugargarðinn. Lítið skref fyrir Kristrúnu en risaskref fyrir mömmuna. Ég veit samt að Kristrún var líka glöð og stolt, enda endurtók hún leikinn aftur og aftur, brosti út að eyrum og sagði: "Mamma, er ég ekki flink að fara í kaf?" Ég ætti að vera farin að læra af langri reynslu að allt hefur sinn tíma. Þarna var tíminn hjá yndislega örverpinu mínu greinilega runninn upp. Við fórum svo í Útilíf í dag og Kristrún fékk að velja sér nýjan sundbol í staðinn fyrir þann gamla sem var að verða of lítill. Auðvitað stökk hún beint á þann bleika. Hér er litla stolta stelpan mín í nýja sundbolnum:

  photo c8882afe-b6f5-4e39-a653-5a5cd2503ecd_zpsb6a94d01.jpg

 Ég er aðeins búin að bæta nokkrum aukahlutum á myndina en ég veit að Kristrún verður ánægð með það.

Auðvitað fékk hún að sofa í sundbolnum í nótt og er alveg hörð á því að við séum að fara að prófa hann í sundi á morgun.

Já, svona eru það litlu hlutirnir sem gleðja mann. Nemandinn sem hagaði sér kjánalega í gær, var til fyrirmyndar í dag. Það gladdi mig. Nemendur sýndu kennurum stuðning á Austurvelli í dag. Það gladdi mig. Sigrúnu fannst rosalega gaman á skautum með vinkonu sinni í dag. Það gladdi mig. Mér tókst loksins að setja mynd aftur inn á þetta blogg. Það kætti mig. Það er föstudagur á morgun. Geðveikt!

Góða helgi

Sóla káta :)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband