Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Páskar og pain, Manjaro og Maine

Jú, góðan daginn, Sólrún á Suðurhæðum hér. Um leið og ég flutti hingað í Daltúnið fyrir ekki svo löngu varð ég ákveðin í því að fá setja skilti á húsið merkt "Suðurhæðir." Hugsanlega hápunktur narsissismans? "Þú ert yndið mitt yngsta og besta" var mikið uppáhaldslag mömmu og 3. maí (á afmælisdegi mömmu) ár hvert mátti heyra "þú ert Sólrún á Suðurhæðum..." hljóma í síðasta lagi fyrir hádegisfréttir á Rás 1, þökk sé stjúpföður mínum. Ef þetta er ekki rómantík...

Fyrst ég er farin að minnast á afmæli er ekki óvitlaust að birta eina nýlega mynd af Kisa Jackson, sem varð 6 ára 1. apríl sl. og Gunna Bowie, "litla" bróður hans sem er bara eins árs ennþá. Kisi er þessi jafneygði þarna til vinstri. Gunni flokkast sem "odd-eyed" Maine Coon. Myndarlegir báðir tveir, eins og allt sem loðið er.

IMG_2078_zps1rc34scl

 

Hitt afmælisbarnið er auðvitað aprílgabbið hún Annie Wilkes, aka Ásta Laufey ofurkona. Margt er líkt með skiltum, sérstaklega umferðarskiltum, en fátt eiga afmælisbörnin sameiginlegt nema að vera í miklu uppáhaldi hjá Suðurhæðasjomlunni. Kisi er frekar rólegur og félagsfælinn en Ásta er frekar óróleg og félagsfíkin. Ég fann gamla mynd af okkur stöllum síðan úr skútuferðinni frægu, skellti henni á afmæliskort og Ásta hefur bara ekki slitið augun af henni síðan:

Kroacuteatiacutea%20091_zpsbqavr1r7I'm Ásta the sailor man! Smá Stjána bláa fílingur í munnsvip Ástu, en hvílið ykkur fullvissuð (rest assured), Ásta er ekki að sjúga píputroð, heldur saltstöng af króatískum uppruna.

Páskar á Akureyri er næsta mál á dagskrá. Við fórum á miðvikudegi norður og notuðum svo páskadag til þess að ferðast til baka. Eins og vanalega missti ég af öllum kennarabústöðum en eftir krókaleiðum fundum við smá bústað á Sílastöðum, hvar við holuðum 4 prinsessum (sendibílstjórum...einkabrandari) í tvö rúm. Kóngur og drottning fengu prívatrekkju en eldri dætur konungs kvörtuðu sáran yfir hrotum þess fyrrnefnda og varð ekki svefnsamt. Drottning kaus að þreyja þorrann fram að góu (páskaeggi), enda með hátæknibúnað frá Bosch til þess að þola hvaða drunur sem er.

Við fengum fullkomið skíðaveður á skírdag, sól og frostkalt logn og bara ágætis veður líka á föstudaginn langa. Miðjubarnið fór í skíðaskóla frá 10-14 fyrri daginn og renndi sér svo með vinkonu sinni þangað til fjallinu var lokað. Henni fannst ekki eins gaman daginn eftir þegar hún og pabbi hennar þurftu að bíða í 40 mínútur eftir að komast í stólalyftuna. Ég og örverpið höfðum það ágætt á töfrateppinu. Ég gerði misheppnaða tilraun til þess að setja hana í skíðaskóla, en hún vildi bara vera hjá "mömmu sín." Við fórum nokkrar ferðir með hana í diskalyftuna en það var svolítið bras. Niðurleiðin gekk vel en uppleiðin var meira svona niður á við. Reynum aftur að ári!

Á kvöldin var svo spiluð félagsvist, spjallað um heima og geima og svo sagði húsfaðirinn sögur úr sveitinni á meðan dæturnar og eiginkonan veltust um af hlátri. Nei nei, þetta var auðvitað ekki svona. Kommon...það er árið 2015:

IMG_2396_zps3mbnlpfu

Helga, Jóla og Böddey eitthvað að símast og Kiddú og Diddú í paddanum. Hjörtur stóð upp frá tölvunni til þess að taka myndina.

En þetta var bara ljúf ferð. Ég skokkaði um sveitir Norðurlands, við fórum í Hrafnagilslaug í BRJÁLUÐU veðri, gúffuðum í okkur karamellum í jólahúsinu, heimsóttum Hof, fengum okkur ís (EKKI Brynju auðvitað) og fórum í matarboð. Alltaf yndislegt að komast aðeins út úr sollinum og anda að sér norðlenska vorinu.

Svo kláraðist páskafríið áður en fiskur náði að draga andann, blár apríl rann upp og ég tók mynd af því tilefni:

IMG_2413_zps7og4ob6p

Ég gleymdi bara að henda henni inn á facebook á degi einhverfu. Svona er þetta þegar fína Canon vélin er ekki beintengd við alnetið. Retro.

Eitthvað var ég að tala um pain í fyrirsögninni og verð að standa við það. Haldiði að hægra hnéið sé ekki bara hálffrosið? Nú hef ég ekkert getað hlaupið í tvær vikur, bara af því að hnéið tók upp á því að verða pinnstíft og láta eins og asni. Ég sem var svo glöð yfir að hafa þokkaleg tök á verknum í vinstri mjöðminni og var eiginlega búin að komast að þeirri niðurstöðu að það væri betra að hlaupa en ekki. Góðu fréttirnar eru þær að ef ég geri nákvæmlega ekki neitt skánar verkurinn. Slæmu fréttirnar eru þær að starf mitt innan og utan heimilis býður ekki upp á kyrrsetu, nema að ég hrífist af þvottafjöllum og leikföngum á víð og dreif. Svo hefði ég líka getað sleppt þessu tabata í morgun. Sagt er að bjór og íbúfen lagi allt, nema kannski magasár, þannig að um næstu helgi leggst ég í kör með kippu af Heineken og 50-saman-í-pakka af íbúfen. Djók. En tölum um ALVÖRU sársauka...

Hún séra Lúlla, systir mín, er alltaf að lenda í einhverju skemmtilegu. Hún lenti fyrir stuttu í alvarlegum árekstri, rústaði bílnum og er enn að glíma við doða í höfði og verki í hálsi og hrygg. En gamla bítur á jaxlinn enda nývígð sem sóknarprestur í Noregi. Svo fór hún að finna fyrir miklum kviðverkjum, fór á spítalann en var send heim sem "hysterisk" eins og svo margar konur hafa lent í. Verkirnir og hitinn fóru þó stöðugt versnandi og eftir hvatningu frá vinum fór hún aftur á sama spítala. Læknarnir enduðu á því að skera hana upp frá bringubeini og niður í nára til þess að finna meinið. Það mátti ekki miklu muna - miklar garnaflækjur og vesen og ristillinn hefði líklega sprungið innan tíðar. Ég hef séð myndir af skurðinum og get varla ímyndað mér hvað systir mín var að ganga í gegnum. Hún er komin heim núna og er að jafna sig smátt og smátt, vonandi. Held ég hætti að kvarta yfir verk í hné.

Jamm jamm...alltaf bullandi félagslíf í gangi hjá mér, svo að við förum yfir í aðra og léttari sálma. Mér nægir að eiga félagslíf í vinnunni, ef ég á að segja eins og er, enda hef ég samskipti við hátt í 100 manns á dag á einn eða annan hátt, en svo þarf maður nú að hitta aðra af og til. Ég er mjög langt frá því að vera haldin félagsfíkn, en það getur oft verið notalegt að bjóða vinum og fjölskyldu í mat. Ég ætlaði að henda inn góðri mynd af Doktor Ingibjörgu og Hörpu frænku hérna, en hún kom greinilega ekki inn og ég nenni ekki að leita að henni núna. Þær voru sem sagt í heimsókn hjá mér rétt fyrir páskafrí.

Síðasta matarboð var bara núna á laugardaginn og þá komu hinir sívinsælu gestir Svava mágkona frá Víðigerði með alla sína hirð og hund, ásamt ömmu og afa (dætranna) í Mosó. Jú, auðvitað var Óli afi þarna líka....döö! Hérna er sæta fólkið að borða eitthvað gott:

IMG_2421_zpsxjwdlguu

 

 

Í eftirrétt var falleg kaka sem ég brasaði við að búa til um morguninni svo að ég gæti verið áhyggjulaus um daginn með börnin í sundi og á vappi um bæinn. Ég get ekki sagt að ég sé "domestic goddess" af heilum hug. Í rauninni hundleiðist mér oft matarstúss en reyni að róa taugarnar með rauðvínstári ef mikið liggur við (sem var ekki tilfellið þarna...auk þess sem klukkan var 10 um morgun) eða jólalagi. Já, ég var eiginlega að uppgötva það um síðustu helgi að ég "klukknahreima" mig í gegnum heilu uppskriftirnar, bara til þess að halda geðheilsunni. En að fá fólk í heimsókn að borða matinn okkar, það er dásamlegt. Börnin í boðinu dáðust að fegurð kökunnar en fæst þeirra kláruðu hana, enda var hún ekkert spes. Bara venjulegt brúnterta með smjörkremi. Maltesers kúlurnar utan á voru þó hreinn unaður. Af hverju að baka eitthvað súkkulaðidrasl þegar nammiframleiðendur eru búnir að mastera eitthvað svo miklu, miklu betra? Börnin fengu nammisnuð í eftir-eftirmat, svona í sárabætur og voru sátt við það:

IMG_2426_zpsfn2ab35t

Falleg börn í þessari fjölskyldu!

Og enn fjölgar! Frumburður Hjartar og ástkær stjúpfrumburður minn (sem kynntist mér reyndar ekki fyrr en hún var 16 ára) er komin með barn í magann, eins og börnin segja. Settur dagur er 26. september, en hvur veit nema að Sóla amma fá barnið í afmælisgjöf 3. október? Flestir eru vissir um að þetta sé strákur, en ég ætla að giska á að þetta sé stelpa þangað til annað kemur í ljós. Hvað haldið þið?

IMG_2088_zpsx9vynulq

13. maí kemur í ljós hvort kynið þetta er. Stay tuned!

Manjaro? Það var líka í titlinum. Jú, kannski verð ég á toppi Kilimanjaro um næstu áramót? Þetta er allt í vinnslu, ekkert öruggt, en það aldeilis búið að planta fræi. Árið 2016 hlýtur hnéið að vera komið í lag, brjóstagjöfin og barnið farið að braggast, barnið mitt yngsta ekki eins háð móður sinni, móðirin ekki eins háð börnunum sínum og þar fram eftir götunum. Það er aldrei rétti tíminn til þess að fara, en samt...mig langar.

Sem sagt, spennandi tímar framundan. To be continued...

Sólrún á Suðurhæðum :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband