Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Verkfallsbloggið

Ég ætti að hafa allan tímann í heiminum til þess að blogga núna þar sem ég er komin langleiðina með viku tvö í kennaraverkfalli. Það er samt búið að vera alveg nóg að gera hjá mér og tíminn hefur flogið hratt í átt að páskum. Ég er samt ekki frá því að lífið sé aðeins afslappaðra en þegar kennslan er á fullu, líklega vegna þess að ég vinn ekki á kvöldin þegar ég er í verkfalli. Það er lúxus sem ég gæti alveg vanist.

Hvernig hef ég svo varið þessu blessaða kennaraverkfalli? Markmið eitt var að þrífa eldhúsinnréttinguna að innan, henda og endurskipuleggja. Ég veit að ég hljóma eins og móðir mín, en eru það ekki örlög okkar allra? Þetta markmið náðist á tveim dögum með nokkrum aðhlynningarhléum, því að Kristrún krílulína var heima vegna kvefpestar og hita í síðustu viku. Síðan fundaði ég með kærum samstarfskonum um uppfærslu á námsbókum fyrir næsta vetur. Það sem eftir lifir verkfalls mun ég vera á kafi í námsefnisgerð (hef nú þegar lagt töluvert af mörkum) og hugsanlega eiga meira frí í sumar í staðinn. Það fer vanalega drjúgur hluti af sumrinu í þessa vinnu, þannig að fátt er svo með öllu illt.

Á þessari stundu vitum við hins vegar ekkert um það hversu langt verkfallið verður og hvenær nemendum og kennurum tekst að ljúka þessari önn. Ég sem var orðin svo bjartsýn um að það yrði ekkert verkfall! Ég vona að samningar náist sem allra, allra fyrst. Ég hef ekkert kíkt í verkfallsmiðstöðina, enda tíminn á milli 9 og 16 (engin-börn-heima-tíminn) fljótur að líða þegar heimilisstörf, líkamsrækt og námsefnisgerð eru á dagskrá. Að ég tali nú ekki um tíðar ferðir í ísskápinn og heimsóknir á facebook. Ég hitti Ástu ofur og Guðrúnu gáfuðu, verkfallsvinkonur mínar, nánast á hverjum degi (ræktin maður, ræktin) þannig að þörfinni fyrir félagsskap er fullnægt. Mér verður þó oft hugsað til nemenda minna og velti því fyrir mér hvað þeir eru að brasa. Eru þeir ekki örugglega að læra? Leiðist þeim? Hvernig líður útskriftarnemendum? Nemendur Borgó hafa verið duglegir að senda stórvel skrifaða pistla í fjölmiðla til stuðnings kennurum og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Ég ætla að skauta snyrtilega fram hjá dýpri umræðu um launamun og óréttlæti á þessum vettvangi. Mér finnst leitt að til verkfallsins kom, ég vona að málin leysist sem fyrst, en ég bíð þolinmóð eftir því að samninganefndin bjargi málunum...með haug af fyrirliggjandi verkefnum í tölvunni minni. Amen.

Yfir í aðra sálma. Ég talaði um myndavesen í síðasta bloggi og var nánast búin að ákveða að hafa bloggið myndalaust héðan í frá. En í gær hugkvæmdist mér að prófa að nota annan vafra og hviss búmm bang! Málið leyst. Því er ekki úr vegi að kíkja á nokkrar myndir úr albúminu. 

Við höfum ekki verið neitt afskaplega duglega að halda matarboð það sem af er þessu ári, þrátt fyrir fyrirheit um annað, en höfðum það af að bjóða Doktor Ingibjörgu og hennar fjölskyldu heim fyrir nokkrum vikum. Þau buðu okkur reyndar í mat en ég sneri hlutunum við þegar samviskan beit mig í afturendann því að við vorum faktískt í matarboðsskuld við þau. Boðið heppnaðist vel og mér tókst meðal annars að kveikja í puttunum á mér og brjóta í leiðinni forláta disk úr stellinu hans Hjartar. Ég á náttúrlega ekkert stell, enda Rúmfatalagersmanneskja fram í fingurgóma. Hjörtur bauð upp á bjórsmökkun og það dæmdist á Má, eiginmann Ingibjargar, að smakka allan lagerinn. Samt var þetta ekki lager bjór sko.

2014-03-09195027_zps146cc570

Eru þetta ekki krúttlegir menn? Hjörtur og Már vita allt upp á hár. Már og Hjörtur eru hvorugir með vörtur. Gat ekki valið á milli rím-myndatexta þannig að ég setti þá báða inn.

Einhvern tíma í fyrndinni, sem sagt fyrir verkfall, tók hún Sigrún mín þátt í sínu fyrsta blakmóti. Henni fannst það "ágætt." Er það ekki betra en "mjög gott"? 

2014-03-09134114_zpse71e9dbc

Hér er hún með vinum sínum, blakmeisturunum og HK-ingunum (f.v.) Isabellu, Elsu Lóu, Aðalsteini (Ástusyni) og...sjálfri sér. Já, þarna er hún alveg með sjálfri sér. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þau eru að gera þarna, enda var ég ekki viðstödd. Kannski var ég með Kristrúnu í fimleikum? Svei mér þá, ég er svo fljót að gleyma. Blogga oftar, blogga oftar.

En ég man vel að Hjörtur fór til hennar Ameríku einhvern tímann fyrir verkfall (Anno Domini) og fórst það nokkuð vel úr hendi. Helga var honum til halds og trausts og þau skíðuðu, versluðu og sömdu um kaupverð á fiski. Mér skilst að kallinn sé aftur að fara til úgglanda eftir tæpan mánuð, en þá í týpíska "kite" ferð með vinum sínum. Þá verður hann mun lengur í burtu,  alveg fram í maí. Í millitíðinni verð ég samt búin að fara í helgarferð til Osló til að vera viðstödd skírn Kristínar Husby og svo ætlum við líka að vera viku á Akureyri í kringum páskana. Maður veit samt aldrei hvaða strik verkfallið setur í reikninginn. Den tid den sorg. En heyrðu...já...að gamni ætlaði ég að setja inn mynd af því sem við vorum að gera á meðan pabbi gamli vorum í útlöndum. Ég stóð mig eins og hetja í eldhúsinu og galdraði fram bráðholla rétti, en varð þó við heitri ósk unganna um að fara einu sinni á Supersub. Það er náttúrulega besti fjölskyldustaðurinn í bænum. Frábært boltaland og krakkarnir fá að búa til sínar eigin pizzur á kr 590 stykkið! Hér eru Diddú og Kiddú að græja matinn sinn:

mars1_zps893664a5

Mæli með Supersub á Nýbýlaveginum, sérstaklega þegar það er brjálað haglél úti og ekki séns að viðra börnin. Hamagangur í boltalandinu er ágætis hreyfing!

Núbb...síðasta helgi var ágæt líka. Aðalsteinn Ástuson gisti á föstudagskvöldið og skilaði sér ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat á laugardaginn. Veðrið á laugardeginum var alveg ágætt þannig að við kíktum niður í miðbæ í borg óttans. Diddú og Addú fundu þar fáka fráa og bárust á þeim um allan Grandagarð.

mars2_zpsc286f847

Annar staður sem ég verð að mæla með fyrir fjölskyldur um helgar er Sjóminjasafnið og Kaffihúsið Víkin (beint á móti ísbúðinni Valdísi). Þar er til dæmis hægt að fara í ratleik á safninu, fara á hlaðborð fyrir lítinn pening og leika sér á mjög skemmtilegum útiróló skammt frá. Eins og sést berlega er ég farin að selja auglýsingar hérna til þess að eiga í mig og á.

Sigrún átti stórleik í hlutverki bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi fyrir ekki svo löngu. Henni fannst svo ótrúlega gaman að æfa leikritið með bekkjarfélögum sínum og það var hrein unun að fylgjast með ferlinu. Hér er Sigrún bangsamamma með ungum aðdáanda eftir sýningu:

2014-03-18174032_zps828cef37

 Diddú og Kiddú, alltaf hressar!

Við vorum með stórt matarboð síðasta sunnudagskvöld og gerðum okkur upp það tilefni að Gunni Hjartarbróðir ætti afmæli. Þar var mætt öll fjölskylda Gunna en ekki sjálft afmælisbarnið. Svolítið spes, en kallinn á heima í Kína og getur ekki spanderað tvöföldum mánaðarlaunum í að fljúga heim til Íslands til þess að halda upp á afmælið sitt. Gunni á reyndar afmæli í dag og hér er afmælistertan: 

IMG_9083_zpsf66b0ef3

Til hamingju með afmælið!

 Hér glittir svo í flesta gestina, þ.e. foreldra Hjartar, systkini, maka og afkomendur (mömmumegin):

IMG_9054_zpsaf40d122

 Fullt af litlum grísum!

Vegna veisluhalda komst ég ekki á úrslitaathöfn Nótunnar 2014, sem haldin var í Eldborg. Ég mætti hins vegar fyrr um daginn og hlustaði og horfði á Björgu mína spila, ásamt hinum stelpunum í Brasssextett SK (hvað eru mörg s í því?). Það er skemmst frá því að segja að þær unnu sinn flokk og tóku við verðlaunum úr hendi hæstvirts menntamálaráðherra. Ég er auðvitað gífurlega stolt af þessum frábæru tónlistarmönnum og jafnframt þakklát fyrir að barnið mitt fái að vera hluti af þessu metnaðarfulla starfi sem að Skólahljómsveit Kópavogs býður upp á.

10152021_10202552837014163_1649559871_n_zps1043e296

Sextettinn sigursæli með Nótuverðlaun 2014. 

Svo er margt jákvætt búið að vera í gangi í Borgó (fyrir verkfall og svo pottþétt eftir verkfall líka). Gettu betur lið skólans komst í úrslit og stóð sig ótrúlega vel gagnvart þrælsterku liði MH. Þýskunemendur skólans rúlluðu upp forkeppni fyrir ólympíuleikana og röðuðu sér í efstu sætin. Glæsilegur árangur.

Að lokum vil ég nota tækifærið og hrósa henni Ástu minni, sem hefur rutt brautina í forvarnarmálum framhaldsskóla. Hún er á góðri leið með að breyta drykkjumenningu ungmenna í framhaldsskólum (Borgarholtsskóli er flaggskipið) og framlengja með því hið góða starf sem unnið hefur verið í forvarnarmálum í grunnskólum. ACTIONS SPEAK LOUDER THAN WORDS er hennar uppáhalds málsháttur. Þjóðarskútan kæmist örugglega aftur á kjölinn ef hún yrði kallinn í brúnni, þ.e. forsætisráðherra landsins. Hugur hennar stefnir víst ekki í þá áttina (ég skil hana vel!). Hér er mynd af henni sem tekin var í morgun í tabata í Kringlunni, ásamt fríðu föruneyti:

tabata_zps9453aebf

Kennarar í verkfalli (Ásta til vinstri, Guðrún til hægri) með ketilbjöllur fremst á mynd. Glöggir kannast kannski við dóttur mína þarna fyrir aftan. Svona er best að byrja daginn (kl. 6:10 á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum í WC, Kringlunni). Enn meiri auglýsingatekjur í kassann!

Bye for now (vá...næstum því búin að gleyma hvernig átti að skrifa þetta, enda búin að vera allt of lengi í verkfalli!).

Zoulroon verkfallna :) 

 


Marsering

Vó! Time flies like a sparrow with an arrow...eða eitthvað. Og ég sem hefði getað bloggað um svo margt í svo ótal mörgum orðum og endalausum færslum.

Febrúar var flottur mánuður og það sem stendur helst upp úr er afmæli pabba og fæðing Kristínar krúttsprengju.

Kristín verður skírð í höfuðið á henni móður minni sálugu þann 12. apríl n.k. af ekki minni spámanni en Séra Jónu Lovísu Jónsdóttur, systur minni. Í Noregi. Að mér og Bjössa viðstöddum. Akkuru? Af því að móðirin er engin önnur en uppeldissystir okkar, hún Tinna litla Túdd. Hún var mikið hjá okkur fyrstu árin og kallaði alltaf mömmu mömmu (Kiddý mömmu...en svo á hún auðvitað sína Svölu mömmu...sem er mjög svöl). Mamma var þekkt fyrir að vera mjög stjórnsöm og birtist því systur sinni í draumi (sem dýrðlegt ævintýr) og heimtaði sitt nafn á stúlkuna, sem þá var varla komin undir. Barnið átti svo að koma á afmælisdegi Óla pabba og Svölu mömmu en kom akkúrat deginum á undan, sem er nú barasta í fínasta lagi. Hún býr í Noregi og á að heita Kristín Husby Mariusdóttir. Mér finnst að það mætti líka troða Kúld nafninu þarna inn eeen...kannski er það of mikið?

Sjötugsafmæli pabba var stórmerkilegt líka, sérstaklega af því að hann ætlaði að hafa það lítið og lágstemmt en svo breyttist það óvænt í svaka partý. Tja...óvænt fyrir hann en allir aðrir vissu að þeir ættu að mæta klukkan hálf níu fyrir utan íbúðina hans, syngjandi afmælissönginn við raust. Bjössi bró skemmtanastjóri átti nú mestan heiðurinn af því að þetta heppnaðist svona vel, en við systur vorum ágætar á kantinum. Pabbi fékk svo mjög nytsama gjöf frá börnum og barnabörnum, nefnilega plasmasjónvarp. Nú horfir hann á Liverpool vinna alla sína leiki í háskerpu. Það munar um minna! 

Börnin dafna vel, jafnvel of vel á köflum. Hvað eru mörg vel í því? Kiddú klára átti tvo afleita sundtíma eftir síðasta dýrðarblogg en síðan hefur leiðin legið upp á við. Köfun og hegðun til fyrirmyndar! Diddú fór á sitt fyrsta blakmót á sunnudaginn og þótti það nokkuð gaman. Hún er að æfa hlutverk bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi og er voðalega spennt fyrir því. Böddey spilaði á vortónleikum Skólahljómsveitar Kópavogs í gær og gekk ljómandi vel, rétt eins og öllum hinum 150 krökkunum. Alveg frábær hann Össur og allir hans kennarar. Björg tók líka þátt í Nótunni um daginn með Sextett SK. Þeim gekk svo vel að þær eru komnar í úrslitakeppnina í Eldborg. Vel gert!

Er ekki kominn tími á greinarskil? Harpsí er skilin að skiptum við barnsföðurinn og flutt í aðra íbúð en er bara mjög ánægð með lífið. Forræðið með litla pjakk er sameiginlegt og hefur gengið þokkalega enn sem komið er. Jakobus er bara alltaf jafn hress og iðjusamur, gengur vel í leikskólanum og brosir út í eitt. Helga er á kafi í hugbúnaðarverkfræðinni og er á svo lafandi lausu að það er ekki fyndið. Henni virðist líka það vel, enda lítill tími fyrir annað en lærdóm í hennar lífi. Fyrst klárar hún námið og fær milljón á mánuði. Síðan velur hún sér maka og eignast tvær stelpur með honum. Freknóttar með þykkan hárlubba. 

Hjörtur og Helga eru að fara til BNA á miðvikudaginn og verða í tæpa viku. Business and pleasure, þ.e. fiskur og skíði. Ég ver virkið á meðan.

Nú styttist í að Kisi Jackson verði 5 ára. Þá verður eflaust eitthvað húllumhæ...freðnar rækjur og froðurjómi. Gunni Bowie verður sjö mánaða á morgun og er orðinn stærri en Kisi, svei mér þá. Þessi börn stækka allt of fljótt! Hann er ennþá að fara í taugarnar á Kisa með því að hoppa á hann, en það hefur samt aðeins minnkað, enda slæst Gunni helst ekki við minnimáttar. Þegar Gunni er þreyttur geta þeir alveg kúrt saman (eða svona næstum því), en þegar Gunni er í stuði fer Kisi út og lætur ekki sjá sig tímunum saman. Þeir eru báðir algjörir dúllurassar.

Ég sjálf er bara nokkuð hress. Get ekkert hlaupið frekar en fyrri daginn (fyrri árin...mehehe) en reyni að dröslast af og til í jóga og tabata, my lifesavers. Vinnan gengur vel og ég er sérstaklega stolt af Gettu betur liði skólans um þessar mundir. Það eru fáránlega margir flottir nemendur í Borgó!

Þessi færsla er orðin frekar myndarleg en verður samt myndalaus. Á fimmtudag og föstudag hellast inn ritgerðirnar og mun ég ekki eiga mér mikið líf um helgina. Ég geri ráð fyrir því að skila þeim af mér næsta mánudag, nema að til verkfalls komi. Ég leyfi mér að vera bjartsýn því að ég hef ekki tíma fyrir neitt slíkt og hvað þá skjólstæðingar mínir. Við sjáum hvað setur.

Adios

Jólrún :)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband