Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Flateyin kláruð

Það er búið að vera eitthvað tölvuvesen á minni þannig að ég hef ekki komist í blogggírinn (hvað eru mörg g í því?) fyrr en nú. Við lentum í Kópavoginum í kvöld eftir laaanga útiveru og því alveg tilvalið að nota góða internettengingu til þess að klára Flateyjarumfjöllunina í stuttu máli.

Björg Steinunn var alsæl með að komast heim í menninguna af því að þá gat hún loksins farið að hlusta á tónlist á youtube á ný. Hún fékk nú samt að hafa með sér i-pad-inn í Flatey og nýtti hann vel í að gera marga bráðfyndna trailera með börnin í aðalhlutverki. Ekki hreifst hún mjög af hugkvæmni móður hennar, sem pakkaði gerseminni vel og vandlega ofan í tösku með dúnmjúkar bleyjur  utan um:

IMG_1310

Ég verð að taka það fram að gleraugun sem hún er með á unglingsnefinu eru ekki hennar, heldur eitthvað sem hún fann í dótakassanum í Bræðraminni. Svipurinn er þó algjörlega hennar (þessi "djímammahvaðþúerteitthvaðhrikalegaklikkuðmaðurdööööööö...").

Það var sko aldeilis ekki alltaf rok í Flatey, eins og þessi mynd ber með sér:

 IMG_1316

Allir litlu grísirnir í sandkassa fyrir utan Bræðraminni.

Þrasi bróðir og Bjórlafur faðir minn voru glaðir og nettir á því allan tímann og fóru með börnin í göngutúr um eyna:

 IMG_1345

Skál!

Við fórum út á "djammið" í Flatey, sem reyndist vera söngskemmtun miðuð við smekk 80 ára eldri. Vel flutt engu að síður og allt búið, uppklapp og hvaðeina, fyrir miðnætti. Helga og unnustinn létu sig ekki vanta á djammið:

 IMG_1353

Svo dæd og dæd og dæd....

Ein gleðilegasta uppgötvun mín í Flatey var hundurinn SÓLA. Hún er núna uppáhaldshundurinn minn....á eftir Snata auðvitað.  Hér erum við Sólurnar í ljúfum leik:

 IMG_1374

Sögur herma að nafnið hafi komið til þegar eiginmaður bekkjarsystur Bjössa bróður spurði konuna sína að því hver væri mesta tíkin í Stykkishólmi. Eftir smá umhugsun svaraði hún: ....

Ég sel það ekki dýrara....

Margar sögur hafa farið af gourmet máltíðum í Bræðraminni. Ein eftirminnilegasta máltíðin var án efa dýrindis réttur ættaður úr Toro héraðinu í Mexíkó. Faðir minn er sérfræðingur í þessum rétti og hér sést hann töfra fram pottþéttan pottrétt sem hreinlega gældi við bragðlaukana og úfinn líka. Það eina sem vantaði var kínakálið, en það kemur bara næst því að þessi réttur er kominn til þess að vera á Bræðraminnismatseðlinum!

 IMG_1388

Eldað af ástríðu!

Hmm...mér finnst rétt að sýna eina mynd af Flatey í vondu veðri, fyrst að ég minntist á rokið í síðasta bloggi:

IMG_1390

Björgin á leiðinni að fjúka út á sjó? Nah...hún bjargar sér. Pun intended.

Aðalamálið er samt kríuunginn Eyjólfur sem ég minntist á í síðustu færslu. Hann fékk nafnið þegar Óli afi spurði hvort að Eyjólfur væri ekki að hressast? Svo er hann náttúrulega orginal eyjapeyji. Hann var sem sagt orðinn kaldur og líflaus þegar pabbi kom með hann í hús, en Björg bjargaði öllu með því að nudda í hann yl og troða þorskbitum ofan í kokið á honum. Á nokkrum tímum varð hann hinn sprækasti og átti athygli og ást allra í Bræðraminni. Hann kúrði í hálsakoti Bjargar, en átti þó til að skapa sér eilítlar óvinsældir af og til:

IMG_1394

Úpsí! Eyjólfur kúkarass! Honum var samt auðvitað fyrirgefið af því að hann var svo mjúkur og góður og sætur og yndislegur! Hann fór sprækur að sofa um kvöldið, en morguninn eftir var Eyjólfur ekki lengur hressi gaurinn. Björg kom ofan í hann mat sem hann ældi svo jafnóðum. Máturinn þvarr smátt og smátt og um miðjan dag var hann allur. Ég ætla ekki að fara út í sorgarferlið í smáatriðum, en get sagt með sanni að Björg tók lát hans alveg ofboðslega nærri sér. Hann liggur nú grafinn úti við hjall, með hvítan kross á leiðinu. Blessuð sé minning Eyjólfs sem gladdi okkur öll með nærveru sinni og kríuskít.

Vikan leið hratt í Flatey við leik og störf og það rættist heilmikið úr veðrinu í lokin. Bullandi blíða sem varð þess valdandi að Hjörtur fann sig knúinn til þess að henda sér í sjóinn með síðustu geislum sólarinnar:

IMG_1430

Ég var ekki alveg jafn spennt. Ég gerði þó nokkrar tilraunir en hafði bara einu sinni erindi sem erfiði. Ég fer létt með að vaða upp að mitti en kaflinn eftir það er ansi erfiður. "It's all in your head" eins og maðurinn sagði. Hann var sko Englendingur.

Hællinn og ilin eru enn í graut og ekki gat ég synt eða hjólað í Flatey þannig að ég bara hreyfði mig ekki neitt. Eins og nýjustu myndir sína er hreyfingarleysið farið að hafa áhrif á líkamsvöxt minn og útlínur allar:

IMG_1363

Eitthvað verð ég að fara að gera í þessu, for faen!

 

Næst verður fjallað um góða dvöl í Hólminum.

Laters baby....

 

Sóla tík :)

 


Rok í Flatey

Í fyrsta skipti í sögu júlíferða í Flatey er hávaðarok. Það er því lán í óláni að við erum ekki mörg í húsinu í þetta sinn þegar varla er hundi úti sigandi. Við komum hér síðasta fimmtudag á Sólunni, hoppandi og skoppandi á ýfðum haffletinum. Á miðri leið hittum við hóp af höfrungum sem ég tók nokkur góð myndbönd af, en þau blikna alveg í samanburði við myndbönd af háhyrningsvöðu sem lék sér við ströndina í Flatey í gær. Assgotinn að missa af því sjónarspili!

 

Við fengum samt fínt veður á föstudaginn og þá var tækifærið vel notað í blöðrubusl, veiðar og annað sjósport. Hér eru grísirnir þrír: Sigrún, Óli og Björg að busla í voginum í blautbúningunum sínum:

 IMG_6606

Erna Rós er ekki enn búin að eignast blautbúning en hún fékk samt að fljóta með:

 IMG_6618

 

Hjörtur lítur á þetta rok sem alveg fyrirtaksveður því að þá getur hann farið út að leika með flugdrekana sína. Hér er drengurinn í sjöunda himni:

 IMG_6631

Þrátt fyrir gjóluna þótti tilvalið að fara í árlega heimsókn til tippakallsins og færa honum fórnir. Hér eru allir Bræðraminnisbúarnir, hressir og kátir með frjósemisguðinn Frey fyrir miðju:

 IMG_6753

Að vanda hefur margt gómsætt runnið inn fyrir okkar varir í Flatey. Björg Steinunn vaknaði fyrst í gærmorgun og bakaði vöfflur fyrir allt liðið. Ekki amalegur morgunmatur það!

 IMG_6804

Þar sem ég er hölt hæna er ég að verða geðveik af hreyfingarleysi hér í Flatey. Neyðin kenni naktri konu að spinna og því hvatti ég fólkið á bænum til þess að fara með mér í sjósund. Kærasti Helgu er reyndur sjósundskappi og tók smá rúnt í voginum:

 IMG_6826

Hjörtur er þó sá alharðasti, enda alltaf að sulla í sjónum og orðinn algjörlega ónæmur fyrir kulda. Svo er hann alltaf í náttúrulegri lopapeysu þannig að honum er aldrei kalt:

 IMG_6818

Ég harkaði líka af mér og náði tveimur mínútum í íííísköldum sjónum, en myndin af mér því til sönnunar vill ekki koma inn. Eins og sést er þetta blogg fremur þurrt og fábreytilegt. Hug okkar allra á hálfstálpaður kríuungi sem pabbi kom með inn áðan. Hann var orðinn helkaldur og máttlaus, en er allur að hressast eftir að stelpurnar héldu á honum hita og tróðu þorskbitum upp í hann. Við hittum fuglafræðinga hér í eyjunni sem sögðu okkur að þeir höfðu fundið mun fleiri dauða unga í eyjunni heldur en lifandi. Það eru ekki góðar fréttir. Kannski tekst okkur að bjarga þessum? Ég er svo sem ekki bjartsýn á það, en það má alltaf halda í vonina.

Við förum í Hólminn á miðvikudaginn og þá koma fleiri myndir og auðvitað nýjustu fréttir af unganum.

Vindakveðja úr eyjunni fögru...

Sóla sundkona :) 


Stuð in da Stykkiz

Ég hef aldrei verið eins lengi frá Borgarnesi í Stykkishólm og á mánudaginn, enda knúin áfram af eigin orku, aðallega hugarorku. Eftir að hafa troðið pulsu með hráum og miklu sinnepi í andlitið á mér kvaddi ég fjölskylduna með tárum (not) fyrir utan Olís í Borgarnesi. Eina nestið var hálfur brúsi af einhverjum hlaupadrykk með mynd af Pálínu Radcliffe, hlaupavinkonu minni. Það síðasta sem Hjörtur sagði við mig var: "Sjáumst eftir fjóra tíma!"  Ég jánkaði því eitthvað út í bláinn, enda ekki alveg búin að hugsa dæmið til enda.  18-20 stiga hita úti og glampandi sól og gljáandi fögur traktorsdekk á reiðskjótanum, þ.e. fjallahjólinu hans Hjartar. Hálftíma síðar varð mér ljóst að Hjörtur hafði sett óþarflega mikla tímapressu á mig og eftir 24 kílómetra sendi ég Hirti þetta sms: "Ég er bara komin 24 km í eilífum mótvindi þannig að ekki búast við mér  í kvöldmat. Kysstu stelpurnar góða nótt frá mér :)" Jamm...þannig var það nú. Ég barðist á móti vindinum (7-8 metrar á sekúndu) nánast alla leiðina og var ekki komin heim fyrr en klukkan 9 um kvöldið, rúmum 6 tímum eftir að lagt var af stað! Hjá Kaldármelum var vindurinn á hlið og þá átti ég gott rennsli og flaug áfram, en annars var þetta bara puð á peysunni, með 200 desibel af vindgnauði í eyrunum allan tímann. Ég hjólaði stanslaust í 3 tíma áður en ég steig af hjólinu til þess að ná mér í vatn í flöskuna, sem var auðvitað löngu orðin tóm. Þá voru herðar, hnakki og mjóbak í henglum eftir einhæfa stöðu, auk náladofa í höndum. Þegar ég var  að nálgast Vegamót var ég orðin svo orkulítil að ég verslaði SYKURkók í sjoppunni og eitt súkkulaðistykki. Ótrúlega retró eitthvað. Ég held að ég hafi verið 12 ára síðast þegar ég fór út í sjoppu og keypti alvöru kók og súkkulaði. Núna kaupir maður bara 7 Mars í pakka í Bónus og er búin að hakka þau öll í sig áður en heim er komið (múhahahaha!). Ég hélt að ég fengi alla vega hliðarvind yfir Vatnaleiðina en...neinei...mótvindur alla leiðina upp og niður og svo aftur mótvindur á leiðinni í Hólminn! Ég hef sjaldan verið jafn glöð að renna inn í Stykkishólm og þetta mánudagskvöld, jafnvel þó að lúðrasveitin appelsínugula hafi ekki tekið á móti mér. Bjössi bró, Erna hró (og có), Hjörtur og grísirnir þrír tóku fagnandi á móti mér þannig að ég gat ekki annað en tekið Armstrong á þetta:

534616_4411247278524_2044912289_n

98 kílómetrar að baki! Ég komst að því í þessari ferð að ég er ekki sterk hjólreiðamanneskja, en breiðfirzka þrautseygjan fleytir mér endalaust langt. Heitur pottur, eplavín, íbúfen og knús um kvöldið ullu því að daginn eftir fann ég ekkert fyrir púlinu, fyrir utan smá stífleika í vinstra hnénu. Sjúkraþjálfarinn er búinn að banna öll hlaup þannig að ég býst við að hjóla Hvalfjörðinn á heimleiðinni...ef vindáttin er hagstæð!

Ég er aldeilis ekki á heimleið, því á morgun förum við í Flatey. Bjössi og kó ásamt Björgu og pabba fóru reyndar í dag, en ég var ekki alveg tilbúin í að yfirgefa Hólminn fagra strax. Veðrið í gær var voða gott og eins og oft áður var tjillað úti á túni:

IMG_1249

Hér eru stelpukrílin ásamt Helenu og Jóhönnu, bestu vinkonum Diddú í Hólminum. Það er ómetanlegt að eiga góða leikfélaga, helst í tvíriti.

Ég plataði fjölskylduna upp á Hraunflöt að veiða. Björg, Óli og Sigrún voru öll í blautbúningum og léku sér í vatninu og veiddu silung, en Erna Rós ofurhetja þurfti ekkert á slíku prjáli að halda. Hér er hún að koma í land eftir að hafa dottið á kaf í vatnið. Ekkert væl og ekkert skæl:

IMG_1254

Björg og Óli sjást í bakgrunni með sína hvora veiðistöngina. Að venju fékk ég flesta fiskana en þau veiddu þá matarlegustu, sem voru steiktir á pönnu og bornir fram sem forréttir um kvöldið. Hér er Kristrún að skoða einn týpískan mömmutitt:

IMG_1265

Honum var að sjálfsögðu gefið líf.

 

Björg fann svo eina krúttlega lirfu í lynginu, sem er líklega lirfa ertuyglu (gúgl):

 IMG_1271

Þær bundust nánum böndum á staðnum og Björg fékk að taka krúttið með heim og geyma í krukku.  Hún er búin að hakka í sig fíflablöð og lúpínu, en rétt í þessu var Hjörtur að úrskurða hana látna. Ég mun færa stelpunum þessar sorgarfréttir á morgun. "Lifðu í lukku en ekki í krukku" á svo sannarlega við hér.

Úje...gleymdi að segja að það var allt morandi í krækiberjum í kringum vatnið. Ég man bara ekki eftir svona góðri sprettu um miðjan júlí, enda er tíðin ekki búin að vera neitt venjuleg á Vesturlandi. Ég og Kristrún hámuðum í okkur berin og þau smökkuðust bara ljómandi vel. Sjáiði bara:

 IMG_1264

Ég elska krækiber!

Þegar við komum heim úr veiðiferðinni fengu krakkarnir að leika með nýja dótið hans Bjössa. Hér er Óli í 129. ferðinni í vatnsrennibrautinni:

IMG_1277

Besta vinkona hans, hún Björg Steinunn sætapús, var ekki langt undan:

IMG_1286

Víííí....rosa stuð!

 

Í nótt rigndi, aldrei þessu vant, en heimamenn segja að Hólmurinn hafi grænkað mikið eftir dembuna. Um hádegi var allt orðið þurrt og blankalogn, þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu þetta sumarið. Við nýttum daginn vel til heimsókna og í fleira dútl. Svo er það Flateyin fagra á morgun, hvar ég verð örugglega nettengd.

Bless bless

Hjólrún Hólm :)


Sumarfrí...tíhíhí...

Það er sniðugt að kíkja í símann sinn þegar gleymskan nær yfirhöndinni. Samkvæmt þessari mynd skemmtu stelpurnar sér vel í Nauthólsvíkinni fyrir skemmstu:

IMG_1178

 

Þar eru komin nokkur ný og skemmtileg tæki. Við hjóluðum þangað stelpurnar og pabbi var svo góður að kíkja líka þangað þannig að Jólrún gat synt í íslenska sjónum í fyrsta sinn í langan tíma (held að ég hafi ekki tekið sundsprett síðan á Ægisgötunni í gamla daga þegar Hrefna Markan...meiri harkan...hrinti mér í sjóinn sjö ára gamalli). En það fór verr fyrir Bob Dylan, en þar var María Markan að verki (man einhver eftir því?).  Anyways, mig langar til þess að synda oftar í sjónum. Og þá meina ég SYNDA. Þetta var eitthvað smá busl hjá mér og Björgu með tilheyrandi skrækjum. Einu sinni er þó allt fyrst.

Húsdýragarðurinn er svo mikil klassík að það hálfa væri nóg. Árskortið í garðinn er búið að margborga sig og ef ég reikna út ágóðann á ég fyrir nýjum minkapels og rúmlega það. Minn heitasti draumur, ásamt demantshringi auðvitað. Og gráu fúnkishúsi. Múahahaha. Minn materíalski Síamstvíburi,  Ásta margbrotna, slóst í för og úr varð heljarinnar hjólaferð í garðinn. Hér er Ásta ásamt tveimur yngstu sonum sínum, Aðalsteini og Ríkharði. Tjú tjú!

IMG_1179

Veðrið var sjúklegt eins og svo oft áður í sumar. Dásemd dásemd dásemd. 

Við áttum annan dásemdardag í Elliðaárdalnum, sem ég gerði reyndar ágætis skil á facebook. Þar voru flestar myndir teknar á vélina hans Óla afa, en ég fann nokkrar á símanum mínum. Hérna eru glaðbeittu nafnarnir:

IMG_1201

 

Óli og Erna, Bjössa og Ernu börn, fóru sem sagt með okkur í dalinn á meðan foreldrarnir voru að flytja úr Frostaskjólinu í Granaskjólið. Ég hjólaði þangað í fyrradag á 25 mínútum (tekur svipað langan tíma að keyra) og leist ótrúlega vel á hversu vel þau voru búin að koma sér fyrir. Næs að hafa einkalóð og ekki spillir fyrir að það er örstutt á KR völlinn þar sem krakkarnir munu bæði gera það gott í boltanum í framtíðinni (Óli Geir reyndar nú þegar,  bæði í fótbolta og körfubolta).  

Björg Steinunn fór loks í fermingamyndatöku í vikunni. Mér finnst ágætt að hafa formlegar myndatökur á sumrin þegar allir eru hraustlegri útlits og horið hætt að hanga. Kristrún er einmitt öll að hressast núna og hætt að hnerra sjötíu sentímetra sleipum slöngum, fagurgrænum að lit, út úr hvorri nös. Líklega af því að hún er komin í frí í leikskólanum - ónæmiskerfið er víst ekkert sérlega sterkt. Hér er Kristrún á leiðinni í myndatöku, ægilega fín:

IMG_1218

Það sést reyndar í smá glóðarauga og skrámu á auganu hægra megin. Krílið datt daginn áður í Elliðaárdalnum. Sigrún og Kristrún fengu að vera með Björgu á nokkrum myndum og ég hlakka til að sjá útkomuna. Ljósmyndarinn heitir Elena Litsova og ég valdi hana af því að myndirnar hennar eru bara ótrúlega flottar og öðruvísi. 

Við fórum í skemmtilega heimsókn til Svövu mágkonu í sveitina í gær. Hjörtur var í tveggja daga mótórhjólaferð uppi á fjöllum þannig að það var ágætt að dunda sér með Svövu og börnunum. Þrjú tveggja ára, ein fjögurra ára og ein sex ára. Góður hópur og nóg við að vera í sveitinni í Mosfellsdal. Hér eru Emma Björk og Kristrún Eir að brosa vinalega hvor til annarrar. Þær munu örugglega eiga skap saman, báðar rólegar í fasi en nokkuð ákveðnar samt.

IMG_1235

 

Hjörtur kom svo heim í gærkvöld, vel þreyttur eftir langa keyrslu í óbyggðum og hrjótandi herbergisfélaga. Útsýnið út um eldhúsgluggann í gærkvöld var fagurt eins og oft áður:

IMG_1242

Litirnir eiga að vísu að vera miklu bleikari en síminn var ekki alveg að ná þessu rétt.

Jæja, smá fótaskýrsla í lokin... Ég komst strax að hjá gamla sjúkraþjálfaranum mínum og þar kom í ljós að sinin undir ilinni er grjóthörð og stíf og mikil vinna framundan. Svo fórum við Kristrún í göngugreiningu í Flexor. Kristrún var mjög laus í öllum liðum en það þótti svo sem ekkert óeðlilegt fyrir hennar aldur og mun líklega lagast. Ég var líka skoðuð í bak og fyrir og ekki fannst nein sérstök skekkja frekar en vanalega. Geng svolítið á jörkunum, sem er eðlilegt fyrir mína fótabyggingu. "Göngugreinandinn" hafði sjálfur átt við hælvandamál  að stríða (gat ekki stigið í fótinn í 3 mánuði!) og gaf mér ýmis góð ráð. Hann ætlar að láta sérsmíða innlegg fyrir mig sem hann lofaði að myndu hvíla sinina vel. Ég er bara ánægð með það og leyfi mér að vera bjartsýn á framhaldið. Það verður þó ekki mikið um hlaup á næstunni þannig að ég verð að reyna að vera duglegri að hjóla. Við förum líklega í Hólminn á morgun og ég er alvarlega að spá í að hjóla frá Borgarnesi til Stykkishólms. Það eru einhverjir 100 kílómetrar en ættu varla að drepa gamlan maraþonhlaupara. Mér er reyndar meinilla við að hjóla úti á vegum af ótta við gáleysi bílstjóra, en við skulum bara vona að umferðin verði lítil sem engin. 

Until next time... 

 

Hjóla Bödd :)


Júlíbyrjun í Stykkishólmi

Jajíja....feita konan sest við tölvuna á ný með einhverjar ponsu fréttir af álfunum í túninu sem aldrei eru heima. Við vorum að koma úr Hólminum áðan eftir 5 daga dvöl sem leið hjá eins og hendi væri veifað. Vúmm! Þar voru flest tún gul, fyrir utan grænar skellur sem í daglegu tali kallast fíflablöð. Júní var náttúrulega þurrasti mánuðurinn þar frá upphafi mælinga. Það var aðeins meiri raki í loftinu núna í upphafi júlímánaðar, þó að ekki sé hægt að segja að rignt hafi mikið.

Björg Steinunn kom sinn fyrsta túr í Hólminn með okkur í sumar, sem er ótrúlegt miðað við aldur og núverandi störf. Reyndar var það starfið (unglingavinna, barnapössun, spilerí) sem hélt aftur af henni, en núna tók hún sér smá frí. Sigrún Björk eyddi mestum tímanum í Hólminum með vinkonum sínum (Helenu og Jóhönnu) þannig að ég skottaðist mest um bæinn með litlustu og stórustu:

 IMG_1123-1

Hér var ég að reyna að taka krúttlega mynd af Kristrúnu á Skólastígnum, en himpigimpið nýfermda gretti sig í gríð og erg fyrir aftan. Við vorum einmitt á leiðinni úr heimsókn hjá Dísu skvísu vinkonu okkar á Skólastígnum, saddar af Condiskexi og Pepsi Max. Rop.

Við hjóluðum reyndar miklu meira en við gengum, sem kom þó ekki endilega til af góðu. Sama morgun og við fórum til Stykkiz steig gamla konan (ég) berfætt (og sárfætt) á einhvern aðskotahlut á gólfinu sem stakkst djúpt inn í hælinn. Mér fannst þetta vera glerflís og finnst það enn þegar ég renni fingrinum laust yfir húðina á hælnum þar sem ætlaður aðskotahlutur er. Ekki sáum við neitt standa út úr hælnum þannig að ég mætti í tabata í Laugum með Ástu úlnliðsbrotnu á kantinum. Ég haltrandi og Ásta með hangandi hendi (týpískt hún eitthvað sko). Daginn eftir var mér enn jafnillt í hælnum (og komin með djúpan verk í ilina eftir að ganga alltaf á táberginu) þannig að ég kíkti í læknisheimsókn á sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Læknirinn fann ekki neitt nema "bullandi hælspora", þ.e. il sem var viðkomu eins og spenntur bogi (Braga?). Við ræddum iljarfellsbólgu mína og að endingu gaf ég lækninum góð ráð við hans eigin hásinabólgu: Lið-aktín! Hann fór sáttur með þau málalok en ég alveg jafnhölt, þar sem að hann sá ekkert og vildi ekki fara að krukka í hælinn og búa til sár. Bíða í fimm daga og sjá svo til. Ég er skárri í "flísinni" núna, en hællinn og ilin í algjöru rusli, enda er ég nánast ekkert búin að geta hlaupið síðan einhvern tímann fyrir Kanada. Fram að því virtist þetta allt á uppleið, 9-10 km rólegir og var ekkert að versna. Ætli maður verði ekki að fara að játa sig sigraða og drullast til sjúkraþjálfara? En það kom sér vel fyrir gönguhefta konu að hafa tekið með hjólin til Stykkishólms. Ég fór meira að segja í smá hjólatúr upp í sveit og kom til baka alveg rennandi blaut...að utan. Lenti í rigningarskúrnum sem allir höfðu verið að bíða eftir! Já já...svo fór ég líka að synda...í annað skiptið á árinu! Hrikalegt hvað maður er "hooked" á hlaupunum og nennir engu öðru. En neyðin kennir naktri konu að troða sér í sundbol og sundhettu, setja á sig nýju sundgleraugun og dúlla sér í fínu sundlauginni í Stykkishólmi þar sem alltaf er nóg pláss. Ég byrjaði með froskalappir en í 25 metra laug er maður varla lagður af stað áður en komið er á bakkann hinum megin. Ég ákvað að reyna að æfa skriðsund ÁN froskalappa. Disaster.  Ég sökk eins og vanalega og var nær dauða en lífi á tímabili. Í staðinn fyrir að gefast upp snarlega ákvað ég að þrjóskast aðeins við. Ég prófaði að slaka aðeins á og gera bara fótatökin fyrst, alveg rosalega rólega, og reyna svo að koma restinni af skrokknum á stað á eftir. Þetta gekk betur og ég átti nokkrar sæmilegar ferðir. Hvíldi mig vel og lengi við bakkann eftir hverja ferð og var ekki að stressa mig á að telja ferðirnar. Ég bara verð að koma mér aftur í sund og æfa skriðsundið. Best væri auðvitað að fá einkaþjálfara í nokkur skipti. Er einhver á lausu?

Við gerðum nú ýmislegt fleira en að hjóla og haltra. Sóla var sett á flot og við drógum upp nokkra þorsktitti í matinn handa okkur og Begga nágranna. Síðustu þrír sem ég veiddi voru nú reyndar meira en bara tittir, Hirti til mikillar ánægju. Hann nennir ekki að flaka neitt undir 20 pundum sko.

Í gærkvöld dró ég engan þorsk, en hins vegar dró ég Hjört með mér upp á Hraunflöt að renna fyrir fisk í Selvallavatni. Þar eyddi ég mörgum góðum stundum með fjölskyldunni í gamla daga. Ég hafði keypt nýja silungaspúna í Kanada og var ekkert lítið spennt fyrir að prófa þá alla. Ég valdi einn nettan sem hét "Black Fury" sem virtist ætla að gefa góða raun því að um leið og ég kastaði út var kominn fiskur á. Því miður tókst honum að snúa sig af króknum og ekki varð ég vör aftur um hríð. Hirti gekk ekki vel heldur, enda að veiða á algjörlega glötuðum stað (what a noob!). Honum leiddist greinilega þófið og ákvað að ganga yfir vatnið! Hér er hann á miðri leið:

IMG_1135

Hann gekk sem sagt þvert yfir vatnið, buxnalaus en í úlpu. Á leiðinni til baka tókst ekki betur til en svo að hann lenti í holu í vatninu og sökk upp að geirvörtum og eyðilagði um leið fína símann sinn! Á meðan eiginmaðurinn var að drukkna reyndist ég upptekin við að mynda bráðina í blóðbergsdúlleríi í fagurri laut. Ég man ekki hvað þessi spúnn hét, en ég ákvað að hann væri betri en Svarta reiðin:

 IMG_1143-1

Krúttlegur! Auðvitað sleppti ég honum eftir myndatökuna. Fiskinum, ekki spúninum.

 

Að endingu fóru leikar þannig að Hjörtur fékk tvo fiska....

IMG_1147

Hér er hann með minnsta fisk sem veiðst hefur í Selvallavatni.

....og ég var með sjö fiska: 

 IMG_1149

Jæja, kannski ekkert risastór heldur, en það er bara svo gaman að veiða. Þeim var öllum sleppt, ansi sprækum, svona fyrir næstu veiðimenn.

Hér er ein stemmningsmynd frá Selvallavatni: 

 IMG_1164

Gráakúla í baksýn, urriði í framsýn. Mikið var þetta nú gaman.

Nú tekur við rúm vika í höfuðborginni, nema að okkur detti í hug að fara í tjaldferðalag í millitíðinni. Mér finnst þetta sumarfrí allt of fljótt að líða og legg til að spólað verði til baka um að minnsta kosti einn mánuð. En eftir þessa rúmu viku förum við aftur í Stykkis í örfáa daga, svo í Flatey í viku (jibbýjey!) og svo eina helgi í viðbót í Hólminum. Eftir það er sumarfríið nánast búið. Búhú.

Bless í bili!

Sóla veiðisjúka :)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband