Stuð in da Stykkiz

Ég hef aldrei verið eins lengi frá Borgarnesi í Stykkishólm og á mánudaginn, enda knúin áfram af eigin orku, aðallega hugarorku. Eftir að hafa troðið pulsu með hráum og miklu sinnepi í andlitið á mér kvaddi ég fjölskylduna með tárum (not) fyrir utan Olís í Borgarnesi. Eina nestið var hálfur brúsi af einhverjum hlaupadrykk með mynd af Pálínu Radcliffe, hlaupavinkonu minni. Það síðasta sem Hjörtur sagði við mig var: "Sjáumst eftir fjóra tíma!"  Ég jánkaði því eitthvað út í bláinn, enda ekki alveg búin að hugsa dæmið til enda.  18-20 stiga hita úti og glampandi sól og gljáandi fögur traktorsdekk á reiðskjótanum, þ.e. fjallahjólinu hans Hjartar. Hálftíma síðar varð mér ljóst að Hjörtur hafði sett óþarflega mikla tímapressu á mig og eftir 24 kílómetra sendi ég Hirti þetta sms: "Ég er bara komin 24 km í eilífum mótvindi þannig að ekki búast við mér  í kvöldmat. Kysstu stelpurnar góða nótt frá mér :)" Jamm...þannig var það nú. Ég barðist á móti vindinum (7-8 metrar á sekúndu) nánast alla leiðina og var ekki komin heim fyrr en klukkan 9 um kvöldið, rúmum 6 tímum eftir að lagt var af stað! Hjá Kaldármelum var vindurinn á hlið og þá átti ég gott rennsli og flaug áfram, en annars var þetta bara puð á peysunni, með 200 desibel af vindgnauði í eyrunum allan tímann. Ég hjólaði stanslaust í 3 tíma áður en ég steig af hjólinu til þess að ná mér í vatn í flöskuna, sem var auðvitað löngu orðin tóm. Þá voru herðar, hnakki og mjóbak í henglum eftir einhæfa stöðu, auk náladofa í höndum. Þegar ég var  að nálgast Vegamót var ég orðin svo orkulítil að ég verslaði SYKURkók í sjoppunni og eitt súkkulaðistykki. Ótrúlega retró eitthvað. Ég held að ég hafi verið 12 ára síðast þegar ég fór út í sjoppu og keypti alvöru kók og súkkulaði. Núna kaupir maður bara 7 Mars í pakka í Bónus og er búin að hakka þau öll í sig áður en heim er komið (múhahahaha!). Ég hélt að ég fengi alla vega hliðarvind yfir Vatnaleiðina en...neinei...mótvindur alla leiðina upp og niður og svo aftur mótvindur á leiðinni í Hólminn! Ég hef sjaldan verið jafn glöð að renna inn í Stykkishólm og þetta mánudagskvöld, jafnvel þó að lúðrasveitin appelsínugula hafi ekki tekið á móti mér. Bjössi bró, Erna hró (og có), Hjörtur og grísirnir þrír tóku fagnandi á móti mér þannig að ég gat ekki annað en tekið Armstrong á þetta:

534616_4411247278524_2044912289_n

98 kílómetrar að baki! Ég komst að því í þessari ferð að ég er ekki sterk hjólreiðamanneskja, en breiðfirzka þrautseygjan fleytir mér endalaust langt. Heitur pottur, eplavín, íbúfen og knús um kvöldið ullu því að daginn eftir fann ég ekkert fyrir púlinu, fyrir utan smá stífleika í vinstra hnénu. Sjúkraþjálfarinn er búinn að banna öll hlaup þannig að ég býst við að hjóla Hvalfjörðinn á heimleiðinni...ef vindáttin er hagstæð!

Ég er aldeilis ekki á heimleið, því á morgun förum við í Flatey. Bjössi og kó ásamt Björgu og pabba fóru reyndar í dag, en ég var ekki alveg tilbúin í að yfirgefa Hólminn fagra strax. Veðrið í gær var voða gott og eins og oft áður var tjillað úti á túni:

IMG_1249

Hér eru stelpukrílin ásamt Helenu og Jóhönnu, bestu vinkonum Diddú í Hólminum. Það er ómetanlegt að eiga góða leikfélaga, helst í tvíriti.

Ég plataði fjölskylduna upp á Hraunflöt að veiða. Björg, Óli og Sigrún voru öll í blautbúningum og léku sér í vatninu og veiddu silung, en Erna Rós ofurhetja þurfti ekkert á slíku prjáli að halda. Hér er hún að koma í land eftir að hafa dottið á kaf í vatnið. Ekkert væl og ekkert skæl:

IMG_1254

Björg og Óli sjást í bakgrunni með sína hvora veiðistöngina. Að venju fékk ég flesta fiskana en þau veiddu þá matarlegustu, sem voru steiktir á pönnu og bornir fram sem forréttir um kvöldið. Hér er Kristrún að skoða einn týpískan mömmutitt:

IMG_1265

Honum var að sjálfsögðu gefið líf.

 

Björg fann svo eina krúttlega lirfu í lynginu, sem er líklega lirfa ertuyglu (gúgl):

 IMG_1271

Þær bundust nánum böndum á staðnum og Björg fékk að taka krúttið með heim og geyma í krukku.  Hún er búin að hakka í sig fíflablöð og lúpínu, en rétt í þessu var Hjörtur að úrskurða hana látna. Ég mun færa stelpunum þessar sorgarfréttir á morgun. "Lifðu í lukku en ekki í krukku" á svo sannarlega við hér.

Úje...gleymdi að segja að það var allt morandi í krækiberjum í kringum vatnið. Ég man bara ekki eftir svona góðri sprettu um miðjan júlí, enda er tíðin ekki búin að vera neitt venjuleg á Vesturlandi. Ég og Kristrún hámuðum í okkur berin og þau smökkuðust bara ljómandi vel. Sjáiði bara:

 IMG_1264

Ég elska krækiber!

Þegar við komum heim úr veiðiferðinni fengu krakkarnir að leika með nýja dótið hans Bjössa. Hér er Óli í 129. ferðinni í vatnsrennibrautinni:

IMG_1277

Besta vinkona hans, hún Björg Steinunn sætapús, var ekki langt undan:

IMG_1286

Víííí....rosa stuð!

 

Í nótt rigndi, aldrei þessu vant, en heimamenn segja að Hólmurinn hafi grænkað mikið eftir dembuna. Um hádegi var allt orðið þurrt og blankalogn, þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu þetta sumarið. Við nýttum daginn vel til heimsókna og í fleira dútl. Svo er það Flateyin fagra á morgun, hvar ég verð örugglega nettengd.

Bless bless

Hjólrún Hólm :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þú ert svo mega dugleg !! Hafið það gott í Flatey, vildi að ég væri með :))

Harpa (IP-tala skráð) 19.7.2012 kl. 05:47

2 identicon

Ég er svo fáránlega montin af því að eiga svona duglega vinkonu. Flottar myndir, sérstaklega af lirfunni:)

Ásta (IP-tala skráð) 21.7.2012 kl. 08:46

3 identicon

Myndirnar eru allar teknar á i-phone. Góður sími maður :)

Sóla (IP-tala skráð) 23.7.2012 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband