Rok í Flatey

Í fyrsta skipti í sögu júlíferða í Flatey er hávaðarok. Það er því lán í óláni að við erum ekki mörg í húsinu í þetta sinn þegar varla er hundi úti sigandi. Við komum hér síðasta fimmtudag á Sólunni, hoppandi og skoppandi á ýfðum haffletinum. Á miðri leið hittum við hóp af höfrungum sem ég tók nokkur góð myndbönd af, en þau blikna alveg í samanburði við myndbönd af háhyrningsvöðu sem lék sér við ströndina í Flatey í gær. Assgotinn að missa af því sjónarspili!

 

Við fengum samt fínt veður á föstudaginn og þá var tækifærið vel notað í blöðrubusl, veiðar og annað sjósport. Hér eru grísirnir þrír: Sigrún, Óli og Björg að busla í voginum í blautbúningunum sínum:

 IMG_6606

Erna Rós er ekki enn búin að eignast blautbúning en hún fékk samt að fljóta með:

 IMG_6618

 

Hjörtur lítur á þetta rok sem alveg fyrirtaksveður því að þá getur hann farið út að leika með flugdrekana sína. Hér er drengurinn í sjöunda himni:

 IMG_6631

Þrátt fyrir gjóluna þótti tilvalið að fara í árlega heimsókn til tippakallsins og færa honum fórnir. Hér eru allir Bræðraminnisbúarnir, hressir og kátir með frjósemisguðinn Frey fyrir miðju:

 IMG_6753

Að vanda hefur margt gómsætt runnið inn fyrir okkar varir í Flatey. Björg Steinunn vaknaði fyrst í gærmorgun og bakaði vöfflur fyrir allt liðið. Ekki amalegur morgunmatur það!

 IMG_6804

Þar sem ég er hölt hæna er ég að verða geðveik af hreyfingarleysi hér í Flatey. Neyðin kenni naktri konu að spinna og því hvatti ég fólkið á bænum til þess að fara með mér í sjósund. Kærasti Helgu er reyndur sjósundskappi og tók smá rúnt í voginum:

 IMG_6826

Hjörtur er þó sá alharðasti, enda alltaf að sulla í sjónum og orðinn algjörlega ónæmur fyrir kulda. Svo er hann alltaf í náttúrulegri lopapeysu þannig að honum er aldrei kalt:

 IMG_6818

Ég harkaði líka af mér og náði tveimur mínútum í íííísköldum sjónum, en myndin af mér því til sönnunar vill ekki koma inn. Eins og sést er þetta blogg fremur þurrt og fábreytilegt. Hug okkar allra á hálfstálpaður kríuungi sem pabbi kom með inn áðan. Hann var orðinn helkaldur og máttlaus, en er allur að hressast eftir að stelpurnar héldu á honum hita og tróðu þorskbitum upp í hann. Við hittum fuglafræðinga hér í eyjunni sem sögðu okkur að þeir höfðu fundið mun fleiri dauða unga í eyjunni heldur en lifandi. Það eru ekki góðar fréttir. Kannski tekst okkur að bjarga þessum? Ég er svo sem ekki bjartsýn á það, en það má alltaf halda í vonina.

Við förum í Hólminn á miðvikudaginn og þá koma fleiri myndir og auðvitað nýjustu fréttir af unganum.

Vindakveðja úr eyjunni fögru...

Sóla sundkona :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólrún Inga Ólafsdóttir

Einhverjir tæknilegir örðugleikar hafa valdið því að myndirnar koma litlar inn í þetta sinn, en þá verður bara að rýna í þær. Set þær inn á facebook síðar.

Sólrún Inga Ólafsdóttir, 23.7.2012 kl. 13:52

2 identicon

Af hverju er myndin af þér í sjósundi sú eina sem ekki vill inn??? Hmm....maður spyr sig ;) Gangi ykkur vel í fuglabjörgun.

Esther (IP-tala skráð) 23.7.2012 kl. 14:11

3 identicon

en huggulegt hjá ykkur ! :)

Hvar voru letihaugarnir þegar tippakallagangan var tekin ?

Harpa (IP-tala skráð) 23.7.2012 kl. 15:08

4 identicon

Esther....ég er að segja satt :) Harpa...þau voru auðvitað sofandi! Össöss...þetta barnlausa fólk! En þau bættu þetta reyndar upp síðar og heilsuðu upp á kallinn og færðu honum gjafir. Spurning hvað gerist eftir 9 mánuði?

Sóla (IP-tala skráð) 26.7.2012 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband