Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Danskir, skólabyrjun, afmæli Bröggsí og nýtt eldhús!

Hesusmariaherregudogrea hvað tíminn líður hratt og hver atburðurinn rekur annan. Danskir dagar löngu liðnir, skólinn byrjaður og Brökin á afmæli á morgun! 15 ár síðan ég gaut mínum fyrsta hvolpi! Samt er ég orðin amma og bara vika í að ömmudrengurinn verði eins árs. Jahéddnahér!

Danskir dagar í stuttu máli? Tja...4 stjörnur af 5 mögulegum. 5 stjörnu í fyrra þar sem allt gekk upp, meira að segja veðrið (minnir mig...en hvað man maður svo sem?). Frábærar nýjungar eins og lopapeysukeppni Bókabúðar Breiðafjarðar (sem ég tók auðvitað þátt í) og tónleikar á túninu á föstudagskvöldið. Endilega halda því prógrammi. Einnig var æðislegt að hafa ókeypis afþreyingu fyrir börnin um kvöldið og líka á laugardeginum í staðinn fyrir að eyða formúu í tívolítækin. Vel gert! Mínusarnir voru auglýst skrúðganga sem ekkert varð af og enginn mætti einu sinni á staðinn til þess að tilkynna forföll. Mæli með því að gamlir lúðrasveitarmeðlimir sjái alltaf um skrúðgönguna. Það var einhvern tímann gert og tókst ótrúlega vel. Appelsínugulu búningarnir eiga einmitt að vera dregnir fram við þetta tækifæri. Bjössi bró og Elvar gó rokkuðu feitt í brekkusöngnum á laugardagskvöldið og héldu uppi stanslausu stuði í 3 tíma NON-STOP og geri aðrir betur. Kribba kom, sá og sigraði með gamla Dönsku daga laginu sínu "Stykkisholm" en helv...hefði verið gaman að sjá Pál Óskar aftur uppi á sviði eins og í fyrra með flottu dansarana sína sér við hlið, svona rétt fyrir flugeldasýninguna. Hann lét því miður ekki sjá sig en var mjög öflugur á ballinu um nóttina, að því er sögur herma. Ég er náttúrulega orðin allt of gömul fyrir svoleiðis útstáelsi. Flugeldasýningin var svo ekki neitt neitt, en ég frétti daginn eftir að eitthvað hefði klikkað og sýningin hefði átt að vera mun stórfenglegri. Hún var svo ótrúlega flott í fyrra. Sum sé, fínir Danskir að baki og ég veit að þeir verða 5 stjörnu á næsta ári. Hér er ein hræðilega falleg mynd af litlu ormunum mínum sem elska Stykkishólm:

IMG_9600_zpsd0dce350

Ýkt hressar með ljósadót úr dótabúðinni!

 Jæja, skólinn byrjaður og allt crazy. Ég taldi mig vera hrikalega vel undirbúna en eitthvað er ég ryðguð ennþá, að minnsta kosti í dag. Vesen á tæknimálum setti mig aðeins út af laginu en annars hefur maður komist ágætlega frá þessu. Ég er að læra rúmlega 110 nöfn núna og reyna að átta mig á stöðunni í 30 manna bekkjunum þannig að það er mikið í gangi í kollinum á öldruðu kennslukonunni. Ég sakna þess sárt að vera ekki að kenna gömlu nemendunum einhvern huggulegan bókmenntaáfanga....svona: Ahhhhh....ég er komin heim. En reynslan hefur kennt mér að nýju nemendurnir verða gömlu góðu nemendurnir, ný tengsl myndast og sum endast kannski alla ævi. Það er nú bjútíið við þetta starf. Jamm og já.

Endalaus partý framundan og viðburðir, finnst mér. Pabbi Bjargar hélt upp á afmælið hennar í dag í Víkinni, þar sem Björg er búin að vera að vinna hálft sumarið við góðan orðstír. Smörrebröd og rjómapönnukökur synda um í sekknum núna með dassi af meltingarensímum. Næs. Á morgun verður svo elsku stelpan mín 15 ára og fær sushi í matinn í tilefni dagsins. Hún hefur hægt og örugglega verið að feta í fótspor Ástu síams, vaknandi klukkan 5:30 á morgnana til þess að fara í ræktina, hún hljóp 10 í RM og svo bakar hún alla daga og langt fram á kvöld. Hér er ein mynd af fjölskyldunni að borða bollabökur Bjargar:

IMG_9611_zps83b4907d

Þarna vantar nú einhverja úr nánustu fjölskyldu, en glöggir lesendur sjá eflaust glitta í lítinn Jakob þarna aftast ásamt Hörpu sugarbabe að ulla á Björgu bakara. Ekki tókst Jólrúnu að opna augun fyrir myndavélina frekar en fyrri daginn. Anyways, ég blogga um afmæli Bjargar næst....sem verður líklega í október, rétt áður en Sigrún á afmæli, múahahahaha.

Ég tók loksins nokkrar myndir af nýja eldhúsinu, svona áður en það verður gulnað og gamalt. Það vantar að vísu enn slatta af ljósum undir skápana en við förum nú ekki að bíða lengur með þetta. Látum bara vaða:

IMG_9667_zpseaa5d94d

Borðstofuborðið er á sínum stað en núna er komið þetta fína vinnupláss fyrir aftan. Þar græjum við stelpurnar eftirréttinn á meðan strákurinn (Hjörtur) dúllar við aðalréttinn inni í eldhúsi.

IMG_9668_zps57835277

Svolítið dimm þessi mynd en þarna sést í eyjuna, háfinn og restina af innréttingunni. Juuu, svo huggó!

 IMG_9669_zps2b1844bc

Fleiri sjónarhorn á þetta: Séð frá borðstofuhorninu. Svo sést líka í skottið á Kisa Jackson :).

IMG_9670_zps2c6d73f9

Nærmynd af "bökunarskápnum." Þetta orð hafði ég reyndar aldrei heyrt fyrr en ég kynntist Ástu. Hún er af svo fínum húsmóðurættum, fægjandi silfur alla daga.

IMG_9672_zps6dbe9d24

 Hér sést að við erum með þessa fínu flóttaleið út úr eldhúsinu, beint út á verönd.

IMG_9673_zpsac83c849

Að lokum þessi fína "loftmynd" úr tröppunum upp á aðra hæð, bara til þess að átta sig á rýminu. Þeir sem vilja rifja upp hvernig eldhúsið leit út áður geta bara farið í einhverjar færslur hjá mér síðan í desember síðastliðnum. Þetta er eiginlega ekki sama húsið, sko.

Að lokum set ég inn mynd af litla klósettinu niðri, sem var líka tekið í gegn:

IMG_9676_zps66db1757

Já já, svona er þetta nú bara. Blóð, sviti og tár og ég ætla aldrei aftur að búa í húsi sem er verið að taka í gegn. Ég flyt bara í glænýja þjónustuíbúð í ellinni!

 

Ammæli á morgun - best að fara að sofa!

 

Sóla eldhúspía Grin

 


Heimsmet í bloggleysi...

...og engar afsakanir á Devil (reiðum) höndum. Nú er ég komin með glænýja tölvu í kjöltuna og ekkert því til fyrirstöðu að drita inn nokkrum orðum. Ég á reyndar ekki þennan fallega nýja grip, en skólinn minn segir að ég megi hafa hana þangað til hún er orðin södd lífdaga og gígabæta eins og sú gamla.

Við áttum góða viku í Hólminum fyrir ekki svo löngu en ég klikkaði alveg á því að taka margar og merkilegar myndir í það sinnið. Ég var óvenju menningarsinnuð og félagslynd og fór bæði á jazztónleika og popptónleika. Jazz hefur ekki alveg verið mitt "genre" hingað til en það var kominn tími til þess að kíkja út fyrir 80s rammann og skella sér á tónleika í Stykkishólmskirkju í alfyrsta sinn (já, ég veit að ég er lúði að vera ekki búin að því fyrr). Flottir tónleikar og svo var haldið útgáfupartý á eftir heima í Vallabúð þar sem einni hvítri belju var slátrað af myndugleik. Daginn eftir var hið fræga Stykkishólmslogn skollið á og litlurnar mínar og önnur dóttir jazzistanna léku sér úti í góða veðrinu:

IMG_3865_zpsa3a49a50

Tékkið á spegilsléttum firðinum fyrir aftan tríóið :)

 

Hinir tónleikarnir voru ekki heldur af verri endanum þó að þeir væru meira sjálfsprottnir og gjörsamlega ófyrirséðir. Bjössi bró, Erna hró og Kribba kló drógu mig á hárinu niður í miðbæ Stykkishólms síðla kvölds. Þar greip Bjössi gítar og byrjaði að syngja og spila eins og honum einum er lagið. Stuttu seinna kom annar meistari á píanóið og að lokum trommusnillingur mikill með eldföst mót móður sinnar og nokkrur ásláttarverkfæri. Restin af pakkinu í húsinu sá svo um bakraddir og úr varð svo mikil skemmtun að ég fór ekki að sofa fyrr en klukkan fjögur! Ég giska á að það séu alla vega 5-6 ár síðan það gerðist síðast, ef frá er talin fæðing Kristrúnar þegar verið var að sauma mig saman alveg til 5 um morguninn. Já, ég veit, ég lifi á brúninni (NOT). Þó má til gamans geta þess að ég hef mjög oft vaknað klukkan 5:30 á nóttunni/morgnana undanfarið til þess að fara í ræktina. Þrjá daga í röð í þessari viku en í fyrramálið ætla ég að leyfa mér að sofa út - alveg til 8. Svona fer Ásta síams með vinkonu sína. Ég veit ekki lengur hvað telst eðlileg hegðun. En það sem maður á eftir af deginum þegar maður vaknar svona snemma, ja sei sei. Tær snilld!

 

Fleira skemmtilegt gerði ég, eins og að hanga úti í garði hjá Bjössa bró og leyfa honum að dekra við mig og börnin (Amma rúlar og fleira huggulegt). Kribba bauð svo til stórveislu, svona rétt til þess að stimpla sig inn í átakið "Börnin heim" sem Stykkishólmsbær stendur fyrir þessa dagana. Það gengur sem sagt út á það að fá brottfluttu börnin til þess að flytja heim aftur og Kribba gerði það auðvitað. Aldrei fór ég suður, nema svona rétt yfir veturinn (hjarta mitt varð alla vega eftir í Stykkishólmi). Anyways, Bjöggó frænku og hennar bráðskemmtilegu sonum var líka boðið þannig að það var mikið stuð. Enga mynd átti ég frá boðinu en set inn aðra í staðinn sem var tekin í óvæntum hittingi niðri í Fossvogi í góða veðrinu á mánudaginn:

IMG_3953_zps07f4eeea

Sólveig, Bjöggó og fullt af góðum grísum. Yndisleg öll sömul!

 

Leiðin liggur aftur í Hólminn um næstu helgi auðvitað, því að þá verða Danskir dagar. Stefnan er sett á að vera farin að sofa fyrir klukkan eitt bæði kvöldin, enda þurfum við að ganga frá húsinu fyrir vetrarleigu og sjáum það ekki aftur fyrr en næsta vor. Sniff :(. Bjössi bró mun stjórna brekkusöng með smá aðstoð frá Páli Óskari, kannski. Það gekk drulluvel í fyrra og ég býst við enn meira stuði í ár! Á ég ekki bara að setja inn mynd af brekkusöngstjóranum?

15agust_zps1358d579

Já já, þarna er Árni Johnsen okkar Hólmara með nokkra krakkalakka sem hann keypti á lager í IKEA í síðustu viku. Honum tókst að breyta venjulegri IKEAferð í heilmikla rússíbanareið um gangana, börnunum til mikillar gleði. IKEA: Ekki bara kjötbollur.

Jæja, þegar heim var komið eftir Stykkizferðina miklu var kominn tími á að kveðja Kínakallinn. Það er auðvitað hann Gunni bró, sem sagt litli bróðir hans Hjartar. Hann býr í Kína en kemur tvisvar á ári til þess að hitta sinn kæra einkason og auðvitað sína fögru fjölskyldu. Við ákváðum að bjóða í kveðjuhóf og vígja nýja eldhúsið í leiðinni. 15 manns sátu saman og borðuðu góðan mat og svei mér þá ef ég get ekki troðið 10 manns í viðbót, þ.e.a.s. ef við fáum okkar stærra borð. Hér er liðið:

IMG_9565_zps3223f971

Þarna er sem sagt Sabbó Hjartarsystir og hennar fjölskylda, afi og amma í Mosó, Kínakallinn og Halldór Ásgeir hans (hann heitir ekki Hans), Ásrún dóttir Önnu (Hjartarsystur) og svo ég og mitt gengi (mínus Björg sem var á fiskidögum). Mér skilst að ég megi ekki frumsýna eldhúsið alveg strax hérna á blogginu. Það er nánast tilbúið en eitthvað vantar upp á lýsinguna. Ég veit að fólk sefur ekki yfir þessu en vinsamlegast sýnið biðlund! 

Ég sef heldur ekki alveg róleg yfir manninum mínum. Fjóra daga í röð fann ég lyklakippuna hans með húslyklum og báðum bíllyklum í bílskúrshurðarskránni. Prófessor Vandráður hvað? Reyndar hefur hann staðið sig vel síðustu daga en ég set þessa mynd inn, svona til áminningar fyrir hann:

IMG_3954_zps6b3ce6b1

Voða gott að láta rigna á fjarstýringarnar líka :).

 

Hvað er ég annars búin að vera að gera í þessu langa fríi mínu? Núbb, auðvitað að vinna þegar tími gefst til. Annars bara að dúlla mér með ungunum. Ég lagði mikið kapp á að vera búin að uppfæra kennslubækurnar okkar áður en þessi vika hæfist af því að ég var eiginlega búin að gera ráð fyrir að ég væri að fara í þessa blessuðu aðgerð á ilinni sl. mánudag. Ég ætlaði að liggja fyrir marflöt í nokkra daga og reyna að jafna mig áður en þrammið eftir göngum skólans hæfist. Því miður næst ekki í lækninn og ég er jafn ónýt og áður. Við sjáum hvað setur. Kristrún byrjaði á leikskólanum í vikunni og nú fæ ég smá frið til þess að einbeita mér að kennsluundirbúningi á daginn. Fyrsta raunverulega fríið mitt (til þess að vinna reyndar) í sumar, þ.e. frá börnunum. Sigrún er í blaki frá 9-12 en það fer lítið fyrir henni. Hún hefur fína leikfélaga og er sjálfri sér nóg þess á milli og alveg hæstánægð með lífið. Skólinn byrjar svo hjá henni í næstu viku og kennslan hjá mér sömuleiðis. Þá er bara að fara að láta sig hlakka til jólafrísins. Djók. 

 

Nýjustu fréttir eru svo þær að við Hjörtur fórum loks með stelpurnar á Gilitrutt hjá Leikhópnum Lottu í Elliðaárdal fyrr í kvöld. Þetta var skemmtileg sýning eins og alltaf hjá þessum flotta hópi. Kristrún er að verða aðeins hugaðri og settist á milli tröllastráksins Bárðar og systur hans, Gilitrutt:

15agust4_zpsb76a7a74

Hún var auðvitað kappklædd af því að núna rignir í henni Reykjavík. Það er vonandi að Harpa og Jakob Ari komi með góða veðrið með sér frá Svíþjóð í næstu viku. Þau ætla að vera hjá okkur í 3 vikur og svo skemmtilega vill til að Jakob verður eins árs 2. september sem þýðir auðvitað að amma gamla þarf að henda í eina til tvær kökur. Það er í góðu lagi því amma er komin með nýjan bakaraofn sem VIRKAR! Þessi sem fylgdi með húsinu var handónýtur og ég var komin með hundleið á að baka...vandræði.

 

Sem sagt allt gott að frétta af okkur, en það sama er reyndar ekki hægt að segja um aðstandendur þeirra sem lent hafa í slysahrinunni undanfarið. Einn af þeim er í fjölskyldu Hjartar og stendur mér líka nærri því að hann er giftur systur tveggja nemenda minna sem eru mér mjög kærir. Hún var nýkomin úr erfiðri krabbameinsaðgerð þegar eiginmaður hennar lenti í alvarlegu mótórhjólaslysi og er enn haldið sofandi í öndunarvél. Þau eiga tvenna kornunga tvíbura (held að þau eldri séu að byrja í fyrsta bekk) þannig að það er erfiður róður framundan. Systir Hjartar og pabbi hennar (sem er föðurbróðir mannsins sem lenti í slysinu) standa nú fyrir söfnun fyrir fjölskylduna. Reikningsnúmerið er 0315-13-110046 og kt. 270645-4539 (reikningur Ásgeirs afa í Mosó). 

Farið varlega í umferðinni.

Sóla


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband