Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Hjólhýsagleðin

Þessi titill var náttúrulega bara misheppnuð tilraun til þess að kallast á við færsluna um síðustu hjólhýsaferð fjölskyldunnar árið 2010. Þá rigndi töluvert og sólin lét lítið sjá sig, en samt var svo ósköp gaman. Það var annar taktur í þessu núna. Meiri útivera en í staðinn klikkuðum við á því að kíkja á söfn og svoleiðis. Veðrið ræður ferð og þannig er það nú bara. Ég ætla sko ekki að kvarta yfir veðrinu í þessari ferð. Það var yndislegt!

 

Við ákváðum sem sagt að haga seglum eftir sól og sáum að besta spáin fyrir vikuna var í Ásbyrgi. Ég hafði reyndar látið mig dreyma um að spáin yrði góð á Westfjörðum, einfaldlega af því að ég sakna Flateyrar. Ekki leit hún vel út þegar við héldum af stað, þó að hún hafi skánað heilmikið stuttu seinna. Fyrstu ferðanóttina áðum við á tjaldstæðinu fína á Hvammstanga í sólarleysi og eilitlum raka. Hjörtur á sterkar rætur að rekja til staðarins því að pabbi hans er þaðan og hann dvaldi langdvölum hjá alnafna sínum, Hirti Eiríkissyni og hans góðu konu, sem voru sem sagt afi hans og amma. Við kíktum á ættaróðalið í Valhöll á systkinin Unni og Skúla og höfðum gaman af. Morguninn eftir fylgdi ég frumburðinum eftir í hennar heilsuátaki og fór út að skokka með henni. Það reyndist stutt gaman enda fóturinn ekki í stuði fyrir nein átök. Þeir sem sáu myndina af mér og Ástu í Fréttablaðinu nýlega ættu að vita að hún var nánast photoshoppuð...alla vega er æði langt síðan við síams höfum hlaupið saman í alvöru, fyrir utan pínu tabataskokk auðvitað. Kannski aðgerð í haust...?

 

Við fórum í sundlaugina á Hvammstanga morguninn eftir, sem er by the way mjög góð laug. Hún er haldin þeim álögum að einhver Daltúnsfjölskyldumeðlimur gleymir sundfötunum þar og þarf að láta senda sér þau heim í póstkröfu. Síðast var það ég en núna var það Hjörtur. Pakkinn var einmitt að koma hingað í dag. Svo var brunað beint í hitann á Akureyri, þar sem Lúlla systir tók ofboðslega vel á móti okkur. Uppáhaldstjaldstæðið í ferðinni reyndist vera, með öllum greiddum atkvæðum, beint fyrir utan huggulegt einbýlishús í Dvergagilinu á Akureyri! Ró og næði, frábærar veitingar, frítt rafmagn og uppþvottavél! Ekki spillti fyrir mannskapurinn á staðnum, sem voru hinir sjaldséðu fuglar Kiddý, Irma og Örvar Lúllubörn. Hér er mjög "falleg" mynd af nokkrum systragrísum:

IMG_3633_zps6e3a64cd

Ókey, ég verð að viðurkenna það að allar myndirnar í þessari færslu eru af símanum mínum. Hjörtur á eflaust eftir að skamma mig fyrir að taka ekki myndir af "fínu" vélinni en ég nennti bara ekki að standa í því ferli núna. Þess vegna er stór hluti af afkvæmunum með demónískt augnaráð. Sigrún greyið getur reyndar ekki að þessu gert. Hún myndast oft illa. Ég fékk oft skammir sem barn fyrir að líta út eins og Ingjaldsfíflið á myndum. Kristrún styður að vísu systur sína þarna og grettir sig af hjartans lyst. Unglingarnir kunna þetta hins vegar. Ég veit ekki af hverju Kiddý er ekki á myndinni...?  

 

Jæja, Böddey er orðin stór stelpa og ansi hörð í ræktinni. Auðvitað notaði hún góðu samböndin og fór í ræktina með Séra Lúllu einkaþjálfara. Lúlla er snillingur í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og Björg fékk því mörg góð ráð hjá henni í tækjasalnum. Hér eru stelpurnar í ræktinni fyrir norðan:

IMG_3649_zps6607a7d1

  

Auðvitað fór sólin svo að skína glatt og veðrið hreinlega lék við okkur á Akureyri. Við fórum í sund og svo í sundlaugagarðinn beint á eftir:

IMG_3678_zps3dd8554d

Örvar Lúlluson er einmitt að vinna í þessum garði í sumar og er bara nokkuð sáttur við sitt. Ég var einmitt að tala um það við Hjört hvað það væri gaman að geta leigt hús í viku næsta sumar á Akureyri. Þetta er eitthvað svo mikill eðalbær. En mér skilst að ég þurfi að safna aðeins fleiri punktum hjá KÍ áður en ég get leyft mér að dreyma um að leigja íbúð í gegnum þá á vinsælasta stað landsins.

Lúlla systir er orðin mikil prjónakona í seinni tíð og gladdi Kristrúnu með æðislegri peysu sem smellpassaði á hana. Við gistum næstu nótt í Vaglaskógi og peysan kom sér svo sannarlega vel í kvöldkulinu:

IMG_3685_zpsc953744f

Glaða prjónapeysustelpan mín! Þar sem stelpurnar eiga ekki prjónandi ömmu (eða afa) er svo sannarlega mikils virði að eiga eina myndarlega móðursystur á kantinum.  

 

Æ, nú er ég komin með  samviskubit yfir því að hafa sagt að Sigrún sé ekki góð í að sitja fyrir á myndum. Set inn eina mynd þar sem hún er sko laaaaangbest:

IMG_3694_zps82fbfc23

Elsta og yngsta eru auðvitað óþekkastar en blessuð miðjubörnin fá bara skammir, þá sjaldan að tekið er eftir þeim.

 

Veðrið varð bara betra og betra eftir því sem leið á ferðina og við fórum austar. Á meðan grét sunnanfólkið á facebook og virtist ekki eiga sér viðreisnar von. Ljósavatn var alveg bjútífúl í logninu morguninn eftir að við yfirgáfum Vaglaskóg:

IMG_3709_zps5e98237a

Þarna eru þær systur staðsettar við hliðina á blóðbergsþúfu, sem ekki var svo óalgengt í ferðinni. Kristrún borðar nánast allt úr náttúrunni sem að henni er rétt og Sigrún er greinilega fóðrari eins og pabbi hennar og virkilega naut þess að troða upp í litlu systur sína fíflablöðum, blóðbergi, arfa og öllu því sem ég var búin að segja að óhætt væri að gæða sér á. Börn náttúrunnar.

 

Allir í fjölskyldunni nema Hjörtur voru að fara í fyrsta sinn í Ásbyrgi. Hvorki veðrið né umhverfið ollu vonbrigðum og ákváðum við því að tjalda ekki bara til einnar nætur. Tjaldstæðið var reyndar fullt vegna þess að klósettin á staðnum önnuðu ekki fjöldanum, en Hjörtur talaði sig inn á svæðið með því að benda á að við værum með klósett í hjólhýsinu. Við gengum inn í Botn fyrsta kvöldið og þótti bæði mikið um veðrið og fegurðina. Það er gaman frá því að segja að Björgu þótti toppurinn á ferðinni vera umhverfið í Ásbyrgi og göngutúrarnir sem við fórum í þar. Stelpan er greinilega að verða fullorðin. Hér erum við alveg í Botni:

IMG_3722_zps6eb909a1

Zombie lúkk á Björgu af því að hún var að banda frá sér mýflugum. Allir hinir bara nokkuð ferskir!

 

Eftir fyrri nóttina í Ásbyrgi vöknuðum við upp í steikjandi hita:

IMG_3732_zps9dd53a6c

Ammagaaad! Við erum ekki alveg vön svona hita á Íslandi þannig að við fíluðum okkur bara eins og við værum á Tyrklandi. Ég pakkaði ekki einu sinni niður stuttbuxum fyrir liðið!  

 

Þar sem við vorum stödd á frekar ókunnum slóðum fannst okkur tilvalið að skoða nánasta nágrenni. Stefnan var sett á Kópasker og Raufarhöfn; staði sem ég hafði aldrei heimsótt áður. Á leiðinni á Kópasker vorum við alveg að kafna í bílnum (biluð loftkæling) þannig að við stoppuðum á svartri strönd og önduðum að okkur heita loftinu:

IMG_3740_zpsde143371

Gott ef að það glittir ekki í Kópasker í fjarska? Kópasker kom mér annars fyrir sjónir sem bær með fleiri iðnaðarhús en íbúðarhús. Correct me if I'm wrong...? Mér leist annars bara vel á staðinn, enda er nánast allt umhverfi fallegt á Íslandi þegar sól skín í heiði. Ég er líka smábæjarstúlka í eðli mínu og sé bara fegurðina í því að búa svona langt úti á landi í fámenninu. Raufarhöfn minnti mig eilítið á Stykkishólm, a.m.k. þegar ég horfði út yfir höfnina. Þar var nú samt lítill sem enginn túrismi, ólíkt mínum ofurvinsæla heimabæ. Ein sjoppa fannst opin sem hafði fátt á boðstólum, en pulsurnar og ísinn þar voru til mikillar fyrirmyndar. Sundlaugin er opin tvo tíma á dag og biðum við til klukkan fjögur eftir því að fá að hoppa ofan í netta innisundlaug með engum heitum pottum. En niðri var sána, hvíldarherbergi og líkamsræktarsalur þannig að þetta reyndist vera hin fínasta aðstaða.

 

Daginn eftir Raufarhafnarrúntinn fórum við í gönguferð að Hljóðaklettum í blíðunni. Stuðlabergið var svo ótrúlega fallegt að Súgandisey bliknaði í samanburðinum. Hér er demó:

IMG_3754_zps62571a62 Ótrúlega krúttleg fjölskylda líka, sérstaklega ef svipurinn á Björgu er tekinn inn í breytuna.  

 

Þó að við höfum verið á eilífu flandri þessa viku erum við samt engin Flanders fjölskylda. Systurnar rífast alveg og garga hvor á aðra, en það er samt mesta furða hvað þær geta verið samrýmdar og samlímdar á þessum ferðalögum, eins ólíkar þær eru og á misjöfnum aldri. Þær sváfu allar í einu fleti og það gekk bara vel. Goggunarröðin er auðvitað við lýði og ef Böddey er pirruð út í foreldrana fær Diddú stundum að finna fyrir því og svo fær pirringur hennar útrás á Kiddú. Kiddú lemur svo Kisa Jackson þegar hún kemur heim. Djóóóók. Nei nei, þær eru oftast ágætar hvor við aðra, greyin. Hér er samt týpísk mynd af Björgu að stríða Sigrúnu:

IMG_3761_zps48d7860f

Við fórum sko aftur til Akureyrar eftir Ásbyrgi og gistum á hlaðinu hjá Lúllu. Hjörtur nennti ekki að elda (GISP! GASP! OMG! etc...) þannig að við fengum okkur nokkra tælenska rétti niðri í bæ. Sigrún fékk þunglyndiskast þegar hún fann út að það yrðu rækjur í forrétt því að hún var svooo svöng! Hún borðar sko allt nema rækjur og humar. Björg naut þess að stríða henni og nautnasvipurinn sést vel á andlitinu. Aldrei var ég svona við systkini mín. ALDREI. Djó.....k.

 

Diddú duglega fékk uppreisn æru daginn eftir þegar hún fékk að láta ljós sitt skína í blaki á Dalvík. Við kvöddum Akureyri snemma um morguninn og fórum í frábært hádegissund í skínandi góðri sundlaug á Dalvík. Eftir það fórum við á róló í góða veðrinu en þá bara allt í einu byrjaði þoka að þokast yfir bæinn. Við drifum okkur því í næsta fjörð (Ólafsfjörð) en svona var útsýnið á leiðinni:

IMG_3777_zpsf90d7854

 

Hér má sjá hvernig þokan liggur eins og þunnt teppi yfir sjónum. Ólafsfjörður var nokkuð þokukenndur líka þannig að við stöldruðum stutt við. Hann var þó ekki þokukenndur í minningunni, enda átti ég þar góðar stundir með pápa mínum og bróður endur fyrir löngu. Siglufjörður rokkaði hins vegar feitt. Þar skein sólin og fallegu, litríku veitingahúsin við höfnina löðuðu að túrista í stórum skömmtum. Algjör dásemd! Þar var líka strandblakvöllur og Sigrún stóð sig svo sannarlega vel í blakinu:  

IMG_3782_zps96ba37a5

Smassað yfir netið!  

Við settumst inn á Rauðku og splæstum í ískakó og kökur á mannskapinn. Það sló heldur betur í gegn hjá litlu grísunum:

IMG_3791_zpscb6854b5

Alsæla hjá Sigrúnu ;)

 

Planið var að fara tvisvar í sund sama daginn því að ég bara VARÐ að prófa sundlaugina á Hofsósi. En við keyrðum beint frá Siglufirði inn í svartaþoku, svo svarta að ég setti úlpuna yfir hausinn á leiðinni (það var HÁTT niður) og bað Guð og góða vætti að forða okkur frá því að keyra út af með hjólhýsið og hrapa ofan í sjó. Svolítil kveif, hún Jólrún gamla. Þegar á Hofsós var komið var skítakuldi og þoka þannig að ég lét mér nægja að kíkja inn um gluggann á sundlauginni og sjá að þar var hvort eð er ekkert mögnuð aðstaða fyrir börn. Án útsýnis er þessi sundlaug ekkert sérstök. Við urðum þó að viðra börnin í kuldanum og prófuðum ágætis róló við skólann. Kristrún var hæstánægð með sandkassann:

IMG_3797_zps0703e2b0

Svo var ekið í þokunni inn á Sauðárkrók, þar sem við gistum á tjaldstæðinu síðustu nóttina í ferðinni. Ég hafði alltaf ætlað mér að skoða Krókinn betur, en í öllum hráslaganum létum við okkur nægja að rölta aðeins eftir aðalgötunni. Ég hefði örugglega verið miklu uppnumdari yfir staðnum ef sólin hefði skinið glatt, eins og til dæmis á Kópaskeri. Við fórum í sund morguninn eftir og ef ég á að segja eins og er þá olli sundlaugin eilitlum vonbrigðum. Ég sé allt út frá sjónarhóli barnanna og þar var bara ekkert við að vera fyrir krílin. Ein sundlaug og tveir heitir pottar (fyrir fullorðna) og ekkert annað. Ég trúi ekki öðru en að svona stórt bæjarfélag sé með það á stefnuskránni að kippa sundlaugarmálum í liðinn. Ég náttúrulega þekki ekkert til þarna. Kannski var þetta bara skólasundlaugin og einhver rennibrautaparadís bara í næstu götu? Pottarnir voru reyndar mjög fínir fyrir ferðalúnu foreldrana, en það er önnur saga.

Daginn eftir, þegar vestar dró, létti þokunni loks og í Borgarnesi var 23 stiga hiti. Veðrið er bara búið að leika við okkur að mestu leyti síðan og því erum við síður en svo farin að sakna þess að vera ekki í Ásbyrgi eða einhvers staðar annars staðar fyrir norðan. Þetta var ferlega fínt ferðalag og ekki spurning að við leigjum hjólhýsi einhvern tímann aftur. Heima er samt best og núna tökum við nokkra góða daga í borginni áður en við förum til fallegasta staðar á jarðríki um Verslunarmannahelgina. Ég er auðvitað að tala um Stykkishólm....dööö.  

Jæja, þetta er orðið svo langt að ég geymi allt annað sem ég ætlaði að segja þangað til næst (og þá verð ég búin að gleyma því, ha ha).

Til hamingju með góða veðrið!

SÓL Cool


Síðan skein sól...

...en bara í um það bil 10 mínútur í Sundlaug Seltjarnarness í dag. Molar eru líka brauð þannig að ég er bara þakklát fyrir það litla sem við fáum. Sólin lét lítið á sér kræla í Flatey og því nýttum við sólarstundirnar vel og syntum meðal annars í Grýluvoginum góðkunna:

IMG_9274_zps11aec46b

Að vísu kappklædd í blautbúningum enda sjórinn skíííítkaldur. Stóru krakkarnir voru meira í sjónum og fíluðu blöðruna alveg í botn. Hjörtur naut þess að draga börnin eftir breiða firðinum (Breiðafirðinum) og láta þau svo hendast af í kröppum beygjum. Hér eru bekkjarsystkinin og Flateyjarvinirnir Björg, Hallgrímur og Hilmar alveg á fleygiferð:

IMG_9386_zpsd902ef68

Það var alveg ótrúlegt hvað þau entust í sjónum og uppi á blöðru. Ég hef prófað þetta og fullyrði að þetta er ekki leiktæki fyrir gamlar konur. Ekki mig heldur, ungu konuna.

Talandi um bekkjarsystkin og ungar konur, þá hitti ég Önnu og Gyðu á balli í Samkomuhúsinu. Þær reyndu að fá mig út á dansgólfið en ég vildi frekar standa við barinn og gæða mér á Flahító. Hörkutól stíga ekki dans. Ekki ég heldur, nema í einstaka neyðartilfellum. En við brostum blítt fyrir Hjört myndasmið og létum okkur dreyma um bekkjarmót í Flatey á næsta ári:

IMG_9455_zpsd1bf2a94

Jóla, Anna og Gyða. HR bandið spilaði fyrir dansi og ég mæli 100% með þeirri hljómsveit! Mér sýndust 12 manns standa á sviðinu og glöggu unglingarnir horfðu með stjörnur í augum á besta saxófónleikara SK spila með bandinu. Megakúl!

Fleira gerðum við okkur til skemmtunar en að fara á dansleik. Ég, pabbi og Björg tókum þátt í "pub quiz" í Bryggjubúðinni og gerðum okkur lítið fyrir og unnum keppnina! Spurningarnar voru allar um Flatey og nágrenni og afskaplega krefjandi sumar og því kom Gyða Flateyingur eins og engill af himni ofan inn í liðið í miðri keppni og fyllti í flestar eyðurnar. Team work, ekki spurning. Verðlaunin voru ekki af verri endanum: Ljómandi falleg rauðvínsflaska sem að liðið slátraði á staðnum. Björg fékk Pepsi og var sátt við sigurinn. Nýstárlegt að hafa tvo skemmtistaði á litlu eyjunni okkar.

Bræðraminni var líka skemmtistaður eitt kvöldið þegar Mmmmmmmmiðaleikur Sólrúnar fór fram í 9. skiptið. Bjössa stuðpinna og fjölskyldu var sárt saknað en Björg gerði sitt besta til þess að halda uppi fjörinu. Það tókst með ágætum og úrslitin voru þessi: Hallgrímur 3 nammipokar, Kristrún 1 nammipoki, afi 1 nammipoki, Jólrún 2 ógeðspakkar og Hjörtur 2 ógeðspakkar. Aðeins eitt barn fór að gráta en hló svo í gegnum tárin þegar allir skiptu namminu systur- og bróðurlega á milli sín. Hér er Björg miðaleikjastjórnandi með kríu á kantinum:

IMG_9051_zps3274536c

 

Það er alltaf gaman að taka myndir af kríunni í Flatey. Hún er óvenju herská núna og ég veit ekki hvaða húmoristi tók upp á því að setja þvottasnúrur hússins svona nálægt kríuvarpinu. Maður hengdi ekki upp þvott án þess að vera með hjálm á hausnum. Pabbi lagði sig hins vegar í stórhættu, hjálmlaus og hárlaus, til þess að ná góðri mynd af kríunni. Hann slapp ómeiddur í þetta skiptið:

IMG_9041_zps6d420f6c

Svo verð ég að bæta við einni mynd af Hirti og Sigrúnu úti í kríuvarpi. Hjörtur er alveg eins og Lýður Oddsson á myndinni:

IMG_8968_zpsb6f6b72f

"Ég er alveg laaaaangflottastur og er með alveg top-of-the-line útbúnað hérna á hausnum sem ég keypti á e-bay." Krían á ekki séns í kallinn!

Nóg af kríumyndum. Enda þessa stuttu færslu á fallegri mynd sem græjukallinn tók af frumburði Sóludóttur og frumburði Ástusyni á þokukenndu júlíkvöldi í Flatey. Gráu peysurnar voru algjör tilviljun en mér finnst þetta allt tóna skemmtilega saman og vera vel heppnuð mynd:

IMG_9438_zps011c5912

En kannski er ég bara hlutdræg og finnst myndefnið fallegt. Óþarfi reyndar hjá Hallgrími að vera að standa uppi á stól, en það er önnur saga Wink.

Fyrirliggjandi næstu daga er að reyna að vinna smá í Porridge bókum, hafa ofan af fyrir litlu grísunum, græja húsið enn frekar og undirbúa sig fyrir hjólhýsaferðina miklu. Núbb... og taka lokaákvörðun um hvort að ég ætla í þessa aðgerð á ilinni eður ei.

Ég set kannski inn einhverjar myndir af eldhúsinu næst. Flestir skáparnir eru komnir en reyndar ekki borðplöturnar, en þetta verður voða fínt. Það er ótrúlegur léttir að sjá stóru verkin vera að klárast smátt og smátt. Ferlið er búið að vera langt og hundleiðinlegt, en nú förum við að sjá fyrir endann á verkinu og erum laus við ryk um öll gólf og eilífan umgang inn og út úr húsinu. Feels like home, finally. Yay!!!

Sjáumst síðar  

Sóla sólarlausa Grin

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband