Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Fimm mínútur!

Er ekki kominn tími á fimm mínútna færslu á ný? Skrifa í fimm mínútur og hætta svo? Það held ég nú.

Kennslan gengur vel, allt fullt af kennaranemum og þeir eru hæstánægðir með enskudeildina. Alltaf gaman að fá jákvæða endurgjöf á starfið frá öðrum en nemendum.

Ég er með bólgur við magaopið eftir skemmtilegt "reunion" í Stykkishólmi. Við hittumst alltaf á fimm ára fresti eins og frægt er og gerum eitthvað skemmtilegt yfir daginn, borðum saman um kvöldið og djúsum fram á nótt. Sumir taka alla helgina í þetta, en gamla hróið heldur greinilega ekki út einn dag. Fyrst fengum við fræðslu hjá Haraldi snillingi eldfjallafræðingi í safninu flotta, svo fórum við upp á Þingvelli í súpu og brauð hjá Summa og Hrafnhildi, þar á eftir í kirkju og hákarl hjá Hildibrandi í Bjarnarhöfn, því næst í Leir 7 að borða krækling og drekka hvítvín og að lokum til Heiðrúnar í Bókabúð Breiðafjarðar í meira nasl og vín. Flottur pakki! Klukkutími var gefinn í að græja sig fyrir kvöldið og svo var mætt í glæsilega forrétti og drykk hjá Grétu á Hótel Egilsen. Því næst skundað á næsta veitingastað, Plássið, þar sem var etið, drekkið og skemmt sér eitthvað fram eftir nóttu. Ætli brennivínið með hákarlinum, nokkrir snafsar og vínglös hafi ekki komið meltingunni í eitthvað uppnám? Samt var ekkert tekið mikið á því þannig lagað, enda dreyfðist þetta yfir langan tíma og ég var komin nokkuð snemma í koju. Ég gisti í Galdrahúsi bróður míns og fjölskyldu og átti góða nótt.

Ein mínúta eftir til þess að tala um fjölskylduna. Hjörtur er ánægður með rokið því að þá getur hann kite-að, Helga er á kafi í hugbúnaðarverkfræði í HR, Harpa er að flytja í nýja íbúð á Lidingö í Stokkhólmi (og Jakob auðvitað með henni), Björg stendur sig vel í MH og vinnu, Sigrún var í fyrstu samræmdu prófunum og fannst það gaman, Kristrún er seig í sundinu, Kisi var úti í nótt og Gunni sleikti á mér tærnar í morgun.

Time is up!

Sóla magasýra :)

 


Stormur og eldgos en annars ekkert að frétta

 Síðasta sunnudag byrjaði ég á bloggi sem ég náði svo ekki að klára. Svo krassaði tölvan hans Hjartar þannig að myndirnar sem áttu að skreyta bloggið eru ekki í boði í augnablikunu. Hendi inn því sem ég var búin að skrifa og sé hvort að eitthvað nýtt komi fram um helgina:

Hann Cristobal fellibylur leyfir okkur að njóta leifa sinna á sunnudegi og ég er að fílaða. Veðrið er svo leiðinlegt að börnin fá leyfi til þess að hanga fyrir framan sjónvarpið og mamman reynir á meðan að koma reiðu á óreiðuna sem alltaf er í hausnum í skólabyrjun. Undirbúningur kennslu, púsla saman tómstundum barnanna, spá í þetta og spá í hitt. Ég vaknaði snemma í morgun og núna rétt fyrir hádegi er ég nokkurn veginn búinn að átta mig á hvernig kennslunni verður hagað alla næstu viku, hvaða daga Kristrún verður í sundi og í fimleikum og að þriðjudagar verða uppteknir dagar fyrir Sigrúnu af því að klukkan hálftvö fer hún í básúnu, klukkan hálfþrjú færi hún í Leynileikhúsið ef það stangaðist ekki á við blakið sem byrjar klukkan þrjú og svo held ég byrjar dansinn klukkan fjögur (eða var það fimm?) sem gæti þá verið vesen af því að skátarnir eru klukkan sex. Þurfum eitthvað að endurskoða þessa þriðjudaga greinilega.  

Fyrsta haustpestin stakk sér niður í vikunni og með fyrstu kennsludögum og tveimur afmælisboðum hérna heima var prógrammið alveg massað og sveitt. Nú er logn á bænum en stormur og eldgos úti. Ég, Kristrún, Harpa og Jakob fengum hálsbólgu, höfuðverk og hor en sá pakki allur er á hröðu undanhaldi. Frumburður minn hélt upp á 16 ára afmælið sitt síðasta miðvikudag með því að bjóða sínum nánastu upp á sushi og hvítt og súkkulaðiköku og marengs í eftirrétt. Hún kom reyndar varla nálægt veisluundirbúningi en var hinn huggulegasti gestgjafi í hvítum kjól með bros á vör.

Það lítur út fyrir að hún haldi upp á 17 ára afmælið sitt í Suður-Ameríku því að áætluð AFS brottför er 5. eða 6. ágúst 2015! Mér finnst hræðilegt að hugsa til þess að ég eigi ekki eftir að hitta barnið mitt í heilt ár. Þess vegna reyni ég að hugsa ekki of mikið um það. Ég held að pabba hennar líði jafnvel verr en mér af því að hann á jú bara þetta eina barn á meðan ég get þó knúsað aðrar litlar stelpur þegar söknuðurinn er við það að bera mig ofurliði. Björgin mín, ég sakna þín nú þegar!

Ég sé reyndar ekki mikið af stúlkunni þessa dagana því að hún er mjög upptekin við það að vera MH busi. Hún fór til dæmis í busaferð til Stokkseyrar á föstudaginn og eftir tveggja tíma svefn þar var henni ekið rakleiðis til RÚV í Reykjavík til þess að taka þátt í Gettu betur búðum fyrir stelpur. Þar var hún alveg til átta í gærkvöld og var svo mætt klukkan níu í morgun aftur. Hún fór á sitt fyrsta framhaldsskólaball á afmælisdaginn sinn og svo eru tvö böll plönuð í næstu viku. Skilin á milli grunnskóla og framhaldsskóla ætla því að verða ansi skörp.

Anyways...daginn eftir afmæli Bjargar hélt Harpa upp á tveggja ára afmæli Jakobs. Ég gerði nú ekki mikið fyrir það afmæli nema að kaupa nokkrar kökur og auðvitað hjálpa til við að gera klárt, taka á móti gestum og ganga frá. Allt telur þetta í þreytubankann en á þeim tímapunkti var kvefið að ná sínum hápunkti. Enda fór það svo að gamla sofnaði klukkan 11 um kvöldið og svaf yfir sig til 8 um morguninn! Vekjaraklukkan var still á hálf sjö en hvorugt okkar hjónanna vaknaði við hana, þökk sé Bosch heyrnartólum sem við settum á okkur til þess að losna við hroturnar í hvoru öðru. 

Lengra komst ég ekki á sunnudegi enda þurfti ég að sinna krílunum mínum eitthvað líka. Birti þetta ekki á facebook enda var þetta bara nokkurs konar uppkast. Nenni þó ekki að skrifa nýtt.

Sóla sjaldanbloggari :) 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband