Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Hrekkjavökuafmæli Sigrúnar Bjarkar

Warning: This blog contains too many photos!

Þá er amman komin heim frá Stokkhólmi og aftur orðin "bara" mamma. Móðurhlutverkið er samt veigameira hlutverk eins og sást mjög greinilega þegar við kysstum litla Jakob Ara og foreldra hans alltaf góða nótt fyrir miðnætti á meðan þau máttu vaka áfram þangað til að ungviðinu þóknaðist að sofna. Alltaf 24/7 hjá mömmunum á meðan þreyttar ömmur fá sinn fegurðarblund. En öll eru þau þó jafn mikilvæg, þessar yndislegu elskur.

Ég veit að Sigrún Björk fyrirgefur mér síðar meir þegar hún sér að umfjöllun um skírn Jakobs Ara fékk forgang á blogginu mínu. Hún er skilningsrík og þolinmóð ung stúlka sem kann að meta dugnað móður sinnar þegar kemur að því að halda upp á afmælið hennar (nú er ég að reyna að sleikja hana upp).

Síðast var prinsessuafmæli en þar sem Sigrún Björk er orðin sjö vetra gömul þótti tilvalið að fara í eitthvað meira "fullorðins" og varð því hrekkjavökuþema fyrir valinu. Sigrún er svo heppin að eiga pabba sem er alltaf nýkominn frá USA rétt fyrir afmælið hennar þannig að hann getur sett ýmislegt ódýrt góss í ferðatöskuna sína. Þessi hrekkjavökuborðbúnaður sómdi sér vel á veisluborðinu:

IMG_7325

Erfiðara var að koma með skyndi-hrekkjavöku-bita heim þannig að húsmóðirin þurfti að leita að innblástri á netinu og víðar. Þessir blóðugu, plástruðu fingur voru í boði hússins:

IMG_7326

Einfalt að gera: Bara tálga neglur á pulsurnar, vefja tortillu utan um og hita í ofni.

Ég hafði pantað stóra könguló til þess að hengja í loftið en ekki skilaði hún sér frá Amazon...fljótinu. Eftir hvatningu frá Helgu stóru systur lagðist húsmóðirin í föndur:

IMG_7329

Tveir ruslapokar og Karlotta könguló komin upp í loft!

 

Köngulær eru alltaf ógeðslegar þannig að möffins, lakkrísreimar og spælegg voru alveg málið:

IMG_7331

Svo komu gestirnir í brjáluðu stuði, allir klæddir í hrekkjavökubúninga (nema tvær):

IMG_7340

Nornabúningurinn var í tízku þetta árið :)

Hér sést svo sjálf afmælisnornin (til vinstri) í djúpum samræðum við nornavinkonu sína:

IMG_7361

Veitingarnar voru allar mjög ógeðslegar. Fátt toppaði þessa drulluormaslímköku:

IMG_2027

Afmæliskakan sjálf var samt heldur settlegri og meira í stíl við afmælisbarnið sjálft:

IMG_2029

Fleira var svo á boðstólum eins og illilegar pizzur og graskerlagaðar gulrætur, en það sem sló mest í gegn var þurrísinn í drykkjunum. Hér er Kristrún Eir krútturass að dást að þurrísnum:

IMG_7379

Gufan flæðir draugalega yfir gólfið, en flæddi líka mjög draugalega upp úr blóðrauðum drykkjum afmælisgestanna. Það þarf varla að taka það fram að Kristrún Eir harðneitaði að vera ljót og skelfileg í afmælinu og kaus frekar að vera snyrtileg prinsessa. Hún vex nú upp úr því áður en fiskur nær að draga andann.

Sem sagt, alveg ljómandi fínt afmæli og gestirnir skemmtu sér vel. Já, eiginlega svo vel að hljóðhimnan sprakk í einu afmælisbarninu, spegillinn í forstofunni brotnaði og hálft tonn af fötum af nornum og skrímslum fundust á víð og dreif um húsið þegar forynjurnar höfðu yfirgefið staðinn. En það er nú bara eins og vera ber. Ég var samt að spá í að hafa skákþema í næstu afmælisveislu :)

Afmælisbarnið var ánægt og það er fyrir mestu. Hér er nornin komin úr búningnum daginn eftir, tilbúin að blása á kökuna á sjálfan afmælisdaginn:

 IMG_7390

Kristrún fylgist ábúðarfull með stóru systur sinni. Nú er stutt í að Kristrún verði þriggja ára. Mikið á ég stórar stelpur (og pííínulítinn ömmustrák!)!

Aukafréttir Jólrúnar: Ég er enn með stóra marbletti eftir hjólabyltuna en virðist ekki ætla að bera neinn varanlegan skaða af. Svo er mér líka óhætt að segja frá því núna að íbúðin okkar seldist nánast daginn sem hún kom á sölu! Við vorum bara að bíða eftir staðfestingu á því að kaupendurnir hefðu staðist greiðslumat og núna ætti því allt að fara að verða klappað og klárt. Flutningar í desember en nóg að gera fram að því við að klára önnina (busy busy), halda afmæli, gera hitt og gera þetta. Og svo blogga auðvitað smá.

Stay tuned!

Zola Sieben LoL

 


Litli Lindström skírður

Ég veit að það er ljótt að vera ekki búin að gera fína afmælisdeginum hennar Sigrúnar Bjarkar góð skil hér á blogginu áður en ég fer að tala um eitthvað annað, en fyrst ég er hérna í Svíþjóð og loksins tími til þess að setjast niður og skrifa nokkrar línur verð ég bara að veita litla Lindström smá forgang.

Það var yndislegt að hitta og knúsa litla krúttið á flugvellinum í Stokkhólmi. Hann er svo ægilega góður eitthvað og yndislegur. Við kíktum aðeins niður í miðbæ í gær til þess að spóka okkur og versla og hann svaf allan tímann. Svo fórum við í matarboð til pabba og stjúpmóður Rasmus um kvöldið og átum á okkur gat. Dagurinn í dag fór í að græja sushi og undirbúa skírnina. Þegar allt var að verða klárt náðu afi og litli Lindström aðeins að hvíla sig saman: 

IMG_7403

Svo komu gestirnir, sem voru reyndar ekki svo ýkja margir. Tveir vinir Rasmus og svo fjögur sett af öfum og ömmum - plús danska langamman. Það var gaman að fá að klæða litla engilinn í gamla skírnarkjólinn sem að allar systurnar nema Björg Steinunn hafa verið skírðar í. Það eru ekki nema tæplega þrjú ár síðan Kristrún var skírð í honum. Hér er Sól'amma með litla gullmolann í skírnarkjólnum: 

 IMG_7421

Er hann ekki sæææætur?

 

Skírnin sjálf var yndisleg. Sænska séra Lovísa (næstum því eins og systir mín) stóð sig frábærlega og tók eitt nett Lion King atriði í lok skírnar:

IMG_7445

Hér er Simbi litli Lindström!

 

Drengurinn var reyndar skírður Jakob Ari. Jakob út í bláinn en Ari eftir mér og Völu ömmu hans. Okkar starfstitill er kennARI so it goes without saying...

 

Restin af deginum fer svo í að borða meira sushi og dáðst að drengnum. Ég ætla að kíkja aðeins í búðir á morgun og svo ætlar Hjörtur að elda elg um kvöldið. Síðan er bara flogið til Íslands á mánudaginn og fríið búið. Þá fer maður bara að telja niður dagana þangað til Jakob Ari og foreldrar hans koma í heimsókn um áramótin. Þá verður hann reyndar hjá okkur í heilan mánuð, sem er bara yndislegt. 

 

Ja, livet er bra!

 

Súla svenska Wink 

 

 


Notið hjálm!!!

Af hverju í fjáranum er ekki búið að setja í lög að ALLIR á hjóli eigi að hafa hjálm á höfði - ekki bara 15 ára og yngri? Ég hjóla alltaf með hjálm, bæði af skyldurækni (vil vera góð fyrirmynd) og af því að ég er bæði lífhrædd og áhættufælin; tilfinningar sem hafa fengið aukna vigt með hækkandi aldri og fjölgandi afkomendum. Það er til öfga- þetta og öfga- hitt og í dag varð ég „öfga-notaðu-alltaf-hjálm-isti“. Ég er alveg pottþétt á því að hjálmurinn á hausnum á mér hafi bjargað mér frá bráðum bana eða í besta falli ljóstillífandi plöntulífi til æviloka.

Við stelpurnar vöknuðum fullar tilhlökkunar í morgun því að Hjörtur var að koma heim úr átta daga JÚESSEI dvöl. Eftir kossa og knús hentist ég á upp á hjólið með hjálm á höfði og skólatöskuna aftan á barnastólnum, eins og ég geri iðulega á mánudögum og föstudögum (tímabundið neyðarúrræði konu sem ekki getur hlaupið). Veðrið var dásamlegt, blautt en milt og hlýtt, og ferðin upp í Grafarvog sóttist vel að vanda. Eftir að komið er úr Bryggjuhverfinu tekur við töluverð hækkun – og svo tímabundin lækkun áður en ég lendi uppi í World Class í Spöng til þess að sturta mig fyrir kennslu. Ég var á góðri ferð niður bratta brekku á hjólastíg en ákvað að hægja vel á mér áður en ég kæmi að gatnamótunum þar sem annað hvort biði mín grænt eða rautt ljós. Ekki datt mér í hug að þarna væri flughálka („black ice“) en sú var því miður raunin. Hjólið þeyttist undan mér og ég flaug í löngum boga fram fyrir mig og skall nánast lóðrétt á hausinn við vinstra gagnauga og rann um stund eftir glerhálum göngustígnum á hausnum og vinstra lærinu. Ósjálfráð viðbrögð (svona „fekkkk...sá einhver mig detta?“) urðu til þess að ég rauk nokkuð snöggt á fætur og fékk í leiðinni að sjá Mars, Júpiter, Venus og nokkur smástirni aukreitis dansa í kringum mig, alveg eins og í teiknimyndasögunum um Tinna. Ég sá í alvöru bara ljósdepla og svartnætti í kringum mig um stund. Hausinn varð þungur sem blý og tilfinningin var eins og hjartað væri að slá þungt uppi í heilanum og vildi brjótast út úr höfuðkúpunni. Ég fann fyrir sársauka í lærinu og sköflungnum, en vissi að ég var óbrotin. Ég hugsaði bara um hausinn á mér og þetta rosalega högg sem ég hafði fengið á hann og...hvað hefði gerst ef ég hefði ekki verið með hjálm? Þessi hjálmur...

Ég eyddi stórfé (á minn mælikvarða) í þennan hjálm fyrir rúmu ári síðan þegar mér fannst vera kominn tími á endurnýjun. Ég fór á „racernum“ mínum í fína hjólabúð og sá líka þennan flotta hjálm sem passaði einmitt við litinn á rándýra hjólinu sem Hjörtur hafði gefið mér í fertugsafmælisgjöf. Sölumaðurinn dásamaði hjálminn í bak og fyrir og „þýsk gæðavara“ voru einmitt töfraorðin (afsökunin) sem ég var að leita eftir. Ég staðgreiddi gripinn (ekki vísa-rað) og hef aldrei séð eftir því að hafa þetta þýska stál utan um viðkvæma íslenska hjúpinn sem verndar að öllu jöfnu minn auma heila. Það kvarnaðist vel upp úr honum við höggið en við Hjörtur teljum hann enn vel nothæfan, enda er plastið ekki brotið (það er einangrunarplast/korkur á mestu álagspunktunum). En ég bara veit að hefði ég ekki verið með hjálm hefði höfuðkúpan brotnað í mél.

Böndin á bakpokanum slitnuðu af við höggið (tölvan lifði samt af) og það hrikti í hjólinu, en ég hafði ekki tíma til þess að labba síðasta spölinn upp í Spöng. Ég gætti þess því vel að hjóla bara ofurvarlega á fína (beyglaða) fjallahjólinu hans Hjartar á grasinu alla leið upp í World Class. Ég var enn með dúndrandi hausverk og brá líka nett þegar ég fór úr buxunum og sá risastóra, blóðuga kúlu á lærinu. Mér logsveið í sturtunni, en sem betur fer er apótek við hliðina á WC og þar keypti ég pakka af íbúfen og stærstu grisjuna í sjoppunni. Poppaði peinkillers uppi í skóla, límdi grisjuna yfir bólguna á lærinu og reyndi að jafna mig á sjokkinu með því að tjá mig um atburðinn við vini mína á kennarastofunni. Ég kenndi svo fjóra tíma með þungan haus (en ekki ruglaðan), vann í smástund en hringdi svo í Hjört og fékk hann til þess að sækja mig og hjólið. Tilhugsunin um að hjóla heim var einfaldlega yfirþyrmandi. Seinni partinn fór ég svo smátt og smátt að stífna upp í herðum og hálsi, sérstaklega vinstra megin. Það liggur helaumur strengur frá eyranu, niður í öxl og jafnvel niður fyrir herðablað. Hausinn er enn þungur og sjálfsagt verð ég stíf og aum í nokkra daga. Það lagast og ég verð vonandi eins og nýsleginn túskildingur eftir nokkra daga. Hjörtur fór beinustu leið og keypti góð nagladekk fyrir hjólið þannig að mér ætti að vera óhætt að hjóla áfram í skólann í öllum veðrum (ef ég þori).

En lexían sem ég lærði svona harkalega í dag er að hjálmur er lífsnauðsynlegur. Sumir vilja halda því fram að hjálmlausar hjólreiðar séu bara lífsstíll og það sé alveg sjálfsagt að sporta sig í tweed-hjólafötum með six-pensara á höfði. Little do they know. Ég ræddi þetta mál einmitt við góða vinkonu mína í dag. Hún er algjörlega á sama máli og ég, en segir að helstu rök fólks gegn fullri lögleiðingu hjálmanotkunar séu að þetta sé viðkvæmt mál fyrir suma og jafnvel skerðing á frelsi einstaklingsins. Bann á reykingum á opinberum stöðum, svo sem í flugvélum, skólum og á veitingastöðum þótti sko líka skerðing á frelsi einstaklingsins fyrir ekki svo mörgum árum. Við hlæjum að þessari andstöðu núna. Vonandi gerum við það sama eftir örfá ár, þ.e. skellihlæjum að því að einu sinni hjólaði fólk án hjálms af því að það vildi vera „frjálst“ eða þótti það ekki nógu „kúl“ að vera með hjálm. Ég veit það í hjarta mínu (og þungu höfði!) að hjálmlaus hefði ég ekki lifað 12. október 2012 af – eða í besta falli lifað en samt aldrei aftur sem virkur þátttakandi í þessu þjóðfélagi, sem móðir, eiginkona, kennari og vinur.

Eins og þeir segja í Færeyjum: „Hættu þessu mjálmur og notaðu hjálmur!“

Peace out.

Hjóla Hjálmsdóttir :)


Ammælið og raddleysi

Þó ég sé búin að vera þegjandi hás undanfarið er það víst engin afsökun fyrir að vera ekki búin að tjá mig um afmælið mitt. Best að ljúka því af áður en allt fellur í gleymskunnar dá.

Ég vaknaði frekar úldin á afmælisdaginn, með særindi í hálsi og kvef í vitum. Það var því aldeilis lán í óláni að Hjörtur gaf mér miðstöð í bílinn í afmælisgjöf! Í staðinn fyrir að standa skjálfandi úti að skafa rúðurnar á bílnum í vetur get ég nú bara ýtt á fjarstýringu inni hjá mér og tölt svo út í sjóðheitan bílinn 10 mínútum síðar eins og hinar fínu frúrnar í húsinu. Þær reyndar nota bílskúr til þess að halda sínum bílum heitum, en við notum okkar bílskúr auðvitað fyrir leikföngin hans Hjartar. Þetta er því snilldarlausn hjá mínum ofursnjalla og hugulsama eiginmanni!

Ég á sko aldeilis fleiri góða að sem eru tilbúnir til þess að sjá fyrir mínum grunnþörfum. Hjörtur stóð við eldhúsgluggann og dáðist að nýjustu fjárfestingunni (miðstöðinni í bílnum) þegar hann spottaði allt í einu tvo poka hangandi utan á Hondunni. Hann skokkaði út í morgunkulið og kom inn með sushi og Nóakropp. Þar var auðvitað Ásta mín að verki, líklega klukkan fimm um morguninn (hún vaknaði víst svolítið seint...ákvað að sofa út í tilefni dagsins). Á meðan ég var upptekin við að taka upp pakkana tróð Kristrún nánast öllu sushi-inu upp í sig. Hér er hún rétt að byrja:

IMG_1959

 

Það vellur út úr henni laxinn og hrísgrjónin. Eini pakkinn sem beið mín á eldhúsborðinu var frá Lúllu og fjölskyldu. Þau gáfu mér ægilega flotta peysu, armbönd og eyrnalokka í stíl. Það mætti halda að um stórafmæli hafi verið að ræða!

Ekki tók verra við þegar ég mætti upp í skóla ca. korter í átta. Fransk-íslenskur dúett tók á móti mér með söng, faðmlögum og hlátrasköllum, í formi Evu og Ástu. Svona leit borðið mitt út:

IMG_1964

Fullt, fullt af gjöfum frá enskudeildinni og Ástu, svo sem Asics húfa, hanskar og taska, íþróttabolur, korkrúlla eða hvað þetta nú heitir (foam roll), bók, uuuu...og kókosbollur, rommkúlur og nóakropp (all my favourites!). Ekki slæmt! Það keyrði um þverbak þegar ég opnaði stofu 327 og sá að búið var að skrifa afmæliskveðju á töfluna og hrúga nóakroppi á ÖLL 32 borðin í stofunni! Á þeim tímapunkti var ég alveg tilbúin til þess að lemja Ástu í hausinn með afmælisgjöfunum (kannski ekki bókinni þó, hún var of þykk) en fyrirgaf henni þó þegar ég sá upplitið á nemendum. Súkkulaðisæla!

Því miður var þetta lengsti dagurinn minn í kennsluvikunni og alveg heilmikið sem ég þurfti að fræða nemendur um - og því fór sem fór: Röddin gaf sig og ég kom "hám og rás" heim. Nei, ég lýg því. Ég fór beint til bæklunarlæknis eftir kennslu. Þó ekki til þess að laga röddina, heldur til þess að athuga með hælinn. Ég hef ekkert hlaupið síðan í júní og það er meira að segja sárt að labba (arg!). Eftir smá japl og jaml var ákveðið að skella sér í segulómun um miðjan október og athuga hvað kæmi út úr því. I'll keep you all posted. Eftir þetta gat ég loksins komið heim og rétt náði að leggja á borð áður en "gestirnir" (aka nánasta fjölskylda) mættu á staðinn í Hjartarlasagna (hreindýralasagna Hjartar). Ég var búin að græja kökuræfil fyrirfram:

 IMG_1968

Úr barka mínum kom bara eitthvað hvæs sem var ekkert svo næs. Maturinn var þó fínn og gestirnir góðir. Gjafirnar héldu áfram að vera af glæsilegri gerðinni og tek ég undir klassískan frasa móður minnar sálugu: "Takk fyrir, en þetta er bara allt of mikið!" Þegar gestirnir voru farnir var ég alveg búin á því, enda fátt meira þreytandi  en að reyna að tala þegar maður á í raun ekki að vera tala. Stórmerkilegt hvað það er samt ótrúlega erfitt að þegja, þó ekki nema í stundarkorn. Ég notaði því restina af afmæliskvöldinu í að renna yfir fínu kveðjurnar á facebook og svo bara beint upp í rúm að sofa.

Daginn eftir kom bara örlítið hvísl upp úr mér og kenndi ég því allan fimmtudaginn og föstudaginn nánast án þess að segja aukatekið orð. Ég á engin orð yfir tillitsemi nemenda, sem fóru eftir öllum fyrirmælum á skjávarpa og hvísluðust á sín á milli, svo lágt að nánast mátti heyra saumnál detta. Ég er smátt og smátt að lagast núna, en sé ekki fram á að geta talað mikið í kennslunni á morgun heldur. Það er alls ekki gott mál því að þó að nemendur fari eftir fyrirmælum og vinni verkefni verður kennslan alveg ofboðslega einsleit. Engar rökræður, ekkert auka, bara verkefni og svör. You know what I mean? Kennarinn er MJÖG mikilvægur. Kennari með rödd, þ.e.a.s.

Hjörtur kallinn þurfti að stinga raddlausa, árinu eldri eiginkonu sína af á fimmtudaginn og því hefur uppeldið verið tiltölulega skammlaust, þ.e. ég hef ekki haft rödd til þess að skamma litlu grísina mína. Þær eru reyndar svo stilltar að það gerir lítið til. Við áttum rólega helgi saman og ég forðaðist vísvitandi mannamót til þess að reyna að jafna mig fyrr. Ég mætti þó auðvitað í eins árs afmæli Ríkharðs Ástusonar og náði að kvaka að nýju au pair stúlkunni hennar Ástu að hún væri núna komin í vist hjá "superwoman" sem væri "talk of the town" og ég veit ekki hvað og hvað. Ég vildi bara að hún áttaði sig strax á því í hvaða aðstæður hún væri komin. Steini er enn að reyna að átta sig.

Well well...Hjörtur kemur ekki aftur fyrr en næsta föstudag, en það fréttist af honum í gær og í dag að "kætsörfa" einhvers staðar á sundskýlunni í heitum sjó við strendur BNA. Á meðan hríðhorast börnin heima því að mamman stendur vaktina í eldhúsinu. Hér eru svöngu börnin hennar Sólu (alla vega hluti af þeim): 

IMG_1992-1

 

En ég þekki einn sem þarf ekki að líða skort og það er hann Jakob litli Lindström. Nú eru bara 11 dagar þangað til að afi og amma í Álfatúni fá að knúsa litla kallinn í fyrsta sinn. Hann varð eins mánaða 2. október og er bara algjört draumabarn, drekkur rjómann hjá mömmu sinni og sefur eins og engill. Sjáiði bara hvað hann er fínn og flottur:

jakob

Talan 1 fyrir fyrsta mánuðinn í lífi þessa litla ljúflings :).

 

Bestu kveðjur úr Álfatúni...bráðum Daltúni:

 

Grandma Zola :) 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband