Ammælið og raddleysi

Þó ég sé búin að vera þegjandi hás undanfarið er það víst engin afsökun fyrir að vera ekki búin að tjá mig um afmælið mitt. Best að ljúka því af áður en allt fellur í gleymskunnar dá.

Ég vaknaði frekar úldin á afmælisdaginn, með særindi í hálsi og kvef í vitum. Það var því aldeilis lán í óláni að Hjörtur gaf mér miðstöð í bílinn í afmælisgjöf! Í staðinn fyrir að standa skjálfandi úti að skafa rúðurnar á bílnum í vetur get ég nú bara ýtt á fjarstýringu inni hjá mér og tölt svo út í sjóðheitan bílinn 10 mínútum síðar eins og hinar fínu frúrnar í húsinu. Þær reyndar nota bílskúr til þess að halda sínum bílum heitum, en við notum okkar bílskúr auðvitað fyrir leikföngin hans Hjartar. Þetta er því snilldarlausn hjá mínum ofursnjalla og hugulsama eiginmanni!

Ég á sko aldeilis fleiri góða að sem eru tilbúnir til þess að sjá fyrir mínum grunnþörfum. Hjörtur stóð við eldhúsgluggann og dáðist að nýjustu fjárfestingunni (miðstöðinni í bílnum) þegar hann spottaði allt í einu tvo poka hangandi utan á Hondunni. Hann skokkaði út í morgunkulið og kom inn með sushi og Nóakropp. Þar var auðvitað Ásta mín að verki, líklega klukkan fimm um morguninn (hún vaknaði víst svolítið seint...ákvað að sofa út í tilefni dagsins). Á meðan ég var upptekin við að taka upp pakkana tróð Kristrún nánast öllu sushi-inu upp í sig. Hér er hún rétt að byrja:

IMG_1959

 

Það vellur út úr henni laxinn og hrísgrjónin. Eini pakkinn sem beið mín á eldhúsborðinu var frá Lúllu og fjölskyldu. Þau gáfu mér ægilega flotta peysu, armbönd og eyrnalokka í stíl. Það mætti halda að um stórafmæli hafi verið að ræða!

Ekki tók verra við þegar ég mætti upp í skóla ca. korter í átta. Fransk-íslenskur dúett tók á móti mér með söng, faðmlögum og hlátrasköllum, í formi Evu og Ástu. Svona leit borðið mitt út:

IMG_1964

Fullt, fullt af gjöfum frá enskudeildinni og Ástu, svo sem Asics húfa, hanskar og taska, íþróttabolur, korkrúlla eða hvað þetta nú heitir (foam roll), bók, uuuu...og kókosbollur, rommkúlur og nóakropp (all my favourites!). Ekki slæmt! Það keyrði um þverbak þegar ég opnaði stofu 327 og sá að búið var að skrifa afmæliskveðju á töfluna og hrúga nóakroppi á ÖLL 32 borðin í stofunni! Á þeim tímapunkti var ég alveg tilbúin til þess að lemja Ástu í hausinn með afmælisgjöfunum (kannski ekki bókinni þó, hún var of þykk) en fyrirgaf henni þó þegar ég sá upplitið á nemendum. Súkkulaðisæla!

Því miður var þetta lengsti dagurinn minn í kennsluvikunni og alveg heilmikið sem ég þurfti að fræða nemendur um - og því fór sem fór: Röddin gaf sig og ég kom "hám og rás" heim. Nei, ég lýg því. Ég fór beint til bæklunarlæknis eftir kennslu. Þó ekki til þess að laga röddina, heldur til þess að athuga með hælinn. Ég hef ekkert hlaupið síðan í júní og það er meira að segja sárt að labba (arg!). Eftir smá japl og jaml var ákveðið að skella sér í segulómun um miðjan október og athuga hvað kæmi út úr því. I'll keep you all posted. Eftir þetta gat ég loksins komið heim og rétt náði að leggja á borð áður en "gestirnir" (aka nánasta fjölskylda) mættu á staðinn í Hjartarlasagna (hreindýralasagna Hjartar). Ég var búin að græja kökuræfil fyrirfram:

 IMG_1968

Úr barka mínum kom bara eitthvað hvæs sem var ekkert svo næs. Maturinn var þó fínn og gestirnir góðir. Gjafirnar héldu áfram að vera af glæsilegri gerðinni og tek ég undir klassískan frasa móður minnar sálugu: "Takk fyrir, en þetta er bara allt of mikið!" Þegar gestirnir voru farnir var ég alveg búin á því, enda fátt meira þreytandi  en að reyna að tala þegar maður á í raun ekki að vera tala. Stórmerkilegt hvað það er samt ótrúlega erfitt að þegja, þó ekki nema í stundarkorn. Ég notaði því restina af afmæliskvöldinu í að renna yfir fínu kveðjurnar á facebook og svo bara beint upp í rúm að sofa.

Daginn eftir kom bara örlítið hvísl upp úr mér og kenndi ég því allan fimmtudaginn og föstudaginn nánast án þess að segja aukatekið orð. Ég á engin orð yfir tillitsemi nemenda, sem fóru eftir öllum fyrirmælum á skjávarpa og hvísluðust á sín á milli, svo lágt að nánast mátti heyra saumnál detta. Ég er smátt og smátt að lagast núna, en sé ekki fram á að geta talað mikið í kennslunni á morgun heldur. Það er alls ekki gott mál því að þó að nemendur fari eftir fyrirmælum og vinni verkefni verður kennslan alveg ofboðslega einsleit. Engar rökræður, ekkert auka, bara verkefni og svör. You know what I mean? Kennarinn er MJÖG mikilvægur. Kennari með rödd, þ.e.a.s.

Hjörtur kallinn þurfti að stinga raddlausa, árinu eldri eiginkonu sína af á fimmtudaginn og því hefur uppeldið verið tiltölulega skammlaust, þ.e. ég hef ekki haft rödd til þess að skamma litlu grísina mína. Þær eru reyndar svo stilltar að það gerir lítið til. Við áttum rólega helgi saman og ég forðaðist vísvitandi mannamót til þess að reyna að jafna mig fyrr. Ég mætti þó auðvitað í eins árs afmæli Ríkharðs Ástusonar og náði að kvaka að nýju au pair stúlkunni hennar Ástu að hún væri núna komin í vist hjá "superwoman" sem væri "talk of the town" og ég veit ekki hvað og hvað. Ég vildi bara að hún áttaði sig strax á því í hvaða aðstæður hún væri komin. Steini er enn að reyna að átta sig.

Well well...Hjörtur kemur ekki aftur fyrr en næsta föstudag, en það fréttist af honum í gær og í dag að "kætsörfa" einhvers staðar á sundskýlunni í heitum sjó við strendur BNA. Á meðan hríðhorast börnin heima því að mamman stendur vaktina í eldhúsinu. Hér eru svöngu börnin hennar Sólu (alla vega hluti af þeim): 

IMG_1992-1

 

En ég þekki einn sem þarf ekki að líða skort og það er hann Jakob litli Lindström. Nú eru bara 11 dagar þangað til að afi og amma í Álfatúni fá að knúsa litla kallinn í fyrsta sinn. Hann varð eins mánaða 2. október og er bara algjört draumabarn, drekkur rjómann hjá mömmu sinni og sefur eins og engill. Sjáiði bara hvað hann er fínn og flottur:

jakob

Talan 1 fyrir fyrsta mánuðinn í lífi þessa litla ljúflings :).

 

Bestu kveðjur úr Álfatúni...bráðum Daltúni:

 

Grandma Zola :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Oh, nú verð ég að eignast eitt barn í viðbót til að geta sett svona tölu við barnið í hverjum mánuði, þvílík snilld!

Og já, mikið er ég glöð að röddin sé á uppleið en aumingja Amy mín;)

Ásta (IP-tala skráð) 8.10.2012 kl. 22:16

2 identicon

Já, endilega eiga fleiri börn Ásta! Aumingja Amy? Nei nei, hún er rosalega heppin! Þvílíkt tækifæri til þess að fylgjast með atferli ofvirkrar konu án athyglisbrests!

Sóla (IP-tala skráð) 8.10.2012 kl. 22:25

3 identicon

Greinilega ljúfur afmælisdagur fyrir utan hæsið :) Jakob er mjöög spenntur að hitta ömmusín til að gefa henni almennilegt afmælisknús :)

Harpa (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband