Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Að fanga aðfangadag

Ekki seinna vænna að segja í nokkrum orðum frá aðfangadag þegar áramótin eru alveg við það að detta í hús. Þessi mynd er reyndar tekin daginn fyrir Þorláksmessu:

IMG_7667

Eins og sést fór tréið sem Hjörtur og börnin höfðu mikið fyrir að höggva í Heiðmörk alveg í klessu við flutningana og þurfti að líma bútana saman aftur. En það tókst og tréið sómdi sér vel í stofunni, eins og það hefði alltaf átt heima þar:

IMG_7676

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo kom afslappaður aðfangadagur, svo afslappaður að ég man eiginlega ekki hvað við gerðum. Jú jú...við stelpurnar fórum í smá jólagjafalabbitúr og heilsuðum meðal annars upp á gamla nágranna í Álfatúni og þökkuðum fyrir góðu árin átta. Við ætluðum líka að kaupa brauð handa öndunum en einni stúlkunni varð brátt í brók og batt enda á þau plön. Við bættum úr þvi á annan í jólum og endurnar á pollinum niðri í Fossvogsdal voru mjög þakklátar, enda sársvangar.

Eftir að búið var að klæða sig upp fyrir hátíðina var komið að myndatökum fyrir framan jólatréð. Hér er ein af Björgu Steinunni: 

IMG_7690

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mamman reyndi að lúkka jafn vel og táningurinn en hræðsla við linsuna leiddi til mikils fíflagangs. Hér var ætlunin að sýna vöðvana, en það er ekki mikið að sjá: 

IMG_7719

Lúlla systir hvað? Hvað? Og já jú já já. Alltaf sami jólakjóllinn. Jólakettinum ögrað jól eftir jól af Jólrúnu.

Sigrún er jafn flink og mamma hennar þegar myndatökur eru annars vegar og fjölmargar myndir af henni of Kristrúnu uppstilltum með sparisvipinn fóru í virðisaukaskattinn (vaskinn). Læt þessa frekar fyrir almenningssjónir því að hún endurspeglar systrakærleik, sem blossar upp reglulega:

IMG_7764

Kristrún litla afslöppuð að bíða eftir jólunum og Sigrún álíka róleg og yfirveguð.

Ég gerði misheppnaða tilraun til þess að stilla grísunum 3 upp saman en síminn hringdi um leið og Björg Steinunn var sest: 

IMG_7763

"Uuu...síminn er að hringja..verð að fara!" Sigrún hefur gaman af og Kristrún ullar út í bláinn.

Geifluþeimað hélt áfram hjá Kristrúnu eina mínútu í jól, þegar allir sátu spenntir og biðu eftir að kirkjuklukkurnar færu að hringja í útvarpinu. Það er besta móment jólanna fyrir mér, hinn sanni jóla- og hátíðarandi.

IMG_7769

Helga Rún mætt á staðinn, búin að temja makkann mikla, sem tók bara sex klukkustundir. Vinnan var þess virði! Kristrún með óborganlega skúffu, Magnús style (biiiilað).

Hér eru faðirinn og frumburðurinn í eldhúsinu, við það að bera fram hátíðarkjúkling og með því.

IMG_7783

 

Kisi krútt gerði húsmóðurinni lífið leitt með því að fara út á Þorláksmessumorgun og koma svo ekkert heim. Hálftíma eftir að klukkurnar hringdu inn jólin og allir voru á kafi í að úða í sig kræsingunum mætti Jackson á staðinn, svangur og sætur. Ég felldi auðvitað gleðitár og þakkaði Guði og Allah fyrir jólagjöfina.

IMG_7794

Sæti jólakisinn okkar. Auðvitað fékk hann alls kyns góðgæti úr jólasokknum sínum, frá Kertasníki og félögum.

Mandlan var á sínum stað í jólaísnum og í ár vann Sigrún Björk möndluverðlaunin. Hér er hún sátt með gjöfina:

IMG_7795

Í pakkanum leyndist spilið Fimbulfamb, sem er alveg ótrúlega skemmtilegt. Við bíðum með að spila það þangað til Harpa mætir á staðinn.,

Jóladagur var yndislegur en aðeins of planaður fyrir manneskju sem er vön að liggja á meltunni og lesa jólabækur á þessum degi. Hangikjetið hjá pabba klikkar þó aldrei og að venju át ég gjörsamlega yfir mig. Við fórum svo beint þaðan í jólaboð hjá fjölskyldu Hjartar, hvar ég dansaði í kringum jólatré og börnin fengu gjafir frá ótrúlega gjafmildum og góðum jólasveini. Ég var svo södd eftir fyrra boðið að ég kom varla niður bita (eins og ávallt) sem mér fannst mikil synd því að borðin svignuðu undan kræsingunum.

Annan í jólum nýtti ég aðallega í að klára að lesa "Ósjálfrátt" eftir Auði Jónsdóttur og hafði mikið gaman af. Herregud hvað ég kannaðist við margt, eins og "Valda Popp" sem söng sinn óð til fjallanna og "Breiðafjarðarillskuna." Mjög persónuleg bók (hvílíkt hugrekki!) og ótrúlega vel skrifuð.

Annað kvöld kemur litla krúttið frá Svíþjóð og ég var því að dunda mér áðan við að búa um og færa Kristrúnu inn til Sigrúnar. Þær ákváðu að sofa saman í kvöld og taka þannig létta æfingu fyrir samsvefninn næsta mánuðinn. Þær eru dottnar úr æfingu og ég þurfti að sussa á þær þrisvar áður en þær gátu sýnt einbeittan svefnvilja. Þær fóru seint að sofa í gær af því að Erna og Óli Bjössa bró börn voru í pössun, en allir sváfu vel út. Gott að æfa sig að vaka fyrir gamlárskvöldið!

En þetta voru sem sagt ljómandi fín jól og ég vil nota tækifærið og þakka fyrir allar fínu jólagjafirnar og jólakortin mér og mínum til handa.

Blogga á næsta ári...

Jólrún Jólafs Wink 

 

 

 

 

 


Nýja húsið og jólaskapið (margar myndir!)

Ég er glöð og komin í dúndur jólaskap, en það var ekki alveg það sama upp á teningnum í gær. Kristilegur friðarboðskapurinn vék fyrir grimmilegum reiðihugsunum...en af hverju? Kannski segi ég frá því í enda færslunnar, kannski ekki...?

Ég ætla að klára myndapakkann núna í ofurstuttu máli. Hér sjást jólasokkarnir sem bíða spenntir eftir gjöfum frá Kertasníki:

IMG_7638

Ég negldi í þennan fallega trévegg af því að á næsta ári fær hann að víkja þegar við opnum eldhúsið. Eldhúsið er samt auðvitað opið núna, a.m.k. fyrir svangt heimilisfólk. Ég var aðeins í vafa um hvort ég ætti að birta næstu mynd, svona til þess að toppa hallærislegheitin. Læt hana flakka (hef engu að tapa):

IMG_7639

Ég held að ég hafi minnst á það áður að eldhúsið hérna er ekki mjög rúmgott miðað við það gamla. Einhvers staðar varð búrskápurinn að vera þannig að við breyttum forláta diskarekka í matarskáp. Til stendur að henda hvítri gardínu yfir þetta, en það hefur ekki verið gert að forgangsatriði (ég á ekki saumavél...ég kann ekki á saumavél...mig langar ekki í saumavél). Núna veit ég reyndar miklu betur hvað ég á inni á lager heldur en áður. Legg til að smíðaður verði búrskápaður svipaður þessum inn í nýju eldhúsinnréttinguna, bara með skáphurð til þess að fela góssið.

Svo sést hérna fína eldhúshornið frá sjónarhorni Kristrúnar og kattarins:

IMG_7641

Kisi skreytir myndina, á hröðum flótta undan paparazzi. Hann virðist reyndar vera á sífelldum flótta þessa dagana, skíthræddur við allar framkvæmdir. Sefur uppí hjá Björgu um nætur, forðar sér í dagrenningu og kemur svo heim seint á kvöldin þegar hann er viss um að enginn sé að saga, negla eða ryksuga. Aumingja kallinn. Hann nær kannski að róa sig aðeins um jólin. Ég passa upp á að eiga alltaf rækjur og rjóma í ísskápnum svo að hann sjái alla vega einhvern smá tilgang með því að kíkja í Daltúnið á degi hverjum.

Hér er svo eldhúsið frá öðru sjónarhorni. Við vorum ekkert að mála það núna, enda tekur því ekki að vera að gera einhverjar breytingar þar ef að allt verður rifið út á næsta ári. Ef vel er að gáð sjást þrír skór úti í glugga. Sá minnsti númer 25 og sá stærsti númer 39 (með 20 sentimetra hæl).

IMG_7642

Þá er það efri hæðin, sem tónar vel við þá neðri. Þeir sem muna vel tískuna snemma á níunda áratugnum sjá að engu hefur verið til sparað í innréttingum þegar þetta hús var byggt. Sérsmíðaðar JP innréttingar, hvert sem er litið og allt í stíl. Mjög vandað. En...við ætlum samt að breyta um stíl. Fjárans snobb bara, því að allt er hér í 100% lagi og húsið viðhaldsfrítt jafnt að innan sem utan. En...

Hér sést stiginn niður og þetta líka fína blómahorn með ekta plastblómum. Uppi er háaloft sem við ætlum hugsanlega að innrétta að hluta til sem svefnloft og þá myndi blómahornið fara og áframhaldandi stigi koma í staðinn. En kannski verður ekkert af þessum hugmyndum. Það er alla vega hægt að stækka við sig ef þess þarf. Ætli við bíðum ekki og sjáum hvort að Björg Steinunn flytji að heiman 17 ára eins og Helga...? Djók. Ööö...vonandi. Heyrðu já, stiginn...eða tröppurnar:

IMG_7647

Þessar tröppur leiða upp í sjónvarpsholið sem hét á upprunalegum teikningum "leikherbergi." Þarna glittir aðeins í nýja sófann sem við festum loksins kaup á í fyrradag. Til hægri er svo gengið inn í hjónaherbergið, sem er núna herbergið hennar Sigrúnar:

IMG_7648

Hún fékk að hafa það fjólublátt með hvítum fiðrildum. Rúmið og skrifborðið fékk ég í fermingargjöf frá pabba.  Ég man að ég fékk að velja húsgögnin sjálf í verslun sem hét Furan. Íslenskt og vandað og hefur staðist tímans tönn. Stelpurnar sitja í rólunni sem pabbi gaf Björgu þegar hún flutti í Álfatúnið. Ekki hefur verið pláss fyrir hana síðustu ár, en stelpan í stóra herberginu fékk að hafa róluna núna.

Innaf herberginu er svokallað "leyniherbergi" þar sem littlepets, pleimó, barbí og fleira fínerí er geymt, börnum til yndisauka. Kristrún vildi endilega láta taka mynd af sér í leyniherberginu:

IMG_7654

Næsta herbergi við hliðina er svo bleika herbergið. Kristrún fékk að velja litinn, en að fenginni reynslu veit ég að hún verður vaxin upp úr litnum að fáeinum árum liðnum. Því er bara einn veggur málaður í uppáhaldslitnum og auðvelt að skipta um lit þegar bleikur verður of barnalegur.

IMG_7655

Hér er svo sjónvarpshólið með nýja sófanum:

IMG_7658

Fyrir aftan sófann eru bókahillur og tölvuborð...jú og skiptiborð fyrir Jakob Ara, bráðum 4ja mánaða (drengurinn...skiptiborðið kemur upphaflega frá Björgu og er því mun eldra).

Gamla settið tróð sér í herbergi sem snýr út að Fossvogsdalnum, þar sem ávallt er friður og ró (nema þegar HK leikir eru í gangi á sumrin). Hér sofum við undurvel, fyrir utan þau skipti sem að vindurinn gnauðar í loftnetinu á þakinu beint fyrir ofan herbergið. Fyrst hélt ég að einhver væri að spila á píanó í kjallaranum um miðja nótt en svo áttaði eiginmaðurinn ofurklári sig á því að þetta væri nú bara gamalt lofnet sem fjarlægja þyrfti með körfubíl einhvern tímann í framtíðinni. Ég treysti á að það verði logn um jólin.

IMG_7659

Við hliðina á okkar svefnherbergi er svo baðherbergið, bæði með sturtu og baði. Það verður einhvern tímann tekið í gegn, en ég held að það væri bara fínt að mála veggina og flísarnar með einhverju góðu stöffi og láta það duga næstu 5-10 árin. Jú...og kannski skipta um baðinnréttingu einhvern tímann. Þetta er bara fínt baðherbergi. Svo er lítið gestaklósett við hliðina á forstofunni niðri en það verður eitthvað flikkað upp á það um leið og við skiptum um gólfefni á næsta ári. Þvílíkt gott að vera með tvö klósett - eiginlega alveg bráðnauðsynlegt þegar litla dýrið situr hálftíma á dollunni með bókastaflann fyrir framan sig!

IMG_7660

Að lokum er það þvottahúsið sem fékk netta upplyftingu í vikunni og var kannski helsta ástæða illra hugsana sem sóttu á mig í gær:

IMG_7665

Hér er búið að hækka upp undir vélunum svo að gamla konan þurfi ekki að beygja sig. Ekkert feministahjal hérna...þvottahúsið er minn staður og Hjörtur á eldhúsið (oftast)...og bílskúrinn (skuldlausan). Svona er þetta og allir sáttir. En ef hann sækist eftir þvottahúsinu líka má hann alveg eiga það.

Anyways...aðstoðarmaður jólasveinsins, eins fær og hann nú er, var ekki alveg að standa sína plikt á síðustu metrunum. Rúmt dagsverk varð að margra daga verki og á meðan var allt á hvolfi; verkfæri, spýtur, umbúðir...you name it. Ekki huggulegt svona rétt fyrir jól. Og allt sagað inni, svona til þess að henda enn einu ryklaginu yfir húsið. Ég veit að ég hljóma eins og jólaandi móður minnar hafi hellst yfir mig (mamma var þrifnasta kona í heimi) en ég er alls ekki þannig. Rykkornið var samt alveg að fylla mælinn í gær og ég vildi losa mig við aðstoðarmanninn strax, en hann kom þunnur og þögull í morgun og kláraði verkið þannig að nú er loksins allt orðið snyrtilegt á ný. Sólrún orðin Jólrún og Sóla orðin Jóla. Þarna sannaðist enn á ný hið fornkveðna að öl er böl. Ég vona svo innilega að engin fjölskylda þurfi að þjást um jólin út af alkóhólisma. Ég vona líka að enginn úti í hinum stóra heimi svelti um jólin. Líkurnar á því að vonir mínar og óskir rætist eru engar. Sorglegt. Og ég er vanþakklátt gerpi sem heldur að heimurinn farist ef húsið verður ekki orðið fínt fyrir jól.

Mér heyrist að loftnetið ætli að syngja mig í svefn í nótt. Þollákur á morgun, skötuveisla hjá pabba og svo bara nánast komin jól.

Þetta hefur verið óvenju annasöm aðventa en ætli við reynum ekki að slaka svolítið á yfir jólin, litla Daltúnsfjölskyldan.

Gleðileg jól öll sömul!

Jóla gamla Wink

 


Nýja húsið...

...eða smá partur af því alla vega. Hlutirnir eru ekki alveg klárir enn og alltaf eitthvað verkefni í gangi. Í dag var verið að mála þvottahúsið og setja saman hillur til þess að hafa þar. Ég slökkti líka á símanum og tölvunni hjá Hirti í klukkutíma í morgun svo að við gætum klárað að hengja upp myndirnar. Rússneskar ljósaperur úti um allt, en þetta mjatlast einhvern veginn áfram. Þurfum að drífa það af að kaupa sjónvarpssófa til að hafa uppi (svo að einhver nenni nú að horfa á sjónvarpið) og þá ættu nú húsgagnakaup að vera búin í bili. Reyndar er ekki mikið um ný húsgögn, svei mér þá. Nýtt rúm fyrir Björgu (seldum það gamla) og...og...svo bara  sófinn sem eftir er að kaupa. Eins og áður sagði vorum við ekki lengi að fylla húsið með dótinu okkar úr Álfatúni. En ég var að djóka með að við værum að leita að stærra húsi. Hjörtur er búinn að plana að drepast hérna svo að hann þurfi ekki að sjá um að flytja aftur. Ætli ég þurfi þá ekki að fylgja sama plani og leyfa börnum og barnabörnum að rífast um draslið. "Vilt þú eiga þetta?" - "Nei ómögulega takk."

Ég lofaði myndum, en verð að viðurkenna að ég hef ekki verið dugleg að fanga ferhyrnd rýmin á filmu. En hér er ein stafræn síðan í síðustu viku, svona í tilefni þess að Björg tók loksins til:

IMG_7608

Björg er unglingur og þess vegna má andlit hennar ekki birtast á bloggsíðu aldraðrar móður hennar. Ég man þá tíð þegar ég mátti birta mynd af henni í baði og hvaðeina. Those were the days... Þarna sést í nýja rúmið sem hægt er að stækka í tvíbreitt með einu handtaki. Ótrúlega svalt. Enn á eftir að ákveða hvað fer á gula vegginn. Myndir? Hillur? Píanó?

Hér sést í skrifborðið og hillurnar. Við hliðina er fataskápurinn og beint fyrir aftan ljósmyndarann eru fínar hillur sem Helga á og geyma núna 179 naglalökk, 12 ilmvötn og fleira alveg bráðnauðsynlegt. Ég á ekkert naglalakk og ekkert ilmvatn. Nei nú lýg ég. Björg gaf mér ilmvatnsprufu í dag. Það endist mér út árið...2013.

 IMG_7611

Ég tók auðvitað mynd af fyrstu "skyldumætingunni", þ.e. þriðjudagsdinnernum, sem var í síðustu viku. Allir glaðir á þessari mynd:

 IMG_7613

Við sitjum vanalega í litla eldhúsinu okkar og borðum, sem er ótrúlega notalegt og venst furðu fljótt. Þessa mynd átti ég í safninu frá síðasta föstudegi, þegar Kristrún, Sigrún og vinkona þeirrar síðarnefndu voru að baka og skreyta piparkökur:

 IMG_7626

Þarna sést í eldhúsbekkinn sem fylgdi með innréttingunni. Hann er einstaklega þægilegur. Hann fær víst að fjúka þegar eldhúsið verður tekið í gegn á næsta ári, nema að mér takist að finna not fyrir hann í húsinu. Ég hef augun opin!

Hjörtur tók þessa mynd í gærkvöld af fínu jólaseríunum sínum sem skreyta núna Daltúnið:

 IMG_7633

Þá er ég loksins komin í myndirnar sem ég tók áðan. Hjörtur er komin með langþráða vinnuaðstöðu í stóru horni innaf stofunni. Eiginlega er það ég sem fagna aðstöðunni meira en Hjörtur, því að eldhúsborðið var ávallt þakið pappír í Álfatúninu sem var svo bara rutt í burtu þegar fjölskyldan þurfti að snæða á kvöldin. Núna er ég að vonast til þess að borðstofuborðið verði alltaf hreint og snyrtilegt. Ef Hjörtur skilur eftir sig pappíra, penna og fleira lauslegt úti um allt (sem kemur "örsjaldan" fyrir) er minnsta mál að skutla þeim á skrifborðið hans, sem er eiginlega í hvarfi. Jette bra! Sjáiði hvað Hjörtur er glaður:

 IMG_7634

Það á aðeins eftir að laga til á skrifstofunni, eins og sést á pappakössunum, en það kemur með kalda vatninu.

Hér sést svo í stássstofuna, sem er ekki stór, en gerir sitt gagn. Til hægri er skrifstofan hans Hjartar.

 IMG_7635

Þessi mynd er tekin úr sófanum. Þaðan sést í fína þilið (sem fær að fara síðar) frammi á gangi, hluta af innréttingunni úr þvottahúsinu (sem bíður eftir að komast inn í nýmálað herbergið) og þaðan inn í eldhús.

 IMG_7636

Þetta eru orðnar svo margar myndir að ég held að ég komi með næsta skammt á morgun eða hinn. Kannski ekki merkilegar myndir, en örugglega áhugaverðar fyrir Lúllu syz og Svölu frænkz sem ekki eiga heimangengt enn sem komið er. Líka góðar heimildir fyrir okkur Daltúnana. Ég dauðsé eiginlega eftir því að hafa ekki tekið "fyrir" myndir.

Wello...jólin koma eftir tæpa viku og allir ánægðir með það. Síðasta skyldumæting í vinnuna á morgun, en svo dútlar maður við kennsluáætlanir, verkefnasmíði og fleira skemmtilegt á kvöldin þegar börnin sofa þannig að allt verði klappað og klárt 4. janúar. 30. desember koma Harpa og Rasmus með litla Jakob Ara og ætla að vera hjá okkur í heilan mánuð! Það verður sko gaman.

En ég segi bara bless í bili og lofa að henda inn fleiri myndum fyrir jól.

Luv

Jólrún Grin


Kristrún Eir 3ja ára...og flutningarnir maður!

Það er um að gera að halda upp á að vera komin með internettengingu í nýja húsið með því að skrifa aðeins um afmæli Kristrúnar...sem var 28. nóvember! Mér finnst eins og heil eilífð sé liðin síðan við héldum upp á afmælið hennar með sushi veislu (að hennar ósk) og bleikri köku, enda eru næstum því tvær vikur liðnar og margt búið að gerast. Við erum búin að puða frá morgni til kvölds með góðri hjálp tveggja Letta (til þess að gera lífið "lettara") og svo er ekki hægt að segja annað en að Óli afi og Ásgeir afi hafi komið sterkir inn, og hvað þá Ásta ofur með tuskurnar sínar og andlegan stuðning að vopni. Börnunum mínum vil ég líka þakka þolinmæðina (þau voru gjörsamlega afskipt í tvær vikur) og Bjössa bró og Ernu hró fyrir að létta þeim lundina síðasta laugardag. Helga hefði eflaust verið með okkur dag og nótt ef hún hefði ekki þurft að liggja í prófum, en hún sendi unnustann í málningu einn daginn. Þá held ég að kreditlistinn sé búinn að rúlla í gegn. Ég ætla hins vegar að bíða með fleiri fréttir af húsaflutningum þangað til næst því að fröken Kristrún Eir þarf sínar fimm mínútur af frægð (og móðirin að létta af samviskubiti sínu í leiðinni).

Litla ljósið okkar varð sem sagt 3ja ára 28. nóvember. Búið var að halda upp á afmæli hennar og Sigrúnar með vinum og vandamönnum í október sl., en það er hefð fyrir því að leyfa afmælisbörnunum að velja hvað er í matinn á afmælisdeginum sjálfum. Hér er Kristrún eldsnemma um morguninn, morgunfögur að vanda: 

IMG_7565-Copy

Hún var ánægð með alla pakkana sína og fór auðvitað í glænýjum fötum frá Noregi í leikskólann. Svo var ráðist á sushi-ið um kvöldið og eins og sést er hér fagmaður að verki:

IMG_7583-Copy

Hún er ekkert voðalega spennt fyrir grjónunum, meiri svona sashimi stelpa alla leið! Fókusinn var svo á bleiku afmælistertuna sem móðirin græjaði í skyndi, enda undirbúningur fyrir flutninga hafinn:

IMG_7592

Þriggja ára dúllídúll sem mamma og pabbi elska út af lífinu!

 

Jám...ég sit sem sagt inni í notalegu litlu eldhúsi með hlýjar korkflísar undir fótum og hlusta á bröltið í Hirti uppi þar sem hann er að brasa við að koma sjónvarpinu í samband. Ótrúlegt en satt: Internet og sjónvarp sama daginn! Halló heimur! Það er margt búið að gera en hellingur eftir. Svefnherbergin uppi eru klár en það á eftir að græja sjónvarpsherbergið betur, kaupa nettan sófaræfil og koma fyrir einni borðtölvu, öllu í sama rýminu undir súð. Herbergi Bjargar á neðri hæðinni er líka komið í gott stand en eitthvað á eftir að laga til í þvottahúsi, stofu og skrifstofu Hjartar. Í kjallaranum er geymsla sem verið er að smíða hurð fyrir (eftir að hafa brotið gat í gegnum vegginn) og svo er fullt, fullt af drasli sem enn á eftir að koma fyrir. Allir skápar troðfullir nú þegar og við erum strax farin að leita að stærra húsi!

Næsta sumar verður kannski ráðist í miklar framkvæmdir við að endurnýja eldhús og fleira. Ég hlakka bara til þess þegar allt verður orðið klárt núna fyrir jólin, myndir uppi á veggjum og engin verkfæri úti um allar trissur. En mér líst bara vel á þetta allt saman og öðrum fjölskyldumeðlimum líka. Kisi var reyndar mjög ósáttur. Hann trylltist úr hræðslu þegar við byrjuðum að flytja húsgögnin úr Álfatúni. Svo var okkur ráðlagt að halda honum inni í tvær vikur á meðan hann væri að venjast húsinu en það var nú hægara sagt en gert með þennan mikla útikött! Hann slapp út um rifu á glugganum hennar Bjargar og sást ekki í hálfan sólarhring. Með tár í hvörmum fórum við nokkrar árangurslausar ferðir upp í Álfatún að skyggnast eftir honum og báðum svo nágrannana að vera á vaktinni. Seint um kvöld birtist hann þar og ég krumpaði malbikið með Hondunni til þess að missa ekki af honum. Hann var handsamaður og átti nokkuð rólegan sólarhring í húsinu með alla dalla fulla af rækjum og rjóma. Svo í gærmorgun vildi hann endilega komast út og gerði alvarlega sjálfsmorðstilraun með því að reyna að troða hausnum í gegnum bréfalúguna! Þegar það gekk ekki sprændi hann yfir alla úlpuna hennar Sigrúnar Bjarkar, sem ætlaði einmitt að fara að arka í skólann. Skynsamur köttur, enda gáfumst við hjónin upp á þessum tímapunkti og hleyptum honum út í frelsið. Við hefðum átt að hafa aðeins minni áhyggjur því að 5 mínútum seinna vappaði hann aftur inn...og svo út aftur...og svo inn aftur...og svo út aftur...og inn...svona rétt til þess að fá staðfestingu á því að hann réði för. "Mjálm" og mamma opnar og hleypir mér inn. "Mjálm" og mamma opnar og hleypir mér út... Yndislegur hann Kisi okkar Jackson :). Núna er Hjörtur svo að væla í mér um að fá annan kött á heimilið. Hann hitti nefnilega ofursætan kettling í Sandgerði í dag sem er líka af skógarkattarkyni og bráðvantar heimili. Hmmm...sjáum til.

Jæja, auðvitað tókst mér að tala meira um flutningana en barnið! Ég stefni á að henda inn nokkrum myndum næst, alla vega af þeim herbergjum sem teljast fullkláruð.

60 manns í prófi hjá mér á morgun þannig að ég ætti að hafa nóg að dunda mér við næstu dagana.

Sjáumst!

Sóla Daltúni :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband