Nýja húsið og jólaskapið (margar myndir!)

Ég er glöð og komin í dúndur jólaskap, en það var ekki alveg það sama upp á teningnum í gær. Kristilegur friðarboðskapurinn vék fyrir grimmilegum reiðihugsunum...en af hverju? Kannski segi ég frá því í enda færslunnar, kannski ekki...?

Ég ætla að klára myndapakkann núna í ofurstuttu máli. Hér sjást jólasokkarnir sem bíða spenntir eftir gjöfum frá Kertasníki:

IMG_7638

Ég negldi í þennan fallega trévegg af því að á næsta ári fær hann að víkja þegar við opnum eldhúsið. Eldhúsið er samt auðvitað opið núna, a.m.k. fyrir svangt heimilisfólk. Ég var aðeins í vafa um hvort ég ætti að birta næstu mynd, svona til þess að toppa hallærislegheitin. Læt hana flakka (hef engu að tapa):

IMG_7639

Ég held að ég hafi minnst á það áður að eldhúsið hérna er ekki mjög rúmgott miðað við það gamla. Einhvers staðar varð búrskápurinn að vera þannig að við breyttum forláta diskarekka í matarskáp. Til stendur að henda hvítri gardínu yfir þetta, en það hefur ekki verið gert að forgangsatriði (ég á ekki saumavél...ég kann ekki á saumavél...mig langar ekki í saumavél). Núna veit ég reyndar miklu betur hvað ég á inni á lager heldur en áður. Legg til að smíðaður verði búrskápaður svipaður þessum inn í nýju eldhúsinnréttinguna, bara með skáphurð til þess að fela góssið.

Svo sést hérna fína eldhúshornið frá sjónarhorni Kristrúnar og kattarins:

IMG_7641

Kisi skreytir myndina, á hröðum flótta undan paparazzi. Hann virðist reyndar vera á sífelldum flótta þessa dagana, skíthræddur við allar framkvæmdir. Sefur uppí hjá Björgu um nætur, forðar sér í dagrenningu og kemur svo heim seint á kvöldin þegar hann er viss um að enginn sé að saga, negla eða ryksuga. Aumingja kallinn. Hann nær kannski að róa sig aðeins um jólin. Ég passa upp á að eiga alltaf rækjur og rjóma í ísskápnum svo að hann sjái alla vega einhvern smá tilgang með því að kíkja í Daltúnið á degi hverjum.

Hér er svo eldhúsið frá öðru sjónarhorni. Við vorum ekkert að mála það núna, enda tekur því ekki að vera að gera einhverjar breytingar þar ef að allt verður rifið út á næsta ári. Ef vel er að gáð sjást þrír skór úti í glugga. Sá minnsti númer 25 og sá stærsti númer 39 (með 20 sentimetra hæl).

IMG_7642

Þá er það efri hæðin, sem tónar vel við þá neðri. Þeir sem muna vel tískuna snemma á níunda áratugnum sjá að engu hefur verið til sparað í innréttingum þegar þetta hús var byggt. Sérsmíðaðar JP innréttingar, hvert sem er litið og allt í stíl. Mjög vandað. En...við ætlum samt að breyta um stíl. Fjárans snobb bara, því að allt er hér í 100% lagi og húsið viðhaldsfrítt jafnt að innan sem utan. En...

Hér sést stiginn niður og þetta líka fína blómahorn með ekta plastblómum. Uppi er háaloft sem við ætlum hugsanlega að innrétta að hluta til sem svefnloft og þá myndi blómahornið fara og áframhaldandi stigi koma í staðinn. En kannski verður ekkert af þessum hugmyndum. Það er alla vega hægt að stækka við sig ef þess þarf. Ætli við bíðum ekki og sjáum hvort að Björg Steinunn flytji að heiman 17 ára eins og Helga...? Djók. Ööö...vonandi. Heyrðu já, stiginn...eða tröppurnar:

IMG_7647

Þessar tröppur leiða upp í sjónvarpsholið sem hét á upprunalegum teikningum "leikherbergi." Þarna glittir aðeins í nýja sófann sem við festum loksins kaup á í fyrradag. Til hægri er svo gengið inn í hjónaherbergið, sem er núna herbergið hennar Sigrúnar:

IMG_7648

Hún fékk að hafa það fjólublátt með hvítum fiðrildum. Rúmið og skrifborðið fékk ég í fermingargjöf frá pabba.  Ég man að ég fékk að velja húsgögnin sjálf í verslun sem hét Furan. Íslenskt og vandað og hefur staðist tímans tönn. Stelpurnar sitja í rólunni sem pabbi gaf Björgu þegar hún flutti í Álfatúnið. Ekki hefur verið pláss fyrir hana síðustu ár, en stelpan í stóra herberginu fékk að hafa róluna núna.

Innaf herberginu er svokallað "leyniherbergi" þar sem littlepets, pleimó, barbí og fleira fínerí er geymt, börnum til yndisauka. Kristrún vildi endilega láta taka mynd af sér í leyniherberginu:

IMG_7654

Næsta herbergi við hliðina er svo bleika herbergið. Kristrún fékk að velja litinn, en að fenginni reynslu veit ég að hún verður vaxin upp úr litnum að fáeinum árum liðnum. Því er bara einn veggur málaður í uppáhaldslitnum og auðvelt að skipta um lit þegar bleikur verður of barnalegur.

IMG_7655

Hér er svo sjónvarpshólið með nýja sófanum:

IMG_7658

Fyrir aftan sófann eru bókahillur og tölvuborð...jú og skiptiborð fyrir Jakob Ara, bráðum 4ja mánaða (drengurinn...skiptiborðið kemur upphaflega frá Björgu og er því mun eldra).

Gamla settið tróð sér í herbergi sem snýr út að Fossvogsdalnum, þar sem ávallt er friður og ró (nema þegar HK leikir eru í gangi á sumrin). Hér sofum við undurvel, fyrir utan þau skipti sem að vindurinn gnauðar í loftnetinu á þakinu beint fyrir ofan herbergið. Fyrst hélt ég að einhver væri að spila á píanó í kjallaranum um miðja nótt en svo áttaði eiginmaðurinn ofurklári sig á því að þetta væri nú bara gamalt lofnet sem fjarlægja þyrfti með körfubíl einhvern tímann í framtíðinni. Ég treysti á að það verði logn um jólin.

IMG_7659

Við hliðina á okkar svefnherbergi er svo baðherbergið, bæði með sturtu og baði. Það verður einhvern tímann tekið í gegn, en ég held að það væri bara fínt að mála veggina og flísarnar með einhverju góðu stöffi og láta það duga næstu 5-10 árin. Jú...og kannski skipta um baðinnréttingu einhvern tímann. Þetta er bara fínt baðherbergi. Svo er lítið gestaklósett við hliðina á forstofunni niðri en það verður eitthvað flikkað upp á það um leið og við skiptum um gólfefni á næsta ári. Þvílíkt gott að vera með tvö klósett - eiginlega alveg bráðnauðsynlegt þegar litla dýrið situr hálftíma á dollunni með bókastaflann fyrir framan sig!

IMG_7660

Að lokum er það þvottahúsið sem fékk netta upplyftingu í vikunni og var kannski helsta ástæða illra hugsana sem sóttu á mig í gær:

IMG_7665

Hér er búið að hækka upp undir vélunum svo að gamla konan þurfi ekki að beygja sig. Ekkert feministahjal hérna...þvottahúsið er minn staður og Hjörtur á eldhúsið (oftast)...og bílskúrinn (skuldlausan). Svona er þetta og allir sáttir. En ef hann sækist eftir þvottahúsinu líka má hann alveg eiga það.

Anyways...aðstoðarmaður jólasveinsins, eins fær og hann nú er, var ekki alveg að standa sína plikt á síðustu metrunum. Rúmt dagsverk varð að margra daga verki og á meðan var allt á hvolfi; verkfæri, spýtur, umbúðir...you name it. Ekki huggulegt svona rétt fyrir jól. Og allt sagað inni, svona til þess að henda enn einu ryklaginu yfir húsið. Ég veit að ég hljóma eins og jólaandi móður minnar hafi hellst yfir mig (mamma var þrifnasta kona í heimi) en ég er alls ekki þannig. Rykkornið var samt alveg að fylla mælinn í gær og ég vildi losa mig við aðstoðarmanninn strax, en hann kom þunnur og þögull í morgun og kláraði verkið þannig að nú er loksins allt orðið snyrtilegt á ný. Sólrún orðin Jólrún og Sóla orðin Jóla. Þarna sannaðist enn á ný hið fornkveðna að öl er böl. Ég vona svo innilega að engin fjölskylda þurfi að þjást um jólin út af alkóhólisma. Ég vona líka að enginn úti í hinum stóra heimi svelti um jólin. Líkurnar á því að vonir mínar og óskir rætist eru engar. Sorglegt. Og ég er vanþakklátt gerpi sem heldur að heimurinn farist ef húsið verður ekki orðið fínt fyrir jól.

Mér heyrist að loftnetið ætli að syngja mig í svefn í nótt. Þollákur á morgun, skötuveisla hjá pabba og svo bara nánast komin jól.

Þetta hefur verið óvenju annasöm aðventa en ætli við reynum ekki að slaka svolítið á yfir jólin, litla Daltúnsfjölskyldan.

Gleðileg jól öll sömul!

Jóla gamla Wink

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nýi sófinn tekur sig vel út...like á það....og ef þú vilt gardínur fyrir búrhillurnar þá er ég sjálfboðaliði í svoleiðis redding .....gæti rúllað því upp á morgun ef þú ert til .......Knús í hús  kv. Kristbjörg

Kristbjörg Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 23.12.2012 kl. 00:08

2 identicon

Gleðileg jól Sólin mín, hafið það ótrúlega gott og notalegt um jólin :)

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 23.12.2012 kl. 00:10

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hætta þesu rugli um að taka í gegn. 80's rúlar! Segja bæði ég og Kisi Jackson.

Ketill Sigurjónsson, 23.12.2012 kl. 00:35

4 identicon

Fína fína húsið :) Vona að þið hafið sofið vel í rokinu í nótt. Kannski ég kíki á ykkur í jólafríinu - fyrst það er að verða hreint! Gleðileg jól elsku Daltúnsfjölskylda.

Sólveig (IP-tala skráð) 23.12.2012 kl. 09:22

5 identicon

Takk Kribba...ekki vil ég níðast á textílkennara í jólafríi!

Takk Rannveig mín og sömuleiðis!

Ketill: Í mínum innstu hjartarótum er ég sammála þér, en þrýstingurinn frá þjóðfélaginu er að drepa mig :)

Sólveig: Eg lofa að allt verði hreint þegar þú mætir á staðinn! Ávallt velkomin!

Sóla (IP-tala skráð) 23.12.2012 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband