Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Nýja húsið, nafnið og 6 ára stelpan

Fyrsti desember er alveg að koma þannig að ég sem ætlaði að blogga að minnsta kosti einu sinni í mánuði hef tæpa þrjá tíma til stefnu til þess að segja nokkur orð um nóvember 2015. Ég lofaði einmitt einhverjum æsispennandi fréttum af fasteignakaupum en fésbókin er löngu búin að skúbba þeim. Við sem sagt keyptum stærra hús fyrir fjölskylduna sístækkandi á eðalstað í Stykkishólmi. Mig hafði reyndar aldrei dreymt um að kaupa þetta hús af því að í kringum það var allt of fallegur blómagarður með að minnsta kosti 200 mismunandi jurtum. Ég hef lítið gaman af garðrækt nema að hægt sé að éta fyrirhöfnina um haustið. Það hlýtur að mega hella roundup yfir allt saman. Djók.

Ég ólst upp á Ægisgötu í Stykkishólmi og eins og nafnið gefur til kynna lá gatan við sjóinn. Mamma og pabbi skildu þegar ég var 12-13 ára og þá flutti pabbi suður og mamma og við systkinin á Skúlagötuna í Stykkiz, áður en við fluttum rúmi ári seinna á Laufásveginn. Jú, þið tókuð rétt eftir. Margar götur í Reykjavík eru skírðar eftir götum í Stykkishólmi. Eftir ljúfa barnæskuna á Ægisgötunni hét ég því að búa aftur í húsi við sjóinn þegar ég yrði fullorðin. Ég er að standa við þau heit mín með því að flytja á Skúlagötuna, rétt handan við horn Ægisgötunnar, með fögru útsýni yfir sjóinn, Gullhólmann og kirkjuna. Planið er að flytja svo alfarið þangað þegar börnin eru uppkomin, hvenær sem það verður. Tja...ætli að þá verði ekki bara kominn tími til þess að flytja beint aftur á Skólastíginn, þ.e. dvalarheimili aldraðra?

Hér er slotið:

skulagatajol15_zpsze7nkwed

Hinum megin við götuna er sjórinn en ég set inn myndir af útsýninu síðar. Annar kostur við staðsetninguna er að beint fyrir ofan býr besta vinkona mín í Hólminum, hún Kribba Hermanns, textílfrömuður með meiru. Við stelpurnar eigum eftir að dúlla okkur við klósting, krosssaum, aftursting og varplegg á meðan Hjörtur útbýr latté og bakar Sacher tertu fyrir prinsessurnar. Hjörtur er einmitt í Hólminum núna, eitthvað að fást við tiltekt í geymslunni í Vallabúð og klæðningu á háaloftinu á Akri (nýja húsið heitir það). Það á eftir að gera slatta í húsinu áður en það getur talist huggulegt á mælikvarða eiginmanns míns en ég treysti honum fullkomlega fyrir þessu. Gamla húsið okkar í Stykkishólmi er til sölu, ef einhver hefur áhuga á frábærum sumarbústað sem hægt er að leigja út til túrista líka.

Ég lofaði líka að ljóstra upp um nafn prinsessunnar á heimilinu en fésbókin er aftur búin að taka spennuna úr þessu. Litla gullið heitir sem sagt Adríana Líf og er Elvarsdóttir. Fallegt og sjaldgæft nafn, eftir konu sem foreldrarnir þekktu báðir, en er nú látin. Hér er hið nýja líf:

adrianajol15_zpsokjeofb3

Skírnin fór fram heima í Daltúni og tókst með ágætum. Okkur líst vel á föðurfólkið og hér er mynd af þeim allra nánustu:

adrianabloggnov15_zpsuzscrt4vMér endist ekki dagurinn til þess að telja upp öll nöfnin. Ég segi þetta reyndar bara af því að ég þekki ekki allt þetta fólk með nafni. Hnegg hnegg....

Eftir skírnarveisluna voru haldnar tvær stórveislur í Daltúni. Sú fyrri var sameiginlegt fjölskylduafmæli Diddúar og Kiddúar og mættu margir og fóru mettir. Helga Adríönumóðir fylgdist agndofa með undirbúningi afmælisins og komst að því að mikill tími og vinna fer í að halda eitt stykki stórveislu. Allar afmælisveislur Adríönu verða því haldnar á paintball vellinum í Grafarvogi. 

28. nóvember átti svo litla tannlausa himpigimpið hennar mömmu sinnar 6 ára afmæli.

kiddublognov15_zpsvm7sbloi

Daginn áður fékk hún í fyrsta sinn að halda afmæli bara fyrir sig eina, en hingað til hafði hún bara fengið fjölskylduafmælið með Sigrúnu. Maður reynir að setja svona reglur til þess að komast sem mest hjá því að halda veislur. Eftir dálitla umhugsun ákvað hún að halda neon veislu eins og Sigrún stóra systir. Við hjónin vorum orðin nokkuð sjóuð í þessum neon bransa, auk þess sem ekki þurfti að byrgja neina glugga af því að klukkan fimm, þegar veislugestir mættu, var nánast orðið aldimmt úti. Kristrún vildi endilega bjóða öllum bekknum af því að hún vildi ekki að strákarnir yrðu leiðir yfir því að missa af veislunni. Svo full af samkennd, þessi elska. Hér er hún búin að leggja á borð fyrir 21 krakka:

kidduafmaeliglibekkjarblognov15_zps7hxfdend

Vonandi fjölgar ekki í bekknum því að það yrði erfitt að koma fleirum að við borðið. Anyways, það var mikið stuð í partýinu og mér tókst að læra nokkurn veginn öll nöfnin á börnunum, þó að ég þekki fæsta foreldrana með nafni. Hér er diskóstuð:

krakkarblognov15_zpshl8do8cp

Daginn eftir var litla elskan vakin með söng, pökkum og Cocoa Puffs, að eigin ósk. Hún hélt í þriðja sinn upp á afmælið sitt með því að bjóða fjölskyldunni og ömmu, afa og Óla afa upp á kjötbollur með káli og ísblóm í eftirmat.

Við sjáum strax heilmikla breytingu á henni eftir að hún varð 6 ára. Samkvæmt loforði hennar er hún sjálfstæð á salerninu, þegjandi og hljóðalaust og er mun sneggri í fötin á morgnana (úr 30 mínútum í 19 mínútur að meðaltali). Það er ekki laust við að hún sé líka orðin aðeins ákveðnari. Ekki vildi hún fara út á afmælisdaginn sinn (það var svo kalt og snjórinn svo djúpur, sagði hún) en á sunnudeginum áttum við gott rennerí um allan Fossvog. Ég var hvort eð er ekki upplögð fyrir neitt mikið á laugardeginum af því að Gunni okkar Bowie hafði verið týndur í tvo sólarhringa í þessum líka ískulda og snjókomu. Enginn dúnmjúkur lítill ísbjörn tók á móti mér á morgnana og malaði gleðina í daginn. Kisi tók reyndar við keflinu og var mættur í staðinn, meira en tilbúinn að gera mér til geðs í von um eilítinn fiskbita með Kellogsinu.

Gamla neyðarráðið að biðja Guð um hjálp svínvirkaði alveg því að á sunnudagsmorgninum vaknaði ég við ámátlegt mjálm fyrir utan eldhúsdyrnar. Við Gunni fögnuðum hvoru öðru svo mikið að Kisi Jackson varð afbrýðisamur og gaf Gunna á kjaftinn. Hann hafði hugsanlega haldið að héðan í frá myndi hann sitja einn að kjötkötlunum eða mömmukjöltunni. En það er nóg til af mömmu fyrir alla: kisur, krakka og kalla. Endum þessa vitleysu á mynd af Kristrúnu 6 ára og duglega kallinum, pabba hennar:

kiddupabbiblognov15_zpsg3nsumwc

 

Kilimanjaro eftir 4 vikur. Fréttir verða sagðar fljótlega. Ég lofa!

Sólamanjaro :)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband