Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Jibbýjúlí 2014

Hallærislegur bloggtitill þetta en ég vil vitna í gamlan vin minn, Huey Lewis með þessum orðum: "It's hip to be square!"

Það er langt um liðið síðan síðast þegar ég var í Flatey í lok júní og byrjun júlí í roki og rigningu. Síðan tóku við tíu góðir dagar í Stykkishólmi, í misjöfnu veðri þó. Ég man ekki lengur hvað við gerðum frá degi til dags en mig minnir þó að félagslífið hafi verið óvenju gott. Ég hitti náttúrulega Dísu skvísu og Maju pæju - það er bara fastur liður. Svo hékk ég töluvert með yngri deildinni, t.d. Kribbu cray cray sem vann dag og nótt við að koma nýja húsinu í gott stand, Sólveigu sykurpúða sem eyddi einni helgi með fjölskyldunni í Stykkiz, Bjöggó Österreich sem skottaðist út um allan bæ á sínum fráu fótum og Höllu Dís sem skokkaði með frænku sinni upp að ruslahaugum og til baka oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, já og jafnvel oftar en þrisvar. En þegar fjórði rigningardagurinn var runninn upp og ég búin að prófa öll kaffihús og söfn í bænum var kominn tími til þess að hvíla Hólminn og skella sér í bæinn. Höfuðborgarsvæðið er aðeins stærra en Stykkishólmur og örlítið meiri afþreying í boði þegar veður er vott. Hér er ég enn en á laugardaginn kíkjum við í 2-3 daga í Hólminn og hittum vonandi alla þá sem ég taldi upp hér á undan og fleiri í viðbót. Það er gott að vera í Hólminum "where everybody knows your name" og anda að sér æskuminningunum. Vel á minnst, ég komst að því að besta kaffið fæst í Sjávarpakkhúsinu og ekki orð um það meir. Og já...ég fékk líka að kynnast krílinu hennar Kristbjargar örlítið betur og hún er sko ekki barnabarn ömmu sinnar Hrefnu Markan fyrir ekki neitt. Þrælklár, orkumikil, sjálfstæð og sniðug. Hér eru hetjurnar þrjár á ferð um bæinn með Jólrúnu á góðviðrisdegi í júlí í Hólminum fagra:

10401507_10152739576420579_1409434395419011581_n_zps5bb88869

 Kristrún Eir, Sigrún Björk og Íris Ísafold. Flott teymi!

Við erum sum sé búin að vera tvær og hálfa viku í bænum og það er rosalega langur tími fyrir fjölskyldu sem er vön að vera á ferð og flugi á sumrin. En þetta er búinn að vera ótrúlega góður tími og mér hefur bara ekki leiðst neitt - þvert á móti höfum við alltaf fundið upp á einhverju skemmtilegu að gera á hverjum degi. Fyrir tilviljun var mér bent á gott sundnámskeið í Breiðholtslaug þannig að ég skráði báðar litlurnar á það. Flesta morgna höfum við því mætt í laugina á morgnana, sem er frábær byrjun á deginum. Þetta er tveggja vikna námskeið og það var fyrst núna á þriðjudeginum síðasta sem að sólin skein aðeins á okkur í lauginni. Núna erum við stelpurnar allar komnar með gott sundbolafar og gömul sólbrúnka frá því snemma í júní farin að líta aftur dagsins ljós.  

Eflaust er veðrið ekki eina ástæðan fyrir því að við höfum ekki verið á flandri um landið nýlega. Björg er heima að vinna og vill ekki sleppa einum einasta degi í vinnunni þó að henni bjóðist það. Það stefnir allt í að hún verði vinnualki eins og pabbi hennar...og mamma. Hún er að vinna á kaffihúsinu Víkinni niðri á Granda og líkar lífið þar vel undir stjórn pabba síns. Hún er orðin vaktstjóri og kaffimeistari staðarins þannig að framtíðin í veitingabransanum er björt. En það er nú kannski ekki víst að hún ætli að gera þjónsstarfið að ævistarfi. Hér er duglega stelpan mín að skenkja litlu systrunum nýkreistan appelsínusafa úti á palli í blíðunni:

10398675_10152739576395579_3169421501313761774_n_zpsbb561b21

 Sigrún, Björg og Kristrún. Mæli með ferð í Sjóminjasafnið og svo kaffi og kökur í Víkinni á eftir. Eða fiskisúpunni - það er sko öflug súpa!! Blogg skal ekki vanmeta sem leið til þess að auglýsa :)

Eitt af því skemmtilegasta sem við erum búin að gera í júlí var að fara til Vestmannaeyja. Pabbi sagði mér í Flatey að hann hefði aldrei komið til Vestmannaeyja. Mér þótti það heldur "lellett" ("lélegt" á pabbamáli) og ákvað að úr þessu yrði bætt hið snarasta. Svo kom í ljós að Óli Geir djúníor (Bjössabróson) hafði heldur ekki komið til Eyja sem var auðvitað tvöföld gleði og ánægja. Við fórum því í dagsferð til þessa dásamlega fallega og skemmtilega staðar. Það sem gladdi mig mest voru breytingarnar á sundlauginni og ég held bara svei mér þá að þetta sé uppáhaldssundlaugin mín á öllu landinu. Þá er sko mikið sagt því að þær eru margar góðar. Söfnin Eldheimar og Sæheimar voru líka sérlega fjölskylduvæn söfn, ásamt spranginu og bara umhverfinu öllu. Því oftar sem ég kem til Eyja, því hrifnari verð ég af bænum, sögunni og landslaginu. Allir voru í góðum fíling og Sigrún og Óli Geir hlógu nánast alla ferðina. Hér er Óli að klappa lunda í Sæheimum:

1610767_10152739576385579_3314668490833423861_n_zps5ba20326

 Óli, léttur í lund(a)

Hér komu svo Norsararnir Svala, Gunni og Madelen og nutu þess að vera ekki að kafna úr hita alla daga. Maður skyldi ekki vanmeta íslenskt loftslag og ofmeta hitann og rakann í útlöndum. Það var gott að hitta þau aftur og Lúlla sys er heppin að hafa þau á kantinum í Noregi. Henni gengur vel í prestsstarfinu og var alveg svakalega fljót að ná tökum á norskunni og umhverfinu öllu. Þetta er sko ekki öllum gefið og það er ekki að spyrja að dirfskunni og dugnaðinum í henni systur minni. Við erum að spá í Skandinavíuför á næsta ári og þá væri gaman að eyða smá tíma í Svíþjóð og smá tíma í Noregi. Við sjáum hvað setur.  

Samkvæmt plani ættum við að vera í Stykkishólmi núna en smá töf varð á löndun þegar það "uppgötvaðist" að tengdamamma mín yrði sjötug á morgun (1. ágúst). Það verður því svaka partý á morgun með nánustu fjölskyldu - kokkur og læti. Planið er svo að henda í töskur á laugardagsmorgni og bruna á vit ævintýranna í Stykkishólmi. Elskulega mágkona mín og Kribba cray cray ætla að kíkja með mér á Sjávarpakkhúsið um kvöldið og fá sér einn...kaffi. Með froðu.

Heyrðu já já, eitt að lokum. Ég er kona með markmið. Ég er svolítið eins og systir mín. Ef ég ætla mér að verða Íslandsmeistari í einhverju þá verð ég það. Hún varð Íslandsmeistari í júdó, vaxtarrækt og fitness. Ég varð Íslandsmeistari í tónlist. 80's tónlist. Í júlí. Klapp klapp.

eighties_zps1e78d52b

 

Eigið góða Verslunarmannahelgi!

Sóla Íslandsmeistari :) 

PS Næst verður bloggað um ferð með fjórum enskukennurum til Norwich. Stay tuned! 


Flateyjarfærslan 2014

Eirðarleysið var um það bil að heltaka mig þegar mér datt allt einu í hug að skrifa nokkur orð um Flateyjardvölina 2014. Hér sit ég því í stofunni í Bræðraminni með Viking Lite á kantinum og klukkan ekki orðin tvö! Ég er búin að eyða morgninum í að týna til fötin af börnunum úti um allt hús, flokka í hreint og óhreint og sópa aðeins og snurfusa. Aðeins að vinna mér í haginn fyrir morgundaginn þegar við þurfum að vakna í fyrra fallinu, sótthreinsa húsið og taka Baldur yfir hálfan Breiðafjörð, "alla" leið til Stykkishólms.

Þótt að veðrið fari ekki í sögu- eða gestabækurnar sem það allra besta í Flatey á ég erfitt með að kvarta of mikið. Helgarveðrið olli svolitlum vonbrigðum af því að ekki var eins mikil sól og logn og spáð hafði verið, en rigningin og rokið síðustu daga stemmir nokkurn veginn við yr.no – og er jafnvel heldur umfangsminna ef eitthvað er. Það er til dæmis alveg þurrt í dag, en ég giska á að um leið og við förum út í labbitúr komi góð demba.

Krakkarnir eru búnir að vera óvenju iðnir í innileikjum í dag og vilja ekki heyra á það minnst að fara út í göngutúr. Sigrún er komin á kaf í að flétta vinabönd og Kristrún og Halldór eru í einhverjum leik með fígúrum sem þau bjuggu til úr kubbum og spýtum. Seinni partinn í gær, eftir að hafa blotnað vel úti í einni mestu rigningu sem ég hef séð í Flatey, fengu þau langan tíma í i-padnum þannig að hann er aðeins hvíldur í dag.

Við komum hérna 9 manns síðasta föstudagseftirmiðdag, eftir góða ferð í Bónus í Stykkishólmi þar sem tvær innkaupakerrur voru fylltar af mat. Helga og Björg, ásamt Guðrúnu Bjargarvinkonu, voru hér um helgina og líkaði vel, að því er ég best veit. Þær voru duglegar að leggja sig um miðjan dag, en áttu líka sterka innkomu í miðaleik Sólrúnar (sem saminn var af Björgu) á laugardagskvöldinu og svo í pub quiz í Bryggjubúðinni. Við ætluðum öll að vera eitt lið en þar sem ekki máttu vera fleiri en fjórir í hverju liði ákváðum við að hafa liðsfélagana úr sigurliðinu frá því í fyrra í sama liði og svo mynduðu Guðrún, Helga, Ástþór og Haraldur annað lið. Í sigurliðinu annað árið í röð voru því ég, Björg, pabbi og Halla Dís ofurfrænka. Lísa, sú sem samdi spurningarnar, hafði ætlað sér að nota sömu spurningar og í fyrra en þegar hún sá pabba koma með Baldri á föstudaginn gerði hún sér grein fyrir því að þarna var á ferð sigurvegarinn frá því í fyrra (legend!). Því eyddi hún allri nóttinni í að semja 20 nýjar spurningar um Flatey og ýmislegt annað spennandi. Úr varð æsispennandi keppni sem lyktaði með sigri Bræðraminnisgáfumennanna annað árið í röð. Í öðru sæti varð fólkið á Vegamótum og bronsið hlaut útibú Bræðraminnis, þ.e. Helga og co. Aftur var forláta rauðvínsflaska í verðlaun auk verðlaunaskjals og súkkulaðis sem börnin á staðnum voru fljót að hakka í sig. Rauðvínsflöskunni var einnig slátrað undurhratt af meðlimum gull- og bronsliðsins. Eftir sigurinn skunduðu svo allir niður á Saltbarinn og náðu einum köldum af krana áður en lokað var á miðnætti. Helga og pabbi héldu svo uppi hálftíma söngstund heima í Bræðraminni en þá voru allir orðnir ofurþreyttir (enda sumir "bara" búnir að leggja sig í þrjá tíma yfir daginn) og fóru að sofa.

Á sunnudeginum var ágætis veður til sjósóknar og þá var auðvitað farið á blöðruna frægu og þorskur dreginn úr sjó. Ég var heima í rólegheitunum með Kristrúnu á meðan allir hinir íklæddust fjölbreyttu blautbúningasafni Hjartar og þeyttust eftir haffletinum og jafnvel lóðrétt ofan í hann. Samkvæmt matseðli var steiktur þorskur í kvöldmatinn og ekki tók langan tíma að ná nokkrum golþorskum upp í bátinn. Eftir góða leggju hjá stelpunum og skippernum fékk fiskurinn að synda á ný – í smjöri, raspi og remúlaði.  Toppurinn á tilverunni var svo auðvitað Royal búðingur a la Björg Steinunn. Klassíker sem aldrei má vanta í Flatey. Það var örlítill tregi í mér þegar ég kvaddi stóru stelpurnar þrjár á sunnudagskvöldið, en svona er víst lífið: Stóru skólabörnin þurfa að vinna fyrir sér. Helga er í húspössun enn á ný og Björg skiptist á að njóta lystisemda pabba síns og gourmet eldamennsku stóru systur. Björg og kettirnir eru svo sannarlega heppin að eiga góða að.

Þó að fámennara hafi verið í kotinu síðustu daga hefur samt verið gott að vera í Flatey. Mér er lífsins ómögulegt að muna hvað við gerðum á mánudaginn, annað en að elda góðan mat og lesa góðar bækur. Ég var ekki lengi að klára Afleggjarann eftir Auði Evu Ólafsdóttur og greip þá í bókina Insjallah  eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur. Svo sannarlega bækur af ólíkum toga en fínar aflestrar, báðar tvær. Annars hef ég ekki mikla eirð í mér til þess að lesa mikið í einu. Mér finnst ég oft vera að svíkjast um í móðurhlutverkinu ef ég er ekki að hafa ofan af fyrir börnunum og viðra þau. Nú rifjast það reyndar upp fyrir mér að veðrið á mánudaginn var alveg skaplegt og þá gengum við hringinn í kringum eyna og kíktum á tippakallinn á miðri leið. Ekki það að ég þurfi að færa honum fórnir lengur, enda hætt barneignum og farin að njóta þess að eiga örlítið stálpuð börn. Minnistæðast úr þeirri ferð er líklegast sú uppgötvun að Kristrún er að verða stór stelpa og klöngraðist nánast alla þýfðu leiðina án þess að kvarta. Í restina kom reyndar hellirigning og þá var gott að komast heim og hafa það notalegt í hlýjunni í Bræðraminni. Um kvöldið hakkaði Hjörtur afganginn af fisknum með gömlu hakkavél ömmu sinnar á Patró og í kvöldmat voru bestu fiskibollur í heimi, auðvitað samkvæmt plani. Hér hleypur maður ekki út í Bónus eftir einhverju nýmeti, sko. Um kvöldið fengum við góða gesti úr Græna-Garði og börnin fóru ekki að sofa fyrr en rétt fyrir miðnætti. Fröken árrisul vaknaði ekki fyrr en klukkan tíu morguninn eftir, fyrst manna auðvitað, þannig að það var ekki auðvelt að koma börnunum í háttinn í gærkvöld.

Reyndar var búið að tannbursta og láta alla pissa (nema Hjört og pabba) klukkan rúmlega átta um kvöldið svo að það gæfist góður tími til þess að lesa Bróðir minn ljónshjarta og segja einhverjar skemmtilegar sögur. Spennan eykst smátt og smátt hjá Lindgren og vinum og við enduðum á því að fatta að Húbert var ekki svikarinn, heldur Josse! Herregud! Rea. Sem fyrr var mikil pressa á mig að segja sögur og þá helst draugasögur, en ég var búin að vera treg til allan tímann. Ég sagði Sigrúnu og Halldóri Ásgeiri frá frænku þeirra sem var ansi kokhraust og vildi fá hressandi hryllingssögu frá Sólu sögukonu. Í bæði skiptin (með löngu millibili) varð frænkan svo hrædd að hún grét og vildi fara heim til mömmu. Þetta fannst Sigrúnu og Halldóri bara fyndið og gerðu óspart grín að þessari frænku sinni sem virtist vera algjör skræfa undir hörðu yfirborðinu.  Nú jæja, eftir mikið suð ákvað ég að segja eina milda draugasögu sem endaði afskaplega vel. Draugurinn reyndist ekki vera draugur, heldur pabbi hans Óla afa (þetta var saga úr fortíðarflateyþegarafivarungur...) og eftir draugasöguna sagði ég bjánalega sögu um banana og sígarettu, að ósk barnanna. Vögguvísurnar voru svo sungnar í rokkuðum stíl (rock-a-bye-baby) sem endaði með hörkudansi allra viðstaddra úti á dúandi gólfi suðurloftsins. Ég hélt því að öll börn hefðu gengið glöð og gleymin til hvílu stuttu síðar.

Nóttin reyndist þó frekar erfið því að áður en fiskur náði að draga andann kom frændi Hjartar niður og vildi fara heim. Jamm, svona er þetta alltaf þegar ég segi frændfólki Hjartar draugasögur. Hjörtur er sjálfur lítið fyrir að láta bregða sér (I‘ve learnt the hard way) og kannski það eigi bara við alla hans ætt. Það er nú annað en breiðfirzku harðjaxlagenin...hmmm.... Ég og Hjörtur skiptumst á að kúra hjá litla knúsudýrinu alla nóttina, en svo kom sem betur fer nýr dagur með nýjum fyrirheitum og ég get ekki betur séð en að drengurinn sé áfram hinn glaðasti með dvölina hjá Bóa (Hirti) frænda og Jólu frænku. Á morgun förum við í Stykkishólm og þar verður stráksi alla vega tvo til þrjá daga í viðbót. Það er yndislegt að hafa hann því að hann og Sigrún eru jafnaldrar og þá er svo miklu skemmtilegra að leika sér. Kiddú er ekki lengur litla óvitakrúttið, heldur er hún farin að svara fyrir sig og jafnvel stríða stóru systur sinni smá. Þá myndast oft leiðinda spenna og pirringur á milli systkina sem er eitt það leiðinlegasta sem foreldrar þurfa að hlusta á. Ég mæli eindregið með því að taka skemmtilega frændur eða frænkur með í ferðalagið, ef því verður við komið.

Ég verð nú að segja frá alveg einstökum atburði sem átti sér stað í gær. Í lok kvöldvöku þriðjudagsins sammæltumst við frænkur (Halla Dís og ég) um að fara út að hlaupa í Flatey. Ekki alveg það nýjasta nýtt í sjálfu sér því að við höfum báðar skokkað í Flatey áður, en það er orðið ansi langt síðan ég gerði það síðast út af verkjum í il. Jú, rúmlega tvö ár síðan ég hætti alfarið að hlaupa. Undanfarið hef ég þó tekið eftir jákvæðum breytingum í vinstri il og aðeins prófað hana eftir að heim var komið frá Dóminíkanska Lýðveldinu.  Ég ákvað því að slá til og skokka smávegis með þessari góðu frænku minni. Við ákváðum að kalla þessa tilraun „Haltur leiðir blindan“ því að hún Halla er jú lögblind og ég hef verið nánast löghölt (ef það er til) síðustu tvö árin eða svo. Klukkan ellefu að morgni skokkuðum við svo rúma fimm kílómetra eftir mjúkum stígum eyjarinnar og fórst það svo ljómandi vel úr hendi að sú lögblinda hnaut aldrei um þúfur eða steina og sú löghalta fann varla fyrir verknum undir ilinni. Okkur leið báðum eins og sigurvegurum í lok hlaupsins og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að hittast aftur í Hólminum og hlaupa saman eða jafnvel klífa fjöll. „Haltur leiðir blindan“ er gott teymi. Ég þori ekki að fagna of snemma en innan í mér er kátur harmonikkuleikari og óður skáti sem veifar íslenska fánanum í gríð og erg. Er mér að batna? Verð ég ÉG á ný?

Með þessum orðum er mál að linni að sinni. Börnin eru enn kát og glöð í sínum eigin leikjaheimi uppi á lofti en samviskusama móðirin verður endilega að fara að draga þau út og viðra eins og þvottinn. Á morgun hefst 10 daga ævintýri í Stykkishólmi. Líklega blautt og vindasamt, en svona er nú bara Ísland í dag. Vonandi get ég hlaupið lengra í næstu tilraun. INSJALLAH!

Sóla sigurglaða :) 

 PS Myndir frá Flatey eru tímabundið "public" á facebook hjá mér og Hirti, ef einhver vill kíkja.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband