Jibbýjúlí 2014

Hallærislegur bloggtitill þetta en ég vil vitna í gamlan vin minn, Huey Lewis með þessum orðum: "It's hip to be square!"

Það er langt um liðið síðan síðast þegar ég var í Flatey í lok júní og byrjun júlí í roki og rigningu. Síðan tóku við tíu góðir dagar í Stykkishólmi, í misjöfnu veðri þó. Ég man ekki lengur hvað við gerðum frá degi til dags en mig minnir þó að félagslífið hafi verið óvenju gott. Ég hitti náttúrulega Dísu skvísu og Maju pæju - það er bara fastur liður. Svo hékk ég töluvert með yngri deildinni, t.d. Kribbu cray cray sem vann dag og nótt við að koma nýja húsinu í gott stand, Sólveigu sykurpúða sem eyddi einni helgi með fjölskyldunni í Stykkiz, Bjöggó Österreich sem skottaðist út um allan bæ á sínum fráu fótum og Höllu Dís sem skokkaði með frænku sinni upp að ruslahaugum og til baka oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, já og jafnvel oftar en þrisvar. En þegar fjórði rigningardagurinn var runninn upp og ég búin að prófa öll kaffihús og söfn í bænum var kominn tími til þess að hvíla Hólminn og skella sér í bæinn. Höfuðborgarsvæðið er aðeins stærra en Stykkishólmur og örlítið meiri afþreying í boði þegar veður er vott. Hér er ég enn en á laugardaginn kíkjum við í 2-3 daga í Hólminn og hittum vonandi alla þá sem ég taldi upp hér á undan og fleiri í viðbót. Það er gott að vera í Hólminum "where everybody knows your name" og anda að sér æskuminningunum. Vel á minnst, ég komst að því að besta kaffið fæst í Sjávarpakkhúsinu og ekki orð um það meir. Og já...ég fékk líka að kynnast krílinu hennar Kristbjargar örlítið betur og hún er sko ekki barnabarn ömmu sinnar Hrefnu Markan fyrir ekki neitt. Þrælklár, orkumikil, sjálfstæð og sniðug. Hér eru hetjurnar þrjár á ferð um bæinn með Jólrúnu á góðviðrisdegi í júlí í Hólminum fagra:

10401507_10152739576420579_1409434395419011581_n_zps5bb88869

 Kristrún Eir, Sigrún Björk og Íris Ísafold. Flott teymi!

Við erum sum sé búin að vera tvær og hálfa viku í bænum og það er rosalega langur tími fyrir fjölskyldu sem er vön að vera á ferð og flugi á sumrin. En þetta er búinn að vera ótrúlega góður tími og mér hefur bara ekki leiðst neitt - þvert á móti höfum við alltaf fundið upp á einhverju skemmtilegu að gera á hverjum degi. Fyrir tilviljun var mér bent á gott sundnámskeið í Breiðholtslaug þannig að ég skráði báðar litlurnar á það. Flesta morgna höfum við því mætt í laugina á morgnana, sem er frábær byrjun á deginum. Þetta er tveggja vikna námskeið og það var fyrst núna á þriðjudeginum síðasta sem að sólin skein aðeins á okkur í lauginni. Núna erum við stelpurnar allar komnar með gott sundbolafar og gömul sólbrúnka frá því snemma í júní farin að líta aftur dagsins ljós.  

Eflaust er veðrið ekki eina ástæðan fyrir því að við höfum ekki verið á flandri um landið nýlega. Björg er heima að vinna og vill ekki sleppa einum einasta degi í vinnunni þó að henni bjóðist það. Það stefnir allt í að hún verði vinnualki eins og pabbi hennar...og mamma. Hún er að vinna á kaffihúsinu Víkinni niðri á Granda og líkar lífið þar vel undir stjórn pabba síns. Hún er orðin vaktstjóri og kaffimeistari staðarins þannig að framtíðin í veitingabransanum er björt. En það er nú kannski ekki víst að hún ætli að gera þjónsstarfið að ævistarfi. Hér er duglega stelpan mín að skenkja litlu systrunum nýkreistan appelsínusafa úti á palli í blíðunni:

10398675_10152739576395579_3169421501313761774_n_zpsbb561b21

 Sigrún, Björg og Kristrún. Mæli með ferð í Sjóminjasafnið og svo kaffi og kökur í Víkinni á eftir. Eða fiskisúpunni - það er sko öflug súpa!! Blogg skal ekki vanmeta sem leið til þess að auglýsa :)

Eitt af því skemmtilegasta sem við erum búin að gera í júlí var að fara til Vestmannaeyja. Pabbi sagði mér í Flatey að hann hefði aldrei komið til Vestmannaeyja. Mér þótti það heldur "lellett" ("lélegt" á pabbamáli) og ákvað að úr þessu yrði bætt hið snarasta. Svo kom í ljós að Óli Geir djúníor (Bjössabróson) hafði heldur ekki komið til Eyja sem var auðvitað tvöföld gleði og ánægja. Við fórum því í dagsferð til þessa dásamlega fallega og skemmtilega staðar. Það sem gladdi mig mest voru breytingarnar á sundlauginni og ég held bara svei mér þá að þetta sé uppáhaldssundlaugin mín á öllu landinu. Þá er sko mikið sagt því að þær eru margar góðar. Söfnin Eldheimar og Sæheimar voru líka sérlega fjölskylduvæn söfn, ásamt spranginu og bara umhverfinu öllu. Því oftar sem ég kem til Eyja, því hrifnari verð ég af bænum, sögunni og landslaginu. Allir voru í góðum fíling og Sigrún og Óli Geir hlógu nánast alla ferðina. Hér er Óli að klappa lunda í Sæheimum:

1610767_10152739576385579_3314668490833423861_n_zps5ba20326

 Óli, léttur í lund(a)

Hér komu svo Norsararnir Svala, Gunni og Madelen og nutu þess að vera ekki að kafna úr hita alla daga. Maður skyldi ekki vanmeta íslenskt loftslag og ofmeta hitann og rakann í útlöndum. Það var gott að hitta þau aftur og Lúlla sys er heppin að hafa þau á kantinum í Noregi. Henni gengur vel í prestsstarfinu og var alveg svakalega fljót að ná tökum á norskunni og umhverfinu öllu. Þetta er sko ekki öllum gefið og það er ekki að spyrja að dirfskunni og dugnaðinum í henni systur minni. Við erum að spá í Skandinavíuför á næsta ári og þá væri gaman að eyða smá tíma í Svíþjóð og smá tíma í Noregi. Við sjáum hvað setur.  

Samkvæmt plani ættum við að vera í Stykkishólmi núna en smá töf varð á löndun þegar það "uppgötvaðist" að tengdamamma mín yrði sjötug á morgun (1. ágúst). Það verður því svaka partý á morgun með nánustu fjölskyldu - kokkur og læti. Planið er svo að henda í töskur á laugardagsmorgni og bruna á vit ævintýranna í Stykkishólmi. Elskulega mágkona mín og Kribba cray cray ætla að kíkja með mér á Sjávarpakkhúsið um kvöldið og fá sér einn...kaffi. Með froðu.

Heyrðu já já, eitt að lokum. Ég er kona með markmið. Ég er svolítið eins og systir mín. Ef ég ætla mér að verða Íslandsmeistari í einhverju þá verð ég það. Hún varð Íslandsmeistari í júdó, vaxtarrækt og fitness. Ég varð Íslandsmeistari í tónlist. 80's tónlist. Í júlí. Klapp klapp.

eighties_zps1e78d52b

 

Eigið góða Verslunarmannahelgi!

Sóla Íslandsmeistari :) 

PS Næst verður bloggað um ferð með fjórum enskukennurum til Norwich. Stay tuned! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband